Hvað sem öðrum verkefnum og veðurútliti leið, þá ákváðum við veiðifélagarnir að taka okkur frí frá störfum við Löðmundarvatn eftir hádegið á sunnudaginn og leggja leið okkar inn að Veiðivötnum. Vegalengdin um Landmannaleið (F225), Fjallabak nyrðra (208), Sprengisandsleið (26) og inn á Veiðivatnaleið (F228) er að vísu ekki nema 68 km inn að Veiðivötnum, en einhverra hluta vegna gerði Google ráð fyrir að við yrðum einn og hálfan klukkutíma á leiðinni. Kannski reiknaði Google með öllum þvottabrettum á leiðinni og trúið mér, það er nóg af þeim, en við vorum eitthvað skemur á leiðinni og þóttumst því hafa snúið á gagnaveituna.

Eftir að hafa komið við í Varðbergi og vitjað veiðileyfis lögðum við leið okkar inn með Litlasjó í þeirri von að sjá eitthvað til fiskjar. Það eina sem við sáum var að enn hefur lækkað í og áður óséður botn blasti við í blíðviðrinu ofan af hólunum við Litlasjósver. Við héldum því til baka, höfðum fengið smá skúbb frá vinum að það hefði verið líf í Grænavatni fyrr um daginn.
Norðurbotn Grænavatns varð fyrir valinu og það stóð á endum að við sáum til fiskjar á meðan við settum saman stangirnar og drógum á okkur sjóklæði. Af gömlum vana hélt ég í mitt venjulega bakkarölt, kastaði nokkrum sinnum á hverjum stað og var duglegur að skipta um flugur. Veiðifélagi minn aftur á móti tölti beint niður að bakka, skaut rótum í sömu sporunum og innan skamms var fyrsti fiskur kominn á land. Ég hélt áfram röltinu mínu og stuttu síðar kom annar fiskur á land, hjá veiðifélaganum. Ég færði mig nær henni og fékk hint um fluguval (Koparinn með svörtu skotti) þá kom þriðji fiskurinn á land, hjá henni. Ég er ekki frá því að hún hafi notað „Hvað er eiginlega að gerast?“ sem einhverja forvörn við mögulegri geðvonsku eða öfundsýki en ég hafði einfaldlega ekkert svar við spurningunni, það var ekkert að gerast hjá mér.
Það var eins og örstutt hlé yrði á tökum hjá henni þannig að ég sætti lagi og tók einn vænan fisk á meðan og andaði léttar, var kominn á blað. Eftir að við höfðum síðan fengið töluvert af narti (mjög naumt) og sleppt sitthvorum fiskinum, gerðum við hlé á veiðum og smelltum feitum og fallegum pylsum á pönnuna og hituðum okkur sterkt og gott kaffi. Eitthvað prófuðum við að baða flugur eftir hressinguna, en þegar leið á seinni helming veiðitímans okkar héldum við til baka inn að Litlasjó.
Í Fyrstuvík eru mikið breyttar aðstæður og mögulegt að vaða töluvert lengra en áður. Þar að auki glittir nú í nokkur sker útí í vatni sem ég hef ekki séð áður. Það blundaði í mér að þrátt fyrir allt væri fiskur á ferðinni þarna og því stoppuðum við og reyndum fyrir okkur. Eftir að hafa vaðið töluvert út við mörk Fyrstuvíkur og Hraunsins og veitt í raun þvert á víkina að norðan, fékk ég nart. Næsta kast var jafn langt, ekkert nart. Þar næsta kast var töluvert lengra og þá var nartað aftur. Jæja, einhver þreyta varð til þess að ég reyndi ekki einu sinni að lengja í kastinu og veiddi því framundan í staðinn enda fiskurinn alveg við það að vera á hlutlausa beltinu á milli okkar hjóna. Eftir nokkur árangurslaus köst og fluguskipti hjá mér landaði veiðifélagi minn auðvitað fiski og þar með vorum við komin með sjö fiska á ekki lengri tíma. Þar sem við vorum satt best að segja orðin mjög sátt, hituðum okkur kaffi og héldum til baka niður í náttstað við Landmannahelli. Það er alltaf frábært að koma í Vötnin og ekki skemmir að fá fisk(a). Í þessari ferð var t.d. svo skemmtilegt að við veiðifélagarnir gleymdum alveg að taka myndir, við einfaldlega vorum á staðnum og nutum þess í botn. Til að vega upp á móti myndaskorti, kemur hér ein af Veiðivatnavatni, þ.e. vatnsflöskunni minni sem ég vitaskuld fyllti á uppi í Vötnum til að eiga fyrir heimferðina.

Ferðalagið til baka snérist á sveif með Google því við vorum tæpa tvö tíma á leiðinni í þokunni sem lagðist yfir um leið og við höfðum farið yfir vaðið á Fossvatnakvísl og það má eiginlega segja að það hafi ekki rofað til fyrr en við vaðið á Helliskvísl við Landmannahelli. Svona ykkur að segja, það vantar eiginlega allar vegstikur á Veiðivatnaleið þannig að þvottabrettin komu sér vel. Svo lengi sem þvottabrettið lág þvert fyrir framan bílinn, þá var ég nokkuð viss um að vera enn á veginum. Kæra Vegagerð, það hefði verið til hægðarauka að hafa einhverjar stikur með endurskyni í þessari þoku.
Senda ábendingu