Um daginn átti ég ágætt spjall við félaga minn og við ræddum allt milli himins og jarðar, svona eins og gengur. Meðal þess sem við fórum yfir var háttalag laxfiska gagnvart flugum. Ég þóttist hafa lesið það einhvers staðar að lax og urriði væru í raun ekkert sérstaklega snaggaralegir fiskar, þeir væru í raun svifaseinir og gætu því einfaldlega misst af flugunni ef hún færi of hratt framhjá þeim.
Eitthvað spunnust umræður okkar út í veiði í straumvatni, þar sem ég er alls ekki sterkur á svellinu og gæti bætt heilmiklu við í reynslubanka minn. Eitt af því sem ég nefndi og hafði í huga reynslu mína úr Brúará í Biskupstungum í sumar, var að mér fannst tíminn sem flugan var í raun að veiða svo stuttan tíma í straumvatni. Trúlega er Brúará ekki besta áin fyrir byrjanda í straumvatni, í það minnsta ekki þar sem ég var að kljást við hana við ármót Fullsæls. Þarna er stríður straumur og mikið vatn í ánni og hún er alls ekki neitt lík þeirri á sem ég ólst upp við, ós Ölfusár. Þegar ég var að renna fyrir fisk í ósnum í gamla daga, löngu fyrir tíð mína sem fluguveiðimanns, þá var mottóið að setja bara nógu þunga sökku undir og maðk á öngul. Þá fyrst náði maður að halda agninu einhvern tíma í strengnum þar sem hann rann við bakkann austanverðan. Fiskurinn hafði með þessu móti nægan tíma til að sjá agnið fljóta rólega framhjá og áttaði sig á góðgætinu.

Félagi minn nefndi þá að til þess að halda flugunni lengur í straumi, þyrfti veiðimaðurinn að venda eins og óður maður til að hægja á henni. Þegar öllu var á botninn hvolft, þá snérust samræður okkar í raun um að hægja á flugunni þannig að fiskinum gæfist tóm til að sjá hvað væri eiginlega á ferðinni. Ég get nú alveg sett mig í spor fisksins, ef maður sér eitthvað æða framhjá, hvort sem það er fluga eða mótorhjól, þá verða fyrstu viðbrögðin ekki endilega þau að æða á eftir þessu til að ná tegundinni. Sumt fer einfaldlega of hratt til að maður leggi í eltingaleik.
Það er ljóst að félagi minn má eiga von á símtali þegar vora tekur, ég ætla að plata hann með mér í straumvatn og tappa af hans reynslubanka, sérstaklega því sem dugar til að hægja á flugunni. Kannski verður mér þá betur ágengt í straumvatni.