Gullbrá

Ef einhver er að leita að auðhnýttri, gjöfulli flugu í hvað fisk sem er, þá er þetta flugan. Gullbrá hefur glapið bleikjur í hrönnum, urriða í öðru eins magni og laxar hafa líka litið við henni og verið landað. Það eru einhver ár síðan ég setti þessa flugu fyrst í boxið mitt og þar á undan hafði ég sjálfur gert ýmsar tilraunir með Veniard UV Straggle í búk á flugum, en aldrei tekist jafn vel til eins og höfundi Gullbrár, Jóni Inga Kristjánssyni.

Flugan er afar auðhnýtt og heilagleiki hennar er ekki meiri en svo að höfundurinn hefur stundum gripið það efni í hana sem hendi er næst á hnýtingarborðinu og það virðist ekkert koma niður á veiðni hennar. Flugan hefur getið sér gott orð á Arnarvatnsheiði, í Veiðivötnum og eiginlega hringinn í kringum landið og öllum mögulegum veiðistöðum þar á milli.

Flugurnar sem hér koma fyrir sjónir eru hnýttar af höfundinum sjálfum fyrir FOS.IS og þær eru nú fyrirmyndir þeirra sem ég hnýti sjálfur.

Höfundur: Jón Ingi Kristjánsson
Öngull: Votflugukrókur #8 (Kamasan B175 / B200)
Þráður: Veevus Fluo Orange 12/0
Haus: silfurlituð vaskakeðja
Skott: UV2 Marabou fluo orange
Þræðir í skotti: Flashabou Mirage Opal
Búkur: Veniard UV Straggle St Gold

Create a website or blog at WordPress.com