Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Fluga sem FOS.IS hefur lengi haft í bígerð að birta hér, en alltaf veigrað sér við því vegna óvandaðrar hnýtingar, hér með mynd að láni.

Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Fluga sem FOS.IS hefur lengi haft í bígerð að birta hér, en alltaf veigrað sér við því vegna óvandaðrar hnýtingar, hér með mynd að láni.
Enn og aftur dettur mér Harry Potter í hug, síðast var það þegar ég var spurðum um val á flugustöng, en núna kviknaði þessi tenging hjá mér þegar mér varð fótaskortur á internetinu og lenti á myndbandi þar sem hönnuður hjá þekktu fyrirtæki kynnti byltingarkennda nýja flugustöng. Svona meðal annarra orða, þá er eins og stangarframleiðendur séu sífellt óánægðir með veiðisamfélagið, það er alltaf eitthvað byltingarkennt (e: revolutionary) á leiðinni frá þeim.
Þessi umrædda byltingarkennda stöng átti að vera með innbyggða skriðvörn, svona eins og flestir bílar í dag, sem átti að koma í veg fyrir að toppur stangarinnar leitaði til annarar hvorrar hliðar í kastinu með þeim afleiðingum að línunni skrikar fótur og sveigir frá beinni línu. Þessi hegðun er vel þekkt þegar hleðsla neðri hluta stangarinnar lendir í toppstykkinu með þeim afleiðingum að toppurinn fer að víbra í láréttu plani, sveigir til hliðanna.
Örvæntið ekki, þið þurfið ekkert að hlaupa og kaupa ykkur nýja stöng með skriðvörn, þ.e.a.s. ef þið eigið hana ekki nú þegar, því það er til gamalt og gott ráð við þessu. Með smá æfingu er hægt að vinna gegn þessari hegðun. Þegar þú leggur af stað í kast og verður var við að stönginn er mögulega ofhlaðin, þá getur þú, rétt áður en þú stoppar í framkastinu, snúið lítillega en snöggt upp á stöngina um örfáar gráður, þetta tekur hliðarvíbringinn úr toppstykkinu. Það sem þú þarft að læra er að finna hve margar gráður þú átt að snúa upp á stöngina til að vinna á móti ofhleðslunni, það er afar misjafnt eftir stífleika og gerð stanga hve margar gráðurnar eru.
Til að setja þetta í samhengi við annað sem ég hef nefnt hér á síðunni, þá er þetta snaggaraleg útfærsla á s.k. sveigkasti (e: curve cast) sem nota má til að koma flugunni á bak við hindrun, svo sem stein eða girðingarstaur úti í vatni sem eru ótrúlega margir á Íslandi.
Í mörg ár hef ég verið að hamast við að byggja upp tilfinningar gagnvart flugustöngunum mínum. Ég þarf ekkert að eiga stöng lengi til að fá á tilfinninguna hvort mér líki hún eða ekki, þannig að það er ekki það sem ég er að byggja upp. Nei, en ég þarf stundum langan tíma til að fá það á tilfinninguna hvernig stöngin er að hlaða sig og hvenær hún hefur náð æskilegri eða of mikilli hleðslu.
Að finna er afar algengt orð í allri umræðu um flugukast og sumum finnst beinlínis óþægilegt að finna hvort stöng hefur hlaðið sig í kastinu á meðan aðrir stóla á að stöngin svari spurningu handarinnar um hleðslu í gegnum gripið. Síðastliðinn vetur lenti ég á netspjalli (hópspjall) þar sem flugukastkennari sat fyrir svörum og hann var harður á því að bestu flugukastararnir finni ekkert í kasthendinni hvernig stönginni líður með hleðsluna, góð hleðsla og hröðun stangarinnar er svo fullkomin að stöng og hendi renni saman í eitt og skiptist ekkert á tilfinningum.
Í mín eyru hljómaði þetta eins og útópía, eitthvað afar fjarlægt sem ég ætti trúlega aldrei eftir að ná eða upplifa, en svo voraði, bæði á dagatalinu og í sálinni og ég fór í veiði. Þá gerðist það að nýleg stöng sem ég hef tekið ákveðnu ástfóstri við, hætti einfaldlega að láta mig vita hvenær henni líkaði hleðslan, það eina sem hún tjáði mér var hvenær línan væri nærri búin að rétta úr sér, hvenær ég ætti að stoppa og ef ég gerði eitthvað svo vitlaust að hún gat ekki orða bundist. Kannski hafa fleiri stangir hagað sér svona, ég bara ekki tekið eftir því. Það hefur hvarflað að mér að eftir þetta netspjall hafi ég verið meira meðvitaður um gott samband mitt við flugustöngina, ef allt er í lagi, þá fær maður ekki skilaboð. Auðvitað ætti þetta að vera svona, maður á bara að fá villuboðin, ekki sífelldar tilkynningar um að allt sé í lagi.
Að loknum tíundu Febrúarflugunum er FOS efst í huga þær frábæru undirtektir sem þetta litla hugarfóstur hefur fengið meðal hnýtara og áhugafólks um flugur og fluguhnýtingar í ár og á liðnum árum. Ef bókhaldið stemmir, þá eru flugurnar þessi 10 ár komnar í 7.566 sem er ekkert smáræði.
Í ár tókum tæplega 1.500 aðilar þátt með því að fylgjast með á Facebook og/eða á Instagram, auk þeirra fjölmörgu sem heimsóttu myndasafn Febrúarflugna á FOS.IS í mánuðinum. Að þessu sinni komu 1.140 flugur fram, þökk sé þeim 185 hnýturum sem lögðu flugur sínar á borð fyrir áhugasama.
Það lætur nærri að okkur hafi verið gert kleift að veita um fjórðungi hnýtara viðurkenningarvott fyrir þeirra framlag, þökk sé styrktaraðilum okkar sem létu ekki sitt eftir liggja, nú sem endranær. Nöfn heppinna hnýtara hafa verið birt á Febrúarflugum og eru þeir beðnir um að snúa sér til styrktaraðila átaksins og vitja eða virkja viðurkenningar sínar, nema annað sé sérstaklega tekið fram.
Til ykkar allra, kærar þakkir og vonandi sjá sem flestir sér fært að taka þátt í Febrúarflugum 2024.
Ný fluga hefur verið sett inn á Flugur – uppskriftir : Það ber ekki á öðru, laxafluga inn á FOS.IS Að vísu ætluð í urriða, hnýtt eftir fyrirmynd sem sást í boxi afturbata laxveiðimanns á bökkum urriðaár hér um árið.
Þann 1. mars mun FOS draga út nöfn 22ja heppinna hnýtara sem fá viðurkenningu frá styrktaraðilum okkar fyrir þátttökuna í Febrúarflugum þetta árið.
Veglegir styrkir velunnara okkar hafa í gegnum árin gert okkur kleyft að gauka glaðningi að hópi hnýtara sem árlega hafa verið dregnir úr hópi þeirra sem setja inn flugur í átakið og kunnum við styrktaraðilum okkar bestu þakkir fyrir stuðninginn.