Eftir viðburðarríka 4 daga að Fjallabaki, brugðum við veiðifélagarnir og vinafólk okkar í örstutta könnunarferð austur fyrir Kýlinga og kíktum síðan við í Blautaveri norðan Ljótapolls á leiðinni til baka að Landmannahelli á sunnudaginn.
Eitthvað dvaldist mér í bölvuðum farsímanum á brúnni vestan við Blautaver þannig að ég mætt seinna en félagar mínir í vatnið. Þeir höfðu þá þegar tekið á nokkrum fiskum, landað að mig minnir 5 fiskum á örskotsstund. Nú kann einhver að segja að það sé nú ekki mikið afrek, það sé allt of mikið af tittum í þessu vatni og lítið mál að setja í fisk, en það á ekki alveg við um þessar mundir.

Ekki treysti ég mér til að segja til um magnið af fiski í vatninu um þessar mundir, það er nær ómögulegt því það hefur samgang við Tungnaá og fiskurinn þarna rápar inn og út eftir ástandi ætis. Ætið virðist vera töluvert og gott í Blautaveri um þessar mundir og fiskurinn eftir því stór og vel haldinn. Menn borga víða meira fyrir minni fisk (bæði í vigt og magni) hér á landi um þessar mundir og eftir því sem ég kemst næst, þá hefur veiðin í Blautaveri verið með ágætum í sumar.
Veiðifélagi minn tók með sér 6 fiska, ég tvo og félagar okkar 6 að mig minnir á þeim stutta tíma sem við stöldruðum við. Allt fallegir fiskar á bilinu 35 – 50 sm vel haldnir og sumir hverjir þegar skreyttir hvítum bryddingum, allir fullir hrognum og svili. Flugurnar sem virtust gefa best voru dökkar, helst svartur stuttur Nobbler en glannalegri flugur gáfu líka, s.s. Gullbrá og bleikur Nobbler.
Senda ábendingu