Flýtileiðir

Hólmavatn 17. júlí 2021

Ef maður væri með það að markmiði að veiða öll Hólmavötn á landinu þá væri úr nógu að moða því samkvæmt örnefnaskrá eru þau 42 á landinu og eflaust vantar einhver í þá skrá. En við hvert þeirra drápum við veiðifélagarnir niður fæti á laugardaginn? Eflaust kveikja einhverjir ef ég segi að við byrjuðum á því að keyra upp frá bænum yfir Skriðu, Vörðumel, rétt við Árhnúk, yfir Lónholt og upp á Hallkelsstaðaheiði, alveg niður að Hólmakeldu. Vegurinn eða slóðinn sem við keyrðum heitir því hljómfagra nafni Álftasundsvegur og virtist vera þokkalega viðhaldið, vel fær jepplingum og hærri fólksbílum.

Hólmavatn

Ofan af Lónholti blasið Hólmavatn við og teygir sig úr suð-suðvestri til norð-norðausturs. Umhverfið er gróið og tjarnir og pollar eru þarna nær óteljandi. Þetta er sem sagt á sunnanverðri Tvídægru ofan Hvítársíðu. Bærinn sem getið var er Þorvaldsstaðir í Hálsasveit inn af Hvítársíðu. Þar má kaupa veiðileyfi í Hólmavatn á 6.500 kr dagurinn. Seldar eru 8 stangir í vatnið sem teljast verður hógvær fjöldi stanga í þetta fallega vatn sem er nær 2,5 km2 að flatarmáli.

Hólmavatnshólmi

Þegar ég sló á þráðinn til Halldórs á Þorvaldsstöðum fyrir helgina, þá var aðeins ein stöng af þessum átta laus og við slógum til enda er ekki vandamál hjá okkur veiðifélögunum að deila stöng og upp að Hólmavatni vorum við mætt úr kl.10 á laugardagsmorgun. Dásamlegt veður, stöku ský á lofti og örlítill norðan andvari þegar við settum saman á bakkanum gengt Hólmavatnshólma. Þessi létti andvari átti síðar eftir að snúa sér til vestlægrar áttar og meira í suðrið og með hverri gráðu sem hann færðist nær suðri, þá óx honum heldur betur ásmegin.

Hólmavatn – smellið á mynd fyrir fulla upplausn

Við höfðum fengið upplýsingar frá staðkunnugum að ef hann stæði úr norðri, þá væri helst von sunnan í vatninu og við vorum svo sem nokkuð vongóð að einhver þeirra fiska sem var að vaka úti á vatninu mundir færa sig nær bakkanum ef hann hallaði sér í vestrið. Það gerðist reyndar ekki, það líf sem við urðum helst vör við í kastfæri var fiðrað og var úr sama frændgarði; lómur og himbrimi sem gerðu sér smáfiska að góðu.

Þegar leið að hádegi færðum við okkur inn með vatninu til norðurs, framhjá hópi veiðimanna sem höfðu komið sér fyrir við Hvannalækjarhól og hittum á þrjá vaska veiðimenn sem voru á leið til baka af Riðavíkurhól. Lítið höfðu þeir orðið varir við fisk, eiginlega steindautt eins og einn þeirra sagði, en bætti síðan við að þó þeir hefðu ekki orðið varir við fisk, þá gæti hann verið kominn þar núna. Þetta var nóg til þess að við héldum áfram slóðann norður með vatninu í stefnuna á Riðavík. Frá Hvannalækjarhól og að Riðavík er umræddur slóði það sem væri trúlega merkt mjög mikil torleið ef það merki væri til hjá Vegagerðinni.

Riðavíkurhóll

Við Riðavíkurhól er til muna meira dýpi heldur en þar sem við byrjuðum gengt Hólmavatnshólma og við veiðifélagarnir vorum sammála um að þetta væri fiskilegur staður. Sögur fóru af því að í Riðavík væri frekar von á bleikju en utan við hólinn væri urriða von. Hvorug tegundin lét þó til leiðast og það endaði með því að við fikruðum okkur alveg inn að Skammá sem rennur úr vatninu til Lambár.

Þá var andvarinn orðinn að nokkrum metrum á sekúndu og stóð nær beint úr suðri. Rétt um það bil þegar aðrir veiðimenn við vatnið hurfu á braut, þá setti ég í vænan 44 sm urriða sem greinilega var að úða í sig horsíli í öldurótinu, rétt utan við bakkann.

Hólmavatnsurriði

Kannski er maður orðinn heldur vanur öðrum stofni urriða, t.d. úr Veiðivötnum eða af Þingvallastofni, en þessi fiskur var með öðru svipmóti og ég stóðst ekki mátið að taka mynd af honum og snyrta aðeins fyrir þessa grein. Ekki veit ég um uppruna þessa stofns, en skemmtilegur var fiskurinn og vel haldinn, rennilegur um trýnið og með ágætan vísi að krók.

Við Hvannalækjarhól

Þegar aldan var orðinn heldur mikil og vindurinn farinn að nálgast 9 m/sek færðum við okkur aftur til suðurs, prófuðum stutta stund við Hvannalækjarhól en hurfum síðan fljótlega á braut, skiluðum okkar veiðiskýrslu í póstkassann við Þorvaldsstaði og kíktum vitaskuld á aðrar veiðiskýrslur dagsins. Þennan laugardag voru skráðir 5 fiskar upp úr Hólmavatni á þær 8 stangir sem seldar eru og við vorum bara nokkuð sátt við að eiga einn þeirra á eina stöng.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com