Hlíðarvatn í Selvogi 12. júní 2019

Harmkvælasaga mín af samskiptum við veiðigyðjuna hélt áfram í vikunni. Nú var komið að gyðju Hlíðarvatns í Selvogi að kenna mér lexíu í auðmýkt og hógværð. Forsaga þess tímabils sem stendur yfir um þessar mundir má rekja til einfalds hrekks sem ég lét út úr með við Hlíðarvatn í Hnappadal fyrir nokkrum vikum, sjá þessa færslu. Veiðigyðjan túlkaði gáleysislega upptalningu mína á fjölda fiska sem rembing og mont og nú er ég látinn gjalda þess í algjöru fiskleysi.

Við Kaldós

Eftir að hafa eitt s.l. Hvítasunnudegi við móttöku gesta við Hlíðarvatn í Selvogi var komið að því að veiða svolítið í vatninu, nokkuð sem mér gafst ekki tími til á sunnudaginn. Vel að merkja, veiðifélagi minn eyddi lunganu úr sunnudeginum við veiðar í Hlíðarvatni þannig að fjöldi veiðiferða hefur þar með verið jafnaður og aflatölur því fullkomlega samanburðarhæfar. Af fullkominni tillitssemi ætla ég ekki að minnast einu orði á afleysi hennar á sunnudaginn.

Fiskafóður undir Hlíð

En að veiðiferð okkar hjóna á þriðjudagskvöldið og fram á miðvikudag. Síðla þriðjudags héldum við af stað í Selvoginn, bíll pakkaður af græjum og gómsætu nesti sem hæfði tilefni. Selvogurinn tók á móti okkur með ágætis veðri, örlítlu kuli og hitastigi með ágætum. Eftir að hafa komið dóti fyrir í Hlíðarseli, veiðihúsi Ármanna, tókum við stefnuna á suðurströnd vatnsins með fyrsta stoppi á Brúarbreiðunni. Lítið var að frétta þar fyrir utan eina töku hjá veiðifélaganum þannig að við færðum okkur í Guðrúnarvíkina og á Flathólma. Enn færri fréttir þaðan þannig að við renndum í gegnum flugnagerið undir Hlíð en snérum við og fórum í Botnavík og Skollapolla þar sem veiðifélaginn opnaði reikning sumarsins í Hlíðarvatni með mjög fallegri bleikju sem tók Hatara útgáfu af mýpúpu. Þegar sólin gekk til viðar og máninn að spegla sig í Botnavíkinni, héldum við í hús, fengum okkur bita og fórum í koju.

Máninn á lofti og í Botnavík

Miðvikudagurinn rann upp, heiðskír og fagur með örlítið meira kuli úr því sem veiðifélaginn kallaði allar mögulegar vestlægar áttir sem raunar spönnuðu 360° og stundum úr öllum þessum áttum í einu. Þriðja stöngin sem mætti á slaginu kl. 8 fékk laufléttar leiðbeiningar um að fiskur hefði látið sjá sig í og við Urðarvíkina kvöldið áður og þangað fór hún í öruggum höndum. Við félagarnir fórum aftur á móti út á Mosatanga þar sem vestanáttin var einmitt af vestri um þær mundir og því ágætt að byrja þar.

Við Mosatanga

Sjaldan hefur Mosatanginn brugðist, en svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og við færðum okkur yfir í Stakkavík sem skartaði sínu fegursta í glampandi sólinni. Ég óð víkina endilega frá vestri til austurs, alveg út að dýpinu utan við Gömluvör þar sem ég fékk jákvæðasta viðbragð ferðarinnar, örlítið nart. Þar sem lítið líf var að sjá í víkinni tókum við hádegishlé og skeggræddum næstu skref. Ákveðið var að leggja land undir fót, fara um Botnavík og Skollapolla út á Austurnes þar sem vestanáttin lék sér að því að vera úr áðurnefndum öllum áttum og af miklum eða ofsafengnum vindstyrk. Það er skemmst frá því að segja að auðvitað setti veiðifélagi minn í eina væna bleikju austur af nesinu á meðan ég sættist við örlög mín og þá lexíu sem veiðigyðjan var að kenna mér. Sannast sagna vissi ég upp á hár að ég mundi ekki fá fisk í þessari ferð. Í mér var sú tilfinning að svona mundi fara og ég var tilbúinn að sættast við það löngu áður en kom að hættumálum.

Á Austurnesi

Þær þrjár stangir sem voru á leyfum Ármanna þennan sólarhring náðu 10 fiskum sem verður að teljast harla gott, sérstaklega þegar þriðjungur stanganna náði ekki einni einustu bröndu. Smá skilaboð til veiðigyðjunnar; ég hef lært mína lexíu og skal passa mig betur í orði og athöfnum í næstu ferð.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
2 / 0 4 / 12 0 / 0 3 / 7 11 / 11

Þverá 8. júní 2019

Á leið okkar til baka af Sandártungu í Þjórsárdal er lítil, mjög lítil og nett á sem rennur til Þjórsár, Þverá við bæinn Fossnes. Ég veit ekki betur en þessi á eigi sér takmarkaða lífdaga, hún mun hverfa svo til öll undir uppistöðulón fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Þessi litla og netta á geymir e.t.v. ekki marga fiska, en það eru alltaf einhverjir fiskar sem leið eiga um Þjórsá sem gera sig heimakomna í ós Þverár.

Þar sem það hentaði okkur ágætlega að koma við í Þverá á leið okkar úr Fossá og í Hlíðarvatn í Selvogi á laugardaginn, ákváðum við að láta slag standa og kaupa tvær stangir í hálfan dag. Líkt og á föstudaginn lék veðrið við okkur, heiðskírt og alveg ágætis hiti. Að vísu var einhver sperringur í Kára, en það skipti ekki mál, löng yrðu ekki köstin í stuttum ósi Þverár.

Ós Þverár til Þjórsár – Skarðsfjall í bakgrunni

M.v. myndir frá fyrri ferð okkar í Þverá, þá er minna vatn í Þjórsá og þar með ós Þverár heldur en þá, svo mikið minna að auðvelt var að vaða yfir ósinn bakkanna á milli. Eitthvað var nú heldur rólegt yfir fiski í ósnum, svo rólegt að við tókum ekkert eftir honum og mér liggur við að segja að það hafi ekki verið fiskur þar. Veiðifélagi minn var ekki á sama máli, því undir skoluðu röndinni yst í ósnum var tekið hressilega í hvíta Nobblerinn hennar. Því miður var staldrað stutt við, en nóg samt til að stöng svignaði og taka þurfti á. Fiskurinn sýndi sig aldrei og því getum við ekki sagt með vissu hvort þetta hafi verið urriði eða lax. Þetta eitt sannaði að ég hafði rangt fyrir mér, það er fiskur í og við ós Þverár þótt ég hafi ekki orðið var við hann.

Þjórsá og Hekla í bakgrunni – útsýni sem gæti horfið

Við stoppuðum heldur stutt við Þverá að þessu sinni, önnur erindi og útréttingar biðu okkar á Selfossi og í Selvoginum sem ég ætla að segja nánar frá síðar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 2 / 12 0 / 0 3 / 7 9 / 10

Fossá 7. júní 2019

Þegar það kemur að mögnuðum veiðistöðum, þá held ég að Fossá uppi við Háafoss sé sá magnaðasti veiðistaður sem ég hef augum litið. Það hefur staðið til frá því í fyrra að fara upp að Háafossi, trítla (kaldhæðni) niður í gljúfrið og bleyta flugur undir fossinum. Á föstudaginn var komið að stóru stundinni, tilhlökkun var umtalsverð á heimilinu og við héldum af stað upp í Þjórsárdal strax eftir vinnu á fimmtudag.

Á tjaldstæðinu á Sandártungu í Þjórsárdal voru stöku hálf-freðnir túristar eftir undanfarnar kaldar nætur og svo við með okkar færanlega veiðihús. Við komum okkur fyrir, opnuðum bauk og belju og ég smellti í nokkrar flugur í síðustu geislum kvöldsólarinnar. Ekkert rugl og farið snemma í bólið, morguninn skildi tekinn með stæl, vel étið og lagt af stað upp að Háafossi.

Það eina sem hægt var að setja út á morguninn var að það var töluverður gustur af norðri með einhverju sem bar vott af skítakulda. Þá var bara að bæta á sig einhverjum fötum, sem við og gerðum eftir staðgóðan morgunmat. Eftir stutt ferðalag upp að Háafossi tók labbið við. Það skildi enginn vanmeta labb í vöðluskóm og fullum herklæðum niður í Fossárgljúfur. Leiðin er e.t.v. ekki löng en hæðarmunurinn er 128 metrar og þetta er langt því frá bein leið. Við hjónin erum e.t.v. ekki sérlega vön fjallgöngum, en á köflum var betra að hafa varan á því víða var laust undir fæti og sólar á vöðluskóm ekki endilega sérlega stamir.

Niður komumst við þó heilu á höldnu og það verður bara að segjast eins og er, umhverfið í gljúfrinu er hreint og beint stórkostlegt. Eftir að hafa setið um stund og dáðst að umhverfinu voru stangirnar settar saman og flugur og maður sjálfur baðaður. Já, það er eins gott að vera í vel vatnsheldum klæðnaði ef maður ætlar að veiða fosshylinn sjálfan. Pusið frá Háafossi er ekki neitt smáræði og það ferðast víða um gilið þegar því er að skipta.

Ég viðurkenni það fúslega að ég var með hálfum huga við veiðarnar, var eiginlega sama hvernig og hvert flugan flæmdist, ég einfaldlega naut þess 100% að vera á staðnum og njóta alls þess sem fyrir augun bar. Væntanlega er ekki mikið vatn í Fossá um þessar mundir, því farvegurinn var langt því frá jafn víðfeðmur og ýmsar myndir af ánni hafa borið með sér sem ég hef séð. Ég byrjaði vel fyrir neðan fosshylinn sjálfan og fikraði mig smátt og smátt að fossinum. Í stuttu máli; ég varð ekki var við fisk í þessari heimsókn minni upp að Háafossi. Allt aðra sögu er að segja af veiðifélaga mínum, hún fékk stóra bónusvinninginn og landaði tveimur afar fallegum urriðum úr fosshylnum.

Lesendum kann að þykja það stutt og snaggaralegt að ljúka þessari frásögn hérna, en því miður skortir mig orð og lýsingar til að ná þeirri upplifun minni af þessari heimsókn sem henni ber. Maður finnur einfaldlega fyrir ótrúlegri smæð og fyllist þvílíkri auðmýkt fyrir listasmíð náttúrunnar að orð fá því ekki lýst.

Eftir að við höfðum prílað aftur upp á fossbrúnina, settumst við niður til að ná andanum og þurfum töluverðan tíma til að raða saman öllum myndunum og upplifuninni sem þessi ferð okkar skildi eftir sig. Síðar héldum við niður í Þjórsárdal sjálfan, fórum á nokkra valda veiðistaði inn af Stöng en fleiri urðu ekki fiskarnir í þessari ferð, þó ég hafi orðið var við nokkra í Fossá. Ég held svei mér þá að hugurinn hafi verið enn allt of mikið á ferðinni eftir Háafoss til að geta fest sig endilega við veiði þó veður og á léki beinlínis við okkur.

Fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað sérstakt, eignast ómetanlegar minningar, þá mæli ég með því að príla niður í Fossárgljúfur og baða flugur undir Háafossi.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 2 / 12 2 / 0 3 / 7 8 / 9

Hlíðarvatn 26. maí

Á heimleið úr Hraunsfirði eru nokkur álitleg vötn, í það minnsta fyrir þá sem eiga heima sunnan Borgarfjarðar. Eitt þessara vatna kom inn á Veiðikortið nú nýlega en vatnið höfum við veiðifélagarnir stundar í mörg ár, Hlíðarvatn í Hnappadal og það heimsóttum við í gær, sunnudag eftir að hafa verið tvær nætur við Hraunsfjörðinn.

Þeim sem þekkja Hlíðarvatnið ætti ekki að koma á óvart þegar ég segi að vindáttin var af norð-austri þegar við renndum í hlað fyrir landi Hraunholta upp úr hádegi í gær. Þessi yndislega vindátt hefur tekið svo ótal oft á móti okkur í Hnappadalnum að vart verður talið. En, það skemmir ekki fyrir okkur því við þykjumst þekkja fiskinn í vatninu nokkuð ágætlega, þ.e. stofninn, því flestir þeirra einstaklinga sem við höfum farið höndum um hafa fylgt okkur heim í lok dags.

Rifið

Oft hefur nú vatnið verið meira á þessum árstíma heldur en það er um þessar mundir. Rifið stendur vel uppúr og það má ekki miklu muna að vaðfært sé að verða út í skerin undir Fellsbrekku. Eiðið út frá Rifi til norðurs var ekki alveg komið upp, en mig grunaði að það væri nóg fyrirstaða þannig að fiskurinn héldi sig þar í víkinni þannig að mér tókst að telja veiðifélaga minn á að tölta þangað í stað þess að rölta inn með vatninu í átt að Neðri-skúta.

Flugan sem fór undir var Orange Nobbler. Silungastofnarnir í vatninu hafa verið aldir upp við það í gegnum árin að vilja Orange Nobbler, hvort sem um er að ræða bleikju eða urriða. Af tómri frekju kom ég mér fyrir beint á móti vindi, slæmdi línunni út og leyfði flugunni að sökkva í ölduna. Tvö snaggaraleg tog og fyrsti fiskur var á, þokkaleg bleikja sem tók grimmt. Í kvikindisskap mínum kallaði ég nógu hátt „FYRSTI“ þannig að það barst veiðifélaga mínum örugglega þrátt fyrir rokið. Næsta kast, sama fluga, annar fiskur og auðvitað kalli ég „ANNAR“. Þriðja kast og ekkert gerðist. Fjórða kast og ég kallaði „ÞRIÐJI“ og skömmu síðar kallaði ég „FJÓRÐI“ en þá hætti ég líka því ég fann fyrir einkennilegum sviða á milli augnanna þar sem nístandi augnaráð veiðifélaga míns hitt mig fyrir. Áður en ég náði að hvísla „FIMMTI“ þá réttust aflatölurnar þegar frúin tók sinn fyrsta urriða í sumar og skömmu síðar bætti hún bleikju við.

Fiskarnir sem komu á land voru vel haldnir og virtust hafa haft nóg æti. Raunar voru þeir allir troðnir af bobba, ekki eitt einasta hornsíli í maga þeirra og flugu var nú ekki heldur fyrir að fara. Það er reyndar reynsla mín að það sé einhver bið eftir hornsílinu, en þegar það fer af stað þá er veisla úti á skerjunum.

Þetta var flott stutt stopp sem við gerðum í vatninu og eftir að við höfðum fengið okkur bita og skjalfest veiðinestið okkar og útsýnið, héldum við áfram för okkar heim eftir þessa fyrstu veiði-ferða-útilegu helgi sumarsins.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
1 / 1 2 / 12 1 / 5 1 / 7 7 / 8

Og veiðifélaginn þurfti að eiga síðasta orðið (eins og vanalega): Djös…..það er bara mjööööööög ljótt að segja svona…eða telja svona upphátt, eiginlega svo hátt að það þurfti að kalla 🙂Bíddu bara. (annars er þetta ekki mitt ár, er það nokkuð?)

Hraunsfjörður 24. & 25. maí

Við vorum að rifja það upp um helgina að fyrsta ferð okkar að vori með færanlega veiðihúsið okkar var þann 14. maí 2016 og þá var kalt yfir nóttina og hitinn yfir daginn rétt náði 12°C. Þrátt fyrir mjög lágar hitatölur í veðurspá helgarinnar, þ.e. yfir blá nóttina, þá létum við það ekki stoppa okkur á föstudaginn og renndum með allt okkar hafurtask vestur á Snæfellsnes. Bara til að hafa það á hreinu, þá náði hitastigið að degi til töluvert yfir 12°C, hrein og klár sumarblíða í firðinum.

Það var með eindæmum fallegt veður við Hraunsfjörðinn um kvöldmatarleitið á föstudag og við biðum ekki boðanna, heldur græjuðum okkur upp og töltum meðfram Þórsá út á Búðanes. Við gerðum nú e.t.v. ekki ráð fyrir að halda það út að bíða eftir síðdegisflóðinu um kl.23:00 + þann tíma sem það tæki að ná til Búðaness, en það fór nú svo að veðurblíðan, kyrrðin og vökur bleikjunnar héldu okkur við vatnið til að ganga tvö um nóttina. Afraksturinn var nú kannski ekki alveg í takt við þann tíma sem við eyddum við vatnið, tvær bleikjur sem ég vil reyndar meina að hafi slysast á sitt hvora fluguna því þær voru margar reyndar þetta kvöld í harðri samkeppni við órætt æti sem var í vatninu.

Við vorum mætt laust upp úr hádegi á laugardag í blíðskaparveðri niður að vatni og hugsuðum okkur heldur betur gott til glóðarinnar. Nú skyldum við ná árdegisflóðinu og máta nýjar og allt aðrar flugur. Við biðum og biðum, biðum aðeins lengur og örlítið meir eftir því að bleikjan léti sjá sig í björtu og fallegu veðrinu, en sýning var ekki í boði. Alla þessa bið notuðum við til að prófa hinar og þessar flugur, mismunandi inndrátt og dýpi, en við litlar undirtektir. Einhverjir tittir voru það eina sem við sáum og svo flundru veiðifélaga míns og eina bleikju sem fékk líf.

Einhverjum kann að þykja það slitin klisja að segja að veðrið, umhverfið og fegurðin hafi vegið upp fábrotin aflabrögð, en þannig var það nú samt hjá okkur á laugardaginn. Þrátt fyrir töluverða umferð við vatnið, þá náðum við ekki fréttum af aflabrögðum og flestir stoppuðu stutt við sýndist mér. Einn veiðimaður vakti þó aðdáun mína þar sem hann eyddi töluverðum tíma í að leiðsegja tveimur ungum veiðimönnum um lendur stangveiðinnar. Gaman að sjá upprennandi veiðimenn spreyta sig við bleikjuna. Næsta skref er síðan að kenna þessum ungu veiðimönnum að taka með sér ruslið.

Við létum föstudaginn og laugardaginn duga, tókum sunnudagsmorguninn í rólegheitum með vel útilögðum hádegisverði og héldum síðan heim á leið, reyndar með örstuttu stoppi á leiðinni. Meira síðar ……

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
1 / 2 1 / 11 / 0 0 / 2 6 / 7

Elliðavatn og Hólmsá 22. maí

Það er eiginlega þrennt sem getur dregið mann að vatni með stöng í hönd. Veðrið, forvitni og sögur af veiði. Þegar allt þetta smellur saman, þá getur maður ekki annað en lagt af stað. Veðrið s.l. miðvikudagskvöld var algjör toppur, mig hefur lengi langað að rölta út á Engjarnar gengt Elliðavatnsbænum og svo voru samfélagsmiðlar að veifa framan í mann myndum af fallegum fiskum úr Elliðavatni.

Við gleyptum í okkur kvöldmat, klæddum okkur í galla og renndum upp að Elliðavatni rétt um kl.19. Vatnið skartaði sínu fegursta og það voru nokkrir veiðimenn á staðnum og í það minnsta einn fiskur sem lét sjá sig. Við hertum upp hugann og röltum út á engjarnar. Reyndar varla hægt að segja að við röltum svo varlega fórum við þar sem engjarnar létu víða undan fótum okkar.

Blíðan á þriðjudag

Við komumst óhult fram á bakkann svo til gengt Elliðavatnsbænum og tókum til við að baða hinar ýmsu flugur, án árangurs. Einn fisk sáum við u.þ.b. í gamla farveginum, en það var nú allt og sumt og þessi veiðiferð varð heldur styttri þegar örlítið fór að kólna og skordýr hættu að klekjast.

Við vorum samt sem áður ekki södd útiverunnar þannig að við ákváðum að renna upp fyrir Gunnarshólma og kíkja á stöðuna við brúnna yfir Hólmsá.

Blíðan við Hólmsá – Ef vel er rýnt í myndina má sjá silungahrelli munda flugustöng fyrir miðri mynd

Það er skemmst frá því að segja að óvenju mikið vatn er í ánni, í það minnsta að mínu mati og breiðan neðan við brúnna var því stór og mikil. Kyrrt veðrið laðaði þurrflugudrauma fram úr boxum okkar og við gerum ýmsar tilraunir til að glepja þá fiska sem voru greinilega á ferðinni.

Þegar þurrfluguæfingar okkar þóttu fullreyndar, létum við gott heita og fórum heim. Tittirnir sem voru að gantast í okkur þarna, voru því ósærðir eftir okkar heimsókn.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 9 / 0 0 / 2 5 / 6

Þingvallavatn 19. maí 2019

Að vera vakinn rétt um kl. 7 með skilaboðum um að allt sé klárt, kaffið komið á brúsa og græjurnar klárar, er ekki það versta sem getur komið fyrir á sunnudagsmorgni. Auðvitað dreif ég mig á fætur, svalg í mig fyrsta kaffibolla dagsins og lagði af stað út í blíðuna sem beið á Þingvöllum.

Við byrjuðum að kíkja við í Vatnskotinu, en eitthvað sagði okkur að færa okkur örlítið austar þannig að við slepptum Tóftum og fórum í Vörðuvík. Það var ekki um að villast að það var fiskur á ferðinni í morgunstillunni, en þegar við vorum loks komin fram á bakkann, þá var eins og allt væri búið.

Þegar síðan túristarnir voru vaknaðir og mættu syngjandi glaðir fram á bakkann, í orðsins fyllstu merkingu, þá töltum við yfir á Öfugsnáðann og böðuðum ýmsar tegundir flugna þar án árangurs. Og við vorum ekki ein um þetta áhugaleysi fiskanna. Félagi í veiðifélaginu okkar sem kom á staðinn rétt um það bil sem við settumst niður í árbít, varð ekki heldur var við fisk.

Eitthvað lagðist hitastigið í vatninu illa í okkur og eftir smá tíma ákváðum við hjónin að breyta alveg til, færa okkur austur fyrir Steingrímsstöð og prófa Úlfljótsvatnið. Það er annars merkilegt hve veður getur skipst á milli vatnanna. Þessi rjóma blíða, sem þó skorti aðeins hitastigið, var hvergi nærri við Úlfljótsvatnið að norðan og við entumst því ekki lengi þar og héldum aftur á vit Þjóðgarðsins.

Nú var ákveðið að fara í Vatnskotið, þar sem heldur hafði þynnst í hópinum. Fáar sögur af fiski, en veiðiverðir Þjóðgarðsins nokkuð brattir og tékkuðu einarðlega á veiðileyfum viðstaddra. Við hjónin prófuðum ýmsar tegundir flugna, kannski meira til að njóta umhverfisins og blíðunnar heldur en með von um fisk í brjósti.

Þegar svo tveir aðrir félagar okkar mættu fisklausir á staðinn, var einfaldlega sest niður, skeggrætt um allt milli himins og jarðar, þó mest um veiði og ótrúlega umferð stórra fólksflutningabíla á Vallavegi, þessum mjóa og heldur slappa spotta sem tæplega rúmar fólksbílamætingar, hvað þá tuga tonna ferðamannadrossíur sem þurftu að mætast þarna.

Þetta var hin ágætasti dagur, þótt enginn hafi verið fiskurinn og viðmælendur okkar sammála um að bæði skordýr og bleikjur fara heldur betur á stjá þegar það hefur hitnað örlítið betur.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 9 / 0 0 / 2 4 / 5

Helluvatn 7. maí 2019

Krúttlegur skreppitúr í Helluvatn í Heiðmörk, það var eiginlega inntakið í þessari skyndilegu hugdettu sem við veiðifélagarnir fengum eftir kvöldmat í gær. Hitastigið hafið að vísu fallið um nokkrar gráður frá því fyrir kvöldmat og lífríkið var eftir því fallið í hálfgerðan dróma. Aðeins stöku fluga lét sig hafa það að klekjast út og aðrir fiskar en þeir smágerðu voru ekkert mikið á ferðinni.

Róleg tíð þarf alls ekki að vera af hinu slæma og við vorum hreint ekki einu veiðimennirnir sem nutu þess að eyða kvöldinu á þessum slóðum, fisklaus. Kvöldið var einstaklega fallegt og þótt stöku kul hefði gárað vatnið og hitastigið fallið á skömmum tíma niður undir 5°C.

Rétt um það bil sem við hættum náttúruskoðun okkar, hittum við tvo veiðimenn sem höfðu einnig ákveðið að leggja árar í bát. Annar þeirra hafði verið við vatnið rétt fyrir kvöldmat og þá var klak enn í gangi og hann sagði að t.d. Helluvatnið við brúnna hefði beinlínis kraumað af flugu og fiski. Við hefðum e.t.v. betur sleppt kvöldmatnum og smellt okkur í vatnið á meðan sólin yljaði ennþá. Hvað um það, þetta var kærkomin stund eftir daglegt amstur hversdagslífsins og fiskarnir sem ekki sýndu sig, eru bara í vatninu áfram og stækka og stækka, óáreittir.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 9 / 0 0 / 2 3 / 4

 

Hlíðarvatn 1. maí 2019

1.maí er hátíðisdagur og fólk heldur upp á hann með nokkuð misjöfnum hætti. Ég t.d. held upp á daginn með því að fara með sérstaklega góðum félögum í opnun Hlíðarvatns í Selvogi. Veðrið í Selvoginum á undanförnum vikum hefur verið með eindæmum, hlýtt og nokkuð stöðugt, hæfilega mikill raki í lofti og þó nokkrir sólardagar. Mér skilst að þessi mánuður hafi slegið met, sé hlýjasti mánuður frá því mælingar hófust og slái meira að segja 1974 og 2003 við sem þóttu nokkuð góðir.

Við Stakkavík – Ath. linsan var ekki óhrein, þetta er sveimandi bleikjufæði

Það var ekki stressið á mér í gærmorgun, fór ekki á fætur fyrr en 9:30 en var mættur út á Mosatanga kl.10, maður er ekki lengi að smeygja sér í brækurnar þegar veðrið leikur við hvern sinn fingur úti við. Það var mikið líf við, á og í vatninu við Mosatanga. Það sem ég hélt að væri bara bleikja var að veltast í ætinu sem greinilega var nóg af. Svo mikið framboð ætis var til staðar að mér tókst heldur illa að koma mínum flugum á framfæri innan um allt úrvalið sem fiskurinn hafði úr að moða. Eftir smá stund fékk ég þó mjög einkennilega töku, af bleikjutöku að vera, enda kom fljótlega í ljós að þarna var eldhress sjóbirtingur á ferðinni sem tók loftköst af andstöðu við þessa blekkingu. Greinilega ekki jafn matvandur og bleikjurnar sem litu nánast ekkert við því sem ég hafði fram að færa.

Birtingur á Mosatanga

Við félagarnir renndum við á nokkrum stöðum og víðast var sama sagan, allt fullt af fiski að úða í sig í blíðunni og greinilegt að vatnið er að koma vel undan vorinu. Af afspurn má ráða að hver einasti þekkti veiðistaður við vatnið, sem eru nokkuð margir eins og sjá má á þessu korti, er kominn í gírinn. Fiskur að vaka og velta sér í lirfum og flugu á öllum veiðistöðum.

Bleikja úr Stakkavík

Þeir veiðistaðir sem vinsælastir voru hjá mínum hópi voru; Gamlavör, Stakkavík, Mosatangi og Guðrúnarvík sem einmitt kom skemmtilega á óvart og færði okkur eina 16 fiska rétt fyrir seinna kaffi. Sannkallað ævintýri og það var haft á orði að tökurnar væru ekkert hálfkák, hressilegar og ákveðnar hjá flestum.

Ármenn við Guðrúnarvík

Það fór svo að ég var með samtals 10 fiska og þar af meirihlutinn vel yfir 42 sm. þannig að það verður veisla á pönnunni hjá mér á næstunni. Þegar ég leit yfir veiðibók Ármanna í lok þessa fyrsta dags í Hlíðarvatni, þá taldi ég 60 fiska og þar af var ánægjulegur fjöldi (meirihluti) mjög vænir fiskar og vel haldnir. Flottur dagur í opnun og það bíður greinilega ævintýri þeirra sem eiga bókaða daga í Hlíðarvatni á næstunni.

Þær flugur sem ég veit að bleikjurnar voru sólgnar í voru: Black Pennell, Buzzer, Copper John, Black GnatKrókurinn, Mýpúpa, Peacock og Teal and Black.  Eflaust hafa fleiri flugur gefið í gær, en þessum man ég helst eftir úr veiðibókinni.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 9 0 / 9 / 1 0 / 2 2 / 3

 

Hraunsfjörður 25. apríl 2019

Fyrsti bíltúr sumarsins var í gær, sumardaginn fyrsta. Bíltúr, göngutúr, útivera, veiðiferð; hver er munurinn? Jú, það síðastnefnda gæfi til kynna að einhver afli hefði komið á land, en svo var nú ekki í þetta skiptið. Allt annað stóðst og mikið meira en það.

Undanfarnar vikur hefur dagurinn verið tekið heldur snemma á mínu heimili. Sumir eru greinilega að komast á þann aldur að meira að segja sængin nær ekki að halda þeim kyrrum fram að eðlilegum fótaferðatíma. Ýmsu er kennt um; hávaða í tístandi fuglum fyrir utan svefnherbergisgluggann, einhver bíll með læti í hverfinu o.s.frv. Hvað um það, ótímabær fótaferð var nýtt í gær á fyrsta degi sumars, helt upp á kaffi í brúsa, nesti troðið í box og græjurnar bornar út í bíl. Veðurspá dagsins hljóðaði upp á einmuna blíðu, besta veður á þessum hátíðisdegi sem um getur í manna minnum og ýmislegt fleira.

Þórsá

Stefnan var tekinn á Hraunsfjörðinn að austan og þangað vorum við komin í mátulegan tíma fyrir morgunflóðið. Fyrstu fiskarnir sem tóku á móti okkur voru urriðaseiðin í Þórsá sem sprikluðu fyrir fótum okkar þegar við óðum yfir á leið okkar niður að Búðanesi. Við vorum hreint ekki þau fyrstu á svæðið, en komust samt fyrir úti á tánni. Eftir töluverðan tíma fóru að renna á mig tvær grímur, yrðu það einu fiskarnir sem við sáum þeir sem héldu til í Þórsá? Ekki ein uppitaka, ekki eitt einasta högg og eftir töluverð fluguskipti settumst við niður, fengum okkur bita og réðum ráðum okkar. Niðurstaðan var að tölta aðeins til norðurs og sjá hvort kraðak veiðimanna væri við eyjuna.

Það sem stendur upp úr af eyjunni (lengst til vinstri)

Veiðifélaga mínum tókst að smokra sér að bakkanum, en ég setti bakpokann niður við stein og beið smá stund. Viti menn, eftir smá stund voru nær allir veiðimenn á bak og burt. Það læddist ónotalegur grunur að mér að ég hefði gleymt einhverju í morgunsárið, fyrst allir létu sig hverfa svona einn, tveir og þrír þegar ég mætti á staðinn. Einhverjar getgátur heyrðust frá veiðifélaga mínum að það væri vond lykt af okkur þannig að ég brá nös undir handarkrika, en þar virtist allt vera í lagi. Niðurstaðan var annað tveggja; lítil veiði eða ég væri bara svona illa þokkaður á veiðislóð að menn létu sig hverfa.

Við veiðifélagarnir vorum því þarna tveir við eyjuna (sem er bara örfáir steinar upp úr vatninu núna) og prófuðum og prófuðum og prófuðum flugur, mismunandi línur og inndrátt, en ekkert gerðist. Reyndar var ekki alveg sömu sögu að segja af nágranna okkar á bakkanum. Sá setti í og landaði þeim stærsta og fallegasta sjóbirtingi sem ég hef séð upp úr Hraunsfirði. Það var mér eiginlega næg ánægja að fylgjast með viðureigninni við þennan fallega fisk og sjá hann síðan kominn á land, en ég klóraði nú samt aðeins lengur í bakann.  Rétt upp úr kl.17 létum við samt gott heita, tókum saman og röltum aftur upp með Þórsá í átt á bílnum okkar og héldum heim á leið.

Það kom raunar á daginn þegar heima var komið að meira að segja Hraunsfjarðarjarlinn, Bjarni Júl. fékk heldur ekki högg í firðinum þennan fallega fyrsta sumardag ársins. Það eitt lagði smá plástur á mitt særða veiðimannahjarta.

Eftir stendur að hin klassíska rómansa um dásamlegt veður, frábæra útiveru og náttúrufegurð átti svo sannanlega við um þennan fyrsta dag sumarsins 2019. Enginn fiskur á land, en svona er þetta bara stundum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 0 / 0 0 / 1 2 / 2

… og svo sagði hún (komment frá veiðifélaganum)

Dagurinn var tekin snemma með uppáhellingu og mér til ómældrar gleði mundi ég eftir að bera á mig sólarvörn nr. 173 en kom samt heim með rauðan nebba. Skelltum öllu í bílinn og það er nú engin smá farangur sem fylgir svona ferðalagi því auðvitað verða að vera tvö sett af öllu með; stöngum, hjólum, vettlingum…ef maður skyldi brjóta, slíta, blotna, festa…bara allt. Íslenski uppáhaldslistinn á Spotify var settur á í bílnum svo að hægt væri að syngja með á leiðinni, já og prjóna, maður verður að nýta tímann. Bölvað, hífað, helvítis rok undir Hafnarfjalli og ég vonaði innilega að það myndi skána á Nesinu. Það gerði það ,,,,norðanmeginn. En hvað er að frétta af þessum vegi þarna út á Snæfellsnes? Hann er stór hættulegur. Hann er eiginlega eins og ýkt gróft bárujárnsþak….sem gerir það að verkum þegar maður er að syngja með að það koma ótrúlega furðulega áherslur á fáránlegum stöðum í lögunum. (pínu fyndið samt) Eins gott að enginn heyrði í mér nema veiðifélaginn. (er reyndar farin að halda að hann heyri ílla – hlýtur eiginlega að vera) Og prjónarnir hefðu hæglega geta stungist í mig og drepið mig í þessum öldugangi ef ég hefði ekki lagt þá niður í dýpstu dýfunum. Halló Vegagerð! Allavega, við gerðum alveg ráð fyrir múg og margmenni eftir þessa fallegu bleikju sem sýnd var nýverið á Veiðidellunni á FB en það var ekki hún sem sem var hvatinn að þessari ferð í Hraunsfjörðinn heldur mjög girnilegt uppítöku myndband sem ég sá í byrjun apríl á netinu (nei, ekki þannig myndband!)
Kom mér samt á óvart hvað það voru fáir bílar, en allamalla hvað þetta er alltaf góð tilfinning að græja sig þegar maður er komin á góðan stað. Fiðringurinn var til staðar og tilhlökkunin. Það er svo gott að hlakka til. Lögðum, þar sem hann sagði hér fyrir ofan og trítluðum niðrúr…bjargaði einu ofurspræku seiði í ánni á leiðinni sem ætlaði að verða túnfiskur þegar hann yrði stór. En til að gera langa sögu stutta þá var þetta eini fiskurinn sem ég kom við og eignlega sá, í þessari ferð. Við tvö (seiðið og ég) eigum stefnumót þarna eftir fimm ár. Við prófðum á nokkrum stöðum með öllum tiltækum línum og hér um bil flugum. Nada, nix, nothing að frétta bara, tja nema kannski að ég tapaði tveimur flugum og önnur þeirra var sú minnst ljóta sem ég hnýtti í vetur. Sé pínu eftir henni. Veðrið var allskonar, aðallega dásamlegt en þó átti hann stundum erfitt með að ákveða vindátt, en hverjum er ekki sama. Á köflum var þetta svona útikúri veður sem þýðir að þá langar mann mest að leggjast út í móa og dorma. En það gengur náttúrulega ekki því ef maður myndi gera það, þá gæti veiðifélaginn fengið fisk á meðan…og einhver er að telja fiskana sem veiðast! (en geri það pottþétt næst því ég er ekki í keppni….hóst) Því ákvað ég bara að æfa köstin fyrir sumarið….og vá hvað ég náði stundum að kasta langt, alveg þangað til ég tók niður gleraugun. Þau eru nefnilega með styrk sjáðu til og því sýnast bæði köst og fiskar mun lengri og stærri en þau eru í raun. Ég er nefnilega oft, mjööööög oft með algjöra boltafiska á, ….þangað til…gleraugun, þú skilur. Fiskar komu samt, eins og áður sagði, ekki við sögu í dag. Ja nema kannski sjálfveiddi harðfiskurinn sem beið heima, og einhverjir tveir sem ég sá aðra taka.
Allavega, góður – nei bíddu,– yndislegur dagur og stórslysalaus. Sumarið er komið – njótið þess. Það er EKKERT eins fallegt og Ísland í grænu fötunum.

Þórunn Björk

Varmá 7. apríl 2019

En þetta er rennandi vatn!‘ sagði einn við mig á laugardaginn þegar ég sagði honum að okkur veiðifélögunum hefði boðist að leysa af við eina stöng í Varmá á sunnudaginn. Þó ég hafi ekki verið mikið að gutla í rennandi vatni hin síðari ár, þá slær maður nú ekki hendinni á móti svona boði og því vorum við félagarnir mættir austur í Hveragerði rétt um kl. 8 í gærmorgun.

Veðrið var svona eins og við má búast á þessum árstíma, alveg á þröskuldinum að vera skítkalt en á móti kom að það var þokkalega stillt og sú gula glennti sig framan í veiðimenn og morgunhana sem viðruðu hunda og sjálfa sig. Okkar stöng dróst til að byrja á svæði 2, þ.e. frá Stöðvarbreiðu og niður að Teljara þannig að við drógum fram kortið og ákváðum að kíkja á svæðið frá Teljaranum og upp að Stöðvarbreiðu. Eins langt og mitt vit nær til, þá er fjöldi álitlegra staða á þessu svæði, en ekki varð ég þó var við fisk.

Við skiptin færðum við okkur á svæðið frá Teljara og niður eftir. Naut ég þar leiðsagnar kunnugs veiðimanns, en það dugði mér ekki til að verða var við fisk, hvað þá að setja í einn og við færðum okkur síðan upp á svæði 1 við næstu skipti og sannast sagna vorum við orðin heldur vonlítil þegar við komum auga á töluvert af fiski í og við Stöðvarhyl. Ekki dugði mér að skipta um allar mögulegar flugur sem mér datt í hug, en veiðifélagi minn setti í mjög álitlega bleikju sem tók Prince Nymph (leiðr. það var víst Pheasant Tail) með látum og linnti þeim ekki fyrr en henni tókst að losa sig. Þetta var greinilega ein af þessum feitu og fallegu bleikjum sem Varmá geymir og vissulega blés þetta vonum í brjóst okkar. Aðrir fiskar á þessum slóðum vildu ekkert sem þeim var boðið og svipaða sögu má segja af þeim sem voru á ofanverðu svæði 2, Stöðvarbreiðunni, þegar við skiptum eitt skiptið enn.

Það var svo við síðustu skiptingu okkar veiðifélaganna að ég setti í og landaði mínum fyrsta fiski í Varmá og þar með fyrsta fiski sumarsins. Þetta var rétt fyrir neðan Teljarann, en þar höfðum við séð eitthvað af fiski á ferðinni í byrjun dags. Þetta var ekki stór fiskur, en sprækur og fallegur. Samkvæmt lögum og reglum var honum vitaskuld sleppt eftir að ein og hálf mynd hafði náðst af honum og svartur Dýrbíturinn hafði verið losaður úr honum.

Þessi bjarti fallegi fiskur mátti ekkert vera að þessu drolli, tók kipp og smeygði sér út úr rammanum:

Við létum gott heita þegar kom að skiptingu kl.18, bæði orðin heldur lúinn eftir þennan langa en ánægjulega fyrsta dag í veiði. Heilt yfir höfðum við ekki miklar fregnir af veiði í Varmá á sunnudaginn, eitthvað höfðu menn á orði að það hefði verið heldur of bjart, aðrir að það hefði verið kalt í morgunsárið og svo má lengi telja. Ég held hreint og beint að allar löggildar afsakanir hafi verið á borð bornar, ég aftur á móti var meira en sáttur við þessa fyrstu ferð ársins og fyrstu ferð mína í Varmá.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 0 / 0 / 1 0 / 1 1 / 1

Í lok árs 2018

Enn og aftur er komið að áramótum. Það er víst merki um eigin aldur þegar manni finnst árin líða hraðar og hraðar eftir því sem þeim fjölgar. Mér finnst nefnilega eins og það hafi verið fyrir örfáum vikum síðan að ég sat hérna og setti saman þetta árlega yfirlit mitt um síðuna og veiðitölur.

Þetta ár hefur verið merkilegt hjá FOS.IS að ýmsu leiti. Árið leiddi rétt tæplega 115 þúsund heimsóknir inn á vefinn sem er enn og aftur aukning frá fyrra ári. Fjöldi heimsókna á vefinn er tæplega 700 þúsund á þessum átta árum sem hann hefur verið í loftinu. Það væri dónaskapur að þakka ekki fyrir tryggðina sem lesendur sýna þessu vefbrölti mínu.

Aldrei þessu vant var það ekki febrúar sem var vinsælasti mánuðurinn á vefnum. Þetta árið sló júlí honum við með 22.250 heimsóknum, eitthvað sem ég átti ekki von á. Febrúar átti samt sem áður sitt eigið met þetta árið. Aldrei áður hafa jafn margir fylgst með Febrúarflugum, aldrei áður hafa jafn margar flugur komið þar fram. Þetta árið fylgust 247 einstaklingar með viðburðinum á Facebook, 523 flugur komu fyrir sjónir lesenda og það voru 62 hnýtarar sem lögðu sitt að mörkum. Þeim sem bíða í ofvæni eftir næsta febrúar, þá skal það tekið fram að Febrúarflugur 2019 eru þegar á dagskrá.

Ég hef ekki nákvæman tölu yfir þær greinar sem hafa komið inn á vefinn, þær eru trúlega eitthvað um 170 því mér hefur tekist að standa við það markmið mitt að setja þrjár greinar inn á síðuna í viku hverri, auk annarra tilfallandi greina. Það er ekki alltaf auðvelt að skrifa um eitthvað sem vakið getur athygli eða áhuga lesenda, vonandi hefur það tekist þokkalega þetta árið.

Síðari hluta ársins tók ég saman nokkrar upplýsingar um veiðiferðir mínar síðustu níu árin og birti í nokkrum greinum hér á síðunni. Nú er komið að lokapunktinum þar sem ég horfi eingöngu til eigin veiði, enginn metingur á milli mín og veiðifélaga míns.

Með þessari samantekt þakka ég öllum lesendum mínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óska þeim gæfuríks nýs árs með ósk um enn fleiri samverustundir á vefnum á nýju ári.

Heildarafli 2010 til 2018

Síðustu ár hafa verið nokkuð brokkgeng í aflatölum og það þarf að leita nokkuð langt aftur til að finna verri tölur heldur á árinu 2018. Sem fyrr er uppistaða aflans bleikja (rauðu súlurnar) og þar eru mestar sveiflur á meðan fjöldi urriða (bláu súlurnar) hefur verið á svipuðu róli og sveiflast mun minna.

Apríl

Apríl mánuður hefur verið í gegnum tíðina verið afskalega rýr þrátt fyrir töluverðan fjölda veiðidaga. Með tíð og tíma hefur dregið verulega úr þessum ferðum mínum í apríl enda ekki eftir miklu að slægjast eins og tölurnar bera með sér.

Maí

Maí hefur lengi verið bundinn við Hlíðarvatn í Selvogi sem skýrir fjölda bleikja (rauðu súlurnar) á meðan einn og einn urriði (bláu súlurnar) slæðist með úr öðrum vötnum.

Júní

Ef undan eru skilin árin 2015 og 2018, þá hefur júní ekki verið neitt rosalegur veiðimánuður síðust ár. Ég er þó fyllilega sáttur við það sem komið hefur á land. Árið í ár sker sig nokkuð úr því þá kom ekki einn einasti urriði á land.

Júlí

Það var nú eins og mig grunaði, júlí var ekkert rosalega góður þetta árið og spilaði veðrið einna mest inn í færri veiðiferðir en mörg undafarin ár.

Ágúst

Eins dásamlegur og ágúst mánuður getur verið, þá er hann einna sveiflukenndasti mánuður veiðinnar. Árin 2014 og 2016 skera sig úr þar sem bleikjan á hálendinu var í banastuði. Öll árin einkennast af heldur minni urriða heldur en mánuðina á undan.

September

Óvanalegur toppur í urriðum árið 2010 skýrist af einni veiðiferð það ár í Hlíðarvatn í Hnappadal. Mjög eftirminninleg ferð þar sem urriðinn fór hamförum á hrygningarslóðum bleikjunnar. Bleikjuskotið 2017 er ofan af hálendi, eins og svo oft áður.

Október

Ef einhver mánuður einkennist af sorglegum aflatölum, þá er það október. Þrátt fyrir einhvern fjölda af ferðum þessi ár, þá eru það aðeins 2010 og 2011 sem færa einhvern fisk, urriða bæði árin.

Veiði 2018 – samantekt

Ekki verður nú sagt að sumarið sem leið hafi verið stangveiðimönnum hagstætt, sérstaklega þeim sem hafa tekið ástfóstri við hálendið. Þar var eiginlega bara skítaveður þetta sumar, svo notað sé hreinræktað kjarnyrt íslenskt mál.

Eitthvað geyma bláu súlurnar fleiri fiska en þær rauðu, en enn og aftur kemur að þessu meðaltali veiðiferða og þá snýst dæmið aðeins við. Rauðu eiga vinninginn enn og aftur.

Veiði 2016 – samantekt

Hver man ekki eftir 2016, sumrinu sem var einstaklega gott uppi á hálendi og veiðitölurnar bera það með sér.

Þótt bláu súlurnar eigi vinninginn í heildarafla, þá vinna þær rauðu í raun þegar tekið er tillit til meðaltalsveiði í ferðum.

Veiði 2015 – samantekt

Þrátt fyrir heldur kalt sumar árið 2015, þá varð veiði ársins töluvert yfir því sem var fyrri ár. Ræður þar enn og aftur aukin skráning á veiði í Framvötnum.

Hér ber svo einkennilega við að bláu súlurnar eiga vinninginn, bæði í heildarafla og afla að meðaltali.

Veiði 2014 – samantekt

Árið 2014 var einfaldlega tóm sól og blíða allt sumarið, í það minnsta í huga mér svona eftirá. Toppurinn var í júlí þar sem fjöldi fiska tók stökk vegna skráningar á veiði í Framvötnum og sama svæði skýrir alveg þokkalegan ágúst mánuð.

Rauðu súlurnar hafa víst vinninginn þetta sumarið með samtals 137 fiska á meðan þær bláu ná 148 fiskum. Vinningurinn liggur í því að veiðiferðir félaga míns voru nokkuð færri þetta árið og meðalveiði því miklu betri heldur en hjá mér.

Veiði 2013 – samantekt

Árið 2013 verður seint talið til betri ára þessa áratugar. Maí var kaldur, júní þokkalegur en heldur blautur og júlí sást varla fyrir rigningu, í það minnsta hér sunnanlands.

Þetta er eitt af fáum síðustu ára þar sem bláu súlurnar eru hærri allt sumarið heldur en þær rauðu. Helgast það einna helst af þrákelkni undirritaðs að fara til veiða þrátt fyrir leiðinlegt veður.

Veiði 2012 – samantekt

Áfram heldur samantekt áranna 2010 – 2018. Komið er að 2012 sem var eitt af betri árum áratugarins þegar kemur að veðurfari, ef undan er skilinn maímánuður sem var nokkuð kaldur.

Auðu súlurnar eru hennar, bláu eru mínar og hér má glögglega sjá að heldur er tekið að halla á mínar veiðitölur og hefur sú þróun haldist, nær óslitið síðan.

Veiði 2011 – samantekt

Árið 2011 var annað árið sem ég safnaði skipulega saman upplýsingum um veiði okkar félaganna. Veðurfar sumarsins var með ágætum, þótt júní hafi verið heldur hráslagalegur.

Sem fyrr eru rauðu súlurnar veiðifélaga míns og þær bláu mínar eigin.

Veiði 2010 – samantekt

Undanfarin átta ár hef ég skráð nokkuð nákvæmlega veiði mína og veiðifélaga míns og birt hér á síðunni. Vegna smá verkefnis sem ég var að vinna að um daginn, þá tók ég veiðitölur þessara ára og setti upp í súlurit og datt þá í hug að setja þetta hér inn á síðuna til að fylla inn í fyrri samantektir sem ég hef gert í loks flestra ára.

Elstu gögnin sem mark er takandi á eru frá árinu 2010. Rauðu súlurnar tákna afla veiðifélaga míns, en þær bláu tákna minn afla. Þetta ár lögðum við leið okkar helst í Hlíðarvatn í Hnappadal í nokkur skipti og er júlí áberandi þar.