Flýtileiðir

Hlíðarvatn í Hnappadal

Það þarf ekki alltaf mikið til að kveikja í manni, sérstaklega á þessum árstíma. Er eitthvað vit í að fara í Hlíðarvatn í Hnappadal á þessum árstíma? spurði góður vinur minn í gær (laugardag). Já, ef vatnið er komið undan ís, þá er urriðinn oft svangur þarna á vorin, svaraði ég. Skömmu síðar fékk ég senda mynd og hún var alveg nóg til að ég tæki ákvörðun í gærkvöldi, fyrstur á fætur í fyrramálið, smyrja nesti og renna vestur.

Hlíðarvatnið tók á móti mér með hraðfara golu úr norðaustri og 11°C hita, frábært veður og ég tölti út að Rifi. Já, ég tók þá ákvörðun að labba síðasta spölinn frá Jónsbúð, vegurinn er mjög blautur og er eiginlega ekki alveg kominn undan vetri. Vatnið er aftur á móti 99,99% komið undan ís, þótt enn sé hægt að kæla drykki á vatnsbakkanum á ís eða snjó.

Til að gera langa sögu stutta, þá tók það ekki nema 20 mín. að setja í fyrsta fisk ársins úti á Rifi. Að þessu sinni lá hann í vari vestan við skoruna norðan við Rif, lá djúpt og var ekkert mikið að bera sig eftir flugunni. Tók tvisvar í hana, en það var ekki fyrr en í þriðju tilraun að hann tók hana og það verður alveg að viðurkennast að hann var ekkert að taka mikið á móti. Hann var þó þokkalega haldinn og mig grunar að þetta sé flottasti fiskur ársins (það sem af er) í Hlíðarvatni, í það minnsta þann sem tekinn er á flugu.

Fyrsti fiskur ársins kallar alltaf á veislu, að þessu sinni smurt með heitu kaffi og kraftmiklu gæða súkkulaði, ekki veitti af því nú var karli hlaupið kapp í kinn og hugði strax á meiriháttar göngutúr við vatnið.

Ég reyndar tölti fyrir Rifið, setti í tvö aðra fiska á leiðinni; einn við blá-endann og annan um það bil miðja vegu innan við Rifið. Þaðan lagði ég leið mína inn með Fellsbrekku, setti í tvö aðra á leið minni út að Svartaskúta. Þar staldraði ég aðeins við, teygði úr tánum, kláraði nestið mitt og naut þess í tætlur að vera kominn aftur í gallann. Það var ekkert betra en liggja úti og anda að sér því ómengaða lofti sem mér tókst að fanga þegar það þaut með látum fram hjá mér. Já, það var smá goluskítur, en hlýtt og eiginlega frábært veður.

Á leið minni til baka var töluvert um nart, ein og ein alvöru taka (sem sagt tvær) og nokkuð ljóst að strákarnir eru vaknaði, svangir eftir veturinn. Stelpurnar eru aftur á móti ekki komnar á kreik, í það minnsta ekki þar sem ég lagði leið mína. Viltu komast í fisk? Taka mesta hrollinn úr þér? Fáðu þér Veiðikortið, kíktu á Hlíðarvatni í Hnappadal á FOS og drífðu þig af stað, þeir eru þarna (allir sem ég veiddi) og ég veit fyrir víst að þeim þykir Gullbrá, svartur Nobbler og Litla rauð svolítið spennandi flugur.

Fyrir tveimur árum síðan svaraði ég mjög beittri gagnrýni með því að draga úr og hætti raunar alveg að birta frásagnir af veiðiferðum mínum. Hvort ég birti fleiri veiðisögur opinberlega á komandi sumri ræðst alveg af þeim viðbrögðum sem þessi stutta frásögn fær eða öllu heldur hvort hún uppsker eingöngu neikvæð ummæli. Fyrsti fiskur ársins verðskuldar, að mér finnst, alltaf smá umfjöllun og því birtist þessi frásögn, í það minnsta.

5 svör við “Hlíðarvatn í Hnappadal”

 1. Ásmundur Bjarnason Avatar
  Ásmundur Bjarnason

  Ég segi bara LOKSINS komin veiðisaga og það skemmtileg!
  Skil ekki hvaða leiðindarpésar hafa verið að draga þig niður, vona svo sannarlega að þú haldir áfram að skemmta okkur veiðiáhugamönnum með frábærum veiðisögum ásamt ábendingum og góðum ráðum.
  Ég styð þig heilshugar til góðra verka, haltu áfram á sömu braut!
  Bestu kveðjur.

  Líkar við

 2. Gústi Avatar
  Gústi

  Bara gaman að fá svona örsögur og hvetur okkur sófaveiðimenn til dáða. Vill nota tækifærið og biðja neikvæða fýlupoka að halda sig á mottunni,heima hjá sér!
  Meira af þessu og takk fyrir að stytta mér stundir fram að vertíðinni.
  Sjáum uppi í vötnum í sumar!

  Líkar við

 3. Ásmundur K. Örnólfsson Avatar
  Ásmundur K. Örnólfsson

  Heill og sæll Kristján. Allir almennilegir veiðimenn dýrka veiðisögur. Endilega haltu áfram að segja frá fiskum veiddum og óveiddum. Þeir sem eru síður hrifnir geta flett annað.

  Líkar við

 4. Stefán Jón Avatar
  Stefán Jón

  Takk fyrir þetta!

  Líkar við

 5. Jafet Egill Gunnarsson Avatar
  Jafet Egill Gunnarsson

  Takk kærlega fyrir þessa frásögn, ég hef mjög gaman að öllu því efni sem kemur frá þér!

  Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com