Vatn vikunnar – Skeifan

Veiðivatn vikunnar er að vanda úr Veiðivatnaklasanum. Að þessu sinni er það Skeifan, eitt Hraunvatnanna. Allar upplýsingar um vatnið má finna með því að smella á myndina hér að neðan.

Skeifan í Veiðivötnum

Til viðbótar öllum Veiðivötnunum sem hafa komið hér fram er hægt að finna hér upplýsingar um Veiðivötn í heild sinni, kort og tengla á ítarefni og auðvitað uppdrátt að svæði Veiðifélags Landmannaafréttar við Tjaldvatn með nöfnum veiðiskálanna.

Febrúar er liðinn

Febrúarflugum 2019 er lokið. Þetta árið jöfnuðu hnýtarar fjölda flugna frá því í fyrra; 523 flugur. Meðlimir í hópinum á Fésbókinni bættu um betur og fjölgaði úr 247 í 335 og gestum á viðburðum Febrúarflugna fjölgaði einnig.

FOS.IS þakkar öllum hnýturum, fylgjendum og styrktaraðilum fyrir ómetanlega góðar stundir þennan mánuð.

Myndasafn með öllum flugum ársins má skoða með því að smella hérna og hér að neðan má finna nöfn þeirra sem hlutu viðurkenningar frá styrktaraðilum okkar þetta árið fyrir sitt framlag.

Að 11 mánuðum liðnum vonumst við til að sitja hér spennt og skoða fyrstu flugurnar sem birtast í Febrúarflugum 2020.

 

Afmælisveisla Febrúarflugna

Febrúarflugur í sinni núverandi mynd eiga fimm ára afmæli þetta árið. Í tilefni ársins verður boðið til afmælisveislu á morgun, miðvikudaginn 27. febrúar kl.20:00 í Árósum, félagsheimili Ármanna að Dugguvogi 13.

Aðstandendur Febrúarflugna hafa notið þess síðustu árin að geta veitt heppnum hnýturum viðurkenningar fyrir framlag sitt til átaksins og annað kvöld munum við draga nöfn heppinna aðila úr pottinum og færa þeim glaðninga frá styrktaraðilum átaksins. Enn og aftur hafa styrktaraðilar toppað sig og leggja til sérlega glæsilegar viðurkenningar.

Auk þess að gestir afmælisveislunar setjist niður og hnýti nokkrar flugur í góðra vina hópi, munu styrktaraðilar átaksins kynna sig og vörur sínar og hver veit nema hægt verði að gera góð kaup á völdum vörum.

Það væri afmælisbarninu sérstakt ánægjuefni ef sem flestir sæju sér fært að mæta og smella í eins og eina, eða tvær, eða fleiri flugur í tilefni dagsins. Að kvöldi 28. febrúar mun síðan koma í ljós hvort flugnamet síðari ári verði slegið enn einu sinni. Þátttakendametið hefur þegar verið slegið og það vantar ekki nema örfáar flugur í nýtt flugnamet.

Fréttir af Febrúarflugum

Það hefur verið rífandi gangur í Febrúarflugum síðustu viku. Fjöldi nýrra hnýtara hafa lagt sitt að mörkum og sífellt fleiri fylgjast með í hópinum á Facebook auk þeirra sem eru sérlega duglegir að fylgjast með myndasafninu hér á síðunni.

Þegar þetta er ritað, þá eru flugurnar komnar yfir 350 stk. og þeim fjölgar væntanlega hressilega um þessa helgi rétt eins og síðustu helgar.

Síðasta hnýtingarkvöld Febrúarflugna verður n.k. mánudagskvöld 25. febrúar í Árósum og hefst að venju kl.20:00 stundvíslega og auðvitað eru allir velkomnir. Að venju verður heitt á könnunni í boði Ármanna og kunnum við þeim sérstakar þakkir fyrir allan stuðninginn í febrúar, veitingar, veittan beina og afnot af félagsheimilinu.

Lokasamkoma Febrúarflugna fer síðan fram miðvikudaginn 27. febrúar og við viljum vekja sérstaka athygli á því að það kvöld drögum við út nokkur nöfn heppinna hnýtara og komum þannig á framfæri viðurkenningum styrktaraðila okkar fyrir þátttökuna þetta árið. Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta og hver veit nema styrktaraðilar okkar sláist í hópinn, mæti og kynna sig og sínar vörur. Eitt er víst, við stefnum á skemmtilegt kvöld sem verður auglýst rækilega þegar nær dregur.

Vatn vikunnar – Skálavatn

Veiðivatn vikunnar heitir ekki Stóra Skálavatn, það heitir hér einfaldlega Skálavatn eins og það hefur heitið frá því vatnakarlar byrjuðu að leggja leið sína í Veiðivötn. Allar upplýsingar um vatnið má nálgast með því að smella á myndina hér að neðan.

Skálavatn í Veiðivötnum

Eins og áður hefur verið getið, þá má finna öll vötnin sem hafa komið fram með því að smella hérna.