Ég veit ekki hvort lesendur þekki til fiskifléttu, en fyrir rúmri viku síðan fléttuðum við veiðifélagarnir okkar eigin þriggja þátta fiskifléttu úr vettvangsskoðun, námskeiði og verklegri kennslu. Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að flokka þessa sögu undir Veiði en það kemur þó einn fiskur við sögu.
Byrjum á hefðbundnum inngangi að fléttu #1; veðrinu. Síðdegis 19. maí var brennt austur fyrir fjall, einum hamborgara sporðrennt á Selfossi og haldið áfram í alveg þokkalegu veðri upp Skeið og þaðan inn Þjórsárdalinn. Rétt eftir að við lögðum á Sámsstaðamúla tók við okkur slydda sem fljótlega breyttist í hreina og beina snjókomu, sumarið ekki alveg komið á kaflanum frá Búrfelli og inn að Hrauneyjum.

Já, við vorum á leið inn að Hrauneyjum þar sem, fyrir einstaka greiðvikni staðarhaldara, biðu okkar uppábúin rúm í hlýrri og notalegri Hálendismiðstöðinni. Nokkuð sem mér varð hugsað til og þakkaði fyrir á meðan ég ruddi slóðina fyrir vinafólk okkar sem höfðu boðið okkur að leysa af á tveimur stöngum í Tungnaá daginn eftir.
Næsta morgun hafði heldur rofað til við Hrauneyjar, snjóinn hafði nær allan tekið upp og bráðnað niður í Tungnaá, kælt hana hressilega, rétt eins og hún væri ekki nægjanlega köld fyrir. Það var samt ekki langt í snjóinn, fyrir sunnan okkur var enn hressilega hvítt í fjöllum, þannig að við fórum okkur hægt um morguninn.

Við höfðum fengið greinagóðar leiðbeiningar um veiðistaði og aðferðir frá þeim félögum í Fish Partner sem selja leyfi í Tungnaá neðan Hrauneyja, en það stoðaði mögulega lítið þegar þær snérust um andstreymisveiði og veiðistaði sem við mögulega fundum aldrei. Nú get ég aðeins talað fyrir mig, en ég var algjörlega týndur þó ég hefði fengið inn með teskeið hvernig ég ætti að haga mér. Fisk sá ég nánast ekki, veiðistaðir voru eins og lokuð bók fyrir mér og andstreymisveiði hefði alveg eins getað verið eitthvað úr hebresku.

Ólíkt Tungnaá ofan Krókslóns, þá er áin neðan Hrauneyja kristaltær og nú hef ég arkað töluverðan spotta hennar með flugustöng í hönd. Ég sá tvo fiska á þessu rölti mínu. Annar var í höndum kunningjakonu okkar, væn bleikja sem lét glepjast af Langskegg, en hinn var urriði sem var eins og skrúfaður við botninn. Fiskurinn var þvermóðskan uppmáluð og lét sig hvergi fyrir eggjandi flugum sem kunningi okkar renndi fyrir hann. Þaulsetnir urriðar í köldu vatni eru töluvert sleipir í reikningi og það var alveg sama hvaða flugu var rennt fyrir hann, niðurstaða reikningsdæmisins var alltaf neikvæð, meiri orka færi í að eltast við þetta grunsamlega fiðurfé í þessum kulda heldur en mögulegur ávinningur fyrirhafnarinnar að glefsa í fluguna.

Á rölti mínu eftir bökkum árinnar sá ég fjölda álitlegra veiðistaða og hugsaði nýbráðinni og reynsluleysi mínu þegjandi þörfina. Raunar var lofthitinn ekkert amalegur þegar leið á daginn, held að hann hafi krafsað í 10°C og það var bara mjög ánægjulegt að eyða deginum á þessum slóðum. Góður félagsskapur og hollið var ekki fisklaust, þökk sé lunknum veiðimanni og einni bleikju.
Eflaust hefði reyndum veiðimanni ekki orðið skotaskuld úr því að læðast að álitlegum hyl eða breiðu og setja í fisk, en víðtækt reynsluleysi mitt í straumvatni dugði skammt til. Nei, ég hef ekkert verið að grínast með reynsluleysi mitt af fluguveiði í straumvatni. Þegar mér tekst ekki að apa eftir löngu aflögðum veiðiaðferðum sem ég notaði fyrir áratugum síðan, þá má öllum vera ljóst að ég á töluvert ólært og við því er aðeins eitt að gera; verða sér úti um leiðsögn. Líkur hér með frásögn af fléttu #1, sem ég kýs að kalla vettvangskönnun á veiðislóð og við tekur inngangur að fléttu #2.
Þar sem við hjónin áttum stefnumót við skólabekk í Reykjavík upp úr kvöldmat, þá urðum við að kveðja Tungnaá og vinafólk okkar vel fyrir kvöldmat. Þannig var mál með vexti að góður félagi okkar hafði varla átt orð til að lýsa ánægju sinni með námskeið sem hann sótti nýverið; 101 Náðu tökum á andstreymisveiði með tökuvara. Eldmóður hans var svo smitandi að við hjónin svindluðum örlítið og skráðum okkur á framhaldsnámskeiðið 201 Andstreymisveiði alla leið ásamt þessum félaga okkar. Ég vissi náttúrulega ekkert út í hvað ég var að etja sjálfum mér og það var ekki laust við að ég væri með smá hnút í maganum á leiðinni til Reykjavíkur á fimmtudaginn.
Eitt það dásamlegasta við fluguveiðina er að maður getur alltaf lært eitthvað nýtt og þetta námskeið var töluvert út fyrir minn þægindaramma; andstreymisveiði með tökuvara (ég hef alltaf verið blindur á tökuvara) og euronymphing með ógnarlöngum taum (ég vil helst veiða á eins stuttan taum og ég kemst upp með) en á skólabekk settist ég ásamt 23 öðrum veiðimönnum þetta kvöld. Ef ég segi að ég hafi meðtekið allt sem þeir félagar Sigþór Steinn og Hrafn Haukssonar jusu úr viskubrunni sínum þetta kvöld, þá væri ég að ljúga. Það sem þeir vita ekki um andstreymisveiði og euronymphing veit ég örugglega ekki að sé til og ég átti fullt í fangi með að meðtaka og kyngja öllu því sem þeir félagar lögðu á borð fyrir okkur, frábært kvöld.
Mér veitti alls ekki af frídegi áður en flétta #3 tæki við, verkleg kennsla í Tungnaá og Köldukvísl, og ég nýtti daginn til að hugsa, hugsa og rifja upp, hugsa aðeins meira og kaupa mér taumaefni og níðþungar tungsten púpur (ekki segja neinum að ég hafi keypt flugur). Já, ekki má gleyma þessum hvíta tökuvara sem ég keypti. Ég kveið því nefnilega svolítið að nota eiturgrænan, gulan eða appelsínugulan tökuvara í rennandi vatni, nógu erfitt hefur mér reynst að sjá svona tökuvara í kyrru vatni. Ég lagðist því í smá grúsk og rakti garnir úr félaga mínum um tökuvara; hvítur eða jafnvel svartur tökuvari gæti alveg hentað þeim sem sjá ekki þessa glannalegu.

Síðdegis á laugardag var aftur lagt í hann inn að Hrauneyjum. Bíllinn fullur af veiðidóti og tösku með hlýjum ullarfötum, það spáði skítakulda og roki. Með í för var einnig svartur túss ef hvíti tökuvarinn dygði ekki og skipta þyrfti um lit á honum.
Að þessu sinni fórum við framhjá Hálendismiðstöðinni, ferðinni var heitið í veiðihús Fish Partners í Þóristungum þar sem boðið var til kvöldverðar og kjaftagangs fram á nótt.
Sunnudagurinn hófst með sameiginlegum morgunverði og hnýtingu þessa ógnarlanga euronymphing taums. Það blés raunar ekki byrlega til euro-veiða, heldur kröftugur norðan garri og hitastigið var ekki upp á marga fiska þannig að fara þurfti könnunarleiðangur í leit að skjólsvæðum kennslustöðum við Tungnaá og Köldukvísl. Allt slapp þetta þó til og hópi 12 nemenda var skipt niður á þá félaga Sigþór Stein, Hrafn og Birki Má sem önnuðust leiðsögn á staðnum.
Hópurinn okkar byrjaði á því að renna niður að Berghyl við Tungnaá þarf sem Hrafn leiðbeindi okkur um uppsetningu tökuvara og tilburði við ánna. Ég gat ekki annað en dáðst að þolinmæði og elju Hrafns við að leiðsögnina og ég beið spenntur eftir því að röðin kæmi að mér og naut þess á meðan að hlera leiðbeiningar hans til félaga minna í hópinum. Það náðist að setja í einn fisk þarna í Berghyl, á litla púpu og hvítan tökuvara, en ég vil ekki viðurkenna að ég hafi náð fiskinum því rétt í þann mund sem ég ætlaði að draga hann að landi til að losa úr honum, þá tók blessuð bleikjan hressilegan kipp og sleit tauminn á lélegum fluguhnúti. Ég sem sagt gekk lengra en veiða og sleppa, ég sleppti bæði flugu og fiski. Ég ætti kannski að athuga með námskeið í fluguhnútum eða vanda mig betur við hnýtingarnar.
Eftir Berghyl færði hópurinn sig niður að Þrístreng í Tungnaá og síðan kláruðum við daginn í Köldukvísl sem bar nafn með rentu þennan dag. Ég hef sjaldan verið í eins miklum vafa um það hvort fæturnir væru ennþá fastir á mér eins og eftir ½ klst úti í Köldukvísl neðan ármóta Tjaldakvíslar.

Það er skemmst frá því að segja að ég held að ég hafi aldrei lært jafn mikið á einum degi undir handleiðslu nokkurs manns eins og þennan sunnudag og það sem meira er, ég er búinn að finna litinn á tökuvara sem ég sé; hvítur er það heillin. Ég á í veskinu mínu ónotaðan euronymphing taum sem ég á eftir að prófa í sumar í einhverjum góðum læk og svei mér þá, þá gæti alveg sést til mín með tökuvara í sumar.
Hrós ferðarinnar fær hvítur tökuvari, leiðbeinendurnir sem stóðu sig frábærlega og Fish Partner fyrir að hýsa námskeiðið af miklum myndarbrag. Það sannaðist í þessari fléttu okkar að svo lærir lengi sem lifir, takk fyrir mig.