Nafnlaus – rauð

Þær verða stundum til án þess að eiga sér ákveðna fyrirmynd, líkjast samt eflaust einhverri sem einhver annar hefur sett saman og hreint og beint óþarfi að eigna sér hana. Í aðdraganda Febrúarflugna 2022 var ég að fikta eitthvað með hár af ýmsum gerðum. Kveikjan að þessu fikti mínu voru s.k. Goby- eða Kutling flugur sem er jú ætlað en líkja eftir hornsílinu og öðrum smáfiskum.

Flugan virkar heldur mikil um sig þegar hún kemur úr þvingunni, en raunverulegt sköpulag hennar kemur vel í ljós þegar hún hefur farið í bað eins og sýnt er hér að ofan.

Stefið í þessari flugu er gamalkunnugt og alþekkt í urriða hér á Íslandi, rautt og svart með nægu gulli til að glepja hann til töku. Flugan fær að vera nafnlaus til að byrja með, eins og svo margar aðrar sem hnotið hafa úr þvingunni.

Öngull: Tiemco TMC 2457 2X Heavy grubber #4
Þráður: svartur 10/0
Búkur: Semperfli Extreme String 40mm – bronze eða sambærilegt
Vængur: Hareline Ice Fur – rautt
Haus: svartur, lakkaður

Nýta, gefa, geyma?

Það er kunnara en frá því þurfi að segja að veiðimenn eru (flestir) græjufíklar. Reglan um æskilegan fjölda af hinu eða þessu er núverandi fjöldi + 1 og virðist eiga alveg glettilega vel við flesta. Nýjar græjur eru auðvitað betri, nákvæmari, öflugri og allt það sem veiðimenn telja upp sem réttlætir kaup á einhverju nýju. En þessi grein fjallar ekki um nýjungagirni veiðimanna og þá einna helst fluguhnýtara, heldur hvað hægt er að gera við gamla dótið og þá helst hnýtingarþvinguna.

Oftast er það svo að þegar hnýtarar kaupa sér nýja þvingu, þá er hún af annarri gerð, með annarri virkni eða einfaldlega úr betra hráefni heldur en sú gamla. Sú gamla fellur þá af vinsældalistanum og er aldrei tekin fram aftur. Án þess að upplýsa of mikið um fjölda þvinga sem ég á í mínum fórum, þá held ég að þær spanni ágætlega þróunarsögu hnýtara til nokkurra ára. Sú fyrsta var þvinga með kjálka með föstum halla og virkni hennar var einfaldlega sú að kjafturinn var annað hvort opinn eða lokaður. Kjálkinn er trúlega úr einhverju skriðdrekastáli frá Þýskalandi og enn þann dag í dag sér ekki á honum. Síðar kom svo ein sem var örlítið meiri um sig og ég gat (með sexkannt að vopni) breytt halla kjálkans eins og mig listi og kjaftinum gat ég snúið í 360° til að kíkja upp undir fluguna. Að vísu hoppaði flugan svolítið fyrir augunum á mér því snúningurinn var ekki það sem kallað er true rotation þ.e. eftir beinni línu, en þessa þvingu notaði ég í mjög mörg ár.

Eftir þó nokkrum tíma og einhverjum þvingum síðar eignaðist ég netta og mjög ódýra 360° true rotation þvingu sem ég nota enn þann dag í dag þegar ég bregð mér af bæ, jafnvel í veiðitúra. Með árunum hef ég gert smá breytingar á henni, skipt föstum skrúfum út fyrir bolta með vængjaró þannig að ég get auðveldlega fellt hana saman og breytt hæð og halla eftir þörfum.

Aðal tækið mitt í dag er ættað frá Ítalíu, lífstíðareign sem kostaði sitt, er ekki til sölu og verður ekki ánafnan neinum fyrr en að mér látnum og er því ekki til umfjöllunar í þessari grein.

Að staðaldri nota ég, rétt eins og flestir aðrir, aðeins eina þvingu í einu en það getur verið gott að smella upp einni eða tveimur þvingum til viðbótar, því þegar maður hnýtir nokkur eintök af sömu flugunni getur það hentað ágætlega að festa krók í 3 – 4 þvingur og forvinna hnýtingu jafn margra flugna í röð. Flugur eins og t.d. Dog Nobbler og Mýslu er ágætt að taka í bulki til undirbúnings, þ.e. að festa niður vaskakeðjuna og lakka/líma yfir. Þetta er undirbúningsvinna sem gerir ekki miklar kröfur til þvingunnar, það er nóg að hún haldi króki og það stendur yfirleitt á endum að þegar maður klárar síðasta krókinn, þá getur maður tekið þann fyrsta úr og endurtekið leikinn eða farið að hnýta fluguna til enda.

Önnur not fyrir gömlu þvinguna er einfaldlega að gefa hana einhverjum byrjanda í sportinu. Margir sem eru að byrja og vilja prófa að hnýta eigin flugur, veigra sér aðeins við því að fjárfesta í nauðsynlegum áhöldum, þ.á.m. þvingu. Vert er þó að geta þess að oft fylgir böggull skammrifi, því það vill stundum brenna við að gefnar þvingur eru orðnar svo slitnar að nýliðinn er í tómu basli með að festa krókinn í kjaftinum eða þvingan jagast öll til þegar hnýtt er. Slíkar græjur eru ekki sem best til þess fallnar að kynda undir áhuga á fluguhnýtingum og ætti bara að nota í varahluti.

Hvað sem þú gerir við gömlu þvinguna þína, komdu henni í einhver not frekar en láta hana liggja óhreyfða í einhverjum kassa.

White Death

Þó þessi fluga hafi verið sett saman fyrir regnbogasilung og lax vestur í Ameríku, þá er að mínu viti ekkert sem segir að urriðinn taki ekki þessa flugu líka. Jeff Blood, höfundur flugunnar hefur ekkert farið leynt með að hún sé frekar útfærsla þekktra zonker flugna heldur en nokkuð annað. Jeff þessi er vel þekktur veiðimaður vestan hafs, fæddur og uppalinn á bökkum Erie vatns í Ohio og þar hefur hann að mestu alið aldur sinn þó hann hafi veitt víða um heim.

Fluguna er tiltölulega auðvelt að hnýta þegar smá tökum hefur verið náð á zonker skinni á annað borð.

Höfundur: Jeff Blood
Öngull: 2XL straumflugukrókur #8 – #12
Þráður: svartur í haus, rauður eða orange í aftari festingu
Búkur: silfraður mylar smokkur
Vægur og skott: hvítt zonker skinn, minnkur eða kanína
Haus: svartur, lakkaður

Að þessu sinni eru tvö myndbönd sem fylgja þessari uppskrift. Á því fyrra má sjá höfund flugunnar hnýta hana en á því síðara fer Tim Flagler nákvæmlega yfir örlítið aðra útfærslu flugunnar.

Buckskin

Trúlega eru margir veiðimenn sem þekkja þessa flugu, færri sem vita hvað hún heitir og enn færri sem hafa prófað hana. Flugan er tiltölulega gamalreynd, kom fyrst fram á sjónasviðið upp úr 1970 vestur í Bandaríkjunum. Maðurinn sem er skráður höfundur þessarar flugu heitir Ed Marsh, mikill veiðimaður sem búsettur var í Colorado Springs, en flugan komst raunar ekki fullkomlega á flug fyrr en títtnefndum Pat Dorsey datt í hug að bæta peacock kraga á hana og setti á prent.

Eins og fram kemur í endurbættri uppskrift Pat‘s hér að neðan, þá nýtir hann vaskaskinn í búk flugunnar en upphaflega var notað rakað, sútað skinn af dádýri þaðan sem hún dregur nafn sitt. Sjálfur nýtti ég sútað lambsskinn sem ég skar niður í ræmur sem varð afgangs eftir að ég hafði notað hárin af því.

Höfundur: Ed March
Öngull: hefðbundin púpukrókur #10 – #16
Þráður: svartur UNI 8/0
Skott: fanir úr ljósbrúnni hænufjöður
Búkur: hvítt vaskaskinn / ljóst sútað skinn, rakað
Haus: svartur, lakkaður

Eins og með margar eldri flugur, þá hafa nýjar útfærslur litið dagsins ljós og þar á meðal jig útfærsla skv. uppskrift Pat Dorsey sem sjá má hér að neðan:

Salsa, nan og kebari

Hver þekkir ekki salsa sósu, nan brauð og hotsauce sósu? Öll eru þetta erlend orð sem hafa fengið óþarfa íslenskt viðskeyti því salsa þýðir einfaldlega sósa, nan þýðir brauð og hotsauce er náttúrulega bara sterk sósa. Sahara eyðimörkin er trúlega þurrasti partur eyðimerkurinnar fyrst við þurfum að tvítaka orðið eyðimörk og á hinum endanum er Avon áin trúlega blautasti partur Avon sem er velska sem þýðir einfaldlega á. Það gæti verið skemmtilegt að velta öllum þessum óþarfa viðskeytum fyrir sér með bolla af hinu Indverska Chai tei í hönd.

Auðvitað er þetta allt eitthvað bull í byrjun greinar, en kveikjan að þessu var ákveðin vandi með þýðingu á japönskum orðum sem ég upplifði í vetur. Ég var sem sagt að fara yfir nokkrar greinar um garnflugur og þar rakst ég á lýsingu á japanskri flugu sem mér þótti áhugaverð. Ég lagðist í smá gúggl og þær niðurstöður voru svolítið á ská og skjön miðað við það sem ég lagði upp með. Vestur í Ameríku hafa áhugamenn um japanskar veiðiaðferðir farið nokkuð frjálslega með þýðingar og mögulega ekki gert sér grein fyrir uppruna og merkingu þeirra orða sem notuðu. Ástæða þess að ég set þetta hér í orð er einfaldlega fyrir þá nörda sem mögulega eru haldnir sóttinni á jafn háu stigi og ég og vilja kynna sér gamlar japanskar veiðiflugur eða síðari tíma útfærslur.

Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að japanska orðið ke þýði hár og japanska orðið bari þýði öngull. Samsett myndar þetta orð það sem við köllum veiðifluga (jp: kebari) sem eitt og sér er mjög áhugavert að setja inn í Google.

Sakasa Kebari er fluga sem er eins og margar aðrar japanskar flugur skrýdd hringvafi. Japanska orðið sakasa þýðir á hvolfi eða öfugt. Þetta vita hreint ekki allir sem nefna flugurnar sínar eitthvað sakasa, sama hvort hringvafið vísi fram eins og japanskri flugu eða aftur eins og á votflugu.

Sekasa Kebari er að öllum líkindum ekki upprunalegt japanskt heiti á ákveðinni gerð flugna, en nær samt skemmtilega byggingu hennar; mjóslegin fluga sem sekkur hratt því japanska orðið sekasa útleggst víst sem; drífðu þig á íslensku.

Svona rétt í lokinn; varst þú búinn að fatta þetta með teið? Chai er hindí og þýðir einfaldlega te.

Crane Fly Larva

Hér er á ferðinni sérlega einföld fluga sem líkir eftir lirfu Tipulidae, öðru nafni hrossaflugu sem er væntanlega stærst mýflugna á Íslandi. Að mínu viti er það frekar óalgengt að íslenskir veiðimenn eltist við eftirlíkingar lirfunnar, fleiri hafa reynt sig við fullvaxta hrossaflugu. Ef hinir sömu veiðimenn væru urriðar, og valið stæði á milli fullvaxta flugu eða lirfu, þá hefði lirfan alltaf vinninginn.

Ef einhver ber þessa flugu nú saman við aðrar þekktar garnflugur, þá kemur vitaskuld Killer Bug upp í hugann. Þær eru afar keimlíkar ef horft er framhjá því að koparvafningana vantar á Crane Fly Larva. En, það er þó ákveðinn munur á þeim, þessi fluga er gjarnan hnýtt á s.k. sedge króka eða 3XL púpukróka einfaldlega vegna þess að lirfa hrossaflugunnar er afar löng og mjósleginn. Hér gildir ekki að hnýta hana í smærri stærðum en #10 eða #12.

Höfundur: Frank Sawyer með síðari tíma aðlögun
Öngull: h3XL púpukrókur eða sedge krókur #10 – #12
Þráður: grár eða hvítur 8/0
Undirlag: kopar eða blýþráður
Búkur: yrjótt, ljóst ullargarn
Haus: lakkaður hnýtingarþráður

Hér má síðan sjá ágætt mynbrot frá Tight Line Video af hnýtingu Crane Fly Larva:

Lokafréttir af Febrúarflugum

Endanleg niðurstaða Febrúarflugna var kunngjörð í gærkvöldi og það er skemmst frá því að segja að öll eldri met voru slegin að þessu sinni. Við sama tækifæri voru 23 heppnir hnýtarar dregnir úr hópi hnýtara og hljóta þeir myndarlegar viðurkenningar sem styrktaraðilar átaksins létu í té þetta árið.

FOS.IS þakkar öllum sem komu að Febrúarflugum þetta árið; meðlimum hópsins, hnýturum, styrktar- og samstarfsaðilum.  Allar flugur ársins má sjá á einu bretti með því að smella hérna.

Síðdegis í dag lauk síðan dómnefnd störfum í Fluguhnýtingarkeppni Haugsins 2022. Haugur Workshop sendir þátttakendum í keppninni kærar þakkir fyrir þátttökuna og óskar þeim til hamingju með þeirra framlag. Alls bárust 37 flugur í keppnina og dómnefndinni var töluverður vandi á höndum í vali sínu. Vinningshafar geta vitjað vinninga sinna í Haugur Workshop, Rauðarárstíg 1 við tækifæri.

Unglingaflokkur: 1.sæti Hilmar Þór Sigurjónsson – 2. sæti Hannes Örn Kristinsson – 3. sæti Alexander Ari

Púpuflokkur: 1.sæti Þóra Sigrún Hjaltadóttir – 2. sæti Kristinn Örn Arnarson – 3. sæti Ragnar Ingi Danner

Meistaraflokkur: 1.sæti Árni Freyr Árnason – 2. Móri

Haugur: 1.sæti Ragnar Ingi Danner – 2. sæti Sigurður Árni Magnússon – 3. sæti Benedikt Vagnsson

Vanmetið hnýtingarefni

Það þarf ef til vill ekki að fara mörgum orðum um garn sem hnýtingarefni, en það læðist nú samt að mér sá grunur að garnflugur og þá gjarnan einfaldar flugur séu örlítið á undanhaldi hin síðari ár. Ein þekktasta garnfluga allra tíma er nær jafn gömul Pheasant Tail enda eru þær samfeðra, eingetnar systur. Hér er ég að vísa til Killer Bug sem Frank Sawyer opinberaði upp úr 1930 og ótrúlega margir hafa reynt að betrumbæta í áranna rás. Upprunalegur einfaldleiki flugunnar er viðlíka og Pheasant Tail, hráefni í hana aðeins tvö; Chadwick’s 477 ullargarn og rauðleitur koparvír og þessi fluga veiðir enn.

Hér heima á Íslandi eigum við þó nokkrar flugur úr garni sem státa af viðlíka einfaldleika, margar þeirra eru í raun bústnar Killer Bug eða svipar töluvert til Pheasant Tail. Allt eru þetta flugur sem gefið hafa vel í gegnum árin en hafa vikið svolítið fyrir ítarlegri útfærslum af ýmsum pöddum, yfirleitt meira skreyttum og glimrandi.

Eins og gefur að skilja er ekki allt garn eins. Hráefnið getur verið náttúruleg ull, bómull eða gerviefni, en sameiginlegt á nær allt garn það að vera ódýrt og drjúgt hráefni. Ætli það liggi ekki nokkuð nærri að í nokkuð venjulega púpu fari 4 – 6 sm af garni. Á venjulegri dokku af góðu ullargarni séu á bilinu 120 – 200 metrar sem kosta þetta frá 900 – 1.500 kr sem er þá hráefni í 2.000 – 5.000 flugur. Það er trúlega fátt hnýtingarefni sem toppar þetta og þar að auki má auðveldlega kljúfa flest allt garn í fleiri þræði og fjölga þá flugunum um nokkur þúsund. En það er vitaskuld óþarfi að fjárfesta í heilli hespu af garni því víða má finna garn í smærri einingum, jafnvel einn og einn hnykil á vergangi í einhverri prjónakörfu.

Auk þess að garn er af ýmsum gerðum, þá eru litir og afbrigði þess nær óendanlegir og flugurnar geta því verið mjög mismunandi, jafnvel þótt þeim svipi ef til vill alltaf svolítið saman að sköpulagi.

Garn er almennt mjög auðvelt í meðförum og það þarf ekki margar flugur til að komast upp á lagið með að hnýta úr því. Í flestum tilfellum nægir einfaldlega að vefja því um öngulinn, mynda búk og frambúk með sama efninu, hnýta það niður við hausinn og málið er dautt. Náttúruleg áferð ullargarns er þannig að það trosnar lítillega þegar því er vafið um krókinn, hinir og þessir stubbar af hárum standa út í loftið. Með öðrum orðum, þá er ullargarn afar lifandi efni og ef hnýtaranum þykir það ekki nógu úfið, þá má alltaf bregða bursta á fluguna til að ýfa það enn frekar upp.

Spunnið ullargarn er mjög sterkt efni, margfalt sterkara efni heldur en t.d. peacock fjaðrir sem þarf að styrkja með hnýtingarþræði eða vöfum þannig að þær trosni ekki strax í sundur. Í flestum tilfellum er óþarfi að styrkja garnflugur með vöfum, vír eða tinsel, því garnið sjálft er nægjanlega sterkt eitt og sér. Flestar garnflugur sem eru vafðar vír hafa verið vafðar til að auka þyngd þeirra, ekki endilega til að styrkja þær. Raunar er það þannig að ef notuð er náttúruleg ull, þá þarf lítið að þyngja fluguna með vír því ullin tekur alltaf í sig nokkuð af vatni og flugan þyngist þannig sjálfkrafa þegar í vatn er komin.

Þegar ég var að týna þessi orða saman í grein, þá var ég ósjálfrátt með ákveðnar flugur í kollinum. Ég hef þegar talið upp þær Sawyer‘s systur Killer Bug og Pheasant Tail, en það má alls ekki gleyma öllum þeim vot- og straumflugum sem við þekkjum þar sem garn er oft aðal hráefnið í búk þeirra. Það er nú reyndar þannig farið um garnflugur, rétt eins og flestar aðrar flugur nútímans að þeim svipar í megin atriðum til þeirra systra, í það minnsta í sköpulagi. Prófíll flugna er jú oftast sóttur til sömu fyrirmynda, skordýra.

Fréttir af Febrúarflugum

Nú er síðasta helgin í febrúar gengin í garð og hillir undir lok mánaðarins. Síðasti þemadagur Febrúarflugna verður mánudaginn 28. febrúar sem jafnframt er lokadagur átaksins þetta árið. Kveikjan að þemanu hefur stækkað fyrir augum okkar dag frá degi í mánuðinum og er beinlínis farin að kalla á aðgerðir;

En það er fleira sem hefur aukist í mánuðinum. Fyrir það fyrsta þá hefur meðlimum hópsins á Facebook fjölga úr tæplega 1.000 í rétt um 1.300 sem endurspeglast heldur betur í fjölda þeirra sem sett hafa inn myndir, en þeir eru komir vel yfir 200. Eitthvað hefur tosast inn af flugum, síðasta talning sem gerð var árla morguns taldi 1.646 flugur í öllum mögulegum útfærslum og gerðum. Efst í huga okkar er þakklæti til ykkar allra sem hafið séð af tíma ykkar í mánuðinum til að deila flugum, hvetja og koma með gagnlegar ábendingar og almennt vera jákvæð og uppbyggileg í þessu litla átaki okkar.

Styrktaraðilar okkar þetta árið hafa heldur betur lagt sitt að mörkum, fyrst og fremst hnýturum til hagsbóta eins og venjulega. Þeim ber að þakka sérstaklega fyrir;

Dagbjört

Fyrir um 20 árum síðan setti Jón Sigurðsson þessa flugu saman og fór nokkuð óhefðbundna leið. Í stað þess að setja hringvaf fyrir framan verklegan fjaðurvæng, þá hafði hann vængstubb fremst og hringvafið fyrir aftan hann. Þrátt fyrir þessi frábrigði minnir áferð og litaval flugunnar um margt á klassískar votflugur og ósjálfrátt dettur manni Alder í hug.

Eins og Jón hnýtti fluguna fyrir þá góðu bók, Veiðiflugur Íslands þá var búkur flugunnar tiltölulega stuttur og mikill um sig en smágerður þó miðað við stærð önguls. Lengi vel var ég ekki viss um hvað mér fannst um þessa flugu, en að sögn veiðir hún vel og þá jafnvel þegar allt annað bregst. Fluga þessi á sér heimavöll vestur á Fjörðum og þá helst í Sauðlauksdalsvatni en ég hef það fyrir satt að Jón hafi gert góða veiði á hana neðarlega í Varmá á sínum tíma og víðar.

Upprunalega var þessi fluga víst hnýtt á hefðbundinn votflugu- eða púpukrók, en sjálfum finnst mér hún álitlegri á wide gape emerger krók og þannig kemur hún fyrir sjónir hér að ofan. Ívar í Flugusmiðjunni hnýtir þessa flugu töluvert mjóslegnari eins og hún birtist í myndbandi hans hér að neðan með þeim orðum að þar sé á ferðinni upprunaleg útgáfa flugunnar. Það má segja að fluga þessi sé álitleg í öllum þeim útfærslum sem hnýturum dettur í hug að hnýta hana, sem er til marks um einfalda og góða flugu.

Höfundur: Jón Sigurðsson
Öngull: hefðbundinn votfluguöngull #10 – #14
Þráður: svartur
Búkvaf: svört hanafjöður
Búkur: svart flos
Vængstubbur: vængfjöður stokkandar
Haus: svartur, lakkaður

Eins og áður segir, þá hefur Flugusmiðjan verið dugleg að senda frá sér myndbönd með flugum Jóns Sigurðssonar og hér að neðan eru tveimur mismunandi útgáfum hennar gerð góð skil:

Haul a Gwynt

Nafngiftir flugna geta verið með ýmsum hætti en sjaldan segir nafn flugunnar fyrir um undir hvaða kringumstæðum best sé að veiða hana.  Þessi fluga er sögð virka sérstaklega vel í björtu og vindasömu veðri, þess vegna heitir hún Haul a Gwynt sem útleggs sem sól og vindur.

Í þeim bókum og flugulistum sem ég hef aðgang að er ekkert að finna um höfund hennar, aðeins sagt að hún sé ein af þeim klassísku votflugunum sem komu fram í Wales upp úr 1900. Ein heimild segir hana hafa komið fram í norðurhéruðum Wales þar sem vindar blása með líkum hætti og í Hálöndum Skotlands.

Höfundur: ókunnur
Öngull: votfluguöngull 10 – 14
Þráður: svartur
Vöf og broddur: gyltur vír
Búkur: svart dub, jafnvel með örlitlu grænu (olive) íblandi eða svartar strútsfjaðrir (herl)
Vængur: grá-blá eða grá-brún fjöður
Hringvöf: fjöður af hringfasana

Hér að neðan má berja Davie McPhail augum þar sem hann setur í afbrigði þessarar flugu:

Guide’s Nymph

Eflaust hefur fáum dottið í hug að þessi fluga heiti eitthvað sérstakt enda gengur hún eða öllu heldur útlit hennar undir ýmsum nöfnum. Kannski var það bara einfaldleiki þessarar flugu sem greip mig og því ákvað ég að setja í nokkrar svona og setja hér inn á vefinn.

Aðalatriðið við þessa uppskrift er að hún er afar fljóthnýtt og svo skemmir ekki að hráefnið í fluguna er eiginlega það sem hendir er næst hverju sinni. Litaafbrigði hennar eru, eins og gefur að skilja, óendanlega mörg því það getur svo margt leynst á hnýtingarborðinu þegar maður sest niður og byrjar a hnýta. Það má eiginlega segja að þetta sé hálfgerð ruslafötufluga.

Höfundur: enginn sérstakur
Öngull: grubber #10 – #16
Þráður: sá litur sem þér dettur helst í hug að veiði, ekki verra að hafa hann flatan 14/0 eða DEN70
Búkur / þynging: blý-, tungsten- eða koparþráður (medium) – búkurinn mótaður með vír
Búkvaf: koparvír
Lakk: UV lakk, medium eða thick
Kragi: peacock herl, dubb í stíl við búkefni eða hvað eina sem þér þykir viðeigandi
Haus: svört eða reyklituð kúla

Fréttir af Febrúarflugum

Það hljóta að hafa verið annasamir dagar hjá hnýturum undanfarnar vikur ef marka má dugnað þeirra við að setja inn sýnishorn af hnýtingum sínum á Febrúarflugur það sem af er mánuðinum, 1.100 flugur komnar inn, hver annarri flottari. Svo kitlaði það auðvitað ánægjutaugarnar í gær þegar meðlimur nr. 1.200 gekk til liðs við Febrúarflugur. Það er jú fjöldi þeirra sem fylgjast með og sýna fluguhnýtingum áhuga sem er til marks um ágæti þessa áhugamáls, takk fyrir frábærar undirtektir.

Í byrjun vikunnar auglýsti FOS.IS eftir ófeimnum hnýturum í spjall fyrir hlaðvarp Febrúarflugna. Við leitum að hnýturum sem annað hvort eru að stíga sín fyrstu skref eða eru að endurnýja áhuga sinn á fluguhnýtingum í smá spjall yfir netið, 3 – 4 í sitthvorn þáttinn. Við eigum kannski smá verk fyrir höndum að draga hnýtara út úr skápnum m.v. undirtektirnar, en hver veit nema einhverjir gefi sig á tal við okkur á Malbygg í kvöld (miðvikudagskvöldið) þar sem Þrír á stöng og FOS.IS standa fyrir fluguhnýtingakvöldi frá kl.19 og fram eftir kvöldi. Annars eru hnýtarar hvattir til að gefa kost á sér í spjall með því að senda FOS.IS skilaboð eða tölvupóst, fullri nafnleynd er heitið, eða þannig sko.

Smá skilaboð til þeirra sem hyggjast mæta á hnýtingakvöldið í kvöld; takið endilega með ykkur hnýtingagræjur og ljós ef þið viljið sjá til, jafnvel fjöltengi ef því er að dreifa. Miðað við undirtektir þá er óvíst að aðstandendur hafi úr nógum græjum að moða fyrir alla gesti kvöldsins.

Þess ber að geta að upplýst hefur verið um meðlimi Hrafnaþings hnýtingakvöldsins, en það eru þeir nafnarnir Hrafn Ágústsson og Hrafn H. Hauksson sem ætla að taka sæti gestahnýtara kvöldsins á Malbygg. Það ber sjaldan jafn vel í veiði fyrir áhugafólk um fluguhnýtingar að berja þessa snillinga augum á einum og sama staðnum.

Kopperbassen

Kopperbassen er ekki bara ein fluga, heldur samnefnari nokkurra flugna sem hnýttar eru í löndunum við Eystrasalt og helst notaðar í sjóbirting. Upprunalega Kobberbassen (e: The Copper Bully) kom fram árið 1996 og er eignuð Frank Jensen. Morten Kristiansen kom fram með Kopperlusen (e: The Copper Louse) á svipuðum tíma, en sú fluga er nokkuð flóknari í hnýtingu, en viðfangið er hið sama.

Það verður ekki um það villst að báðar þessar flugur eru eftirlíking marflóar en þegar hin ofur einfalda straumfluga The Fluff kom fram á sjónarsviðið rétt um 2010, þá tóku menn upp á því að hnýta slíka flugu úr sama hráefni og Kopperbassen og samheitið varð til.

Þessar flugur eru tiltölulega einfaldar í hnýtingu, fljóthnýttar og sérlega veiðnar. Hér heima eigum við Koparinn sem er ekki ósvipaður og hefur gert góða, sumir mundu segja mjög góða hluti í vatnaveiðinni á liðnum árum, þannig að vinsældir Kopperbassen hjá Eystrasalts sjóbirtingnum þurfa ekkert að koma á óvart.

Þar sem flugan þykir ekki einhöm og er til í mörgum mismunandi klæðum, þá er efnislistinn hér að neðan bundin við þær flugur sem ég hnýtti fyrir þessa umfjöllun og er alls ekki tæmandi yfir þær flugur sem ganga undir þessu nafni. Sumir hnýtarar virðast ekki hafa nokkra trú á einfaldleika þessara flugna og bæta ýmsum aukahlutum á hana, svo sem skél (baki), hala (skotti), fótum eða hringvöfum í stað þess að leyfa koparlituðu Angel Hair, Lite Brite eða Hareline Ice Dub að eiga sviðið.

Rækja/Púpa

Öngull: wide gape öngull #10 – #16
Þráður: rauður
Búkur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus: rauður, lakkaður

Marfló / Rækja

Öngull: grupper #10 – #16
Þráður:
brúnn 8/0
Vöf:
koparvír
Bak:
Hareline Scud Back – brúnt
Búkur:
Hareline Ice Dub – Copper
Haus: brúnn, lakkaður

Hefðbundin púpa

Öngull: votfluguöngull #10 – #16
Þráður: svartur 8/0
Búkur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus
: svartur, lakkaður

Straumfluga

Öngull: straumfluguöngull #6 – #10
Þráður: svartur 8/0
Búkur: svartur hnýtingarþráður, þakinn ljómandi UV lími
Vængur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus: svartur, lakkaður

Að lokum gefur hér að líta smá kennslumyndband fyrir hnýtingu á Kopperbassen með kúlu:

Fluguhnýtingakvöld

Þrír á stöng í samvinnu við FOS.IS og Febrúarflugur býður til hnýtingakvölds á Malbygg Taproom, Skútuvogi 1H, miðvikudaginn 16. febrúar, húsið opnar kl.19:00.

Malbygg verður með tilboð á barnum, efnt verður til happdrættis, open mæk og á staðnum verða vanir hnýtarar sem aðstoða og leiðbeina þeim sem þess óska. Áhugasömum er bent á að fylgjast með og skrá sig á Fluguhnýtingakvöld! á Facebook.

Fréttir af Febrúarflugum

Eins og slegið var föstu í síðasta hlaðvarpi Febrúarflugna þá verður þema Febrúarflugna, mánudaginn 14. febrúar, bleikar flugur og helst með miklu blingi. Eins og áður, þá er engin skylda að taka þátt í þemadögunum, en ef undirtektirnar verða eitthvað í líkingu við það sem varð síðasta mánudag, þá verður ýmislegt bleikt á ferðinni í hópinum á Facebook á mánudaginn.

Niðurstaða úr örsnöggri talningu á innleggjum mánaðarins á Facebook og Instagram, þá eru tæplega 900 flugur komnar inn og meðlimir Febrúarflugna eru nú 1.175 og fjölgar daglega.

Í vikunni fjölgaði enn i hópi styrktaraðila þegar e-FLUGAN bættist í hópinn og þar með eru þeir orðnir 12 sem standa þétt við bakið á FOS.IS í þessu stússi.

Við viljum minna þá á sem ekki hafa tök á að fylgjast með Febrúarflugum á Facebook eða Instagram á að við reynum eftir fremsta megni að uppfæra myndasafnið hér á síðunni eftir því sem tími gefst til.

Hlíðarvatnspúpan

Það er víst löngu tímabært að setja þessa flugu hér inn á síðuna; Hlíðarvatnspúpan hans Þórs Nielsen. Eins og nafn hennar gefur til kynna, þá á hún ættir að rekja til Hlíðarvatns í Selvogi og þótti á árum áður sérstaklega fengsæl. Eitthvað hefur dregið úr skráningu á þessa flugu hin síðari ár, ef til vill vegna þess að margir yngri veiðimenn þekka ekki heiti hennar og skrifa aflan á Watson’s Fancy.

Þór veiddi töluvert á þessa flugu á sínum tíma í Selvoginum og víðar, rétt eins og aðrir veiðimenn og það er ákveðin söknuður að því að þessi fluga hefur lítið sést í veiðibókum hin síðari ár. Mögulega þarf aðeins að koma henni á framfæri við yngri veiðimenn og hér með hefur FOS.IS lagt sitt að mörkum til þess.

Höfundur: Þór Nielsen
Öngull: votfluguöngull 10 – 16
Þráður: svartur
Stél: fanir úr bekkfjöður gullfasana
Vöf: silfurvír
Afturbúkur: rautt ullargarn (Árórugarn)
Bak: fanir úr grágæsafjöður
Frambúkur: svört ull (Árórugarn)
Skegg: svartar hanafjaðrir
Haus: svartur, lakkaður

Black Magic

Þeim sem reka augun í þessa flugu dettur væntanlega helst í hug klassísk votfluga sem á ættir að rekja til 1800 og eitthvað, en því fer víðsfjarri. Flugan kom fyrst fram árið 1967 í bók höfundarins Presenting the Fly to the Trout sem fyrir löngu er orðin ein af testamentum fluguveiðinnar. Flugan er augljós samsuða hefðbundinnar votflugu og North Country Spider flugna.

Þessi fluga á sér frænku og það hefur aldrei farið dult. Sú heitir Black Magic Spider og hefur verið eignuð mörgum og trúlega með réttu. Er sem sagt ein þeirra sem margir komu fram með á mismunandi tímum og staðsetningum. Það var síðan upp úr 1967 að enn fleiri flugur sem líktust Black Magic Spider með hæfilegri viðbót úr þessari flugu Frederik Mold komu fram á sjónarsviðið, flestar hnýttar í stíl North Country Spiders.

Fluguna má hvort heldur veiða í straum- eða stöðuvötnum, þykir einföld og meðfærileg fluga og minnir um margt á þekktar gamlar flugur sem enn eru mikið notaðar.

Höfundur: Frederick Mold
Öngull: votfluguöngull 12 – 18, gjarnan úr fínum vír
Þráður: svartur
Búkvöf: koparvír
Búkur: svart silki
Frambúkur: peacock herl
Hringvöf: svört hænufjöður

Febrúarflugur á Instagram

Febrúarflugur eru ekki aðeins á Facebook, þær er einnig að finna á Instagram  og þar hafa margar kunnuglegar flugur komið fram með millumerkinu #februarflugur að undanförnu.

En það hafa einnig komið inn flugur á Instagram sem ekki er að finna í hópinum Febrúarflugur á Facebook. Ef okkur skjátlast ekki þeim mun meira, þá eru tveir aðilar sem aðeins setja inn flugur á Instagram en það eru Instagram notendurnir @arnasonflytying og @flugugram en þeir eru virkilega þess virði að fylgja.

Þær flugur sem finna má á Instagram með millumerkinu #februarflugur eru hér í einu safni í slembiröð: