FOS
  • Færslur
  • Flugur
    • Flugur – uppskriftir
    • Febrúarflugur
    • Úr þvingunni
    • Klassískar flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Að rugla í erfðafræði fiska

    13.nóvember 2022
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Sumir pæla mikið, rosalega mikið, í flugum. Stöku veiðimaður sekkur svo djúpt í flugupælingar að það jaðrar við lyndisbrest (geðveiki) og verður eiginlega að teljast óheilbrigt. Guði sé lof, þá er ég alls ekki þannig og næ alveg að standa með báðar lappirnar á jörðinni þegar kemur að flugum og flugupælingum.

    Á nokkurra klukkustunda flakki mínu um daginn á síðum um flugur og fluguhönnun, þá rakst ég á ummæli mislynds andstæðings veiða og sleppa sem vildi meina að þessi árátta (e: compulsion) væri að skemma alla fluguveiði í heiminum. Það væri orðið nær ómögulegt að fá fisk til að taka flugu, hann þekkti orðið allar flugur sem settar hefðu verið saman og vissi að það væri bara ávísun á kvöl og pínu að glefsa í þetta dót.

    Mér brá þegar ég las þetta, vissi ekki að kunningi minn væri svona vel máli farinn á erlenda tungu og gæti skrifað af slíkri snilld. Að sama skapi undraðist ég að hann kvittaði ekki fyrir færslunni með því nafni sem presturinn í Hafnarfirði jós honum yfir höfuð fyrir áratugum síðan.

    Ég á nefnilega kunningja sem ýjaði að því fyrir ekki svo löngu síðan að það væri mögulega búið að ástunda V&S svo lengi í ákveðnum ám að þriðja og fjórða kynslóð fiska væri kominn með genatíska innprentun að matur væri ekkert í líkingu við þekktar flugur sem hingað til hefðu alveg virkað en væru bara alveg hættar að gefa.

    Erfðamengi Atlantshafslax (til vinstri) og bleikju (til hægri)

    Allt í lagi, þessi inngangur var svolítið kerskinn, en hann er sannur að tvennu. Ég rakst á þessa grein og ég á kunningja úr Hafnarfirðinum sem sagði þetta. Reyndar klikkti hann út með því að segja; Tja, ég veit ekki þannig að það getur alveg eins verið að hann hafi verið að atast í mér. En, þegar öllu er á botninn hvolft þá eru kenningar um að lærð hegðun erfist á milli kynslóða. Getur þá ekki verið að fiskur sem sleppt hefur verið X sinnum á ævinni taki upp á því að forðast oddhvassa hluti sem veifað er framan í hann? Brot af þessari fóbíu festist í genum fisksins og erfist þannig yfir í næstu kynslóð sem kveikir þá fyrr á þessari fóbíu og þannig koll af kolli þar til einhver kynslóðinn þarf ekki einu sinni að prófa að glefsa í flugu til að forðast hana. Ég segi nú bara eins og kunningi minn; Tja, ég veit ekki.

  • Þrennt til að skoða

    10.nóvember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Sumt veit maður eða þykist vita þegar kemur að því að velja flugu á veiðistað. Hvort maður fer eftir því, er allt annað mál. Fyrir veiðiferðina er hægt að gaumgæfa í þaula allt þekkt skordýralíf í nágrenninu á pappír (eða á vefnum), kíkja í veiðibækur og vinsælar flugur sem skráðar eru víðsvegar og bera þetta allt saman við allar mögulegar flugur sem er að finna í boxunum. Hvaða pöddu hver fluga á að líkjast, á hvaða dýpi flugan veiðir best og allt þar fram eftir götunum.

    Þó maður nái að mastera þetta allt áður en maður fer í veiði, þá er eins líklegt að allt klikki og maður leiti í einhverjar öruggar flugur sem alltaf hafa gefið. Það geta verið nokkrar ástæður fyrir þessum þekkta flótta í öruggu flugurnar, en það gæti hjálpað að hafa þrennt í huga þegar maður er mættur á staðinn og er enn að setja saman. Allt þetta ætti að framkvæmast á meðan maður gerir ekki neitt.

    Þegar ég segi að gera ekkert, þá er það náttúrulega ekki alveg rétt, það sem ég á við er að láta enga handavinnu eða tiltekt trufla þig í 5 mínútur. Notaðu tímann til að horfa á vatnið, vatnsbakkana og settu þig síðan í stellingar að gerast skýjaglópur. Það sem þú sérð eða ekki á vatninu gefur þér vísbendingu um hvort fiskurinn sé í æti sem er á yfirborðinu, rétt undir því eða einhvers staðar dýpra.

    Það sem þú getur séð á vatnsbakkanum er mögulega fullvaxta fluga eða annað skordýr sem á ættir að rekja til vatnsins. Þarna hrapa ég stundum niður í ómælisdýpi flautaþyrilsinns og gleymi því að þetta fullvaxta skorýr á bakkanum var bara púpa eða lirfa í vatninu.

    Skýjaglópur

    Skýjaglópurinn sér oft ýmislegt annað en það sem jarðbundu verurnar gera. Skýjaslæður sem stefna hraðbyri fyrir eða frá sólu geta breytt veðrinu á næstu mínútum og þá getur allt annað verið komið upp á teninginn heldur en var á meðan við töldum 5 mínúturnar niður. Bíddu og endurtaktu fyrstu tvö atriðin þegar veður hefur skipast í lofti.

  • Halda

    8.nóvember 2022
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Hvað á barnið eiginlega að heita? Keflishalda, þráðarhalda, bobbin eða bara eitthvað allt annað. FOS.IS hefur haldið sig við keflishalda og heldur sig við það áfram.

    Næsta spurning; hvað á barnið að verða þegar það verður fulltíða? Byrjendahöldur eru yfirleitt afar einfaldar; stífir leggir með smá hnúð á sitthvorum endanum sem stingst inn í tvinnakeflið. Þar sem leggirnir mætast er, með einum eða öðrum hætti fest stálrör sem þráðurinn er þræddur í. Byrjendahalda er mögulega ekki réttnefni því margir reyndir hnýtarar halda tryggð við þessar einföldu allan sinn feril og una sáttir við. Þeir sem ég hef heyrt í segjast einfaldlega vera komnir upp á svo gott lag með að stilla átakið á þráðinn í lófanum að þeir vilji engar aðrar.

    Einföld með stálröri

    En rekjum okkur aðeins áfram og tölum um næsta skref sem sú einfalda getur tekið í þroskaferlinu. Í sinni einföldustu mynd, þá er rörið sem þráðurinn er þræddur í gegnum út stáli með örlítið rúnuðum brúnum eða jafnvel ávölum flans á endunum. Sum þessara stálröra eru fóðruð með keramík, hertu gleri eða títaníum þannig að þráðurinn renni ljúflega fram úr höldunni þegar hnýtt er. Sumir hnýtarar velja þessar höldur þegar þeir hnýta með koparþræði, aðrir kjósa einfaldlega stálrör í meiri sverleika. Sjálfur hef ég eignast nokkrar svona fóðraðar höldur, en í fullri hreinskilni þá hef ég sjaldnast kunnað fyllilega við þær, ég kýs næstu kynslóð.

    Einföld með keramík röri

    Sú kerflishalda sem ég hef mest notað er kerfishalda með röri úr keramík. Já, hún er viðkvæmari heldur en þær sem eru úr heilsteyptu stáli og ég hef þurft að endurnýja þær nokkrum sinnum ef ég er svo óheppinn að missa þær í gólfið eða reka utan í eitthvað hart eins og t.d. þvinguna mína. Það sem sagt flísast frekar auðveldlega úr þessum rörur og þá er voðinn vís fyrir hnýtingarþráðinn.

    Einföld, stillanleg keflishalda með keramíkröri

    Næstu kynslóðir, sem margir segja vera fullþroska keflishöldur, eru þær sem hægt er að stilla tregðuna á hnýtingarþráðinn, þ.e. hve fast keflishaldan heldur við þráðinn þegar hnýtt er. Ég ætla ekki að hætta mér út í þau fræði sem liggja á bak við alla þá hönnun sem liggur að baki þeim allra bestu í þessum flokki, gæti best trúað að ef verkfræðingarnir á bak við sumar þessara halda hefðu gert mun betur heldur en þeir sem hönnuðu vatnsþéttu skilrúmin í Titanic eða eldflaugar sem tókust aldrei á loft eða skiluðu sér óvænt til baka. Þess í stað ætla ég að láta nægja að nefna að verð og gæði fara stundum hreint ekki saman í keflishöldum, þó vissulega sé vandað til efnisvals og hönnuna þeirra sem eru í verði yfir meðaltali. Hvaða útfærslu af og efnisval í keflishöldu menn kunna við, verður hver og einn að finna hjá sjálfum sér. Ég veit hvar ég á heima og legg eiginlega mest upp úr að öll meðhöndlun höldunnar sé einföld, auðvelt að stilla tregðuna og hún fari vel með þráðinn.

    Eitt smáræði til að nefna að lokum. Flestar keflishöldur eru hannaðar miðað við algengustu stærðina á tvinnakeflum sem eru 31 mm á hæð. Hafið þetta í huga ef þið eruð að nota tvinna sem er á stærri eða minni keflum því sumar höldur ráða hreint ekki við breytilega stærð kefla.

  • Ekkert tíst

    6.nóvember 2022
    Fréttir

    Upp

    Forsíða

    Það er skemmtilegt hvað litlir hlutir geta haft mikil áhrif á daglegt líf okkar. Ungt fólk vekur upp gömul máltæki og staðfærir þau í nýjum tíma, samanber pældu í því sem er náttúrulega ólíkt skemmtilegra heldur en dig into it. Já, ég er smá íslensku perri og þykir skemmtilegt þegar orð og orðasambönd fá nýja eða breytta merkingu í íslensku máli.

    Að tísta er dæmi um orð sem fékk alveg nýja, og að mínu mati stórskemmtilega merkingu með tilkomu Twitter hér um árið. En rétt eins og margur annar smáfugl hefur þessi litli blái orðið fálka að bráð og nú kveður við falskan tón í tísti hans. Reikningur Gróu kerlingar á Leiti hefur nú verið opnaður að nýju á Twitter og núna getur hún nú keypt sér syndaaflausn hjá Musk fyrir litla 8 dollara á mánuði og birt hvað eina sem henni dettur í hug, satt eða logið.

    Með vísan í upphaflegt heiti FOS.IS (flugur og skröksögur) skal það tekið fram að í mínum huga er stigsmunur á að birta skröksögur og merkja þær sem slíkar eða birta þær sem sannleik og fá einhvers konar heilbrigðisvottorð á lygarnar. Persónulega hef ég engan áhuga á að blanda geði við fólk sem ber út lygar eða rætnar sögur um einstaklinga eða atburði, hvorki í raunheimum eða á netinu. Því hefur FOS.IS nú hætt birtingu efnis á Twitter og óskað eftir því að eldri færslum verði eytt og reikningi lokað.

    Þetta er því síðasta færslan sem FOS.IS birtir á Twitter og bendir fylgjendum á að það er alltaf hægt að fá tilkynningar um nýjar færslur á síðunni, beint og milliliðalaust í tölvupósti með því að skrá sig hérna.

  • Dauðahald

    1.nóvember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það er alls ekki það sama að vera með dauðahald á línunni og geta haldið dauðahaldi í fiskinn. Dauðahald getur verið ákaflega dýrkeypt ef verðmæti er talið í fiskum.

    Þegar ég heyrði fyrst þennan frasa, þá var ég hreint ekki viss um hvað um væri verið að ræða. Hélt helst að einhver hefði dottið útí og hefði haldið dauðahaldi í línuna á meðan hann flaut niður einhverjar ógnvekjandi flúðir stórfljóts í gruggugu vatni. Þegar frásögninni vatt fram, þá varð mér ljóst að það var verið að tala um öruggt grip veiðimanns á línu, mjög öruggt grip.

    Dauðahaldið skiptist, að því er mér skilst, í tvær mismunandi syndir veiðimanns, þannig var frásögnin í það minnsta. Fyrst er að telja þá dauðsynd að veiðimaður bregði línunni um fingur sér á meðan hann rennir flugunni fyrir fisk. Mér hefur, satt best að segja aldrei dottið þetta í hug. Kannast að vísu við að halda nokkuð þétt við línuna, en aldrei hef ég brugðið henni um fingur eða hendina alla til að vera öruggur um að missa ekki af töku. Það þarf víst ekki að fara mörgum orðum um ókosti þessa, en ég ætla samt að gera það. Ef fiskur tekur þegar línan er föst fyrir, þá verður höggið væntanlega það sterkt að ekki verður fyrir neitt ráðið, ekkert svigrúm fyrir tilslakanir sem eru oftar en ekki nauðsynlegar þegar fiskur tekur.

    Síðari syndin snýst víst um eitthvað sem ég þekki alveg í æsingi augnabliksins þegar stærsti fiskur dagsins hefur tekið fluguna. Þá á ég það alveg til að setja fast í bremsu eða því sem næst þannig að bremsudiskurinn fer að hitna allverulega, ég segi ekki að hann verði rauðglóandi, en hann getur hitað samt verulega og þegar ákveðnu hitastigi er náð, þá situr allt fast og fiskurinn skyndilega farinn eftir einn hnykk.

  • Stutt í hann

    30.október 2022
    Þankar

    Upp

    Forsíða

    Það kemur að vísu ekki oft fyrir að fiskurinn tekur svo á rás meðfram bakkanum að ég verð að færa mig hratt eða töluvert úr stað til að elta hann, en það hefur þó komið fyrir. Trúlega er þetta algengara vandamál þar sem er straumur, enda hef ég séð nokkra veiðimenn taka á ótrúlega spretti undan straumi, yfir holt og hæði, sandfláka og drullufen til að elta fisk sem ekki vill koma alveg strax að landi.

    Það skiptir víst töluverðu máli að vera rétt staðsettur miðað við fiskinn þegar hann tekur, sem aftur á móti getur verið hægara sagt en gert þegar maður hefur þanið köstin eitthvað langt út í buskann og fiskurinn tekið fluguna þarna einhversstaðar úti.

    Eitt sinn átti ég spjall við veiðimann sem var öllum hnútum kunnugur, hefur eflaust fundið upp nokkra hnúta sjálfur og eyðir mörgum, mörgum dögum við ár og læki á hverju sumri. Það er ekkert leyndarmál að þessi veiðimaður gerir ekkert mikinn greinamun á 50° og 50%, fimmtíu eitthvað segir hann gjarnan og hlær þegar maður hváir. Þessar fimmtíu eitthvað er stefnan sem hann veiðir í út frá bakkanum, sagði hann mér þegar ég leitaði ráða í straumvatni.

    Það var sem sagt ekki bara ruglingur á gráðum og prósentum hjá þessum góða manni, því í hans huga er 100% bein lína, 50% hornrétt.

    Þegar ég hafði loksins náð áttum á þessari prósentu hornafræði viðkomandi, þá fékkst botn í veiðiaðferðina. Fram að þessu hefur hún einfaldlega kallast að þverkasta, þ.e. að kasta beint út frá bakkanum og flestir leyfa flugunni að fljóta með straumnum í einhverjar gráður (eða prósentur) þar til dregið er inn.

    Það gerði þessi góði maður aftur á móti ekki, hann kastaði þvert á strauminn og tók síðan skref til hliðar með strauminum eftir því hvar flugan var staðsett. Þetta þótti mér merkilegt og spurði um ástæðuna. Jú, ofur einfalt, með þessu móti var alltaf stutt í fiskinn til að draga hann að landi. Ég vogaði mér ekki að nefna þá staðreynd að við inndrátt styttist í línunni og þá skiptir engu máli undir hvaða horni dregið er inn, en þessa aðferð hafði hann vanið sig á og ég voga mér ekki að efast um gildi hennar því á hverju sumri liggja hundruðir fiska eftir í hans dagbók. Hann hafði rekist á þetta í góðri bók fyrir áratugum síðan og þótt merkilegt, tekið mark á og stundað síðan.

    Hvort einhver hafi lært eitthvað af því að lesa þessa greinar, það er óvíst enda ekki allt sem maður les á sunnudagsmorgni á netinu fallið til þess að læra af.

«Fyrri síða
1 … 3 4 5 6 7 … 325
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2022 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

Hleð athugasemdir...
 

    • Fylgja Fylgja
      • FOS
      • Gakktu í lið með 156 áskrifendum
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Breyta vef
      • Fylgja Fylgja
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar