Oft og mörgum sinnum höfum við veiðifélagarnir ekið framhjá þessu vatni og barið það augum. Veiði í Fellsendavatni er, líkt og í mörgum öðrum vötnum á þessu svæði, háð sleppingum því urriði nær ekki að viðhalda sér í vatninu. Nú er mér ekki kunnugt um tíðni eða umfang sleppinga í vatnið síðustu ár og því vorum við að renna svolítið blint í sjóinn með veiði en þar sem við áttum stund aflögu á fimmtudag þá renndum við úr náttstað við Landmannahelli og inn að Fellsendavatni til að prófa aðstæður.
Það kann einhverjum að virðast það einkennilegt að vegur 208 (héraðsvegur) frá Frostastaðavatni upp að Sigöldu sé ekki fjallvegur og ég er einn þeirra. Viðhald þessa vegar er lítið eftir að hann er opnaður í byrjun sumars og ástand hans er alveg eftir því. Þvottabretti og hraunnibbur skiptast á við að gera þessa leið einhverja þá leiðinlegustu sem finnst utan fjallvega á Íslandi og ég þekki marga betri F-vegi en þennan, t.d. F225 Landmannaleið sem er þó landsvegur og nýtur minna viðhalds.

Víða er vatnsbúskapur norðan Tungnaár heldur í minna lagi þetta sumarið og Fellsendavatn hefur ekki farið varhluta af því. Eiðið (Skeifan) á milli norður- og suðurhluta vatnsins stendur allt uppi þannig að vatnið hefur skilið sig í tvö vötn eins og gjarnan gerist á þurrum sumrum.
Við byrjuðum við höfðann vestan við vatnið og það má eiginlega segja að við höfum þrætt okkur með allri ströndinni til norðurs og austur að eiðinu. Við þá vatnsstöðu sem er í vatninu um þessar mundir, virðist töluvert vanta upp á að áberandi dýpi sé að finna í vatninu. Það er drjúgur spotti og ekki djúpt að einhverju því sem gæti kallast dýpi í vatninu og hefði eitthvert líf verið að sjá á vatninu, uppitökur eða veltur, þá hefði maður trúlega vaðið dýpra en við gerðum, en því var ekki til að dreifa.
Það var ekki fyrr en frá austurbakkanum að annað okkar varð vart við fisk, tittur sem fékk líf og lét sér tökuna ekki að kenningu verða og nartaði ítrekað í fluguna á eftir. Eftir þetta þótti okkur fullreynt á þessum slóðum, hvorugt okkar nennti að bíða eftir ljósaskiptinum ef þau mögulega færðu fiskinn upp á grynningarnar. Við reyndum ekkert fyrir okkur í syðra vatninu, héldum þess í stað suður á bóginn, örstutta 36 km í Dómadal að Fjallabaki í átt að næturstað.
Senda ábendingu