Tekur þetta langan tíma?

Það var örugglega einhver heimspekingur sem sagði að það væri ekki til heimskuleg spurning, aðeins heimskuleg svör. Ég hef verið óhræddur við að spyrja spurninga sem næstum afsanna þessa fullyrðingu en svo hef ég líka átt minn þátt í að vera á mörkunum hvað varðar svörin. Ég man að vísu ekki hve langt er um liðið frá því ég fékk fyrst spurninguna um það hve langan tíma það tæki að ná tökum á fluguveiðinni. Fyrst ætlaði ég að slá um mig og svara einhverju af viti, en svo rann upp fyrir mér að ég hafði bara ekki minnstu hugmynd um rétt svar við þessari spurningu. Ég vék mér því hjá algildu svari og sagðist ætla að láta viðkomandi vita þegar ég kæmist að því. Það eru örugglega einhver ár síðan þetta var og enn hef ég ekki nema óljósa hugmynd um rétt svar. Ég vona eiginlega að ég komist aldrei að því, fluguveiðin er svo einstaklega skemmtilegur skóli.

Svona rétt á meðan ég færist örlítið nær svarinu, þá hef ég mótað með mér ákveðna hugmynd um tímaramma sem áhugasamir geta stuðst við. Segjum sem svo að viðkomandi fái áhuga á fluguveiði rétt um þrítugt. Þá á hann óteljandi góð ár eftir af ævinni, eiginlega öll þau bestu, en skiptum þeim upp í þrjú jafnlöng tímabil, hvert um sig 20 ár.

Eyddu fyrstu 10 árunum í að sannfæra sjálfan þig um að þú sért veiðimaður. Mér skilst að þetta sé einhver þumalputtaregla úr listnámi; sannfærðu sjálfan þig um að þú sért listamaður, þá fara aðrir að trúa því. Fluguveiði er listgrein. Eyddu síðan næstu 10 árum í að finna þér réttu tólin. Rétt eins og myndhöggvarinn, þá þarftu að kljúfa marga steina áður en Venus frá Milo sprettur fullsköpuð fram úr grjótinu og þá þarftu góðar græjur. Fluguveiðin er ekkert ósvipuð, taktu þér góðan tíma í að brýna meitlana, velja þér réttu græjurnar.

fos_kf_gislholtsvatn_third
Höfundur við Gíslholtsvatn

Næstu 20 árin eru undirstaða lærdóms. Lærðu á verkfærin, lærðu undirstöðuatriði flugukastsins undir handleiðslu einhvers sem vit hefur á, fyrri 10 árin og fylgstu síðan með þeim sama næstu 10 árin þar sem hann les veiðistaðina, lífríkið og velur sér flugur í takt við það sem er að gerast í náttúrunni.

Síðustu 20 árin eru mest spennandi. Þú ferð í þína fyrstu alvöru veiðiferðir upp á eigin spýtur og eyðir 10 árum í að gera öll mistökin sem enn eru óskráð í sögubækurnar og finnur eigin vanmátt gagnvart fiskinum og duttlungum hans. Þú mátt eiga von á að allt að 5 ár fari í bræðisköst og mislukkaðar veiðiferðir þar sem ekkert gengur upp, enginn fiskur kemur á land en smátt og smátt nærðu tökum á þessu og síðustu 10 árin nærðu að slaka þannig á að ánægjan og fullnægjan af einum fiski er þér næg í hverri veiðiferð.

Þeim sem þykja þessi viðmið taka aðeins of langan tíma, geta stytt heildartímann úr 60 árum niður í 6 ár, 6 vikur eða 6 daga. Fluguveiði er ekki háð tíma, hún er ávöxtur áhuga og elju og það er undir hverjum og einum komið hve langan tíma það tekur að ná tökum á þessu. Mundu bara að því skemur sem fyrstu 50 árin taka, því lengri tíma áttu í síðustu 10, en sættu þig við að þú verður aldrei fullnuma.

Líkamsrækt

Getur stangveiði flokkast sem líkamsrækt? Já, tvímælalaust. Hver sá sem hefur klæðst veiðigallanum, spennt á sig bakpokann, hengt á sig háf og aðrar nauðsynlegar græjur, veit að það þarf ekki langan göngutúr til að virkja svitaholurnar og hraða önduninni örlítið. Þegar svo á veiðistað er komið getur hjartslátturinn örvast, adrenalínið streymt og reynt á snerpuna þegar bregðast þarf við örgrönnum tökum silungsins.

Vísindalegar rannsóknir hafa sannað að rölt á veiðistað í fullum skrúða og klukkutími í fluguveiði getur losað veiðimanninn við 500 – 1500 kaloríur á einum klukkutíma. Til samanburðar skilst mér að klukkutími á göngubretti brennir u.þ.b. 250 kaloríum hjá meðal manneskju.

Góður dagur í veiði er á við heildstæða vikulanga líkamsrækt. Flugukast er frábær rækt fyrir upphandleggi, hendur og úlnliði ásamt því að mjóbak og herðar njóta góðs af hreyfingunni. Raunar hafa bæklunarlæknar mælt með fluguveiði fyrir þá sem þjást hafa af bakverkjum, hún styrkir og mýkir bakvöðvana. Þetta hef ég sjálfur reynt og notið góðs af eftir bakuppskurð og þráláta bakverki.

fos_skor_stong_hraun
Ekki beinlínis léttasta skótauið

Svo má ekki gleyma fóta- og kviðvöðvunum sem þurfa að hafa sig alla við þegar maður er að klöngrast yfir hraun, á hálu grjótinu eða stendur langtímum saman úti í vatni.

Stangveiði og þá sérstaklega fluguveiði hægir á aldurstengdri hrörnun fínhreyfinga, nokkuð sem frístundamálarar ættu að hafa í huga. Svo hefur maður séð mörg áhugaverð málverk sem listamaðurinn hefur sótt innblástur til úr stangveiðinni. Svona er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, jafnvel þrjár ef maður hnýtir þær sjálfur. Útvistin veitir innblástur að listaverkum og fluguveiðin viðheldur fínhreyfingunum sem maður þarf síðan á að halda á vetrum þegar fluguhnýtingarnar stytta biðina eftir næsta sumri. Maður ætti kannski að taka með sér pappír og pensil í veiðiferðir næsta sumars?

Dauðahald

Margir veiðimenn halda dauðahaldi í ákveðnar flugur í orðsins fyllstu merkingu. Að halda of stíft við línuna er næstum alveg eins slæmt og að halda ekkert við, sérstaklega þegar maður hefur sett í fisk og hann tekur á rás í þveröfuga átt við stefnu flugunnar.

fos_urridi_fluga_teikning

Ef veiðimaðurinn heldur of stíft við eftir töku, þá gefst stundum ekki tími til að gefa hæfilega eftir þegar fiskurinn vindur upp á sig og reynir að synda í gagnstæða átt og það eina sem veiðimaðurinn græðir er að geta sagt; Ég missti þann stóra, hann reif sig lausann. Ef flugan situr tæpt í fiskinum, þá þarf oft ekki nema smá átak til að hún losni. Þá getur verið kostur að gefið örlítið eftir án þess að sleppa alveg lausu. Veiðimanninum gefst þá örlítið betra tóm til að tryggja fluguna með því að herða örlítið tökinn þegar fiskurinn syndi í áttina frá honum.

Einfalt ráð

Mér liggur við að segja að það gerist allt of sjaldan að það sé sett ofan í við mig, en það kom nú samt fyrir um daginn. Áttu ekki bara einhver einföld ráð? sagði einn við mig sem hafði lesið sig í gegnum pistlana á síðunni. Ég hélt nú reyndar að þessar athugasemdir mínar væru ekkert sérstaklega flóknar, en svo renndi ég í huganum yfir ýmislegt sem angraði mig þegar ég var að byrja í fluguveiðinni. Það sem kom fyrst upp í hugann var auðvitað hvað mér gekk einfaldlega mjög illa að finna hvenær fiskurinn hafði einhvern áhuga á flugunni minni.

Mér gekk einstaklega illa að brjóta múrinn á milli mín og bleikjunnar í Þingvallavatni. Satt best að segja hef ég ekki hugmynd um hve oft ég fór heim með öngulinn í rassinum áður en ég fékk minn fyrsta fisk í Þjóðgarðinum. Ég var búinn að prófa öll trikkinn sem reyndir veiðimenn höfðu fram að færa, mismunandi tíma dags, ýmsar flugur og mismunandi dýpi, en ekkert gekk. Svo var það að múrinn féll eftir að ég mætti á staðinn og hélt við línuna, ekki með einum fingri, heldur tveimur og var ekkert að gaufast með slaka línu eftir að hafa lagt hana fram.

Línunni brugðið undir tvo fingur
Línunni brugðið undir tvo fingur

Um leið og ég tamdi mér að setja línuna fasta með einum eða tveimur fingrum um leið og ég var búinn að leggja hana fram, þá fór bleikjunum að fjölga sem enduðu í netinu mínu. Það var eins og ég fyndi betur með tveimur fingrum þegar bleikjan sýndi flugunum mínum áhuga og þá gat ég brugðið við. Vel að merkja, ég hef aldrei komist upp á lagið með tökuvara, það er eins og ég lokist af við það að glápa á þessa litlu þúst þarna úti á vatninu, ég næ einfaldlega betri árangri með því að glápa eitthvað út í loftið og leyfa fingrunum að finna lauflétta snertingu bleikjunnar.

Kuldabolar

Það er til marks um gott sumar þegar snjóskaflinn undir Miðmorgunsöldu í Veiðivötnum nær að bráðna áður en síðasti fiskurinn er dreginn upp úr Veiðivötnum, sú varð raunin í sumar sem leið. Veiðimenn urðu því að taka með sér ís eða annan útbúnað í Vötnin til að kæla aflann. Svipaða sögu er að segja af öðru hálendissvæði, Framvötnum. Í síðustu ferð okkar veiðifélaganna í sumar inna að Frostastaðavatni, þ.e. 11. september var litli skaflinn undir Fitjahlíð í Dómadal næstum því horfinn og í raun fyrir löngu ómögulegt að ná einhverjum ís úr honum.

Það skiptir miklu að kæla afla vel, sérstaklega ef úthaldið eru nokkrir dagar í sól og blíðu. Í veiðiferðir okkar í sumar höfum við verið að taka með okkur ísmola í frauðplastkassa eða kæliboxi með misjafnri endingu og oftar en ekki höfum við þurft að bregðast við ótímabærri bráðnun með því að sníkja ís hjá öðrum eða renna í næstu kjörbúð og endurnýja ísbirgðirnar. Ísmolar hafa þennan leiða ávana að bráðna, hverfa og umbreytast í vatn með tilheyrandi sulli og sóðaskap í kæliboxinu. Oft hefur maður brugðið á það ráð að setja kæliboxið í næsta læk til að lengja líftíma molanna, en eins og veðráttunni var háttað s.l. sumar var ekki á neitt að stóla í þeim efnum, þeir voru nokkrir lækirnir sem fóru á þurrt í blíðunni.

fos_isfloskurSíðla sumar mundi ég eftir ábendingu á spjallsvæði veiðifélags míns; Settu vatn í gosflösku, frystu og áttu klárt í kistunni fyrir næstu veiðiferð. Það tók mig að vísu nokkrar veiðiferðir að muna eftir því að útbúa svona kuldabola og eiga tiltæka í frystinum, en það tókst á endanum. Kosturinn við flöskurnar er að þykkur klakinn heldur lengur en molarnir, ekkert sull þótt þeir bráðni og einfalt að endurnýta með því að skjóta þeim í frystinn að veiðiferð lokinni. Munið bara að fylla flöskurnar ekki nema upp að öxlum, annars er eins víst að upp úr kistunni komi frosinn gosbrunnur, tappinn af og plastið sprungið.

Sérðu hana alltaf éta?

Menn eru misjafnlega mannglöggir. Ég er t.d. þannig gerður að mér er stundum lífsins ómögulegt að greina á milli manna, þekki ég þennan eða hinn? Á ég vita hver þessi eða hinn er þegar ég rekst á þá á förnum eða fáförnum vegi.  Ef einhver hefur rekist á mig í sumar, við tekið tal saman og ég virst vera fjarlægur og jafnvel ekki alveg í sambandi við umræðuefnið, þá er það alls ekki illa meint hjá mér. Ég hef trúlega bara verið að velta því fyrir mér hvar ég hafi séð eða rætt við viðkomandi áður eða verið alveg á villigötum.

Síðast liðið sumar gekk ég fram á veiðimenn sem ég taldi mig þekkja og tók þá tali. Eftir á að hyggja, hef ég væntanlega aldrei séð þessa menn áður, en við áttum ágætt spjall þar sem þeir voru að veiða með púpum og beitu niður á botni á meðan bleikjan fyrir framan þá var, að því er mér sýndist, mest í því að pikka upp flugur rétt undir yfirborðinu. Ég reyndi eins og ég gat að rífa augun af bungunum sem mynduðust á vatninu annars slagið og einbeita mér að samtalinu. Svo gat ég ekki lengur orða bundist, tók fram fluguboxið mig og valdi nokkrar votflugur úr því og rétti fluguveiðimanninum með þeim orðum að nú væri lag að skipta sökklínunni út fyrir flotlínu, setja Watson‘s Fancy undir og draga hana rólega inn, rétt undir yfirborðinu.

Ha, sérðu hana alltaf éta? spurði þá maðurinn mig. Þá vafðist mér tunga um tönn, nei, ég sé bleikjuna ekkert alltaf éta, en það eru stundum ákveðnar vísbendingar um það á vatninu hvar hún er að éta og hvað. Þegar það lítur t.d. út fyrir að það séu risa loftbólur alveg við það að stíga upp á yfirborðið, svona á stærð við handbolta, en svo gerist ekkert, þá er silungurinn væntanlega að éta flugu sem er alveg við það að brjótast upp á yfirborðið, svona á 10 – 20 sm. dýpi. Hvað geri ég þá? Jú, set votflugu eða litla mýflugu á intermediate línu og byrja að draga inn um leið og hún lendir. Þegar ég tala um intermediate línu hérna, þá verður hún að vera með sökkhraða undir tommu á sekúndu. Það er auðvitað líka hægt að stytta tauminn á flotlínunni og nota örlítið þyngri flugu, það kemur næstum út á sama stað í yfirborðinu. Hreyfing flugunnar verður að vísu svolítið önnur, en stundum verður hún einmitt rétt þannig. Það er ekkert endilega ein rétt leið að veiða silung í svona tökum.

fos_urridi_yfirbord

Svo eru það augnablikin þegar maður sér bleikjuna, já eða urriðann, velta sér í yfirborðinu. Hvað er eiginlega í gangi? Jú, væntanlega liggur ætið þá ofan á vatninu eða er við það að brjótast upp úr filmunni. Þá vandast málið hjá mér. Ég er ekkert sérstakur þurrflugukall, meira fyrir votflugur og púpur, þannig að ég fer stundum milliveginn, veiði þurrfluguna eins og votflugu. Það virkar líka, oftast. Mér er minnistætt augnablik frá því í sumar, þegar ég staldraði við þó nokkurn spotta frá vatninu og kom þá auga á svona veltur í yfirborðinu. Það var hreint ekki þannig veður að ég ætti von á að fluga væri að klekjast, goluskratti og hitastigið ekki upp á marga fiska, en bleikjan var sannanlega að veltast þarna í æti. Það kom síðar á daginn að hún var að rótast í fló sem hafði hrakist með gárunni inn á víkina sem ég kom að. Já, fiskurinn étur það sem er á boðstólum, ekki það sem við teljum okkur sjá eða sjáum bara alls ekki.

Við erum af nokkrum gerðum

Hugtakið raunheimar hafa fengið nýja merkingu á síðustu árum. Raunheimar er sá veruleiki þar sem við getum snert á hlutum, tekið í höndina á kunningjunum og klappað þeim á bakið, hughreystandi eða af samúð þegar sá stóri sleppur. Netheimar bjóða okkur ekki upp á þessa nánd, en við getum svo sem átt vini þar eins og í raunheimum. Ég á nokkra svona netvini sem ég heilsa upp á reglulega, kíki á hvað þeir hafa fyrir stafni, svara þeirra hugleiðingum eða spyr þá ráða. Einn þessara netvina minna var að hefja silungsvertíðina um daginn, já, hann er hinu megin á hnettinum, Nýja Sjálandi nánar tiltekið.

Það var með nokkrum trega að ég las frásögn hans af þessum fyrsta degi. Hann lenti í ýmsu þennan dag og honum var nokkuð hugleikin ótrúleg framkoma veiðimanns sem varð á vegi hans. Ég sendi þessum netvini rafrænt klapp á bakið og tjáði honum að umrædd tegund veiðimanna væri einnig að finna hér norðanmegin á kúlunni. Þeir væru væntanlega til allan hringinn.

Að gamni mínu setti ég síðan saman þennan stubb um nokkrar gerðir veiðimanna sem maður hefur rekist á við vötnin í gegnum tíðina. Skal þar fyrstan telja, bara þannig að hann verði ekki sár; Gore-TEX gæinn. Þessi veiðimaður stekkur fullskapaður fram úr opnu veiðitímaritsins, í nýjustu tegund vöðla og veiðijakka, með nýjustu, bestu og STÆRSTU veiðistöng allra tíma. Að vísu staldrar hann aðeins örstutta stund við, vatnið er of kalt, sólin of sterk, fiskurinn farinn eða áríðandi símtal barst í extra-delux-vatnshelda-farsímann sem hangir glannalega í veiðivestinu. Ég elska þessa veiðimenn, þeir halda bestu stöðunum svo sjaldan uppteknum lengi.

fos_kf_ellidavatn
Höfundur við Elliðavatn

Jeppi á Fjalli er einnig í ákveðnu uppáhaldi hjá mér. Þetta er öflugur veiðimaður, vopnaður kaststöng og vílar ekkert fyrir sér. Mætir í klofstígvélum fram á vatnsbakkann, fer úr af ofan og veður út í vatnið þar til gjálfrar niður í stígvélin. Svo heyrir maður í línunni þar sem hún þýtur fram og flytur torkennilegt samblandi lífrænnar beitu og smurefnis á önglinum. Svo bíður hann sallarólegur, opnar einn bauk, svelgir hann í sig rétt í tæka tíð áður en hann landar stærsta fiski dagsins. Ótrúlegur veiðimaður af guðs náð.

Samfélagsmiðillinn er líka nokkuð skemmtilegur gæi. Hann mætir á staðinn, byrjar á því að taka nokkrar sjálfur (selfies) af sér með vatnið í baksýn. Hann er mikið á félagsmiðlunum og veit nákvæmlega hvar og á hvaða flugu stærsti fiskurinn var tekinn, í gær. Yfirleitt er hann aldrei vopnaður sömu flugunni tvær veiðiferðir í röð, því alltaf rekst hann á einhverja nýja á milli ferða. Ég hef að vísu aldrei séð hann landa fiski, en hann er ótrúlega duglegur að taka glennumyndir af fiskum félaganna og pósta þeim á bráðsnjöllu veiðiappi sem hann er með á símanum. Hann miðlar af reynslu, annarra. Skemmtilegur gaur sem spyr mikils, en ég er ekki alltaf viss um að hann skilji svörin sem hann fær.

Nýburinn er þessi sem er blautur á bak við eyrun, ekki vegna þess að það er rigning, heldur vegna þess að hann er nýbyrjaður í fluguveiðinni. Hann gefur sig sjaldnast á tal við nokkurn mann, getur verið mjög lengi að hnýta tauminn sinn og enn lengur að fá fluguhnútinn til að halda. Þetta er sá sem eldri veiðimenn elska að taka undir verndarvæng sinn, leiðbeina og styrkja í trúnni á sjálfan sig þannig að hann gefist ekki upp áður en fyrsta fiski er náð. Stundum finnst mér eins og ég sé ennþá þessi týpa.

Gamlinginn er sjaldséður fugl, kannski vegna þess að hann fer orðið svo sjaldan í veiði og veiðir stutt í einu. En þegar hann mætir, þá veiðir hann af mikilli ánægju og jafnvel ánægjunni einni saman. Þessir karlar þekkja alla bestu staðina, eru óhræddir við að eftirláta þá öðrum því þeir einfaldlega vita af allt öðrum og enn betri stöðum. Þeir kasta margfalt lengra heldur en þú sjálfur en með helmingi minni fyrirhöfn. Flugan þeirra leggst fram af hógværð og stillingu, hnýtt á tauminn með hnút sem gæti verið eitt listaverka Michelangelo og sjálf flugan er úr sama ranni runnin. Takist mér að leika Nýbura í návist þessa manns, er ég í góðum málum. Hann er vís með að setjast niður með mér yfir kaffibolla og matarkexi og leiða mig í sannleikann um alla leyndardóma stangveiðinnar áður en kexpakkinn er búinn. Eftir spjall við svona veiðimann tekur veiðilífið yfirleitt töluverðum breytingum og róast verulega. Mig dreymir um að verða Gamlingi.

Náttúran ræður för

Ætli nýliðið tímabil sé ekki tímabilið þegar náttúran fékk að ráða frá fyrstu veiðiferð og að þeirri síðustu. Dagatalinu var einfaldlega stungið undir stól og látið reyna á gyðjur og guði þegar veðrið var annars vegar. Vorið byrjaði snemma, fyrsti fiskur á sumardaginn fyrsta og við félagarnir stimpluðum okkur inn í sumarið fyrir alvöru 2.maí í Hlíðarvatni í Selvogi. Síðasta veiðiferð sumarsins var síðan 11.september í einmuna blíðu uppi á hálendi.

Ég hafði það á orði hér á síðunni í sumar, að það væri víst ekki einleikið hve heppnir við veiðifélagarnir hefðum verið með veðrið í sumar. Ég bara man varla eftir leiðinlegu veðri, ef undan eru skildir einhverjir dagar þar sem vindur var með mesta móti, kalt og napurt og fiskurinn sökkti sér niður í bobbaát eða hrökklaðist út í vatnsbolinn, langt utan kastfærist. Þegar ég fer að hugsa málið, þá getur alveg verið að einhverjir dagar hafi ekki verið eins ákjósanlegir og minningar sumarsins gefa mér til kynna. Eða er þetta bara spurning um hugarfar?

Ef maður er staðráðinn í að að njóta útiverunnar, þá eru til margar leiðir til að gera það hvernig sem viðrar. Lopapeysan sem tengdaamma prjónaði á mig fyrir rúmlega 20 árum er þar á meðal. Það hafa alveg komið þeir dagar sem hún var tekin fram, veiðijakkanum rennt upp í háls og hettan dregin yfir veiðihúfuna. En þeir dagar voru hreint ekki margir í sumar og eftir standa minningar um augnablikin þegar vindurinn gekk niður, vatnið stilltist og lífið fór heldur betur á stjá.

Það eru líka til tvær minningar um smá rigningu. Annað skiptið fengum við svalandi úða síðasta klukkutímann af fimm tíma göngutúr hringinn í kringum eitt vatnanna. Nei, ég er ekki í afneitun, það var virkilega svalandi að fá smá rigningu í lok þeirrar veiðiferðar. Einu sinni kom það síðan fyrir að varla var þurr þráður á mannskapnum eftir þrjá tíma í veiði. Það kom heldur ekki að sök, því hitastigið var á bilinu 14 – 16°C, algjör stilla og fiskurinn tók eins og enginn væri morgundagurinn.

Þegar maður velur sér áhugamál eins og stangveiði, þá verður maður að vera tilbúinn að lúta allt öðrum lögmálum heldur en þeir sem velja sér t.d. frímerkjasöfnun. Stangveiðin er bundin því að ytri aðstæður ráða för, það er annað hvort að láta sig hafa það eða sleppa því. Þegar upp er staðið, þá eru það góðu augnablikin sem standa svo langsamlega uppúr að hin hverfa í skuggann, er feykt út í hafsauga og hverfa algjörlega sjónum manns. Sumarið sem leið, var eitt það besta sem ég hef upplifað í stangveiðinni.

Hnífar

‚Stolinn hnífur bítur best‘ segir málshátturinn, en ekki getur maður endalaust stolið sér hnífum. Ég held reyndar að ég hafi aldrei stolið hnífi, en ég hef keypt nokkra á 1 kr. af vinum og ættingjum þannig að ekki skærist á vinaböndin. Nú í lok sumars fór ég að taka eftir því að veiðihnífurinn minn var farinn að svíkja mig í aðgerð, sérstaklega ef ég var að gera að smærri fisk. Þetta lýsti sér helst þannig að ég varð að beita aðeins of miklu afli þannig að skurðurinn varð ekki hreinn og beinn, sléttur og felldur. Þegar svo roðtægjurnar voru farnar að hrannast upp við gotrauf fisksins, þá varð ekki lengur við unað.

Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu
Hnífar okkar veiðifélaganna fyrir þrif og brýnslu

Eins og sjá má, var ekki vanþörf á að þrífa hnífa og slíður eftir sumarið. Vel að merkja, upprunalega slíðrið sem fylgdi mínum hníf dugði rétt eitt sumar, þannig að ég saumaði mér nýtt úr reiðhjóladekki sem hefur dugað í nokkur ár. En aftur að hnífunum. Eftir gott sumar í veiði lætur eggin vitaskuld á sjá, verður svolítið skörðótt og ávöl þannig að það var kominn tími til að leggja þá á stein og brýna þá síðan á stáli. Þegar eggin er orðin eitthvað í líkingu við brotalínurnar á myndinni hér að neðan, þá er kominn tími til að skerpa hana á steini.

hnifar

Ég nota flatan stein með grófu og fínu yfirborði til að forma eggina í V og svo stálið eða nýju græjuna mína, Rapid Steel frá F.Dick til að skerpa hana.

Auðvitað nýtti ég tækifærið og þreif skefti og blöð með volgu vatni og sápu, renndi síðan yfir þau með fínum sandpappír og olíubar upp á nýtt. Ég hef aldrei skilið þá áráttu framleiðenda að lakka tréskefti, lakkið heldur sjaldnast lengi og olíuborinn viður er mun stamari heldur en lakkaður.

Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.
Hnífarnir eins og nýir, jafnvel betri.

Bara þurrflugur

Englendingar eru allra manna duglegastir að veiða á þurrflugu, þ.e. ef eitthvað er að marka allar frásagnir þeirra á veraldarvefnum. Það hefur vakið athygli Íslendinga hve þaulsæknir Englendingar eru við veiðar hér með þurrflugurnar einar að vopni. Ekkert veður virðist vera þurrflugum þeirra ofviða, það er næstum því sama á hverju gengur, alltaf er þurrflugan undir og þeir veiða ekkert minna en aðrir.

Sjálfur hef ég farið í veiðiferð með þurrflugur einar að vopni og þá kom berlega í ljós vanmáttur minn með þessu veiðitæki. Eins og ég hef rakið í einhverjum pistlum hér, þá hafa mér stundum verið mislagðar hendur þegar ég rýk af stað í veiði með stuttum fyrirvara. Eitt sinn hafði ég verið að fylla á púpu- og straumfluguboxin mín og hafði alveg steingleymt að setja þau aftur í veiðivestið mitt. Þegar svo dásamleg veiðigyðjan bankaði upp á næsta dag með sólskin og stillu í farteskinu greip ég veiðivestið og allan annan búnað, tróð í skottið á bílnum og brenndi í nefnt vatn í grennd við borgina. Eitthvað hafði gyðjan platað mig því þegar á bakkann var komið var heldur meiri vindur í kortunum heldur en heima hjá mér. Nú, það er ekkert mál; hugsaði ég og setti saman sjöuna og seildist eftir púpuboxinu sem var auðvitað stútfullt af glæsilegum púpum, heima. Eftir að hafa reynt að koma þurrflugu út á vatnið, sem vel að merkja enginn fiskur sýndi nokkurn áhuga á, valdi ég mér púpulegustu þurrfluguna, makaði hana í drullu og jurtaleifum til að þyngja hana og barði hana niður í vatnið. Ég held svei mér þá að þetta sé í eina skiptið á ævinni sem mér hefur tekist að halda þurrflugu upp á yfirborðinu, sama hvað ég reyndi að koma henni niður í vatnið og halda henni þar. Lærdómur (ítrekað): yfirfara veiðivestið fyrir hverja ferð.

Þurrflugur
Þurrflugur

Kláraðu skipulagið

Nú hafa flestir tryggt sér veiðileyfi fyrir sumarið og vonandi langt fram í haustið. Að vísu kemur það fyrir að menn þurfi að endurskipuleggja einhverja daga ef ekki fæst frí eða ættarmót lenda á veiðidögum. Það sem gildir í þessu er að klára endurskipulagninguna alveg, ef til hennar þarf að koma. Eitthvað hefur maður heyrt af misskilningi veiðifélaga þegar einn úr hollinu gleymdi að uppfæra dagatalið sitt og mætti í veiði á röngum degi, einn og yfirgefinn. Eins hef ég heyrt ótrúlega sögu af sjálfvirkri leiðréttingu í farsíma sem breytti SMS skilaboði um Fnjóská í Brjósk sem viðtakandinn túlkaði umsvifalaust sem Blöndu þannig að þeir félagarnir fórust á mis.

Sjálfur hef ég tekið upp á þeim óskunda að endurskipuleggja veiðivestið mitt síðla sumars án þess að klára það skipulag endanlega. Þannig var að ég ákvað með stuttum fyrirvara að skjótast í Langavatn á Mýrum, að mig minnir síðasta opna dag að hausti. Ég hafði þá verið í einhverri tiltekt í veiðivestinu mínu og gaf því ekkert endilega gaum þegar ég tók það ofan af snaga í skúrnum ásamt stöng, vöðlum og tilheyrandi. Ég man bara að þetta var yndislegur laugardagsmorgun og haustlitirnir við ofanverða Langá skörtuðu sínu fegursta og þegar ég kom upp að vatni var ekki annað hægt en bara setjast niður og njóta. Þegar ég loksins hafði mig á fætur og klæddi mig í var heldur rýrt af búnaði í vestinu. Engar klippur, engir taumar og ekkert flugubox. Það eina sem ég hafði mér til bjargar var einn sver taumur á hjóli og einhverjar afklippur í vöðluvasanum sem mér tókst að hnýta saman þannig að ég náði tæpum 9 fetum. Eins gott að ég þyrfti ekki að skipta oft um flugu því ég var aðeins með eina flugur sem ég hafði í einhverri rælni stungið í hjólatöskuna um sumarið, rauður Nobbler. Aflabrögðin urðu heldur rýr, ein bleikja sem vissi greinilega ekki hvaðan á sig stóð veðrið og lét glepjast. Lærdómur: yfirfara veiðivestið fyrir hverja ferð.

Langavatn
Langavatn

Flýttu þér hægt

Það er vissulega erfitt að hemja sig þessa dagana þegar frystu vötnin koma undan ís. Já, þú last rétt ég sagði frystu vötnin því mörg vötn hafa verið á frosti síðan fyrir áramót og víða er enn ís á vötnum þótt komið sé fram undir maí. Að þessu sinni ætla ég ekki að minnast einu orði á það að fiskurinn fer sér einstaklega hægt þegar vötnin koma undan ís og því ættu veiðimenn að gefa gaum þegar þeir velja agn og inndrátt. Nei, ég ætla að segja sögu af sjálfum mér þegar ég flýtti mér of mikið.

Það þarf oft ekki stóra glufu á milli élja í fyrstu viku veiði til að maður leggi í smá ferðalag upp í Kjós. Ég held að það hafi verið 1. apríl eitthvert árið sem ég sá slíka glufu í skýjunum yfir Esjunni og myndavélin á Bæ í Kjós gaf til kynna að fært væri í Meðalfellsvatnið. Þetta var nóg til þess að óeirðin varð óviðráðanleg og ég skaust út í bílskúr, snaraði veiðivesti, vöðlum og stöng í skottið á bílnum og brenndi upp í Kjós. Já, einmitt, það sem ég taldi upp var það sem ég tók með mér. Til allrar lukku tókst mér að troða mér og vöðlusokkunum í gönguskóna mína þannig að ég gat staulast fram á bakkann með stöngina og hitt út í vatnið þar sem það var ekki undir ís. Mig minnir að einn ágætur hafi komið á land þannig að mér var hlýtt um hjartaræturnar á leiðinni heim, en mikið rosalega var mér kalt á fótunum í rennandi blautum skónum þennan spotta úr Kjós og heim til Reykjavíkur. Lærdómur: ekki gleyma vöðluskónum.

Meðalfellsvatn í byrjun apríl
Meðalfellsvatn í byrjun apríl

Uppruni agnhalds

Að veiða og sleppa hefur færst mjög í aukana hin síðari ár. Veiðimálastofnun og fleiri mæla með agnahaldslausum önglum fyrir VogS. Eins og ég hef áður sagt hér frá er ég sjálfur ekki alveg eins sannfærður um ágæti agnahaldslausra öngla þegar kemur að VogS, en það er önnur saga sem lesa má hér.

Um daginn var ég á einhverju internetráfi og rakst þá á skondna grein úr Þjóðviljanum frá árinu 1939 sem ég leyfi mér að endurbirta hérna í tilefni þess að nú í byrjun vertíðar fær umræðan um VogS væntanlega byr undir báða vængi, enn eitt skiptið.

Sú gamansaga var sögð víða í fiskiverum í Noregi, að agnhaldið á önglinum væri uppfundið af kölska. Sagan er á þessa leið: Eitt sinn fyrr, á tímum voru mennirnir svo góðir og guðhræddir að allir fengu að enduðu Jarðlifi eilífa sáluhjálp, svo við sjálft lá að ríki kölska legðist í auðn söktun syndleysi mannanna. Sá gamli sá, að slíkt gat ekki gengið og kallaði alla púka sína á ráðstefnu um hvernig skyldi viðhalda og efla „rikið“! Eftir miklar bollaleggingar stendur einn púkinn upp og segir: Ég vil að fundið sé upp eitthvað, sem gerir fiskimönnum mikið gagn og þeir ekki geta verið án, en um leið ýfir skap þeirra og kemur þeim til að bölva og ákalla höfðingjann. Þegar kölski heyrði þessa uppástungu hló hann hátt og sagði: Verði agnhald á öngli! og svo varð. Agnhaldið heldur beitunni á önglinum, en veldur um leið miklum flækjum, sem seinka vinnu og ergja skapsmunina sem framleiða blótsyrði. Síðan hefur ekki heyrst að kölski hafi orðið hræddur um eyð- ingu ríkis síns.

fos_vintagehook

Vettlingar

Þannig að maður missi sig nú ekki alveg í óþolinmæðinni eftir næstu vertíð, má taka nokkur róleg skref í átt að henni. Mér skilst á þeim sem kunna þá list að prjóna að það sé einstaklega róandi og sefandi iðja. Og hvað er þá betra en róa óþolinmæðina eftir næstu vertíð niður með því að prjóna vettlinga fyrir sumarið?

Þar sem ég er kulsækinn í meira lagi, hef ég í gegnum tíðina þurft að vera með vettlinga bæði fyrri- og seinnipart vertíðar. Þetta getur auðvitað verið til einhverra trafala þegar maður stundar fluguveiði því það er ekki auðvelt að skipta um flugu þegar maður er dúðaður fram yfir fingurgóma. Þá getur komið sér vel að vera með ‚flapsa‘ á vettlingunum, geta lokað og opnað fyrir fingurna að vild en best hefur mér reynst að vera í grifflum, láta mig hafa það að fingurgómarnir kólni á meðan lófar og handarbök væru þokkalega heit.

Í gegnum tíðina hef ég prófað ýmsar tegundir vettlinga; flís fingravettlinga, fóðraða gúmmívettlinga, prjónaða með flísfóðringum og svo grifflur úr íslenskri ull. Gallinn við fingravettlinga úr flísefni fannst mér helst vera að þegar þeir blotnuðu gat verið fjand… erfiðara að komast úr þeim og í þá aftur auk þess að rakir veittu þeir litla einangrun. Fóðruðu gúmmívettlingarnir voru fljótir að hverfa úr veiðitöskunni, tómt vesen; óþjálir og lítil einangrun í þeim. Þeir prjónuðu með flísfóðringunni hafa fylgt mér í nokkur ár. Mínir eru með þessum flöpsum sem ég get smeygt yfir fingurna þegar mér verður mjög kalt eða rétt á meðan ég rölti á milli veiðistaða.

Veiðifélagi minn hefur óbilandi trú á íslensku ullinni en ég er svo mikil blúnda að ég veigraði mér lengi við að nota ullarvettlinga. Helsta minning mín frá vetrum barnæsku minnar er þessi óstöðvandi kláði undan ullinni og núningur við háls og úlnliði. Það var því með töluverðum semingi að ég lét mig hafa það að þiggja handprjónaðar grifflur úr íslenskri ull sem mér voru boðnar fyrir nokkru síðan. En, þessir vettlingar hafa reynst mér einna best. Eftir nokkrar veiðiferðir hafði ulli þæfst það mikið að allur kláði og núningur var horfinn og vettlingarnir voru orðnir þéttir og mjúkir. Af því að þetta er grifflur þarf ég ekki að fara úr þeim til að skipta um flugu og ég held góðu taki á línunni og hita á höndunum. Meira að segja þótt þeir blotni í gegn, þá halda þeir einangrun sinni merkilega vel.

Á snúrunni eftir góðan veiðidag
Á snúrunni eftir góðan veiðidag

Svo er einn kostur við ullarvettlingana sem ekki má gleyma; þeir eru mun fljótari að þorna á milli veiðidaga heldur en fóðraðir- eða flísvettlingar.

Rétt stefna

Ef ég spyrði nú hver rétt stefna á flugu ætti að vera, þá fengi ég líklega einhver svör á þá leið að hún ætti að vera sem næst því að vera beint af augum, í sömu átt og kastað var. Auðvitað er þetta rétt svar, spurningin var aftur á móti ekki rétt orðuð. Það sem ég hafði í huga var, í hvaða átt ætti straumflugan að synda m.v. fiskinn sem egnt er fyrir?
Tökum u.þ.b. 4 punda urriða sem dæmi. Fiskur sem liggur í mestu makindum á óðali sínu og glápir á kanntinn þar sem hann rís upp að grynningunum. Það væri í hæsta máta óeðlilegt í hans augum ef hornsíli kæmi á öðru hundraðinu niður af grynningunum og æði áfram í áttina að honum. Það hornsíli væri náttúrulega ekki fæða í hans augum og minnstar líkur á að hann réðist á það. Ef viðkomandi hornsíli kæmi aftur á móti upp að hlið hans og stefndi snaggaralega upp á grynningarnar, væri eins víst að hann yfirgæfi óðalið og elti sílið. Ég leyfi mér samt að efast um að eitthvað hornsíli væri nógu vitlaust til að synda í grennd við 4 punda urriða, líklegra þætti mér að það héldi sig innan um gróður eða steina á botninum þar til urriðinn hefði brugðið sér af bæ. Þá gæti það hugsanlega reynt að forða sér upp á grynningarnar í eins beinni stefnu og unnt væri frá urriðanum.

Fluga á réttum stað
Fluga á réttum stað

Þeir sem hafa virt hornsíli fyrir sér í vatni hafa væntanlega tekið eftir því að þau eru ekkert mikið á ferðinni frá landi og út í dýpið. Þetta hefur eitthvað með kjörsvæði hornsíla að gera sem er víst ekkert mikið meira en á þetta 20 til 40 sm. dýpi. Það væri því væntanlega líklegast að ná athygli urriðans með straumflugu í líki hornsílis ef maður næði að veiða meðfram kanntinum, láta fluguna bera við yfirborðið og skjótast inn á grynningarnar rétt í þá mund sem urriðinn nær að festa auga á henni.
Rétt stefna á flugu er þá væntanlega þverrt fyrir urriðan, helst á flótta frá honum en örugglega ekki beint upp í gapandi ginið á honum. Hversu oft ætli maður hafi látið fluguna ráðast beint að urriðanum og uppskorið tóma forundran hans; Hvað gengur eiginlega að þessu hornsíli?

Að vera í flugukasti

Síðastliðið sumar sá ég þann veiðimann sem ég tel vera þann ötulasta sem ég hef enn hitt. Hann var snaggaralegur að stöðva bílinn við vatnið, var klár með stöngina á innan við 10 sek. og eiginlega horfinn fyrir næsta nes á innan við 30 sek. Augnabliki síðar sá ég hann kominn upp undir geirvörtur úti í vatninu þar sem hann kastaði, kastaði, kastaði, kastaði, kastaði, kastaði og svo…. féll flugan loksins niður u.þ.b. 10 metra fyrir framan hann. Ég heyrði, frekar en sá hann síðan taka fluguna upp í einum rykk og endurtaka kastæfinguna af miklum móð.

Fyrst ég, í 20 – 30 metra fjarlægð heyrði til línunnar þegar hún var rifinn upp úr vatninu, þá hefur fiskurinn í vatninu væntanlega orðið örlítið var við þessar aðfarir líka og hefur forðað sér. Það kom mér því ekki á óvart að skömmu síðar var þessi ötuli veiðimaður kominn til baka, sestur upp í bíl og spólaði burt.

Ég reyndar þakkaði þessum veiðimanni kærlega fyrir í huganum, náði ekki að kasta á hann þökkum í orðum svo snöggur var hann á brott. Hvað þakkaði ég honum fyrir? Jú, fyrir að leiða mér fyrir sjónir að ég var farinn að þenja mig óþarflega mikið í köstunum og þó sér í lagi fyrir fiskana sem komu í áttina til mín frá þeim stað þar sem hann hafði vaðið út í nokkrum mínútum áður. Ég landaði þremur á stuttum tíma eftir létt og nett köst þar sem ég leyfði flugunni að vera í vatninu alveg þangað til taumurinn var kominn að topplykkju. Þegar ég síðan tyllti mér á bakkann með kaffibollann minn og kleinu og dáðist að fiskunum þremur, rifjaði ég upp nokkrar greinar sem ég hef lesið um galla þess að flýta sér of mikið í veiðinni.

Tiltölulega slakur við Elliðaárnar
Tiltölulega slakur við Elliðaárnar

Ég er að hugsa um að endursegja nokkrar þessara greina hér á næstunni, kannski þessi ötuli veiðimaður reki augun í þær og nái að róa sig aðeins niður fyrir næstu vertíð.

Morgunteygjur

Kyrrsetumenn eins og ég kannast vel við að stundum þarf að standa upp og teygja úr sér. Það er sem sagt skrifstofuvinna sem tefur mig frá veiðinni. Þegar ég teygi úr mér nota ég yfirleitt tækifærið og fer fram í mötuneyti og sæki mér kaffi eða sinni aftöppun fyrra kaffiþambs. Í það minnsta, þá stend ég upp, teygi úr fótum sem hafa mögulega bögglast einhvers staðar undir skrifborðinu og handleggjum sem hafa hangið niður á lyklaborðið í allt of langan tíma. Ef maður gerir þetta ekki reglulega, þá tapast einbeitingin, vinnan verður fálmkenndari og þreyta fer að gera vart við sig.

Flugulínan og taumurinn okkar eru ekkert ósvipuð. Þegar hvoru tveggja hefur legið óhreyft á veiðihjólinu okkar í einhvern tíma verðum við að teygja á og ganga úr skugga um að línan og taumurinn myndi nokkuð beina línu í kasti. Lykkjur og snúningar á línu og taum koma í veg fyrir það að við finnum þegar fiskurinn tekur í fluguna, þær virka eins og dempari fyrir fiskinn. Hann hefur svigrúm til að hrækja út úr sér flugunni áður en strengst hefur svo línunni á að við finnum tökuna.

Flugulínur
Flugulínur

Sama ástæða gildir fyrir því að rétta sem fyrst úr línunni eftir að flugan hefur verið lögð fram. Það er glettilega oft sem fluga vekur athygli fisks á innan við 30 sek. frá því hún leggst á vatnið. Því er um að gera að rétta sem fyrst úr línunni með því að draga hæfilega í hana, halda við og finna fyrsta áhuga fisksins á henni, þá er lag að bregða við. Þetta getum við ekki nema línan og taumurinn séu í beinni línu frá stangartoppi og strengt sé hæfilega á.

Að detta úr sambandi

Síðustu tvö sumur hef ég veitt í Veiðivötnum og notið þess ómælt, bæði hvað varðar náttúru og félagsskap annarra veiðimanna í hollinu. Í bæði þessi skipti hef ég verið svo lánsamur að veður og veiði hefur leikið við mig og trúlega mundi það engu breyta fyrir mig þótt annað er bæði brygðust.

Síðastliðinn vetur hitti ég eldri veiðimann, hokinn af reynslu sem innti mig eftir upplifun minni af Vötnunum. Umsvifalaust hóf ég hástemmda lýsingu á náttúrunni, fjölbreytileikanum, mannlífinu og …. bara öllu sem ég hafði innbirgt á staðnum. Í miðri ræðunni tók ég eftir gráma og leiða sem færðist yfir ásjónu þessa reynda veiðimanns þannig að ég gleypti mína síðustu setningu, lækkaði róminn og ég laumaði út úr mér; En hvað með þig? Svarið kom mér svolítið á óvart og ég þurfti svolítinn tíma til að melta það; Ég hef nú ekkert farið síðan gemsarnir fóru að virka þarna uppfrá.

No signal
No signal

Fyrir yngri veiðimenn sem ekki þekkja neitt annað en að GSM símar virki nánast alls staðar á landinu, þá skal það upplýst að það eru ekki svo mörg ár síðan að GSM sambandi var komið á í Veiðivötnum. Fyrir þann tíma virkuðu aðeins NMT símar á svæðinu og þar á undan bara talstöðvar.

Auðvitað er gott að geta haft samband við umheiminn þegar upp á fjöll eða hálendi er komið, þó ekki væri nema vegna öryggisins sem fylgir því að geta gólað á hjálp ef eitthvað ber útaf. Sjálfur nýt ég þess út í ystu æsar að geta dottið úr sambandi við alla tækni (segi ég með GPS tæki, digital mynda- og vídeóvélar). Mér finnst það oft beinlínis óviðeigandi þegar ég er búinn að koma mér fyrir við eitthvert fjallavatn þegar skyndilega upphefst skerandi Nokia hringing handan næsta hóls og svo; Halló …. nei, ég er í Veiðivötnum …. Hva, sástu ekki myndina af mér á Facebook í gær ….

Við erum nefnilega ennþá til sem njótum þess að komast í samband við náttúruna og til þess þarf maður stundum að geta dottið úr sambandi við nútímann, í það minnsta geta stjórnað því hvenær nútíminn hringir. Þess vegna slekk ég iðulega á símanum mínum eða skil hann eftir í veiðihúsinu eða bílnum. Það er svo margfalt skemmtilegra að njóta náttúrunnar, ótruflaður.

Bleikja er lax(fiskur)

Það er næstum ómögulegt að strippa straumfluguna á of miklum hraða fyrir urriðann. Hver þekkir ekki tökurnar þegar maður spólar síðasta kastið inn á hjólið í stað þess að beita hefðbundnum inndrætti. Auðvitað geta svona síðbúnar tökur verið rosalega svekkjandi þegar maður hefur jafnvel verið að berja vatnið svo klukkustundum skiptir án þess að verða var og svo spólar maður inn í fýlukasti og…. BANG, fiskur á.
Í sumar sem leið tók veiðifélagi minn mig á örnámskeið í strippi. Nú bið ég lesendur um að róa sig, hér var um námskeið í inndrætti að ræða, ekki fatafellingum. Hvað um það, 99% af minni reynslu í fluguveiði hefur orðið til í silungsveiði þannig að ég hef ekki samanburð á strippi fyrir lax og silung. Af því sem ég hef þó séð, þá er það hreint og beint púl að strippa fyrir lax og eins og gott að hafa hraðar hendur. Nú sel ég ekkert, ekki einu sinni þann orðróm sem ég heyrði um árið að þetta ógnar stripp fyrir laxinn sé til að æsa hann til töku frekar en auglýsa eitthvert æti. Ég get svo sem samsvarað þetta að einhverju leiti við urriða. Stundum er einfaldlega nauðsynlegt að rífa fiskinn upp úr logmollunni og draga inn eins og ands…… sé á hælum flugunnar, þá tekur hann með látum og gefur ekkert eftir.

Bleikjur
Bleikjur

En víkjum aftur að örnámskeiði í strippi. Veiðifélaga mínum er lagið að egna bleikjur til að taka litla Nobblera þegar ekkert annað virkar, helst bleika Nobblera. Ég svo sem þóttist geta þetta líka, setti nákvæmlega sömu fluguna undir og strippaði, ekkert gerðist. Ég sleppti öllum pásum á stippinu, ekkert gerðist. Ég jók hraðann á strippinu og ég fékk viðbrögð, fá veiðifélaganum; Þú verður að strippa hraðar. Hraðar? Nei, hættu nú alveg. Bleikjan hefur í mínum huga alltaf haft yfir sér stimpil rólyndis og yfirvegunar, heldur orkueyðslu í lágmarki og étur aðeins það sem er innan seilingar. Á ég nú að gera ráð fyrir því að hún noti sporðinn af einhverju offorsi og göslist á eftir flugu sem flengist í gegnum vatnið á einhverjum ógnar hraða?
Ég lét það eftir félaga mínum og jók hraðann þar til mig var farið að verkja í öxl, arma og fingur. Auðvitað fékk ég bleikju og hef orðið að kyngja því fyrir lífstíð að bleikjan, þessi yndislega rólegi fiskur er greinilega af stofni laxfiska og getur því svipað hressilega til ættingja sinna, urriða og lax, þegar kemur að fæðuöflun.

Furðufuglar

Og enn heldur maður áfram á að furða sig á dýrum merkurinnar, nú eru það apakettir. Þegar kemur að veiðinni þá apa ég oft ýmislegt eftir öðrum, stundum með árangri en oft ekki. Þannig er að þegar maður fær leiðbeiningar um góðan veiðistað, flugu eða veiðiaðferð, þá vantar oft eitthvað í jöfnuna. Góður staður með ákveðna flugu og ákveðnum inndrætti virkar mögulega mjög vel hjá einum en alls ekki hjá öðrum. Ein ástæða þessa getur einfaldlega verið að á meðan vinur minn er á staðnum og veiðir vel, þá er ég þar ekki. Til að gefa vini mínum frið, þá kem ég síðar og þá er veðrið kannski ekki það saman, tími sólarhringsins annar og þess vegna fæ ég ekki neitt með sömu flugu og inndrætti.

Um daginn fór ég í Veiðivötn, þann dásamlega stað. Í vopnabúrinu voru hægsökkvandi línur, sökktaumar og stórar þungar flugur. Leiðbeiningarnar sögðu mér að þessu ætti að koma niður, niður og helst ennþá neðar til að egna fyrir fiskinn. Apakötturinn ég fór eftir þessu en það gerist bara ekkert, eða næstum því. Ég fékk nart, og annað en svo festi ég í grjóti þannig að ég tapaði þeirri flugu. Ef einhver húkkar í gyltan Nobbler #4 í Litlasjó, þá er hann í boði mínu.

Það var ekki fyrr en ég frétti í gegnum veiðifélaga minn að menn væru að pikka upp fisk með því að nota léttar straumflugur í yfirborðinu á urrandi strippi að ég fór að taka fisk. Svona getur nú apakötturinn í manni farið illa með mann.

En ég kynntist líka öðrum apaketti í Veiðivötnum. Sá hafði komið sér fyrir með tvær kaststangir á töluverðri strandlengju, kannski þetta 250 – 300 m. langri og hljóp á milli þeirra eins og hann ætti lífið að leysa til að skipta um beitu og henda aftur út. Þegar við veiðifélagarnir höfðum græjað okkur fórum við nokkuð vel til hliðar við ytri stöngina hans og byrjuðum að veiða okkur frá þeim stað og út með ströndinni. Á einu augabragði var beitukóngurinn mættur við ytri stöngina, dró í land með miklum hraði og tók fram flugustöng og byrjaði að kasta langt og ákveðið í átt að veiðifélaga mínum. Ég staldraði við og reyndi að meta vegalengdina á milli félaga míns og mannsins og taldi hana yfirdrifna svo við værum ekki að ógna óðalinu sem hann hafði helgað sér. Samt sem áður tók hann til við að vaða ákveðið í átt að okkur og hélt áfram að kasta flugunni eins og hann ætti lífið að leysa.

Þá rann upp fyrir mér ljós, þessi ágæti veiðimaður var alveg eins mikill apaköttur og ég, nema hann hafði tekið upp siði himbrima á hreiðri, þandi út vængina og gerði sig eins breiðan og unnt var til að hræða okkur í burtu. Ég ber mikla virðingu fyrir himbrimanum þegar hann ver hreiður sitt þannig að við vikum kurteislega úr kastfæri þessa ágæta manns og skömmu síðar var hann á bak og burt með báðar kaststangirnar og fluguna. Óðalið stóð eftir, húsbónda- og væntanlega fisklaust eftir allan busluganginn. Ég vona að við höfum ekki stimplað okkur inn í Veiðivötnin sem uppáþrengjandi veiðidóna með því að koma okkur fyrir í grennd við þennan ágæta veiðimann en það er greinilega misjafnt mat manna á æskilegu bili á milli stanga. Því miður á ég ekki mynd af röð veiðimanna á Lönguströnd við Litlasjó til að birta hér, en þar var nokkuð þétt setinn bekkurinn og virtist fara vel á með mönnum þrátt fyrir nándina.

Ekta himbrimi
Ekta himbrimi