Sumir veiðimenn eru ofurmenni, það er ekki nokkur spurning. Eitt einkenna ofurmenna er að þeir öðlast ofurkrafta og það þarf ákveðið margar mínútur í hverri bíómynd áður en þeir læra að beita þessum ofurkröftum sínum á skynsamlegan hátt. Það eru nefnilega bara vondu karlarnir sem hamast endalaust við að brjóta allt og bramla með ofurkröftunum sínum í heilar 90 mínútur og öll vitum við hvernig fer fyrir vonda karlinum í lok myndarinnar.
Þegar fiskur hefur tekið og viðureignin stendur sem hæst þá getur hann tekið upp á því að velta sér og þá er nú eins gott að ofurmennið á bakkanum hafi lært að hemja kraftana sína. Ég veit ekki til þess að þetta háttarlag eigi sér ákveðið heiti á íslensku, en enskumælandi hafa nefnt þetta Deathrole sem RÚV mundi væntanlega þýða sem Dauðarullan eða eitthvað ennþá verra ef um væri að ræða ofurhetjumynd, bara svo við höldum okkur við myndlíkinguna.

Þegar fiskurinn tekur upp á þessum skolla, þá er eins gott að vera ekkert að taka of mikið á honum, gefðu honum frekar lausan tauminn heldur en hitt. Segjum sem svo að þú hefur tryggt fluguna í munnviki fiskins, heldur nokkur þétt við og þreytir hann og allt lítur ljómandi vel út, en þá … tekur hann upp á því að velta sér og í miðri veltunni (þegar hann snýr í raun á hvolf) er átakið allt í einu þannig að þú ert í raun að draga fluguna úr út munnvikinu á honum.
Þegar þannig ber undir þarf ofurmennið á bakkanum að geta gefið eftir, leyft fiskinum að klára veltuna og taka þá á móti, ekki fyrr. Oftar en ekki hættir fiskurinn þá við að velta sér aftur og veiðimaðurinn getur haldið áfram að þreyta hann að landi.
Senda ábendingu