Kvíslavatn 7. Ágúst 2021

Að þessu sinni munaði aðeins einum degi að það væri heilt ár á milli ferða okkar í Kvíslavatn. Í fyrra fórum við 8. ágúst, þetta árið fórum við 7. ágúst. Að þessu sinni vorum við ekki ein á ferð, þriðja hjól var undir vagninum því við plötuðum með okkur góðan félaga sem aldrei hafði heimsótt vatnið.

Við vorum mætt inn við Svartárós rétt um kl. 10 og ósinn speglaði blíðuna yfir og allt um kring. Stundum segja menn að þegar vatnið er spegill, þá veiðist lítið sem ekkert. Hvort sem það var ástæðan eða eitthvað annað, eins og t.d. að það var enginn fiskur á staðnum, þá fengum við ekki eitt einasta nart þannig að við færðum okkur yfir í Ölduver í þeirri von að skötuormurinn væri eitthvað á stjái og væri að laða að sér urriðann.

Smellið á mynd fyrir fulla upplausn

Þegar við mættum á staðinn voru þar fyrir einir 6 veiðimenn í blönduðum hóp sem beitti öllum brögðum til þess að ná fiski. Eitthvað lét hann bíða eftir sér og eftir því sem ég best veit, þá kom aðeins einn hirðanlegur fiskur á land hjá öllum þessum veiðimönnum og einhverjir undirmálsfiskar sem var sleppt. Óvanaleg staða var á s.k. Skötustöðum því nær ekkert tært vatn var við bakkana, eitthvað líf var að sjá gengt okkur en lítið að gerast okkar megin.

Línan í pásu

Eftir hádegishressingu færðum við okkur niður að útfalli Ölduvers þar sem við sáum loks eitthvað til fiskjar, en settum ekki í neinn, hvað þá lönduðum, þannig að við stöldruðum ekkert mjög lengi við.

Við héldum til baka um Ölduver og fórum alveg inn í botn, þ.e. við mörkin milli vatns og þar sem rennur til þess úr Svörtubotnum. Þessi staður hefur oft reynst okkur vel þegar tært vatnið nær lítið sem ekkert niður með bökkum vatnsins. Veðrið lék við okkur og það var eins og við manninn mælt að þarna leyndust nokkrir vænir urriðar þannig að allir fengu eitthvað fyrir sinn snúð. Eins og gengur voru ungliðar þarna innan um þannig að eitthvað var um sleppingar.

Þriðja hjólið að landa fiski

Eins og hendi væri veifað snérist vindáttin og það var eins og flautað hefði verið upp úr lauginni, allir  fiskar drógu sig í hlé og það gerðum við líka. Eftir síðdegishressingu tókum við stöðuna á urriðanum aftur, einhver kom á land en var sleppt og úr varð að við færðum okkur aðeins til baka, prófuðum aðeins meira og færðum okkur síðan alla leið niður í Svartárós þar sem við byrjuðum daginn.

Uppskeran í Svarárósi var heldur rýr, enginn fiskur, aðeins ein naum taka og þar með er sagan öll. Það var tilfinning mín að hefðbundna veiðistaði skorti fyrst og fremst eitt; fæðu. Sá fiskur sem ég sá var að því er mér fannst á óvanalegum stöðum, oft innarlega í víkum og vogum, eiginlega svolítið til hlés. Annars vorum við samtals með vel á annan tug fiska þennan dag en heim fóru sjö fiskar sem eiga eftir að kæta einhverja bragðlauka. Heilt yfir var þetta hinn besti dagur, þó akstur hafi tekið stóra part af honum. Af færð; sá partur af Sprengisandsleið sem við ókum var í þokkalega góðu ásigkomulagi, hefur oft verið verri.

Sólarlagið við Kerlingafjöll

Lokaorðin tengjast holdafari og magafylli þeirra fiska sem ég skoðaði. Eins og margir vita, þá er fiskurinn í Kvíslavatni af stofni Veiðivatnaurriða. Í sínum upprunalegu heimskynnum er þessi urriði frekar þéttur og holdmikill. Undir venjulegum kringumstæðum er hann ekki alveg eins holdmikill í Kvíslavatni, en vænn þó. Þetta skýrist væntanlega af því að vatnið er ekki alveg eins frjósamt og flest Veiðivatna.

Þeir fiskar Kvíslavatns sem ég hef skoðað síðustu ár hafa yfirleitt verið pakkaðir af skötuormi, en nú bar svo við að lítið þurfti að greina magafylli þeirra sem við tókum með okkur. Magafyllin var lítil og samanstóð helst af flugu og óverulegu magni kuðunga. Það var ekki einn einasti skötuormur í fiskunum sem komust á mitt borð sem er vissulega óvanalegt en ekki óeðlilegt. Af þeim þremur fiskum sem þriðja hjólið í veiðiferðinni tók með sér heim, var aðeins einn sem innihélt þetta klassíska svargræn gums sem gefur vísbendingu um skötuorm í fæðu. Viðkoma skötuorms er brokkgeng og sum ár virðist hann alveg hverfa, en kemur tvíefldur til baka næsta ár. Í fljótu bragði virðist sem önnur fæða hafi ekki náð að fylla það skarð sem skötuormurinn skildi eftir sig og því hafi fiskurinn farið á óhefðbundnar slóðir í fæðuleit.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com