Pólska rótin

Pólska rótin að Euro Nymphing á rætur að rekja til áttunda áratugar síðustu aldar þegar Pólverjar tóku til við að þróa og veiða með afar lítilli línu í straumvatni, ef þá einhverri línu yfir höfuð. Þeir notuðu hefðbundnar fluguveiðistangir í stærðum #3 og #5 og taum sem var nokkuð frábrugðinn hefðbundnum taumum.

Árið 1984 kynnti einn af frumkvöðlum þessarar aðferðar, Jozef Jelenzki, nokkrum Tékkneskum landsliðsmönnum einhverjar flugur sem hann notaði með afar sérstakri veiðiaðferð sem Tékkarnir kölluðu stuttlínu tækni. Næstu árin á eftir var mjótt á mununum á milli Pólvera og Tékka í fluguveiðikeppnum. Árið 1989 má segja að þróunarferill Pólsku aðferðarinnar hafi náð ákveðnum tímamótum þegar Wladyslaw Trzebunia vann heimsmeistarakeppnina í fluguveiði sem haldin var í Finnlandi það árið og beitti til þess samsetningu taums sem hann hafði þróað um árabil og gekk lengi vel undir heitinu Pólski taumurinn.

Hvort Wladyslaw eigi hönnunina að hinum eina sanna Pólska taum þori ég ekki að fullyrða, það er líkt með Pólska tauminum og öðrum mannanna verkum, það hafa margir gert tilkall til hans eða það sem líklegra er, margir hafa verið með sömu eða svipaða hugmynd í kollinum á þessum tíma.

eru 1 – 2 fet af 1X glæru fluorocarbon taumaefni sem tengd eru hefðbundinni flugulínu.

eru 2 fet af 2X ljómandi eða lituðu fluorocarbon taumaefni sem virkar þá sem tökuvari.

eru allt að 5 fet af 2X glæru fluorocarbon taumaefni, s.k. leiðari.

eru 2 – 3 fet af 3X glæru fluorocarbon taumaefni sem hnýtt er utan um leiðarann þannig að það geti leikið laust, færst upp og niður eftir leiðaranum.

hnútur á samsetningu leiðaranns og 3X fluorocarbon taumaenda, þessi hnútur er gjarnan nefndur stoppari þannig að renni ekki að flugunni á enda

Þessi lýsing er, í sinni einföldustu mynd sá taumur sem kallaður hefur verið pólski taumurinn. Lengd og ræðst af dýpi þess vatns sem veiða skal.

Hér skal strax leiðrétta gamlan misskilning um Pólsku rótina; það var aldrei veitt með þremur flugum með þessari aðferð. Ástæðan er sára einföld, það var (er?) nefnilega bannað að veiða með fleiri en tveimur flugum í Póllandi.

Það sem vekur athygli við þennan taum er að eiginleg lengd hans er lítið lengri en hefðbundinn fluguveiðitaumur, u.þ.b. 9 fet. En það sem vakti enn meiri athygli og hafði ekki sést áður, var náttúrulega partur ②  Það að nota mislitt eða ljómandi taumaefni sem tökuvara þótti snilld því tökuvarar höfðu jú áhrif á drag en það losnuðu menn við með þessari aðferð. Taumurinn og sú aðferð að láta flugulínuna sjálfa nær aldrei snerta vatnið gerir það að verkum að Pólska aðferðin hentar sérstaklega vel í straumhörðum ám og lækjum sem eru tiltölulega grunnir.

Flugurnar sem Pólverjar notuðu voru töluvert þyngdar og gjarnan vafðar ull. Upprunalega ekki eins straumlínulagaðar og þær sem við sjáum í Euro Nymphing í dag, en mjóslegnar þó. Sú mýta varð fljótlega til að Pólsku flugurnar væru allar ofnar eða heklaðar listaverk, en mér skilst að Pólverjar glotti nú aðeins að því og segi þær flugur hafi meira verið ætlaðar til að selja ferðamönnum heldur en til daglegs brúks.

Evrópska aðferðin

Eins og fram hefur komið hér á síðunni, þá er Euro Nymphing samheiti yfir nokkrar aðferðir við stuttlínu veiði sem eiga það sammerkt að eiga ættir að rekja til Póllands, ég kem að því síðar. Flestar þessar aðferðir eiga það sameiginlegt að þurfa afskaplega lítið á flugulínunni að halda, en það er betra að hafa eitthvað uppá að hlaupa ef fiskurinn tekur og tekur á rás. Hvort það er undir- eða flugulína sem veiðimaðurinn hefur í bakhöndina skiptir að margra mati ekki höfuð máli, því um eiginlegt flugukast er ekki að ræða.

Kastið er sjaldnast lengra en 10 – 15 fet og að því leitinu til og hvað aðferðina varðar, þá minnir hún glettilega mikið á Tenkara. Já, bara svo ég gleymi því ekki, þá er taumaendinn yfirleitt hafður úr fluorocarbon þannig að ekkert hægi á ferð flugunnar niður í vatnsbolinn. Með rennandi vatni og ekki meira úti en 12 – 15 fet gefst ekki langur tími til að koma flugunni niður og því skal öllum brögðum beitt.

Þegar kemur að því að kasta flugunni, þá getur málið vandast örlítið þar sem þú ert ekki með neina flugulínu úti til að hlaða stöngina. Þú þarft fyrst og fremst að beita meiri kröftum en í venjulegu flugukasti til að ná flugunni út. Ekki skemmir að flippa úlnliðnum snaggaralega í kastinu til að auka á hröðunina í framkastinu. Vitaskuld hjálpar það til að flugurnar eru nokkuð þyngdar og ekki mikið vigt í tauminum, þannig að flestir eru snöggir að komast upp á lagið með kastið.

Þegar flugan er komin í vatnið, þá er stöngin haldið tiltölulega hátt og beint út og notuð til að stilla dýptina sem veiða á. Stangartoppurinn er síðan færður yfir vatnsborðinu með sama hraða og straumurinn þannig að flugan hreyfist með eðlilegum hraða. Það getur tekið nokkrar tilraunir að ná nákvæmlega réttum hraða á fluguna m.v. straum því toppurinn ætti alltaf að vera beint yfir flugunni. Ef hann er á undan henni, þá ertu að draga fluguna of hratt. Ef þú ert á eftir flugunni þá missir þú trúlega af fiskinum.

Ef ég man nú allt sem mér var sagt á Euro námskeiðinu s.l. vor, þá á maður að bregðast við minnsta grun um töku. Málið er að með svona beinni tengingu við fluguna þá eru miklu meiri líkur á að finna fyrir þessum 80% af narti fisksins sem maður annars missir af í hefðbundinni fluguveiði.

Þá er bara spurningin hvort ég sé að gleyma einhverju sem var dælt í mig s.l. vor? Eflaust, en þá gæti alveg verið að næstu greinar fylli þar inn í.

Euro

Nei, mér dettur ekki í hug að blanda mér í umræðu um upptöku evrunnar, einhliða, tvíhliða eða á nokkurn annan máta. Ég hef ekki hundsvita á þessum málum, ekkert frekar en meirihluti þjóðarinnar og held mig því alveg til hlés. Því er ekkert mjög ólíkt farið um efnið sem mig langar þó aðeins að fjalla um; Euro Nymphing, en þar er ég ekki einu sinni byrjandi, bara rétt aðeins kynnt mér og smakkað á.

Þegar ég fór að lesa mér til um Euro Nymphing þá fór mig strax að gruna að þetta væri eitthvert bandalag á milli Czech-, Polish-, Spanish- og French nymphing þannig að ég bakkaði aðeins og las mér til um þær aðferðir. Í rauninni hætti ég að skrifa þessa grein og setti hana á salt, en nú hef ég tekið hana úr salti, skolaði af henni eigin misskilning og skrifað upp á nýtt.

Það var alveg eins og mig grunaði, þessi frasi Euro Nymphing er ekkert annað en tilraun til að sjóða saman í eina krukku helstu aðferðum Evrópubúa til að veiða mjög þungar púpur sem festar eru á langan, grannan einþátta taum. Þessar aðferðir komu fyrst fram á sjónarsviðið upp úr 1980 í fluguveiðikeppnum sem mótleikur við hömlur sem settar voru við notkun ýmissa hjálpartækja s.s. tökuvara o.fl. Koll af kolli tóku landsliðin sig til og betrumbættu og aðlöguðu útfærslur vinningsliðs síðasta árs á þessari aðferð og á endanum varð úr það sem Ameríkanar kölluðu einu nafni; European Nymphing eða Modern Nymphing.

Kosturinn við allar þessar aðferðir er að það má í raun nota hefðbundna flugustöng og hjól, en vissulega má ná sér í sérstakar græjur ef áhuginn er brennandi. Einfaldasta útgáfan af græjunum gæti verið hefðbundin, frekar toppmjúka flugustöng #3, 10 fet eða lengri með viðeigandi large arbor hjóli. Í þessari einföldustu uppsetningu er ekki notuð flugulína heldur fyllir þú hjólið næstum því af undirlínu og setur fasta lykkju á endann.

Ef þú vilt alveg endilega nota flugulínu, þá spólar þú einfaldlega minna af undirlínu inn og getur þá valið um tvær útfærslur;

Gömul rennslislína: notast má við rennslislínu af gamalli flotlínu, helst léttri línu #3 eða #4. Þar sem rennslislína er jafn sver alla leið (e: level) skiptir ekki máli hvernig henni er spólað inn á hjólið. Á enda línunnar er gott að setja fasta lykkju ef hún er ekki til staðar.

Euro Nymphing lína: þú getur líka keypt sérhannaða Euro Nymphing línu fyrir þá stöng sem þú hyggst nota, en í fyrstu atrennu er það e.t.v. óþarfi.

Fremst á línuna eða undirlínuna setur þú sérhannaðan Euro taum sem getur verið allt frá 12 fetum og upp í rúmlega 30 fet að lengd eins og sá sem ég lærði að hnýta á námskeiði sem ég fór í s.l. vor.

eru 20 fet af 0X taumaefni sem tengt er flugu- eða undirlínu.

eru 3 fet af 2X taumefni.

eru 3 fet af 3X taumaefni.

eru 3 fet af 4X ljómandi / marglitu fluorocarbon taumaefni, tökuvarinn (e: sighter). Parturinn er tekinn í tvennt og hnýttur saman þannig að tveir góðir stubbar af efni standa út úr hnútinum til að auka sýnileika tökuvarans.

eru 3 fet 5X glæru fluorocarbon taumaefni, taumaendi.

Á milli hluta og er hafður tippahringur (e: tippet ring) þannig að tökuvarinn styttist ekki þegar skipt er um taumaendann.

Uppbygging taums og mögulega aðrir fylgihlutir taka annars mið af því hvaða afbrigði, eða öllu heldur rót Euro Nymphing þú ætlar að nota. Ég fer nánar í ræturnar á næstum vikum og það hvernig maður ber sig að við þessa aðferð sem kölluð hefur verið stuttlínu veiði.

Zebra Midge

Þessi fluga er eignuð Edward (Ted) Welling frá Arizona í Bandaríkjunum og sögð hafa komið fram á sjónarsviðið árið 1996. Það er engin ástæða til að efast um að Ted hafi gefið þessari flugu nafn sitt, en þegar ég sá þessa flugu fyrst, þá hélt ég að hún héti Black, Copper Bead-head og væri íslensk í húð og hár eftir Bjarna R. Jónsson og hafi komið opinberlega fram á sjónarsviðið í þeirri góðu bók Veiðiflugur Íslands árið 1997. Þessum flugum svipar óneytanlega töluvert saman þótt litum kúlu og vírs væri eitthvað víxlað.

Upprunalega var Zebra Midge hnýtt svört og silfruð, en með tíð og tíma hefur litum og afbrigðum hennar fjölgað ört, sumum gefin sérstök heiti en í grunninn eru þetta allt sömu flugurnar;  silfraðar, gylltar eða koparlitaðar í ýmsum litum.

Flugan er gjarnan hnýtt með kúlu í yfirstærð m.v. þumalputtaregluna um stærð kúlu m.v. krók, en eitthvað hefur sú tilhneiging dalað síðustu ár og kúlurnar minnkað eitthvað með tilkomu tungsten kúla.

Höfundur: Ted Welling
Öngull: grupper / emerger #12 – #20
Þráður: svartur
Vöf: silfraður vír
Búkur: þráðurinn
Haus: silfurkúla, gjarnan í yfirstærð m.v. krók

Hér má sjá Tim Flagler hnýta, því sem næst, upprunalega Zebra Midge:

Tenkara – Ameríska leiðin

Ég á svolítið erfitt með að skrifa um Amerískt Tenkara og það hvarflar að mér að þetta sé álíka gáfulegt eins og að ég mundi taka mig til og skrifa um Amerískan fótbolta. Amerískur fótbolti er náttúrulega ekki fótbolti heldur sambland af ruðningi og fótbolta, segi ég sem Evrópubúi. Það sama má segja um Amerískt Tenkara, ég hef takmarkaða þekkingu á þessu afbrigði, en þar kemur á móti að það er jú samsuða af Tenkara og þekktum fluguveiðiaðferðum frá Evrópu, segi ég aftur sem Evrópubúi.

Að öllu gamni slepptu, þá var Tenkara nánast óþekkt utan Japans allt fram til ársins 2009 þegar Daniel Galhardo stofnaði fyrirtækið Tenkara USA og tók til við að aðlaga aðferðina og búnaðinn að því sem hann taldi vestrænan markað móttækilegan fyrir. Svo vel tókst honum til að þeir sem tala um Tenkara í dag eru flestir að vísa til þess sem honum og fylgjendum hans tókst að markaðssetja sem er nokkuð fjarri Japönsku Tenkara.

Amerískar Tenkara stangir eru að öllu jöfnu töluvert lengri en þær Japönsku, algengast að þær séu 12 fet en finnast allt að 16 fetum. Stangirnar eru framleiddar úr sambærilegum efnum og flugustangir í dag, hátæknilegu trefjaplasti og eru yfirleitt telescopic eða samsettar með stálhólkum. Línan er að sama skapi yfirleitt framleidd úr fjölliðuplasti og er að jafnaði höfð 1.5 x stangarlengd + 4 feta taumaenda. Þó eru til ofnar línur, að vísu úr gerviefnum en áþekkar upprunalegu Japönsku línunum.

Tenkara USA stöng

Eftir því sem ég kemst næst eru Tenkara stangir ekki númeraðar eins og hefðbundnar flugustangir, þess í stað flokka framleiðendur þeirra þær í mjúkar, miðlungs og stífar eða eitthvað í þá áttina. Sumir hafa komið sér upp númerakerfi sem inniheldur upplýsingar um lengd og stífleika, en það er ekki samræmt milli framleiðenda. Talandi um stífleika, það getur verið svolítið vandasamt að landa fiski sem er t.d. 2 pund með Tenkara stöng og mér vitandi hafa veiðimenn einfaldlega brugðið á það ráð að handtaka bæði línu og fisk til að ljúka viðureigninni á sómasamlegan máta.

E.t.v. var það ákveðinn bræðingur sem kallaði á þennan mismunandi stífleika stanganna því upp úr 2015 fór að bera á því að veiðimenn prófuðu Euro Nymphing með Tenkara stöngum. Þyngri flugur kölluðu þá á stífari stangir, sérstaklega þegar menn fóru að nota allt upp í þrjár púpur á taumi með Tenkara stöng. Flestir framleiðendur hafa svarað þessum bræðingi með línum í mismunandi þyngdum og nú er svo komið að algengt er að veiðimenn eigi Tenkara línur í stærðum #2.5 #3.5 og #4.5. Þess ber að geta að hér er ekki um AFTM línuþyngdir að ræða sem kalla á mismunandi stangir, heldur má nota allar þessar línuþyngdir á sömu stöngina.

Þessi bræðingur sem orðið hefur á milli Tenkara og Euro Nymphing að viðbættri aukinni lengd stanganna hefur eiginlega orðið til þess að veiðimenn geta notað þær í vatnaveiði en hefðbundið Tenkara hentar hreint ekki til slíks. Það getur þó verið vandasamt að stilla dýpt flugunnar með Tenkara stöng með fastri línu og því hefur sést til veiðimanna sem bæta einum góðum tökuvara á línuna. Þá er nú lykilkostur Tenkara horfinn endanlega, þ.e. nándin og nákvæmnin sem fellst í því að vera beintengdur við nart fisksins.

Flestar þessara stanga eiga það sameiginlegt með upprunalegu Tenkara stöngunum að línan er fest í topp stangarinnar og línan líkist meira taum heldur en hefðbundinni flugulínu. Þó hefur það borið við að einn og einn framleiðandi selur línur sem eru áþekkar hefðbundinni L (level) flugulínu, lituð og það er undir hverjum og einum veiðimanni að velja lengdina því þær eru seldar á spólum sem klippa má niður í æskilega lengd. Þegar út í þessar L línur er komið þá eru veiðimenn farnir að kasta flugu með línu, svipað eins og um hefðbundna flugustöng væri að ræða og eru þá nærri hættir að veiða Tenkara, eiginlega komnir út í hreina og klára fluguveiði með græjum sem ekki eru hannaðar til þess en telja sér trú um að þeir séu að Euro Nympha, en um þann bræðing verður fjallað í öðrum greinum hér á síðunni.

Mercury Black Beauty

Þegar maður sér flugu eins og þessa, þá verður manni ósjálfrátt hugsað til þess hve margir veiðimenn hafi mögulega hnoðað í sömu fluguna, hingað og þangað um heiminn, án þess að hafa minnstu hugmynd um tilveru hennar undir einhverju ákveðnu nafni. Það var árið 1992 sem Pat Dorsey og félagar gáfu þessari flugu hans þetta nafn eftir vel lukkaða veiðiferð þar sem hún lék stórt hlutverk.

Í bók Pat, Tying & Fishing Tailwater Flies segir hann frá þessari flugu og tilurð hennar, en lesa má á milli línanna að fluguna hafi hann notað í mörg ár áður en henni var gefið nafn. Þetta var einfaldlega lítil svört púpa sem hann átti alltaf, auðveld í hnýtingu, endingargóð og veiðin.

Sjálfur hnýtti ég þessa flugu fyrst fyrir fjölda ára síðan, trúlega eftir einhverri mynd á vefnum og hafði ekki hugmynd um sögu hennar eða heiti fyrr en ég las fyrrnefnda bók, en það má víða finna umfjöllun um þessa flugu. Ýmsir hafa orðað það sem svo að Pat eigi heiðurinn af því að gefa henni nafn og halda henni á lofti, án þess að fullyrða að hann sé höfundur hennar, sem er e.t.v. rétt þegar um jafn almenna og víðþekkta flugu er að ræða sem margir hafa hnýtt.

Flugan á sér skilgetna systur sem heitir einfaldlega Mercury Midge og ættarsvipurinn er nokkuð augljós eins og gefur að líta hér að neðan.

Höfundur:Pat Dorsey
Öngull: votfluguöngull #18 – #24
Þráður: svartur 8/0
Búkvöf: kopar- eða silfurvír
Búkur: þráðurinn
Kragi : svart dub, fíngert
Haus: glerperla

Hér má sjá stutt og hnitmiðað myndskeið þar sem Mercury Black Beauty verður til:

Til að slá tvær flugur í einu höggi má hér gefa á að líta þegar Tim Flagler hnýtir Mercury Midge:

Tenkara – upprunalegt

Það er nú ekkert nýtt að eitthvað á samfélagsmiðlum verði hvati að því að ég setji eitthvað niður í grein sem ég hef verið að grúska í. Að þessu sinni voru það hugleiðingar veiðimanns um það hvort hann ætti að kaupa sér Tenkara stöng eða ekki. Að vísu þekki ég veiðimann sem á Tenkara stöng, en ég þykist vita að hún er ekki oft tekin fram og þá meira til gamans heldur en í alvöru.

Fyrir nokkrum árum síðan, gæti best trúað að þau séu orðin 10, þá var mér bent á Tenkara og ég varð mér úti um töluvert efni um þessa veiðiaðferð. Þetta grúsk mitt tengdist í raun ekki Tenkara sem slíku heldur s.k. North Country Spiders, veiðiflugum frá norður Englandi. En nú er ég kominn töluvert út fyrir efnið, í það minnsta svona til að byrja með.

Einfalda skýringin á Tenkara er væntanlega; Hefðbundin Japönsk fluguveiðiaðferð. En þegar þetta er skoðað nánar, þá er nú ýmislegt fleira sem hangir á spýtunni heldur en bara lína og agn. Þessi aðferð hefur verið að þróast í yfir 400 ár meðal almennings til að veiða í fjallalækjum og hafði í upphafi ekkert með sportveiði að gera. Þetta snérist hreint og klárt um að veiða sér til matar með einföldum og áhrifaríkum hætti. Það er til nóg af seinni tíma útskýringum á Tenkara í bókum og á netinu sem standast ekki skoðun og margt af því sem skrifað hefur verið er runnið undan rifjum framleiðenda nýtísku búnaðar sem er mjög fjarlægur upprunalegum búnaði og aðferð.

Tenkara stangir

Margur maðurinn hefur tekið stórt upp í sig og sagt Tenkara vera hreint bull sem á ekkert sameiginlegt með fluguveiði. Þetta er satt og rétt, að mestu leiti. Tenkara veiðimenn notuðu bæði lífræna sem ólífræna beitu, allt eftir aðstæðum. Rúmlega síðustu 100 árin hefur sú lífræna vikið fyrir einföldum og léttum flugum. Síðustu 100 árin á Tenkara því töluvert sameiginlegt með nútíma fluguveiði og er eiginlega sú aðferð sem kemst næst því sem Dame Juliana Berners lýsti á sínum tíma (árið 1496) sem fluguveiði í A Treatyse of Fysshynge wyth an Angle.

Útbúnaður Tenkara er afar einfaldur. Sérlega létt stöng sem gjarnan er samsett úr tveimur eða fleiri bambuspörtum þannig að auðveldara sé að ferðast með hana. Lengd stangarinnar getur verið allt frá 6 fetum og upp í tæp 9 fet. Það er algengur misskilningur að Tenkara stöng sé allt að 14 fetum og á væntanlega rætur að rekja til þess þegar nútímastangir voru hannaðar til að ráða samhliða við Tenkara veiði og þyngdar nútíma púpur (Euro Nymphing). Í topp stangarinnar er fest nokkuð sver en stutt ofin lína sem kallast lilian. Á enda hennar er hnýttur einfaldur hnútur sem virkar eins og stoppari þegar hin eiginlega lína er lykkjuð utan um hana ofan við hnútinn.

Rétt eins og misskilningurinn um lengd Tenkara stanga, þá er sambærilegur misskilningur í gangi varðandi lengd línunnar og hann á sér trúlega sama uppruna. Lengd línunnar, sem er ofin úr hrosshári, er yfirleitt rétt innan við lengd stangarinnar. Framan á línuna er hnýttur grennri taumur, u.þ.b. 1 fet og í hann agnið (flugan).

Japanskar Tenkara flugur

Það er í raun fátt hægt að segja um nútíma Japanskar Tenkara flugur, nema þá helst að oft eru þetta þekktar vestrænar votflugur, óþyngdar og líkjast fyrirmyndunum mjög að einu undanskildu, hringvöf þeirra eru látin vísa fram á við þannig að straumurinn í fjallalækjunum eigi auðveldara með að grípa þær og mynda þannig mótstöðu, toga í frekar grófan tauminn.

Fyrstu Tenkara flugurnar voru víst hreint ekki svona skrautlegar, frekar hnýttar af vanefnum fjallabúa úr því efni sem hendi var næst og það sem meira er, líktust í raun engu skordýri. Ástæða þess var afar einföld, þessir fjallalækir voru víst ekkert sérlega líflegir og lítið um skordýr þannig að fiskurinn einfaldlega tók allt sem sem mögulega gat verið ætt. Hver veiðimaður þurfti því ekkert að vera að skipta um flugur í tíma og ótíma, ein dugði og hver um sig átti sér sína flugu og veiddi aðeins á hana. Svo segir sagan í það minnsta og er góð og á ekki að gjalda sannleikans ef hann er annar.

En hvaðan kemur þá þessi misskilningur um hitt og þetta um Tenkara? Það skýrist vonandi í næstu viku þegar ég stikla á nokkru sem gerðist árið 2009. Kannski þó eitt að lokum, Tenkara sem næst sinni upprunalegu mynd er langt því frá útdautt, þó ekki sé aðferðin útbreidd í Japan. Trúlega eru fleiri Tékkar sem stunda Tenkara í dag heldur en Japanir því þar hrifust menn af einfaldleika Tenkara löngu áður en þeir fóru að fínpússa Czech Nymphing sem fjallað verður um síðar hér á vefnum.

Hvaða krók

Það er ýmislegt sem lærist með tímanum en það getur vafist töluvert fyrir byrjandanum í fluguhnýtingum í hvaða flugur hvaða krókar eru ætlaðir, þó ekki væri nema svona rétt um það bil. Ef maður dregur nú þessa eldgömlu sögu af mismun lengdar og sverleika vírs með öllum hliðarskrefum sem einhverjum datt í hug að taka þegar krókar voru hannaðir, þá má með þokkalegri nálgun staðsetja ákveðnar tegundir flugna á skalanum LEGGUR vs. VÍR:

Til glöggvunar á tegundum króka, þá eru númerin á myndinni skv. töflu frá Tiemco (TMC) en vert er að taka það fram að þessi númer eru alls ekki tæmandi yfir þeirra gerðir.

Fólk er misjafnt

Það kemur alveg fyrir að ég skil bara hvorki upp né niður í fólki sem er ekki eins og ég, en það er náttúrulega bara hið besta mál, þ.e. að fólk sé ekki eins og ég. Ég til dæmis verð oft svolítið hissa, í smá stund, þegar ég rekst á veiðimann sem vill ekki segja frá flugu, veiðistað eða veiðiaðferð berum orðum, en kemur þess í stað með einhverjar dulspekilegar tilvitnanir. Svo rifjast það upp fyrir mér að fólk er misjafnt og þá legg ég bara árar í bát, dreg í land og leyfi þeim að eiga allan sinn vísdóm út af fyrir sig. Kannski set ég viðkomandi í flokkinn dulvitringar en þá þarf hann líka að vera sérlega afundinn.

Það getur vissulega verið viðkvæmt mál að gefa upp góða veiðistað eða aðferð, en minnugur þess að ef það liggur fiskur í netinu mínu þegar ég tölti frá veiðistað, þá er nánast enginn möguleiki á að einhver annar veiði hann og mér er bara þægð í því að segja frá ef einhver spyr mig.

Eitt er það þó sem fer alveg ósjálfrátt í  pirrurnar hjá mér og það eru dulvitringar sem halda til á dulnetinu. Auðvitað á maður ekki að láta svona nokkuð pirra sig, en það gerir það nú samt. Dulvitringar á dulnetinu eru þeir sem svara saklausum fyrirspurnum á samfélagsmiðlunum með því að senda einkaskilaboð á þann sem spyr; Þú átt PM og við hin sitjum bara eftir og vitum ekki neitt. Blessunarlega eru til þeir aðilar sem láta eins og ekkert sé og svara hreint út og það þarf ekki gráðu í Tarotlestri til að ná innihaldinu.

Kannski eru fleiri en ég pirraðir á svona dulvitringum og þá mæli ég eindregið með því að menn leggist bara í sína eigin Google leit, leiti að veiðisögum og veiðitölum, kortum og loftmyndum og einfaldlega læri af því sem fyrir augu ber. Hver veit nema þú getir komist að einhverju sem dulvitringarnir hafa ekki hugmynd um og þú getir sjálfur, eftir að hafa prófað, gefið einhverjum öðrum góð ráð um flugu, veiðistað eða aðferð, opinskátt.

Aldrei hnýtt fleiri en tvær

Hver kannast ekki við að finna frábæra flugu, hnýta eina eða tvær og snúa sér síðan að einhverri allt annarri? Ef einhver kannast hreint ekkert við þetta, þá bara gott hjá þér. Athugið, þeir sem aldrei hafa hnýtt flugu hafa ekki atkvæðarétt.

Fluguhnýtingar eru rétt eins og flest annað í lífinu, æfingin skapar meistarann, ef það er á annað borð markmiðið. Ég held raunar að ég sé ekki einn um að vera fullsáttur við að ná sæmilegum flugum og ber gjarnan fyrir mig að fiskurinn hefur aldrei séð uppskrift að flugu og veit því ekkert hvernig rétt fluga lítur út.

En, það er samt eitthvað til í því hjá hnýtingarsnillingunum þegar þeir gefa nýliðum í föndrinu það ráð að velja sér flugu sem þeir hafi veitt á, setjast niður með öll nauðsynleg hráefni og hnýta kvikindið í 5 – 10 eintökum, jafnvel fleirum. Það að hnýta sömu fluguna aftur og aftur verður til þess að flugan verður einsleit, nokkurn veginn alltaf eins og af góðum gæðum. Þegar færninni er síðan náð, þá er aldrei að vita nema þú komir auga á eitthvað sem betur má fara í upprunalegu uppskriftinni eða þér hentar betur að gera með öðrum hætti heldur en höfundur flugunnar setti upprunalega niður á blað.

Að finna upp hjólið

Heiðurinn af því að finna upp hjólið er almennt eignaður Súmerum sem voru uppi fyrir 5.500 árum þannig að það er eiginlega óþarfi að finna það upp aftur. Hjólið hefur þróast frá því að vera einfaldur trjábolur og til þess sem við þekkjum í dag. Á einhverjum tímapunkti sagði einhver, einhversstaðar, að nú væri komið nóg, kerruhjólið með leguhúsi, pílárum og gjörð væri endapunkturinn, ekki væri þörf á að betrumbæta það. En samt datt einhverjum í hug að losa sig við pílárana og fóðra gjörðina með mýkra efni, meira að segja loftfylltri blöðru.

Það er eiginlega alveg sömu söguna að segja af fluguhnýtingum. Það er töluverður fjöldi ára síðan að t.d. mjög góð fluga var fundin upp, segjum að hún hafi verið nefnd Black Gost og höfundur hennar hafi verið Herbert L. Welch. Það veit enginn hve margar lagfærðar útgáfur þessarar flugu hafa litið dagsins ljós frá því hún var fyrst hnýtt á Boston Sportsman‘s sýningunni árið 1927.

Eftir því sem ég kemst næst, þá var Herbert hin mestu öðlingur og umburðalyndur gagnvart tilraunum hnýtara til þess að finna Black Ghost hjólið upp, aftur og aftur og aftur. Hvort hann hafi samþykkt mína tilraun er svo aftur allt annað mál. Flugan virðist vera óskilgetið afkvæmi Dog Nobbler og Black Ghost og hafi eitt klukkustundum fyrir framan spegilinn og reynt að stæla Cat‘s Wisker.

Sumar flugur bera lagfæringarnar afskaplega vel og eru engum til ama. En aðrar flugur verða einfaldlega aldrei betri en fyrirmyndin eða eins og einn æringinn sagði; Láttu þetta bara eiga sig, þessari flugu verður ekki viðbjargað.

Ruglandi

Yfirleitt er allt við fluguveiði eðlilegt, hvað leiðir af öðru og flest af þessu öllu fylgir náttúrulögmálum. Það eru þó til undantekningar frá þessari reglu og það eru sverleiki tauma og króka. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum þá er lægri tala minni heldur en hærri, er það ekki náttúrulega virknin í þessum arabísku tölum sem við styðjumst við? Jú, en því er öfugt farið þegar einhver merkir tauma og króka og til að bæta gráu ofan á svart, þá er annarri hverri tölu sleppt þegar þær eru hengdar við króka, yfirleitt.

Upprunalega var stærð króka ákvörðuð út frá öngulbilinu og leggurinn var tvöfalt öngulbilið að lengd. Þetta var í þá gömlu góðu daga þegar hlutirnir voru einfaldlega einfaldir. Ef þörf var á lengri öngli var lengd augans bætt við legginn og þá voru þeir merktir 1XL. Næsta lengd þar fyrir ofan var 2XL (tvö augu) og þannig koll af kolli. Í þessu samhengi er X-ið ekki eitthvað Extra eins og við þekkjum í fatastærðum, heldur einfaldlega sinnum og talan fyrir framan hve mörgum sinnum auganum var bætt við staðlaða lengd. Sama formúla var notuð fyrir styttri öngla en þá var ein lengd augans eða fleiri dregin frá leggnum og þeir einkenndir 1XS, 2XS o.s.frv. þar sem S-ið stendur fyrir shorter. Öngulbilið og bugdýptin hélst alltaf hin sama, það var aðeins leggurinn sem var lengdur eða styttur.

Hvað öngulbilið var upprunalega sem ákvarðaði stærð króka veit ég ekki fyrir víst en eitt sinn heyrði ég að það var eignað honum Mathias Topp frá Gjøvik (Mustad) en það sel ég ekki dýrar en ég keypti það. Ég hef aldrei fundið upprunalega stærðartöflu (málsetningu) króka þannig að þetta er óstaðfestur orðrómur af götunni.

Með tíð og tíma viku framleiðendur frá upprunalegu reglunni og lengdir króka hættu að vera samkvæmt ofangreindu. Sumir framleiðendur tóku meira að segja upp á því að vera með eina staðlaða lengd fyrir votflugukróka, aðra fyrir púpukróka og enn aðra fyrir straumflugukróka, en allir hættu þeir að taka mið af öngulbilinu og hver um sig setti sér öngulbil króks eins og hann vildi. Þegar svo einhverjum datt í hug að búa til Wide Gap (WG) króka fór nú málið fyrst að flækjast. Í sjálfu sér er WG krókur #6 jafn langur og staðlaður #6 krókur en öngulbilið svipað og á krók #4. Það væri nánast hægt að merkja viðkomandi krók sem #4 2XS í stað þess að merkja hann #6 WG. Ætli sami krókur í Extra Wide Gape (EWG) væri þá ekki u.þ.b. #2 4XS.

Allt væri þetta bara í góðu lagi ef maður notaði alltaf sömu tegund króka í flugurnar, en það geri ég ekki alltaf. Oftast verður þó ein ákveðin tegund fyrir valinu sem fer skemmtilegan milliveg gæða og verðs, en það er allt önnur saga. Í þeim tilfellum sem ákveðin krókur er ekki til hjá mínum venjulega birgja og ég þarf að fara á stúfana, þá tek ég fyrirmyndina með mér og ber saman við þá sem ég finn. Þannig þarf ég ekki að stóla á upplýsingarnar sem eru prentaðar á umbúðirnar, hvorki varðandi stærð eða lengd. Það hefur oftar en ekki komið fyrir að ég enda með allt of stuttan eða allt of langar krók í höndunum og meira að segja munar stundum nær heilu númeri þegar ég ber þá saman.

Ekki láta fjúka í þig

Einhvern daginn sem ég beið eftir að réttist úr veiðispánni s.l. sumar, rambaði ég inn á skemmtilega síðu með lítt þekktum málsháttum. Það kom vel á vondan þegar ég rakst á; Oft fýkur í menn sem gera veður útaf öllu.

Allt of oft vilja veiðimenn bíða af sér veðrið í veiði, en eins og alþekkt er, þá þarf maður yfirleitt ekki að bíða lengi eftir því að veðrið breytist hér á landi. Og jafnvel þótt það breytist ekki snarlega, þá er rétt að hafa það í huga að veðrið nær sáralítið niður í vatnið. Jú, vissulega kólnar vatnið eitthvað þegar rigningin lemur það og vindurinn ýfir upp yfirborðið, en sú bábilja að fiskurinn leggist niður á botn og hreyfi sig ekkert á ekki við rök að styðjast. Ef veiðimaður hættir að veiða í einhverju veðri, þ.e. veiðir ekkert þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, þá er nú trúlega meira við hann að sakast heldur en að fiskurinn sé ekki að taka.

Jafnvel í 1m ölduhæð er urriðinn í tökustuði, einfaldlega vegna þess að aldan rífur upp og sópar saman æti sem annars héldi sig til hlés eða væri svo dreift að það svarar ekki kostnaði að elta það yfir stærra svæði. Og það er ekki bara urriðinn sem kætist í öldunni, bleikjan kann alveg eins að meta hressilegt öldurót þar sem kennir ýmissa grasa í fæðu.

Það er algengur misskilningur að aldan herði á sér þegar hún nálgast land, því er raunar þveröfugt farið. Þegar dýpi minnkar þá rís aldan og hægir mjög mikið á sér. Þeir sem reynt hafa vita að ef flugu eða öðru agni er kastað út fyrir ölduna þá berst það mun hraðar að landi en þegar inn fyrir ölduna er komið. Það er því parturinn frá öldu og að landi þar sem fiskurinn kann einna best við sig, ekki bara vegna þess að vatnið hreyfist hægar heldur líka vegna þess að ætið sem aldan ber með sér (á miklum hraða utan af vatni) lendir eins og á vegg og þéttist um leið og fyrstu öldurnar rísa við landið, svo lekur ætið í rólegheitum upp að ströndinni og fiskurinn hefur nægan tíma til að úða í sig.

En hvað á þá veiðimaðurinn að gera sem nær ekki neinum fiski þegar aldan tekur að rísa? Jú, náðu agninu upp af botninum og veiddu það ofar í vatnsbolnum, skiptu langa tauminum eða sökklínunni út og hættu að nota botnlægar flugur. Færðu þig í léttari línu, intermediate til að skera yfirborðið og byrjaðu bara að draga strax inn, fæðan rótast mest upp að yfirborðinu og þar er fiskurinn.

Viðbragðið upp á við

Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvernig enska orðið troutsetting hefur verið þýtt á okkar ylhýra, ekki nema að einhver kannist við urriðaviðbragð, en þá er ég hræddur um að íslenskir veiðimenn geti ekki alveg samsvarað sig með enska frasanum. Enska orðið er haft yfir það þegar veiðimaður bregst við urriðatöku með því að lyfta stönginni snaggaralega upp til að tryggja fluguna.

Þó stórir urriðar séu ekkert einkamál íslendinga, þá eru þeir alls ekki útbreiddir um heimin, algengast að þeir séu meira í ætt við stubba sem bregðast þarf snaggaralega við og þá er fljótlegast að lyfta stönginni um leið og tekið er í línuna. Smá hliðarspor um stærðir fiska; Seinasta vor sat ég námskeið þar sem leiðbeinandi var að lýsa algengri stærð fiska erlendis. Hann rétti fram hálf krepptan lófann og sagði erlenda veiðimenn vera fullsátta við fisk sem næði rétt aðeins út úr lófanum sitt hvor megin. Til að undirstrika smæð fiskanna nefndi hann ákveðinn líkamspart sinn og sagði fiskana oft af svipaðri stærð. Á sama augnabliki gerði leiðbeinandinn sér ljóst að í salnum var kona og setti rauðan. Hvort það var játning hans á smæð líkamspartsins eða orðavalið sem fékk hann til að roðna læt ég ósagt látið. Datt í hug að láta þetta fljóta hérna með, bara svona að ganni.

En aftur að þessu erlenda urriðaviðbragði, að lyfta stönginni. Við vitum að þetta viðbragð hentar vel þegar taka þarf mikinn slaka af línunni eða þegar við erum að veiða þurrflugu. En þegar alvöru urriði er á hinum endanum og á milli okkar er straumfluga, þá getur þetta beinlínis losað fluguna úr fiskinum eða einfaldlega kippt henni frá honum. Urriðinn á það til að glefsa í flugu sem dregin er á tiltölulega miklum hraða, strippi, en hann tekur hana ekki af alvöru fyrr en hann hefur glefsað í hana einu sinni eða tvisvar. Ef við kippum flugunni frá honum, þá gefst honum ekki tækifæri til að taka hana eftir fyrsta glefsið.

Þegar við finnum glefsið eða nartið eins og margir kalla það, ættum við að halda hæð stangarinnar óbreyttri, taka frekar þétt í línuna en ekkert of langt. Ef urriðinn hefur verið að glefsa þá getur hann glefsað aftur, jafnvel tekið af alvöru og þá er okkur óhætt að lyfta stönginni til að eiga við hann, notað stöngina til að tempra ófyrirséð viðbragð hans og álagið á taum og flugu.

Jólatré á taumi

Það er svo langt því frá að ég geti eignað mér þennan frasa, þ.e. að ákveðinn fiskur sem alin er upp við litlar pöddur og hornsíli, æsist allur upp við jólatré á taumi. Raunar heyrði ég þetta fyrst notað um eina ákveðna flugu ættaða úr Veiðivötnum en með tíð og tíma hefur hann náð yfir allar skrautlegar flugur af ætt straumflugna sem eru vinsælar þar og víðar.

Flestar þessara flugna eiga það sameiginlegt að vera á einn eða annan hátt þyngdar, mismikið þó og vera nokkuð miklar um sig. Það kann einhverjum þykja mikið í lagt að segja þær miklar um sig, en efnisvalið í þær er oftar en ekki þeim eiginleikum búið að taka á sig vind, skapa loftmótstöðu þannig að það þarf aðeins meira afl til að koma þeim út heldur en litlum púpum eða votflugum.

Þessari loftmótstöðu virðast margir veiðimenn gleyma og furða sig alltaf jafn mikið á því að fimmu köstin þeirra eru alls ekki nógu góð. Ef viðkomandi er á stórfiskaslóðum furða þeir sig að sama skapi töluvert ef fiskurinn tekur og stöngin hjálpar þeim ekkert í viðureigninni.

Það væri e.t.v. ekki úr vegi að þessir furðufuglar, lesist sem furðulostnir veiðimenn, hækkuðu sig um eina til tvær stangarþyngdir í það minnsta. Slíkar stangir eiga auðveldara með að koma bosmamiklum flugum út og hjálpa veiðimanninum töluvert meira að eiga við stórurriða ef svo heppilega vill til að hann hlaupi á snærið. Já, snærið, einmitt það. Framan á flugulínuna er gjarnan festur taumur og/eða taumaendi. Þegar egnt er fyrir urriða sem er býr að ákveðnum sprengikrafti, þá dugir ekki að vera með taum sem samsvarar þyngd hans. Síðasta sumar var meðalþyngd urriða í Veiðivötnum 2 – 3 pund en ekki er óalgengt að fiskar um 10 pund og yfir hlaupi á snærið.  Til að leggja jólatré á borð fyrir slíkan fisk þarf sterkan taum og ekki láta glepjast af merkingum á spólunni. Slitstyrkur tauma er mældur með stöðugt auknu álagi, ekki rykkjum og skrykkjum og því dugar 0X (10 punda slitstyrkur) ekki, notaðu 16 – 20 punda taum og hættu þessu pjatti, urriðinn í Veiðivötnum hefur aldrei heyrt minnst á taumastyggð. Ef þessi sveri taumur nær ekki að bera jólatréð skammlaust fram, styttu þá tauminn. Stuttur taumur er bara kostur, ef þú kemst upp með hann, því stuttum taum er ekki eins hætt við að slitna.

Það verður seint sagt að straumfluguköst séu fallegustu köst fluguveiðinnar. Þetta eru alls ekki einhver elegant þurrfluguköst og það er alveg ástæða fyrir því. Til að koma meiri massa út, eins og jólatréð er, þá þarf kastið að vera hægara og kasthjólið opnara. Það er ekki aðeins að kastið þurfi að ráða við jólatréð, þú verður líka að ráð við kastið þannig að fallega stöngin þín sé ekki í stöðugri hættu á að vera skotin í kaf af flugunni, flugan að flækjast í línunni og hnakkinn á þér að verða að flugugeymslu. Þótt kastið verði ekki eins fallegt, þá er ágætt að muna að fiskurinn hefur ekkert vit á fegurð flugukasta.

Líka fyrir innipúka

Stangveiði er aðeins ein af mörgum leiðum til að njóta útiveru og nándar við náttúruna. Það gefur augaleið að veiðin sjálf á sér stað utandyra, en það er svo margt annað sem getur fylgt stangveiðinni sem á sér ekki stað utandyra. Innivera er líka ágæt og ef þú ert forfallinn veiðimaður eða bara innipúki inni við beinið, þá getur þú sökkt þér enn frekar niður í stangveiðina og sinnt henni utan veiðitímans með virkum hætti.

Einfaldasta leiðin til að sinna stangveiði utan veiðitíma er að ganga í eitthvert af þeim fjölmörgu veiðifélögum sem eru til staðar. Ég hef kynnst nokkrum afar snjöllum veiðimönnum í heimsóknum mínum til stangaveiðifélaga og minni hópa á liðnum árum, t.d. veiðiklúbba á vinnustöðum, hnýtingarklúbba félagasamtaka o.s.frv. Allt gefur þetta veiðimönnum færi á að hittast utan veiðitíma, mögulega til að skipuleggja komandi veiðiferðir, grúska í veiðitölum eða kynnast nýjum veiðisvæðum með því að skiptast á upplýsingum eða fá til sín í heimsóknir utan hópsins.

Þegar ég lít til baka og rifja upp kynni mín af minni hópum og félagsstarfi, þá standa þau upp úr þar sem blandaður hópur veiðimanna kemur saman. Þó áhugi minn á stangveiði beinist fyrst og fremst að fluguveiði, þá finnst mér frábært að heyra af og kynnast annarri veiði, hvort sem það er spúna- eða beituveiði og svo má ekki gleyma því að sögur af fiski, veiðistöðum og víðernum standa alltaf fyrir sínu, sama hver aðferðin er.

Stóru veiðifélögin hafa vitaskuld burði til að halda úti meiru og öflugara félagsstarfi á vetrum, en það er ekki þar með sagt að minni félög sem e.t.v. telja aðeins nokkra tugi félagsmanna geti ekki haldið úti öflugu starfi þó smærra sé í sniðum. Hún kemur eflaust á óvart, öll sú þekking og færni sem er til staðar innan hópsins ef meðlimum yrði gert kleyft að koma fram og segja frá. Mögulega þyrftu einhverjir smá hvatningu og aðstoð við að forma efnið, koma því t.d. á glærur eða í texta, en til þess eru örugglega einhverjir félagar reiðubúnir að aðstoða við án þess að yfirtaka kynninguna. Ég má til með að nefna þetta með yfirtökuna sérstaklega því ég hef setið kynningu þar sem aðstoðarmaðurinn beinlínis yfirtók efnið þannig að eiginlegur höfundur þess fór í baklás og hefur vart opnað munninn síðan. Ég reyndar náði viðkomandi á eintal síðar og mikið rosalega fóru fundargestir mikils á mis vegna þessarar yfirtöku.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, þá taka veiðimenn sig mismunandi alvarlega og það er vel. Háalvarlegir fyrirlestrar um vaxtarskilyrði fiska, aflatölur og dómsdagsspár eru ekki alveg til þess fallnar að trekkja að. Hafði léttleika í öndvegi og áhugavert umtalsefni. Já, ekki gleyma því að opna á samtalið manna í millum, undir kynningunni eða í lokinn, þetta er jú félagsskapur.

Framundan er langur íslenskur vetur eftir sérlega félagslega erfið misseri vegna þessarar óværu sem hefur hrjáð okkur. Eins og útlitið er í dag, þá er lag til að setja saman dagskrá fyrir veturinn, hún þarf ekki að vera öflug eða margbrotinn, en ég held að veiðimönnum veiti ekkert af því að koma sama, augliti til auglitis, skiptast á hryllings- og hetjusögum sumarsins eða kynnast einhverju nýju í veiðinni, af nógu er að taka.

Þegar vani verður ávani

Að mínu viti læknast enginn af verkjapillum einum saman, eitthvað meira þarf til. Verkjalausum gefst vissulega tóm til að vinna á meinsemdinni á meðan pillurnar virka, en á einhverjum tímapunkti verður maður að leggja frá sér pilluglasið áður en maður verður háður þeim.

Fyrir mörgum árum síðan fékk ég ávísun á pillur vegna smá kvilla sem ég var haldinn í bakkastinu mínu. Ef ég fer nú frjálslega með staðreyndir, þá var viðvörun á pilluglasinu; Notist aðeins þar til lækning hefur fengist. Þannig að öllu sé haldið til haga, þá var það nú reyndar kunningi minn sem sagði mér að nota þessa lækningu aðeins þangað til ég hefði náð tilfinningunni í fingurna þannig að ég gæti dæmt blindandi fyrir um það hvort línan hefði náð að rétta úr sér í bakkastinu og ég gæti lagt af stað í framkastið.

Pillan var í raun afar einföld, að líta um öxl og fylgjast með línunni og finna nákvæmlega þegar hún hættir að rétta úr sér, þegar ég hefði náð því átti ég að hætta að líta um öxl því besta kastið á að vera fram á við og þá er eins gott að fylgjast með því.

Auðvitað kemur það samt fyrir að maður verður að líta um öxl; þegar maður stendur undir bakka, tré og gróður eru að baki og maður þarf að stemma lengd línunnar af. Annars ætti maður að leyfa fingrunum að ráða, ekki augunum.

Styggur fiskur

Þegar vetur gengur í garð þá vinnur maður úr því sem maður hefur safnað í sarpinn yfir sumarið. Eitt af því sem ég geymdi í sarpinum er umræða sem ég átti s.l. sumar við afar lunkinn veiðimann um ljót köst. Einhverra hluta vegna var ég fullur afsakana og sagði eitthvað á þá leið að ljót köst veiða líka. Ég var leiðréttur hið snarasta og sagt að þetta ætti að vera ljótar flugur veiða líka. Jú, ég kannaðist eitthvað við þetta um ljótu flugurnar og fór að klóra í bakkann með köstin, var greinilega umhugað um réttlæta eitthvað.

Við vorum sammála um ljótu köstin geta styggt fisk ef þau verða til þess að línan skellur niður á vatnið. Einmitt þetta getur verið ókosturinn við framþungar skotlínur í dag. Hraði þeirra er mikill, þær vaða út og eiga það til að skella niður á vatnið. Skothausinn er oft tiltölulega þungur og stuttur þannig að línan er svolítið eins og svipa þegar hún lendir á vatninu. Góð skotlína í höndum þokkalegs kastara á yfirleitt ekki í vandræðum með að vaða fram úr stangartoppinum þannig að það má alveg leyfa sér að tempra hraða hennar í framkastinu rétt nóg til að taumurinn leggist beint fram og hvorki lína né taumur skelli á yfirborðinu. Með því að halda örlítið við línuna þegar framkastið hefur náð hámarkshraða, þá hægir línan á sér, það réttist betur úr tauminum og hvoru tveggja leggst rólegar niður. Hver og einn veiðimaður verður að finna sinn takt í þessu viðhaldi línunnar en með smá æfingu er leikandi hægt að ná þessu þokkalega.

En hvað með þennan stygga fisk ef línan hefur nú lagst rólega fram, taumurinn rétt vel úr sér og flugan er ekki með ógnar læti þegar hún lendir? Verður fiskinum virkilega jafn brugðið við tauminn eins og margir vilja vera láta? Já, trúlega eru til þau vötn sem eru svo tær og laus við allt fljótandi að taumurinn sker sig úr öllu því sem fiskurinn hefur vanist, að hann styggist. En, það kemur veiðimönnum eflaust á óvart hve margt og misjafnt er á ferðinni og flækist um í vatninu að öllu jöfnu. Gróður og gróðurleifar, aðskotahlutir sem fokið hafa út í vatnið og að ógleymdum skuggum þess sem flýtur á yfirborðinu. Allt þetta og fleira til er líklegra til að skjóta fiskinum skelk í bringu heldur en taumurinn. Eitt er það þó sem styggir fisk, meira að segja þann ódauðlega sem hefur náð meira en 1 metra og það er allt sem getur orðið honum skeinuhætt og erfðir hans hafa kennt honum að varast, m.a. maðurinn eða réttara sagt; fótatak hans og skuggi.

Markmið og árangur

Ég strengi aldrei áramótaheit, en ég set mér reglulega markmið og þá helst í tengslum við áhugamál eða vinnu. Þessi markmið setja ránna í ákveðna hæð og svo tek ég tilhlaup. Því er eins farið með mig og nokkra aðra, að stundum vill það taka nokkurn tíma að hefja atrennuna. Æ, ég er svo upptekinn núna. Hva, það er nægur tími, nota þær ekkert fyrr en í vor / sumar / næsta haust. Já, ég er að tala um allar flugurnar sem mig langar til að hnýta og vil eiga tilbúnar fyrir fyrstu veiðiferðina í apríl.

Það eru vissulega til þeir veiðimenn sem hnýta allan ársins hring, en ég hnýti helst á veturna og gjarnan byrja ég ekki fyrr en í febrúar, stundum mars og það kemur jafnvel fyrir að ég hnýti ekkert fyrr en í apríl. Þessar síðbúnu hnýtingar í apríl vilja oft einkennast af einhverju stresskasti, stutt í fyrstu ferð og þá verða fæstar af þeim flugum sem mig langaði til að hnýta fyrir valinu.

Markmið haustsins er; að byrja að hnýta fyrr í vetur og ekkert vera að taka einhverjar nýjar inn í prógrammið fyrr en ég er búinn að hnýta þær hefðbundnu. Þetta síðasta ætti að hvetja mig til verka því mér finnst einstaklega gaman að hnýta nýjar flugur, þ.e. flugur sem ég hef ekki prófað áður. Hvort ég prófi þær síðan í veiði er allt önnur saga og hefur verið sögð hér áður, oft. Þetta að klára þær hefðbundnu fyrst er svona taktík eins og maður

Fyrsta skrefið er náttúrulega að taka til í hnýtingadótinu. Ég bara skil ekkert í því hvernig stendur á því að hnýtingarhornið mitt er alltaf í drasli. Það hlýtur bara einhver að laumast þangað inn og rusla til, rugla boxum og pokum í hillum þannig að ekkert er á sínum stað og ekkert finnst þegar til þess á að taka. Það er margt skemmtilegt við að taka til í hnýtingadótinu. Fyrir það fyrsta, þá finnur maður svo margt sem maður var alveg búinn að steingleyma að maður hafði keypt þegar maður rétt aðeins kíkti inn í búðina. Svo er það þetta með innkaupalistann. Vá, hvað það er gaman að finna hálftómt kefli eða rétt aðeins botnfylli í einhverjum poka eða boxi, þetta þarf að fara á innkaupalistann. En það er líka ýmislegt neyðarlegt sem kemur upp úr krafsinu þegar tekið er til. Af hverju ætli ég eigi allt í einu fimm poka af peacock herl, alla opnaða en nær alla fulla ennþá? Ég bara skil þetta ekki.

Svo fer maður með innkaupalistann í búðina. Mér liggur við að skrifa búðina með stóru Bjéi, veiðibúðir ætti alltaf að skrifa með stóru Bjéi, þær eru svo mikið aðal. Ef svo ólíklega vill til að eitthvað það sem er á innkaupalistanum er ekki til, þá verður maður að bíða og kíkja aftur þegar varan er komin. Kannski þarf maður að fara nokkrum sinnum í búðina og athuga hvort þetta sé komið og þá gæti eitthvað annað skemmtilegt borið fyrir augu sem gott væri að eiga. Þegar svo allt efni er loksins komið, þ.e. það sem var á upprunalega innkaupalistanum, þá gæti maður allt eins þurft að laga aftur til í hnýtingarhorninu til að koma öllu skemmtilega efninu fyrir. Það þýðir nefnilega ekkert að byrja að hnýta fyrr en allt efnið er komið á sinn stað.

Á þessum C-vítans tímum getur biðin eftir hnýtingarefni verið töluverð. Mér skilst að erlendar hænur séu oft í sóttkví og þori ekki að fella fjaðrir af ótta við að sýkjast af einhverri veiru og spunarokkar hnýtingaþráðar eru víst þagnaðir vegna skorts á hraustu vinnuafli. Skyndilega getur því allt eins verið komið að jólum og þá þarf maður að huga að jólagjöfum sem passa á listana (innkaupalistann fyrir veiðifélagann og óskalistann). Alla lista skyldi íhuga vandlega áður en þeir eru birtir, þetta getur tekið drjúga stund.

Eftir jól er maður síðan alveg örmagna og þarf að hvílast fram að þeim tíma sem sækja þarf um veiðileyfi fyrir næsta sumar. Óhvíldur veiðimaður kaupir stundum tóma vitleysu og það ber að forðast. Eftir skil á vandlega ígrunduðum umsóknum, þá eru þær allt í einu komnar á fullt; Febrúarflugurnar. Þar fær maður nú heldur betur hugmyndir að flugum til að hnýta fyrir næsta sumar og því best er að bíða aðeins fram til 1. mars og sjá þá allar flugurnar sem maður gæti hugsað sér að hnýta og prófa næsta sumar.

Svona geta nú göfugustu markmið horfið eins og dögg fyrir sólu og þegar apríl gengur í garð, þá er maður jafn blankur af flugum eins og venjulega og verður í einhverju stresskasti að hnýta upp í það nauðsynlegasta sem vantar. Hver var að tala um markmið?

Veiðivötn 13. – 15. ágúst 2021

Einhvern tímann verður allt fyrst og sá tími var á sunnudaginn í mínu tilfelli. En segjum fyrst frá föstudeginum 13. ágúst sem einhverjir óttast óumræðanlega, rétt eins og svarta ketti, upprétta stiga og ýmislegt annað sem einhverjum grallara datt í hug að segja að væru illur fyrirboði. Eins gott að ég er ekki hjátrúarfullur, annars hefði ég trúlega ekki lagt í ferðalag með okkar færanlega veiðihús inn að Veiðivötnum þennan dag.

Tjaldvatn og útsýnið okkar úr vagninum

Vötnin tóku á móti okkur af sinni alkunnu gestrisni sem hefur smitað menn og konur í fjölda ár. Ef eitthvað var út á veðrið að setja, þá var það mögulega aðeins og gott. Þótt sumarið stefni í yfir 20.000 fiska sem er betra heldur en í fyrra, þá hafa veiðimenn*) verið að glíma við of gott veður; hita og stillur.

 *) mögulega er aðeins um veiðimenn eins og mig að ræða, óheppna með aflatölur.

Eftir að hafa heilsað upp á kunningja og vini, meðal annars þrjá úr fasta hollinu okkar sem voru á staðnum, leitað frétta af veiði og veiðistöðum, héldum við inn að Stóra Hraunvatni þar sem Augað hafði dregið sig í pung og var nær alveg þurrt. Það var heldur ekki mikið eftir af Jöklavíkinni og út úr Höfðanum til norðausturs var kominn tangi sem væntanleg hefur hrellt veiðimenn með festum hér áður fyrr. Þrátt fyrir að við hefðum áreiðanlegar fréttir af veiði fram undan Höfðanum, þá urðum við ekki vör við fisk og héldum við því til baka og kíktum á Litlutá við Litlasjó.

Þó Litlisjór standi ekki beint undir nafni, þá fer hann nú samt minnkandi og við vorum sammála um að við höfum aldrei sé jafn lágt í honum áður. Þegar við þóttumst hafa baðað nóg af flugum, færðum við okkur yfir á suðurbakka Grænavatns, ókum yfir Kvíslar og komum okkur fyrir þar sem pláss var á milli veiðihópa sem höfðu búið um sig á bakkanum. Það var ákveðið traust í því að sjá veiðimenn vera búna að skjóta rótum á einum ákveðnum stað, það var nefnilega svolítið ráp á svæðinu, eitthvað eirðarleysi meðal veiðimanna.

Fyrsta alvöru taka ferðarinnar var síðla kvölds, glæsilegur fiskur sem sýndi fimleika sinn, ólmaðist og stökk þannig að flugan fór úr honum. Sjálfur get ég ekki eignað mér nokkur einasta heiður af þessu, það var veiðifélagi minn sem lagði fluguna út, dró inn og fékk tökuna. Sjálfur var ég einn í heiminum með mínar flugur sem ekki einn einasti kjaftur hafði áhuga á.

Sunnudagurinn vakti okkur svolítið seint en með þokusúld og það var bara alls ekkert of hlýtt. Kannski meira svona veður sem maður á von á uppi á hálendi á þessum árstíma. Við veiðifélagarnir ákváðum að leggjast í smá akstur, nýta tímann meðan hann hristi þetta af sér og renna inn að Skyggnisvatni.

Skyggnisvatn séð úr norðri – smellið fyrir stærri mynd

Það opnaði ekki inn í Skyggnisvatn fyrr en í fjórðu viku tímabilsins og þegar við ókum um skarðið á milli Skyggnis og Vatnaalda þá vorum við ekkert hissa á þessari síðbúnu opnun. Það styttist væntanlega í að vegurinn um skarðið hækki um nokkra metra, hlíðarnar hafa þrengt svo að skarðinu að við liggur að það sé ekkert pláss lengur fyrir veginn á botninum.

Við byrjuðum rétt innan við ósinn, færðum okkur inn að Eyrinni en urðum ekki vör við fisk. Við höfðum raunar heyrt af því að bleikjan væri sérlega treg þetta sumarið, en ekki áttum við samt von á því svona rólegu og færðum okkur því norður fyrir Ógöngunef og reyndum fyrir okkur í vatninu að norðan. Sjálfur fékk ég eina töku, nauma, en veiðifélagi minn tók eina sérlega væna bleikju á land. Bíð spenntur eftir því að mér verði boðin gómsæt bleikjumáltíð.

Ónefndavatn – smellið fyrir stærri mynd

Þegar okkur þótti fullreynt færðum við okkur aftur inn á hefðbundið Veiðivatnasvæðið, renndum inn að Ónefndavatni og reyndum fyrir okkur á móti öldu við syðsta hluta vatnsins. Staðsetningin var auðvitað valin vegna þess að veiðimenn veiða oft fiska sem áður hafa veiðst sbr. fyrstu ferð okkar í Vötnin þetta árið. Vitaskuld fór svo að við náðum ekki að veiða þá fiska sem liggja í kistunni heima og því færðum við okkur yfir í Ónýtavatn, sem líkt og mörg önnur vötn hefur dregist töluvert saman.

Ónýtavatn – smellið fyrir stærri mynd

Þegar þarna var komið sögu hafði hitastigið hækkað verulega, hann hafði rifið af sér og vind hafði lægt. Í Ónýtavatni tók ég einn titt í fyrsta kasti og uppskar nokkurt nart eftir það. Veiðifélagi minn fékk aftur á móti góða töku en nauma þannig að fiskurinn losaði sig fljótlega af.

Sólsetrið eins og það blasti við frá Álftatanga

Eftir síðdegishressingu og töluverðar vangaveltur um vænlega staði, þá ákváðum við veiðifélagarnir að skilja að borði, hún skutlaði mér inn fyrir Eiðið við Litlasjó og hélt síðan til baka í Grænavatn. Sjálfur lagði ég land undir fót og labbaði út á Álftatanga í blíðunni. Ég er ekkert að grínast, það var með eindæmum fallegt og hlýtt veður og fiskur að sýna sig nær alla þessa leið. Við og við staldraði ég við og tældi þá sem voru í kastfæri til fylgilags við fluguna mína. Þeir sem ég tók á ferð minni og úti á Álftatanga voru allir innan við pundið og fengu því líf. Ég er staðráðinn í að setja flugu fyrir þessa fiska eftir 2 – 3 ár, þá verður þeim ekki gefið líf.

Þegar líða fór á kvöldið, tölti ég til baka og elti fisk alla leið inn í víkina austan við Eiðið þar sem veiðifélagi minn beið mín með þær frábæru fréttir að 2ja punda fiskur tók, skemmti henni vel og endaði á landi hjá henni í Grænavatni.

Kvöldkyrrð, veiðimaður og dásamlegt umhverfi

Auðvitað freistaði þessi frásögn aðeins og við ákváðum að renna inn að Grænavatni eftir að hafa hitað okkur kaffi í kvöldkyrrðinni. Raunar komum við aðeins við í Eyvíkinni, tókum nokkur köst á fiska sem gerðu vart við sig, en fengum engar ákveðnar tökur. Aftur á móti hittum við þar fyrir góðan félaga okkar sem við raunar hittum yfirleitt í fyrstu ferð okkar hvert ár. Sá var með góðum hópi sem komið hafði í Vötnin á sama tíma og við, og verið álíka farsæll. Við vorum í ákveðnum sjokki, þegar þessi vinur okkar er ekki í fiski, þá er lítil von fyrir aðra, svo fiskinn er hann. Hvað um það, við héldum inn í norðurbotn Grænavatns og rétt náðum að lagfæra tauma og velja okkur flugur áður en rökkrið færðist á stig myrkurs.  Veiðifélagi minn fékk nart, kannski tvö, en ég setti (einhversstaðar þarna úti í myrkrinu) í vænan fisk sem tók vel á, tók trúlega tvöfalt flikkflakk með skrúfu og losaði sig af.

Það gustaði aðeins á sunnudaginn, hitastigið náði rétt 10°C og var eiginlega miklu nær því sem maður átti von á. Fyrir valinu varð að nýta vindáttina og reyna fyrir okkur við miðjuna og suðurrenda Grænavatns. Þegar við komum við á aðgerðarborðinu á  hittum við fyrir félaga okkar úr veiðifélaginu, glaðbeitta og káta eftir laugardaginn. Þeir höfðu náð að særa upp væna fiska í Fossvötnunum á laugardag og stefndu glaðbeittir á Litlasjó.

Ég játa það alveg að taka laugardagskvöldsins var enn í fingrum mér og réði miklu um staðarvalið. Aldan var ágæt, stóð vel á suðurenda vatnsins og það gruggaði þegar hún kom upp á grynningarnar. Þrátt fyrir þetta fengum við ekki eina einustu töku og þegar við þurfum að hrökkva eða stökkva, ákváðum við að færa okkur og reyndum aðeins fyrir okkur í Stóra Fossvatni inn undir Bátseyri. Eftir að hafa reynt, árangurslaust, að koma flugunni þessa tvo metra sem uppá vantaði þannig að hún næði til eins höfðingja sem þar úðaði í sig, ákváðum við að klára ferðina í Ónýtavatni þar sem veiðifélaginn neyddist til að taka mjög svangan urriða í minni kantinum sem kokgleypti fluguna.

Við Stóra Fossvatn

Við smelltum öllum aflanum á veiðiskýrsluna, komum við í Varðbergi og skeggræddum veiði, grisjun og ýmislegt annað við Rúnar og tvo aðra félaga okkar úr veiðifélaginu sem þar bar að garði. Annar þeirra var í sama flokki og ég og ég fann fyrir miklum létti að ég væri ekki sá eini á staðnum. Hann hefur þó vonandi rétt úr þessu þegar leið á sunnudaginn. Við tókum okkur saman í rólegheitunum, snæddum ágætan miðdegisverð og biðum félaga okkar sem höfðu leyft okkur að gerast hjáleiga við Nýberg þessa daga. Það var ekki mikil breyting á veiðisögum þeirra, sumir veiddu ágætlega, aðrir síður, en það breytir engu að þetta var flottur hópur sem seint verður sakaður um leti. Takk fyrir frábæra samveru strákar, við eigum örugglega eftir að hittast síðar í Vötnunum, trúlega ekki þetta árið en örugglega síðar.

Þannig fór það svo, sunnudagurinn 15. ágúst 2021 varð dagurinn sem ég fór í fyrsta skiptið fisklaus heim úr Veiðivötnum. Dapurleg ferð? Nei, hreint ekki, það er alltaf frábært að koma og vera í Veiðivötnum og ég lærði helling og naut mikils.