Aftöppun

Um daginn átti ég ágætt spjall við félaga minn og við ræddum allt milli himins og jarðar, svona eins og gengur. Meðal þess sem við fórum yfir var háttalag laxfiska gagnvart flugum. Ég þóttist hafa lesið það einhvers staðar að lax og urriði væru í raun ekkert sérstaklega snaggaralegir fiskar, þeir væru í raun svifaseinir og gætu því einfaldlega misst af flugunni ef hún færi of hratt framhjá þeim.

Eitthvað spunnust umræður okkar út í veiði í straumvatni, þar sem ég er alls ekki sterkur á svellinu og gæti bætt heilmiklu við í reynslubanka minn. Eitt af því sem ég nefndi og hafði í huga reynslu mína úr Brúará í Biskupstungum í sumar, var að mér fannst tíminn sem flugan var í raun að veiða svo stuttan tíma í straumvatni. Trúlega er Brúará ekki besta áin fyrir byrjanda í straumvatni, í það minnsta ekki þar sem ég var að kljást við hana við ármót Fullsæls. Þarna er stríður straumur og mikið vatn í ánni og hún er alls ekki neitt lík þeirri á sem ég ólst upp við, ós Ölfusár. Þegar ég var að renna fyrir fisk í ósnum í gamla daga, löngu fyrir tíð mína sem fluguveiðimanns, þá var mottóið að setja bara nógu þunga sökku undir og maðk á öngul. Þá fyrst náði maður að halda agninu einhvern tíma í strengnum þar sem hann rann við bakkann austanverðan. Fiskurinn hafði með þessu móti nægan tíma til að sjá agnið fljóta rólega framhjá og áttaði sig á góðgætinu.

Fullsæll

Félagi minn nefndi þá að til þess að halda flugunni lengur í straumi, þyrfti veiðimaðurinn að venda eins og óður maður til að hægja á henni. Þegar öllu var á botninn hvolft, þá snérust samræður okkar í raun um að hægja á flugunni þannig að fiskinum gæfist tóm til að sjá hvað væri eiginlega á ferðinni. Ég get nú alveg sett mig í spor fisksins, ef maður sér eitthvað æða framhjá, hvort sem það er fluga eða mótorhjól, þá verða fyrstu viðbrögðin ekki endilega þau að æða á eftir þessu til að ná tegundinni. Sumt fer einfaldlega of hratt til að maður leggi í eltingaleik.

Það er ljóst að félagi minn má eiga von á símtali þegar vora tekur, ég ætla að plata hann með mér í straumvatn og tappa af hans reynslubanka, sérstaklega því sem dugar til að hægja á flugunni. Kannski verður mér þá betur ágengt í straumvatni.

Rándýrið í undirdjúpunum

Þeir sem fylgjast með eða stunda veiðar á stórurriða þekkja vel hvaða agn urriðinn lætur glepjast af. Agnið annað hvort lyktar eða bragðast eins og pattaralegur smáfiskur eða þá líkist honum og hreyfir sig eins og smáfiskur. Þetta er vitaskuld sett fram með þeim fyrirvara að urriði, næstum sama hve stór hann er, étur auðvitað lirfur og púpur ef nóg er af þeim eða þær verða á vegi hans. Eina Þingvallaurriðann sem ég hef veitt tók ég t.d á Pheasant #14 þegar ég í raun var að egna fyrir bleikju og sá fiskur fúlsaði ekki við lítilli púpunni.

Tökur stórurriðans fara ekkert á milli mála, þær eru yfirleitt ofsafengnar og það er ekkert verið að tvínóna við þetta. Bleikjan getur verið töluverðan tíma að snuddast í flugunni, skoðar hana varfærnislega, smakkar kannski og tekur hana síðan heldur rólegar en urriðinn. Hann sér eitthvað sem líkist bráð, rennur á bragðið í vatninu og þar með er málið næstum dautt. Að því gefnu að flugan líkist nægjanlega þeirri bráð sem hann á að venjast, þá er eiginlega það eina sem getur komið í veg fyrir töku að hún hagar sér eitthvað einkennilega. Ef flugan fer allt of hratt, þá getur urriðinn einfaldlega misst af henni. Ef hún fer of hægt þá fer honum kannski að leiðast, hver veit.

Urriði á ferð

Ég er ekki neinn stórveiðimaður á urriða en mér hefur yfirleitt gefist ágætlega að draga straumflugur og nobblera inn á nokkuð hressilegum hraða, en alls ekki alltaf á þeim sama. Stuttar pásur á milli spretta geta viðhaldið áhuga urriðans eða það ímynda ég mér í það minnsta. Draga hressilega inn með rykkjum þannig að flugan taki stutta spretti með tilheyrandi sporðaköstum. Litlir fiskar sem flugan á að líkja eftir, þreytast auðveldlega og því er ágætt að hvíla fluguna inn á milli, draga hægar eða hreint ekki neitt. Þetta á sérstaklega við ef ég hef gert mig sekan um að draga allt of hratt, ég finn létt nart en það verður aldrei hrein taka. Kannski er ímyndunaraflið mitt að hlaupa með mig í gönur, en ég séð það þannig fyrir mér að flugan fer einfaldlega of hratt, urriðinn missir af henni og ef hún heldur áfram á þessum ógnarspretti út úr sjónsviði hans þá sleppir hann því einfaldlega að elta hana. Ef flugan fer aftur á móti aðeins of hratt fyrir hann en staldrar síðan við, þá gæti áhugi urriðans haldist lengur og líkurnar aukist á að hann taki.

Þessu til viðbótar þá er til aðferð sem menn hafa beitt með góðum árangri og það er að veiða særðan fisk. Þetta er eitthvað sem ég hef minnst hér á áður, en þetta er þokkaleg vísa og því má kveða hana aftur. Í raunheimum er því þannig farið að ef urriðinn glefsar í bráðina, þá getur hún særst þannig að hún hættir að synda og flýtur upp. Til að líkja eftir þessu þá þarf veiðimaðurinn að eiga flugur með þokkalegu flotmagni. Svo kallaðar brjóstaflugur (e: boobie fly) eru tilvaldar til þessa. Ef maður á ekki slíka flugu, þá má líka reyna flugur með hárvæng úr hirti, þær fljóta líka þokkalega. Kannski verða einhverjar svona flugur á hnýtingarlistanum þennan vetur.

Kippur

Endalaus leit mín að þurrflugu sem lifir groddaleg köstin mín af stendur yfir þennan vetur, rétt eins og alla undanfarna vetur. Á tímabili þóttist ég himinn höndum tekið þegar ég hnýtti nokkrar Ethel úr hjartarhárum hér um árið, sú fluga flaut og flaut þrátt fyrir mögulega of sveran taum hjá mér og einhverja fiska færði hún mér. Ókosturinn við Ethel er aftur á móti að hún er frekar einhliða, líkir ekkert eftir mörgum tegundum flugna og þá hreint ekki einhverjum smágerðum mýflugum sem maður hefur allt of oft ekki tekist að líkja eftir á vatninu.

Ethel

Mikið lagaðist nú framsetning þurrflugunnar hjá mér þegar ég tók upp á því að klína á þær flotefni, smurði þær vel og vandlega og leyfði þeim að þorna aðeins áður en ég lagði þær fram. Mér hefur tekist bærilega að koma þeim út og þær fljótar, flestar. Aftur á mót virðist fiskurinn hafa eitthvað stórkostlegt á móti því hvernig þær hreyfa sig eða ekki hjá mér. Ég festist nokkuð oft í þeirri kreddu að setja þurrfluguna aðeins undir í þessu margrómaða þurrfluguveðri, en læt þær liggja í boxinu mínu þess á milli. Nokkuð sem getur komið sér einstaklega illa í Íslensku sumri líkt og því sem var síðast. Sjálfur hef ég sagt að þurrfluguveður er ekki til, flugur eru á vatninu mun oftar en við gerum okkur grein fyrir, við einfaldlega greinum þær ekki og ekki heldur tökurnar. Hvað um það, mín upplifun af síðasta sumri var reyndar þannig að þurrflugur fóru afskaplega sjaldan undir, man í raun bara eftir einu tilfelli.

Frostastaðavatn, þar sem bleikjurnar vilja kipp

Í það skiptið hafði ég verið að egna fyrir bleikjur sem lágu í mestu makindum við botninn á vatni einu, þannig að ég hafði tekið fram hægsökkvandi línu og þyngdar púpur. Til skamms tíma bar þetta ríkulegan ávinning og hátt í 20 bleikjur voru komnar í netið mitt þegar þær hættu algjörlega að bregðast við púpunni minni. Ég var svo sem ekkert óvanur þessari hegðun bleikjunnar á þessum slóðum, þannig að ég setti örlítið litsterkari púpu undir og kom henni tryggilega niður til fisksins. Allt kom fyrir ekki, þær högguðust vart um hálfa borðlengd og heldur fór að síga í mig eftir þriðju fluguskipti. Þegar þarna var komið hafði örlítill úði lagst að bakkanum, hitastigið lækkaði raunar lítið þannig að ég hélt áfram að veiða, þ.e. prófa flugur. Kom svo að lokum að lítið annað var eftir í boxinu mínu heldur en þurrflugur. Jæja, af hverju ekki prófa eins og eina slíka? Ég var hvort hið er búinn að prófa flest annað, þannig að undir fór hefðbundinn svört mýfluga, eitthvað í líkingu við Black Gnat. Þar sem geðslag mitt var þegar orðið heldur þungt, kippti ég mér ekkert upp við viðtekið áhugaleysi bleikjunnar á flugunni þar sem hún hreyfðist í því sem mér fannst vera óþolandi rólegheit. Ég er ekki þolinmóður veiðimaður og það kemur iðulega fyrir að mér leiðist enginn eða mjög hægur inndráttur. Það fór svo að í þriðja eða fjórða kasti var mér nóg boðið, reisti stöngina snarlega og ætlaði að pakka saman. En þá gerðist það við það að ég reisti stöngina kom örlítill kippur á fluguna mína og upp frá botninum reis bleikja, uppfull af áhuga á þessu skordýri sem kipptist þarna til á yfirborðinu.

Eftir að hafa landað bleikjunni, lét ég vaða í næsta kast og lagði fluguna fram á svipaðar slóðir, beið augnablik og kippti síðan tvívegis í hana. Það var eins og við manninn mælt, upp frá botninum risu tvær bleikjur og önnur þeirra settir sig með látum á öngulinn. Eftir að hafa endurtekið leikin í örfá skipti, að mér fannst, þá taldi heildarfjöldann í netinu. Það höfðu þá 12 stykki bæst við og mig fór að kvíða fyrir göngunni til baka og pakkaði því saman og lagði af stað. Á röltinu til baka varð mér hugsað til allra þeirra skipta sem ég hafði ekki orðið var þegar ég lét þurrfluguna liggja, hvað ef ég hefði nú kippt í fluguna?

Flugur geta dáið úr leiðindum

Ég hef átt ketti og þeir hafa kennt mér ýmislegt, meira að segja ýmislegt annað en það að eigandanum ber að stjana við þá hvenær sem þeir telja sig eiga það skilið. Kettirnir mínir hafa kennt mér að það sem er eftirsóknarvert, það hreyfir sig. Fluga á glugga sem trítlar í rólegheitum upp rúðuna er hreint ekki eins skemmtileg og fluga sem tekur rokur annað slagið, suðar og hamast með látum.

Flugurnar sem veiðimenn nota ættu að fylgja sömu reglu. Þær ættu að geta tekið rokur, lyfst annað slagið upp úr dýpinu og leitað upp að yfirborðinu. Vitanlega eru þær flugur til sem ber að draga inn með svo hægum drætti að þær hreyfist var úr stað, t.d. Blóðormur. En á einhverjum tímapunkti ættu allar flugur að taka kipp, hreyfast áberandi þannig að þær veki viðbrögð eða kveiki áhuga fisksins.

Pheasant Tail

Þegar við veiðum flugur eins og Pheasant Tail þá skiptir þetta mjög miklu máli. Pheasant Tail sem ekki hreyfir sig eins og skordýr, það er dautt skordýr í augum fisksins og þá er næsta víst að hann verður afhuga flugunni. Við lok hvers inndráttar, rétt í þá mund sem flugan er komin svo nærri stangarendanum að ekki verður lengra dregið inn, þá ættum við að lyfta flugunni upp að yfirborðinu, líkja eftir skordýrinu sem sækir upp að yfirborðinu til að klekjast út. Ef við drögum fluguna inn með sama hraða, í sama takti og með sömu hreyfingu frá því hún lendir í vatninu og þangað til við tökum hana upp í næsta kast, þá erum við að drepa hana úr leiðindum og fiskurinn hefur hreint ekki áhuga á dauðri fæðu.

Þetta hafa snillingar á borð við Ray Bergman, Frank Sawyer og Jim Leisenring reynt að innprenta okkur í áratugi. Sumir veiðimenn hafa tekið mark á þessu, aðrir ekki. Það er ekki erfitt að greina þessa veiðimenn í sundur. Þeir þekkjast auðveldlega sem hafa náð tökum á þessu, meðvitað eða ómeðvitað, það eru þeir sem veiða fisk sama hver flugan er.

Getur maður gleymt?

Í veiðiferðum heyrir maður alltaf eitthvað spaugilegt, annað hvort frá veiðifélögum eða áhorfendum. Já, áhorfendum að stangveiði er sífellt að fjölga á Íslandi. Fjölgun ferðamanna hefur vissulega sett sitt mark á stangveiði á Íslandi, rétt eins og flest annað á liðnum árum. Fyrir utan áhorfendur á gömlu Elliðaárbrúnni og mögulega á nokkrum fleiri stöðum, þá hafa veiðimenn ekkert endilega átt því að venjast að veiða berskjaldaðir fyrir augum og orðum áhorfenda á Íslandi. Þetta hefur aðeins verið að breytast á liðnum árum og það kemur fyrir að veiðimenn upplifa sig sífellt berskjaldaðri fyrir góni og glósum áhorfenda á veiðislóð. Blessunarlega eru flestir veiðistaðir á Íslandi þannig að veiðimenn eiga mjög auðvelt með að gleyma stað og stund þannig að áhorfendur fara mjög sjaldan í taugarnar á þeim. Ef veiðimaður setur óvart í einn svona ferðamann, þá er víst rétt að árétta að það er svona veiða og sleppa lögmál í gildi á ferðamönnum, kannski svona hálfgerð klakveiði. Við gómum þá, kreistum og sleppum síðan lausum og vonum að þeir komi aftur að ári.

Einn góður frá síðasta sumri

Annars er það víst eitthvað fleira sem veiðmenn geta gleymt á veiðislóð heldur en stað og stund. Í sumar sem leið heyrði ég í veiðimanni sem hreint og beint hélt því fram að hann hefði gjörsamlega gleymt því hvernig veiða ætti urriða. Allt þetta bleikjustúss hefði bara alveg náð að þurrka kunnáttu og reynslu urriðaveiði út úr kollinum á honum. Þetta fannst mér spaugilegt, sérstaklega í ljósi þess að á þessum tímapunkti vissi ég nákvæmlega að viðkomandi aðili hafði veitt fjórum urriðum fleiri heldur en ég yfir sumarið. Þegar upp var staðið, þá þurfti reyndar ekki nema einn góðan göngutúr niður að Ljótapolli til að viðkomandi hætti þessu spaugi. En skaðinn var skeður hvað mig varðar, gat maður hreint og beint gleymt því hvernig ætti að veiða fisk? Getur minnið farið svo illa með mann að það hreinlega rænir mann þessari ánægju lífsins? Þetta var svo óþægileg tilhugsun að ég fjölgaði snarlega öllum veiðiferðum, ég ætlaði sko ekki að taka sénsinn á því að minni mitt tæki upp á einhverri ótukt.

Hægri eða vinstri

Ein af lífseigustu deilum í millum fluguveiðimanna er sú hvort fluguhjólið eigi að vera þannig uppsett að maður noti hægri eða vinstri höndina til að spóla inn á það. Helstu rök þeirra sem vilja hafa inndráttinn með þeirri hendi sem þeir kasta með er að rétt sé að spóla inn á veiðihjólið með ríkjandi hendi, hún sé úthaldsmeiri heldur en sú víkjandi og ráði betur við fínhreyfingar. Þetta setja menn fram með þeim fyrirvara að sé veiðimaðurinn ekki að glíma við stóra fiska dags daglega, þá skipti í raun engu máli með hvorri hendinni haldið sé á stönginni og með hvorri spólað sé inn.

Hægri-sinnað hjól
Hægri-sinnað hjól

Nú er kunnara heldur en frá þurfi að segja að ég veiði ekki oft stórfiska, en þrátt fyrir það þá hef ég aldrei keypt þessi rök. Þegar ég kasta nota ég ríkjandi hendi, sem í mínu tilfelli er sú hægri. Þegar fiskurinn tekur, þá reisi ég stöngina með sömu hendi og ég dreg línuna inn með þeirri vinstri. Ég skipti ekkert um hendi af þeirri ástæðu einni saman að hægri höndin er einmitt sterkari og ég tel mig ráða betur við fiskinn með þeirri hendi. Sú vinstri er eiginlega bara til þess að fálma eftir háfinum og vera til taks ef fiskurinn tekur á rás og ég þarf að skammta línuna undir fingurna á þeirri hægri sem heldur við, bæði stöng og línu.

Ef svo ólíklega vill til að ég taki upp á því að spóla línuna inn á hjólið, þá ræður sú vinstri alveg við það. Ég er reyndar að berjast við að venja mig af þeim óskunda, þ.e. að spóla línuna inn í miðri viðureign nema ég þurfi nauðsynlega að stytta línuna sem liggur fyrir fótum mér. Það er þá helst að fiskurinn hafi tekið einhverja roku fyrir nes eða grjót að ég þurfi að færa mig úr stað. Sem sagt; hjólin mín eru uppsett fyrir vinstrihönd, ég kasta með hægri, reisi með hægri, held við með hægri og þá er sú vinstri klár í að spóla línunni inn á hjólið. Með þessu fyrirkomulagi þarf ég aldrei að færa stöngina á milli handa.

Horfinn fiskur

Það kemur fyrir mig, rétt eins og aðra veiðimenn, að ég missi fisk eftir að ég þykist vera búinn að tryggja tökuna og held þokkalega við. Mér fannst samt keyra alveg um þverbak s.l. sumar þegar ónefndur veiðimaður sem ég fylgist stundum með, missti hvern fiskinn á fætur öðrum með tilheyrandi formælingum og særindum. Væntanlega varð ekki aðeins veiðimaðurinn sár, fiskurinn væntanlega einnig, en svekkelsið sat aðeins eftir hjá veiðimanninum. Svona getur þetta stundum verið, en þegar þetta er farin að verða regla frekar en undantekning, þá er rétt að staldra við og athuga hvort ekki megi bæta úr ástandinu. Verð raunar að taka það fram að viðkomandi veiðimaður lagfærði fljótlega hvað það nú var sem ekki virkaði og tók fjölda fiska á land eftir þetta ólukkutímabil.

Eitt af því sem vert er að athuga ef flugan vill ekki haldast í fiskinum er hvort krókurinn sé nógu beittur. Það segir sig nokkuð sjálft að sljór krókur heldur verr en beittur. Fyrstu reddingar felast þá í að skipta um flugu og ganga úr skugga um að sú nýja sé nægjanlega beitt. Síðar má taka fram brýnið og skerpa örlítið á flugunni sem sleppti fiskinum.

Ef ekkert er að krókinum, má efast um að flugan sé yfirhöfuð í réttri stærð. Ef hún mögulega of stór? Það hljómar alltaf jafn ótrúlega, en minni fluga festist betur en stór. Prófaðu að færa þig niður um eina stærð í flugu, e.t.v. liggur vandmálið í stærð hennar.

Á sporðinum burt
Á sporðinum burt

Þegar þetta tvennt er talið, þá eru lagfæringar á viðbragði og viðhaldi það sem oftast situr eftir. Mér hefur alltaf fundist latar tökur silungsins, sér í lagi bleikjunnar, eiga það frekar til að leka úr fiskinum. Það má svo sem alltaf reyna að landa fiskinum án þess að bregðast svolítið ákveðnar við slíkum tökum, annað hvort tekst það eða ekki. Það er reyndar sömu sögu að segja um snaggaralegt viðbragð eftir lata töku. Stundum tekst það, stundum ekki. Þarna á veiðimaðurinn völina og þar með kvölina. Sjálfur hef ég oftar en ekki brugðist tvöfalt við lötum tökum bleikjunnar; reist stöngina og tekið nokkuð hressilega í línuna á sama augnabliki. Hvort sem ég hef þannig náð að tryggja tökuna betur eða að hún var mun ákveðnari heldur en ég hélt, þá hefur þetta yfirleitt virkað fyrir mig, yfirleitt. Stundum hefur það komið fyrir að upp úr vatninu skjótist flugan ein og sér. Þetta eru augnablikin sem ég leik broddgölt á vatnsbakkanum og hnipra mig saman. Hver vill fá flugu í andlitið?

Góðir kostir

Hvað þarf til þess að verða góður veiðimaður? Því hafa margir svarað í gegnum tíðina, sumir fullir sjálftrausts og sannfæringu um eigið ágæti, en aðrir með hógværu lítillæti og taka það fram að þeir sjálfir uppfylli ekki helming þess sem gátlistinn yfir góðan veiðimann telur upp. Ég geri mér engar grillur um að ég sé góður veiðimaður, en ég stefni á það og þess vegna reyni ég að hafa nokkra punkta í huga þegar kemur að veiði.

Fyrir það fyrsta reyni ég af fremsta megni að tileinka mér þolinmæði í fluguveiðinni, ekki síst þegar kemur að kastinu. Takk fyrir, en mér gengur það yfirleitt bölvanlega. Ég hef ekki hugmynd um hve marga fiska ég fæli undan fljótfærum köstum á hverju sumri, þeir skipta væntanlega tugum. En, ég á mér viðreisnar von því ég geri mér grein fyrir þessum skorti á þolinmæði og ætla að tileinka mér aukna þolinmæði þegar kemur að næstu vertíð, loksins. Mín þolinmæði kemur úthaldi við veiði ekkert við, það er allt annar handleggur sem ég kem hér að síðar.

fos_kf_thingvallavatn_kvold
Við Þingvallavatn

Æfingin skapar meistarann, já einmitt. Ég æfi mig alls ekki nógu mikið, eiginlega ekki neitt áður en ég fer í fyrstu veiðiferð sumarsins. Ég reyndar skrepp nokkur kvöld niður á tún með nokkrum félögum, en þær æfingar snúast yfirleitt fljótlega upp í þögla keppni um að kasta sem lengst, ekki fallegast eða nákvæmast. Ég þarf virkilega að taka mig á í æfingunum, það fer á gátlistann fyrir næsta sumar.

Athygli er víst eitthvað sem fluguveiðimenn eiga að hafa í ríku mæli. Jú, ég athuga veðurspánna, hvenær næsta frídag ber við helgi og svo legg ég af stað. Þar með er athyglisgáfa mín eiginlega búin. Þegar ég mæti á staðinn gleymi ég allt of oft að skima umhverfið, skoða undir steinana og ganga úr skugga um hvað fiskurinn sé mögulega að éta. Ég byrja bara á einhverri öruggri flugu og sé síðan til hver verður næst í röðinni. Kannski maður reyni að breyta þessu eitthvað næsta sumar.

Ég er ríkulega búinn þrautseigju, sem er talinn kostur fyrir fluguveiðimann. Reyndar hef ég heyrt einhverja nota orð eins og þrjóska og þvermóðska þegar þeir lýsa þrautseigjunni minni, en það eru bara þeirra orð. Ég get alveg átt það til að standa mjög fastur fyrir og reyna, og reyna, og reyna þótt ekkert gefi. Mín þrautseigja leysir þolinmæðina oft af hólmi.

Þessi grein er fyrst og fremst samin fyrir sjálfan mig sem áminning um allt það sem ég ætla að laga í sumar. Ef til vill á hún ekkert erindi við aðra, eða kannski þó smá?

Sól, sól skín á mig

Talandi um sjálfsagt atriði sem allt of margir veiðimenn virðast gleyma. Það er ekki margt sem tekur því fram að bregða sér fram á bakka veiðivatns og láta sólina aðeins kitla sig í nefið. Já, einmitt í nefið, því þar ætti sólin að ná til okkar, ekki í hnakkann.

Þessi skuggi styggir engan
Þessi skuggi styggir engan

Því verður auðvitað ekki alltaf þannig viðkomið að maður geti staðið á móti sól við vatnið, en það má þá snúa sér í það minnsta þannig að hún beri ekki skuggann af manni beint út á vatnið þar sem fiskurinn liggur. Skugginn á það nefnilega til að fæla fiskinn. Raunar fælist fiskurinn ekki sjálfan skuggann, meira hreyfingu hans og það er einmitt tilfellið með skugga okkar fluguveiðimanna, hann hreyfist.

Öryggisnæla

Við sem eru fæddir fyrir og rétt eftir miðja síðustu öld þekkjum öryggisnælur. Mér til furðu virðist þessi stórkostlega uppfinning hafa týnst hjá yngri kynslóðum. Í það minnsta voru ungir menn á mínu heimili alls ekki með það á hreinu hvað öryggisnæla væri þegar þær bárust til tals um daginn. Þeir eru yngri en svo að þeir hafi náð því að vera pönkarar eins og pabbi þeirra.

Öryggisnæla
Öryggisnæla

Hvort sem menn klæðast veiðivesti eða jakka, já eða bara gömlu góðu lopapeysunni í veiði þá er eflaust alltaf einhver staður þar sem maður getur stungið öryggisnælu í borðung eða ermi. Öryggisnælur geta alltaf komið að góðum notum í veiðinni. T.d. stinga lakki úr augum á flugu eða hengja silunganetið saman þegar það rifnar undan öllum fiskunum. Meira að segja silungaháfar hafa þurft á öryggisnælu að halda ef þeir hafa óvart krækst í grjótnibbu og rifnað, svo maður tali nú ekki um slitna axlaról veiðitöskunnar. Og fyrst veiðimönnum finnst þetta sniðug hugmynd, þá væri ekki úr vegi að vera með tvær til þrjár stærðir af nælum við höndina, augun á flugunum eru jú ekki öll af sömu stærð.

Lokaspretturinn

Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir að ég hef misst fisk alveg við háfinn minn. Ég get engum um kennt nema sjálfum mér í þessum tilfellum og oftast hefur þetta gerst vegna þess að ég hef glatað ró minni og þolinmæði, hlaupið beinlínis á mig og vanmetið úthald fisksins.

Þessi slapp ekki
Þessi slapp ekki

Þannig er að yfirleitt hjálpar ákveðin teygja í flugulínunni okkur við að halda fiskinum við efnið. Þegar við erum aftur á móti komnir með næstum alla línuna inn, aðeins taumurinn eftir, þá er lítið sem ekkert eftir af þessari teygju og allar hreyfingar okkar og fisksins eru beintengdar í gegnum stöngina. Það má segja að línan okkar virki svolítið eins og fjöðrun í bíl, mýkir það þegar við keyrum í holu eða yfir stein. Ef engin er fjöðrunin, þá finnum við fyrir öllum ójöfnum á veginum og aksturinn verður hastur, ekki aðeins fyrir okkur heldur einnig bílinn, það endar með því að eitthvað gefur eftir. Í tilfelli veiðimanns og fisks er það veikasti hlekkurinn í tengingunni; hnúturinn á tauminum, við fluguna eða flugan sjálf í fiskinum. Því skiptir miklu máli að vanda sig á lokasprettinum og gæta þess að snöggar hreyfingar, manns sjálfs eða fisksins geta orðið til þess að eitthvað brestur og hann syndir burt.

Ekki svo vitlaus

Það hefur stundum verið sagt um silunginn að hann sé nú ekki eins vitlaus og veiðimennirnir vilja vera láta. Hvort sem það eru nú vitsmunir eða eðlislæg viðbrögð silungsins, þá tekur hann stundum upp á því að skipta um stefnu í miðri viðureign. Fer frá hægri til vinstri, vinstri til hægri eða það sem kemur veiðimanninum oftast í opna skjöldu, beint í fangið á honum.

fos_urridi2016b
Skarpari heldur en margur heldur

Ég er í svolitlum vafa um hvort ég eigi að segja að fiskurinn víki sér yfirleitt undan sársaukanum því ekki eru allir veiðimenn sammála því að fiskur hafi sársaukaskyn. Sumir segja að hann víki sér undan þrýstingnum, átakinu þegar flugan festist í honum og togar hann í ákveðna átt. Við getum í það minnsta verið sammála um fiskurinn víkur sér undan flugunni, hver sem ástæðan er. Ef hann tekur nú á rás í áttina frá okkur, þá herðum við á en þá getur fiskurinn tekið upp á því að snúa sér í 180° og stefna beint á okkur. Þá er eins gott að vera viðbúin og ná að taka allan óþarfa slaka af línunni því annars getur flugan losnað úr fiskinum. Ábending til veiðimanna; verið ekkert að reyna að spóla línunni inn á hjólið undir þessum kringumstæðum, dragið hana inn með höndunum, það tekur yfirleitt allt of langan tíma að gera það með hjólinu. Ég hef sagt þetta áður og segi það enn, kannski vegna þeirra sem hafa sloppið hjá mér undir þessum kringumstæðum.

Er best að byrja á straumflugu?

Ég byrjaði stangveiði eins og svo margir aðrir á því að veiða með færi niðri á bryggju. Þar sem ég ólst upp var ekki mikið um að ufsi, ýsa eða þorskur væru að flækjast í höfninni þannig að fyrstu fiskarnir mínir voru koli og marhnútur. Síðar færði maður sig eitthvað upp á skaftið, leitaði vestur fyrir þorpið í átt að Ölfusá og alveg vestur í ós þar sem birtingar og smálaxar gerðu vart við sig. Veiðiskapurinn einkenndist af maðki undir flot eða á pungsökku sem grýtt var eins langt út og stöngin og girnið leyfði.

Þegar svo veiðiáhuginn endurnýjaðist, mörgum árum síðar, var nærtækast að taka upp þráðinn þar sem ég hafði sleppt honum sem unglingur. Aftur varð beita fyrir valinu og fjárfest í góðri kaststöng og til að krydda aðeins veiðiferðirnar og hafa eitthvað að gera, þá var fjárfest í ýmsum tegundum af spúnum. Málið er nefnilega að mér leiddist svolítið beituveiðin. Ég er ekki greindur maður, þ.e. mér hefur aldrei verið fundinn staður í stafrófinu og flokkaður virkur, með einhvern brest eða röskun, mér einfaldlega leiðist aðgerðarleysi og það sem verra er, þegar mér leiðist, þá leiðist ég öðrum.

fos_spunar2_big
Þessir hafa hvílt sig í nokkur ár

Fluguveiði var svarið fyrir mig. Þetta er óþrjótandi brunnur afþreyingar fyrir þann sem leiðist auðveldlega. Miðað við ágæta grein sem ég las um daginn eftir Andy McKinley hjá Duranglers vestur í Colorado, þá byrjaði ég reyndar á kolvitlausum flugum. Ég hefði átt að byrja á straumflugu, ekki púpu eða votflugu. Straumflugan er miklu nær spúnaveiðinni, þaðan sem mín leið lá og því hefði ég skv. áliti Andy átt að byrja fluguveiðina með straumflugu. Og svo kom gullkornið sem ég hnaut um; there is no wrong way to fish a streamer. Einmitt, það er enginn leið að veiða straumflugu á rangan hátt. Jæja, blessaður karlinn hefur ekki glímt við kræsna bleikju í Veiðivötnum, sem leggur bara hreint ekki til atlögu við bleikan nobbler nema hann sér dreginn inn á nákvæmlega réttum hraða, á nákvæmlega réttu dýpi og með nákvæmlega réttu handtökunum. Annars get ég alveg samþykkt það, að straumfluguveiði er e.t.v. rökrétt fyrsta val þeirra sem leiðist orðið beituveiðinn eins og mér, hafa fært sig yfir í spúna og spunakróka til að hafa eitthvað fyrir stafni. Kannski ég kíki aðeins á straumfluguboxið mitt í sumar.

Ekkert gauf

Þegar maður lítur um öxl og rifjar upp kynni sín af fiskunum sem sluppu, þá koma nokkrum sinnum upp í huga mér þeir sem nýttu sér tækifærið á meðan maður var að gaufa eitthvað með línuna. Ég hef svo sem veitt það marga fiska um ævina að ég get ekki haldið því fram að ég sjái á eftir þeim sem hafa sloppið, en ég sé aftur á móti stundum eftir því að hafa verið að brasa eitthvað með línuna þegar ég átti að hafa hugann við fiskinn eftir töku.

fos_fluguhjol3_big
Umfram allt, línugeymsla

Mér skilst að það séu með algengari mistökum silungsveiðimanna að fara að spóla línunni inn á hjólið í miðri viðureign í stað þess að hafa hugann við fiskinn. Það er nú sjaldnast svo að maður setji í þannig fisk að mikið reyni að bremsuna á fluguhjólinu eða þörf á að nota hana yfir höfuð. Vel að merkja, ég eltist ekki við hitaveituurrða á Þingvöllum sem ná víst 10 kg. eða meira í þyngd og því dugir mér yfirleitt að bregða línunni á milli fingra og korks til að halda við þegar fiskurinn tekur á rás og því ætti maður sjaldnast að hafa miklar áhyggjur af því að spóla línunni inn í miðri viðureign. Í það minnsta ætti maður að vera alveg viss um að flugan sé trygg áður en maður fer að gaufast við þetta.

Hjarðhegðun

Nú ætti eiginleg allt að vera að gerast, sumarið sprettur fram undan síðustu vorhretunum og vötnin taka við sér hver af öðru. Þó enn sé nokkur tími í að rollum verði hleypt á fjall, er þegar farið að gæta ákveðinnar hjarðhegðunar þar sem örlítil græn slikja er farin að sýna sig. Veiðimenn streyma hver af öðrum í svipaðar áttir, nálgast hvorn annan af varúð á veiðistað, það er aldrei að vita hvernig næsti maður er að koma undan vetri.

Það hefur lengi viljað loða við þennan þriðjung þjóðarinnar, þ.e. stangveiðimenn að þeir sækja á sína staði og þá sérstaklega ef sá staður hefur gefið sérstaklega vel, áður fyrr. Vitaskuld eru ákveðin vötn sem koma fyrst undan vetri og ekkert óeðlilegt að þangað flykkist veiðimenn fyrst á sumrin. En þar með er veiði ekki gefin, hún er nánast ekki einu sinni sýnd þessar fyrstu vikur sumars. Samt er það svo að þegar maður lítur yfir sjóndeildarhringinn við ákveðin vötn, þá er engu líkara en aðeins einn staður gefi þessa dagana við hvert þeirra.

fos_saudur
Einmana sauður

Eins og sauðirnir hafa lært í gegnum aldirnar, þá þarf stundum að hafa svolítið fyrir því að finna fyrstu grænu tuggur sumarsins og alls ekki víst að forystusauðurinn hafi alltaf rétt fyrir sér hvar hana er að finna. Þeir eru til sem stendur slétt á sama hvort þeir eru kallaðir villuráfandi, þeir kljúfa sig frá hjörðinni og leita fanga þar sem eðlisávísunin segir þeim að grasið geti verið grænna. Stundum gengur þetta upp hjá þeim, stundum ekki, en oftar en ekki eru þetta feitustu sauðirnir í hjörðinni þegar kemur að því að hleypt er á fjall þegar sumarið hefur endanlega gengið í garð. Ég leita yfirleitt veiði snemmsumars á þeim stöðum þar sem hjarðirnar hafa ekki troðið svörðinn. Stundum gengur það upp, stundum ekki, en ég græði alltaf eitthvað á því að breyta út af vananum. Ykkur er alveg frjálst að kalla mig villuráfandi, ég fitna af fleiru en fiskum.

Að hvíla

Þegar fiskurinn hefur verið að sýna sig og þú hefur fengið þín tækifæri án þess að ná honum, þá er væntanlega rétt að hinkra við og þá meina ég að hinkra alveg við. Ekki kasta bara einhverjum flugum í sífellu á meðan þú veltir vöngum hvað gera skuli næst.

Ég prófaði þetta svolítið á sjálfum mér í sumar. Í stað þess að þrælast í gegnum allt boxið, kasta í sífellu og draga inn með mismunandi hætti, þá hætti ég alveg og fór að snuddast í tauminum, athuga með hnútana og velti á meðan fyrir mér, og þá mér einum, öllum þeim flugum sem ég hafði prófað með mismunandi hætti.

Örlítil uppitaka
Örlítil uppitaka

Að hvíla vatnið smá stund er yfirleitt ágæt hugmynd og gerir bæði veiðimanni og fiski gott. Fiskurinn getur alveg orðið hvektur á endalausu áreiti ef hann er í mjög ákveðnu æti. Það er ekki þar með sagt að hann víki sér undan hlaðborðinu sem er til staðar, en ef hann verður sífellt truflaður á matmálstímum af einhverju sem hann hefur engan áhuga á, þá er eins og það byggist upp ónæmi hjá honum fyrir þeim flugum sem maður kastar fyrir hann. Svo er líka bara ágætt að líta upp, virða fyrir sér sjóndeildarhringinn og dást að umhverfinu. Bregða á leik og geta sér til um hvort það sé fiskur að vaka þarna í fjarska, hvað ætli hann sé að éta? Það er aldrei að vita nema það skjóti einhverri flugu fyrir hugskotssjónir. Já, þessi gengur örugglega. Setja hana undir og reyna aftur við þann sem ekkert vildi.

Ef fiskurinn er aftur á móti ekkert í ákveðnu æti, liggur bara fyrir eða sólar bara á sér uggana, þá getur verið lag að standa við og reyna allar flugur í boxinu þangað til hann bregst við.

Að veiða tvær flugur

Flestir eru kunnugir því hvernig veiðimenn veiða tvær flugur á taumi, aðal- og aukaflugu, veiða með dropper eða afleggjara eins og kallað er. Þetta er sagt auka veiðimöguleika manna til muna og vissulega hef ég séð veiðimenn raða inn fiskum á sitthvora fluguna, þó algengara sé að menn veiði aðallega á aðra þeirra. Þá velja menn mismunandi týpur á tauminn, eina til að laða fiskinn að, vekja forvitni hans, en hina sem hann svo tekur þegar hún skýst inn í sjónsvið hans.

fos_peacock_orgEn það er líka hægt að veiða tvær flugur á allt annan hátt. Við veiðifélagarnir rottum okkur yfirleitt saman þegar við komum á veiðislóð um það hvaða flugu hvort okkar um sig byrjar á að veiða. Já, við veiðum tvær mismunandi flugur þar til ein þeirra hefur sannað sig. Þá vill bregða við að sama flugan endar á hjá okkur báðum. En stundum dugar það einfaldlega ekki til. Það hefur alveg komið fyrir að Alma Rún hefur gefið og gefið, en aðeins öðru okkar. Hitt hefur þá þurft að fara í tilraunastarfsemi og endað kannski á Peacock. Það er nú ekki margt líkt með Peacock og Ölmu Rún, þannig að einhver ókunnur faktor er greinilega í spilinu. Drögum við veiðifélagarnir misjafnlega inn, leggst önnur þeirra betur niður heldur en hin eða er einfaldlega um það að ræða að ætið sem fiskurinn er í sé allt annað handan þessara 10 metra sem skilja okkur að við vatnið?

fos_almarun

Ég get svo sem ekki fullyrt eitthvað um þetta, en ég þori samt sem áður að draga eina mjög mikilvæga ályktun af þessu. Sú fluga sem sögð er veiða á ákveðnum stað, á ákveðnum tíma af ákveðnum veiðimanni, er alls ekki heilög og mögulega passar hún alls ekki tækni næsta manns eða inn á matseðil fisksins síðar. Undir liðnum vötnin hér á síðunni er að finna fjölda flugna sem gefið hafa í tilteknum vötnum. Þessar flugur eru aðeins sýnd veiði, ekki gefin, það eitt er víst.

Tekur þetta langan tíma?

Það var örugglega einhver heimspekingur sem sagði að það væri ekki til heimskuleg spurning, aðeins heimskuleg svör. Ég hef verið óhræddur við að spyrja spurninga sem næstum afsanna þessa fullyrðingu en svo hef ég líka átt minn þátt í að vera á mörkunum hvað varðar svörin. Ég man að vísu ekki hve langt er um liðið frá því ég fékk fyrst spurninguna um það hve langan tíma það tæki að ná tökum á fluguveiðinni. Fyrst ætlaði ég að slá um mig og svara einhverju af viti, en svo rann upp fyrir mér að ég hafði bara ekki minnstu hugmynd um rétt svar við þessari spurningu. Ég vék mér því hjá algildu svari og sagðist ætla að láta viðkomandi vita þegar ég kæmist að því. Það eru örugglega einhver ár síðan þetta var og enn hef ég ekki nema óljósa hugmynd um rétt svar. Ég vona eiginlega að ég komist aldrei að því, fluguveiðin er svo einstaklega skemmtilegur skóli.

Svona rétt á meðan ég færist örlítið nær svarinu, þá hef ég mótað með mér ákveðna hugmynd um tímaramma sem áhugasamir geta stuðst við. Segjum sem svo að viðkomandi fái áhuga á fluguveiði rétt um þrítugt. Þá á hann óteljandi góð ár eftir af ævinni, eiginlega öll þau bestu, en skiptum þeim upp í þrjú jafnlöng tímabil, hvert um sig 20 ár.

Eyddu fyrstu 10 árunum í að sannfæra sjálfan þig um að þú sért veiðimaður. Mér skilst að þetta sé einhver þumalputtaregla úr listnámi; sannfærðu sjálfan þig um að þú sért listamaður, þá fara aðrir að trúa því. Fluguveiði er listgrein. Eyddu síðan næstu 10 árum í að finna þér réttu tólin. Rétt eins og myndhöggvarinn, þá þarftu að kljúfa marga steina áður en Venus frá Milo sprettur fullsköpuð fram úr grjótinu og þá þarftu góðar græjur. Fluguveiðin er ekkert ósvipuð, taktu þér góðan tíma í að brýna meitlana, velja þér réttu græjurnar.

fos_kf_gislholtsvatn_third
Höfundur við Gíslholtsvatn

Næstu 20 árin eru undirstaða lærdóms. Lærðu á verkfærin, lærðu undirstöðuatriði flugukastsins undir handleiðslu einhvers sem vit hefur á, fyrri 10 árin og fylgstu síðan með þeim sama næstu 10 árin þar sem hann les veiðistaðina, lífríkið og velur sér flugur í takt við það sem er að gerast í náttúrunni.

Síðustu 20 árin eru mest spennandi. Þú ferð í þína fyrstu alvöru veiðiferðir upp á eigin spýtur og eyðir 10 árum í að gera öll mistökin sem enn eru óskráð í sögubækurnar og finnur eigin vanmátt gagnvart fiskinum og duttlungum hans. Þú mátt eiga von á að allt að 5 ár fari í bræðisköst og mislukkaðar veiðiferðir þar sem ekkert gengur upp, enginn fiskur kemur á land en smátt og smátt nærðu tökum á þessu og síðustu 10 árin nærðu að slaka þannig á að ánægjan og fullnægjan af einum fiski er þér næg í hverri veiðiferð.

Þeim sem þykja þessi viðmið taka aðeins of langan tíma, geta stytt heildartímann úr 60 árum niður í 6 ár, 6 vikur eða 6 daga. Fluguveiði er ekki háð tíma, hún er ávöxtur áhuga og elju og það er undir hverjum og einum komið hve langan tíma það tekur að ná tökum á þessu. Mundu bara að því skemur sem fyrstu 50 árin taka, því lengri tíma áttu í síðustu 10, en sættu þig við að þú verður aldrei fullnuma.

Líkamsrækt

Getur stangveiði flokkast sem líkamsrækt? Já, tvímælalaust. Hver sá sem hefur klæðst veiðigallanum, spennt á sig bakpokann, hengt á sig háf og aðrar nauðsynlegar græjur, veit að það þarf ekki langan göngutúr til að virkja svitaholurnar og hraða önduninni örlítið. Þegar svo á veiðistað er komið getur hjartslátturinn örvast, adrenalínið streymt og reynt á snerpuna þegar bregðast þarf við örgrönnum tökum silungsins.

Vísindalegar rannsóknir hafa sannað að rölt á veiðistað í fullum skrúða og klukkutími í fluguveiði getur losað veiðimanninn við 500 – 1500 kaloríur á einum klukkutíma. Til samanburðar skilst mér að klukkutími á göngubretti brennir u.þ.b. 250 kaloríum hjá meðal manneskju.

Góður dagur í veiði er á við heildstæða vikulanga líkamsrækt. Flugukast er frábær rækt fyrir upphandleggi, hendur og úlnliði ásamt því að mjóbak og herðar njóta góðs af hreyfingunni. Raunar hafa bæklunarlæknar mælt með fluguveiði fyrir þá sem þjást hafa af bakverkjum, hún styrkir og mýkir bakvöðvana. Þetta hef ég sjálfur reynt og notið góðs af eftir bakuppskurð og þráláta bakverki.

fos_skor_stong_hraun
Ekki beinlínis léttasta skótauið

Svo má ekki gleyma fóta- og kviðvöðvunum sem þurfa að hafa sig alla við þegar maður er að klöngrast yfir hraun, á hálu grjótinu eða stendur langtímum saman úti í vatni.

Stangveiði og þá sérstaklega fluguveiði hægir á aldurstengdri hrörnun fínhreyfinga, nokkuð sem frístundamálarar ættu að hafa í huga. Svo hefur maður séð mörg áhugaverð málverk sem listamaðurinn hefur sótt innblástur til úr stangveiðinni. Svona er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, jafnvel þrjár ef maður hnýtir þær sjálfur. Útvistin veitir innblástur að listaverkum og fluguveiðin viðheldur fínhreyfingunum sem maður þarf síðan á að halda á vetrum þegar fluguhnýtingarnar stytta biðina eftir næsta sumri. Maður ætti kannski að taka með sér pappír og pensil í veiðiferðir næsta sumars?

Dauðahald

Margir veiðimenn halda dauðahaldi í ákveðnar flugur í orðsins fyllstu merkingu. Að halda of stíft við línuna er næstum alveg eins slæmt og að halda ekkert við, sérstaklega þegar maður hefur sett í fisk og hann tekur á rás í þveröfuga átt við stefnu flugunnar.

fos_urridi_fluga_teikning

Ef veiðimaðurinn heldur of stíft við eftir töku, þá gefst stundum ekki tími til að gefa hæfilega eftir þegar fiskurinn vindur upp á sig og reynir að synda í gagnstæða átt og það eina sem veiðimaðurinn græðir er að geta sagt; Ég missti þann stóra, hann reif sig lausann. Ef flugan situr tæpt í fiskinum, þá þarf oft ekki nema smá átak til að hún losni. Þá getur verið kostur að gefið örlítið eftir án þess að sleppa alveg lausu. Veiðimanninum gefst þá örlítið betra tóm til að tryggja fluguna með því að herða örlítið tökinn þegar fiskurinn syndi í áttina frá honum.