1. desember

Það bar aldeilis vel í veiði í dag, fullur silungapoki með 24 vandlega númeruðum pökkum í. Pakki #1 var frá sveini sem kallar sig Rugludallur og í honum voru þessar líka fínu taumaklippur sem mér sýnist vera úr byssustáli, lífstíðareign.

Þankar um liti

Hverjum hefði dottið í hug að setja saman orðalista yfir liti á velsku, gelísku og írsku, öðrum en þeim sem hefur sérstakt dálæti á fluguhnýtingum? Eflaust einhverjum málfræðingi en það er ég ekki. Það er ógrynni af flugum sem eiga ættir að rekja til Skotlands, Wales og Írlands. Í upprunalegu lýsingum þessara flugna leynast oft litaheiti sem erfitt er að ráða í. Þau eru augljóslega ekki ensk að uppruna og er þá nærtækast að leita í önnur tungumál.

Ástæðan fyrir þessu grúski mínu var afskaplega einföld. Ég var að leita að uppruna og réttri merkingu orðsins blae sbr. heiti á flugu sem flestir veiðimenn þekkja mæta vel Blae and Black. Það sem ég taldi einfaldlega misritun á orðinu blae þar sem það var ritað blea reyndist þó mögulegar eiga sér aðra skýringu. Ein tilgáta sem ég rakst á tengist vatninu Blea sem er skammt frá High Street (fjall) í Lake District á norðvestur Englandi.

Blea – Mynd: © Mick Knapton

Þannig að ég ausi út ónauðsynlegri vitneskju, þá er Blea eitt fárra vatna á Englandi sem ber svipmót af gígvötnum á Íslandi. Vatnið varð nú samt ekki til við eldgos, heldur við það að ísaldarskriðjökull dagaði þarna uppi þegar ísöld hopaði þaðan fyrir um 15.000 árum síðan. Vatnið er í raun jökullón og það sem er útfall þess í dag var að öllum líkindum ós þess við sjó um tíma. Það sem er e.t.v. merkilegast við þetta vatn er að þar er urriði og þar hafa margir veiðimenn veitt á flugu sem þeir hafa, mögulegar í gráglettni sinni við Skota, nefnt Blea and Black og er nákvæmlega sú sama og Blae and Black.

En aftur að þessu með litina, ég lagðist sem sagt í grúsk og úr varð listi þó nokkurra orða sem líktist orðabók. Þá greip um sig einhver þráhyggja, sem á sér eflaust einhverja skammstöfun, og ég settist niður nokkur kvöld (reyndar þó nokkur) og kláraði 450 orða- og hugtakalista sem ég hef verið að safna í síðustu árin. Það voru að vísu til tveir aðskildir orðalistar hér á FOS.IS en nú er listinn aðeins einn og fékk hann hið hógværa heiti: Alfræðiorðalisti og inniheldur orð og hugtök sem tengjast stangveiði, flugum, fluguhnýtingum og hnýtingarefni.

Í hallæri

Stundum þarf ekki mikið til að gleðja lítinn. Eins og svo oft á vetrum þá rennir maður í gegnum áhugaverðar blaðagreinar sem maður hefur sett á ís yfir sumarið. Sum sumur má maður bara ekkert vera að því að lesa einhverjar blaðagreinar og þá er gott að geyma þær til rólegri vetrarmánuða.

Umrædd grein fjallaði um vinsælustu viðbrögð veiðimanna þegar ekkert líf er sjáanlegt á vatninu. Þetta var svona klassísk grein þar sem 10 ‚nafntogaðir‘ veiðimenn sögðu frá og allir höfðu þeir rétt fyrir sér. Ég satt best að segja elska að lesa svona greinar, maður fær svo endalaust margar hugmyndir að lausnum að maður man enga þeirra þegar virkilega þörf er á að breyta út frá vananum, það gefur því augaleið að maður dettur alltaf í sama farið.

Þegar ekkert er að gerast, ekkert klak og engar uppitökur, þá dett ég yfirleitt í boxið í hægri brjóstvasanum þar sem Nobblerarnir liggja og kúra sig, þ.e. þegar ég þykist vita að urriði sé á ferðinni. Trúlega situr í mér einhver eldgömul reynsla þar sem Nobbler virkaði þegar allt annað brást og þess vegna leita ég í þetta box. Það ætti að vera farið að síast inn hjá lesendum að ég veiði alls ekki stóra fiska með stórum flugum. Ég á þær samt, en uppáhalds stærðin mín af Nobbler er #10, næst vinsælastur er #12 og það er ekki fyrr en fullreynt er, sem kemur ótrúlega oft fyrir, að ég fikra mig upp í stærð í stað þess að smækka.

Áður en lengra er haldið þá kemur hér smá sögustund. Þegar ég nefni fluguna Nobbler, þá á ég eiginlega við allar flugur sem skarta marabou skotti, alveg sama hvort þær eru af ætt Damsel, Woolly Bugger, Knopfler eða Humungus, já eða Dog Nobbler.

Í gegnum tíðina hafa þessir Nobblerar verið þyngdir, sumir alveg ógnar þungir með haus í yfirstærð og undir lokkandi búknum hefur leynst blý- eða tungsten þannig að flugan í heild sinni vegur gott betur en 220 cal byssukúla eins og hann Winchester karlinn setti á markað árið 1935. Ég viðurkenni fúslega að ég þurfti að fletta þessu upp, ég hef ekki hundsvita á byssum eða byssukúlum, en þessi kúla er víst rétt innan við 4 gr.* Þessi 4 gr og gott betur en það er þekkt þyngd á Nobbler hér á Íslandi og fékkst hér um árið í verslun og var sér-merkt sem Veiðivatna útgáfa. Eftir eitt sumar fékk hún viðurnefni eins og Stangarbrjótur, Urriðarotarinn, Smellur og skellur og Sökkarinn. Sjálfur eignaðist ég svona flugu og réð ekkert við hana, sem var kannski eins gott því ég lagði henni og hef ekki notað síðan.

 

Krúttmolarnir mínir eru ekki svona þungir, þeir eru í raun laufléttir miðað við marga sem ég hef séð þó þeir hafi verið mun léttari heldur en Stangarbrjóturinn. Ég geri mér fulla grein fyrir því að stundum þarf maður að koma þessum elskum niður, en þá nota ég einfaldlega intermediate línu eða hæg-sökkvandi í stað þess að velja þunga útgáfu. Ég er einlægur aðdáandi flugna sem hægt er að nota á marga mismunandi vegu. Stuttur og léttur Nobbler á flotlínu getur alveg eins líkt eftir skorkvikindi rétt undir yfirborðinu eins og hornsíli að skjótast á milli steina á grunnu vatni. Skipta um línu eða lengja í taum, þá getur hann líkt eftir allt öðru skorkvikindi sem lúsast eftir botninum, löturhægt eða með kippum.

Hver og einn veiðimaður á sér væntanlega einhverja svona hallæris flugu sem hann grípur til þegar ekkert er að gerast, mín er Nobbler.

*) Eins og fram kemur í greininni, hef ég ekki nokkurt einasta vit á byssum og byssukúlum, en bý svo vel að eiga hugljúfan vin sem benti mér á að ég hefði ruglað saman grain og grömmum í greininni. Hann Winchester karlinn mældi víst kúlurnar sínar 30 – 40 grain sem gera 3 – 4 grömm. Leiðréttist það hér með.

Árórugarn

Þær eru ófáar flugurnar sem hafa orðið til á Íslandi sem innihalda árórugarn. En hvað er þetta árórugarn eiginlega? Mér skilst að á Íslandi séu þekktustu tegundirnar DMC og Anchor. Sjálfur hef ég laumast inn í Rokku í Fjarðarkaupum og staðið eins og glópur fyrir framan allt úrvalið af DMC sem þar er að finna. Hefðbundið árórugarn er ekki unnið úr ull, heldur bómull ólíkt því sem margir halda og það fæst í nær óteljandi litum og litaafbrigðum og það eru ekki allir hnýtarar sem vita að garnið er ekki aðeins til sem hefðbundið matt eða hálfgljáandi, það er einnig til með málmgljáa (metalic) og í útfjólubláum litum (UV) sem kveikir e.t.v. einhverjar hugmyndir um notagildi þess í hnýtingar.

Algengasta tegund árórugarns er 6 þátta (flos) og það er tiltölulega auðvelt að rekja það í sundur til að ná æskilegum sverleika í flugu. Það er einnig til fíngerðara en kallast þá perlugarn (pearl). Hvoru tveggja garnið er sérstaklega slitsterkt og í mínum boxum leynast nokkrar flugur úr árórugarni sem þurft hafa að feta erfiða stigu vatnaveiðinnar með mér en lifað það ágætlega af. Enn hef ég ekki tekið eftir því að liturinn í garninu dofni, hvorki fyrir áhrif sólar eða vatns þannig að ég held áfram að nota það í ýmsar flugur.

Nokkrar af þeim flugum sem ég trúi að höfundar þeirra hafi upprunalega notað árórugarn í, leiðréttið mig hver sem betur veit, eru meðal annars; Killer, Langskeggur, Bjargvætturinn, Hlíðarvatnsnymfan, Tailor og Burton. Ég þykist hafa lesið það eða heyrt að Viðar Egilsson hafi notað aurórugarn í Watson‘s Fancy púpur og votflugur, þannig að ég hef leyft mér að gera það líka.

Hnýta og nýta krókinn

Í upphaf skyldi endinn skoða og þegar kemur að fluguhnýtingum, þá er krókurinn upphafið. Tómur krókurinn er allt og sumt sem þú hefur fyrir framan þig og yfirleitt er hnýtingarþráðurinn það fyrsta sem snertir krókinn. Ég hef áður birt hér nokkrar greinar um æskileg hlutföll ýmissa flugnagerða, en mér finnst eins og eitthvað hafi vantað í þær greinar, nefnilega hvar og hvernig maður eigi að byrja með hnýtingarþráðinn á krókinum og hvernig sé einfaldast að mæla efnið m.v. krók þannig að það sé í æskilegum hlutföllum.

Byrjum á því einfaldasta, hvar maður byrjar á krókinum og hvert undirbyggingin skuli ná. Það er eignlega alveg sama hvaða flugu ég ætla að hnýta, mér gefst alltaf best að byrja rétt u.þ.b. tvöfaldri augalengd frá endanum. Þá á ég örugglega nóg pláss eftir til að ganga frá skeggi, haus og öðru sem þarf á fluguna. Í raun er þessi staðsetning sú sama og vængur votflugu er festur niður á. Það sem ég merki hér sem enda er í raun þar sem skott votflugu ætti að festast niður.

Krókurinn er í raun hin ágætasta mælistika, mun betri heldur en skífumál eða reglustika einfaldlega vegna þess að krókar eru nær eins misjafnir og framleiðendur þeirra eru margir og mm sem passa á eina tegund, passa hreint ekki á næstu tegund. Sem sagt; til að mæla efni í flugu er best að nota krókinn sem mælistiku.

Ágætt skott á votflugu er því sem næst jafn langt og leggur króksins. Hér er reyndar sýndur 2XL krókur sem oftar er notaður í straumflugu og þá er skottið oft ekki haft nema ½ legglengd króksins.

Skegg á púpu er yfirleitt fest niður rétt aftan við haus flugunnar og er u.þ.b. fjórðungur af legglengd króks.

Skegg á votflugu er því sem næst legglengd króks, þó aldrei styttra en svo að það snerti ekki öngulbroddinn.

Skegg og straumflugu er töluvert lengra heldur en á votflugu, það lætur nærri að það ætti að snerta bug króksins.

Það má einnig nota krókinn til að mæla lengd vængja á flugur, en þá koma ýmsir fyrirvara um tegundir flugna að málinu og oft verður maður að bæta verulega í eða draga verulega frá.

Vængur votflugu er yfirleitt örlítið lengri en leggur króksins. Mér hefur reynst ágætlega að miða við lengdina frá auga og aftur að agnhaldi og festa vænginn niður þétt við haus flugunnar.

Vængur straumflugu getur verið allt að tvöföld lengd leggjar, yfirleitt þó aldrei styttri en sem nemur 1 ½ legglengd.

Veiðivötn 2020 – IV hluti

Þá er komið að síðustu greininni sem unnin verður upp úr skoðanakönnun okkar um Veiðivötn 2020. Veður og veðurfar er veiðimönnum sérstaklega hugleikið og því þótti við hæfi að fá mat veiðimanna á veðrinu í Vötnunum s.l. sumar. Eins og aðrir svaröguleikar sem gefnir voru upp, þá voru þeir sem tengdust veðrinu sniðnir að huglægu mati veiðimanna, ekki var beðið um vindstig, sólarstundir eða hitatölur.

Til samanburðar við svör veiðimanna eru hér birtar upplýsingar sem unnar hafa verið úr veðurathugunum frá opnun stangaveiðitímabilsins þann 18. júní og fram til loka þess 21. ágúst. Vinsamlegast athugið að þessar upplýsingar eru einskorðaðar við veðurtölur frá kl. kl. 08:00 til kl.23:00 þannig að þær ná aðeins til þess tíma sem veiðimenn eru alla jafna á ferli í Vötnunum.

Eins og sjá má var meirihluti veiðimanna (65%) á því að lofthiti hafi verið svipaður í ár eins og undanfarin ár. Álíka hlutfall var á milli þeirra sem töldu það hafa verið hlýrra eða kaldara heldur en undafarin ár og það hafa greinilega einhverji 10 lent í töluverðum kulda og aldrei upplifað annað eins í Vötnunu (2%).

Hér að neðan má sjá hitatölurnar í Vötnunum eins og þær voru skráðar í veðurathugunum og hefðu átt að koma við skinn veiðimanna frá kl.8:00 til 23:00 á stangaveiðitímanum:

Þegar meðaltalshiti júní, júlí og ágúst fyrir fimm ár er reiknað út frá veðurathugunum, kemur í ljós að hitastigið umrædda mánuði í sumar var í raun undir meðaltali áranna 2016 til 2019 sem er 8,06 °C en nokkru hlýrra heldur en árin 2017 og 2018.

Til gamans var spurt um mat veiðimanna á sólarstundum í sumar sem leið. Hvort kom á undan, eggið eða hænana í þessu tilfelli er erfitt að segja, en það var eftirtektarverð fylgni á milli þeirra sem svöruðu því til að það hefði verið glampandi sól eða heiðskírt flesta daga og þeirra sem veiddu mjög vel eða gerður góða veiði. Til gaman var afstaða annarra sem voru í Vötnunum á sama tíma athuguð og þá kom í ljós að þeir sem voru almennt með lélega eða slaka veiði, voru á þungbúnari veiðistöðum. Það skildi þó aldrei vera að afli hafi áhrif á viðhorf manna til veðurs eða þá öfugt?

Mat veiðimanna á vindi og vindstyrk er nokkuð sem hægt er að bera saman við veðurathugnir og þar verður hver og einn að staðsetja sinn tíma í Veiðivötnum því ekki var farið fram á nákvæma tímasetningu veiðiferða í skoðanakönnuninni.

Það má geta sér þess til að þeir sem upplifðu veðrið sem fárveður hafi lent í einhverjum þeirra 5 toppa sem vindmælirinn setti í tölu yfir 20 m/sek. Annars virðist vindur hafa verið nokkuð spakur að jafnaði, en vissulega gerði strekking inn á milli. Áberandi vindakaflar eru í vikum 25. 27. 29. 31. og 33. þar sem meðalvindur var rétt undir eða náði yfir 10 m/sek.

Ekki var sérstaklega spurt um úrkomu í skoðanakönnuninni, en oft hefur nú sést meiri útkoma í Vötnunum heldur en þetta á liðnum árum. Einhverjir hafa þó eflaust vöknað eitthvað í úrhellinu um miðja 29. viku og rigningakaflanum sem stóð í rúma viku frá lokum 31. vikur og út 32. viku.

Því miður eru mælingar á vatnshita í Veiðivötnum ekki tiltækar og því lítin samanburð að hafa við mat veiðimanna á hitastigi vatnanna. Það sem réð því að þessi spurning var höfð með í könnuninni voru þær getgátur að vötnin hefðu verið kaldari í sumar en oft áður og því leitaði fiskurinn meira út í dýpið.

Miðað við álit veiðimanna hér að ofan, þá er skýringa á breyttum aflabrögðum ekki að leita í lakari vatnshita. En þetta er náttúrulega ekki hávísindaleg könnun, meira í gamni gerð og vonandi hafa veiðimenn haft gaman og mögulega eitthvert gagn af því að rýna í niðurstöðurnar.

Kærar þakkir, allir 222 sem tóku þátt í þessari könnun, hver veit nema maður rekist á einhvern ykkar næsta sumar í Vötnunum. Ég er í það minnsta að fara aftur og ég ætla að taka með mér heilsökkvandi línu á flugustöngina, mér sýnist nefnilega að þeir sem veiddu djúpt hafi almennt verið sáttir við sitt og það var greinilega betra veður á þá líka. Ef eitthvað er að marka valfrjáls skilaboð sem svarendur settu inn, þá eru veiðimenn almennt harðákveðnir í að fara aftur í vötnin næsta sumar, eða eins og einn sagði; Það þarf meira til en eitt dapurt ár til að ég hætti að fara.

Veiðivötn 2020 – III hluti

Þegar litið er til agns veiðimanna í Veiðivötnum, þá hefur sú þjóðsaga verið lífseig að þar séu allir bakkar morandi í útvötnuðum ánamaðki. Eins og veiðimenn sjálfir vita, þá er þetta fjarri sanni og ef eitthvað er að marka niðurstöður þessarar könnunar, þá er það e.t.v. að ánamaðurinn er víkjandi í Vötnunum og veiðimenn eru í auknu mæli að smakka á öllu agni, ef svo mætti að orði komast.

Af þeim sem merktu við að hafa notað maðk (82 veiðimenn), voru aðeins 4% sem notuðu hann eingöngu sem er litlu minna hlutfall en þeir sem eingöngu veiddu á aðra breitu eða spún, en þeir voru að vísu töluvert fleiri. Maðkurinn virðist í mörgum tilfellum vera þriðja val veiðimanna sem veiddu á annað agn.

Maðkur sem agn

Það voru 118 veiðimenn sem merktu við spúnaveiði og hlutfall þeirra sem notuðu hann eingöngu var 5%.

Spúnn sem agn

Þeir sem sögðust hafa notað sára, síld eða makríl (121 svör), voru 6% sem notuðu hana eingöngu.

Sári, síld eða makríll sem agn

Hlutfall þeirra sem notuðu ofangreint agn eingöngu var mjög svipað, 4 – 6% svarenda. Þeir sem notuðu flugu skáru sig verulega úr. Af þeim 174 sem merktu við að hafa notað flugu, voru 34% sem notuðu hana eingöngu.

Fluga sem agn

Dreifing notkunar agns var annars nokkuð mikil, ef flugan er undanskilin. Litakóðarnir á myndinni hér að neðan gefa til kynna hvað agn var tölulega hæst í hverri tíðni notkunar (grænt kom oftast fyrir, gult sjaldnast):

Allt agn – fjöldi svara pr. tíðni

Kemur þá að aflatölum miðað við agn sem helst var notað. Byrjum á þeim sem gerðu mjög góða veiði, aldrei betri. Hér er skiptingin afar sérstök, spúnninn er með 40% og svo skiptir annað agn með sér restinni. Til glöggvunar má nefna það að þessir veiðimenn veiddu helst á miðlungs dýpi eða djúpt, sjá fyrstu greinina um niðurstöður þessarar könnunar.

Agn þeirra sem veiddu mjög vel

Þeir sem gerðu góða veiði sem hefði þó mátt vera betri voru aftur á móti langsamlega flestir að nota flugu:

Agn þeirra sem veiddu vel, þó hún hefði mátt vera betri

Þeir sem gerðu góða veiði og voru sátti við sitt, notuðu sömuleiðis helst flugu, þó ekki jafn afgerandi:

Agn þeirra sem voru sáttir við sitt

Þegar horft er til þeirra sem gerðu slaka veiði, sem voru í raun 43% veiðimanna, þá notuðu þeir helst flugu og skiptu öðru agni svipað niður og hópurinn hér að ofan:

Agn þeirra sem gerðu slaka veiði

Þeir sem skarðastan hlut báru frá borði, veiddu sömuleiðis mest á flugu:

Agn þeirra sem veiddu verst

Hvaða lærdóm veiðimenn geti tekið út úr þessum tölum er eflaust misjafnt eftir sjónarhorni hvers og eins. Fyrir mér er nokkuð mikil fylgni í agni eftir aflabrögðum, ef undan er skilinn sá hópur sem gerði einna bestu veiðina. Þar verður væntanlega að taka með í reikninginn að þann hóp skipuðu fæstir veiðimenn og dreifing agns var nokkuð sérstök, spúnninn þó vinsælastur. Á milli annarra viðmiðunarhópa er töluverð fylgni á milli mismunandi agns og ekki að sjá að það ráði miklu um aflabrögð.

Fjórða og síðasta greinin í þessari samantekt kemur svo hér á síðuna innan skamms og þá kíkjum við fyrst á vinsælasta umræðuefni Íslendinga, veðrið.

Spegill

Þegar ég fæ að skyggnast í flugubox annarra veiðimanna fer stundum af stað einhver einkennilegur kokteill af tilfinningum innra með mér. Oft sé ég vel skipulagt box, öllum flugum raðað upp eftir greinilegu skipulagi og hvergi einhver óboðinn gestur í röðinni. Þá verður mér hugsað til þeirra sem leynast í mínum vösum, oftast kaos með lýtur engu skipulagi. Svo er það þessi tilfinning sem ég finn fyrir þegar hver einasta fluga í boxinu er nákvæm eftirlíking þeirrar næstu, hver fluga í þremur eða fjórum stærðum o.s.frv.

Boxið mitt er hreint ekki þannig að hver einasta fluga sé nákvæmlega eins og systir hennar sem er þarna einhvers staðar innan um allar hinar. Það kemur hreint ekki oft fyrir að úr minni þvingu fæðist eineggja tví-, þrí,- eða fjórburar, sérstaklega ekki ef heilt sumar líður á milli þess að ég hnýti umrædda flugu. Það hefur alveg komið fyrir að ég hef verið í ágætri veiði, svo trosnar flugan eða ég glata henni með einhverjum grunsamlegum hætti og verð að seilast í boxið eftir annarri eins. Einmitt, hún ætti að vera eins, en er það ekki alveg. Kannski er skottið aðeins styttra, vængurinn annar eða skeggið miklu lengra. Fyrir bragðið hreyfist flugan með öðrum hætti í vatninu og ég veiði ekki neitt á númer tvö.

Svo er það sem var sagt við mig eitt sinn; Eins flugur bera vott um öguð vinnubrögð. Þetta var náttúrulega smá skens á mig og flugurnar mínar, en ég reyndi að kjafta mig út úr þessu með því að nefna fjölbreytileika náttúrunnar og benti á þróunarkenningu Darwins. Þessi útúrsnúningur þótti ekki merkilegur og var ekki virtur viðlits. Auðvitað vissi ég að þetta var alveg satt, ég ætlaði alltaf að hnýta flugurnar allar eins, en svo brast eitthvað í höndunum á mér og ég þurfti að grípa til þess að skrökva einhverju í flugunni til að redda málunum.

Að vísu er það svo að þegar ég hnýti hefðbundinn skammt af tiltekinni flugu að vetri, þá á ég það alveg til að efna niður í þær allar áður en ég byrja að hnýta, þá verða þær oftar en ekki nærri allar eins og ég verð að viðurkenna að þær taka sig miklu betur út í geymsluboxinu. Næsta skref er að hætta að framkvæma einhverjar skítareddingar ef eitthvað klikkar, rekja frekar upp eða þá bæta nýrri flugu í hnýtingarröðina. Svo er loka skrefið sem kemur e.t.v. síðar, halda boxunum í vösunum mínum svolítið snyrtilegri næsta sumar.

Veiðivötn 2020 – II hluti

Það væri ekki veiðin ef ekki væru vötnin og fiskurinn. Þegar FOS.IS setti þessa könnun af stað var leynt og ljóst verið að leita að því hvort veiðin hefði færst eitthvað til, þ.e. hvar þessir 18.336 fiskar hefðu fengist og þá ekki endilega í hvaða vötnum, heldur hvar í þeim og hvaða brögðum veiðimenn beittu til að ná þeim. Upplýsingar um veiðitölur í einstaka vötnum liggja fyrir á heimasíðu Veiðivatna.

Veiðimenn eiga sér oft sína uppáhaldsstaði, þegar þeir staðir bregðast þá leita margir á önnur mið, prófa nýja staði og jafnvel önnur vötn heldur en þeir heimsækja alla jafna. Aðrir sitja bara sem fastast á sínum gömlu, góðu stöðum og bíða þess að fiskurinn komi í kastfæri. Í þessari skoðanakönnun var gerð tilraun til þess að kortleggja hvar veiðimenn hefðu fengið fisk og hve margir hafi farið fisklausir heim úr þeim vötnum sem þeir prófuðu.

Alls bárust 1.519 svör frá 222 veiðimönnum undir þessum lið í könnuninni. Fjöldi svara fyrir hvert vatn var vitaskuld mismunandi, þau eru jú mis vinsæl vötnin í Veiðivötnum. Hér að neðan má sjá niðurstöðurnar úr þessum lið könnunarinnar. Í fyrrihlutanum eru tölurnar sá fjöldi svara sem var á bak við hvern valkost í vötnunum.

ARNARPOLLUR – 72 SVÖR
BREIÐAVATN – 73 SVÖR
ESKIVATN – 47 SVÖR
GRÆNAVATN – 129 SVÖR
HRAUNVÖTN – 161 SVÖR
KRÓKSPOLLUR – 22 SVÖR
KVÍSLARVATN – 34 SVÖR
KVÍSLARVATNSGÍGUR – 38 SVÖR
LANGAVATN – 76 SVÖR
LITLA-BREIÐAVATN – 50 SVÖR
LITLA-FOSSVATN – 55 SVÖR
LITLA-SKÁLAVATN – 58 SVÖR
LITLISJÓR – 189 SVÖR
NÝJAVATN – 55 SVÖR
ÓNEFNDAVATN – 58 SVÖR
ÓNÝTAVATN – 66 SVÖR
ÓNÝTAVATN-FREMRA – 40 SVÖR
PYTTLUR – 40 SVÖR
SKÁLAVATN – 66 SVÖR
SKYGGNISVATN – 27 SVÖR
SNJÓÖLDUVATN – 71 SVAR
STÓRA-FOSSVATN – 102 SVÖR

Þegar þessar tölur eru skoðaðar, þá kemur í ljós að fæstir fóru fisklausir heim úr Litlasjó eða 14% svarenda. Þar á eftir kemur Snjóölduvatn þar sem 17% fóru fisklausir heim. Snjóölduvatn er einnig það vatn þar sem flestir veiddu á nýjum stöðum, eða 11% svarenda. Það kann að skýrast af því að margir lögðu leið sína í vatnið í fyrsta skipti. Í gegnum árin hefur mér virst nokkuð samhengi vera á milli þess að þegar tregt er í Litlasjó, þá sækja menn í Snjóölduvatn til að fá fiðringinn eftir rólegan dag.

Að lokum eru hér samandregin öll svörin. Athugið að hér er um hlutfallstölur að ræða, ekki fjölda:

HLUTFALL SVARA – 1.519 SVÖR

Það kemur ef til vill á óvart hve fastheldnir veiðimenn voru á sína veiðistaði, aðeins 7% veiddu á nýjum stöðum. Að vísu má bæta við einhverjum prósentustigum þeirra sem veiddu bæði á sömu stöðum og einhverjum nýjum, en það er áberandi að 32% veiðimanna héldu sig á kunnuglegum slóðum. Vissulega er hlutfall þeirra sem ekki fengu fisk nokkuð hátt (42%).

Ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem veiddu á annað borð, þá eru þeir sem veiddu mest á sömu stöðum 55%, þeir sem veiddu á sömu stöðum eða einhverjum nýjum 33% og þeir nýjungagjörnu 12%:

HLUTFALL SVARA AÐ UNDANSKYLDUM ÞEIM SEM EKKI FENGU FISK

Næsta grein um niðurstöður þessarar könnunar kemur hér innan tíðar og þá verður aðeins kíkt á agnið sem veiðimenn notuðu helst í Veiðivötnum árið 2020.

 

Veiðivötn 2020 – I hluti

Töluverðar umræður voru í sumar um gang mála í Veiðivötnum. FOS.IS lék forvitni á að vita hvernig veiðimenn litu til sumarsins í baksýnisspeglinum og setti því skoðanakönnun í gang þann 25.okt. þar sem nokkrar almennar spurningar voru lagðar fram um upplifun veiðimanna í Veiðivötnum í sumar sem leið. Ekki stóð á viðbrögðum og svörum. Alls svöruðu 222 þessari könnun sem opin var í viku og margir hverjir nýttu tækifærið að koma ábendingum og persónulegri sýn á framfæri í frjálsum texta. Það hefur því verið úr miklu efni að moða síðustu vikur og fyrirséð að niðurstöðurnar birtist í nokkrum færslum hér á síðunni.

Eins og tekið var fram í könnuninni, er hér ekki um hávísindalega könnun að ræða og því kunna einhver viðmið að hafa komið þátttakendum spánskt fyrir sjónir, en vonandi skýrast þau þegar niðurstöðurnar birtast hér.

Það er óumdeilanlegt að stangveiði í Veiðivötnum var dræm í sumar sem leið, alls veiddust 17.570 fiskar á stangveiðitímabilinu, 18.336 þegar stangveiði á netaveiðitímanum hefur verið bætt við. Skv. vef Veiðivatna þarf að leita aftur til áranna 2014 og 2015 til að finna svipaðar veiðitölur. Í könnuninni var spurt um álit manna á hvoru tveggja; aflabrögðum urriða og bleikju. Alls bárust 375 svör við þessum tveimur spurningum og skiptast svör þáttenda sem hér segir:

Skipting svara þeirra 222 sem svöruðu spurningunni um urriðaveiðina voru sem hér segir:

Skipting þeirra 153 svara sem bárust um bleikjuveiðina var sem hér segir:

Sömu tölur í fjölda svarenda talið voru sem hér segir, urriðaveiðin fyrst:

Og bleikjuveiðin:

Þótt yfirgnæfandi fjöldi svarenda hafi ekki riðið feitum hesti úr Veiðivötnum í sumar, þá gerðu 5% svarenda betri veiði en áður, 11% góða veiði þótt hún hafi stundum verið betri og 20% til viðbótar voru sáttir við sitt. 36% svarenda voru því sáttir við aflabrögðin eða meira en það. Nær ómarktaækur munur var á þeim sem skipuðu sér í þessa flokka eftir bleikjuveiði eingöngu (39%) eða urriðaveiði eingöngu (34%). Þó freistast maður til að draga þá ályktun að meiri tíma hafi verið eytt í bleikjuveiði í sumar heldur en undanfarin ár og því hafi fleiri gert sína bestu veiði í bleikjunni hingað til.

Með þessum fyrstu spurningum könnunarinnar voru fengnir 5 viðmiðunarhópar sem notaðir voru til frekari úrvinnslu og aðgreiningar svara. Meðal þess sem tekið var saman var hvar þessir 5 mismunandi hópar hefðu helst sett í fisk í vatninu. Þar sem vísað er til dýpis var viðmið gefið í könnuninni:

  • Á grunnu vatni (minna en 1 metra dýpi)
  • Á miðlungs dýpi (1 – 3 metra dýpi)
  • Djúpt (meira en 3 metra dýpi)

Þeir sem höfðu gert sína bestu veiði (5% svara) töldu sig helst hafa sett í fisk á eftirtöldum svæðum:

Þeir sem gerðu góða veiði, þó hún hafi stundum verið betri (11% svara) náðu fiski helst:

Þeir sem voru þrátt fyrir allt sáttir við sitt (20% svara) fengu fisk helst:

Stærsti hópurinn, þ.e. þeir sem töldu aflabrögðin vera slök og höfðu oft gert betri veiði (43% svara) settu helst í fisk:

Þeir sem reka lestina, í fleiri en einum skilningi, voru þeir sem töldu veiðina beinlínis hafa verið lélega, aldrei verri (21% svara) veiddu helst:

Skv. þessu er nokkuð ljóst að miðlungs dýpið (1 – 3 metrar) og dýpra (meira en 3 metrar) hafa verið gjöfulasta dýpið í sumar og skyldi engan undra:

Síðar í könnuninni var spurt um veiðistaði í þeim vötnum sem svarendur prófuðu í sumar, hvaða agn menn hefðu helst notað o.fl. Svör og niðurstöður þeirra spurninga verða birt hér á FOS.IS í næstu greinum.

Veðurspár

Ekki alls fyrir löngu var gerður skurkur í að breyta aðeins virkni og upplýsingum sem aðgengilegar eru á vötnunum hér á síðunni. Meðal þess sem þarfnaðist lagfæringa voru tenglar á veðurathuganir og verðurspár sem er að finna á síðunum. Áður en endanlega var gengið frá þessu lagði ég smá skoðanakönnun fyrir lesendur síðunnar um þær spásíður sem þeir styddust helst við:

Eins og sjá má þá hafði Veðurstofa Íslands vinninginn með tæpla helming þeirra 189 atkvæða sem voru greidd í þessari könnun. Næst á eftir kom YR.NO með 27% og í þriðja sæti var Blika með 12%. Aðrar veðurspá fengu nokkuð færri atkvæði.

En mér fannst sagan ekki öll sögð þegar hingað var komið og nú tóku við nokkrir dagar þar sem ég kíkti á veðurspánna á helstu spávefjunum fyrir næsta laugardag. Fjórar verðurathuganastöðvar urðu fyrir valinu; Hveravellir, Blönduós, Reykjavík og Kirkjubæjarklaustur (Klaustur). Þetta er náttúrulega ekki vísindaleg úttekt, en gefur e.t.v. einhverja vísbendingu um hver stöðvanna náði að spá þokkalega rétt fyrir laugardeginum. Ég leyfði mér að merkja með bláu letri þá spá á hverjum degi sem næst var veðrinu eins og úr varð á laugardeginum.

Hveravellir Veðurspá 24/8 Veðurspá 26/8 Veðurspá 27/8 Veðurspá 28/8 Veðurathugun 29/8
vedur.is SV2 1mm 7° VSV3 0mm 7° V2 0mm 7° V2 1mm 7° SSV6 0,2mm 7,8°
blika.is S4 0mm 8° S4 0mm 8° S4 0mm 8° S1 0mm 8°
windy.com V2 0mm 2° VSV1 0mm 3° V2 0mm 3° SV1 0,2mm 3°
yr.no SSV6 0,3mm 8° SV3 0,3mm 8° V3 0,1mm 8° SV2 0,1mm 7°
Blönduós Veðurspá 24/8 Veðurspá 26/8 Veðurspá 27/8 Veðurspá 28/8 Veðurathugun 29/8
vedur.is V3 1mm 12° VSV3 1mm 12° VSV4 1mm 11° V3 1mm 11° SV4 0mm 11,3°C
blika.is SV5 0mm 11° SV5 0mm 11° SV5 0mm 11° SV6 0mm 12°
windy.com V3 0,3mm 12° SSV2 0mm 11° SV2 0mm 11° SV2 0mm 10°
yr.no SSV4 0,2mm 9° SV1 0,3mm 10° SSA1 0,2mm 10° S4 0,4mm 10°
Reykjavík Veðurspá 24/8 Veðurspá 26/8 Veðurspá 27/8 Veðurspá 28/8 Veðurathugun 29/8
vedur.is V4 3mm 11° SV2 2mm 11° SV2 1mm 12° SV3 0mm 12° SSV2 0mm 12,5°
blika.is SV2 0mm 11° SA4 0mm 11° SA4 0mm 11° V1 0mm 13°
windy.com V4 0,3mm 11° SV2 0,2mm 10° VSV2 0mm 10° SV3 0,2mm 10°
yr.no VNV3 0,5mm 11° VSV2 0,1mm 11° VSV2 0,2mm 11° SV2 0mm 11°
Kirkjub.klaustur Veðurspá 24/8 Veðurspá 26/8 Veðurspá 27/8 Veðurspá 28/8 Veðurathugun 29/8
vedur.is NV3 0mm 13° NV3 0mm 13° NV6 0mm 13° NV6 0mm 13° NV6 0mm 14,8°
blika.is V2 0mm 13° V2 0mm 13° V2 0mm 13° NV7 0mm 12°
windy.com NV2 0mm 13° NV3 0mm 13° VNV4 0mm 13° NV4 0mm 12°
yr.no NV3 0mm 13° SSA3 0mm 14° VNV4 0mm 13° NV4 0mm 13°

Ef eitthvað er að marka þessa athugun, þá hefur Veðurstofa Íslands vinninginn, þar á eftir Blika og fast á hæla hennar er YR.NO  Þetta rímar því ágætlega við niðurstöðu könnunarinnar sem lögð var fyrir lesendur FOS.IS

Hlutfall 8 : 16
Hlutfall 5 : 16
Hlutfall 4 : 16
Hlutfall 1 : 16

 

Að veiða marabou

Nei, ég ætla ekki að skrifa um skotveiði á friðaðri fuglategund, þ.e. Marabou storki. Flestar marabou fjaðrir sem við notum í flugur í dag eru raunar af hænsfugli eða kalkúna og ég er ekki heldur að tala um að skjóta slíka fugla. Nei, þessi í stað langar mig aðeins að tjá mig um fluguveiði með flugum sem eru með þessu dillandi, skemmtilega skotti sem er gert úr marabou fjöður.

Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að marabou flugur ganga sérstaklega vel í augun á urriða og þá er honum alveg saman hvort flugan heitir Dog Nobbler, Damsel, Woolly Bugger, Humoungus eða eitthvað annað. Það er skottið sem skiptir máli í hans augum.

Flestar eru þessar flugna eru þyngdar með einfaldri kúlu, kúpu eða vaskakeðju sem gerir þeim kleyft að sökkva en það má með einföldum hætti létta þær verulega með því að sleppa kúlu eða annarri þyngingu. Fluguna má veiða með öllum tegundum lína, allt frá floti og niður í hörðustu sökklínur.

Framþung maraboufluga hefur þann eiginleika að hún skoppar svolítið í vatninu þegar inndrátturinn er stilltur á kippi með pásum á billi. Flugan rís á nefinu þegar maður tekur í og sekkur á nefninu í pásunni, það er undir þessum kringumstæðum sem marabouskottið nýtur sín best. Það dillast í takt við inndráttinn og hvetur urriðann til töku. Eins og nærri má geta, þá leikur marabouflugan ágætlega eftir lifandi agni, helst hornsíli eða ungviði annarra tegunda.

Eitt sem ég tók eftir hjá nokkrum veiðimönnum í sumar sem leið, var að þeir nýttu ekki kosti þess að vera með þykkann, frammjókkandi taum þegar þeir voru að veiða þessar þyngdu marabouflugur og oft á tíðum voru þeir með, að því er mér fannst, full langan taum. Til þess að ná fram þessum dillandi áhrifum marabouflugna, þá þarf taumurinn að vera tiltölulega stífur (sver, en þó frammjókkandi) en umfram allt ekki of langur. Of langur taumur verður til þess að þyngd flugan dregur bug á tauminn í pásunni og þá fer of mikið af inndrættinum í það eitt að rétta úr tauminum í stað þess að dilla flugunni. Hvað er of langur taumur? Jú, það er mín reynsla að allt yfir 11 fet er orðið of langt fyrir þyngda marabouflugu í stærð #8 – #4. Svo er það reyndar ótvíræður kostur að vera með hæfilegan taum sem ræður við að flytja aflið í kastinu fram í fluguna þegar maður sleppir henni lausri.

Hvað dó eiginlega hérna?

Á unglingsárum mínum var ekki óalgengt að mamma opnaði hurðina inn í herbergið mitt, fitjaði upp á nefnið og spurði; „Hvað dó eiginlega hérna inni?“ Ég ætla nú ekkert að fjölyrða um það hver svörin voru við þessum athugasemdum, en á endanum kom að því að maður safnaði saman ýmsu sem hafði falið sig undir rúmi, á bak við borð eða undir ofninum, vöðlaði því saman og kom því inn í þvottahús. Það var síðan einhverjum árum síðar að maður stóð sig að því að banka létt á einhverjar dyr á eigin heimili, setja upp mátulegan vandlætingarsvip og spyrja sömu spurningarinnar.

Þvottahúsferðum hefur fækkað verulega á mínu heimili síðustu ár enda hefur meðalaldur heimilisfólks hækkað nokkuð og það er eins og með aldrinum breytist lyktarskyn nokkuð til batnaðar. Það sem áður var lauflétt angan af hollri og góðri hreyfingu á eftir bolta er núna argasta stækja og til þess að lifa af fram á næsta morgun, fer maður sjálfur með óhrein sokkaplögg í þvottinn, svo ég tali ekki um nær- eða undirfatnað eftir veiðiferðir sem ég ætla aðeins að fjalla nánar um hér síðar í vetur.

Einhverjum kann að þykja þetta heldur upplýsandi lýsing á heimilishaldi mínu, en þá er bara um að gera að muna að hér get ég farið eins frjálslega með orð og staðreyndir eins og mér sýnist, ekki þarf allt að vera alveg sannleikanum samkvæmt og heiðra skal orðatiltækið að láta góða sögu aldrei gjalda sannleikans.

Þegar fluguþörf á heimili mínu óx verulega fyrir nokkrum árum fékk ég góðfúslegt leyfi til að innrétta smá skot inn af þvottahúsinu fyrir fluguhnýtingardótið mitt. Vel að merkja, þetta dót er stundum kallað okkar og þá sérstaklega þegar ný fluga lendir á óskalistanum og spurt er; „Vantar okkur nokkuð efnið í þessa?“  Vera mín í þessu skoti og þá sérstaklega nánd við þvottakörfuna hefur stöku sinnum orðið til þess að ég set í þvottavél. Mér leiðist nefnilega að sitja við hnýtingarþvinguna mína með annað en ilminn af hnýtingarefninu og lakkinu fyrir vitum mér. En, á ákveðnum tímapunkti dugði ekki að stinga í vélina, það var einhver bölvaður ónotaþefur í loftinu og hann kom ekki úr þvottakörfunni. Ósjálfrátt spurði ég sjálfan mig; „Hvað dó eiginlega hérna inni?“

Þetta var næstum því heimskuleg spurning. Það sem var dáið þarna inni í skotinu mínu var t.d. heilt andlit af héra, óræður fjöldi af síðum og hnökkum ýmissa erlendra hana og hæna, heilu hamirnir af stríðöldum fuglum, að ógleymdum skottum refa, hjarta og dádýra. Og það sem meira var, uppruni þefsins var úr nokkrum pokum sem geymdu eitthvað af þessu dásemdar efni. Hvernig má það vera að löngu dautt og þurrkað dýr getur látið frá sér þennan þef? Þefurinn var að vísu ekki mikill, en hann var til staðar og hann fór beint í nasirnar á mér. Eftir töluvert sniff upp úr hinum og þessum pokum fannst einn sökudólgur; skott. En það var annar sökudólgur í skotinu mínu, héri sem angaði ekki af páskum.

Nú hófst leitin á netinu, var þetta glatað efni eða mátti bjarga því á einhvern einfaldan máta? Ég var greinilega ekki sá eini sem lenti í svipuðu, þeir voru nokkrir í Kanada og Noregi sem lentu í þessu sama og mér til mikillar ánægju snérist þessi óþefur ekki um rotnun eða myglu. Sökudólgurinn var einfaldlega rakaþétting úr andrúmsloftinu inni í pokunum (já, plastpokar anda) þannig að það eina sem ég þurfti að gera var að lauma einum og einum svona silica poka með efninu og málið var álíka dautt á innan við viku eins og efnið sjálft. Lærdómur? Rakastig í andrúmsloftinu á Íslandi er ekki ósvipað ogí Noregi eða Kanada.

Vetur genginn í garð

Nú er vetur genginn í garð og FOS.IS vaknar af örstuttum dvala um þetta leit líkt og undanfarin ár. Þó rólegt hafi verið á vefnum síðustu vikur, þá hefur verið í nógu að snúast að raða niður efni fyrir veturinn og nokkuð fram á næsta sumar.

Líkt og undanfarin ár verða reglulegar færslur á vefnum í vetur þetta 2 – 3 á viku og reynt að tappa af kollinum nokkrum hugleiðingum sem fengu að gerjast á bakkanum í sumar sem leið. Það vita það eflaust einhverjir að ég reyni að klára allar greinar að hausti sem eiga að birtast yfir veturinn, því yfir veturinn hef ég í ýmsu öðru að snúast heldur en fanga hugsanir niður á blað. Svo verð ég líka að viðurkenna að ef of langur tími líður frá því ég set einhverja hugmynd niður í orð og móta hana í grein, þá veit ég hreint ekki hvert ég var að fara í punktum mínum.

Hliðarskref FOS.IS sem hefur dafnað og stækkað ár, frá ári undanfarin ár verður á sínum stað. Febrúarflugur verða á sínum stað, vonandi með enn skemmtilegra sniði heldur 2020. Það var ekki annað að sjá heldur en formið félli lesendum og þátttakendum í geð, hver veit nema einhverjar nýjungar líti dagsins ljós í febrúar en það er jú allt undir þátttakendum komið. Eins og ástandið er í dag, þá er það ótvíræður kostur að viðburðurinn eigi sér sitt aðalaðsetur á vefnum, ekki er COVID-kvikindið að skemma það að hnýtarar setjist niður heima hjá sér, hnýti nokkrar flugur og smelli inn á hópinn á Facebook.

Undanfarin ár hef ég boðað hefðbundið efnisval á vefnum og það geri ég enn og aftur. Þegar ég lít yfir þær greinar sem ég hef nú tímasett til birtingar, þá virðist vera einhver beinskeyttari tónn í einhverjum þeirra. Það leyfist vonandi líka, ég hef mínar skoðanir á ýmsu sem hefur fengið að gerjast í samfélagi stangveiðinnar á undanförnum árum sem mér sannast sagna hugnast ekki og leyfi mér því að segja það sem mér í brjósti býr. Það verður í það minnst af nógu að taka á vefnum komandi mánuði.

Skoðanakönnun um Veiðivötn

Veiðitölur stangaveiðitímabilsins úr Veiðivötnum gefa til kynna nokkurn samdrátt síðasta sumar. Nú leikur FOS.IS forvitni á að vita hvernig upplifun einstaka veiðimanna af Vötnunum var því upplifun veiðimanna er ekki alltaf sú sama og tölurnar gefa til kynna. Okkur þætti því vænt um að þið sem fóruð í Vötnin í sumar, gæfuð ykkur tíma til að svara smá skoðanakönnun sem við höfum sett upp með því að smella á myndina hér að neðan:

Eins og spurningarnar í könnuninni bera með sér, þá er þetta ekki hávísindaleg könnun en svörin verða væntanlega notuð í smá hugvekju á vefnum og birtist síðar í vetur.

Með fyrirfram þökk fyrir þátttökuna,

Kristján Friðriksson

Hóp 5. september 2020

Góður vinur minn stefnir oft með brjóstið fullt af vonum í veiðiferðir og einmitt þannig leið mér s.l. laugardagsmorgunn þegar við veiðifélagarnir lögðum heiðar að baki og stefndum norður í Húnaþing á vit fyrsta í sumarauka. Það var ekki fiskur sem ég batt helst vonir við, miklu heldur einn svona dag þar sem sumarið og haustið mætast í stillum og fallegu veðri.

Ekki amalegt að taka pásu í svona veðri

Hópið tók á móti okkur í þvílíkri blíðu að maður hafði sig varla í að gára vatnsflötinn við Vaðhvamm, en hvað lætur maður sig ekki hafa þegar veiði er annarsvegar? Með bakpokann fullan af nesti og skjólfatnaði, ef hann mundi nú taka upp á því að kula, töltum við niður að vatninu og komum okkur saman um sitthvora fluguna til að prófa í fyrstu atrennu.

Ég dró hvítan Nobbler, hún einhvern annan, en eftir að ég hafði fengið ágæt viðbrögð við þeim hvíta vorum við bæði með þann hvíta undir. Undirtektirnar voru nokkuð skemmtilegar, ekki stórvaxnar en þeim mun fjölbreyttari. Urriðar, bleikjur og svo þessi tegund sem margir virðast sækjast eftir, lax. Enginn af þeim sem ég náði að narra voru af þeirri stærðargráðunni að ég vildi þá á mína pönnu þannig að veiða og deyða varð ekki ofaná, aðeins valkvætt veiða og sleppa.

Haustið handan við hornið, marglittur farið að reka á fjörur

Eftir að veiðifélagi minn hafði fengið eina þokkalega sjóbleikju sem fyrirfram byrjaði að kitla bragðlaukana, var tekið mjög hressilega í þann hvíta. Snaggaralegri viðureigninni lauk með tvöföldu heljarstökki, sporðadansi miklum og því að taumurinn slitnaði á hnúti. Jæja, það var þá einn flottur á ferðinni í Hópinu með glitrandi varaskraut í munnvikinu og eftir sat veiðifélagi minn með stuttan taum, enga flugu og sárt ennið.

Það var óttalegt kropp sem tók við, tittir og aftur tittir, naumar tökur svo aldrei festist og við vorum orðin heldur vondauf um fjölskyldumáltíð úr Hópinu. Þegar svona er komið, þá ferð maður að gramsa í fluguboxinu, tekur fram hinar og þessar flugur, skiptir og reynir. Ég var kominn í heilan hring, kominn aftur með þann hvíta undir en félagi minn var komin að stórum svörtum Nobbler. Þá var tekið hressilega og ákveðið, látið vita að þarna fór ekki fiskur í undirmálsflokki og strax farið að teygja á línunni með töluverðri frekju. Rétt í þá mund sem bremsan var svo til komin í botn, hljóp einhver flækja í hjólið og þá heyrðist í minni; Eins gott að undirlínan haldi. Ég var nú ekki endilega að trúa því að hann hefði tekið alla línuna út, en þegar ég kíkti yfir öxlina á henni sá ég glitta í undirlínuna og enn tók fiskurinn út af hjólinu.

Til að gera langa sögu stutta, þá laut þessi líka fallegi birtingur í lægra haldi fyrir bremsunni og fumlausum inndrætti. Ljómandi fallegur 51 sm fiskur, silfurgljáandi og sérstaklega vel haldinn. Eftir að hafa náð andanum, dáðst að fiskinum og tekið við háu fimmunni var komið að því að losa þann svarta úr fiskinum. Var þá ekki tvímennt í munnvikinu á þessum líka fallega fiski, þarna voru þeir hlið við hlið; svartur Nobbler og hvítur. Mér varð á orði að þessi fiskur hefði alltaf verið félaga mínum ætlaður.

Svartur og hvítur

Fátt bar til tíðinda hjá okkur eftir þetta, sjálfur setti ég í einn sem óséður var einhversstaðar undir 100 sm, en sá lét svo ófriðlega að honum tókst að losa sig af flugunni og lét ekki sjá sig eftir það. Með kvöldinu tók að kula og hitastigið féll nokkuð snarlega þannig að við tókum okkar hafurtask, nestið hvort hið er nærri búið, og stefndum í náttstað, þokkalega sátt með þennan frábæra dag við Hópið.

Síðasta mynd dagsins
Bleikjur í ferð
3 / 0
Bleikjur alls
6 / 33
Urriðar í ferð
4 / 2
Urriðar alls
87 / 51
Veiðiferðir
23 / 24

Á hálendið undan vindi

Greinarkorn sem birtist í málgagni stangveiðimanna, Veiðimanninum tbl. 204 sem kom út sumarið 2017. Svavar Hávarðarson, blaðamaður fékk í hendurnar texta um vindáttir í veiði, fór um hann fögrum höndum, skreytti og setti í samtalsbúning eins og honum einum er lagið.

Kristján Friðriksson, eigandi FOS.IS og formaður stangaveiðifélagsins Ármanna, segir að bæði austan og vestan við Frón fari stangveiðimenn með þuluna „When the wind‘s in the west, the fish bites the best,“ sem byggir ekki beint undir það sem lagt er upp með í þessu greinarkorni. „Almannarómur hér á landi segir reyndar alveg þveröfuga sögu. Ef einhver vindátt er til þess fallin að halda veiðimönnum innandyra, þá er það væntanlega sú vestlæga. Meira að segja suðaustanáttin með tilheyrandi vætutíð virðist ekki ná að skjóta veiðimönnum eins mikinn skelk í bringu eins og sú vestlæga. “Kristján segir að nokkrir ákveðnir veiðistaðir hafi fengið það orð á sig að vera hnepptir í fjötra ládeyðu þegar vindur er vestlægur. Nægir þar að nefna Þingvallavatn, Hlíðarvatn í Selvogi og Elliðavatn svo einhver dæmi séu nefnd. „Af samtölum mínum við veiðimenn virðist þessi almannarómur ekki aðeins bundinn við sunnan- og vestanvert landið, Norðlendingar og Austfirðingar kannast einnig við þetta í sínum vötnum.

Kristján, sem allir veiðimenn þekkja fyrir ítarleg og vönduð skrif um veiði og allar hennar náttúrur, útskýrir að allt tengist þetta gangi lægða milli Íslands og Grænlands. Landsynningur, eða suðaustanátt sem kemur í kjölfar lægðaskila beri yfirleitt með sér hlýtt loft og stöðugra, og oft á tíðum töluvert rakt. „Útsynningurinn/suðvestanáttin sem á ættir sínar að rekja til kaldari hafsvæða í vestri, dregur aftur á móti með sér óstöðugt loft og við getum átt von á öllum skollanum inni á milli bjartra stunda en helst kólnandi veðurfars. Þetta þekkja veiðimenn og ekki síður fiskurinn. Það er nefnilega ekki svo að aðeins veiðimenn dragi sig í hlé í kjölfar vestanáttarinnar, fiskurinn gerir það líka, mismikið þó,“ segir Kristján. En hér bætir hann verulega við söguna, því inni á hálendi Íslands ber svo við að hiti landsins allt um kring dregur verulega úr áhrifum vestlægra átta.

„Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé ein aðalástæða þess að ég hef í auknum mæli sótt inn á hálendið í sumarveiði, en þetta skemmir ekki fyrir. Þau sumur sem vestanáttin hefur breytt Þingvallavatni í eitt stærsta kastæfingarsvæði landsins hef ég yfirleitt notið veðursældar og ánægjulegra veiðidaga handan Fjallabaks og ekkert skilið í barlómi veiðimanna. Svo rammt hefur kveðið að þessu að heimakærir Sunn- og Vestlendingar hafa vænt mig um ósannsögli þegar ég, á sama tíma og þeir kveinka sér yfir vestanáttinni, hef fagnað hverjum dýrðardeginum á fætur öðrum inni á hálendi og gert góða veiði í samfelldri vestanátt,“ segir Kristján og bætir við að hann geti því alveg tekið undir með nágrönnum okkar í vestri og austri þegar þeir fara með fyrstu línuna í þessari veiðimannavísu:

Wind from the West, fish bite the best.
Wind from the East, fish bite the least.
Wind from the North, do not go forth.
Wind from the South blows bait in their mouth.

Dómadalsvatn 29. ágúst 2020

Ekki er allt búið enn, það eru enn nokkrir urriðar eftir í Dómadalsvatni. Miðað við það hve Dómadalsvatn skrapp hressilega saman síðasta sumar, þ.e. 2019, þá átti ég alveg eins von á einhver afföl hefðu orðið í urriðastofni vatnsins. Veiðitölur sumarsins hafa aftur á móti blásið á þessar áhyggjur mínar og enn gefur vatnið þótt komið sé undir mánaðarmót ágúst – september. Gígurinn í vatninu er trúlega enn dýpri heldur en mig grunaði og getur geymt mjög marga fiska í þurrkatíð.

Dómadalsvatn eins og það leggur sig – smellið fyrir stærri mynd

Að vísu var ekki alveg eins mikið líf með urriðanum á laugardaginn eins og oft áður í sumar. Með enn einni hringferð um vatnið tókst okkur veiðifélögunum þó að særa eina 6 fiska upp, alla vel haldna og flotta fiska, og að þessu sinni tókum við þá við norðaustur og austurbakka vatnsins. Eitthvað hefur lækkað í vatninu á síðustu tveimur vikum, en það er þó langt því frá jafn lítilfjörleg og í fyrra.

Það er aðeins farið að hausta að Fjallabaki, en veðrið um helgina var hreint út sagt frábært og það var talsverð umferð fólks á svæðinu sem nutu þess í botn að sjá landið klæða sig hægt og rólega í litskrúð haustsins. Það var e.t.v. einmitt þessar litabreytingar sem urðu til þess að ég smellti í þessa mynd af fjöllunum þarna í bakgrunninum.

Við bílastæðið í Dómadal er þetta verklega skilti. Einhverjir hafa eflaust furðað sig á þessu skilti, það vísar jú bara beint á Dómadalshálsinn og ekkert vatn að sjá í þá áttina sem örin vísar. Raunar er ekkert Lifrafjallavatn þarna í grennd, ekki einu sinni þótt víðar væri leitað. Fjöllin á efri myndinni heita Lifrarfjöll og vatnið sunnan þeirra heitir Lifrarfjallavatn. Svo rammt hefur kveðið að þessum r-skorti að nafnið Lifrafjöll og Lifrafjallavatn hefur laumað sér inn á nokkur kort og í ýmsan texta.

Þrátt fyrir þennan r-skort, þá er alveg óhætt að fylgja örinni, eftir u.þ.b. 20 mín gang upp og yfir Dómadalshálsinn kemur maður að fallegu Lifrarfjallavatni. Þennan stutta spöl hef ég ætlað mér að taka í sumar, en ekki enn orðið af. Ekki er þó öll nótt úti enn, sjáum til hvort ég láti verða að því áður en vetur gengur í garð.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
3 / 33
Urriðar í ferð
2 / 4
Urriðar alls
83 / 49
Veiðiferðir
22 / 23