Flýtileiðir

Febrúarflugum 2024 lokið

Þá er Febrúarflugum 2024 lokið og búið að hnýta endahnútinn á það sem hvíldi á FOS og öllu starfsliði vefsins. Ekkert gott tekst með engu var sagt í einhverri sveit hérna um árið og það sama á við um Febrúarflugur, þær væru ekki neitt ef ekki væri áhuginn og atorkan í þeim sem hnýta til staðar. Það voru 178 hnýtarar, allt frá 6 ára og upp í fullþroskaða heldriborgara sem lögðu til 1.194 flugur að þessu sinni og þar með viðhélst aukning miðað við eðlilegt árferði.

1.194 flugur á einu bretti

Svo má ekki gleyma klappliðinu á hliðarlínunni. Yfir 1.700 meðlimir og fylgjendur Febrúarflugna héldu uppteknum hætti síðustu ára; hrósuðu í hástert, spáðu í leikskipulag og uppstillingu á vellinum. Til allrar lukku þurfti ekki að handtelja upp úr kössunum þegar kom að öllum þumlunum og hrósinu sem viðhöfð voru frá 1. til 29. febrúar: 1.155 ummæli og 35.427 viðbrögð náðu til yfir 40.000 einstaklinga í mánuðinum. Það er einfaldlega með því mesta sem sést hér á landi og ekki ein króna í auglýsingar. Það sannast á Febrúarflugum að það þarf ekki að auglýsa gæði og glæsileika, gott efni selur sig sjálft.

Til ykkar allra, þátttakenda, meðlima hópsins og styrktaraðila; kærar þakkir fyrir ykkar frábæra framlag. Nú eru aðeins 11 mánuðir í næstu Febrúarflugur og allt FOS gengið mun nú leggjast undir feld og hugsa með hvaða hætti megi laða fram og efla fluguhnýtingar enn frekar hér á Íslandi.

Senda ábendingu

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com