FOS
  • Færslur
  • Flugur
    • Flugur – uppskriftir
    • Febrúarflugur
    • Úr þvingunni
    • Klassískar flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Bónus við votflugur

    22.desember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ég gleymdi alveg um daginn þegar ég stakk nokkrum orðum niður á síðuna um litlar straumflugur sem í mínu tilfelli eru klassískar votflugur, að það er einn frábær kostur við að veiða svona minni flugur. Í eðli sínu eru þessar flugur náttúrulega miklu léttari í kasti og í vatni heldur en stórvaxnar straumflugur og það getur bara skipt töluverðu máli. Bónusinn er því að það er hægt að leyfa sér að vera með léttari línu og stöng með votflugu heldur en stóra straumflugu.

    Þegar ég tók minn stærsta fisk á klassíska votflugu eftir töluvert bras með stærri straumflugu í læk sem rennur á milli vatna norður í landi, þá runnu upp fyrir mér kostir léttari útbúnaðar undir viðkvæmum kringumstæðum. Þannig var að ég var búinn að rölta töluverðan spotta með vatnsbakka og var með nokkrar hefðbundnar straumflugur og marabou flugur úti til skiptis. Jú, ég setti í fiska og þeir eltu þessar eftirlíkingar af hornsílum alveg upp í harðaland, en þegar ég kom að afskaplega penum og vatnslitlum læk, vaknaði forvitni mín; er einhver fiskur í þessu litla vatni?

    Til að byrja með var ekkert mál að koma straumflugu niður í lækinn en eftir því sem ég gekk lengra með honum, þá þrengdist hann og þar sem ég í brasi mínu gafst upp og stöðvari för var breidd lækjarins ekki meiri en svo að ég gat staðið á báðum bökkum með sitthvorn fótinn. Að vísu var þetta sérlega auðveld leið til að veiða álitlega hyl sem ég kom að, mér dugði að teygja stöngina fram og gefa út þannig að straumflugan fór beint niður í dýpið sem var reyndar verulegt, en trúlega voru þetta ekki fallegar aðfarir að sjá.

    Vandamálið sem ég upplifði var aftur á móti að bæði flugurnar mínar og línan tóku allt of mikinn straum á sig og náðu ekki að veiða allan hylinn áður en þær flutu upp úr honum. Þar sem ég þóttist vita að þessi hylur geymdi fisk, þó þröngur væri, voru mér aðeins tvær leiðir færar; þyngja fluguna eða nota nettari flugu og græjur. Hið síðar nefnda varð ofan á og til að toppa umbreytinguna, skipti ég úr straumflugu í hefðbundna Watson‘s Fancy votflugu #14. Og viti menn, lónbúinn hélt greinilega til við enda hylsins þar sem straumfluguna var tekinn að fljóta upp en votflugunni tókst að læðast að honum.

    Þetta var vænn fiskur og í fyrstu var ég hissa á að hann héldi til í þessum litla og þrönga læk, en vitaskuld var þetta besti staðurinn á öllu svæðinu. Þarna þjappaðist allt ætið sem flæktist á milli vatnanna saman á mjög litlu svæði og hann þurfti væntanlega ekki að gera neitt annað en opna munninn reglulega til að ná munnfylli. Þarna sem sagt, lærðist mér að léttari flugur í svipuðum búningi og gáfu í stöðuvatninu, gátu verið vænn kostur á léttari græjur í rennandi vatni við erfiðar aðstæður.

  • Að vera ekki á tánum

    20.desember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Enn eitt grundvallaratriðið sem er vert að tyggja enn og aftur, af gefinni reynslu. Trúlega eru algengustu mistök hvers veiðimanns þau sem ættu að halda honum á tánum, vera ofarlega í huga hans og hann ætti að gera allt sem í hans valdi stendur til að leiðrétta þau. Því miður, í mínu tilfelli, þá er því bara alls ekki þannig farið. Um leið og ég hef endurtekið mistökin, þá eru þau gleymd og ég get alveg eins endurtekið þau, strax við næstu töku.

    Þegar ég er ekki á tánum, með hugann á reiki eða augun á glápi út í buskann, þá tekur hann. Það er í það minnsta þannig sem ég útskýri fyrir sjálfum mér allar þær tökur sem ég missi af eða bregst allt of seint við.

    Á veiðislóð, þar sem von er á fiski, þá er um að gera að vera með hugann við það að fiskur gæti tekið, hvenær sem er. Ég tel sjálfum mér trú um að það sé allt í lagi að vera með augun á umhverfinu, skima eftir fiski, álitlegum stöðum eða vísbendingu um æti sem fiskurinn gæti haft áhuga á. En þetta nær aðeins ákveðið langt, þegar fyrsta nart gerir vart við sig eða ákveðin taka, þá ætti maður samt sem áður að vera tilbúinn að meta aðstæður; hvar lagði er fluguna niður, hvernig var ég að draga inn, á hvaða dýpi var flugan o.s.frv. Því miður er því þannig farið með mig að þegar ég hugsa baka, þá er ég hreint ekki með svör við neinu af þessu og ég verð að byrja allt ferlið upp á nýtt. Leggja fluguna niður á mismunandi staði, draga inn með mismunandi hraða eða aðferð o.s.frv.

    Það getur verið dýrkeypt að vera ekki á tánum, trúið mér.

  • Flóðatafla 2023

    15.desember 2022
    Fréttir

    Upp

    Forsíða

    Um þessar mundir ætti háflóð jólabóka fyrir veiðimenn að vera að skella á okkur. Því miður er það ekki svo um fyrir þessi jól, því fátæklegri flóru veiðibóka hef ég sjaldan séð eins og þetta árið. Það má víst segja að nú sé fjara, sögulega lágsjávað og það er ekki eitthvað sem sjá mátti fyrir í flóðatöflu ársins hér á FOS.IS

    (c) Karolina Grabowska

    FOS.IS lætur þó ekki deigan síga og spáir stórstreymi fyrir jólin 2023, nánar tiltekið þann 15.des. kl. 07:48 upp á 4.2 m hér í Reykjavík. Flóðatöflu fyrir allt næsta ár er nú hægt að nálgast hérna á vefnum, bæði til aflestrar á skjá og sem PDF til niðurhals.

    Að gefnu tilefni langar mig til að biðja lesendur að virða þá beiðni mína að leita samþykkis fyrir notkun flóðatöflunnar til annarra nota en persónulegra, hvort sem það er birting eða dreifing í nafni fyrirtækis, samtaka eða félagsskapar. Samþykkis (fyrirfram) um dreifingu efni af FOS.IS má leita með því að senda mér skilaboð hérna.

    Þess má geta að flóðataflan hefur nú í nokkur ár verið með vinsælasta efni á FOS.IS með yfir 50.000 flettingar og með hátt í 10.000 niðurhöl.

  • Gamalt tól

    22.nóvember 2022
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Stundum er einfaldlega best að kíkja í gömlu verkfærakistuna þegar eitthvað þarf að laga. Þannig upplifði ég það í sumar sem leið þegar stangartoppurinn minn lak endalaust niður úr fremra stoppi í kastinu og úr varð einhver ókunnug lúppa sem gerði ekkert annað en hnýta vindhnúta í bakkastinu.

    Já, það er ekki öllu gefið að búa til vindhnúta í bæði fram- og bakkastinu eins og mér, en það var tímabundið vandamál sem leystist þegar ég rifjaði upp gamalt og gott ráð sem felur í sér hamar og þumal, þó ekki þannig að þumallinn færi undir hamarinn.

    Ef þú átt erfitt með að hemja þig og nær ekki ákveðnu fremra stoppi, ímyndaðu þér þá að þú sért með hamar í höndunum og standir þversum í dyragætt. Hreyfðu kasthöndina þannig að þú rekir hamarinn hvorki í dyrakarminn í fram- eða bakkastinu og þér lærist fljótleg að setja ákveðið stopp í kastið, í báðar áttir.

    Ef maður bætir svo þumalfingrinum á skaftinu við og passar að hafa hann alltaf í sjónsviðinu, þá er nokkuð öruggt að þú hreyfir kasthöndina ekki of langt aftur eða of langt fram og úr verður snyrtilega lúppa sem lætur vindhnútana alveg vera.

  • Litlar straumflugur

    17.nóvember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ég hef um árabil verið að nota litlar straumflugur í stærð #10 og #12 með, að því ég tel, bara alveg ágætis árangri og mér þykir alltaf jafn gaman að nota gamlar klassískar votflugur sem eru hnýttar á svipaða stærð eða jafnvel minni.

    Hér um árið gaf ég mér smá tíma til að horfa á veiðimann sem var að veiða með hefðbundinni straumflugu í stöðuvatni. Stærðin á flugunni var að því mér fannst umtalsverð og eftir á þykist ég sannfærður um að hún hafi verið hnýtt á legglangan krók #2. Ég var svo sem ekkert sérstaklega að velta mér upp úr stærðinni á flugunni, mér finnst hverjum manni frjálst að veiða á þá stærð á flugu sem hann kýs eða með hverju því agni sem hann kýs ef því er að skipta. Það sem ég var að velta fyrir mér á meðan ég fylgdist með þessum veiðimanni var aðferðin sem hann notaði við inndrátt og hvar hann lagði fluguna niður og hve lengi hann leyfði henni að sökkva og allt þar fram eftir götunum. Mér var fljótlega ljóst að hann veiddi þessa stóru straumflugu á nær alveg sama hátt og ég veiddi litla votflugu. Nú ætla ég ekkert að segja til um hvort hann gerði eitthvað rangt eða ég. Raunar getur alveg eins verið að báðir gerðum við eitthvað rétt, því það er ekkert rétt eða rangt í fluguveiði, svo lengi sem fiskurinn tekur.

    Ég þykist vita að stór fluga virki á fisk sem loforð um meiri mat heldur en lítil en reglulega dúkka upp fréttir af betri veiði þar sem litlum (mjög litlum) flugum er beitt. Hvað er þetta með litlu flugurnar? Ég hef minna en ekkert vit á laxveiði á flugu, þannig að ég get ekki svarað neinum þar um. Silungurinn aftur á móti hefur alveg sýnt mér að hann getur verið hvefsinn í grunnu og tæru vatni, styggist við minnstu hreyfingu í vatninu og tekur hreint ekki stórar flugur, víkur sér meira segja gjarnan undan þeim. Þá er um að gera að prófa minni flugur.

    Í mínu tilfelli er það þá yfirleitt votfluga eða lítil marabou fluga sem hnýtt er á stuttan krók #12 eða #14 og ég veiði hana eiginlega alveg nákvæmlega eins og ég væri með stærri straumflugu. Kosturinn við litla votflugu er að það er mun auðveldara að staðsetja hana, yfirleitt. Hún leggst gjarnan betur niður, jafnvel þar sem einhver straumur er, heldur en stór fluga og þegar fiskurinn er eitthvað stressaður þá er auðveldara að læðast að honum með lítilli flugu heldur en stórri.

    Ef einhver skyldi vera velta því fyrir sér hvaða votflugu ég noti undir svona kringumstæðum, þá er það Watson‘s Fancy, til vara Watson‘s Fancy og ef allt bregst, þá Dentist hnýttur eins og votfluga með fjaðurvæng eða lítill Black Ghost með sömu formúlu. Sem sagt, þrjár uppáhalds litasamsetningarnar mínar í straum- og votflugum. Og bara þannig að það sé á hreinu, það er alveg hægt að hnýta þessar litasamsetningar í marabou flugum til að fá dillandi smáflugu í vatni.

  • Gáran, vinur minn

    15.nóvember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Einhverra hluta vegna, þá finnst mér eins og það skipti miklu meira máli að læðast að fiski þegar hann er í rennandi vatni heldur en þegar hann er í stöðuvatni. Jú, ég geri mér alveg grein fyrir því að vera ekkert að vaða eins kúreki á sporastígvélum út í vatnið og stilla litagleðinni í hóf, en fyrir mér er fiskur í straum miklu styggari heldur en fiskur í kyrru vatni, kannski vegna þess að ég sé betur þegar þeir hrökklast undan mér þegar ég stend á árbakkanum.

    Kyrrt veður er ekkert sérlegur vinur minn, hvorki í flugukasti né veiðimennsku. Mér finnst til dæmis miklu auðveldara að kasta flugu þegar það er smá gola eða vindur heldur en stafalogn og ég er ekki einn um þessa upplifun (Muna: ég þarf að segja ykkur af stafalogni við tækifæri).

    Svo er annar kostur sem ég sé við smá golu eða vind, spegillinn á vatninu brotnar. Spegill á vatni er svolítið svipaður þeim sem við sjáum í CSI þáttunum í sjónvarpinu. Þetta er spegill séður úr annarri áttinni (okkar sem erum með hausinn fyrir ofan hann) en hann er gegnsær þeim sem eru undir honum, fiskinum. Þegar gáran leggst yfir vatnið, þá brotnar þessi spegill og fiskurinn sér alls ekki eins vel upp úr vatninu og við dettum út úr sjónsviði fisksins og getum fikrað okkur miklu nær honum heldur en ella.

    Þá er bara eftir að taka sporana undan kúrekastígvélunum eða naglana undan vöðluskónum og vaða varlega í áttina að honum.

«Fyrri síða
1 2 3 4 5 6 … 325
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2022 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

Hleð athugasemdir...
 

    • Fylgja Fylgja
      • FOS
      • Gakktu í lið með 156 áskrifendum
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Breyta vef
      • Fylgja Fylgja
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar