Þegar ég nefni sérsniðna tauma, þá er ég ekki að vísa til tauma sem veiðimaðurinn setur saman, styttir eða lengir eftir aðstæðum. Ég er að vísa til tauma sem eru sérsniðnir að ákveðinni línu, beinlínis niður í þyngd hennar og eiginleika. Áður en lengra er haldið, þá vil ég taka það fram að þetta er ekki aðkeypt umfjöllun þótt ég nefni framleiðanda línu og taums, ég er fyrst og fremst að dást að því að veiðimönnum gefst kostur á að finna lausn á línu + taum + taumaenda sem er sett saman af einum aðila og passar fullkomlega saman, þ.e. alls þess sem er frá 2 og upp í 5 á myndinni.
Þannig er að veiðifélagi minn féll alveg í trans eftir að hafa prófað ákveðna línu á stöngina sína s.l. vor. Línan heitir Shooter WF og er frá Salmologic, þá er það sagt. Svo uppveðruð var hún af þessari línu að það var ekki um annað að ræða heldur en fara og versla svona línu, annars hefði heimilishald og sambúð verið stefnt í voða.
Þannig fór því að fest voru kaup á línu og passandi kónískum taum. Byrjum aðeins á þeim upplýsingum sem var ekki að finna á kassanum utan af línunni. Þar kom hvergi fram að hún væri ætluð stöng með ákveðnu AFTM númeri. Þess í stað var hún einfaldlega auðkennd með WF og þyngd í grömmum og grains. Þegar ég bar þetta saman við upplýsingar hér á síðunni, þá var viðkomandi lína nálægt því að vera fyrir stöng heilu númeri léttari en stöngin var skráð. Ég játa að ég varð svolítið efins um að þessi lína passaði, væri jafnvel aðeins of létt á þessa stöng.
Taumurinn sem læddist með í þessum kaupum var ekki ódýr en nokkuð augljóst að töluverð vinna hafði verið lögð í hönnun hans og hráefni. Kónískur taumur með mjúkri áferð, lykkjur á báðum endum og það sem vakti athygli mína var að hann var sérstaklega merktur með nákvæmlega sömu upplýsingum og voru á línunni (grömm og grain). Eins og góðum taum sæmdi, þá var sverari partur hans nánast upp á 1/1000 úr mm. 2/3 af þvermáli línunnar. Framan á þennan taum hnýtti frúin síðan stuttan taumaenda með fastri lykkju sem hún útbjó með Perfection Loop.
Þetta finnst mér til fyrirmyndar, framsetning og kerfi af taumum með passa línunni. Og hvernig virkaði þetta svo, jú alveg eins og smurt saman; stöng, lína og taumur. Léttleiki línunnar sem ég hafði haft áhyggjur af reyndist tilhæfulaus, eiginleikar þessarar skothausalínu vógu upp það sem ég taldi vera undirspekkun á línu.
Senda ábendingu