Rétt stefna

Ef ég spyrði nú hver rétt stefna á flugu ætti að vera, þá fengi ég líklega einhver svör á þá leið að hún ætti að vera sem næst því að vera beint af augum, í sömu átt og kastað var. Auðvitað er þetta rétt svar, spurningin var aftur á móti ekki rétt orðuð. Það sem ég hafði í huga var, í hvaða átt ætti straumflugan að synda m.v. fiskinn sem egnt er fyrir?
Tökum u.þ.b. 4 punda urriða sem dæmi. Fiskur sem liggur í mestu makindum á óðali sínu og glápir á kanntinn þar sem hann rís upp að grynningunum. Það væri í hæsta máta óeðlilegt í hans augum ef hornsíli kæmi á öðru hundraðinu niður af grynningunum og æði áfram í áttina að honum. Það hornsíli væri náttúrulega ekki fæða í hans augum og minnstar líkur á að hann réðist á það. Ef viðkomandi hornsíli kæmi aftur á móti upp að hlið hans og stefndi snaggaralega upp á grynningarnar, væri eins víst að hann yfirgæfi óðalið og elti sílið. Ég leyfi mér samt að efast um að eitthvað hornsíli væri nógu vitlaust til að synda í grennd við 4 punda urriða, líklegra þætti mér að það héldi sig innan um gróður eða steina á botninum þar til urriðinn hefði brugðið sér af bæ. Þá gæti það hugsanlega reynt að forða sér upp á grynningarnar í eins beinni stefnu og unnt væri frá urriðanum.

Fluga á réttum stað
Fluga á réttum stað

Þeir sem hafa virt hornsíli fyrir sér í vatni hafa væntanlega tekið eftir því að þau eru ekkert mikið á ferðinni frá landi og út í dýpið. Þetta hefur eitthvað með kjörsvæði hornsíla að gera sem er víst ekkert mikið meira en á þetta 20 til 40 sm. dýpi. Það væri því væntanlega líklegast að ná athygli urriðans með straumflugu í líki hornsílis ef maður næði að veiða meðfram kanntinum, láta fluguna bera við yfirborðið og skjótast inn á grynningarnar rétt í þá mund sem urriðinn nær að festa auga á henni.
Rétt stefna á flugu er þá væntanlega þverrt fyrir urriðan, helst á flótta frá honum en örugglega ekki beint upp í gapandi ginið á honum. Hversu oft ætli maður hafi látið fluguna ráðast beint að urriðanum og uppskorið tóma forundran hans; Hvað gengur eiginlega að þessu hornsíli?

Að vera í flugukasti

Síðastliðið sumar sá ég þann veiðimann sem ég tel vera þann ötulasta sem ég hef enn hitt. Hann var snaggaralegur að stöðva bílinn við vatnið, var klár með stöngina á innan við 10 sek. og eiginlega horfinn fyrir næsta nes á innan við 30 sek. Augnabliki síðar sá ég hann kominn upp undir geirvörtur úti í vatninu þar sem hann kastaði, kastaði, kastaði, kastaði, kastaði, kastaði og svo…. féll flugan loksins niður u.þ.b. 10 metra fyrir framan hann. Ég heyrði, frekar en sá hann síðan taka fluguna upp í einum rykk og endurtaka kastæfinguna af miklum móð.

Fyrst ég, í 20 – 30 metra fjarlægð heyrði til línunnar þegar hún var rifinn upp úr vatninu, þá hefur fiskurinn í vatninu væntanlega orðið örlítið var við þessar aðfarir líka og hefur forðað sér. Það kom mér því ekki á óvart að skömmu síðar var þessi ötuli veiðimaður kominn til baka, sestur upp í bíl og spólaði burt.

Ég reyndar þakkaði þessum veiðimanni kærlega fyrir í huganum, náði ekki að kasta á hann þökkum í orðum svo snöggur var hann á brott. Hvað þakkaði ég honum fyrir? Jú, fyrir að leiða mér fyrir sjónir að ég var farinn að þenja mig óþarflega mikið í köstunum og þó sér í lagi fyrir fiskana sem komu í áttina til mín frá þeim stað þar sem hann hafði vaðið út í nokkrum mínútum áður. Ég landaði þremur á stuttum tíma eftir létt og nett köst þar sem ég leyfði flugunni að vera í vatninu alveg þangað til taumurinn var kominn að topplykkju. Þegar ég síðan tyllti mér á bakkann með kaffibollann minn og kleinu og dáðist að fiskunum þremur, rifjaði ég upp nokkrar greinar sem ég hef lesið um galla þess að flýta sér of mikið í veiðinni.

Tiltölulega slakur við Elliðaárnar
Tiltölulega slakur við Elliðaárnar

Ég er að hugsa um að endursegja nokkrar þessara greina hér á næstunni, kannski þessi ötuli veiðimaður reki augun í þær og nái að róa sig aðeins niður fyrir næstu vertíð.

Morgunteygjur

Kyrrsetumenn eins og ég kannast vel við að stundum þarf að standa upp og teygja úr sér. Það er sem sagt skrifstofuvinna sem tefur mig frá veiðinni. Þegar ég teygi úr mér nota ég yfirleitt tækifærið og fer fram í mötuneyti og sæki mér kaffi eða sinni aftöppun fyrra kaffiþambs. Í það minnsta, þá stend ég upp, teygi úr fótum sem hafa mögulega bögglast einhvers staðar undir skrifborðinu og handleggjum sem hafa hangið niður á lyklaborðið í allt of langan tíma. Ef maður gerir þetta ekki reglulega, þá tapast einbeitingin, vinnan verður fálmkenndari og þreyta fer að gera vart við sig.

Flugulínan og taumurinn okkar eru ekkert ósvipuð. Þegar hvoru tveggja hefur legið óhreyft á veiðihjólinu okkar í einhvern tíma verðum við að teygja á og ganga úr skugga um að línan og taumurinn myndi nokkuð beina línu í kasti. Lykkjur og snúningar á línu og taum koma í veg fyrir það að við finnum þegar fiskurinn tekur í fluguna, þær virka eins og dempari fyrir fiskinn. Hann hefur svigrúm til að hrækja út úr sér flugunni áður en strengst hefur svo línunni á að við finnum tökuna.

Flugulínur
Flugulínur

Sama ástæða gildir fyrir því að rétta sem fyrst úr línunni eftir að flugan hefur verið lögð fram. Það er glettilega oft sem fluga vekur athygli fisks á innan við 30 sek. frá því hún leggst á vatnið. Því er um að gera að rétta sem fyrst úr línunni með því að draga hæfilega í hana, halda við og finna fyrsta áhuga fisksins á henni, þá er lag að bregða við. Þetta getum við ekki nema línan og taumurinn séu í beinni línu frá stangartoppi og strengt sé hæfilega á.

Að detta úr sambandi

Síðustu tvö sumur hef ég veitt í Veiðivötnum og notið þess ómælt, bæði hvað varðar náttúru og félagsskap annarra veiðimanna í hollinu. Í bæði þessi skipti hef ég verið svo lánsamur að veður og veiði hefur leikið við mig og trúlega mundi það engu breyta fyrir mig þótt annað er bæði brygðust.

Síðastliðinn vetur hitti ég eldri veiðimann, hokinn af reynslu sem innti mig eftir upplifun minni af Vötnunum. Umsvifalaust hóf ég hástemmda lýsingu á náttúrunni, fjölbreytileikanum, mannlífinu og …. bara öllu sem ég hafði innbirgt á staðnum. Í miðri ræðunni tók ég eftir gráma og leiða sem færðist yfir ásjónu þessa reynda veiðimanns þannig að ég gleypti mína síðustu setningu, lækkaði róminn og ég laumaði út úr mér; En hvað með þig? Svarið kom mér svolítið á óvart og ég þurfti svolítinn tíma til að melta það; Ég hef nú ekkert farið síðan gemsarnir fóru að virka þarna uppfrá.

No signal
No signal

Fyrir yngri veiðimenn sem ekki þekkja neitt annað en að GSM símar virki nánast alls staðar á landinu, þá skal það upplýst að það eru ekki svo mörg ár síðan að GSM sambandi var komið á í Veiðivötnum. Fyrir þann tíma virkuðu aðeins NMT símar á svæðinu og þar á undan bara talstöðvar.

Auðvitað er gott að geta haft samband við umheiminn þegar upp á fjöll eða hálendi er komið, þó ekki væri nema vegna öryggisins sem fylgir því að geta gólað á hjálp ef eitthvað ber útaf. Sjálfur nýt ég þess út í ystu æsar að geta dottið úr sambandi við alla tækni (segi ég með GPS tæki, digital mynda- og vídeóvélar). Mér finnst það oft beinlínis óviðeigandi þegar ég er búinn að koma mér fyrir við eitthvert fjallavatn þegar skyndilega upphefst skerandi Nokia hringing handan næsta hóls og svo; Halló …. nei, ég er í Veiðivötnum …. Hva, sástu ekki myndina af mér á Facebook í gær ….

Við erum nefnilega ennþá til sem njótum þess að komast í samband við náttúruna og til þess þarf maður stundum að geta dottið úr sambandi við nútímann, í það minnsta geta stjórnað því hvenær nútíminn hringir. Þess vegna slekk ég iðulega á símanum mínum eða skil hann eftir í veiðihúsinu eða bílnum. Það er svo margfalt skemmtilegra að njóta náttúrunnar, ótruflaður.

Bleikja er lax(fiskur)

Það er næstum ómögulegt að strippa straumfluguna á of miklum hraða fyrir urriðann. Hver þekkir ekki tökurnar þegar maður spólar síðasta kastið inn á hjólið í stað þess að beita hefðbundnum inndrætti. Auðvitað geta svona síðbúnar tökur verið rosalega svekkjandi þegar maður hefur jafnvel verið að berja vatnið svo klukkustundum skiptir án þess að verða var og svo spólar maður inn í fýlukasti og…. BANG, fiskur á.
Í sumar sem leið tók veiðifélagi minn mig á örnámskeið í strippi. Nú bið ég lesendur um að róa sig, hér var um námskeið í inndrætti að ræða, ekki fatafellingum. Hvað um það, 99% af minni reynslu í fluguveiði hefur orðið til í silungsveiði þannig að ég hef ekki samanburð á strippi fyrir lax og silung. Af því sem ég hef þó séð, þá er það hreint og beint púl að strippa fyrir lax og eins og gott að hafa hraðar hendur. Nú sel ég ekkert, ekki einu sinni þann orðróm sem ég heyrði um árið að þetta ógnar stripp fyrir laxinn sé til að æsa hann til töku frekar en auglýsa eitthvert æti. Ég get svo sem samsvarað þetta að einhverju leiti við urriða. Stundum er einfaldlega nauðsynlegt að rífa fiskinn upp úr logmollunni og draga inn eins og ands…… sé á hælum flugunnar, þá tekur hann með látum og gefur ekkert eftir.

Bleikjur
Bleikjur

En víkjum aftur að örnámskeiði í strippi. Veiðifélaga mínum er lagið að egna bleikjur til að taka litla Nobblera þegar ekkert annað virkar, helst bleika Nobblera. Ég svo sem þóttist geta þetta líka, setti nákvæmlega sömu fluguna undir og strippaði, ekkert gerðist. Ég sleppti öllum pásum á stippinu, ekkert gerðist. Ég jók hraðann á strippinu og ég fékk viðbrögð, fá veiðifélaganum; Þú verður að strippa hraðar. Hraðar? Nei, hættu nú alveg. Bleikjan hefur í mínum huga alltaf haft yfir sér stimpil rólyndis og yfirvegunar, heldur orkueyðslu í lágmarki og étur aðeins það sem er innan seilingar. Á ég nú að gera ráð fyrir því að hún noti sporðinn af einhverju offorsi og göslist á eftir flugu sem flengist í gegnum vatnið á einhverjum ógnar hraða?
Ég lét það eftir félaga mínum og jók hraðann þar til mig var farið að verkja í öxl, arma og fingur. Auðvitað fékk ég bleikju og hef orðið að kyngja því fyrir lífstíð að bleikjan, þessi yndislega rólegi fiskur er greinilega af stofni laxfiska og getur því svipað hressilega til ættingja sinna, urriða og lax, þegar kemur að fæðuöflun.

Furðufuglar

Og enn heldur maður áfram á að furða sig á dýrum merkurinnar, nú eru það apakettir. Þegar kemur að veiðinni þá apa ég oft ýmislegt eftir öðrum, stundum með árangri en oft ekki. Þannig er að þegar maður fær leiðbeiningar um góðan veiðistað, flugu eða veiðiaðferð, þá vantar oft eitthvað í jöfnuna. Góður staður með ákveðna flugu og ákveðnum inndrætti virkar mögulega mjög vel hjá einum en alls ekki hjá öðrum. Ein ástæða þessa getur einfaldlega verið að á meðan vinur minn er á staðnum og veiðir vel, þá er ég þar ekki. Til að gefa vini mínum frið, þá kem ég síðar og þá er veðrið kannski ekki það saman, tími sólarhringsins annar og þess vegna fæ ég ekki neitt með sömu flugu og inndrætti.

Um daginn fór ég í Veiðivötn, þann dásamlega stað. Í vopnabúrinu voru hægsökkvandi línur, sökktaumar og stórar þungar flugur. Leiðbeiningarnar sögðu mér að þessu ætti að koma niður, niður og helst ennþá neðar til að egna fyrir fiskinn. Apakötturinn ég fór eftir þessu en það gerist bara ekkert, eða næstum því. Ég fékk nart, og annað en svo festi ég í grjóti þannig að ég tapaði þeirri flugu. Ef einhver húkkar í gyltan Nobbler #4 í Litlasjó, þá er hann í boði mínu.

Það var ekki fyrr en ég frétti í gegnum veiðifélaga minn að menn væru að pikka upp fisk með því að nota léttar straumflugur í yfirborðinu á urrandi strippi að ég fór að taka fisk. Svona getur nú apakötturinn í manni farið illa með mann.

En ég kynntist líka öðrum apaketti í Veiðivötnum. Sá hafði komið sér fyrir með tvær kaststangir á töluverðri strandlengju, kannski þetta 250 – 300 m. langri og hljóp á milli þeirra eins og hann ætti lífið að leysa til að skipta um beitu og henda aftur út. Þegar við veiðifélagarnir höfðum græjað okkur fórum við nokkuð vel til hliðar við ytri stöngina hans og byrjuðum að veiða okkur frá þeim stað og út með ströndinni. Á einu augabragði var beitukóngurinn mættur við ytri stöngina, dró í land með miklum hraði og tók fram flugustöng og byrjaði að kasta langt og ákveðið í átt að veiðifélaga mínum. Ég staldraði við og reyndi að meta vegalengdina á milli félaga míns og mannsins og taldi hana yfirdrifna svo við værum ekki að ógna óðalinu sem hann hafði helgað sér. Samt sem áður tók hann til við að vaða ákveðið í átt að okkur og hélt áfram að kasta flugunni eins og hann ætti lífið að leysa.

Þá rann upp fyrir mér ljós, þessi ágæti veiðimaður var alveg eins mikill apaköttur og ég, nema hann hafði tekið upp siði himbrima á hreiðri, þandi út vængina og gerði sig eins breiðan og unnt var til að hræða okkur í burtu. Ég ber mikla virðingu fyrir himbrimanum þegar hann ver hreiður sitt þannig að við vikum kurteislega úr kastfæri þessa ágæta manns og skömmu síðar var hann á bak og burt með báðar kaststangirnar og fluguna. Óðalið stóð eftir, húsbónda- og væntanlega fisklaust eftir allan busluganginn. Ég vona að við höfum ekki stimplað okkur inn í Veiðivötnin sem uppáþrengjandi veiðidóna með því að koma okkur fyrir í grennd við þennan ágæta veiðimann en það er greinilega misjafnt mat manna á æskilegu bili á milli stanga. Því miður á ég ekki mynd af röð veiðimanna á Lönguströnd við Litlasjó til að birta hér, en þar var nokkuð þétt setinn bekkurinn og virtist fara vel á með mönnum þrátt fyrir nándina.

Ekta himbrimi
Ekta himbrimi

Ályktun eða athugun

Þær eru misjafnar aðferðirnar sem menn nota við að velja sér flugu. Sumir beita athyglinni fram í fingurgóma, meta vatnið og lífríkið með augunum og fara jafnvel höndum um það sem skolað hefur upp að bakkanum. Aðrir álykta sem svo að viðkomandi vatn hafi alltaf gefið fisk séu ákveðnar flugur notaðar og velja þannig eftir sögusögn eða eigin reynslu. Svo eru þeir sem vita þetta bara, þurfa ekkert að spá í hlutina, taka réttu fluguna upp úr boxinu, hnýta hana á rétta tauminn og leggja hana síðan fram á rétta staðinn og veiða hana með rétta inndrættinum. Ég mun seint tilheyra þessum hópi veiðimanna. Ef ég ætla í fullri alvöru að næla mér í fisk, verð ég í flestum tilfellum að beita athyglisgáfunni með hæfilegri blöndu af sögusögnum til að velja flugu. En ég verð líka að vera heiðarlegur og viðurkenna að oft mæti ég bara á staðinn, nýt þess að vera og set einhverja þekkilega flugu undir sem gæti alveg eins virkað.

Auðvitað er gott að kunna skila á því hvernig hægt eða tengja flugnaval við það sem er efst á baugi í fæðu silungsins hverju sinni og ég væri að segja ósatt ef ég játaði ekki að það kitlar egóið þegar fyrsta val í flugu passar við matseðil silungsins, fyrsta kastið lendir á réttum stað, á réttum tíma og fiskur tekur fluguna umsvifalaust. En þeim skiptum fer fjölgandi að maður er bara full sáttur að vera og njóta. Allt annað er bara bónusvinningur Lottó veiðimannsins sem velur sér flugur eftir því hver þeirra hefur gefið honum flesta fiska.

Nokkur eyru
Nokkur eyru

Varasalvi og PAM

Það er ekki margt sem bendir til þess þessa dagana að vorið sér á næsta leiti. Þegar þetta er ritað er töluvert frost í kortunum, að vísu þokkalega stillt veður og bjart yfir en eins gott að vera vel klæddur úti við.

Veðrið í dag
Veðrið í dag

fos_varasalviÞað hvarflaði að mér þar sem ég sat við fluguhnýtingar í morgun að það væri kannski eins gott að ég væri ekki á leið í veiði, eins kuldalegt og veðrið er. Og eitt leiddi af öðru og ég fór að rifja upp nokkur atriði gegn ísingu í stangarlykkjum. Eitt af því sem ég heyrði af var að rjóða varasalva í lykkjurnar, ekkert of miklu en nóg til þess að vatnið af línunni nái ekki að festa sig í lykkjunni og frjósa.

Ég geri mér í hugarlund að best sé að nota lyktar- og bragðlausan varasalva þannig að fiskurinn hrökkvi ekki undan einhverju mjög ókunnugu sem smellt er út í vatnið. Gloss með jarðaberjabragði gerir örugglega ekki sama gagn, bara þannig að það sé á hreinu.

fos_pamAnnað sem ég heyrði af var að úða bökunarúða á lykkjurnar áður en farið er til veiða. Væntanlega er alveg eins gott að bóna vel í lykkjurnar, en það fyrsta sem mér varð hugsað til er að fyrst maður getur nánast étið hvoru tveggja, varasalvann og bökunarúðann, þá hlýtur þetta að vera þokkalega öruggt gagnvart flugulínunni og fiskinum.

Það er kannski vert að prófa þetta í fyrstu veiðiferðum ársins, mögulega í birtinginn í fyrstu viku apríl ef þannig ber undir og ekki tekið að hlýna verulega.

Kælibox

Undantekningarlítið tek ég gamla góða kæliboxið með mér í veiðina, þetta einfalda fyrir kælikubbana. Það kemur sér ágætlega að geta sett vöðluskóna í boxið þegar lagt er af stað í stað þess að hafa þá lausa í skottinu. Það virðist vera alveg sama hvað maður lemur úr filtsólanum, það er alltaf einhver sandur eftir sem virðist sækja í teppið í skottinu. Þegar svo útivistinni er lokið ræðst það af efnum og aðstæðum hvað fer í boxið fyrir heimferðina. Ef lukkan er með í för fer fiskurinn í boxið, annars fara blautu vöðluskórnir einir og sér í boxið, þá losna ég við bleytuna í teppið því sjaldnast gefst tími til að þurrka skóna áður en haldið er heim á leið. Blönduð leið er auðvitað líka til í dæminu; skórnir og kannski nokkrir silunga, vafðir þétt í plastpoka eftir að gert hefur verið að þeim. Ekki er verra að vera með nokkra vel frosna gamaldags kælikubba með í för til að halda mögulegum afla í svala á leiðinni heim.

Gamla, góða kæliboxið
Gamla, góða kæliboxið

Á bóla kafi

Ég ætlaði svo sem að vera búinn að hnykkja á þessari grein í nokkurn tíma, en gleymdi því bara. Þannig var að veiðifélagi minn braut í sumar blað í sögu sinni sem veiðimanns. Hún setti sig all hressilega í spor silungsins og setti þurrflugu á bóla kaf í höndina á sjálfri sér. Agnhald og alles bara hvarf ofan í höndina.

Fluguna úr
Fluguna úr

Það getur verið erfitt að tryggja hnútinn á örlítilli þurrflugu án þess grípa þannig um hana að broddurinn standi ekki einhvers staðar að skinni og því fór sem fór og flugan stóð föst. Ekki var um það að ræða að stinga flugunni hringinn, þ.e. láta hana halda áfram og út með agnhaldið og klippa það af, þannig að taumaendi var klipptur til, þræddur í bugin á flugunni, fingri stutt á haus og kippt í; vola. Nei, konan fór ekki að vola, flugan small út og frúin gat haldið áfram að rífa upp bleikjur á þurrflugu eins og ekkert væri. Upprunulegu færslunar má finna hér ásamt ágætu myndbandi.

Ummæli

18.12.2014 – Þórunn Björk: Það var miklu verra að vera með fluguna í sér heldur en að kippa henni úr….. þarf að finna einhverja betri lausn á að herða hnútinn á pínulitlu þurrflugunni.

Vaninn

Hér á síðunni má eflaust finna einhverjar glaðbeittar yfirlýsingar um það að láta ekki vanan festa sig í sömu sporunum. Sumt af því getur eflaust flokkast sem réttlæting á eigin æðibunugangi eða óþolinmæði, en það má heldur ekki gleyma því að reynslan er formóðir vanans. Þegar maður er að koma í annað eða þriðja skiptið í ákveðið vatn, þá leitar maður ósjálfrátt í reynslu fyrri ferða(r) og gerir eitthvað svipað, þ.e. ef vel gekk í það skiptið.

Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir á ferð uppi á heiðum í nánast sama veðri og á sama árstíma og fyrir tveimur árum síðan. Aðstæður voru sem sagt mjög sambærilegar, utan þess að við komum í þetta skiptið að vatninu þegar mikið klak var í gangi og töluverður hamagangur í bleikjunni á yfirborðinu þannig að þurrflugurnar fengu að njóta sín í þetta skiptið. En, þegar þurrflugan hafði sannað sig, héldum við á ‚staðinn okkar‘ við vatnið og svipuðumst eftir fiski. Jú, hann var þarna á sínum stað og alveg jafn djöfullegt að fá hann til töku. Kom þá að reynslunni; Watson‘s Fancy púpa með silfruðum kúluhaus. Þetta var flugan sem ég prófaði síðast og fékk fiskinn á botninum til að taka. Líf- og umhverfisleg áhrif höfðu ekkert að segja um þetta flugnaval, ég var á sínum tíma bara búinn að prófa flest allt úr boxinu án árangurs þegar kom að henni. Því var það að fyrsta fluga sem ég prófaði þarna í sumar var Watson‘s Fancy og ‚auðvitað‘ var tekið í fyrsta kasti og ekkert lát á tökum næstu tvo tímanna. Það var ekki fyrr en rót komst á fiskinn að við skiptum um flugur og náðum nokkrum til viðbótar á glannalega Nobblera.

Síðar um sumarið komum við aftur að þessu vatni og staðfestum enn eitt skiptið að reynslan af Watson‘s Fancy var ekkert eins- eða tvídæmi. Svona getur nú reynslan orðið að vana.

Sólsetur á heiðum
Sólsetur á heiðum

Orðspor

Eflaust hef ég ýjað að þessu atriði áður, en þetta er þá bara ein af þessum vísum sem má kveða oftar en einu sinni. Við veiðifélagarnir vorum að velta því fyrir okkur í sumar, hve orðspor vatna eða veiðistaða hefur mikið að segja þegar við veljum okkur stað. Hversu oft hefur maður, vegna neikvæðra frétta, látið undir höfuð leggjast að reyna staði?

Þannig var að á samfélagsmiðli nokkrum birtist falleg mynd af ákveðnum veiðistað og mönnum bent á að nú væri aðkoma að þessum stað fær öllum sem vildu. Áður hafði verið þar lélegur slóði sem við hjónin höfðum fikrað okkur á 4×4 bíl nokkrum sinnum og þótt í lagi, en ekki mikið meira en það. Þessar fréttir og fagrar lýsingar urðu til þess að við lögðum leið okkar á staðinn næstu helgi. Fallegur staður og nokkrir mjög veiðilegir staðir þar við en hingað til höfum við alltaf farið fisklaus heim af þessum slóðum.

Þegar við vorum að renna í hlað, mættum við nokkrum veiðimönnum sem voru nýbúnir að taka sig saman og aðspurðir fengum við þá kveðju að þarna væri enginn fiskur og ekkert hefði veiðst. Svo mörg voru þau orð, en áfram héldum við og væntanlega reyndum við fyrir okkur á sömu stöðum og þeir höfðu reynt og með sama árangri. Við vorum svo sem ekki með háar væntingar til þessa staðar, þá helst af eigin reynslu, en vitaskuld hafði kveðja forvera okkar einhver áhrif á mann. Eftir stendur að þessi veiðistaður er mikið stundaður, hann ber þess merki og mér þykir enn ólíklegt að veiðimenn fari ítrekað á sömu slóðir ef aldrei neitt fiskast. Ég ætla í það minnsta að leggja leið mína á þennan stað aftur á komandi sumri, sama hvað hver segir.

Svona til að hnýta endahnútinn á þessa grein, þá mættum við tveimur veiðimönnum rétt í þann mund að við vorum að taka okkur saman þennan dag. Vinsamlegri fyrirspurn um afla svöruðum við eins jákvætt og okkur var unnt og sögðumst ekki hafa orðið vör, en það væri örugglega fiskur þarna, rétt eins og í vatninu öllu að meira eða minna leiti. Vonandi hafa þessir veiðimenn verið heldur heppnari en við en eitt er víst, næst prófa ég síðar dags og þá mögulega á miðju sumri, það eru tímasetningarnar sem ég hef ekki enn reynt á þessum slóðum.

Löðmundarvatn
Löðmundarvatn

Óþefur

Yfirleitt er ég ekki mikið fyrir að mæla með notkun á plasti umfram það sem bráðnauðsynlegt er. Að halda bílnum þokkalega þrifalegum eftir veiðitúrinn er aftur á móti að mínu mati bráðnauðsynlegt. Það er fátt leiðinlegra heldur en staðin fiskilykt, sérstaklega þegar hún læðist aftan að manni úr skottinu.
Það er aðallega þrennt sem getur tekið upp á því að anga nokkuð hressilega í bílnum á heimleiðinni; háfurinn, vettlingarnir og fiskipokinn. Auðvitað reynir maður að skola þokkalega úr háfnum áður en honum er stungið í skottið á bílnum, sömu sögu er að segja um fiskinetið, en það er eiginlega alveg sama hvað maður skolar vel, lyktin fer oftast ekki við fyrsta skol. Svipaða sögu er hægt að segja um vettlingana, ef eitthvað drekkur í sig fiskilyktina þá eru það þeir.
Þá getur komið sér vel að vera með góðan plastpoka í bílnum, stinga öllu í hann áður en lagt er af stað heim og tryggja sæmilega lokun. Bara alls ekki gleyma að tæma pokann og skola innihaldið þegar heim er komið. Slím og roðleifar af fiski eru fljót að gerjast og ekki þarf að líða langur tími þar til allt er ónýtt. Ég hef haft þá reglu að nota sem minnst af kemískum efnum við þrif á veiðarfærum, heitt vatn í vaski og svo út á snúru til þurrks (það rignir jú aldrei á Íslandi) og þá er maður í góðum málum þegar næst er haldið til veiða.

Veiðiháfar
Veiðiháfar

Brjálæði

Nú þegar veturinn er genginn í garð, þá horfir maður með söknuði til sumarsins sem leið. Einhverra hluta vegna er sumarið ein samfella blíðviðris í mínum huga og sjaldan jafn margir fiskar komið á land í eins góðu veðri. Nei, ég er ekki búsettur á norð-austurlandi og raunar fór ég ekkert norður yfir heiðar vegna annríkis hér fyrir sunnan og ekki austar en Klaustur.

En þar með er ekki sagt að allt sem ég upplifði s.l. sumar hafi verið mér byr í seglin. Nei, hreint ekki. Ég átti mínar fiskilausu stundir á meðan veiðifélagi minn setti í hvern fiskinn á fætur öðrum rétt við hlið mér. Ein slík stund kemur upp í huga mér; Langavatn í Veiðivötnum. Þarna stóðum við hjónin hlið við hlið í Langavatnskrika, bæði með stuttan bleikan nobble undir, hún með sægsökkvandi línu, ég með heldur hraðari. Ég tók svo sem fisk, en ég þurfti yfirleitt fimm köst áður en ég varð var, hún setti í fisk í hverju kasti. Þegar svo botninn datt endanlega úr veiðinni hjá mér, bauð frúin mér að reyna sína stöng og sinn stað. Þó það væru aðeins 4-5 metrar á milli okkar, lét ég til leiðast og setti mig bókstaflega í spor frúarinnar. Og viti menn, ekkert gerðist.

Í huga mér tók vísindaleg úttekt á aðstæðum og aðferðum við. Köstin okkar voru svipuð að lengd, stefnan sú sama, stóðum í sömu sporum og köstuðum til sömu áttar. Um mismun á búnaði var ekki að ræða þar sem ég var jú með hennar stöng, línu, taum og flugu. Hvað er þá eftir? Jú, inndrátturinn. Ég dró inn með mínum venjulega hætti sem hefur alveg dugað mér hingað til; miðlungs lengd með miðlungs hraða. Hún aftur á móti dró stutt, ótt og títt. Raunar má segja að á minn mælikvarða hafi hún verið að draga alveg brjálæðislega hratt.

Það er svo sem ekki hægt að segja að ég hafi misst svefn yfir þessari niðurstöðu minni, en mér var nokkuð oft hugsað til þessa þegar ég var á bleikjuslóð með bleikan nobbler undir það sem eftir lifði sumars. Svo kom aftur að því að ég fékk ekki fisk á meðan hún mokaði. Ég snéri mér örlítið undan og tók til við að herða töluvert á inndrættinum. Þegar ég var alveg við það að ná eigin þolmörkum var tekið með látum. Humm, jú kannski ég hafi alltaf dregið aðeins of hægt þegar bleikur er undir. Kannski má maður bara alls ekki gefa bleikjunni tíma til að virða þennan óskapnað fyrir sér sem bleikur nobbler er.

Inndráttur
Inndráttur

Ummæli

18.11.2014 – Þórarinn (silungsveidi.is)Já, maður hefur nú verið þarna. Veiddi með mági mínum í Þingvallavatni úti í eyju í Vatnskotinu, á meðan ég fékk 4-5 fiska fékk hann 20 kíló! Hann er jú reyndar veiðikló en við vorum sem sagt hlið við hlið, með flotlínur, langan taum og svartar litlar flugur.
Hef hugsað mikið um þetta og held að það hljóti í þessu tilfelli að vera mismunandi næmni og kannski sjötta skilningarvitið sem menn fá þegar þeir hafa veitt mikið. Hann hefur fundið tökurnar betur og fundið á sér hvenær hann ætti að reisa stöngina. Við höfum hugsanlega fengið jafn margar tökur en hann bara kippt í á réttum tíma.

Svar: Kannski er þetta einmitt það sem gerir stangveiðina svona skemmtilega og ekki hve síst að vera á tánum og fylgjst með öðrum, hvernig þeir bera sig að og hvað þeir gera.

Í upphafi

Það er mismunandi á hverju menn byrja þegar þeir koma að nýju vatni eða vel þekktu. Þær eru ekki ófáar sögurnar sem maður hefur heyrt og lesið af mönnum sem setja stangirnar saman á bílastæðinu, velja strax taum og flugu, smella sér síðan í vöðlurnar og arka eins og dýpið leyfir út í vatnið. Þessir veiðimenn skemmta sér eflaust alveg ágætlega og það er fyrir mestu. Þeir bögga mig ekki neitt, svo lengi sem þeir vaða ekki fyrir framan mig og böðla köstunum einmitt á staðinn sem ég er að reyna við.

Svo eru þeir til sem nálgast vatnið tiltölulega spakir og afslappaðir, alveg þangað til þeir sjá að á planinu er einn eða fleiri veiðimaður að gera sig kláran. Mér hefur stundum dottið í hvort eitthvað sé að nýrnahettunum í þessum aðilum (adrenalín er framleitt í nýrnahettunum) vegna þess að þeir virðast umturnast á einu augabragði þegar hætt er við að þeir verði ekki fyrsti að vatninu. Einkennilegasta dæmið um þetta var maðurinn sem ég sá rjúka út úr bílnum sínum með veiðitöskuna og stangarhólkinn undir hendinni, storma á sandölunum út á vatnsbakkann og stilla þar græjunum upp á veiðilegum tanga. Rólegri heldur en pakksaddur urriði snéri hann síðan til baka og fór að klæða sig í mestu makindum á stæðinu. Ég satt best að segja man ekki hvað ég gerði, annað en brosa út í annað og bjóða kurteislega góðan daginn.

Sjálfur er ég alltaf að hamast við að taka lífinu með ró þegar ég kem að vatni, hvort sem ég þekki til eða ekki. Skordýrin ættu auðvitað að gefa mér vísbendingu um hvaða flugu ég set fyrst undir, en auðvitað hafa sögusagnir áhrif á það sem verður fyrir valinu. Hafi maður heyrt af einhverri flugu sem gefið hefur á ákveðnum stað, er ansi hætt við að augljósar vísbendingar um að nota allt aðra flugu víki.

Auðvitað hefur reynsla manns af ákveðnu vatni líka alltaf töluvert að segja. Hafi maður alltaf náð fiski á ákveðna flugu á ákveðnum stað, þá eru yfirgnæfandi líkur á að sú fluga fari fyrst undir, eðlilega. En hafi maður ekki á neinu að byggja, þá fer þessi persónulega leitarfluga sem flestir veiðimenn eiga sér undir. Að vísu eru alls ekki allir veiðimenn sem gera sér grein fyrir því að þeir eiga sér uppáhalds fyrstu-flugu, en hjá flestum er það nú samt svo. Hjá mér er þessi fluga stuttur Nobbler í þremur litum; orange ef ég á von á urriða, bleikur ef ef bleikjan er á stjái og rauður ef ég er ekki viss. Sé farið að rökkva verður reyndar svartur Nobbler oftar en ekki fyrir valinu og ef sól skín í heiði þá er hann stundum gulur eða gyltur. Í gróskumiklu vatni eða úfnu verður sá olívu græni reyndar oftast fyrir valinu og svo hef ég líka fengið ágæt viðbrögð við blending, þessum gula/hvíta/svara eins og Black Ghost. Allt í lagi, ég veit hvað þú ert að hugsa. Uppáhalds leitarflugan mín er sem sagt Nobbler, allir litir.

En það er alls ekki þar með sagt að maður fái fisk á svona leitarflugu. Smá nart eða bylta á yfirborðinu er oft nóg til að segja manni hvort fiskur er til staðar og þá hvar. Þá getur maður farið að þrengja flugnavalið og bjóða flugur í takt við náttúruna.

Nobbler
Nobbler

Athugasemdir

13.11.2014 – Snævarr Örn (Urriði): Ég hnýti mína nobblera eins og þennan nema með rauðu vöfina fyrir aftan augun. Hnýti flestar straumflugurnar mínar þannig til að líkja eftir tálknum á litlum fiskum. Svo vil ég líka hafa „árásarblettinn“ framarlega á flugunni, þoli ekki þegar fiskarnir bara rétt grípa í skottið á nobblernum en festast ekki. Hef samt ekkert til að bakka það upp að þetta sé e-ð betra, bara sérviska í mér 🙂

Flotefni

Ég var svolítinn tíma að sætta mig við það að fæstar þurrflugurnar mínar flutu einar og óstuddar. Til að byrja með voru þær flestar ekkert nema hástæðar votflugur sem ég gat í skásta falli veitt fjögur til fimm köst áður en þær beinlínis sóttu á botninn. Með tíð og tíma náði ég að fækka vöfunum með hnýtingarþráðinn og skerða efniviðinn eins og kostur var og þannig urðu þær léttari. Eftir sat að það var hreint ekki víst að þær flytu á vatnsfilmunni þegar til átti að taka.

Hughreystandi félagar á netinu stöppuðu í mig stálinu og bentu á ýmsar gerðir flotefna sem fengust í veiðivöruverslunum og gerðu næstum hverja klessu að þurrflugu. Efnin eru ýmiskonar og ansi mörg og auðvitað þótti hverjum sinn fugl fagur. Veiðifélagi minn lumaði t.d. á lítilli dollu af óræðu en rándýru kremi sem ég held að hafi samanstaðið að mestu úr vel hreinsuðu vaseline sem smurt var á fluguna og látið þorna í smá tíma.

Ray Bergman gaf lesendum bókar sinnar; Trout aftur á móti upp formúlu að flotefni á bls.168 sem hann notaði. Þar sem hann blandaði parafínolíu og bensíni saman í hlutföllunum 1:8 og notaði sem flotefni. Verð reyndar að játa að mér finnst ekki aðlaðandi að nýta bensín, toluene eða xylene (þynningarefni fyrir hnýtingarlakk) til þessara nota þar sem allt þetta er lyktarsterkt og hreint ekki umhverfisvænt í vatni, en kannski er það allt í lagi í litlu magni þegar mest af því gufað upp í fyrstu falsköstunum áður en flugan er lögð fram. Annars er aðferðin við að útbúa þetta flotefni frekar einföld; skafðu bara æskilegt magn utan af kertisstubb í krús og helltu þynningarefninu saman við í smáum skömmtum. Um leið og vaxið hefur leysts upp ert þú komin með flotefnið sem þú getur sett á lítinn brúsa. Gættu þess bara að nota ílát með góðu loki og umfram allt nógu víðum stút þannig að þú getir dýft flugunni í.

Forsíða Trout eftir Ray Bergman
Forsíða Trout eftir Ray Bergman

Ef þú hefur áhuga á samanburðartilraun Grant Holzworth á nokkrum flotefnum og lausn Ray Bergman,  þá getur þú lesið allt um hana hér.

Næstum því þurr fluga

Þurrfluguveiði hefur ekki alltaf verið að gera sig hjá mér, þar er veiðifélagi minn mér miklu fremri. Þetta ástand hefur varað í nokkur ár og ég get engum um kennt nema sjálfum mér. Þegar kemur að þurrfluguveiðinni þá er ég svolítið eins og unglingurinn sem svarar ‚Já‘ þegar hann er spurður hvort hann sé búinn að taka til í herberginu. ‚Já‘ er ekki beint ósatt en segir heldur ekki alla söguna. Að fara með tvær tómar gosdósir í endurvinnsludallinn er ekki það saman og að hafa tekið til í herberginu. hef ég prófað þurrfluguveiði? ‚Já‘, en eflaust hefði ég mátt gefa henni betri tíma og ….. ekki vanda mig svona mikið.

Fyrir einhverju síðan hnýtti ég nokkrar þurrflugur út frá eigin sýn á flugurnar sem ég hafði séð hingað og þangað á vötnunum okkar. Ég notaði það hráefni sem hendi var næst, fikraði mig áfram með ýmsar útfærslur, fínpússaði notkun á þráð og öðru efni þangað til ég var sáttur. Veiðifélagi minn hélt aftur á móti áfram að kaupa sínar þurrflugur, hefur greinilega ekkert litist á mínar.

Þurrflugufæri
Þurrflugufæri

Í sumar sem leið upplifði ég síðan þær aðstæður að ekki var um neitt annað að ræða heldur en setja þurrfluguna undir og halda sig við hana. Mér hefur lærst það með aldrinum að geta staldrað örlítið við og ráða ráðum mínum áður en ég veð af stað í verkefnið. Í þetta skiptið notaði ég smá tíma til að virða fyrir mér aðferðir frúarinnar. Jú, þetta leit nú ekkert svo flókið út hjá henni. Tvö til þrjú falsköst og svo lagðist þessi pínu litla þurrfluga snyrtilega út á vatnið og lá þar í mestu makindum þangað til einhver gráðug bleikjan saup hana ofur nett niður í gegnum filmuna á vatninu. Ég var nú ekkert svo viss um að mér tækist að leggja mína svona snyrtilega út, hvað þá að láta hana bara liggja þarna, fullkomlega aðgerðarlausa.

Ég lét slag standa og reyndi af fremsta megni að hemja mig í köstunum og leggja fluguna smekklega út á vatnið. O, jæja. Sum köstin heppnuðust betur en önnur, á meðan nokkur báru þess óræk merki að veiðimaðurinn væri vanari að leggja fram þyngdar púpur heldur en þyngdarlausar þurrflugur. Þær sem tókst að leggja snyrtilega út var svo sem ekkert erfitt að koma auga á, þær bara lágu þarna og geispuðu í blíðunni. Það var miklu erfiðara að láta þær bara vera þarna. En, þær sem fengu frið fyrir mér voru greinilega girnilega því tökurnar voru óstöðvandi.

Þá var bara komið að því að ná tökunni. Eftir nokkrar allt of seinar tilraunir gerðist ég djarfur og reiknaði einfaldlega með því að hve einasta gára í grennd við fluguna væri fiskur og ég reisti stöngina. Og viti menn, bleikjurnar fóru að tínast inn, ein og ein, eða öllu heldur tugur og tugur því þegar upp var staðið voru þetta einhverjar 20 sem ég náði á þurrflugu þennan morgun. Meira að segja náði ég nokkrum eftir að við höfðum fært okkur þangað sem klakið og uppitökurnar var alls ekki eins áberandi. Þá leyfði ég mér að hreyfa fluguna, meira að segja þannig að hún færi undir yfirborðið, trúlega þetta eina til tvær tommur. Þar sveimaði bleikjan og hámaði í sig púpur og uppgefnar flugur sem ekki höfðu náð upp á yfirborðið.

Þarna sannaðist það fyrir mér að það er hægt að veiða næstum því þurra flugu líka.

Altari urriðans

Hann er oft vandrataður vegur hófsemdarinnar og það á við um ýmislegt veiðitengt þessa dagana. Það hefur tíðkast löngu fyrir tíð Jesús Kr. Jósepssonar að fórnað sé saklausum lömbum um páskana og væntanlega hafa þau ekki öll verið sátt við það sbr. þessa frétt á Vísi. Húsfreyjur ríkisjarða ausa úr viskubrunni sínum um urriðasleppingar í Þingvallavatni og krydda lýsingar sínar á veiðimönnum með nokkuð hressilegum athugasemdum og gífuryrðum, örfáar alhæfingar hér á ferð. Veiðimenn og náttúruunnendur svara síðan fullum hálsi og láta vanþóknun sína í ljós á samfélagsmiðlum, sumir hressilegar en aðrir. Svo eru þeir sem hafa til þess burði að víkja tilfinningum til hliðar og nálgast málið út frá rannsóknum og eigin reynslu eins og Jóhannes Sturlaugsson í grein sinni á Laxfiskar.is

Því er nú sjaldnast þannig farið að allir hafi 100% rétt fyrir sér og finna má sannleikskorn í öllu, sama hversu ótrúlegt sumt virðist vera. Sjálfur hef ég ekki trú á að margir, ef þá nokkrir 35 punda urriðar liggir dauðir á botni Þingvallavatns, nema þá þeir sem hafa til þess aldur og hafa drepist í hárri elli. Eins finnst mér ólíklegt að margir liggir þeir dauðir með svöðusár eftir fluguveiði frístundaveiðimanna. En hitt er svo annað mál að sumir geta drepist eftir sleppingar sé óvarlega á þeim tekið við VMS (veiða – mynda – sleppa) og sjálfsagt mál að menn athugi hvernig þeir taka á fiskinum og hve lengi. Það eru til margar, ágætar og vel studdar rökum, greinarnar á netinu um meðhöndlun fisks, þar á meðal þessi frá Bish & Fish sem vert er að lesa.

Tökum okkur tak, en höfum það laust, og leyfum urriðanum á Þingvöllum að njóta vafans í öllu vatninu eins og Halldór Gunnarsson gerir á þessari mynd í frétt á vef Veiðikortsins, fagmennska hér á ferðinni.

Af vef Veiðikortsins
Af vef Veiðikortsins

Ummæli

05.05.2014 – Halldór GunnarssonFlott grein og takk fyrir fögur orð um kallinn 🙂

Svar: Takk fyrir og sömuleiðis Halldór. Þeir eiga hrós skilið sem veiða eins og menn og bera virðingu fyrir fiskinum. Ég hvet alla til að fylgjast með bloggi Halldórs, http://veidiflugan.wordpress.com/ þar sem kennir ýmissa grasa og skemmtilegra frásagna.

Ofmetið úthald

Svo virðist vera sem ég hafi teflt á tæpasta vaðið í síðustu greinum mínum þar sem ég hef sagt frá minni sýn á ‘veiða og sleppa’. Enn og aftur, þetta er mín sýn og ég nýt þess að geta tjáð skoðun mína hér án þess að eiga yfir höfði mér dónalegar tjásur (nýyrði yfir komment). Til að allri sanngirni sé nú gætt, þá hafa mér ekki borist neinar dónalegar athugasemdir við skrifum mínum í gegnum tíðina. Kannski finnst mönnum þau ekki svara verð, en vissulega eru ekki allir sammála mér og það er hið besta mál.

Og enn bæti ég um betur og tefli því fram að meira úthald er ekkert endilega betra. Á öðrum vetvangi er eindregið mælt með meira úthaldi í gælum og knúsi svona eftir erfiðið, en það á bara alls ekki við um VMS (veiða – mynda – sleppa). Ef veiðimaður vill endilega fá mynd af sér með aflanum, þá er eins gott að vera snöggur að því og helst ekki vera að grautast með bæði fisk og myndavél í einu. Fiski skal aldrei lyft upp úr vatni með annarri hendinni. Fáðu þér þrífót undir myndavélina eða góðan veiðifélaga til að taka myndina.

Það er svolítið misjafnt hvað líffræðingar telja hámark þess tíma sem fiskur þolir að vera lyft upp úr vatni. Sumir segja 5 sek. á meðan aðrir tala um 15. Fiskur er ekki með lungu (svona fyrir þá sem ekki vissu það fyrir) og hann hættir að anda um leið og hann er tekinn upp úr vatninu. Að vera lyft upp úr vatninu er því fyrir honum eins og ef okkur væri dýft niður í ískalt vatn í 15 sek. strax eftir að við höfum lokið 100 metra hlaupi á fullu gasi.

Nokkrar myndir sem mér þykja góðar að öllu leiti. Til að skoða þær í fullri upplausn og í samhengi við texta, smellið á þær.

cr_galatinriverguides cr_steve_piat cr_tom_chandler_1 Larry Javorsky

Þar sem rennur

Vor?
Vor?

Öll vötn renna til sjávar, segir máltækið. Það gerist jú á endanum, en fyrst þarf nú eitthvað vatn að safnast saman og á vorin er einmitt fyrsti tími söfnunar. Vorleysingar og bráð safnast saman í vötnunum okkar, misjafnlega mikið og misjafnlega hratt. Fyrsta bráð vorsins í ám og lækjum ber oft með sér óttalega drullu. Vötnin verða grá- brúnleit langt út frá árósa og ekkert sérstaklega árennileg að sjá. En þarna leynist oft ágætt tækifæri til veiði. Hver, hér í grennd við Reykjavík, hefur ekki séð vaðfuglana í Elliðavatni á vorin sem spóka sig lengst úti á Engjum eða meðfram strönd vatnsins frá ós Bugðu í átt að stíflunni? Sumir fylgja gamla farvegi árinnar meðfram bakkanum en það er ekki endilega áin sjálf sem er áhugaverð, heldur staðirnir þar sem hún er alveg við það að blandast vatninu, skilin. Svo má ekki gleyma því að rennandi vatn, jafnvel þótt skítugt sé, ber með sér súrefni sem fiskurinn sækir í.

En það þarf ekki heila á til að fríska aðeins upp á vötnin. Í þennan árstíma verða oft til smá sprænur og gamlir lækir ganga í endurnýjun lífdaga þegar leysingavatn leitar í vötnin okkar. Meira að segja smávægilegt dripp, dropp fram af kletti eða vatnsbakka laðar að sér fisk. Það þarf því ekki alltaf að leita langt yfir skammt að fiski sem sækir í nýtt vatn og súrefni.