Lokafréttir af Febrúarflugum

Endanleg niðurstaða Febrúarflugna var kunngjörð í gærkvöldi og það er skemmst frá því að segja að öll eldri met voru slegin að þessu sinni. Við sama tækifæri voru 23 heppnir hnýtarar dregnir úr hópi hnýtara og hljóta þeir myndarlegar viðurkenningar sem styrktaraðilar átaksins létu í té þetta árið.

FOS.IS þakkar öllum sem komu að Febrúarflugum þetta árið; meðlimum hópsins, hnýturum, styrktar- og samstarfsaðilum.  Allar flugur ársins má sjá á einu bretti með því að smella hérna.

Síðdegis í dag lauk síðan dómnefnd störfum í Fluguhnýtingarkeppni Haugsins 2022. Haugur Workshop sendir þátttakendum í keppninni kærar þakkir fyrir þátttökuna og óskar þeim til hamingju með þeirra framlag. Alls bárust 37 flugur í keppnina og dómnefndinni var töluverður vandi á höndum í vali sínu. Vinningshafar geta vitjað vinninga sinna í Haugur Workshop, Rauðarárstíg 1 við tækifæri.

Unglingaflokkur: 1.sæti Hilmar Þór Sigurjónsson – 2. sæti Hannes Örn Kristinsson – 3. sæti Alexander Ari
Púpuflokkur: 1.sæti Þóra Sigrún Hjaltadóttir – 2. sæti Kristinn Örn Arnarson – 3. sæti Ragnar Ingi Danner
Meistaraflokkur: 1.sæti Árni Freyr Árnason – 2. Móri
Haugur: 1.sæti Ragnar Ingi Danner – 2. sæti Sigurður Árni Magnússon – 3. sæti Benedikt Vagnsson

Fréttir af Febrúarflugum

Nú er síðasta helgin í febrúar gengin í garð og hillir undir lok mánaðarins. Síðasti þemadagur Febrúarflugna verður mánudaginn 28. febrúar sem jafnframt er lokadagur átaksins þetta árið. Kveikjan að þemanu hefur stækkað fyrir augum okkar dag frá degi í mánuðinum og er beinlínis farin að kalla á aðgerðir;

En það er fleira sem hefur aukist í mánuðinum. Fyrir það fyrsta þá hefur meðlimum hópsins á Facebook fjölga úr tæplega 1.000 í rétt um 1.300 sem endurspeglast heldur betur í fjölda þeirra sem sett hafa inn myndir, en þeir eru komir vel yfir 200. Eitthvað hefur tosast inn af flugum, síðasta talning sem gerð var árla morguns taldi 1.646 flugur í öllum mögulegum útfærslum og gerðum. Efst í huga okkar er þakklæti til ykkar allra sem hafið séð af tíma ykkar í mánuðinum til að deila flugum, hvetja og koma með gagnlegar ábendingar og almennt vera jákvæð og uppbyggileg í þessu litla átaki okkar.

Styrktaraðilar okkar þetta árið hafa heldur betur lagt sitt að mörkum, fyrst og fremst hnýturum til hagsbóta eins og venjulega. Þeim ber að þakka sérstaklega fyrir;

Fréttir af Febrúarflugum

Það hljóta að hafa verið annasamir dagar hjá hnýturum undanfarnar vikur ef marka má dugnað þeirra við að setja inn sýnishorn af hnýtingum sínum á Febrúarflugur það sem af er mánuðinum, 1.100 flugur komnar inn, hver annarri flottari. Svo kitlaði það auðvitað ánægjutaugarnar í gær þegar meðlimur nr. 1.200 gekk til liðs við Febrúarflugur. Það er jú fjöldi þeirra sem fylgjast með og sýna fluguhnýtingum áhuga sem er til marks um ágæti þessa áhugamáls, takk fyrir frábærar undirtektir.

Í byrjun vikunnar auglýsti FOS.IS eftir ófeimnum hnýturum í spjall fyrir hlaðvarp Febrúarflugna. Við leitum að hnýturum sem annað hvort eru að stíga sín fyrstu skref eða eru að endurnýja áhuga sinn á fluguhnýtingum í smá spjall yfir netið, 3 – 4 í sitthvorn þáttinn. Við eigum kannski smá verk fyrir höndum að draga hnýtara út úr skápnum m.v. undirtektirnar, en hver veit nema einhverjir gefi sig á tal við okkur á Malbygg í kvöld (miðvikudagskvöldið) þar sem Þrír á stöng og FOS.IS standa fyrir fluguhnýtingakvöldi frá kl.19 og fram eftir kvöldi. Annars eru hnýtarar hvattir til að gefa kost á sér í spjall með því að senda FOS.IS skilaboð eða tölvupóst, fullri nafnleynd er heitið, eða þannig sko.

Smá skilaboð til þeirra sem hyggjast mæta á hnýtingakvöldið í kvöld; takið endilega með ykkur hnýtingagræjur og ljós ef þið viljið sjá til, jafnvel fjöltengi ef því er að dreifa. Miðað við undirtektir þá er óvíst að aðstandendur hafi úr nógum græjum að moða fyrir alla gesti kvöldsins.

Þess ber að geta að upplýst hefur verið um meðlimi Hrafnaþings hnýtingakvöldsins, en það eru þeir nafnarnir Hrafn Ágústsson og Hrafn H. Hauksson sem ætla að taka sæti gestahnýtara kvöldsins á Malbygg. Það ber sjaldan jafn vel í veiði fyrir áhugafólk um fluguhnýtingar að berja þessa snillinga augum á einum og sama staðnum.

Fluguhnýtingakvöld

Þrír á stöng í samvinnu við FOS.IS og Febrúarflugur býður til hnýtingakvölds á Malbygg Taproom, Skútuvogi 1H, miðvikudaginn 16. febrúar, húsið opnar kl.19:00.

Malbygg verður með tilboð á barnum, efnt verður til happdrættis, open mæk og á staðnum verða vanir hnýtarar sem aðstoða og leiðbeina þeim sem þess óska. Áhugasömum er bent á að fylgjast með og skrá sig á Fluguhnýtingakvöld! á Facebook.

Fréttir af Febrúarflugum

Eins og slegið var föstu í síðasta hlaðvarpi Febrúarflugna þá verður þema Febrúarflugna, mánudaginn 14. febrúar, bleikar flugur og helst með miklu blingi. Eins og áður, þá er engin skylda að taka þátt í þemadögunum, en ef undirtektirnar verða eitthvað í líkingu við það sem varð síðasta mánudag, þá verður ýmislegt bleikt á ferðinni í hópinum á Facebook á mánudaginn.

Niðurstaða úr örsnöggri talningu á innleggjum mánaðarins á Facebook og Instagram, þá eru tæplega 900 flugur komnar inn og meðlimir Febrúarflugna eru nú 1.175 og fjölgar daglega.

Í vikunni fjölgaði enn i hópi styrktaraðila þegar e-FLUGAN bættist í hópinn og þar með eru þeir orðnir 12 sem standa þétt við bakið á FOS.IS í þessu stússi.

Við viljum minna þá á sem ekki hafa tök á að fylgjast með Febrúarflugum á Facebook eða Instagram á að við reynum eftir fremsta megni að uppfæra myndasafnið hér á síðunni eftir því sem tími gefst til.

Febrúarflugur á Instagram

Febrúarflugur eru ekki aðeins á Facebook, þær er einnig að finna á Instagram  og þar hafa margar kunnuglegar flugur komið fram með millumerkinu #februarflugur að undanförnu.

En það hafa einnig komið inn flugur á Instagram sem ekki er að finna í hópinum Febrúarflugur á Facebook. Ef okkur skjátlast ekki þeim mun meira, þá eru tveir aðilar sem aðeins setja inn flugur á Instagram en það eru Instagram notendurnir @arnasonflytying og @flugugram en þeir eru virkilega þess virði að fylgja.

Þær flugur sem finna má á Instagram með millumerkinu #februarflugur eru hér í einu safni í slembiröð:

Fréttir af Febrúarflugum

Febrúarflugur hafa farið með eindæmum vel af stað og að morgni þessa dags þá eru flugurnar komnar vel yfir 300 og útlitið er sérlega gott um helgina fyrir fluguhnýtingar. Spáin gerir ráð fyrir leiðinlegu útivistarveðri víðast hvar um landið, töluverðu frosti og víða gengur á með éljum. Sem sagt; tilvalið veður til að setjast niður við hnýtingarþvinguna og setja í nokkrar flugur.

Mánudagurinn 7. febrúar er fyrsti Þemadagur Febrúarflugna. Að þessu sinni urðu eins efnis flugur fyrir valinu og meðlimir Febrúarflugna eru hvattir til að hnýta slíkar flugur. Til glöggvunar þá eru eins efnis flugur þær flugur sem innihalda aðeins eitt hnýtingarefni fyrir utan krók og þráð.

Það er engin kvöð að taka þátt í Þemadögum Febrúarflugna því eins og venjulega eru allar flugur velkomnar inn í Febrúarflugur, en það gæti verið skemmtilegt að sjá hvað hnýturum dettur í hug að setja saman úr einu hráefni.

Enn fjölgar styrktaraðilum Febrúarflugna og nú hefur Kolskeggur bæst í hópinn og eru styrktaraðilar því orðnir 11 þetta árið. Innan skamms mun FOS.IS kynna þá betur og ýtarlegar til leiks.

Eftir því sem tök eru á setjum við inn myndir úr Febrúarflugum, bæði af Facebook og Instagram inn á FOS.IS og nú þegar eru komnar 300 myndir inn á Febrúarflugur fyrir þá sem ekki hafa tök á að fylgjast með á ofangreindum miðlum. Við minnum millumerkið okkar á Instagram, allar myndir sem merktar eru #februarflugur taka sjálfkrafa þátt í þessu litla átaki okkar allra.

Fyrsti í Febrúarflugum

Febrúarflugum var ýtt úr vör á miðnætti og þegar þetta er skrifað (kl.18:20) hafa 55 flugur og innlegg þegar dottið inn á hópinn.

Að vanda þá á FOS.IS mikið undir velvild styrktaraðila þannig að unnt sé að veita viðurkenningar til heppinna hnýtara í lok mánaðarins og að þessu sinni hafa gamalkunnir og nýir aðilar létt undir með okkur og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Að þessu sinni eru styrktaraðilar okkar þessi:

Ein að nýjungum Febrúarflugna þetta árið er Fluguhnýtingakeppni Haugsins og Febrúarflugnaar þar sem keppt er í fjórum flokkum; Meistaraflokki, Almennum flokki, Púpuflokki og Unglingaflokki. Reglur keppninnar eru hér að neðan en þær má einnig sækja á PDF formi hérna.

Haugur og Febrúarflugur efna til fluguhnýtingakeppni í fjórum flokkum í febrúar. Keppt verður í Meistaraflokki, Almennum flokki, Púpuflokki og Unglingaflokki. Flugunum ber að skila í síðasta lagi 22. febrúar 2022 á Haugur Workshop, Rauðarárstíg 1, 105 Reykjavík í þremur umslögum. Flugan sjálf í einu umslagi sem merkt er leyninafni þátttakanda og flokki sem hún tilheyrir, nafn þátttakanda í öðru umslagi sem einnig er merkt leyninafni og bæði umslögin í einu ómerktu.

Fyrst og fremst verður horft til handbragðs og frágangs flugna, ásamt því að þær verða að uppfylla ýtrustu kröfur og reglur varðandi jafnvægi í flugu.

Meistaraflokkur

Þátttakendur í þessum flokki hnýti fluguna Nighthawk samkvæmt upprunalegri uppskrift:

  • Þráður: Rauður
  • Broddur: Ávalt silfur
  • Stél: Hausfjöður gullfasana og fjöður af Kingfisher
  • Kragi: Rauð ull eða rauð selshár
  • Vöf: Ávalt silfur
  • Búkur: Flatt silfur
  • Skegg: Svart
  • Vængur: Svartur kalkúnn eða svört gæs (má vera hárefni)
  • Kinnar: Frumskógarhani með Kingfisher yfir
  • Horn: Macaw
  • Toppur: Gullfasani
  • Haus: Tvískiptur, rauður aftar og svartur fremri
Almennur flokkur

Þátttakendur í þessum flokki hnýti flugu Sigurðar Héðins, Haugur samkvæmt eftirfarandi uppskrift:

  • Þráður: Fire Orange
  • Skott: Svart með tveimur bláum krystalþráðum
  • Búkur: Pearl floss mylar
  • Skegg: Kóngablá hæna
  • Vængur: Svartur með tveimur bláum krystalþráðum
  • Haus: Fire Orange
Púpuflokkur

Í þessum flokki ræður sköpunargáfan og hnýturum er frjálst hvað þeir senda inn. Hér verður haft að viðmiði að handbragð sé gott og helstu reglum um púpur sé fylgt.

Unglingaflokkur ( 0 – 16 ára )

Hér fær sköpunargleðin fyrst og fremst að ráða för. Fyrst og fremst verður horft til frumleika og sköpunargáfu. Sem dæmi að ef einhver getur hnýtt Homer Simpson á öngul, mun sú hnýting skora hátt. Í þessum flokki má senda inn laxa-, bleikju-, urriða- eða sjóbirtingsflugu. Athugið að aldurstakmark er 16 ára í þessum flokki.

Verðlaun

Í hverjum flokki fyrir sig eru veitt verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sætið. Verðlaunin eru þau sömu í öllum flokkum og þau eru:

  • Fyrsta sæti: 15.000 króna úttekt á hnýtingarefni hjá Haugur Workshop
  • Annað sæti: 10.000 króna úttekt á hnýtingarefni hjá Haugur Workshop
  • Þriðja sæti: 5.000 króna úttekt á hnýtingarefni hjá Haugur Workshop

Allar nánari upplýsingar veitir Sigurður Héðinn hjá Haugur Workshop, Rauðarárstíg 1, í síma 8344434 eða með tölvupósti siggi@haugur.is