Góðir kostir

Hvað þarf til þess að verða góður veiðimaður? Því hafa margir svarað í gegnum tíðina, sumir fullir sjálftrausts og sannfæringu um eigið ágæti, en aðrir með hógværu lítillæti og taka það fram að þeir sjálfir uppfylli ekki helming þess sem gátlistinn yfir góðan veiðimann telur upp. Ég geri mér engar grillur um að ég sé góður veiðimaður, en ég stefni á það og þess vegna reyni ég að hafa nokkra punkta í huga þegar kemur að veiði.

Fyrir það fyrsta reyni ég af fremsta megni að tileinka mér þolinmæði í fluguveiðinni, ekki síst þegar kemur að kastinu. Takk fyrir, en mér gengur það yfirleitt bölvanlega. Ég hef ekki hugmynd um hve marga fiska ég fæli undan fljótfærum köstum á hverju sumri, þeir skipta væntanlega tugum. En, ég á mér viðreisnar von því ég geri mér grein fyrir þessum skorti á þolinmæði og ætla að tileinka mér aukna þolinmæði þegar kemur að næstu vertíð, loksins. Mín þolinmæði kemur úthaldi við veiði ekkert við, það er allt annar handleggur sem ég kem hér að síðar.

fos_kf_thingvallavatn_kvold
Við Þingvallavatn

Æfingin skapar meistarann, já einmitt. Ég æfi mig alls ekki nógu mikið, eiginlega ekki neitt áður en ég fer í fyrstu veiðiferð sumarsins. Ég reyndar skrepp nokkur kvöld niður á tún með nokkrum félögum, en þær æfingar snúast yfirleitt fljótlega upp í þögla keppni um að kasta sem lengst, ekki fallegast eða nákvæmast. Ég þarf virkilega að taka mig á í æfingunum, það fer á gátlistann fyrir næsta sumar.

Athygli er víst eitthvað sem fluguveiðimenn eiga að hafa í ríku mæli. Jú, ég athuga veðurspánna, hvenær næsta frídag ber við helgi og svo legg ég af stað. Þar með er athyglisgáfa mín eiginlega búin. Þegar ég mæti á staðinn gleymi ég allt of oft að skima umhverfið, skoða undir steinana og ganga úr skugga um hvað fiskurinn sé mögulega að éta. Ég byrja bara á einhverri öruggri flugu og sé síðan til hver verður næst í röðinni. Kannski maður reyni að breyta þessu eitthvað næsta sumar.

Ég er ríkulega búinn þrautseigju, sem er talinn kostur fyrir fluguveiðimann. Reyndar hef ég heyrt einhverja nota orð eins og þrjóska og þvermóðska þegar þeir lýsa þrautseigjunni minni, en það eru bara þeirra orð. Ég get alveg átt það til að standa mjög fastur fyrir og reyna, og reyna, og reyna þótt ekkert gefi. Mín þrautseigja leysir þolinmæðina oft af hólmi.

Þessi grein er fyrst og fremst samin fyrir sjálfan mig sem áminning um allt það sem ég ætla að laga í sumar. Ef til vill á hún ekkert erindi við aðra, eða kannski þó smá?

Sól, sól skín á mig

Talandi um sjálfsagt atriði sem allt of margir veiðimenn virðast gleyma. Það er ekki margt sem tekur því fram að bregða sér fram á bakka veiðivatns og láta sólina aðeins kitla sig í nefið. Já, einmitt í nefið, því þar ætti sólin að ná til okkar, ekki í hnakkann.

Þessi skuggi styggir engan
Þessi skuggi styggir engan

Því verður auðvitað ekki alltaf þannig viðkomið að maður geti staðið á móti sól við vatnið, en það má þá snúa sér í það minnsta þannig að hún beri ekki skuggann af manni beint út á vatnið þar sem fiskurinn liggur. Skugginn á það nefnilega til að fæla fiskinn. Raunar fælist fiskurinn ekki sjálfan skuggann, meira hreyfingu hans og það er einmitt tilfellið með skugga okkar fluguveiðimanna, hann hreyfist.

Öryggisnæla

Við sem eru fæddir fyrir og rétt eftir miðja síðustu öld þekkjum öryggisnælur. Mér til furðu virðist þessi stórkostlega uppfinning hafa týnst hjá yngri kynslóðum. Í það minnsta voru ungir menn á mínu heimili alls ekki með það á hreinu hvað öryggisnæla væri þegar þær bárust til tals um daginn. Þeir eru yngri en svo að þeir hafi náð því að vera pönkarar eins og pabbi þeirra.

Öryggisnæla
Öryggisnæla

Hvort sem menn klæðast veiðivesti eða jakka, já eða bara gömlu góðu lopapeysunni í veiði þá er eflaust alltaf einhver staður þar sem maður getur stungið öryggisnælu í borðung eða ermi. Öryggisnælur geta alltaf komið að góðum notum í veiðinni. T.d. stinga lakki úr augum á flugu eða hengja silunganetið saman þegar það rifnar undan öllum fiskunum. Meira að segja silungaháfar hafa þurft á öryggisnælu að halda ef þeir hafa óvart krækst í grjótnibbu og rifnað, svo maður tali nú ekki um slitna axlaról veiðitöskunnar. Og fyrst veiðimönnum finnst þetta sniðug hugmynd, þá væri ekki úr vegi að vera með tvær til þrjár stærðir af nælum við höndina, augun á flugunum eru jú ekki öll af sömu stærð.

Lokaspretturinn

Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir að ég hef misst fisk alveg við háfinn minn. Ég get engum um kennt nema sjálfum mér í þessum tilfellum og oftast hefur þetta gerst vegna þess að ég hef glatað ró minni og þolinmæði, hlaupið beinlínis á mig og vanmetið úthald fisksins.

Þessi slapp ekki
Þessi slapp ekki

Þannig er að yfirleitt hjálpar ákveðin teygja í flugulínunni okkur við að halda fiskinum við efnið. Þegar við erum aftur á móti komnir með næstum alla línuna inn, aðeins taumurinn eftir, þá er lítið sem ekkert eftir af þessari teygju og allar hreyfingar okkar og fisksins eru beintengdar í gegnum stöngina. Það má segja að línan okkar virki svolítið eins og fjöðrun í bíl, mýkir það þegar við keyrum í holu eða yfir stein. Ef engin er fjöðrunin, þá finnum við fyrir öllum ójöfnum á veginum og aksturinn verður hastur, ekki aðeins fyrir okkur heldur einnig bílinn, það endar með því að eitthvað gefur eftir. Í tilfelli veiðimanns og fisks er það veikasti hlekkurinn í tengingunni; hnúturinn á tauminum, við fluguna eða flugan sjálf í fiskinum. Því skiptir miklu máli að vanda sig á lokasprettinum og gæta þess að snöggar hreyfingar, manns sjálfs eða fisksins geta orðið til þess að eitthvað brestur og hann syndir burt.

Ekki svo vitlaus

Það hefur stundum verið sagt um silunginn að hann sé nú ekki eins vitlaus og veiðimennirnir vilja vera láta. Hvort sem það eru nú vitsmunir eða eðlislæg viðbrögð silungsins, þá tekur hann stundum upp á því að skipta um stefnu í miðri viðureign. Fer frá hægri til vinstri, vinstri til hægri eða það sem kemur veiðimanninum oftast í opna skjöldu, beint í fangið á honum.

fos_urridi2016b
Skarpari heldur en margur heldur

Ég er í svolitlum vafa um hvort ég eigi að segja að fiskurinn víki sér yfirleitt undan sársaukanum því ekki eru allir veiðimenn sammála því að fiskur hafi sársaukaskyn. Sumir segja að hann víki sér undan þrýstingnum, átakinu þegar flugan festist í honum og togar hann í ákveðna átt. Við getum í það minnsta verið sammála um fiskurinn víkur sér undan flugunni, hver sem ástæðan er. Ef hann tekur nú á rás í áttina frá okkur, þá herðum við á en þá getur fiskurinn tekið upp á því að snúa sér í 180° og stefna beint á okkur. Þá er eins gott að vera viðbúin og ná að taka allan óþarfa slaka af línunni því annars getur flugan losnað úr fiskinum. Ábending til veiðimanna; verið ekkert að reyna að spóla línunni inn á hjólið undir þessum kringumstæðum, dragið hana inn með höndunum, það tekur yfirleitt allt of langan tíma að gera það með hjólinu. Ég hef sagt þetta áður og segi það enn, kannski vegna þeirra sem hafa sloppið hjá mér undir þessum kringumstæðum.

Er best að byrja á straumflugu?

Ég byrjaði stangveiði eins og svo margir aðrir á því að veiða með færi niðri á bryggju. Þar sem ég ólst upp var ekki mikið um að ufsi, ýsa eða þorskur væru að flækjast í höfninni þannig að fyrstu fiskarnir mínir voru koli og marhnútur. Síðar færði maður sig eitthvað upp á skaftið, leitaði vestur fyrir þorpið í átt að Ölfusá og alveg vestur í ós þar sem birtingar og smálaxar gerðu vart við sig. Veiðiskapurinn einkenndist af maðki undir flot eða á pungsökku sem grýtt var eins langt út og stöngin og girnið leyfði.

Þegar svo veiðiáhuginn endurnýjaðist, mörgum árum síðar, var nærtækast að taka upp þráðinn þar sem ég hafði sleppt honum sem unglingur. Aftur varð beita fyrir valinu og fjárfest í góðri kaststöng og til að krydda aðeins veiðiferðirnar og hafa eitthvað að gera, þá var fjárfest í ýmsum tegundum af spúnum. Málið er nefnilega að mér leiddist svolítið beituveiðin. Ég er ekki greindur maður, þ.e. mér hefur aldrei verið fundinn staður í stafrófinu og flokkaður virkur, með einhvern brest eða röskun, mér einfaldlega leiðist aðgerðarleysi og það sem verra er, þegar mér leiðist, þá leiðist ég öðrum.

fos_spunar2_big
Þessir hafa hvílt sig í nokkur ár

Fluguveiði var svarið fyrir mig. Þetta er óþrjótandi brunnur afþreyingar fyrir þann sem leiðist auðveldlega. Miðað við ágæta grein sem ég las um daginn eftir Andy McKinley hjá Duranglers vestur í Colorado, þá byrjaði ég reyndar á kolvitlausum flugum. Ég hefði átt að byrja á straumflugu, ekki púpu eða votflugu. Straumflugan er miklu nær spúnaveiðinni, þaðan sem mín leið lá og því hefði ég skv. áliti Andy átt að byrja fluguveiðina með straumflugu. Og svo kom gullkornið sem ég hnaut um; there is no wrong way to fish a streamer. Einmitt, það er enginn leið að veiða straumflugu á rangan hátt. Jæja, blessaður karlinn hefur ekki glímt við kræsna bleikju í Veiðivötnum, sem leggur bara hreint ekki til atlögu við bleikan nobbler nema hann sér dreginn inn á nákvæmlega réttum hraða, á nákvæmlega réttu dýpi og með nákvæmlega réttu handtökunum. Annars get ég alveg samþykkt það, að straumfluguveiði er e.t.v. rökrétt fyrsta val þeirra sem leiðist orðið beituveiðinn eins og mér, hafa fært sig yfir í spúna og spunakróka til að hafa eitthvað fyrir stafni. Kannski ég kíki aðeins á straumfluguboxið mitt í sumar.

Ekkert gauf

Þegar maður lítur um öxl og rifjar upp kynni sín af fiskunum sem sluppu, þá koma nokkrum sinnum upp í huga mér þeir sem nýttu sér tækifærið á meðan maður var að gaufa eitthvað með línuna. Ég hef svo sem veitt það marga fiska um ævina að ég get ekki haldið því fram að ég sjái á eftir þeim sem hafa sloppið, en ég sé aftur á móti stundum eftir því að hafa verið að brasa eitthvað með línuna þegar ég átti að hafa hugann við fiskinn eftir töku.

fos_fluguhjol3_big
Umfram allt, línugeymsla

Mér skilst að það séu með algengari mistökum silungsveiðimanna að fara að spóla línunni inn á hjólið í miðri viðureign í stað þess að hafa hugann við fiskinn. Það er nú sjaldnast svo að maður setji í þannig fisk að mikið reyni að bremsuna á fluguhjólinu eða þörf á að nota hana yfir höfuð. Vel að merkja, ég eltist ekki við hitaveituurrða á Þingvöllum sem ná víst 10 kg. eða meira í þyngd og því dugir mér yfirleitt að bregða línunni á milli fingra og korks til að halda við þegar fiskurinn tekur á rás og því ætti maður sjaldnast að hafa miklar áhyggjur af því að spóla línunni inn í miðri viðureign. Í það minnsta ætti maður að vera alveg viss um að flugan sé trygg áður en maður fer að gaufast við þetta.

Hjarðhegðun

Nú ætti eiginleg allt að vera að gerast, sumarið sprettur fram undan síðustu vorhretunum og vötnin taka við sér hver af öðru. Þó enn sé nokkur tími í að rollum verði hleypt á fjall, er þegar farið að gæta ákveðinnar hjarðhegðunar þar sem örlítil græn slikja er farin að sýna sig. Veiðimenn streyma hver af öðrum í svipaðar áttir, nálgast hvorn annan af varúð á veiðistað, það er aldrei að vita hvernig næsti maður er að koma undan vetri.

Það hefur lengi viljað loða við þennan þriðjung þjóðarinnar, þ.e. stangveiðimenn að þeir sækja á sína staði og þá sérstaklega ef sá staður hefur gefið sérstaklega vel, áður fyrr. Vitaskuld eru ákveðin vötn sem koma fyrst undan vetri og ekkert óeðlilegt að þangað flykkist veiðimenn fyrst á sumrin. En þar með er veiði ekki gefin, hún er nánast ekki einu sinni sýnd þessar fyrstu vikur sumars. Samt er það svo að þegar maður lítur yfir sjóndeildarhringinn við ákveðin vötn, þá er engu líkara en aðeins einn staður gefi þessa dagana við hvert þeirra.

fos_saudur
Einmana sauður

Eins og sauðirnir hafa lært í gegnum aldirnar, þá þarf stundum að hafa svolítið fyrir því að finna fyrstu grænu tuggur sumarsins og alls ekki víst að forystusauðurinn hafi alltaf rétt fyrir sér hvar hana er að finna. Þeir eru til sem stendur slétt á sama hvort þeir eru kallaðir villuráfandi, þeir kljúfa sig frá hjörðinni og leita fanga þar sem eðlisávísunin segir þeim að grasið geti verið grænna. Stundum gengur þetta upp hjá þeim, stundum ekki, en oftar en ekki eru þetta feitustu sauðirnir í hjörðinni þegar kemur að því að hleypt er á fjall þegar sumarið hefur endanlega gengið í garð. Ég leita yfirleitt veiði snemmsumars á þeim stöðum þar sem hjarðirnar hafa ekki troðið svörðinn. Stundum gengur það upp, stundum ekki, en ég græði alltaf eitthvað á því að breyta út af vananum. Ykkur er alveg frjálst að kalla mig villuráfandi, ég fitna af fleiru en fiskum.

Að hvíla

Þegar fiskurinn hefur verið að sýna sig og þú hefur fengið þín tækifæri án þess að ná honum, þá er væntanlega rétt að hinkra við og þá meina ég að hinkra alveg við. Ekki kasta bara einhverjum flugum í sífellu á meðan þú veltir vöngum hvað gera skuli næst.

Ég prófaði þetta svolítið á sjálfum mér í sumar. Í stað þess að þrælast í gegnum allt boxið, kasta í sífellu og draga inn með mismunandi hætti, þá hætti ég alveg og fór að snuddast í tauminum, athuga með hnútana og velti á meðan fyrir mér, og þá mér einum, öllum þeim flugum sem ég hafði prófað með mismunandi hætti.

Örlítil uppitaka
Örlítil uppitaka

Að hvíla vatnið smá stund er yfirleitt ágæt hugmynd og gerir bæði veiðimanni og fiski gott. Fiskurinn getur alveg orðið hvektur á endalausu áreiti ef hann er í mjög ákveðnu æti. Það er ekki þar með sagt að hann víki sér undan hlaðborðinu sem er til staðar, en ef hann verður sífellt truflaður á matmálstímum af einhverju sem hann hefur engan áhuga á, þá er eins og það byggist upp ónæmi hjá honum fyrir þeim flugum sem maður kastar fyrir hann. Svo er líka bara ágætt að líta upp, virða fyrir sér sjóndeildarhringinn og dást að umhverfinu. Bregða á leik og geta sér til um hvort það sé fiskur að vaka þarna í fjarska, hvað ætli hann sé að éta? Það er aldrei að vita nema það skjóti einhverri flugu fyrir hugskotssjónir. Já, þessi gengur örugglega. Setja hana undir og reyna aftur við þann sem ekkert vildi.

Ef fiskurinn er aftur á móti ekkert í ákveðnu æti, liggur bara fyrir eða sólar bara á sér uggana, þá getur verið lag að standa við og reyna allar flugur í boxinu þangað til hann bregst við.

Að veiða tvær flugur

Flestir eru kunnugir því hvernig veiðimenn veiða tvær flugur á taumi, aðal- og aukaflugu, veiða með dropper eða afleggjara eins og kallað er. Þetta er sagt auka veiðimöguleika manna til muna og vissulega hef ég séð veiðimenn raða inn fiskum á sitthvora fluguna, þó algengara sé að menn veiði aðallega á aðra þeirra. Þá velja menn mismunandi týpur á tauminn, eina til að laða fiskinn að, vekja forvitni hans, en hina sem hann svo tekur þegar hún skýst inn í sjónsvið hans.

fos_peacock_orgEn það er líka hægt að veiða tvær flugur á allt annan hátt. Við veiðifélagarnir rottum okkur yfirleitt saman þegar við komum á veiðislóð um það hvaða flugu hvort okkar um sig byrjar á að veiða. Já, við veiðum tvær mismunandi flugur þar til ein þeirra hefur sannað sig. Þá vill bregða við að sama flugan endar á hjá okkur báðum. En stundum dugar það einfaldlega ekki til. Það hefur alveg komið fyrir að Alma Rún hefur gefið og gefið, en aðeins öðru okkar. Hitt hefur þá þurft að fara í tilraunastarfsemi og endað kannski á Peacock. Það er nú ekki margt líkt með Peacock og Ölmu Rún, þannig að einhver ókunnur faktor er greinilega í spilinu. Drögum við veiðifélagarnir misjafnlega inn, leggst önnur þeirra betur niður heldur en hin eða er einfaldlega um það að ræða að ætið sem fiskurinn er í sé allt annað handan þessara 10 metra sem skilja okkur að við vatnið?

fos_almarun

Ég get svo sem ekki fullyrt eitthvað um þetta, en ég þori samt sem áður að draga eina mjög mikilvæga ályktun af þessu. Sú fluga sem sögð er veiða á ákveðnum stað, á ákveðnum tíma af ákveðnum veiðimanni, er alls ekki heilög og mögulega passar hún alls ekki tækni næsta manns eða inn á matseðil fisksins síðar. Undir liðnum vötnin hér á síðunni er að finna fjölda flugna sem gefið hafa í tilteknum vötnum. Þessar flugur eru aðeins sýnd veiði, ekki gefin, það eitt er víst.

Tekur þetta langan tíma?

Það var örugglega einhver heimspekingur sem sagði að það væri ekki til heimskuleg spurning, aðeins heimskuleg svör. Ég hef verið óhræddur við að spyrja spurninga sem næstum afsanna þessa fullyrðingu en svo hef ég líka átt minn þátt í að vera á mörkunum hvað varðar svörin. Ég man að vísu ekki hve langt er um liðið frá því ég fékk fyrst spurninguna um það hve langan tíma það tæki að ná tökum á fluguveiðinni. Fyrst ætlaði ég að slá um mig og svara einhverju af viti, en svo rann upp fyrir mér að ég hafði bara ekki minnstu hugmynd um rétt svar við þessari spurningu. Ég vék mér því hjá algildu svari og sagðist ætla að láta viðkomandi vita þegar ég kæmist að því. Það eru örugglega einhver ár síðan þetta var og enn hef ég ekki nema óljósa hugmynd um rétt svar. Ég vona eiginlega að ég komist aldrei að því, fluguveiðin er svo einstaklega skemmtilegur skóli.

Svona rétt á meðan ég færist örlítið nær svarinu, þá hef ég mótað með mér ákveðna hugmynd um tímaramma sem áhugasamir geta stuðst við. Segjum sem svo að viðkomandi fái áhuga á fluguveiði rétt um þrítugt. Þá á hann óteljandi góð ár eftir af ævinni, eiginlega öll þau bestu, en skiptum þeim upp í þrjú jafnlöng tímabil, hvert um sig 20 ár.

Eyddu fyrstu 10 árunum í að sannfæra sjálfan þig um að þú sért veiðimaður. Mér skilst að þetta sé einhver þumalputtaregla úr listnámi; sannfærðu sjálfan þig um að þú sért listamaður, þá fara aðrir að trúa því. Fluguveiði er listgrein. Eyddu síðan næstu 10 árum í að finna þér réttu tólin. Rétt eins og myndhöggvarinn, þá þarftu að kljúfa marga steina áður en Venus frá Milo sprettur fullsköpuð fram úr grjótinu og þá þarftu góðar græjur. Fluguveiðin er ekkert ósvipuð, taktu þér góðan tíma í að brýna meitlana, velja þér réttu græjurnar.

fos_kf_gislholtsvatn_third
Höfundur við Gíslholtsvatn

Næstu 20 árin eru undirstaða lærdóms. Lærðu á verkfærin, lærðu undirstöðuatriði flugukastsins undir handleiðslu einhvers sem vit hefur á, fyrri 10 árin og fylgstu síðan með þeim sama næstu 10 árin þar sem hann les veiðistaðina, lífríkið og velur sér flugur í takt við það sem er að gerast í náttúrunni.

Síðustu 20 árin eru mest spennandi. Þú ferð í þína fyrstu alvöru veiðiferðir upp á eigin spýtur og eyðir 10 árum í að gera öll mistökin sem enn eru óskráð í sögubækurnar og finnur eigin vanmátt gagnvart fiskinum og duttlungum hans. Þú mátt eiga von á að allt að 5 ár fari í bræðisköst og mislukkaðar veiðiferðir þar sem ekkert gengur upp, enginn fiskur kemur á land en smátt og smátt nærðu tökum á þessu og síðustu 10 árin nærðu að slaka þannig á að ánægjan og fullnægjan af einum fiski er þér næg í hverri veiðiferð.

Þeim sem þykja þessi viðmið taka aðeins of langan tíma, geta stytt heildartímann úr 60 árum niður í 6 ár, 6 vikur eða 6 daga. Fluguveiði er ekki háð tíma, hún er ávöxtur áhuga og elju og það er undir hverjum og einum komið hve langan tíma það tekur að ná tökum á þessu. Mundu bara að því skemur sem fyrstu 50 árin taka, því lengri tíma áttu í síðustu 10, en sættu þig við að þú verður aldrei fullnuma.

Líkamsrækt

Getur stangveiði flokkast sem líkamsrækt? Já, tvímælalaust. Hver sá sem hefur klæðst veiðigallanum, spennt á sig bakpokann, hengt á sig háf og aðrar nauðsynlegar græjur, veit að það þarf ekki langan göngutúr til að virkja svitaholurnar og hraða önduninni örlítið. Þegar svo á veiðistað er komið getur hjartslátturinn örvast, adrenalínið streymt og reynt á snerpuna þegar bregðast þarf við örgrönnum tökum silungsins.

Vísindalegar rannsóknir hafa sannað að rölt á veiðistað í fullum skrúða og klukkutími í fluguveiði getur losað veiðimanninn við 500 – 1500 kaloríur á einum klukkutíma. Til samanburðar skilst mér að klukkutími á göngubretti brennir u.þ.b. 250 kaloríum hjá meðal manneskju.

Góður dagur í veiði er á við heildstæða vikulanga líkamsrækt. Flugukast er frábær rækt fyrir upphandleggi, hendur og úlnliði ásamt því að mjóbak og herðar njóta góðs af hreyfingunni. Raunar hafa bæklunarlæknar mælt með fluguveiði fyrir þá sem þjást hafa af bakverkjum, hún styrkir og mýkir bakvöðvana. Þetta hef ég sjálfur reynt og notið góðs af eftir bakuppskurð og þráláta bakverki.

fos_skor_stong_hraun
Ekki beinlínis léttasta skótauið

Svo má ekki gleyma fóta- og kviðvöðvunum sem þurfa að hafa sig alla við þegar maður er að klöngrast yfir hraun, á hálu grjótinu eða stendur langtímum saman úti í vatni.

Stangveiði og þá sérstaklega fluguveiði hægir á aldurstengdri hrörnun fínhreyfinga, nokkuð sem frístundamálarar ættu að hafa í huga. Svo hefur maður séð mörg áhugaverð málverk sem listamaðurinn hefur sótt innblástur til úr stangveiðinni. Svona er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, jafnvel þrjár ef maður hnýtir þær sjálfur. Útvistin veitir innblástur að listaverkum og fluguveiðin viðheldur fínhreyfingunum sem maður þarf síðan á að halda á vetrum þegar fluguhnýtingarnar stytta biðina eftir næsta sumri. Maður ætti kannski að taka með sér pappír og pensil í veiðiferðir næsta sumars?

Dauðahald

Margir veiðimenn halda dauðahaldi í ákveðnar flugur í orðsins fyllstu merkingu. Að halda of stíft við línuna er næstum alveg eins slæmt og að halda ekkert við, sérstaklega þegar maður hefur sett í fisk og hann tekur á rás í þveröfuga átt við stefnu flugunnar.

fos_urridi_fluga_teikning

Ef veiðimaðurinn heldur of stíft við eftir töku, þá gefst stundum ekki tími til að gefa hæfilega eftir þegar fiskurinn vindur upp á sig og reynir að synda í gagnstæða átt og það eina sem veiðimaðurinn græðir er að geta sagt; Ég missti þann stóra, hann reif sig lausann. Ef flugan situr tæpt í fiskinum, þá þarf oft ekki nema smá átak til að hún losni. Þá getur verið kostur að gefið örlítið eftir án þess að sleppa alveg lausu. Veiðimanninum gefst þá örlítið betra tóm til að tryggja fluguna með því að herða örlítið tökinn þegar fiskurinn syndi í áttina frá honum.

Einfalt ráð

Mér liggur við að segja að það gerist allt of sjaldan að það sé sett ofan í við mig, en það kom nú samt fyrir um daginn. Áttu ekki bara einhver einföld ráð? sagði einn við mig sem hafði lesið sig í gegnum pistlana á síðunni. Ég hélt nú reyndar að þessar athugasemdir mínar væru ekkert sérstaklega flóknar, en svo renndi ég í huganum yfir ýmislegt sem angraði mig þegar ég var að byrja í fluguveiðinni. Það sem kom fyrst upp í hugann var auðvitað hvað mér gekk einfaldlega mjög illa að finna hvenær fiskurinn hafði einhvern áhuga á flugunni minni.

Mér gekk einstaklega illa að brjóta múrinn á milli mín og bleikjunnar í Þingvallavatni. Satt best að segja hef ég ekki hugmynd um hve oft ég fór heim með öngulinn í rassinum áður en ég fékk minn fyrsta fisk í Þjóðgarðinum. Ég var búinn að prófa öll trikkinn sem reyndir veiðimenn höfðu fram að færa, mismunandi tíma dags, ýmsar flugur og mismunandi dýpi, en ekkert gekk. Svo var það að múrinn féll eftir að ég mætti á staðinn og hélt við línuna, ekki með einum fingri, heldur tveimur og var ekkert að gaufast með slaka línu eftir að hafa lagt hana fram.

Línunni brugðið undir tvo fingur
Línunni brugðið undir tvo fingur

Um leið og ég tamdi mér að setja línuna fasta með einum eða tveimur fingrum um leið og ég var búinn að leggja hana fram, þá fór bleikjunum að fjölga sem enduðu í netinu mínu. Það var eins og ég fyndi betur með tveimur fingrum þegar bleikjan sýndi flugunum mínum áhuga og þá gat ég brugðið við. Vel að merkja, ég hef aldrei komist upp á lagið með tökuvara, það er eins og ég lokist af við það að glápa á þessa litlu þúst þarna úti á vatninu, ég næ einfaldlega betri árangri með því að glápa eitthvað út í loftið og leyfa fingrunum að finna lauflétta snertingu bleikjunnar.

Kuldabolar

Það er til marks um gott sumar þegar snjóskaflinn undir Miðmorgunsöldu í Veiðivötnum nær að bráðna áður en síðasti fiskurinn er dreginn upp úr Veiðivötnum, sú varð raunin í sumar sem leið. Veiðimenn urðu því að taka með sér ís eða annan útbúnað í Vötnin til að kæla aflann. Svipaða sögu er að segja af öðru hálendissvæði, Framvötnum. Í síðustu ferð okkar veiðifélaganna í sumar inna að Frostastaðavatni, þ.e. 11. september var litli skaflinn undir Fitjahlíð í Dómadal næstum því horfinn og í raun fyrir löngu ómögulegt að ná einhverjum ís úr honum.

Það skiptir miklu að kæla afla vel, sérstaklega ef úthaldið eru nokkrir dagar í sól og blíðu. Í veiðiferðir okkar í sumar höfum við verið að taka með okkur ísmola í frauðplastkassa eða kæliboxi með misjafnri endingu og oftar en ekki höfum við þurft að bregðast við ótímabærri bráðnun með því að sníkja ís hjá öðrum eða renna í næstu kjörbúð og endurnýja ísbirgðirnar. Ísmolar hafa þennan leiða ávana að bráðna, hverfa og umbreytast í vatn með tilheyrandi sulli og sóðaskap í kæliboxinu. Oft hefur maður brugðið á það ráð að setja kæliboxið í næsta læk til að lengja líftíma molanna, en eins og veðráttunni var háttað s.l. sumar var ekki á neitt að stóla í þeim efnum, þeir voru nokkrir lækirnir sem fóru á þurrt í blíðunni.

fos_isfloskurSíðla sumar mundi ég eftir ábendingu á spjallsvæði veiðifélags míns; Settu vatn í gosflösku, frystu og áttu klárt í kistunni fyrir næstu veiðiferð. Það tók mig að vísu nokkrar veiðiferðir að muna eftir því að útbúa svona kuldabola og eiga tiltæka í frystinum, en það tókst á endanum. Kosturinn við flöskurnar er að þykkur klakinn heldur lengur en molarnir, ekkert sull þótt þeir bráðni og einfalt að endurnýta með því að skjóta þeim í frystinn að veiðiferð lokinni. Munið bara að fylla flöskurnar ekki nema upp að öxlum, annars er eins víst að upp úr kistunni komi frosinn gosbrunnur, tappinn af og plastið sprungið.

Sérðu hana alltaf éta?

Menn eru misjafnlega mannglöggir. Ég er t.d. þannig gerður að mér er stundum lífsins ómögulegt að greina á milli manna, þekki ég þennan eða hinn? Á ég vita hver þessi eða hinn er þegar ég rekst á þá á förnum eða fáförnum vegi.  Ef einhver hefur rekist á mig í sumar, við tekið tal saman og ég virst vera fjarlægur og jafnvel ekki alveg í sambandi við umræðuefnið, þá er það alls ekki illa meint hjá mér. Ég hef trúlega bara verið að velta því fyrir mér hvar ég hafi séð eða rætt við viðkomandi áður eða verið alveg á villigötum.

Síðast liðið sumar gekk ég fram á veiðimenn sem ég taldi mig þekkja og tók þá tali. Eftir á að hyggja, hef ég væntanlega aldrei séð þessa menn áður, en við áttum ágætt spjall þar sem þeir voru að veiða með púpum og beitu niður á botni á meðan bleikjan fyrir framan þá var, að því er mér sýndist, mest í því að pikka upp flugur rétt undir yfirborðinu. Ég reyndi eins og ég gat að rífa augun af bungunum sem mynduðust á vatninu annars slagið og einbeita mér að samtalinu. Svo gat ég ekki lengur orða bundist, tók fram fluguboxið mig og valdi nokkrar votflugur úr því og rétti fluguveiðimanninum með þeim orðum að nú væri lag að skipta sökklínunni út fyrir flotlínu, setja Watson‘s Fancy undir og draga hana rólega inn, rétt undir yfirborðinu.

Ha, sérðu hana alltaf éta? spurði þá maðurinn mig. Þá vafðist mér tunga um tönn, nei, ég sé bleikjuna ekkert alltaf éta, en það eru stundum ákveðnar vísbendingar um það á vatninu hvar hún er að éta og hvað. Þegar það lítur t.d. út fyrir að það séu risa loftbólur alveg við það að stíga upp á yfirborðið, svona á stærð við handbolta, en svo gerist ekkert, þá er silungurinn væntanlega að éta flugu sem er alveg við það að brjótast upp á yfirborðið, svona á 10 – 20 sm. dýpi. Hvað geri ég þá? Jú, set votflugu eða litla mýflugu á intermediate línu og byrja að draga inn um leið og hún lendir. Þegar ég tala um intermediate línu hérna, þá verður hún að vera með sökkhraða undir tommu á sekúndu. Það er auðvitað líka hægt að stytta tauminn á flotlínunni og nota örlítið þyngri flugu, það kemur næstum út á sama stað í yfirborðinu. Hreyfing flugunnar verður að vísu svolítið önnur, en stundum verður hún einmitt rétt þannig. Það er ekkert endilega ein rétt leið að veiða silung í svona tökum.

fos_urridi_yfirbord

Svo eru það augnablikin þegar maður sér bleikjuna, já eða urriðann, velta sér í yfirborðinu. Hvað er eiginlega í gangi? Jú, væntanlega liggur ætið þá ofan á vatninu eða er við það að brjótast upp úr filmunni. Þá vandast málið hjá mér. Ég er ekkert sérstakur þurrflugukall, meira fyrir votflugur og púpur, þannig að ég fer stundum milliveginn, veiði þurrfluguna eins og votflugu. Það virkar líka, oftast. Mér er minnistætt augnablik frá því í sumar, þegar ég staldraði við þó nokkurn spotta frá vatninu og kom þá auga á svona veltur í yfirborðinu. Það var hreint ekki þannig veður að ég ætti von á að fluga væri að klekjast, goluskratti og hitastigið ekki upp á marga fiska, en bleikjan var sannanlega að veltast þarna í æti. Það kom síðar á daginn að hún var að rótast í fló sem hafði hrakist með gárunni inn á víkina sem ég kom að. Já, fiskurinn étur það sem er á boðstólum, ekki það sem við teljum okkur sjá eða sjáum bara alls ekki.

Við erum af nokkrum gerðum

Hugtakið raunheimar hafa fengið nýja merkingu á síðustu árum. Raunheimar er sá veruleiki þar sem við getum snert á hlutum, tekið í höndina á kunningjunum og klappað þeim á bakið, hughreystandi eða af samúð þegar sá stóri sleppur. Netheimar bjóða okkur ekki upp á þessa nánd, en við getum svo sem átt vini þar eins og í raunheimum. Ég á nokkra svona netvini sem ég heilsa upp á reglulega, kíki á hvað þeir hafa fyrir stafni, svara þeirra hugleiðingum eða spyr þá ráða. Einn þessara netvina minna var að hefja silungsvertíðina um daginn, já, hann er hinu megin á hnettinum, Nýja Sjálandi nánar tiltekið.

Það var með nokkrum trega að ég las frásögn hans af þessum fyrsta degi. Hann lenti í ýmsu þennan dag og honum var nokkuð hugleikin ótrúleg framkoma veiðimanns sem varð á vegi hans. Ég sendi þessum netvini rafrænt klapp á bakið og tjáði honum að umrædd tegund veiðimanna væri einnig að finna hér norðanmegin á kúlunni. Þeir væru væntanlega til allan hringinn.

Að gamni mínu setti ég síðan saman þennan stubb um nokkrar gerðir veiðimanna sem maður hefur rekist á við vötnin í gegnum tíðina. Skal þar fyrstan telja, bara þannig að hann verði ekki sár; Gore-TEX gæinn. Þessi veiðimaður stekkur fullskapaður fram úr opnu veiðitímaritsins, í nýjustu tegund vöðla og veiðijakka, með nýjustu, bestu og STÆRSTU veiðistöng allra tíma. Að vísu staldrar hann aðeins örstutta stund við, vatnið er of kalt, sólin of sterk, fiskurinn farinn eða áríðandi símtal barst í extra-delux-vatnshelda-farsímann sem hangir glannalega í veiðivestinu. Ég elska þessa veiðimenn, þeir halda bestu stöðunum svo sjaldan uppteknum lengi.

fos_kf_ellidavatn
Höfundur við Elliðavatn

Jeppi á Fjalli er einnig í ákveðnu uppáhaldi hjá mér. Þetta er öflugur veiðimaður, vopnaður kaststöng og vílar ekkert fyrir sér. Mætir í klofstígvélum fram á vatnsbakkann, fer úr af ofan og veður út í vatnið þar til gjálfrar niður í stígvélin. Svo heyrir maður í línunni þar sem hún þýtur fram og flytur torkennilegt samblandi lífrænnar beitu og smurefnis á önglinum. Svo bíður hann sallarólegur, opnar einn bauk, svelgir hann í sig rétt í tæka tíð áður en hann landar stærsta fiski dagsins. Ótrúlegur veiðimaður af guðs náð.

Samfélagsmiðillinn er líka nokkuð skemmtilegur gæi. Hann mætir á staðinn, byrjar á því að taka nokkrar sjálfur (selfies) af sér með vatnið í baksýn. Hann er mikið á félagsmiðlunum og veit nákvæmlega hvar og á hvaða flugu stærsti fiskurinn var tekinn, í gær. Yfirleitt er hann aldrei vopnaður sömu flugunni tvær veiðiferðir í röð, því alltaf rekst hann á einhverja nýja á milli ferða. Ég hef að vísu aldrei séð hann landa fiski, en hann er ótrúlega duglegur að taka glennumyndir af fiskum félaganna og pósta þeim á bráðsnjöllu veiðiappi sem hann er með á símanum. Hann miðlar af reynslu, annarra. Skemmtilegur gaur sem spyr mikils, en ég er ekki alltaf viss um að hann skilji svörin sem hann fær.

Nýburinn er þessi sem er blautur á bak við eyrun, ekki vegna þess að það er rigning, heldur vegna þess að hann er nýbyrjaður í fluguveiðinni. Hann gefur sig sjaldnast á tal við nokkurn mann, getur verið mjög lengi að hnýta tauminn sinn og enn lengur að fá fluguhnútinn til að halda. Þetta er sá sem eldri veiðimenn elska að taka undir verndarvæng sinn, leiðbeina og styrkja í trúnni á sjálfan sig þannig að hann gefist ekki upp áður en fyrsta fiski er náð. Stundum finnst mér eins og ég sé ennþá þessi týpa.

Gamlinginn er sjaldséður fugl, kannski vegna þess að hann fer orðið svo sjaldan í veiði og veiðir stutt í einu. En þegar hann mætir, þá veiðir hann af mikilli ánægju og jafnvel ánægjunni einni saman. Þessir karlar þekkja alla bestu staðina, eru óhræddir við að eftirláta þá öðrum því þeir einfaldlega vita af allt öðrum og enn betri stöðum. Þeir kasta margfalt lengra heldur en þú sjálfur en með helmingi minni fyrirhöfn. Flugan þeirra leggst fram af hógværð og stillingu, hnýtt á tauminn með hnút sem gæti verið eitt listaverka Michelangelo og sjálf flugan er úr sama ranni runnin. Takist mér að leika Nýbura í návist þessa manns, er ég í góðum málum. Hann er vís með að setjast niður með mér yfir kaffibolla og matarkexi og leiða mig í sannleikann um alla leyndardóma stangveiðinnar áður en kexpakkinn er búinn. Eftir spjall við svona veiðimann tekur veiðilífið yfirleitt töluverðum breytingum og róast verulega. Mig dreymir um að verða Gamlingi.

Náttúran ræður för

Ætli nýliðið tímabil sé ekki tímabilið þegar náttúran fékk að ráða frá fyrstu veiðiferð og að þeirri síðustu. Dagatalinu var einfaldlega stungið undir stól og látið reyna á gyðjur og guði þegar veðrið var annars vegar. Vorið byrjaði snemma, fyrsti fiskur á sumardaginn fyrsta og við félagarnir stimpluðum okkur inn í sumarið fyrir alvöru 2.maí í Hlíðarvatni í Selvogi. Síðasta veiðiferð sumarsins var síðan 11.september í einmuna blíðu uppi á hálendi.

Ég hafði það á orði hér á síðunni í sumar, að það væri víst ekki einleikið hve heppnir við veiðifélagarnir hefðum verið með veðrið í sumar. Ég bara man varla eftir leiðinlegu veðri, ef undan eru skildir einhverjir dagar þar sem vindur var með mesta móti, kalt og napurt og fiskurinn sökkti sér niður í bobbaát eða hrökklaðist út í vatnsbolinn, langt utan kastfærist. Þegar ég fer að hugsa málið, þá getur alveg verið að einhverjir dagar hafi ekki verið eins ákjósanlegir og minningar sumarsins gefa mér til kynna. Eða er þetta bara spurning um hugarfar?

Ef maður er staðráðinn í að að njóta útiverunnar, þá eru til margar leiðir til að gera það hvernig sem viðrar. Lopapeysan sem tengdaamma prjónaði á mig fyrir rúmlega 20 árum er þar á meðal. Það hafa alveg komið þeir dagar sem hún var tekin fram, veiðijakkanum rennt upp í háls og hettan dregin yfir veiðihúfuna. En þeir dagar voru hreint ekki margir í sumar og eftir standa minningar um augnablikin þegar vindurinn gekk niður, vatnið stilltist og lífið fór heldur betur á stjá.

Það eru líka til tvær minningar um smá rigningu. Annað skiptið fengum við svalandi úða síðasta klukkutímann af fimm tíma göngutúr hringinn í kringum eitt vatnanna. Nei, ég er ekki í afneitun, það var virkilega svalandi að fá smá rigningu í lok þeirrar veiðiferðar. Einu sinni kom það síðan fyrir að varla var þurr þráður á mannskapnum eftir þrjá tíma í veiði. Það kom heldur ekki að sök, því hitastigið var á bilinu 14 – 16°C, algjör stilla og fiskurinn tók eins og enginn væri morgundagurinn.

Þegar maður velur sér áhugamál eins og stangveiði, þá verður maður að vera tilbúinn að lúta allt öðrum lögmálum heldur en þeir sem velja sér t.d. frímerkjasöfnun. Stangveiðin er bundin því að ytri aðstæður ráða för, það er annað hvort að láta sig hafa það eða sleppa því. Þegar upp er staðið, þá eru það góðu augnablikin sem standa svo langsamlega uppúr að hin hverfa í skuggann, er feykt út í hafsauga og hverfa algjörlega sjónum manns. Sumarið sem leið, var eitt það besta sem ég hef upplifað í stangveiðinni.

Hnífar

‚Stolinn hnífur bítur best‘ segir málshátturinn, en ekki getur maður endalaust stolið sér hnífum. Ég held reyndar að ég hafi aldrei stolið hnífi, en ég hef keypt nokkra á 1 kr. af vinum og ættingjum þannig að ekki skærist á vinaböndin. Nú í lok sumars fór ég að taka eftir því að veiðihnífurinn minn var farinn að svíkja mig í aðgerð, sérstaklega ef ég var að gera að smærri fisk. Þetta lýsti sér helst þannig að ég varð að beita aðeins of miklu afli þannig að skurðurinn varð ekki hreinn og beinn, sléttur og felldur. Þegar svo roðtægjurnar voru farnar að hrannast upp við gotrauf fisksins, þá varð ekki lengur við unað.

Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu
Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu

Eins og sjá má, var ekki vanþörf á að þrífa hnífa og slíður eftir sumarið. Vel að merkja, upprunalega slíðrið sem fylgdi mínum hníf dugði rétt eitt sumar, þannig að ég saumaði mér nýtt úr reiðhjóladekki sem hefur dugað í nokkur ár. En aftur að hnífunum. Eftir gott sumar í veiði lætur eggin vitaskuld á sjá, verður svolítið skörðótt og ávöl þannig að það var kominn tími til að leggja þá á stein og brýna þá síðan á stáli. Þegar eggin er orðin eitthvað í líkingu við brotalínurnar á myndinni hér að neðan, þá er kominn tími til að skerpa hana á steini.

hnifar

Ég nota flatan stein með grófu og fínu yfirborði til að forma eggina í V og svo stálið eða nýju græjuna mína, Rapid Steel frá F.Dick til að skerpa hana.

Auðvitað nýtti ég tækifærið og þreif skefti og blöð með volgu vatni og sápu, renndi síðan yfir þau með fínum sandpappír og olíubar upp á nýtt. Ég hef aldrei skilið þá áráttu framleiðenda að lakka tréskefti, lakkið heldur sjaldnast lengi og olíuborinn viður er mun stamari heldur en lakkaður.

Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.
Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.

Bara þurrflugur

Englendingar eru allra manna duglegastir að veiða á þurrflugu, þ.e. ef eitthvað er að marka allar frásagnir þeirra á veraldarvefnum. Það hefur vakið athygli Íslendinga hve þaulsæknir Englendingar eru við veiðar hér með þurrflugurnar einar að vopni. Ekkert veður virðist vera þurrflugum þeirra ofviða, það er næstum því sama á hverju gengur, alltaf er þurrflugan undir og þeir veiða ekkert minna en aðrir.

Sjálfur hef ég farið í veiðiferð með þurrflugur einar að vopni og þá kom berlega í ljós vanmáttur minn með þessu veiðitæki. Eins og ég hef rakið í einhverjum pistlum hér, þá hafa mér stundum verið mislagðar hendur þegar ég rýk af stað í veiði með stuttum fyrirvara. Eitt sinn hafði ég verið að fylla á púpu- og straumfluguboxin mín og hafði alveg steingleymt að setja þau aftur í veiðivestið mitt. Þegar svo dásamleg veiðigyðjan bankaði upp á næsta dag með sólskin og stillu í farteskinu greip ég veiðivestið og allan annan búnað, tróð í skottið á bílnum og brenndi í nefnt vatn í grennd við borgina. Eitthvað hafði gyðjan platað mig því þegar á bakkann var komið var heldur meiri vindur í kortunum heldur en heima hjá mér. Nú, það er ekkert mál; hugsaði ég og setti saman sjöuna og seildist eftir púpuboxinu sem var auðvitað stútfullt af glæsilegum púpum, heima. Eftir að hafa reynt að koma þurrflugu út á vatnið, sem vel að merkja enginn fiskur sýndi nokkurn áhuga á, valdi ég mér púpulegustu þurrfluguna, makaði hana í drullu og jurtaleifum til að þyngja hana og barði hana niður í vatnið. Ég held svei mér þá að þetta sé í eina skiptið á ævinni sem mér hefur tekist að halda þurrflugu upp á yfirborðinu, sama hvað ég reyndi að koma henni niður í vatnið og halda henni þar. Lærdómur (ítrekað): yfirfara veiðivestið fyrir hverja ferð.

Þurrflugur
Þurrflugur