Langavatn 27. júní 2021

Það var smá glufa í dagskrá helgarinnar sem við veiðifélagarnir nýttum til að merkja við Langavatn á Mýrum. Þegar við skruppum upp á Langavatni á laugardag, skartaði vatnið sýni fegursta í gjólunni og það kveikti heldur betur í okkur. Illu heilli var ekki alveg nákvæmlega það sama upp á teningnum á sunnudaginn þegar við mættum á staðinn með allar græjur og heitt á brúsa.

Þokan átti eiginlega allt sviðið þegar við mættum upp úr hádeginu og þannig hélst það þá klukkutíma sem við stöldruðum við. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, er töluvert hátt í Landavatni um þessar mundir, raunar með því hærra sem við höfum séð síðustu árin, en trúlega á það eftir að breytast þegar laxarnir í Langá og Gljúfurá verða þyrstir þegar líður á sumarið.

Við beinlínis sundriðum vélfáki okkar yfir Barónsvík og ókum eins langt undir Múlabrekkur og vatnsborðið leyfði, sem var ekki langt. Það gáraði nokkuð á köldu vatninu og enn og aftur féll maður í þá freistni að halda að urriðinn kæmi upp að bakkanum. Það varð nú ekki svo, því eini fiskurinn sem kom á land þar var bleikja sem lét glepjast af flugu sem betur er þekkt sem ein af Veiðivatnaflugunum. Og slíkt var offors þessarar bleikju að hún varð ekki losuð af önglinum öðruvísi en hennar beið bráður bani, að öðrum kosti hefði henni trúlega verið sleppt.

Við ströggluðumst þarna þó nokkuð lengi, en urðum ekki vör enda var vatnið frekar kalt ennþá og almennt var ekki mikið líf að sjá, skordýr og gróður enn einhverjum vikum á eftir áætlun. Ekki bætti þokan úr skák og á einhverjum tímapunkti, trúlega þegar veiðifélaga mínum varð litið á bleikjuna sem lét lífið með vofeiginlegum hætti, varð til málshátturinn Sjaldan vakir dauður fiskur.

Þegar okkur þótti fullreynt, færðum við okkur í átt að Beilárvöllum þar sem ég setti í eina bleikju á sígildan Peacock sem var sleppt, þ.e. bleikjunni og þar með er öll sagan sögð af veiðiferð okkar í Langavatn að þessu sinni. Eitt að lokum, vegurinn upp að Langavatni frá Svignaskarði er sérstaklega góður, fær öllum bílum inn að Torfhvalastöðum, bara þannig að það sé sagt.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com