JS Buzzer

Sumar flugur fara ekki hátt í umræðunni svo árum og áratugum skiptir þangað til einhver góðhjartaður maður tekur upp á því að kunngera hana. Því er þannig farið með þessa flugu Jóns Sigurðssonar, hún fór ekki hátt meðal þorra fluguveiðimanna á Íslandi þar til Ívar Hauksson kynnti fluguna til sögunnar í heimildarmynd sinni um Jón Sigurðsson.

Einfaldleikinn er oft bestur og það verður ekki sagt um þessa flugu að hún sé flókinn, aðeins tvö hráefni, ef þráður og krókur eru undanskilin. Sjálfur hef ég átt þessa flugur í mínu boxi í einhver ár, hef einhvers staðar rekið augun í hana í boxi annars og hnýtti hana enn einfaldari; krókur, svartur þráður og Peacock herl.

Höfundur: Jón Sigurðsson
Öngull: hefðbundin púpukrókur #10 – #16
Þráður: svartur UNI 8/0
Búkur: svart glansandi Árórugarn
Hringvöf: peacock herl
Haus: svartur, lakkaður

Uppskriftin hér að ofan er fengin úr skýringum við myndband Flugusmiðjunnar sem líta má hér:

Keeper

Flugan er vel þekkt og fjölmargir hnýtarar hafa hnýtt eitthvað í þessa áttina og veitt vel á. Það vita væntanlega færri að þessi fluga á ættir að rekja til Japan eða því sem næst. Þessi fluga í hefðbundinni Tenkara útfærslu hefur verið þekkt þar austur frá í áratugi ef ekki hundruð ára enda er efnisval hennar nægjanlega einfalt til að standast kröfurnar.

Upphafleg flugan var hnýtt á stóra króka m.v. púpu, allt upp í #2 XXL og þannig var hún kynnt til sögunnar vestur í Bandaríkjunum upp úr síðustu aldamótum. Að vísu var hún kynnt undir heitinu Sakakibara til heiðurs Masami Sakakibara sem er vel þekktur í Tenkara heiminum fyrir að hnýta sérlega stórar flugur.

Löngu áður en hún kom fram á sjónarsviðið vestanhafs voru veiðimenn á Írlandi með hefðbundna og almennt minni útgáfu þessarar flugur í sínum boxum og var hún talin eiguleg fluga (e: keeper) og það nafn hefur fest við hana.

Höfundur: óþekktur
Öngull: hefðbundin púpukrókur #10 – #16
Þráður: svartur UNI 8/0
Vöf: koparvír
Búkur: brúnt ullargarn
Hringvöf: brún hænufjöður
Haus: svartur, lakkaður

Rackelhanen

Rackelhahn er blendingur af fasanategund (Þiði) og hænsfugls (Orra) sem er af sömu ætt og rjúpan. Ég þori hreint ekki að kveða upp úr um það hvort þessi blendingur sé í raun til eða hvort hann er einhver þjóðsaga eins og íslenska skoffínið sem á að vera afkvæmi kattar og refs. Hvað sem því líður er Rackelhane afar einföld, einsefnisfluga sem seint verður talin til fallegustu flugna sem komið hafa fram. Meira að segja höfundur hennar, Kenneth Boström sem útbjó þessa flugu árið 1967, faldi fluguna lengi vel fyrir almenningi því honum þótti hún hreint ekki frambærileg. Engu að síður notaði hann þessa flugu töluvert og með góðum árangri og þannig fór að lokum að tilurð hennar lak út og nafnið Rackelhanen festist við hana.

Flugan er hástæð í vatni og gefur vel þegar vorflugan klekst út rétt undir yfirborðinu. Afbrigði þessarar flugur eru fjölmörg, allt frá því að vera úr öðrum lit en upprunalega brúna litnum og yfir í það að vera með ljósan væng og dökkan búk og yfir í það að vængurinn sé hnýttur úr CDC fjöður og jafnvel með hringvafi framan við haus.

Höfundur: Kenneth Boström
Öngull: fíngerður púpukrókur, jafnvel þurrfluguöngull  #10 – #16
Þráður: brúnn 12/0
Búkur og dub: polygarn með góðum floteiginleikum
Haus: svartur, lakkaður

Uppskriftin hér að ofan er upprunaleg uppskrift Kenneth, en myndbandið víkur nokkuð frá henni:

Shetland Killer

Það fer ekkert á milli mála hvaðan þessi fluga á ættir að rekja. Killer Bug er vitaskuld fyrirmynd hennar og þegar Killer Bug flækist til Hjaltlandseyja, þá verður hann vitaskuld Shetland Killer. Ástæðan fyrir því að þessi fornfræga fluga fékk þetta viðurnefni er einfaldlega efnisvalið sem nokkrir Ameríkumenn fundu á netinu; ullarband frá Hjaltlandseyjum (e: Shetland) og þá sérstaklega ein ákveðin tegund; Jamieson’s Shetland Spindrift Yarn sem fæst í fjölda útgáfa.

Killer Bug er ekki þekkt fyrir margbrotið hráefni; koparvír undir, Chadwick‘s #477 ullargarn og koparvír yfir. Þessi útgáfa sleppir því alveg að vefja garnið með koparvír, garnið eitt og sér er látið duga.

Shetland Killer er örugglega fluga sem á heima í flokkinum auðhnýttar flugur merkt með #þaðþarfekkiaðveraflókið 

Höfundur: Frank Sawyer, með síðari tíma breytingum
Öngull: grubber #10 – #16
Þráður: rauður UNI 8/0
Þynging: koparvír eða blýþráður ef vill
Búkur: ullargarn (tví- eða þrí spunninn lambsull)
Haus: rauður, lakkaður

Hér að neðan má sjá Jason Klass fara fimum höndum um þessa nútímaútfærslu af Killer Bug:

Herdís

Hér er á ferðinni fluga sem komið hefur víða við, í riti, ræðu og veiði. Hún er í Veiðiflugum Íslands, var getið lofsamlega á heimasíðu Árvíkur um árið og síðast lyfti Flugusmiðjan henni aftur upp á yfirborðið.

Þegar maður rennir augum yfir þessa flugu, þá minnir hún um margt á þekktar flugur sem eiga ættir að rekja til Elliðavatns. Að auki er hennar sérstaklega getið í Hlíðarvatn í Selvogi, Þingvallavatni og Sauðlauksdalsvatni, þar sem Jón Sigurðsson höfundur flugunnar var svo sannanlega á heimavelli. Það er eins víst að þessi fluga hafi gefið ágætlega í fleiri vötnum, þó hennar hafi ekki verið getið sérstaklega.

Höfundur: Jón Sigurðsson
Öngull: legglangur púpukrókur #10 – #16
Þráður: svartur
Vöf: koparvír
Búkur: svart flos
Vængstubbur: grá/brún andarfjöður
Haus: svartur, lakkaður

Vitaskuld er hér myndband Flugusmiðjunnar þar sem sjá má Ívar hnýta þessa flugu Jón Sigurðssonar:

Nafnlaus – rauð

Þær verða stundum til án þess að eiga sér ákveðna fyrirmynd, líkjast samt eflaust einhverri sem einhver annar hefur sett saman og hreint og beint óþarfi að eigna sér hana. Í aðdraganda Febrúarflugna 2022 var ég að fikta eitthvað með hár af ýmsum gerðum. Kveikjan að þessu fikti mínu voru s.k. Goby- eða Kutling flugur sem er jú ætlað en líkja eftir hornsílinu og öðrum smáfiskum.

Flugan virkar heldur mikil um sig þegar hún kemur úr þvingunni, en raunverulegt sköpulag hennar kemur vel í ljós þegar hún hefur farið í bað eins og sýnt er hér að ofan.

Stefið í þessari flugu er gamalkunnugt og alþekkt í urriða hér á Íslandi, rautt og svart með nægu gulli til að glepja hann til töku. Flugan fær að vera nafnlaus til að byrja með, eins og svo margar aðrar sem hnotið hafa úr þvingunni.

Öngull: Tiemco TMC 2457 2X Heavy grubber #4
Þráður: svartur 10/0
Búkur: Semperfli Extreme String 40mm – bronze eða sambærilegt
Vængur: Hareline Ice Fur – rautt
Haus: svartur, lakkaður

White Death

Þó þessi fluga hafi verið sett saman fyrir regnbogasilung og lax vestur í Ameríku, þá er að mínu viti ekkert sem segir að urriðinn taki ekki þessa flugu líka. Jeff Blood, höfundur flugunnar hefur ekkert farið leynt með að hún sé frekar útfærsla þekktra zonker flugna heldur en nokkuð annað. Jeff þessi er vel þekktur veiðimaður vestan hafs, fæddur og uppalinn á bökkum Erie vatns í Ohio og þar hefur hann að mestu alið aldur sinn þó hann hafi veitt víða um heim.

Fluguna er tiltölulega auðvelt að hnýta þegar smá tökum hefur verið náð á zonker skinni á annað borð.

Höfundur: Jeff Blood
Öngull: 2XL straumflugukrókur #8 – #12
Þráður: svartur í haus, rauður eða orange í aftari festingu
Búkur: silfraður mylar smokkur
Vægur og skott: hvítt zonker skinn, minnkur eða kanína
Haus: svartur, lakkaður

Að þessu sinni eru tvö myndbönd sem fylgja þessari uppskrift. Á því fyrra má sjá höfund flugunnar hnýta hana en á því síðara fer Tim Flagler nákvæmlega yfir örlítið aðra útfærslu flugunnar.

Buckskin

Trúlega eru margir veiðimenn sem þekkja þessa flugu, færri sem vita hvað hún heitir og enn færri sem hafa prófað hana. Flugan er tiltölulega gamalreynd, kom fyrst fram á sjónasviðið upp úr 1970 vestur í Bandaríkjunum. Maðurinn sem er skráður höfundur þessarar flugu heitir Ed Marsh, mikill veiðimaður sem búsettur var í Colorado Springs, en flugan komst raunar ekki fullkomlega á flug fyrr en títtnefndum Pat Dorsey datt í hug að bæta peacock kraga á hana og setti á prent.

Eins og fram kemur í endurbættri uppskrift Pat‘s hér að neðan, þá nýtir hann vaskaskinn í búk flugunnar en upphaflega var notað rakað, sútað skinn af dádýri þaðan sem hún dregur nafn sitt. Sjálfur nýtti ég sútað lambsskinn sem ég skar niður í ræmur sem varð afgangs eftir að ég hafði notað hárin af því.

Höfundur: Ed March
Öngull: hefðbundin púpukrókur #10 – #16
Þráður: svartur UNI 8/0
Skott: fanir úr ljósbrúnni hænufjöður
Búkur: hvítt vaskaskinn / ljóst sútað skinn, rakað
Haus: svartur, lakkaður

Eins og með margar eldri flugur, þá hafa nýjar útfærslur litið dagsins ljós og þar á meðal jig útfærsla skv. uppskrift Pat Dorsey sem sjá má hér að neðan:

Crane Fly Larva

Hér er á ferðinni sérlega einföld fluga sem líkir eftir lirfu Tipulidae, öðru nafni hrossaflugu sem er væntanlega stærst mýflugna á Íslandi. Að mínu viti er það frekar óalgengt að íslenskir veiðimenn eltist við eftirlíkingar lirfunnar, fleiri hafa reynt sig við fullvaxta hrossaflugu. Ef hinir sömu veiðimenn væru urriðar, og valið stæði á milli fullvaxta flugu eða lirfu, þá hefði lirfan alltaf vinninginn.

Ef einhver ber þessa flugu nú saman við aðrar þekktar garnflugur, þá kemur vitaskuld Killer Bug upp í hugann. Þær eru afar keimlíkar ef horft er framhjá því að koparvafningana vantar á Crane Fly Larva. En, það er þó ákveðinn munur á þeim, þessi fluga er gjarnan hnýtt á s.k. sedge króka eða 3XL púpukróka einfaldlega vegna þess að lirfa hrossaflugunnar er afar löng og mjósleginn. Hér gildir ekki að hnýta hana í smærri stærðum en #10 eða #12.

Höfundur: Frank Sawyer með síðari tíma aðlögun
Öngull: h3XL púpukrókur eða sedge krókur #10 – #12
Þráður: grár eða hvítur 8/0
Undirlag: kopar eða blýþráður
Búkur: yrjótt, ljóst ullargarn
Haus: lakkaður hnýtingarþráður

Hér má síðan sjá ágætt mynbrot frá Tight Line Video af hnýtingu Crane Fly Larva:

Dagbjört

Fyrir um 20 árum síðan setti Jón Sigurðsson þessa flugu saman og fór nokkuð óhefðbundna leið. Í stað þess að setja hringvaf fyrir framan verklegan fjaðurvæng, þá hafði hann vængstubb fremst og hringvafið fyrir aftan hann. Þrátt fyrir þessi frábrigði minnir áferð og litaval flugunnar um margt á klassískar votflugur og ósjálfrátt dettur manni Alder í hug.

Eins og Jón hnýtti fluguna fyrir þá góðu bók, Veiðiflugur Íslands þá var búkur flugunnar tiltölulega stuttur og mikill um sig en smágerður þó miðað við stærð önguls. Lengi vel var ég ekki viss um hvað mér fannst um þessa flugu, en að sögn veiðir hún vel og þá jafnvel þegar allt annað bregst. Fluga þessi á sér heimavöll vestur á Fjörðum og þá helst í Sauðlauksdalsvatni en ég hef það fyrir satt að Jón hafi gert góða veiði á hana neðarlega í Varmá á sínum tíma og víðar.

Upprunalega var þessi fluga víst hnýtt á hefðbundinn votflugu- eða púpukrók, en sjálfum finnst mér hún álitlegri á wide gape emerger krók og þannig kemur hún fyrir sjónir hér að ofan. Ívar í Flugusmiðjunni hnýtir þessa flugu töluvert mjóslegnari eins og hún birtist í myndbandi hans hér að neðan með þeim orðum að þar sé á ferðinni upprunaleg útgáfa flugunnar. Það má segja að fluga þessi sé álitleg í öllum þeim útfærslum sem hnýturum dettur í hug að hnýta hana, sem er til marks um einfalda og góða flugu.

Höfundur: Jón Sigurðsson
Öngull: hefðbundinn votfluguöngull #10 – #14
Þráður: svartur
Búkvaf: svört hanafjöður
Búkur: svart flos
Vængstubbur: vængfjöður stokkandar
Haus: svartur, lakkaður

Eins og áður segir, þá hefur Flugusmiðjan verið dugleg að senda frá sér myndbönd með flugum Jóns Sigurðssonar og hér að neðan eru tveimur mismunandi útgáfum hennar gerð góð skil:

Haul a Gwynt

Nafngiftir flugna geta verið með ýmsum hætti en sjaldan segir nafn flugunnar fyrir um undir hvaða kringumstæðum best sé að veiða hana.  Þessi fluga er sögð virka sérstaklega vel í björtu og vindasömu veðri, þess vegna heitir hún Haul a Gwynt sem útleggs sem sól og vindur.

Í þeim bókum og flugulistum sem ég hef aðgang að er ekkert að finna um höfund hennar, aðeins sagt að hún sé ein af þeim klassísku votflugunum sem komu fram í Wales upp úr 1900. Ein heimild segir hana hafa komið fram í norðurhéruðum Wales þar sem vindar blása með líkum hætti og í Hálöndum Skotlands.

Höfundur: ókunnur
Öngull: votfluguöngull 10 – 14
Þráður: svartur
Vöf og broddur: gyltur vír
Búkur: svart dub, jafnvel með örlitlu grænu (olive) íblandi eða svartar strútsfjaðrir (herl)
Vængur: grá-blá eða grá-brún fjöður
Hringvöf: fjöður af hringfasana

Hér að neðan má berja Davie McPhail augum þar sem hann setur í afbrigði þessarar flugu:

Guide’s Nymph

Eflaust hefur fáum dottið í hug að þessi fluga heiti eitthvað sérstakt enda gengur hún eða öllu heldur útlit hennar undir ýmsum nöfnum. Kannski var það bara einfaldleiki þessarar flugu sem greip mig og því ákvað ég að setja í nokkrar svona og setja hér inn á vefinn.

Aðalatriðið við þessa uppskrift er að hún er afar fljóthnýtt og svo skemmir ekki að hráefnið í fluguna er eiginlega það sem hendir er næst hverju sinni. Litaafbrigði hennar eru, eins og gefur að skilja, óendanlega mörg því það getur svo margt leynst á hnýtingarborðinu þegar maður sest niður og byrjar a hnýta. Það má eiginlega segja að þetta sé hálfgerð ruslafötufluga.

Höfundur: enginn sérstakur
Öngull: grubber #10 – #16
Þráður: sá litur sem þér dettur helst í hug að veiði, ekki verra að hafa hann flatan 14/0 eða DEN70
Búkur / þynging: blý-, tungsten- eða koparþráður (medium) – búkurinn mótaður með vír
Búkvaf: koparvír
Lakk: UV lakk, medium eða thick
Kragi: peacock herl, dubb í stíl við búkefni eða hvað eina sem þér þykir viðeigandi
Haus: svört eða reyklituð kúla

Kopperbassen

Kopperbassen er ekki bara ein fluga, heldur samnefnari nokkurra flugna sem hnýttar eru í löndunum við Eystrasalt og helst notaðar í sjóbirting. Upprunalega Kobberbassen (e: The Copper Bully) kom fram árið 1996 og er eignuð Frank Jensen. Morten Kristiansen kom fram með Kopperlusen (e: The Copper Louse) á svipuðum tíma, en sú fluga er nokkuð flóknari í hnýtingu, en viðfangið er hið sama.

Það verður ekki um það villst að báðar þessar flugur eru eftirlíking marflóar en þegar hin ofur einfalda straumfluga The Fluff kom fram á sjónarsviðið rétt um 2010, þá tóku menn upp á því að hnýta slíka flugu úr sama hráefni og Kopperbassen og samheitið varð til.

Þessar flugur eru tiltölulega einfaldar í hnýtingu, fljóthnýttar og sérlega veiðnar. Hér heima eigum við Koparinn sem er ekki ósvipaður og hefur gert góða, sumir mundu segja mjög góða hluti í vatnaveiðinni á liðnum árum, þannig að vinsældir Kopperbassen hjá Eystrasalts sjóbirtingnum þurfa ekkert að koma á óvart.

Þar sem flugan þykir ekki einhöm og er til í mörgum mismunandi klæðum, þá er efnislistinn hér að neðan bundin við þær flugur sem ég hnýtti fyrir þessa umfjöllun og er alls ekki tæmandi yfir þær flugur sem ganga undir þessu nafni. Sumir hnýtarar virðast ekki hafa nokkra trú á einfaldleika þessara flugna og bæta ýmsum aukahlutum á hana, svo sem skél (baki), hala (skotti), fótum eða hringvöfum í stað þess að leyfa koparlituðu Angel Hair, Lite Brite eða Hareline Ice Dub að eiga sviðið.

Rækja/Púpa

Öngull: wide gape öngull #10 – #16
Þráður: rauður
Búkur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus: rauður, lakkaður

Marfló / Rækja

Öngull: grupper #10 – #16
Þráður:
brúnn 8/0
Vöf:
koparvír
Bak:
Hareline Scud Back – brúnt
Búkur:
Hareline Ice Dub – Copper
Haus: brúnn, lakkaður

Hefðbundin púpa

Öngull: votfluguöngull #10 – #16
Þráður: svartur 8/0
Búkur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus
: svartur, lakkaður

Straumfluga

Öngull: straumfluguöngull #6 – #10
Þráður: svartur 8/0
Búkur: svartur hnýtingarþráður, þakinn ljómandi UV lími
Vængur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus: svartur, lakkaður

Að lokum gefur hér að líta smá kennslumyndband fyrir hnýtingu á Kopperbassen með kúlu:

Hlíðarvatnspúpan

Það er víst löngu tímabært að setja þessa flugu hér inn á síðuna; Hlíðarvatnspúpan hans Þórs Nielsen. Eins og nafn hennar gefur til kynna, þá á hún ættir að rekja til Hlíðarvatns í Selvogi og þótti á árum áður sérstaklega fengsæl. Eitthvað hefur dregið úr skráningu á þessa flugu hin síðari ár, ef til vill vegna þess að margir yngri veiðimenn þekka ekki heiti hennar og skrifa aflan á Watson’s Fancy.

Þór veiddi töluvert á þessa flugu á sínum tíma í Selvoginum og víðar, rétt eins og aðrir veiðimenn og það er ákveðin söknuður að því að þessi fluga hefur lítið sést í veiðibókum hin síðari ár. Mögulega þarf aðeins að koma henni á framfæri við yngri veiðimenn og hér með hefur FOS.IS lagt sitt að mörkum til þess.

Höfundur: Þór Nielsen
Öngull: votfluguöngull 10 – 16
Þráður: svartur
Stél: fanir úr bekkfjöður gullfasana
Vöf: silfurvír
Afturbúkur: rautt ullargarn (Árórugarn)
Bak: fanir úr grágæsafjöður
Frambúkur: svört ull (Árórugarn)
Skegg: svartar hanafjaðrir
Haus: svartur, lakkaður

Black Magic

Þeim sem reka augun í þessa flugu dettur væntanlega helst í hug klassísk votfluga sem á ættir að rekja til 1800 og eitthvað, en því fer víðsfjarri. Flugan kom fyrst fram árið 1967 í bók höfundarins Presenting the Fly to the Trout sem fyrir löngu er orðin ein af testamentum fluguveiðinnar. Flugan er augljós samsuða hefðbundinnar votflugu og North Country Spider flugna.

Þessi fluga á sér frænku og það hefur aldrei farið dult. Sú heitir Black Magic Spider og hefur verið eignuð mörgum og trúlega með réttu. Er sem sagt ein þeirra sem margir komu fram með á mismunandi tímum og staðsetningum. Það var síðan upp úr 1967 að enn fleiri flugur sem líktust Black Magic Spider með hæfilegri viðbót úr þessari flugu Frederik Mold komu fram á sjónarsviðið, flestar hnýttar í stíl North Country Spiders.

Fluguna má hvort heldur veiða í straum- eða stöðuvötnum, þykir einföld og meðfærileg fluga og minnir um margt á þekktar gamlar flugur sem enn eru mikið notaðar.

Höfundur: Frederick Mold
Öngull: votfluguöngull 12 – 18, gjarnan úr fínum vír
Þráður: svartur
Búkvöf: koparvír
Búkur: svart silki
Frambúkur: peacock herl
Hringvöf: svört hænufjöður

Chris Basso’s Broken Back

Zebra Midge – Broken Back útgáfa

Það eru víst engin takmörk fyrir því hvað hnýturum dettur í hug að gera til að vekja áhuga fisks á flugu. Það sem kveikir oftast hugmyndir að nýjum púpum er að fylgjast með lífríkinu, hvernig púpur og gyðlur haga sér. Það er einmitt það sem Chris Basso, sem eyðir mestum frítíma sínum við að ergja silunginn í Crawley uppistöðulóninu í Kaliforníu, gerði áður en hann kom fram með nokkuð sérstaka aðferð við fluguhnýtingar, frekar en ákveðna flugu.

Gamansagan segir að Chris hafi í ógáti keypt slatta af mjög lélegum krókum sem hann vildi gjarnan koma í lóg og því datt honum í hug að nýta aðeins augað og legginn af þeim. Mér skilst reyndar að hann hafi í raun verið að virða fyrir sér mökunarferli ákveðinnar tegundar af mýfluguætt þegar honum datt í hug að hengja ófullkomna flugu aftan í aðra, króklausa og þannig hafi Broken Back flugan orðið til.

Nú er það svo komið að veiðimenn keppast við að hnýta uppáhalds púpuna sína í þessari útgáfu í Kaliforníu og víðar. Ég hef það fyrir satt að nokkrir Svíar hafi tekið upp á þessu í sumar sem leið og gert fanta góða veiði í norðurhéruðum Svíþjóðar og Noregs. Sjálfur á ég þegar nokkur svona eintök í boxinu mínu, óreynd.

Þar sem ekki er um eiginlega flugu að ræða þá fylgir hér engin uppskrift, aðeins myndband þar sem þessari hnýtingaraðferð eru gerð þokkaleg skil:

Engjaflugan

Það verður seint af Elliðavatni tekið að það hafi ekki veitt veiðimönnum innblástur þegar kemur að fluguhnýtingum. Hér gefur að líta flugu Jóns Pedersen sem hann nefndi eftir Engjum Elliðavatns. Þótt flugan hafi oftast verið nefnd í sömu andrá og Elliðavatn, þá hefur hún vissulega reynst vel víðar og engin ástæða til að spara hana fyrir það vatn.

Höfundur: Jón Pedersen
Öngull: votfluguöngull #10 – #16
Þráður: svartur
Búkur: koparvír
Vængurstubbur: fanir úr stéli gullfasana
Skegg: sfanir úr svartri hanafjöður
Haus: svartur, lakkaður

Eins og fyrir margar aðrar klassískar íslenskar flugur, hefur Flugusmiðjan sent frá sér kennslumyndband fyrir þessa flugu:

Brúnka

Þessa flugu hannaði Jón Sigurðsson með Elliðavatn í huga, en flugan hefur að sögn sannað sig víðar en þar. Eins og sjá má sver flugan sig í ætt við aðrar nymphur sem ættaðar eru úr Elliðavatni.

Uppskrift flugunnar má, eins og fjölda annarra flugna, finna í Veiðiflugur Íslands sem Jón Ingi Ágústsson tók saman um árið, en Ívar Örn Hauksson (Ívar’s Fly Workshop) endurvakti áhuga landanns á flugunni fyrir skemmstu og gerði ágæt skil.

Höfundur: Jón Sigurðsson
Öngull: hefðbundin púpukrókur #12 – #18
Þráður: svartur
Vöf: koparvír
Búkur: afturbúkur úr rauðbrúnu flosi, frambúkur úr dökkbrúnu flos
Vængstubbur: vængfjöður hringfasana eða aðrar tvílitar fjaðrir
Haus: svartur, lakkaður

Hér að neðan má sjá þegar Ívar hnýtir Brúnku, Jóns Sigurðssonar:

Marfló

Í stað þess að birta hér uppskrift að ákveðinni flugu með ákveðnu nafni, þá ætla ég að brjóta normið og setja fram það sem ég kýs að kalla eina af ótal aðferðum til að hnýta marfló. Aðferðir, hráefni og útfærslur marflóa eru nær óendanlegar og til að vera fullkomlega hreinskilinn, þá eru sumar marflær svo flóknar og útheimta sértæk hráefni að flesta rekur í strand á fyrstu mínútum hnýtingarinnar.

Flugan hér að ofan er hnýtt samkvæmt aðferð sem meistari Davie McPhail birti árið 2013. Þetta er sú aðferð sem ég hef notað frá upphafi þegar ég hnýti marfló. Hér set ég þann fyrirvara að þegar ég hnýti örsmáar marflær eða vatnakrabba, þá nota ég hefðbundin hnýtingarþráð í stað koparvírs til að klára fluguna og oftar en ekki þá sleppi ég fálmurunum og hef aðeins skott á flugunni, ef ég man þá eftir því.

Búkefnið getur verið allt frá ólituðum héra, yfir í eitthvað bleikt, appelsínugult, rautt, grænt, brúnt, svart eða drappað.

Eins og Davie McPhail er einum lagið þá er hann ekkert að flækja málið, beitir aðferð sem allir ættu að ná tökum á og heldur sig við fá hráefni sem flestir ættu að eiga. Sjálfur hef ég um árabil notað latexhanska sem ég klippti í renninga fyrir margt löngu síðan, einn hanski endist mér trúlega ævina og ég er ekkert kræsin á efnið í búkinn, hvað eina sem er í heppilegum lit getur orðið fyrir valinu.

Höfundur: Davie McPhail
Öngull: grupper í stærð #10 til #16
Hnýtingarþráður og vöf: mjúkur koparvír
Fálmarar og skott: stokkandarfjöður
Bak: plast renningur / plast foil
Búkur: héradub í æskilegum lit, gjarnan með íblönduðu glitefni

Það eru til ótal útfærslur af flugum sem hnýttar hafa verið og líkja eiga eftir marfló og vatnakröbbum eins og sjá má þegar rennt er yfir þær  flugur sem komið hafa fram í Febrúarflugum síðustu ár. Hér má sjá nokkrar af þeim sem komið hafa fram:

Zebra Midge

Þessi fluga er eignuð Edward (Ted) Welling frá Arizona í Bandaríkjunum og sögð hafa komið fram á sjónarsviðið árið 1996. Það er engin ástæða til að efast um að Ted hafi gefið þessari flugu nafn sitt, en þegar ég sá þessa flugu fyrst, þá hélt ég að hún héti Black, Copper Bead-head og væri íslensk í húð og hár eftir Bjarna R. Jónsson og hafi komið opinberlega fram á sjónarsviðið í þeirri góðu bók Veiðiflugur Íslands árið 1997. Þessum flugum svipar óneytanlega töluvert saman þótt litum kúlu og vírs væri eitthvað víxlað.

Upprunalega var Zebra Midge hnýtt svört og silfruð, en með tíð og tíma hefur litum og afbrigðum hennar fjölgað ört, sumum gefin sérstök heiti en í grunninn eru þetta allt sömu flugurnar;  silfraðar, gylltar eða koparlitaðar í ýmsum litum.

Flugan er gjarnan hnýtt með kúlu í yfirstærð m.v. þumalputtaregluna um stærð kúlu m.v. krók, en eitthvað hefur sú tilhneiging dalað síðustu ár og kúlurnar minnkað eitthvað með tilkomu tungsten kúla.

Höfundur: Ted Welling
Öngull: grupper / emerger #12 – #20
Þráður: svartur
Vöf: silfraður vír
Búkur: þráðurinn
Haus: silfurkúla, gjarnan í yfirstærð m.v. krók

Hér má sjá Tim Flagler hnýta, því sem næst, upprunalega Zebra Midge: