Flýtileiðir

Fetaðu alla slóða

Sumir veiða í bunkum, margar flugur eða fjöldann allan af krókum í röð. Þeir sem beita á marga króka í einu eru sagðir veiða á slóða, þ.e. ef þeir eru þá ekki beinlínis að leggja línu frá bát. Slóðar eru misvel þokkaðir meðal veiðimanna, sumir líta þá svo miklu hornauga að þeir þurfa að skyrpa og afneita djöflinum ef þeir svo mikið sem taka sér slóði í munn. Þetta gætu verið þeir sem fundu upp á orðinu afleggjari (e: dropper) yfir það að veiða á fleiri en eina flugu í einu, sem er náttúrulega allt annað mál en veiða á slóða. Skyndilegur hrollur fór um mig vegna kaldhæðninnar í þessum orðum, en hvað um það. Mig langar ekkert til að blanda mér í kýting um slóða og droppera, enda fjallar þessi stúfur heldur ekkert um það. Ekki nema þá slóða sem liggja að veiðislóðum.

Við könnumst við þetta gamla, góða að sækja vatnið yfir lækinn og græna grasið sem er hinu megin. Vissulega getur grasið verið grænna hinu megin, bara svona af náttúrulegum ástæðum. En, það getur líka verið að það sé grænna í augum veiðimannsins vegna þess að hann sjálfur hefur farið þangað oft og mörgum sinnum og þannig ræktað það. Þetta er auðvitað sagt í óeiginlegri merkingu og verðskuldar skýringar. Það sem ég á við er einfaldlega það að því oftar sem veiðimaður leggur leið sína á ákveðna veiðislóð, hvort sem hún er í læknum sem hoppað er yfir eða í vatninu sem sest er niður við, þá lærir veiðimaðurinn á aðstæður. Hann fer að þekkja á hvaða tíma fiskurinn gefur sig á ákveðnum stað, skoðar málið kannski betur og kemst þá að raun um að ætið gerir helst vart við sig þar þegar ákveðnum hita er náð, í ákveðinni vindátt og allt þar fram eftir götunum. Kannski kemst veiðimaðurinn að raun um að í stefnu á ákveðinn girðingarstaur, ákveðið langt út með tiltekna flugu, þá tekur fiskur, yfirleitt. Staðurinn verður leynistaður sem enginn annar veit af, en veiðimaðurinn veit kannski ekkert af hverju staðurinn gefur. Ekki fyrr en hann kemur á allt öðrum árstíma eða skoðar hann frá öðru sjónarhorni, t.d. frá girðingarstaurnum. Þá rennur ljósið upp fyrir honum. Það er kannski steinn á botninum, gróðurfláki eða önnur frábær skilyrði fyrir skordýr sem gera þennan stað að tökustað.

Fiskur milli steina

Ef veiðimaðurinn hefur smá tilhneigingu til ræktunarstarfa, smá græna fingur, þá gæti hann tekið upp á því að rækta þessa veiðislóð með því að kanna hvort þar séu ekki fleiri staðirnir sem líkjast leynistaðnum. Þar sem er einn steinn, þar geta verið fleiri. Það er varla til sá staður á Íslandi sem skortir steina þó þeir sjáist ekki alls staðar. Steinninn veitir fiski skjól og því fleiri steinar, því meira skjól, sem aftur leiðir til fleiri veiðistaða. En það er ekkert víst að fiskurinn komi alltaf upp um þessa staði með því að sýna sig og því er alveg eins víst að við löbbum fram hjá þegar við færum okkur til á milli þekktra veiðistaða. Stundum er gott að hafa það í huga þegar maður var í feluleik sem barn. Ekki datt manni í hug að teygja fót eða hendi út úr felustaðnum á meðan einhver annar var hann, hann gæti þá komið auga á mann. Það sama á við um fiskinn, ef hann er í feluleik á bak við stein, þá er hann ekkert að sýna ugga eða sporð, ekki nema ætið komi syndandi fram hjá.

Senda ábendingu

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com