Lífsferill sjóbleikju

Hin síðari ár hafa ýmsar rannsóknir farið fram á lífsferli heimskautableikjunnar. Þessi sérstaki stofn lifir aðeins á norðurhveli jarðar og er sú ferskvatnstegund sem hefur nyrsta útbreiðslu. Síðustu áratugi hefur áberandi breyting orðið á vistkerfi norðurhvels jarðar og sterkar vísbendingar eru um að bleikjan sé sífellt að færa sig norðar og norðar á hvelið eftir því hvernig hlýnun jarðar vindur fram. Fyrstu sterku vísbendingarnar um þessar breytingar má merkja í atferli sjóbleikju. Hér gefur að líta lífsferill bleikju sem elst upp í ferskvatni en tekur upp flökkueðli sjóbleikju um tíma eða öll sín fullorðinsár.

Frumbernska sjóbleikjunnar er í engu frábrugðin þeirrar staðbundnu þar til göngumunstur gerir var við sig hjá hluta stofnsins. Eins og áður hefur verið getið, þá getur bleikja sem á staðbundna foreldra tekið upp á því að ganga til sjávar hvenær sem er á lífsleiðinni, svo fremi hún hafi vöxt og tækifæri til sjógöngu. Það eru fyrst og fremst líkamlegir burðir bleikjunnar sem ráða því hvenær á lífsleiðinni hún gengur fyrst til sjávar.

Frá náttúrunnar hendi er bleikjan þó undir það sett að geta aðeins lifað í nokkrar vikur í senn í fullsöltum sjó, yfirleitt fjórar til sex vikur, að hámarki átta vikur. Það vekur þó athygli að þessi eiginleiki hverfur ekki hjá bleikjunni þótt kynslóðir ákveðins stofns hafi eingöngu alið aldur sinn í ferskvatni. Opnist leið til sjávar úr einöngruðu lífkerfi getur bleikjan, líffræðilega séð, tekið upp á því að ganga til sjávar og það sem meira er, hún gerir það.

Sjógönguhegðun bleikju er ekki bundinn við kynþroska fisk, geldfiskur gengur einnig til sjávar, en almennt hefur bleikjan ekki sjógöngu fyrr en hún nær 18 – 26 sm lengd. Kynþroska fiskur gengur til sjávar um leið og fyrstu ísa leysir og geldfiskurinn fylgir fast á eftir. Að sama skapi hverfur kynþroska fiskur fyrst til uppruna síns til þess að hrygna, geldfiskurinn nokkru síðar. Dæmi eru raunar um ákveðin vatnasvæði þar sem mjög óljós skil eru á milli sjávar og ferskvatns og þar virðist bleikjan vera á sífelldu rápi á milli svæða, að öllum líkindum lætur hún æti stjórna för. Yfirleitt heldur sjóreiður sig í innan við 50 km fjarlægð frá heimahögunum, en einhver dæmi eru um tvö eða fjórfalda þá vegalengd sem hún fer í sjó. Að vori étur bleikjan helst rauðátu (krabbadýr sem er 2 -3 sm að lengd) en þegar líður á sumarið fækkar rauðátu og þá færir bleikjan sig yfir í önnur krabbadýr, marflær og aðra hryggleysingja, jafnvel smáfisk (síli). Vöxtur bleikju í sjó er mjög hraður eða um 70% á hverju sumri, mestur hjá geldfiski og getur numið 6 – 10 sm. Hratt dregur úr vaxtarhraða bleikju við kynþroska og er hann þá ekki nema 0,5 – 6 sm.

Sjóganga bleikjunnar er nokkuð regluleg eftir að hún hefst, en kynþroska fiskur á það þó til að sleppa stöku ári úr og halda sig eingöngu í ferskvatni það árið. Flækingar sjóbleikju eru þekktir og eru það geldfiskar sem ganga ekki endilega upp í heimaá sína úr sjó, en þegar kynþroska er náð þá ganga þær nær undantekningalaust aftur upp í sína heimahaga og hrygna þar.

Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980.

Mismunur línugerða

Það hafa komið hér á síðunni nokkrar greinar um línur í gegnum tíðina, en um daginn tók ég eftir því að það vantaði hér inn smá skýringar á því hvernig mismunandi línugerðir haga sér í vatni. Hér á eftir geri ég heiðarlega tilraun til að bæta úr þessu. Byrjum á mynd af þeim fjórum helstu gerðum lína sem í boði eru:

Flotlínan (F) er orange á myndinni og flestir fluguveiðimenn þekkja hvernig hún hagar sér, liggur bara þarna á yfirborði vatnsins og það eina sem getur dregið hana undir yfirborðið er þyngd flugunnar. Haus flotlína er yfirleitt þetta 35 – 45 fet og form hans getur verið með ýmsum móti. Það má lesa nánar um það í þessari grein.

Sökkendalína er gul á myndinni (T). Hefðbundin sökkendalína er í raun flotlína, en fremstu 10 – 15 fetin af hausnum eru þannig hönnuð að þeir sökkva. Svo fer málið aðeins að flækjast því það er hægt að fá þessar línur með mismunandi sökkhraða. Algengast er að sökkhraði sé mældir í tommum á sekúndu (IPS) og algengt að þær sökkvi frá 3 IPS og upp í 9 IPS. Á mannamáli þá þýðir þetta að 3 IPS fer frekar rólega niður í vatnið en 9 IPS steinsekkur.

Intermediate  (I) er heil flóra af línum og er sú bláa á myndinni. Sá partur línunnar sem í raun sekkur getur verið frá 15 fetum og allt að enda línunnar, þess sem er inni á hjólinu (full intermediate) sem ég verð að viðurkenna að mér finnst þá vera nokkuð nálægt því að vera síðasta gerðin, þ.e. sökklína. Sökkhraði intermediate lína er mis mikill, allt frá slow (0,5 IPS) og upp í fast (1,5 IPS). Það sem mér finnst vera góð intermediate lína er sú sem er með tiltölulega góðum haus (skothaus) og stöðvast í sökkinu um leið og ég tek í hana. Það má lesa nánar um intermediate línur í þessari grein.

Sökklínu (S) eru línur sem sökkva alveg frá byrjun til enda og er sú gráa á teikningunni. Hérna er ég ekki sérstaklega sterkur í lýsingum, hef lítið sem ekkert notað heilsökkvandi línu í vatnaveiðinni og um leið og ég skrifa þetta, þá rennur upp fyrir mér að ég veit bara hreint ekki af hverju ekki. Heilsökkvandi línur eru, eins og heiti þeirra segir til um, sökkvandi línur í hraða 3 IPS og alveg upp í 7 IPS rétt eins og sökkendalínurnar. Stærsti munurinn ku vera að þær sökkva alla leið, í tvennum skilningi, frá byrjun til enda og ef þeim er gefinn nægur tími, þá er ekkert það dýpi sem þær ná ekki niður á. Eftir að hafa spáð og spekúlerað í hvar þeir fengsælustu hafa verið að veiða í Veiðivötnum síðustu árin, þá er þetta línan sem mig vantar í vötnin þar sem botninn er ekki urð og grjót alla leið.

En nú er sagan aðeins sögð að hálfu leiti, þessar línur haga sér náttúrulega með misjöfnum hætti við inndrátt. Sú saga verður sögð í öðrum pistli hér á síðunni.

Skaftá 17. & 18. apríl 2021

Þetta árið raðast það þannig upp hjá okkur veiðifélögunum að fyrstu bókaðar ferðir okkar eru í rennandi vatn. Svo skemmtilega vill til að þennan dag, þ.e. 17. apríl var slétt ár frá því við veiðifélagarnir fórum í okkar fyrstu veiðiferð 2020 og þá líka í rennandi vatn.

Að þessu sinni bauðst okkur að taka stöng á móti góðum félögum á nýju svæði í Skaftá neðan við ós Tungulækjar. Tveir dagar á viðráðanlegu verði, stutt og snoturt svæði sem hentaði okkur alveg ágætlega. Við gerðum reyndar örlítið meira úr ferðinni austur, fórum í vísindaferð inn með Skaftá á föstudeginum en áin var í töluverðum vexti, kolsvört og óálitleg, þannig að það var lítið bleytt í færi þá, telst eiginlega ekki með.

Laugardagurinn var svolítið blautur, svona klassískur vordagur þar sem örlítið vantaði upp á hitatölurnar, en slapp þó til. Það játast alveg að það tók mig töluverðan tíma að fóta mig í línuvali í Skaftánni. Ég reyndi samsetta línu flot/sökkendi, en ég náði ekki neinu lagi á köstin, hvort sem það var nú mér að kenna (líklegast), stönginni (afar ólíklegt) eða línunni (kemur til greina). Eitthvað fannst mér sökkendinn vera helst til langur og jafnvel of þungur, þannig að ég skipti yfir í flotlínu og valdi mér sökktaum sem var heldur grennri, styttri og ekki eins hraður.

Eftir töluvert marga kaffibolla, nestisát og endalaust gláp á ekkert sem sást í vatninu, kom að því að síminn hringdi. Yngra eintakið af feðgunum sem hafði lagt land undir fót og fært sig í útjaðar svæðisins til suðurs hafði sett í þennan líka rosalega dreka. Þegar við gömlu mennirnir mættum á staðinn, stóð baráttan enn yfir og það var ekki laust við að maður horfði með smá öfund á úthaldið sem bæði veiðimaður og fiskur höfðu í þessari baráttu. Eitthvað sagði mér að þetta færi aðeins á einn veg, þ.e. fiskurinn næðist á land, yrði mældur og sleppt aftur, svo öruggur var strákurinn í viðureigninni. Þegar til átti að taka var málbandið víðsfjarri þannig að umræddur fiskur var mældur með taumaefni og sleppt. Þegar til baka var komið reyndist taumaefnið vera 89 sm að lengd, flottur fiskur.

Eftir þetta var lítið að frétta, í það sem mér fannst vera óendanlega langur tími. Maður smellti af einni mynd í pásu og birti á Insta með þeim orðum að nú væri pása, frá engu. Örvænting þess sem ekki hefur orðið var við fisk lak af myndinni, en þess var síðan ekkert mjög langt að bíða að ég setti í fisk. Sjóbirtingur er jú urriði og ég hef nú alveg tekist á við urriða í vötnum, en sjóbirtingur að vori er ekki fullur orku og viðureignin stóð ekki lengi. Enn og aftur var málbandið víðsfjarri, þannig að hann var mældur við stöngina. Síðar kom í ljós að það eru 81 sm frá enda stangar að fyrstu lykkju.

Ég held að það hafi jafnvel verið í næstu skiptingu sem ég setti aftur í fisk og sá var heldur sprækari, geldfiskur í ágætum holdum en greinilega á leið til sjávar að fá sér í gogginn, 64 sm fiskur. Báðir tóku þeir það sem almennt var talið ólíklegt í birtinginn, Cats Wisker #10

Það hljóp náttúrulega kapp í mannskapinn, en lítið sem ekkert urðum við vör við fisk það sem eftir lifði dags og fórum því tiltölulega snemma í hús, létum heyrast hviss í dósum og flettum fréttamiðlunum og rákum þá augun í þessa umfjöllun, flottur strákurinn.

Sunnudagurinn hóf sig til flugs, bjartur og fallegur en það lá eitthvað í loftinu sem sagði manni að það yrði e.t.v. fátt um fína drætti.

Sunnudagur kl.11:45

Hitastigið náði sér ekki á flug og veður skipuðust skjótt í lofti, á 10 mín dró ekki bara eitt ský fyrir sólu, þau voru mörg og sum þeirra helltu úr sér rigningu, hagli og slyddu. Það var svo sem í kortunum að það yrði ekki hlýtt þennan dag og það var eins og fiskurinn hefði lesið spánna og ákveðið að fara ekkert framúr þennan daginn. Þann tíma sem við reyndum, urðum við ekki vör við fisk í Skaftá og skoðunarferð (án stangar) inn að ósi Tungulækjar var á sömu leið, ekki sporður í sjónmáli.

Sunnudagur kl.11:55

Þegar allir voru búnir að fá nóg af gusti og kulda, pökkuðum við einfaldlega saman og héldum heim á leið. Fyrir mér var þetta mjög áhugaverð ferð, ekki endilega vegna fiskanna, heldur vegna þess að mér gafst þarna tækifæri til fylgjast með alveg frábærum veiðimönnum að renna fyrir fisk í straumvatni. Held bara að ég hafði náð að fylla í eitthvert tómarúm í þekkingarbrunninum mínum sem ég hyggst nýta mér í næsta mánuði þegar það verður komið sumar og ég held aftur á þessar slóðir. Sama sýsla, sami hreppur, annað svæði. Takk fyrir samveruna, Björgvin, Örvar Óli og minn fasti veiðifélagi, Þórunn Björk. Þetta var virkilega gaman.

Lífsferill bleikju

Lífsferill bleikju og urriða getur verið öllu flóknari heldur en laxa. Rannsóknir hafa sýnt að erfðafræðilegir þættir virðast ekki ráða því hvort afkvæmi bleikju verði staðbundin eða ganga í sjó. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt fram á að bleikja getur verið staðbundinn langt fram eftir aldri, en þegar ákveðinni stærð er náð, þá tekur hún upp á því að ganga til sjávar í nokkurn tíma, gerir jafnvel hlé á gönguhegðun í einhvern tíma en tekur hana upp aftur síðar. Hér gefur að líta lífsferil bleikju sem elst upp í lokuðu vistkerfi (vatni) og er því staðbundinn allt sitt líf.

Lífsferill staðbundinnar bleikjur er í meginatriðum afskaplega einfaldur. Staðbundinn bleikja hrygnir að öllu jöfnu í stöðuvatni en getur einnig valið sér lygnari ár og læki ef því er að skipta. Bleikjan hrygnir yfirleitt á bilinu september og fram í desember, afar misjafnt þó eftir stofnum og það eru jafnvel til dæmi um stofna sem hrygna í janúar og febrúar. Aðlögunarhæfni bleikjunnar er orðlögð og dæmi eru um að hún hrygni á allt að 100 m dýpi. Hrogn bleikjunnar eru á bilinu 3 – 5 mm, fjöldi þeirra afar misjafn en að jafnaði hrygnir stærri fiskur stærri hrognum. Hrognin klekjast yfirleitt á bilinu mars – maí og kviðpokaseiðin dvelja í einn mánuði í mölinni og fæða þeirra er aðallega smádýrasvif og smálirfur vatnaskordýra. Stærð kviðpokaseiða er u.þ.b. 1,5 en þegar þessu stigi lýkur færa seiðin sig út í vatnsbolinn og halda sig til að byrja með í botnlagi vatnsins en færa sig síðan upp og dreifa sér og byrja að éta stærri fæðu, s.s. krabbadýr, snigla, og lirfur og púpur stærri skordýra.

Það er afar misjafnt eftir búsvæðum hvenær bleikjan verður kynþroska. Dæmi eru um að bleikja verði kynþroska tveggja ára þar sem samkeppni er mikil um fæðu og er það sterk vísbenind offjölgun einstaklinga í lokuðu lífkerfi. Þá er kynþroska fiskurinn smár og virðist ekki ná að stækka mikið eftir að kynþroska er náð, sem er raunar almenna reglan um bleikju.

Fæða bleikjunnar er afar fjölbreytt, en þar til hún nær 100 gr er uppistaða fæðunnar aðallega hryggleysingjar, en hún getur gerst afræningi annarra fiska, jafnvel eigin stofns þegar hún hefur náð 100 gr. Þess ber þó að geta að vöxtur og atferli bleikjunnar er afar mismunandi eftir stofnum, hitastigi vatns og vitaskuld fæðuframboði.

Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980 og Eldisbóndinn, Háskólinn á Hólum o.fl. útgáfuár ókunnugt.

Að finna fyrir smæð sinni

Ég væri að ljúga ef ég segði að fjöldi manna spyrji mig hvers vegna ég hafi fyrir því að þeytast upp á hálendi til að veiða þegar næsta vatn er innan við 10 mín. akstur frá heimili mínu, en það hefur nú samt komið fyrir. Þegar svo ber undir þyl ég þessa venjulegu rullu um náttúrufegurð og friðsæld fjallamennskunnar alveg þangað til ég heyri sjálfan mig fara með frasa sem allir hafa heyrt. Stundum hætti ég reyndar áður en kemur að því að frasarnir taka völdin, einkum þegar ég sé áhuga spyrjandans fjara hægt og rólega út og augnaráðið hans byrjar að leita að einhverju áhugaverðu í nágrenninu. Það er ekki alltaf auðvelt að skýra það út fyrir fólki sem ekki þekkir, hvernig það er að vera á fjöllum.

Mér finnst hverjum manni holt að kynnast eigin smæð af og til og það er væntanlega hvergi eins auðvelt og á fjöllum, þar er allt stærra en egó einstaklingsins og oft á tíðum ertu sá eini á staðnum. Stangveiði á fjöllum nýtur sífellt meiri vinsælda, og þá er ég ekki aðeins að tala um Íslands. Á síðustu árum hefur orðið hrein og bein sprenging í hálendisveiði í Skandinavíu og Norður-Ameríku, þ.e. heimsálfunni. Svipaða sögu má segja af Nýja Sjálandi og Tasmaníu þar sem veiðiferðamennska hefur lagst ofan á langa hefð íbúa að fara til fjalla, ráfa um og finna fyrir smæð sinni og kúpla sér algjörlega frá erli hversdagsins. Nú þekki ég ekkert sérstaklega sérstaklega vel til ferðamannaiðnaðarins á Nýja Sjálandi, en einhver ástæða er fyrir því að ég sé það oftar og oftar að veiðimenn lauma nettum pillum inn í pistla sínar sem hljóma eitthvað á þessa leið; komst því miður ekki að í vatninu, allt frátekið í skálunum, ekki þverfótað fyrir og svo framvegis. Ein hressilegasta athugasemdin sem ég hef séð frá þarlendum veiðimanni var að hann vildi helst stúta farsímum fræga fólksins, það væri þegar nóg af fólki sem asnaðist upp á hálendið til að upplifa Instagram færslur þeirra frægu. Mér varð barasta hugsað til einhvers kanadísks gutta sem velti sér hér um árið í mosanum í Skaftafellssýslunni og asnaðist síðan fram á bjargbrún sem skömmu síðar varð fótum troðin.

Það fólst ákveðin fró í síðasta sumri fyrir íslendinga eftir nokkur annasöm ár í túrismanum og það gladdi mitt litla hjarta ósegjanlega að sjá og heyra af fleiri innlendum ferðamönnum á fjöllum heldur en mörg undanfarin ár. Afsakið ef einhver á um sárt að binda vegna þess sem heitir í dag tekjufall vegna fækkunar ferðamanna, en kannski þurftu íslendingar einfaldlega á þessari pásu að halda þannig að þeir kæmust að á hálendinu án þess að þurfa að smokra sér í gegnum rútubiðraðir til þess eins að komast út í guðsgræna náttúruna og vera einir með sjálfum sér.

Fjöldi íslenskra veiðimanna á fjöllum verður seint til þess að yfirfylla hálendið, en það má heldur ekki gleyma því að standa vörð um þessa einstæðu upplifun, ekki drekkja henni í veiðitengdri þjónustu þannig að enginn komist að án þess að þurfa að kaupa þjónustu umfram veiðina sjálfa. Síðasta haust heyrðum við hressilega gagnrýni á afleidda starfsemi tengda laxveiði á íslandi, kvaðir um hitt og þetta sem tengdist laxveiðinni væru orðnar aðalútgjaldaliðurinn, ekki veiðin sjálf. Þetta er ekkert ný gagnrýni og verður háværari eftir því sem fiskunum fækkar á stöng. Hvort þetta breytist eitthvað í sumar, er svo allt annað mál.

Ég nýti mér veiðitengda þjónustu uppi á hálendinu og kann afskaplega vel að meta hana, greiði fyrir hana með glöðu geði þeim sem leggja það á sig að halda þurrum og notalegum húsum í rekstri í Veiðivötnum, Framvötnum og víðar. Dásamlegasti kosturinn er að ég á völina sjálfur, ég er ekki skuldbundinn til að kaupa neitt annað en það sem ég vil einmitt kaup og þannig vil ég halda því.

Lífsferill laxa

Lífsferill laxfiska á Íslandi er í nokkrum atriðum frábrugðinn á milli tegunda og þá ekki síst hjá þeim hluta laxfiska sem ganga í sjó einhvern hluta æfi sinnar. Hér gefur að líta nokkur atriði varðandi lífsferil laxa.

Laxinn tekur út mestan vöxt sinn meðan hann dvelur í sjó. Fyrstu árin sem laxinn dvelst í ferskvatni nær hann að verða 20 – 40 gr að þyngd og stækkar frá því að vera 2,5 sm kviðpokaseiði upp í að verða 12 – 15 sm gönguseiði. Það er á þessum árum að laxinn er hve viðkvæmastur fyrir afráni, s.s. fugla og minks. Afrán annarra laxfiska, bleikju og urriða, hefur einnig verið talið nokkurt, en það er ekki sannað svo óyggjandi sé.

Kviðpokaseiði nærast á eigin forða, en um leið og forðinn klárast verða þau að leita sér næringar í smávöxnum skordýralirfum og eru þá kominn í samkeppni við ungviði annarra laxfiska, helst urriða.

Þegar laxinn dvelur í sjó, yfirleitt eitt til fjögur ár, margfaldar hann þyngd sína og talið er að hann nái á fyrsta ári sínu í sjó um að verða 2,5 kg. Það er því augljóst að hann þarf töluverða fæðu meðan hann dvelur í sjónum og er þar af leiðandi afar háður ástandi sjávar og lífríkisins í honum.

Þegar laxinn hefur náð hrygningaraldri gengur hann aftur í uppeldisá sína á tímabilinu maí og fram í október, fyrst sunnan- og vestanlands, síðan norðan og austan. Þeir laxar sem ná að lifa hrygninguna af dvelja veturinn í ánni en ganga síðan aftur til sjávar og dvelja þar í eitt eða tvö ár áður en þeir ganga aftur í árnar til hrygningar.

Athugið að allar tölur um stærð og vöxt eru afar mismunandi eftir ám og árferði, en þær gefa nokkra mynd af þeim breytingum sem laxinn tekur á lífsleiðinni.

Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980.

Heppni að eldast

Ég er einn þeirra heppnu og held áfram að eldast og vonandi að þroskast aðeins. Fyrir utan hið augljósa, þ.e. færri hár á höfði, hrukkur og að þau eftirlifandi hár sem enn tolla á höfði mér eru farin að minna töluvert á silfrað Crystal Flash, þá er ég bara nokkuð góður. En áhjákvæmilega er ýmislegt annað sem aldurinn færir manni. Eitt af því er alveg nýtt orðfæri og viðmót sem kemur helst fram þegar ég opna munninn og heyri heyri í gömlum tuðandi karli sem ég kynntist fyrir 20 árum síðan.

Það hafði einhver góður maður orð á því um daginn í mín eyru að það væri algjör sprengja í nýjungum í fluguveiðinni. Fyrir einhverjum árum síðan hefði ég sperrt eyrun og haft muninn lokaðan, tilbúinn að meðtaka upplýsingar um allar þessar nýjungar, en núna stóð ég mig að því að fussa og sveia í huganum „Nýjungar, þetta er ekkert nýtt, ég man nú þá tíð að …….“ og þar með var gamli tuðandi karlinn mættur.

Það er allt nýtt fyrir þeim sem sér hlutina í fyrsta skiptið, en það er í raun afar fátt nýtt undir sólinni. Það sem er nýr sannleikur eins, en gamalkunnugt stef í eyrum annars og stundum finnst mér eins og ég sé búinn að heyra voðalega margt áður sem flutt er sem nýjustu fréttir.

Rétt eins og aðrir veiðimenn, þá þykist ég hafa orðið var við verulega aukinn áhuga á stangveiði síðustu ár, sérstaklega á vatnaveiði. Nú kann einhver mér eldri að segja eitthvað á þá leið að „það hefur alltaf verið aukning í stangveiði“ en fyrir mér eru þetta nýjar fréttir, ekki síst að ég sé fleiri og fleiri laxveiðimenn finna gleðina aftur í silungsveiðinni. Margir þessara veiðimanna hafa ekki snert við litlum púpum eða hefðbundnum votflugum í áratugi og flest allt sem á borð þeirra kemur er nýtt og spennandi, nýjar fréttir.

„Mikið vildi ég vera með staðkunnugum manni hér sem gæti sagt mér nákvæmlega til hvernig ég á að veiða“ kom úr munni eins sem dreymdi um leiðsögumann sem gæti ljóstrað upp hinni gullnu reglu ákveðins vatns. Mér þótti líklegt að viðkomandi hefði notið óbrigðullar leiðsagnar við ákveðna á nýlega og lifði enn í endurminningunni um það að hafa fengið inn með teskeið hvar, hverju og hvernig hann ætti að kasta. Mér varð hugsað til svona MiB græju eins og Tommy Lee Jones notaði til að þurrka út minni fólks, það væri gott að hafa svona græju stundum til að núllstilla suma veiðimenn, ná þeim niður á lærdómsstigið aftur. Breytileiki vatna eftir árstíma, veðri og tíma sólarhrings er afar mikill og þetta verða menn að læra svolítið sjálfir. Vissulega er hægt að vísa einhverjum á álitlega veiðistaði, en hvernig viðkomandi veiðir verður hann að finna út sjálfur, það sem einum hentar er öðrum fráleitt.

„Það var ekki fyrr en klukkan varð tvö að ég fékk fisk, virkar þetta vatn ekkert fyrir hádegi?“ var ég eitt sinn spurður. Klukka fisksins er ekki skífa með vísum, hún er miklu stærri og gengur ekki alltaf klukkutímann á 60 mínútum. Sumir dagar að vori byrja snemma með glampandi sól, kannski tilheyrandi snjóbráð sem skilar sér niður í nærliggjandi vatn sem rétt rúmlega 1°C heitt vatn. Þá er e.t.v. ekki mikil von til þess að fiskurinn sæki upp að bakkanum fyrr en líða tekur á daginn. Sama vatn, örfáum dögum síðar getur verið kraumandi í uppitökum frá kl.06:00 til 09:00 að morgni þegar flugan klekst en svo gerist ekkert meira fyrr en húmar að kvöldi og hornsílin fara á stjá.

„Urriðinn tók Pheasant Tail en vildi ekki Nobbler“ er mjög góð setning og hún þarf alls ekkert að vera eins fjarstæðukennd eins og viðkomandi lét hana hljóma. Við vitum að urriðar eru sérstakir aðdáendur marabou flugna sem sem líkja eftir hornsílum, en þeir borða ýmislegt annað en hornsíli. Raunar er það svo að hornsíli eru yfirleitt ekki nema á bilinu 15 – 30% af fæðu urriðans, bobbar og púpur fylla upp í það sem upp á vantar. Það er því ekkert einkennilegt við það veiða urriða á púpu, en auðvitað er þetta misjafnt eftir vötnum. Þá getur nú verið gott að vera búinn að safna reynslu í sarpinn.

Ég er ekki viss hvaða viðbrögð ég sýndi við þessu öllu á sínum tíma, en mér þykir ekkert ólíklegt að gamli jálkurinn hafi komið upp í mér og hljómað í það minnsta 20 árum eldri en ég er í raun.

Hraunsfjörður 2.4.2021

Það er nú ekki frá miklu að segja eftir fyrstu ferð okkar í veiði á þessu ári. Við brugðum okkur úr dal yfir á nes og kíktum í Hraunsfjörðinn og nýttum þann hluta hans sem ekki var undir ís. Veðrið lék raunar við okkur og fjörðurinn skartaði sínu fegursta í votti af vori.

Ég notaði tækifærið til að prófa nýja línu í köldu vatninu og var bara nokkuð sáttur við útkomuna, það litla minni sem í henni var þegar hún kom út af hjólinu var fljótt að fara og hún var lítið sem ekkert að stífna í kuldanum.

Ekki urðum við óyggjandi vör við fisk, en grunar þó sterklega að einn slíkur hafi verið að sniglast við grjótgarðinn, það var nú allt og sumt af lifandi fiskum.

Eini fiskurinn sem kom á land var hjá félaga mínum sem náði að endurdrepa dauða flundru eftir að hafa húkkað í hana. Það kæmi mér reyndar ekkert á óvart að sú flundra hafi einfaldlega frosið í hel í síðustu viku, en það koma örugglega hlýindi eftir þessa helgi og þá fara bleikjurnar væntanlega á stjá.

Í gær var 1. apríl

Í gær var 1. apríl og ég gat ekki stillt mig um að bæta smá bulli við greinina um Sleppingar og veiði sem birtist hér. Niðurlag greinarinnar var í tilefni dagsins og því ættu veiðimenn að fara varlega í að stóla á aukna veiði þó þeir séu í nýjum vöðlum.

fos_veidiv_afli_vodlur

Annað í greininni á sér þó einhvern rökstuðning í raunverulegum tölum.

Sleppingar og veiði

Fyrir utan þá sem hlaupa eftir hrekkjum lómanna þann 1. apríl, þá eru margir sem sjálfviljugir taka upp á því að hlaupa fram á vatns- eða árbakka og bleyta í færi eftir langa bið í dag. Svo eru aðrir sem bíða spenntir eftir því að laus rúmfleti í Veiðivötnum fari í almenna sölu, en gerist einmitt í dag.

Dyggir lesendur muna væntanlega eftir nokkur greinum hér á síðunni frá því fyrir áramót þar sem smá skoðanakönnun FOS.IS um veiði í Vötnunum var rýnd, vonandi til gagns fyrir einhverja. Frá því að þessar greinar komu hér fram, þá hafa nokkrir veiðimenn verið í sambandi og viðrað ýmsar hugmyndir sínar og vangaveltur um Veiðivötnin.

Eitt af því sem velt hefur verið upp eru vangaveltur um minni seiðasleppingar í Vötnunum og samhengi þeirra við aflatölur. FOS.IS lék forvitni á að kanna þetta og lagst var í grúsk í tölur um sleppingar, heildarafla og sleppingar síðustu ára. Nærtækast var að leggjast yfir tölurnar úr Litlasjó, þar sem flestir urriða hafa komið á land síðustu árin.

fos_veidiv_medal_afla

Hækkun meðalþyngdar ætti að öllu jöfnu að gefa vísbendingar um fækkun einstaklinga sem gæti orsakast af minni sleppingum seiða árin á undan. Meðalþyngd afla í Litlasjó hefur haldist nær óbreytt síðustu fimm árin og er nánast á pari við meðalþyngd áranna 1999 til 2006 eins og sjá má hér að ofan. Ef við bætum tölum um sleppingar inn í línuritið, þá ættum við að sjá einhverja fylgni þar á milli hér að neðan, en því er ekki til að dreifa.

fos_veidiv_sleppingar_medal

Ef þyngdartopparnir koma fram u.þ.b. 4 árum eftir lægð í sleppingum, þá sjáum við smávægilegan topp 2005 eftir litlar sleppingar 2001, en það vantar þá toppinn 2007 sem hefði átt að koma eftir litlar sleppingar 2003. Toppurinn 2014 kemur þó nær á pari við litlar sleppingar 2009 og 2010. Meðalþyngd 2016 – 2018 eru þó ekki í neinu samhengi við sleppingar 2012 – 2014.

Við fyrstu sýn virðist þó vera aðeins meiri fylgni milli afla og sleppinga í Litlasjó, en þegar nánar er rýnt í tölurnar þá eru töluverð frávik þarna í milli líka.

fos_veidiv_sleppingar_afli

Oft hefur verið talað um náttúrulegar sveiflur í náttúrunni sem verða á sjö til níu ára fresti, en þær eru vandfundnar í þessum tölum. Mögulega liggur hér ekki nægjanlega langt tímabil til grundvallar eða við erum einfaldlega að horfa á eitthvað sem við skiljum ekki.

Í leit minni að marktækri samsvörun afla og umhverfisþátta, gluggaði ég aðeins í aðrar niðurstöður úr umræddri skoðanakönnun FOS.IS  og viti menn, þar kom nokkuð áhugavert í ljós.

fos_veidiv_afli_vodlur

Eins og sjá má hér að ofan er glettilega góð svörun í aflatölum árin eftir að veiðimenn mæta í nýjum vöðlum í Veiðivötn. Framreiknuð spá (rauða línan) fyrir komandi ár gefur fyrirheit um afla í hæstu hæðum ef þau 45% veiðimanna sem ekki mættu í nýjum vöðlum síðasta sumar mundu nú fjárfesta í slíkum fyrir næsta sumar.

Sjálfur er ég á leið í Veiðivötn í sumar, á venjulegum tíma, með mínum venjulega hópi og verð í nýjum vöðlum.

 

Langlínusamtal

Hver þekkir ekki þá umræðu að veiðimenn þurfi ekkert endilega á þessum ógnar löngu köstum að halda? Sjálfur hef ég verið duglegur að letja menn til að þenja köstin, fiskurinn er yfirleitt alltaf nær en maður heldur. Lykillinn að langlínusamtalinu sem ég átti við sjálfan mig í vetur var einmitt þetta yfirleitt. Það eru alveg þau tilfelli þar sem löngu köstin kæmu sér vel vegna þess að fiskurinn er kannski ekkert eins nærri og maður vill meina.

Þegar maður hugsar um þá gömlu góðu, gullnu reglu að ná að veiða í 180°, skanna svæðið með kerfisbundnum köstum, þá takmarkast svæðið sem veiðimaðurinn nær að dekka við lengdina á köstunum, augljóslega.

Ef viðkomandi veiðimaður nær lengri köstum, þá er svæðið að sama skapi stærra og það þarf fleiri köst til að ná sama þéttleika í dekkun eins og með styttri köstum.

Þetta ætti að þýða að það séu töluvert meiri möguleiki á að hitta á fiskinn ef maður notar lengri og fleiri köst, að því gefnu að fiskurinn sé viðlátinn á annað borð.

En í hvaða tilfellum er fiskurinn ekki jafn nærri landi eins og í venjulegu kastfæri? Skiptum aðeins um sjónarhorn á skýringarmyndinni, setjum inn dýptarlínur og álitlegan fisk.

Veiðimaðurinn stendur þarna undir bakkanum, rétt fyrir framan hann dýpkar snarlega um 25 sm þannig að lengra kemst hann ekki. Fiskurinn hefur komið sér fyrir við kantinn og er þar í æti. Gefum okkur að veiðimaðurinn nái að öllu jöfnu að kasta á A, sem er vel að merkja utan sjónsviðs fisksins og á 50 sm grynnra vatni. Í svona tilfelli væri heppilegt að geta sett fluguna niður á B, leyfa henni að sökkva og draga að fiskinum.

Auðvitað er þessari skýringarmynd ofaukið því flestir gera sér grein fyrir svona kringumstæðum, þeim er einfaldlega lýst sem svo að fiskurinn sé utan kastfæris. Ástæðan fyrir þessari mynd er af persónulegum toga runninn. Ég man enn eftir þeim stóru, takið eftir þeir voru í fleirtölu, sem voru að voma þarna 50 sm utar en ég gat kastað og þó ég hefði náð þessum 50 sm, þá hefði ég þurft að ná öðrum 50 sm til að koma flugunni niður á þeirra dýpi. Þarna skildi einn metri á milli þess að ég náði þessum eina sem elti hornsílið sem synti í átt að flugunni minni og hinna sem héldu sig þarna úti. Þarna hefði ég vel geta þegið aukna færni í löngum köstum, en það þarf nú kannski ekki mikla æfingu til að ná einum metra lengra.

Nándarmörk

Á undanförnum misserum hefur vonandi öllum lærst hvað nándarmörk eru. Hér áður fyrr, fyrir tíma þú veist hvers, þá fékk ég það stundum á tilfinninguna að nándarmörk væru algjörlega marklaust orð sem væri bara til, hefði enga merkingu. En svona lærir nú skepnan lengi sem lifir og í dag hefur þetta orð mjög ákveðna merkingu í hugum fólks.

Fiskur í vatni er yfirleitt frekar styggur. Ég segi ekki að hann sé ljónstyggur, en honum stendur stuggur af skuggum, trampi á bakkanum og gösli í vatninu, þannig að það er stundum eins gott að virða ákveðin nándarmörk ef maður eygir á annað borð von um smá viðureign.

Okkur veiðifélögunum hefur lærst það í gegnum árin að vera ekkert að troða hvort öðru um tær, halda ákveðin nándarmörk vegna flugukasta og svo vegna fisksins. Þegar lítið er um að vera og við röltum með bakkanum, skimum vatnið og leitum að álitlegum veiðistað, þá skiptumst við stundum á að vera í fararbroddi.

Þegar annað okkar hefur reynt nægju sína á ákveðnum stað, þá erum við lítið að ráfa í vatninu í áttina að hinu. Nei, við förum yfirleitt upp úr og tökum góðan sveig aftur fyrir hitt, látum vita af okkur áður en það okkar sem er að veiða leggur í nýtt kast þannig að maður verði ekki fyrir bakkastinu og sveigjum síðan rólega í átt að næsta álitlega stað. Vissulega kemur fyrir að maður staldri við og spyrji hvaða fluga sé undir, hvort einhver hafi nartað. Ef allt er dautt og ekkert í augsýn, þá getur vel verið að samráðsfundur verði tekinn á bakkanum, lokið skrúfað af kaffibrúsanum og eitthvað maulað í angist yfir aflaleysi. Það má því segja að svona nándarmörk trufli síður fisk eða félaga.

Töfralyf?

Í orðabókum er töfralyf skilgreint sem eitthvað sem hefur undraverð áhrif. Skyld orð eru gefin upp; kraftaverkalyf, töframeðal, galdraformúla, undralyf, kynjalyf. Það er eitthvað mjög ótrúverðugt við öll þessi orð og ósjálfrátt leitar hugurinn til snákaolíu sem hefur verið notað til að lýsa gagnslausum eða jafnvel skaðlegum meðulum.

Í besta falli byrja ég þessar hugleiðingar með efasemdir í huga, ef ekki beinlínis neikvæður. Þetta orð rakst ég á í frétt frá því síðla á síðustu öld þar sem því var slengt fram sem fullyrðingu, svarinu eina við minnkandi laxagengd í ám á Íslandi. Spurningamerkið í fyrirsögninni er töluvert yngra og varð eiginlega til í beinni útsendingu s.l. haust á meðan á fundi Sporðakasta stóð um stöðu laxveiðinnar á Íslandi. Þar sem ég er einn þeirra sem verð að ná endum saman þegar mig brestur minni eða spurningar eru látnar hanga í lausu lofti, þá lagðist ég í grúsk. Til að ná þessum endum saman, þá leiddist ég út og suður og kippti með mér töluverðu efni sem ég reyndi að tengja saman í kollinum á einhvern vitrænan hátt.

Flestar ár og vötn eru í raun lokuð lífkerfi sem verða helst fyrir áhrifum veðurfars og náttúru almennt. Reyndar langar mig til að bæta hér inn einum stærsta áhrifavaldinum sem er mannskepnan, en látum hana liggja á milli hluta til að byrja með. Til að meta hæfni ákveðins svæðis er, eða öllu heldur ætti, að framkvæma svokallað búsvæðamat. Búsvæðamat er unnið með samræmdum hætti samkvæmt verklýsingu Hafró ( VMST-R/0014 ) og er fyrst og fremst ætlað til að meta hvernig viðkomandi svæði hentar t.d. laxi og silungi til uppvaxtar. En búsvæðamat nýtist einnig til ýmissa annarra hluta, m.a. til að koma auga á góð búsvæði í ám og vernda þau sérstaklega og vitaskuld til að velja góð búsvæði til seiðasleppinga. Frjósemi vatns og hentug búsvæði hafa augljóslega hve mest áhrif á vöxt og viðgang laxfiska. Ef við líkjum þessu við venjulegt heimilishald, þá er ekki nóg að byggja stórt hús sem rúmar marga einstaklinga, búrið og ísskápurinn þurfa að geyma næga fæðu fyrir alla íbúa hússins. Innkoma heimilisins þarf að nægja til að brauðfæða alla. Eins má ekki gleyma því að aldur fjölskyldumeðlima skiptir miklu máli, því eldra sem heimilisfólk er, því hærri er matarreikningurinn.

Sem sagt, fjöldi og aldur einstaklinga skiptir máli en það gerir einnig stærð einstaklinga og það á við um mannfólk, urriðaseiði, bleikjuseiði og laxaseiði. Framleiðslugeta vatnasvæðis skiptir því alveg jafn miklu máli fyrir lax og silung því laxaseiði þurfa jú líka að nærast eftir að þau klekjast. Víða hefur færst í aukana að stærri seiðum sé sleppt í ár heldur en áður þekktist. Ræður þar mestu að stærri (stálpaðri) seiði eru lífvænlegri heldur en þau smærri. Stærri seiði taka til sín meiri fæðu heldur þau smærri og því ætti að sleppa til muna færri einstaklingum. Sé horft framhjá seiðasleppingum og aðeins reiknað með þeim svæðum þar sem náttúruleg hrygning fer fram, þá skiptir stærð hrygningarfisks líka töluverðu máli. Þar sem áhersla hefur verið lögð á veiða og sleppa, sérstaklega þar sem öllum stærri fiski skal sleppt, þar heggur hve harðast í framleiðslugetu vatnasvæðis. Það hefur lengi verið vitað að stærri laxfiskar framleiða stærri hrogn ( Nikolsky, G.V. 1963. The ecology of fishes ) og gæði hrognanna eru meiri. Stærri hrogn verða til þess að fleiri einstaklingar komast á legg, ungviðinu fjölgar og tekur samsvarandi til sín meiri fæðu. Sem sagt, þar sem sleppingar eru óhóflegar eða hrygningu stýrt ætti að meta stofnstærð ungviðis og bera saman við framleiðslugetu svæðisins. Ef það er ekki gert, þá bera sleppingar seiða og hrygningarfisks ekki tilætlaðan árangur nema til skamms tíma, stofninn er þá einfaldlega orðinn of stór.

Þegar kemur að því að meta stofnstærð hrygningarstofns og nýliðunar er almennt stuðst við tvö mismunandi líkön. Annað líkanið er kennt við Beverton Holt, en hitt Ricker. Bæði þessi líkön gera ráð fyrir að nýliðun aukist með stækkandi hrygningarstofni þar til ákveðnu hámarki er náð. Á þessum tímapunkti skilur á milli þessara líkana. Beverton Holt reiknar með að eftir að hámarki hrygningarstofns sé náð þá fjölgi nýliðum ekkert sökum afráns. Rickers gerir aftur á móti ráð fyrir því að nýliðun dragist saman eftir að hámarki sé náð og því meira sem stofninn fari meira yfir hámarkið. Þetta líkan ( Ricker, W.E. 1975. Computation and interpretation of biological statistics of fish populations ) er oftast notað fyrir laxfiska þar sem afkoma nýliða ræðst mest af samkeppni um fæðu og búsvæði. Þess verður jafnframt að geta að nýliðun laxfiska er mjög háð umhverfisþáttum, sér í lagi þeirra laxfiska sem taka mestan sinn vöxt út í sjó. Ofgnótt nýliða í ám og vötnum er til lítils ef þeir eru ekki nægjanlega öflugir til að komast slysalaust til sjávar og taka upp breyttar fæðuvenjur. Afföll ofgnóttar eru hlutfallslega miklu meiri í sjó heldur en hjá færri sterkari einstaklingum.

En hvert var þá þetta töfralyf? Jú, þarna var verið að vísa til tvöfaldrar bólusetningar sem átti að redda allri laxagengd á Íslandi; auknar seiðasleppingar og sleppa öllum fiski yfir 80 sm. Með öðrum orðum; fjölga einstaklingum eins og mögulegt væri þannig að hrygningarstofninn stækkaði. Það skyldi þó aldrei vera að menn hafi rekist á skurðpunktinn hans Ricker‘s í einhverjum ám hér á landi fyrir einhverjum árum síðan og laxastofnar séu á niðurleið eftir rauðu línunni?

Mögulega er kominn tími til að endurskoða búsvæðamat einhverra áa eða í það minnsta lesa eldra mat aftur og setja það í samhengi við breyttar venjur og aðferðir við fiskirækt; stærri eða fleiri seiði. Fyrir nördana er síðan hægt að taka snúning á því að Ricker á ekki aðeins við stofnstærð í ferskvatni. Stofnstærð og fæðuþörf í sjó fylgir þessu líkani einnig og einmitt þar tekur laxinn út margfaldan vöxt sinn á lífsleiðinni. Kannski glugga ég síðar í samhengi fæðuframboðs í sjó og fjölda seiðasleppinga í ám, sjáum til.

Autumn Ordie

Autumn Ordie er, eins og nafnið gefur til kynna, fluga sem veiðimenn nota gjarnan þegar haustar við skosku heiðarvötnin. Flugan er raunar ekkert annað en önnur litasamsetning þeirrar margfrægu Lock Ordie sem kennd er við Ordie vatn, skammt austan við Tay sem er lengsta á Skotlands. Á þessum slóðum verður vart stigið niður færi án þess að reka tærnar í sögufræga veiðistaði.

Sérstaða þessara flugna er að það er enginn búkur á þeim, aðeins hringvafðar hænufjaðrir í þremur (eða fleiri) litum. Sérstaklega einföld fluga að hnýta og kemur svona líka skemmtilega út.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0 eða 70
Aftasta hringvaf: ljósbrún / gul hænufjöður
Miðvaf: rauð hænufjöður
Fremsta hringvaf: svört hænufjöður
Haus: svartur

Hér smellir Martyn White í þessa flugu Rod Denson, þ.e. afbrigðið sem hann setti saman:

Færra fólk, veiði og væntingar

Það kann að hljóma eins og ég sé einhver mannafæla, sífellt talandi um þessa dásemd að vera einn (eða í smærri hópum) uppi á hálendi í veiði. Já, eflaust er ég með snert af mannfælni, en hjá mér lýsir hún sér ekkert endilega sem óþægindi af því að vera innan um fólk, miklu frekar sem upplifun kosta þess að vera svolítið einn úti í náttúrunni.

Það hefur oft komið hér fram að ég tel það til ótrúlegra forréttinda að vera búsettur á Íslandi þar sem fólksfjöldi er svolítið takmarkaður og þar sem ferkílómetrarnir eru jafn margir pr. haus eins og raun ber vitni. Ég hef fengið að heyra það að við kunnum ekki að meta þau forréttindi að vera ekki öxl í öxl á veiðislóð. Á hálendinu er það ekki vandamál, svona dags dagsdaglega og ef einhver kemur inn á ferkílómeterinn hjá manni, þá hefur maður úr nægum öðrum kílómetrum að velja. Svo er það nú oft þannig að rekist maður á einhvern uppi á hálendi, þá tekur sig gjarnan upp eitthvert spjall og jafnvel samflot út daginn og jafnvel inn í kvöldið þegar á náttstað er komið. Þetta gerist örugglega ekki í fjölmenninu niðri á láglend, það er eins og gríma hversdagsleikans falli þegar uppi á hálendið er komið. Aðilar sem mundu ekki einu sinni kinka kolli til hvors annars á Laugaveginum, taka tal saman, finna sameiginlega þörf til að dásama það að vera til.

Trúlega er það umhverfið, náttúran á hálendinu sem hefur þessi áhrif á fólk, það tengir upp á nýtt og þær tengingar eru miklu sterkari en þær sem myndast í erli hversdagsins. Einstaklingar hverfa inn í borgina og verða í raun ósýnilegir. Einstaklingur getur vissulega horfið á hálendinu, í óeiginlegri merkingu, en náttúran hefur einstakt lag á að draga okkur fram í dagsljósið. Hve oft hefur það ekki komið fyrir að maður fylgir tófu eða mink eftir með augunum og þá fyrst kemur maður auga á næsta veiðimann. Þó auðnin á hálendinu eigi yfirleitt sviðið, þá tekur hún fagnandi aukaleikurum úr borginni og leyfir þeim að vera þátttakendur í hápunkti sýningarinnar.

Veiðimenn miða sinn hápunkt sýningarinnar oft við fisk á land. En það er svo einkennilegt að hápunkturinn færist einhverra hluta til á skalanum yfir fjölda eða stærð fiska þegar upp á hálendið er komið. Vissulega eru þeir til sem fyllast eldmóð og telja afla í fjölda og kílóum, en oftar en ekki þá breytist þetta viðmið á hálendinu. Einn fiskur úr lítt snortnu fjallavatni verður stundum á við 10 úr öðrum vötnum og stærðin þarf ekki alltaf að verða talin í tugum punda til að vekja lotningu. Sumarið uppi á hálendinu er töluvert skemmra heldur en niðri á láglendi og það síast fljótlega inn hjá veiðimönnum að hver veiddur fiskur hefur þurft að hafa aðeins meira fyrir vextinum þar heldur en víða annars staðar.

Allt þetta spilar inn í upplifun veiðimanna af hálendisveiði og eitt besta dæmi þessa eru Veiðivötn á Landmannaafrétti. Veiðimenn taka ástfóstrið við svæðið, taka nærri sér þegar aflabrestur verður og leggjast í spádóma og spekúlasjónir um ástæður og orsakir. Sumir fyllast efasemdum um að þeir staðfesti dagana sína í Vötnunum næsta sumar, en þegar kemur að eindaga, þá greiða menn sína daga og fyllast vonum þess að næsta sumar verði einfaldlega sumarið þegar allt gerist. Annað slagið gengur það eftir og enginn kannast lengur við að hafa haft efasemdir. Svona er aðdráttarafl hálendisins og það ætti enginn að efast um mátt þess og megin. Hálendið sleppir ekki svo glatt þeim sem það hefur náð tangarhaldi á.

Green Weenie

Af skömm minni kemur hér enn ein þeirra flugna sem margir veiðimenn elska að hata. Þessi fluga er með þeim allra einföldustu í hnýtingu, aðeins eitt hráefni og kúla ef hnýtari vill. Þótt Lefty Kreh hafi fullyrt að „Ef það er ekki chartreuse, þá virkar það ekki.“ þá virkar þessi einfalda fluga í nær öllum litum, allt frá hvítu yfir í gult, yfir í rautt og þaðan yfir í dökkgrænt og allt þar á milli. Þekktust er hún þó í þessum lirfu græna lit og þá er maður farinn að nálgast átrúnað Lefty’s.

Þessi fluga var ranglega eignuð Charlie Mack eftir að hann birti hana í bók sinni Pennsylvania Hatches árið 1989 en flugan er töluvert eldri og kom fyrst fram á sjötta áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum.

Höfundur: óþekktur
Öngull: legglangur 10 – 14
Þráður: þráður í stíl við búkefnið
Búkur: chenille í lit að eigin vali
Haus: samlitur búk eða kúla

Smá viðbót

Nú eru allar myndirnar sem komu fram í hópinum á Facebook og á Instagram komnar inn í myndasafnið hér á síðunni. Það reynið aðeins á þolinmæðina ef þið viljið skoða safnið því það tekur smá tíma fyrir rúmlega 1430 myndir að raðast upp. Vinsamlegast athugið að safnið opnast aldrei í sömu röð, þannig að það getur orðið smá leit að einni ákveðinni flugu eða verkum einhvers eins af þeim 192 hnýturum sem lögðu sitt að mörkum að gera síðasta mánuð einn skemmtilegasta mánuður ársins eins og einn þeirra komast að orði í kveðju sem hann sendi FOS.IS

FOS.IS er þegar farið að dreyma um 22022 og hvað við getum gert skemmtilegt á næsta ári, vonandi saman í raunveruleikanum, ekki aðeins á vefnum.

Að raða í boxin

Þegar maður stendur sig að því að skrifa um sama efnið, ár eftir ár, þá er það vísbending um að maður hefur ekkert lært eða einfaldlega ekki staðið við gefin loforð um hitt eða þetta. Ég efast ekki um að einhverjir lesendur hafa rekið augun í greinar hér um bestu aðferðina til að raða flugum í boxið sitt og hér kemur enn ein sem ætlað er að peppa sjálfan mig upp.

Eftir að hafa gert ýmsar tilraunir til að koma reglu á fluguboxin mín, þ.e. þau sem ég er venjulega með á mér, þá sé ég mig knúinn til að einfalda málið allverulega. Flest fyrri loforð mín hafa einfaldlega gufað upp á innan við fjórum veiðiferðum, ef þau komust þá nokkurn tímann til framkvæmda, eins og sjá má af þessari mynd. Þarna úir og grúir öllu saman og ekkert finnst.

Einfaldasta leiðin til að raða í boxin er að byrja í vinstra horninu uppi og lesa boxið frá vinstri til hægri, niður opnuna og yfir á næstu síðu, rétt eins og bók. Mér hefur lærst að raða boxinu mínu þannig að ég byrja á minnstu flugunum og fikra mig síðan upp í stærðum. Þar sem geymsluboxunum mínum er raðað upp eftir tegundum flugna, sköpulagi og litasamsetningum, þá er ekki góður kostur að raða beint úr þeim í vasaboxin. Þess í stað tek ég mig til og pikka úr geymsluboxunum yfir á pappírsörk í svipaðri, eitt box í einu þar til ég hef gripið allar flugurnar sem ég tel álitlegar það og það vorið, sumarið eða haustið. Já, einmitt. Það er líka eitt, ég er hættur að gera ráð fyrir því að nota sama vasaboxið allt tímabilið. Þegar fer að líða á sumarið, álitlegustu flugurnar breytast eftir því sem líður á sumarið.

Það er ekki fyrr en ég er búinn að raða á pappírinn að ég raða í vasaboxin og geri mitt allra besta til að halda röðinni samkvæmt stærð, ekki falla í þá gryfju að setja uppáhaldsflugurnar fremst eða þær sem ég hef mesta trú á. Ég veit náttúrulega ekkert með ykkar veikleika, en minn er einfaldlega sá að ef uppáhaldsflugurnar eru þarna efst, þá les ég eingöngu fyrstu málsgreinina í boxinu mínu og fer ekkert lengra niður. Nýjar flugur, ekkert síðri, lenda oft sem neðanmálsgreinar sem fæstir lesa nokkurn tímann.

Lokafréttir Febrúarflugna 2021

Nú er Febrúarflugum lokið að þessu sinni. Það má eiginlega segja að þátttakendur hafi farið á kostum síðustu daga mánaðarins og það beinlínis streymdu inn flugur og nýir þátttakendur á hverjum degi.

Að lokum fóru leikar svo að alls bárust 1.430 flugur / myndir inn í mánuðinum, meðlimum hópsins á Facebook fjölgaði snarlega upp í 952 og á endanum voru það 192 hnýtarar sem lögðu til flugur í mánuðinum.

Íslendingum er tamt að hampa hópíþróttum á góðum degi, fótbolta-, handbolta- og körfubolaliðum. Ef við heimfærum þann fjölda sem lagði sitt að mörkum í febrúar, þá má smala saman í nokkur slík lið og hefði það eflaust þótt fréttaefni.

FOS.IS hefur lengi staðið í þeirri trú að fjöldi hnýtara væri töluvert meiri en almennt væri talið og það væri mjög orðum aukið að fluguhnýtingar væru deyjandi á Íslandi. Eigum við eitthvað að ræða þann fjölda sem tók þátt í Febrúarflugum 2021 eða þann fjölda af flugum sem komu fram í mánuðinum?

Ekki má gleyma styrktaraðilum Febrúarflugna, þeir fóru á kostum og gerðu okkur kleyft að draga út nöfn 27 heppinna hnýtara sem hlutu viðurkenningar fyrir sitt framlag í ár. Nöfn og viðurkenningar hafa verið birtar í hópinum á Facebook og samband verið haft við styrktaraðilana. Enn og aftur, kærar þakkir fyrir stuðninginn þetta árið.

FOS.IS er fyrst og fremst þakklæti í huga, en líka örlítill aðgerðarkvíði. Sökum ýmissa anna hefur myndasafnið með flugum ársins ekki verið uppfært hér á síðunni í 3-4 daga og það er töluverður haugur af myndum sem bíður vinnslu og innsetningar. Vonandi tekst okkur að ljúka þeirri vinnu á morgun og þá uppfærum við myndasafnið þannig að það verður hægt að skoða allar flugurnar á einum stað.

Það er von okkar að meðlimir hópsins og allur sá fjöldi sem fylgdist með átakinu hér á FOS.IS hafi haft jafn gaman að þessu eins og við. Þetta var frábær mánuður, takk fyrir þátttökuna.

Coch-y-Bonddu

Framandi nafngiftir flugna eru ekki óþekktar. Þessi fluga gæti t.d. heitið á rauð og svört á íslensku ef bein þýðing úr velsku væri látin standa. Eins augljóst og það er þá lýsir þetta flugunni ekki hót og því best að halda sig einfaldlega við Coch-y-Bonddu þó það sé vissulega tungubrjótur.

Flugan er hreint ekki ný af nálinni, á ætti að rekja til áranna rétt eftir 1700 og er þar með ein elsta þekkta fluga sem til er. Upphaflega hnýtt til að líkja eftir vatnabjöllu sem heitir, já einmitt Rauð og svört upp á velsku. Eftir því sem ég best veit, þá er flugan á myndinni hér að ofan sú sem kemst næst því að vera sú upprunalega, en á síðari tímum hafa menn tekið upp á því að skreyta hana með gyltum broddi, jafnvel flötu tinsel í stað vírs í vöfum. Ég veit ekki til þess að höfundur flugunnar hafi neitt amast við þessum síðari tíma viðbótum, í það minnsta fer engum sögum af því að hann hafi heimsótt hnýtara út yfir dauða og gröf til að amast í þeim og því leyfi ég mér að hafa allt skrautið með í efnislistanum.

Bara til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er samnefnd veiðibókabúð á netinu til muna yngri heldur en þessi fluga og það sama má segja um þann rithátt Coch-y-Bondhu sem nafn flugunnar hefur fengið, helst hjá Englendingum hin síðari ár.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 10 – 12
Þráður: Dökkbrúnn eða svartur 8/0 eða 70
Broddur: gyllt kristal flash (seinni tíma viðbót)
Vöf: gyllt flatt tinsel (seinni tíma viðbót)
Búkur: peacock
Hringvaf: brún hænufjöður
Haus: samlitur þræði

Það fer vel á því að skoða hvernig Barry Ord Clarke fer að þvi að hnýta sína útgáfu af þessari öldnu flugu: