Einhvern tímann verður allt fyrst og sá tími var á sunnudaginn í mínu tilfelli. En segjum fyrst frá föstudeginum 13. ágúst sem einhverjir óttast óumræðanlega, rétt eins og svarta ketti, upprétta stiga og ýmislegt annað sem einhverjum grallara datt í hug að segja að væru illur fyrirboði. Eins gott að ég er ekki hjátrúarfullur, annars hefði ég trúlega ekki lagt í ferðalag með okkar færanlega veiðihús inn að Veiðivötnum þennan dag.

Vötnin tóku á móti okkur af sinni alkunnu gestrisni sem hefur smitað menn og konur í fjölda ár. Ef eitthvað var út á veðrið að setja, þá var það mögulega aðeins og gott. Þótt sumarið stefni í yfir 20.000 fiska sem er betra heldur en í fyrra, þá hafa veiðimenn*) verið að glíma við of gott veður; hita og stillur.
*) mögulega er aðeins um veiðimenn eins og mig að ræða, óheppna með aflatölur.
Eftir að hafa heilsað upp á kunningja og vini, meðal annars þrjá úr fasta hollinu okkar sem voru á staðnum, leitað frétta af veiði og veiðistöðum, héldum við inn að Stóra Hraunvatni þar sem Augað hafði dregið sig í pung og var nær alveg þurrt. Það var heldur ekki mikið eftir af Jöklavíkinni og út úr Höfðanum til norðausturs var kominn tangi sem væntanleg hefur hrellt veiðimenn með festum hér áður fyrr. Þrátt fyrir að við hefðum áreiðanlegar fréttir af veiði fram undan Höfðanum, þá urðum við ekki vör við fisk og héldum við því til baka og kíktum á Litlutá við Litlasjó.
Þó Litlisjór standi ekki beint undir nafni, þá fer hann nú samt minnkandi og við vorum sammála um að við höfum aldrei sé jafn lágt í honum áður. Þegar við þóttumst hafa baðað nóg af flugum, færðum við okkur yfir á suðurbakka Grænavatns, ókum yfir Kvíslar og komum okkur fyrir þar sem pláss var á milli veiðihópa sem höfðu búið um sig á bakkanum. Það var ákveðið traust í því að sjá veiðimenn vera búna að skjóta rótum á einum ákveðnum stað, það var nefnilega svolítið ráp á svæðinu, eitthvað eirðarleysi meðal veiðimanna.
Fyrsta alvöru taka ferðarinnar var síðla kvölds, glæsilegur fiskur sem sýndi fimleika sinn, ólmaðist og stökk þannig að flugan fór úr honum. Sjálfur get ég ekki eignað mér nokkur einasta heiður af þessu, það var veiðifélagi minn sem lagði fluguna út, dró inn og fékk tökuna. Sjálfur var ég einn í heiminum með mínar flugur sem ekki einn einasti kjaftur hafði áhuga á.
Sunnudagurinn vakti okkur svolítið seint en með þokusúld og það var bara alls ekkert of hlýtt. Kannski meira svona veður sem maður á von á uppi á hálendi á þessum árstíma. Við veiðifélagarnir ákváðum að leggjast í smá akstur, nýta tímann meðan hann hristi þetta af sér og renna inn að Skyggnisvatni.

Það opnaði ekki inn í Skyggnisvatn fyrr en í fjórðu viku tímabilsins og þegar við ókum um skarðið á milli Skyggnis og Vatnaalda þá vorum við ekkert hissa á þessari síðbúnu opnun. Það styttist væntanlega í að vegurinn um skarðið hækki um nokkra metra, hlíðarnar hafa þrengt svo að skarðinu að við liggur að það sé ekkert pláss lengur fyrir veginn á botninum.
Við byrjuðum rétt innan við ósinn, færðum okkur inn að Eyrinni en urðum ekki vör við fisk. Við höfðum raunar heyrt af því að bleikjan væri sérlega treg þetta sumarið, en ekki áttum við samt von á því svona rólegu og færðum okkur því norður fyrir Ógöngunef og reyndum fyrir okkur í vatninu að norðan. Sjálfur fékk ég eina töku, nauma, en veiðifélagi minn tók eina sérlega væna bleikju á land. Bíð spenntur eftir því að mér verði boðin gómsæt bleikjumáltíð.

Þegar okkur þótti fullreynt færðum við okkur aftur inn á hefðbundið Veiðivatnasvæðið, renndum inn að Ónefndavatni og reyndum fyrir okkur á móti öldu við syðsta hluta vatnsins. Staðsetningin var auðvitað valin vegna þess að veiðimenn veiða oft fiska sem áður hafa veiðst sbr. fyrstu ferð okkar í Vötnin þetta árið. Vitaskuld fór svo að við náðum ekki að veiða þá fiska sem liggja í kistunni heima og því færðum við okkur yfir í Ónýtavatn, sem líkt og mörg önnur vötn hefur dregist töluvert saman.

Þegar þarna var komið sögu hafði hitastigið hækkað verulega, hann hafði rifið af sér og vind hafði lægt. Í Ónýtavatni tók ég einn titt í fyrsta kasti og uppskar nokkurt nart eftir það. Veiðifélagi minn fékk aftur á móti góða töku en nauma þannig að fiskurinn losaði sig fljótlega af.

Eftir síðdegishressingu og töluverðar vangaveltur um vænlega staði, þá ákváðum við veiðifélagarnir að skilja að borði, hún skutlaði mér inn fyrir Eiðið við Litlasjó og hélt síðan til baka í Grænavatn. Sjálfur lagði ég land undir fót og labbaði út á Álftatanga í blíðunni. Ég er ekkert að grínast, það var með eindæmum fallegt og hlýtt veður og fiskur að sýna sig nær alla þessa leið. Við og við staldraði ég við og tældi þá sem voru í kastfæri til fylgilags við fluguna mína. Þeir sem ég tók á ferð minni og úti á Álftatanga voru allir innan við pundið og fengu því líf. Ég er staðráðinn í að setja flugu fyrir þessa fiska eftir 2 – 3 ár, þá verður þeim ekki gefið líf.
Þegar líða fór á kvöldið, tölti ég til baka og elti fisk alla leið inn í víkina austan við Eiðið þar sem veiðifélagi minn beið mín með þær frábæru fréttir að 2ja punda fiskur tók, skemmti henni vel og endaði á landi hjá henni í Grænavatni.

Auðvitað freistaði þessi frásögn aðeins og við ákváðum að renna inn að Grænavatni eftir að hafa hitað okkur kaffi í kvöldkyrrðinni. Raunar komum við aðeins við í Eyvíkinni, tókum nokkur köst á fiska sem gerðu vart við sig, en fengum engar ákveðnar tökur. Aftur á móti hittum við þar fyrir góðan félaga okkar sem við raunar hittum yfirleitt í fyrstu ferð okkar hvert ár. Sá var með góðum hópi sem komið hafði í Vötnin á sama tíma og við, og verið álíka farsæll. Við vorum í ákveðnum sjokki, þegar þessi vinur okkar er ekki í fiski, þá er lítil von fyrir aðra, svo fiskinn er hann. Hvað um það, við héldum inn í norðurbotn Grænavatns og rétt náðum að lagfæra tauma og velja okkur flugur áður en rökkrið færðist á stig myrkurs. Veiðifélagi minn fékk nart, kannski tvö, en ég setti (einhversstaðar þarna úti í myrkrinu) í vænan fisk sem tók vel á, tók trúlega tvöfalt flikkflakk með skrúfu og losaði sig af.
Það gustaði aðeins á sunnudaginn, hitastigið náði rétt 10°C og var eiginlega miklu nær því sem maður átti von á. Fyrir valinu varð að nýta vindáttina og reyna fyrir okkur við miðjuna og suðurrenda Grænavatns. Þegar við komum við á aðgerðarborðinu á hittum við fyrir félaga okkar úr veiðifélaginu, glaðbeitta og káta eftir laugardaginn. Þeir höfðu náð að særa upp væna fiska í Fossvötnunum á laugardag og stefndu glaðbeittir á Litlasjó.
Ég játa það alveg að taka laugardagskvöldsins var enn í fingrum mér og réði miklu um staðarvalið. Aldan var ágæt, stóð vel á suðurenda vatnsins og það gruggaði þegar hún kom upp á grynningarnar. Þrátt fyrir þetta fengum við ekki eina einustu töku og þegar við þurfum að hrökkva eða stökkva, ákváðum við að færa okkur og reyndum aðeins fyrir okkur í Stóra Fossvatni inn undir Bátseyri. Eftir að hafa reynt, árangurslaust, að koma flugunni þessa tvo metra sem uppá vantaði þannig að hún næði til eins höfðingja sem þar úðaði í sig, ákváðum við að klára ferðina í Ónýtavatni þar sem veiðifélaginn neyddist til að taka mjög svangan urriða í minni kantinum sem kokgleypti fluguna.

Við smelltum öllum aflanum á veiðiskýrsluna, komum við í Varðbergi og skeggræddum veiði, grisjun og ýmislegt annað við Rúnar og tvo aðra félaga okkar úr veiðifélaginu sem þar bar að garði. Annar þeirra var í sama flokki og ég og ég fann fyrir miklum létti að ég væri ekki sá eini á staðnum. Hann hefur þó vonandi rétt úr þessu þegar leið á sunnudaginn. Við tókum okkur saman í rólegheitunum, snæddum ágætan miðdegisverð og biðum félaga okkar sem höfðu leyft okkur að gerast hjáleiga við Nýberg þessa daga. Það var ekki mikil breyting á veiðisögum þeirra, sumir veiddu ágætlega, aðrir síður, en það breytir engu að þetta var flottur hópur sem seint verður sakaður um leti. Takk fyrir frábæra samveru strákar, við eigum örugglega eftir að hittast síðar í Vötnunum, trúlega ekki þetta árið en örugglega síðar.
Þannig fór það svo, sunnudagurinn 15. ágúst 2021 varð dagurinn sem ég fór í fyrsta skiptið fisklaus heim úr Veiðivötnum. Dapurleg ferð? Nei, hreint ekki, það er alltaf frábært að koma og vera í Veiðivötnum og ég lærði helling og naut mikils.
Senda ábendingu