
Alda
Alda er ein af ótal marabou flugum sem hafa fest sig í sessi í Veiðivötnum en hróður hennar hefur þó borist víðar. Margur veiðimaðurinn á þessa flugu í stærðum #10, #8 og #6. Þótt hún sé óumdeilanlega í hópi marabou flugna, þá sker hún sig nokkuð frá öðrum vegna staðsetningar kragans, hann er ekki fremst heldur u.þ.b. 1/3 frá haus. Nokkuð sem maður sér ekki á mörgum flugum.
Ég hef það eftir öruggum heimildum að Jón Ingi Kristjánsson, Veiðivatnaveiðimaður með meiru, hafi vígt þessa flugu og tekið á hana 6,3 kg. fisk í fyrstu veiðiferð hennar. Væntanlega hefur þessa flugu aldrei vantað í hans box eftir þá ferð.
Eins og með fleiri gjöfular flugur hafa menn gert nokkrar útgáfur af henni, breytt litum og efnisvali eftir eigin höfði, en eftir stendur að flugan er einstaklega gjöful í urriða og jafnvel lax.
Höfundur: Helgi V. Úlfsson
Öngull: Legglangur straumfluguöngull #10 – #6
Þráður: Svartur 6/0
Skott: Rautt marabou, rautt krystal flash, silfur flashabou
Búkur: Kelly Green Kristal dub
Kragi: Svart Schlappen
Haus: gullkúla
Uppskriftina hér að ofan hef ég lagfært skv. ábendingu og mér er tjáð að svona sé hún eins og höfundur flugunnar hafi lagt hart að mönnum að hafa hana.
Afbrigði þessarar flugu eru, eins og áður segir, nokkur og eitt þeirra er að nota svarta eða brúna fjöður í kragann og blöndu af rauðu og svörtu marabou í skotti. Hef það fyrir satt að þannig sé hún líka bráðdrepandi.

Á rás Flugusmiðjunnar er að finna myndband þar sem Ívar Örn Hauksson hnýtir Ölduna, þó úr aðeins öðru efni en uppskriftin segir til um: