Niðurlútur fiskur

Fiskur í hendi
Fiskur í hendi

Í fyrra smellti ég hér inn greinum um það hvernig væri best að bregðast við Eftir töku og hvað ef fiskurinn reyndist Stökkvari. Þessar pælingar mínar voru aðeins að blunda aftan til í hausnum á mér s.l. sumar og ég prófaði aðeins breytilegar aðferðir þegar ég hafði sett í fisk. Kannski missti ég nokkra í þessum tilraunum mínum en ég svo sem lifi það alveg af. Pælingar mínar í sumar snérust svolítið að því að reyna að lesa í hegðun fisksins eftir því hvernig ég héldi í við hann. Eitt af því sem ég þóttist komast að var að niðurlútur fiskur er hreint ekki svo niðurlútur. Héldi ég laust við án þess þó að gefa honum lausan tauminn voru miklu meiri líkur á að hann tæki rokur út og suður og viðureignin tæki, í það minnsta eins og mér fannst, lengri tíma. Tækist mér að halda svo stíft við að ég næði að halda haus fisksins einhverjum gráðum upp á við, þá tók viðureignin miklu skemmri tíma en ella. Með þetta í farteskinu fór ég á veraldarvefinn og leitaði að samsvörun og fann. Flott lesning fyrir þá sem vilja kynna sér málið er bókin A Fly Fisher‘s Reflection eftir John Goddard.

Ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á að blanda mér í umræður um veiða/sleppa, nóg er komið og margt misjafnt hafa menn látið hafa eftir sér þar um. En vilji menn sleppa, þá er hin síðari aðferð hér að ofan væntanlega vænlegri, upp með hausinn og ljúka viðureigninni sem fyrst.

Högl

Högl
Högl

Hér áður fyrr beittu menn höglum á tauma til að sökkva flugum niður á æskilegt dýpi en þessi aðferð hefur vikið fyrir misþyngdum flugum í boxum veiðimanna hin síðari ár. Ég hef reyndar aldrei orðið þeirrar upplifunar aðnjótandi að sjá veiðimann beita höglum ‚live‘ en lesið því meira um þetta síðustu vikur og mánuði.

Það er með þetta eins og flest annað að skoðanir manna eru töluvert skipta á ágæti og aðferðum við að veiða með höglum á taumi. Veikir tauminn, segja sumir og hnýta þá flugulausan afleggjara (droppper) á tauminn þar sem þeir raða höglum á eftir því sem þeir vilja sökkva betur. Þá rísa aðrir upp og segja að það henti illa því kastið verður þá að vera svo ávalt að nákvæmnin sé fyrir bí. Nei, nei segja enn aðrir og benda á að veltikastið sé tilvalið fyrir haglaköst á afleggjara, þá sé minni hætta á flækjum.

Enn aðrir láta sig hafa það að nota sverari taum og smella höglunum beint á hann en gæta þess þá bara enn betur að hann særi ekki tauminn og þvertaka alveg fyrir að nota högl með rifflaðri rifu. Já, einmitt. Högl og högl eru ekki það sama. Sum eru með beinni skoru, önnur eru með rifflaðri og svo er það þetta með þyngdina. Fleiri og léttari eða færri og þyngri? Ég hef svo sem ekki hugmynd um hvað sé best en einhvern veginn segir fyrri reynsla mér að fjöldi hagla skiptir ekki svo rosalega miklu máli.

Ég á svona skammtara með nokkrum þyngdum í, arfur frá því ég veiddi á flot og maðk, og mér sýnist í fljótu bragði að minnstu höglin hafi orðið svolítið afgangs eftir maðkaveiðina. Kannski maður prófi þetta næsta sumar með flugu, en hvar þá helst? Andstreymis, eins vel og mér hefur nú gengið þannig? Eða einfaldlega í vatnaveiðinni þar sem maður stillir fluguna af miðað við fæðudýpið? Ef maður kemst á annað borð upp á lagið með þetta, þá skilst mér að þetta virki alls staðar.

Af hverju ekki fleyta henni?

Einn helsti kostur meðstreymisveiði er að það fyrsta sem silungurinn sér er flugan þín, hvorki taumurinn, línan né skuggi hennar. Annar kostur meðstreymis er að þú hefur miklu meira vald á hraða flugunnar heldur en andstreymis.

Ókostir? Já, margir og þar á meðal að til þess að forðast að fiskurinn sjái þig verður þú að standa töluvert langt ofan hans og því ert þú með nokkuð langa línu á milli þín og fisksins. Ef hann skildi nú glepjast af flugunni og þú þarft að bregðast við, geta viðbrögðin orðið heldur silalegri því straumurinn tekur nokkuð vel í línuna og hægir á öllum viðbrögðum þínum.

Svo er nú ekki auðvelt að stjórna því hvert flugan/línan fer þegar straumurinn hefur náð taki á henni, en þar kemur á móti að straumurinn ber nú yfirleitt eitthvað annað með sér heldur en flugulínu, nefnilega ætið sem fiskurinn er á eftir. Og til þess að flugan þín skeri sig eitthvað úr öllu öðru sem flýtur niður ánna getur verið gott að eiga nokkur trikk uppi í erminni. T.d. að hreyfa stangarendann til sitt hvorrar hliðar við strauminn. Vitandi það að fluga fylgir hreyfingum stangarinnar, ekki bara í lofti, þá færir flugan sig til sömu áttar og þú færir stangarendann og þannig fer flugan þín að skera sig aðeins úr öllu öðru sem flýtur þarna niður. Að vísu á þetta mest við um straum- og þurrflugur, síður um púpur og þyngdar flugur þar sem straumurinn hefur mikil áhrif á tauminn.

Ef þú ert síðan komin með fluguna vel niður eftir strauminum, e.t.v. alveg niður í lygnu eða á breiðu þá getur verið ráð að draga aðeins inn, færa stöngina til gagnstæðrar áttar og gefa aftur laust. Flugan færir sig þannig á aðeins til á breiðunni. Umfram allt, leyfðu flugunni að fara lygnuna alveg á enda, fiskurinn leynist oft þar sem hún endar undan straumi, hann hefur þá allan þann tíma í heiminum sem þarf til að koma auga á ætið áður en hann lætur til skarar skríða. Svo má ekki gleyma því að urriðinn heldur sig oft í grennd við stóra steina á botninum og við gætum þurft að leggja fluguna beggja vegna við hann áður en fiskurinn tekur.

Lækur hjalar....
Lækur hjalar….

Róa sig

Ég ætla rétt að vona að menn hafi upplifað það, annað hvort í stöðuvatni eða straum að sjá fiskinn á fullu í æti rétt innan seilingar. Uppitökur eða rót í æti á botninum, jafnvel í ölduróti þegar stendur upp á bakkann. Ég hef alltaf átt mjög erfitt með að standast freistinguna að láta vaða á vöðuna, jafnvel bara með fluguna sem er á án þess að gefa því minnsta gaum hverju fiskurinn er í hverju sinni. Það er bara eins og tækifærið gæti gufað upp áður en minnst varir og allur fiskur verði á bak og burt ef ég hinkra aðeins við. Ef þið hafið ekki lent í þessu, þá getið þið auðvitað hætt að lesa hérna og megið stimpla þessa grein sem enn eina játningu mína á eigin mistökum. Fyrir hina held ég áfram….

Því er nú þannig farið að það eru minnstar líkur á að sjónarspilinu ljúki 1,2 & 3 þótt maður róar sig aðeins niður og skoðar aðstæður aðeins betur áður en maður lætur vaða. Annars vil ég helst ekki nota orðasambandið ‚láta vaða‘, það felur svolítið í sér æsing af óyfirlögðu ráði. Þegar ég læt nefnilega vaða, þá er það oftast beint á fiskinn eða vöðuna sem er væntanlega öruggasta leiðin til að sjónarspilinu ljúki einmitt 1,2 & 3. Í straumvatni segja spekingarnir manni að slaka á, koma sér niður fyrir sjónarspilið og kasta andstreymis, rétt til hliðar við fiskinn. Það er svo sem ekkert ósvipað sem maður gerir í vatnaveiðinni. Ekki kasta beint á fiskinn, veldu þér punkt nokkrum fetum til hliðar og reyndu að koma flugunni í fullri rósemd í sjónsvið fisksins. Og svo ein góð vísa í lokinn; byrjaðu að leggja fluguna á milli þín og fisksins, þá eru minni líkur á að hann styggist af línuskugga, hvað þá línuskelli ef æsingurinn er ekki alveg horfinn úr kasthendinni.

Það er nú ekki hægt að æsa sig undir þessum kringumstæðum
Það er nú ekki hægt að æsa sig undir þessum kringumstæðum

Útsýnið af botni lækjarins

Er eitthvað annað útsýni af botni lækjar heldur en vatns? Nei, eiginlega ekki. Þetta snýst alltaf um það saman. Ef fiskurinn sér þig, þá líkar honum ekki útsýnið. Því miður eru miklu meiri líkur á því að fiskurinn sjái þig í grunnu vatni heldur en djúpu. Eitt vinnur þó alltaf með okkur og það er gáran á vatninu. Hvort sem gáran er vegna rigningar eða vinds er hún vinur okkar. Hún brýtur sjónsvið silungsins, truflar útsýnið og við getum falist ofan hennar.

Svo er það þetta með líkamsbeitinguna hjá okkur. Í sumra augum er fátt tignarlegra heldur en fluguveiðimaður standandi úti í miðri á (læk), örlítið bogin hné, sixpensara, sveiflandi stönginni með þessum takföstu hreyfingum með snöggum stoppum í fram- og afturkastinu. Í augum hinna sömu er fátt aulalegra en fullorðinn maður á fjórum fótum, skríðandi næstum á maganum eins og ánamaðkur fram á bakka árinnar, potandi prikinu varfærnislega fram á við án þess að það minnsta skugga beri á vatnið. Meira að segja ég hef séð spaugilegu myndina af þessu í huganum en verð eftir sem áður að viðurkenna að ánamaðkurinn á meiri séns á fiski heldur en tindátinn.

Ánamaðkar?
Ánamaðkar?

Annars er það ekki endilega skugginn sjálfur sem fiskurinn hræðist. Honum stendur meiri ógn af hreyfingu þess sem varpar skugga. Það er stundum talað um að skjóta rótum, eða ekki. En, það hefur komið fyrir að mér hefur tekist að skjóta svo rótum í vatni að fiskurinn er löngu hættur að forðast mig og syndir beinlínis á milli fóta mér. Ef maður aftur á móti hreyfir sig þá er spilið búið, oftast. Af þessu hef ég ráðið að takist manni ekki að leika Pétur Pan (vera án skugga) þá er næst best að leika skjaldbökuna og hreyfa sig hægt og rólega frekar en hérinn sem skýst áfram. Fyrst maður á sér skugga er eins gott að hann hreyfist hægt og rólega.

Andstreymisveiði, í besta falli

Fyrirsögn þessarar greinar gefur ykkur e.t.v. vísbendingu um hvernig mér hefur gengið að veiða í straumi og þá sér í lagi andstreymis. Þetta hefur nú oft ekki orðið neitt annað heldur en andstreymi, lítið um veiði.

Mér skilst að ég sé einn fjölmargra sem er með allt of langan taum andstreymis. Oftast er taumurinn minn rúmlega stangarlengd, jafnvel tæpar tvær þegar þannig liggur á mér. Þeir sem best þekkja til straumvatns hafa verið að benda á að taumurinn má ekki vera lengri en sem nemur dýpt vatnsins sem veitt er í.

Og svo þetta með tökuvarana. Ekki límmiða, bara kítti á samsetningu línu og taums, eða ekki. Maður á aldrei að segja aldrei og væntanlega á maður heldur aldrei að segja ‚ég get ekki‘ svo ég segi bara; ég og tökuvarar eigum ekki samelið.

Sú sögn hefur orðið ótrúlega almenn að andstreymisveiði sé útbreiddasta veiðiaðferðin í silungsveiði í straumvatni fyrr og síðar. Það er nú aðeins orðum aukið, því það er alls ekki eins lagt síðan og flestir halda að andstreymisveiði var kynnt til sögunnar hér á landi, svona í sögulegu tilliti. Þar sem silungurinn snýr lagsamlega oftast snjáldrinu upp í strauminn er ekki svo galið að laumast aftan að honum, þ.e. fyrir neðan hann í straumi einmitt í dauða punktinum og kasta upp fyrir hann og leyfa agninu að fljóta að honum. Að vísu erum við þá alltaf að smella línu fyrir sól og myndum þannig skugga í vatninu sem fiskurinn getur auðveldlega séð. Einfalt ráð gegn þessu, svona á pappírnum í það minnsta, er að koma línunni upp og á ská fyrir fiskinn, ekki beint yfir hann. Með þessu móti forðum við skugganum frá fiskinum ásamt taumi og mögulega línunni sjálfri því oft hefur góður fiskur tapast við það eitt að hann rekur snjáldrið í tauminn, styggist eða færir þannig fluguna úr færi áður en hann kemur auga á hana. Annað gott ráð í andstreymisveiði er að halda falsköstum í lágmarki eða í það minnsta frá fiskinum þar til æskilegri línulengd er náð.

Kraðak í andstreymi
Kraðak í andstreymi

Taumstyggð

Taumur
Taumur

Þær eru margar sögurnar sem sagðar eru af ‚sérstaklega taumstyggum‘ fiski í þessu eða hinu vatninu. Sumt af þessu á fyllilega rétt á sér, annað er beinlínis í ætt við þjóðsögur. Mér finnst stundum eins og brugðið hefur verið út af einu versi og það orðið að heilli predikun. Mín reynsla er einfaldlega sú að það er tærleiki vatnsins sem segir meira til um taumstyggð heldur en fiskurinn sjálfur. Það er í raun ekkert svo mikill munur á bleikju sem þrífst í Elliðavatni eða Vífilsstaðavatni. Samt er aldrei talað um taumstygga bleikju undir Vífilsstaðahlíðinni. Ætli skýringanna sé ekki frekar að leita í tærleika vatnsins heldur en bleikjunni sjálfri. Enn hef ég ekki brotið þann múr sem bleikja í Elliðavatni hefur reist á milli okkar. Sem sagt, ég hef aðeins náð urriða í vatninu, aldrei bleikju, þannig að ég ætla að styðjast við annað dæmi; Úlfljótsvatn inn af Steingrímsstöð. Þar hef ég tekið töluvert af bleikju á s.k. Veiðitanga í gegnum tíðina. Þegar ég nefndi þennan veiðistað hváði einn veiðimaður við og spurði hvernig í andsk…. mér hefði tekist það. Hann hefði alltaf talið að bleikjan í Úlfljótsvatni væri svo rosalega taumstygg á þessum slóðum. Ég varð nú að játa að ég hafði bara aldrei heyrt þetta og sagði þessum ágæta manni að ég notaði yfirleitt nokkuð langan taum, frammjókkandi niður í c.a. 3X á þessum slóðum þegar bjart væri yfir. Ég leyfði mér að bæta við að ég kastaði frekar knappt til að byrja með út frá tanganum, lengdi síðan smátt og smátt í köstunum þar til ég næði fram af kantinum til austurs eða norðurs. Ef vindátt stæði aftur á móti upp á tangann væri ég með þyngri flugu sem kallaði á aðeins sverari taum, kannski svona 1X eða 2X og svolítið styttri. Ég fengi alveg eins fisk undir þeim kringumstæðum eins og á björtum degi með grennri taum.

Hversu oft ætli þjóðsögurnar verði til þess að við festumst í einhverri aðferð sem á e.t.v. ekkert alltaf við?

Sást‘ann?

Nei, ég sá bara ekki nokkurn skapaðan hlut svaraði ég þegar konan mín hrópaði á mig. Hún er reyndar með miklu flottari veiðigleraugu heldur en ég, svona græju með skiptanlegum linsum fyrir mismunandi birtuskilyrði og alles. Ég aftur á móti er bara með Poloroid clips á venjulegu gleraugun mín af því ég sé hvorki vel frá mér né nálægt mér, aldurinn sko.

Annars hefði það nú væntanlega ekki skipt neitt rosalega miklu máli hefði ég verið með röntgen sjón eins og Superman. Við sjáum nefnilega sjaldnast fiskinn sjálfan þegar við skimum eftir honum í vatninu. Skuggarnir, flökt í vatni eða breytinga á straumkasti segir okkur miklu meira um það hvort fiskur sé á ferð heldur en að maður sjái hann sjálfan. Ég stend sjálfan mig að því að skima eftir fiski allt of ofarlega í vatnsbolnum. Það er oft sagt að maður eigi að líta sér nær, en í þessu tilfelli er vænlegra að líta sér fjær. Leyfðu augunum að sökkva til botns, þar liggja skuggar fisksins sem þú ert að leita að og þú átt miklu meiri séns að sjá skuggann heldur en fiskinn sjálfan.

fos_skuggi

Tökuvara eða ekki?

Þessi greinarstubbur hefur verið að vefjast lengi fyrir mér. Ég hef átt hann ófrágengin í töluverðan tíma, beinlínis ekki lagt í að klára hann og birta vegna þess að ég á mjög erfitt með að mynda mér ákveðna skoðun á notkun tökuvara. En núna ætla ég að láta slag standa og smella þessu inn…

Bobbingar
Bobbingar

Eftir að hafa rekist á erlenda grein sem byrjaði eitthvað á þessa leið ‚Vertu ekki aðferðaveiðimaður‘ þá fór ég að gefa tökuvörum nánari gætur. Höfundur umræddrar greinar vildi meina að þeir sem notuðu tökuvara væru í veiðinni eins og krakkinn sem hjólar um með hjálparadekkin föst á hjólinu. Tökuvari væri einstaklega vel til þess fallinn að hjálpa byrjandanum í púpuveiði að verða góður veiðimaður, svo fremi hann geti lært á tökurnar með tökuvaranum og… sleppt honum.

Sjálfur á ég tökuvara í töskunni minni, svona lím snepla á spjaldi og þar eru þeir eftir mjög skamma tilraunastarfsemi. Kannski er ég bara svona mikill ‚einhugur‘ að ég get ekki náð því að horfa og finna á sama augnabliki. Ég hef líka átt við þennan vanda að glíma með þurrfluguveiði. Jú, jú, ég get alveg haft augun á flugunni/tökuvaranum en svo fara alltaf einhver sekúndubrot í það að færa virknina frá augunum til handanna. Ég á miklu auðveldara með að leyfa augunum að hvílast, jafnvel reika út í buskann og nota bara tilfinninguna í fingrunum til að segja mér að fiskur sé að snuddast við hin enda línunnar. Í ofangreindri grein heldur höfundur hennar því fram að með því að nota tökuvara vinnur veiðimaðurinn sig inn í s.k. tunnelvision eða rörsjón og missir af öllum hinum vísbendingunum í og á vatninu sem gætu annars fært honum aðvörun um töku. Hvað sem þessu líður, þá ætla ég að hamra á sjálfum mér að nota þurrfluguna meira í sumar. Kannski ég noti bara þurrflugu sem tökuvara og slái þannig tvær flugur í einu höggi?

Pottþétt ráð

Veiðireglur
Veiðireglur

Ef ég væri með fimm þumalputta gæti ég gefið fimm þumalputtareglur fyrir frábærri silungsveiði í vötnum. Hve frábært væri það? Ég hef ekki einu sinni tölu á öllum þeim 5 – 10 pottþéttu ráðum sem maður hefur lesið í gegnum tíðina, en ef ég ætti að velja 2 – 3 þau bestu yrðu þessi væntanlega fyrir valinu:

Ekki skjóta rótum er trúlega besta ráðið sem ég hef nokkurn tíma komist yfir. Ef maður er búinn að reyna við pottþétta staðinn í 10, 20 eða 30 mín. án þess að verða var, þá er eitthvað að. Flugan getur verið röng, skiptu um flugu. Ekki skjóta rótum í fluguboxinu. Svo getur staðsetningin verið röng. Ekki skjóta rótum í sömu sporum, hreyfðu þig.

Ekki vanmeta litlar púpur því skordýralífið er yfir höfuð miklu smærra í sniðum heldur en við teljum það vera. Eins pirrandi og litlar flugur (#16 og smærri) geta verið þegar við erum að hnýta þær, þá eru þetta oft risavaxin skordýr. Taktu uppáhalds fluguna þína sem er e.t.v. í stærð #12 og hnýttu hana líka í #16 og #18. Jafnvel í #20 ef þú átt gott stækkunargler. Þegar því er lokið, notaðu þessar litlu.

Ekki trúa öllu sem þú lest því allt sem hefur verið skrifað um fluguveiði kemur frá dauðlegum mönnum og dauðlegum mönnum hættir til að skjátlast. Sjálfur á ég það til að standa eins og rótarskotinn drumbur á sama stað svo klukkutímum skiptir og er bara nokkuð sáttur við það. Svo hef ég líka skipt upp í brjálæðislega stærð á flugu eftir ítrekað ‚ekkert að gerast‘ og fengið flotta fiska. Ég held svei mér að það sé ekki til ein einasta pottþétt regla í veiðinni.

Ummæli

Gústaf – 27.06.2013Er ekki eina reglan sem maður þarf að muna að það séu engar reglur til að muna 😉

Svar: Jú, einmitt og nú man ég ekki neitt lengur.

Nálarþræðari

Nálarþræðari
Nálarþræðari

Á vafri mínu í gegnum saumaskrín konunnar rakst ég á þetta litla kvikindi í nokkrum útgáfum og datt strax í hug hvort ekki væri alveg grá upplagt að festa eitt svona við klippurnar á veiðivestinu. Því er nú einu sinni þannig farið að með aldrinum virðast augun á flugunum skreppa eitthvað saman. Hérna um árið var enginn vandi að hnýta flugu #16 á taumaenda, en eitthvað er þetta farið að vefjast fyrir manni hin síðari ár. Þetta einfalda apparat getur hjálpað verulega við verkið. Hver veit nema auka-eintak leynist í næsta saumaskríni?

Ummæli

Sigurgeir Sigurpálsson – 26.06.2013Það er einhver að selja þetta á bland.is á 1990,- kr minnir mig.

Svar: Já sæll, flest er nú til.

Afsakið hlé

Vantar stundum hlé?
Vantar stundum hlé?

Nei, hér er engin bilun í gangi, bara hugleiðingar um óðagotið sem grípur mann stundum við veiðarnar. Það getur verið ótrúlega svekkjandi þegar maður tekur eftir fiskinum, aðeins of seint. Stundum væri alveg við hæfi að staldra aðeins við, gera hlé á inndrættinum, leyfa flugunni að sökkva í upphafsstöðu og hefja leika á ný. Auðvitað er misjafnt hvernig fiskurinn les hreyfingar flugunnar, en stundum er hún einfaldlega á of mikilli ferð fyrir hans smekk. Orkureikningurinn er einfaldlega neikvæður fyrir fiskinn, honum telst til að hann eyði of mikilli orku í að eltast við fluguna okkar miðað við þá orku sem hún inniheldur. Þá getur komið sér vel að gera hlé á inndrættinum, láta fluguna leika sig örmagna og viti menn, oftar en ekki ræðst fiskurinn til atlögu.

Grunsemdir

Kyrrð
Kyrrð

Reyndu á sjá fyrir þér vatnsborðið eins kyrrt og það mögulega getur orðið. Ekki sakar að skreyta hugarsmíðina með mynd af uppáhalds fjallinu þínu eða endalausum sjóndeildarhringnum. Umfram allt, það er kyrrð yfir myndinni. Þú ert með örsmáa púpu á þokkalega löngum taumi og svo….. flugulínan fer að haga sér einkennilega. Í stað þess að vísa beint áfram, með þessari litlu bungu rétt við endann þar sem hún sker yfirborðið, er allt í einu komin lauflétt sveigja á línuna. Ef maður hefur nú ekki orðið var við neitt nart, ekki einu sinni haft grunsemdir um slíkt, þá fer maður ósjálfrátt að velta vöngum; Er einhver straumur í vatninu þarna? Þú færð aldrei svar við þessu nema þú gerir eitthvað í málinu. Minnsta afbrigðilega hegðun línunnar á að kalla á viðbragð eins og t.d. að taka ákveðið í línu og draga u.þ.b. 4“ inn eða reisa stöngina eilítið. Ef ekkert gerist, þá er málið dautt og þú getur hugsað hvað hafi verið á ferðinni. Kannski er einmitt straumur í vatninu þarna og þá má nýta sér hann, kasta yfir hann og leyfa honum að bera fluguna þína sömu leið og hann ber annað æti. Nú, ef þú færð aftur á móti einhver viðbrögð þá er náttúrulega einhver á ferðinni þarna úti sem er ekki alveg áhugalaus um agnið þitt og þú þarft að hugsa næsta leik. Á ég að láta liggja eða á ég að draga meira inn. Umfram allt, merktu þér staðinn, taktu mið af fjallinu þínu eða steini við gagnstæðan bakka. Ef þér tekst ekki að góma fiskin í fyrstu atrennu, þá er um að gera að vita hvar hann nartaði og geta reynt við þann stað aftur.

Hvernig veiða þeir mýfluguna?

Mýfluga -þurr
Mýfluga -þurr

Þegar ég var að fletta í gegnum nokkrar greinar þar sem menn lýstu mýfluguveiðum, þá fannst mér eitt alveg gegnum gangandi; varlega sögðu menn. En hvað er varlega? Eiga menn að skríða á maganum fram á bakkann, fela sig á bak við stein og kasta ofur-rólega með agnar smáum þurrflugum út á vatnið, helst án þess að hreyfa stöngina nokkurn skapaðan hlut? Ég þori alveg að viðurkenna að mér brá bara svolítið yfir allri þessari leynd sem átti að hvíla yfir mýfluguveiðum. Er þá ekki alveg eins gott að koma sér fyrir, móti sól, vera ekkert mikið á ferðinni og reyna að ná silunginum áður en mýflugurnar klekjast fyllilega út?

Blóðormur
Blóðormur

Á meðan mýflugan heldur sig á botninum sem blóðormur er aðferðin einföld; kasta, leyfa að sökkva og bíða bara rosalega rólegur. Blóðormar eru nánast ekkert á ferðinni þannig að þetta er aldrei spurning um hraðan eða hægan inndrátt, ef þú vilt endilega draga inn (með öðrum orðum; ef þér fer að leiðast) þá ætti langur og rólegur inndráttur að vinna með þér, jafnvel góðar pásur á milli.

Þegar svo mýflugan nær næsta þroskastigi skiptum við yfir í Toppfluguna, Mýflugu eða grannann Mobuto með hvítum kraga, bara svona sem dæmi. Aðferðin er svipuð, nema nú má alveg prófa rykkjóttan inndrátt eða langan með pásu eða stutta kippi þegar flugan er alveg alveg komin upp að yfirborðinu. Annars hef ég örugglega líka heyrt að menn dragi ekkert, láti liggja eða djöflist eins og sá í neðra sé á hælum flugunnar. Kannski hreyfir mýpúpan sig þannig líka? Nei, annars, ég held ekki.

Hvernig veiða þeir Higa‘s SOS?

Higs's SOS
Higs’s SOS

Auðvitað er það einhver gorgeir í mér en mér finnst það svolítið á mína ábyrgð að fylgja Higa‘s SOS úr hlaði á Íslensku fyrst ég kom henni fyrst á prent/framfæri hérna heima. Þessi fluga reyndist mér alveg prýðilega í fyrrasumar, braut nokkra múra fyrir mig og hjálpaði mér mikið á dauðum augnablikum. Þessi tegund flugna hefur verið þekkt lengi og yfirleitt kölluð ‚attractor‘ upp á erlenda tungu. Bein þýðing segir svo til allt um eiginleika þessara flugna, þ.e. þær eiga að draga fiskinn að sér. Einkenni þeirra er að eitthvað glitrar, oft meira en lítið og hún er ekkert endilega lík einhverju skordýri sem við þekkjum, þ.e. við fyrstu sýn. Sumur fluguhönnuðir hafa aftur á móti bent á að það sem vex okkur í augum, getur temprast 80% þegar niður í vatnið er komið, þannig að e.t.v. erum við full dómharðir á ofur-skreyttu glysflugurnar. En hvað um það. Það skiptir nokkuð í tvö horn hvernig menn vilja veiða glepjur. Sumir veiða þær sem minni flugur á dropper en aðrir veiða þær stakar, djúpt og ekkert smeykir við að halda þeim mikið á hreyfingu. Ég er ekki frá því að mér finnist síðari aðferðin skemmtilegri, jafnvel með nokkuð hröðum inndrætti, svo hröðum að dýpið minnkar vegna uppdráttar. Velti því stundum fyrir mér s.l. sumar hvort fiskurinn teldi þarna á ferðinni flugu að brjótast um við yfirborðið á leið út úr púpunni, auðveld bráð.

Ummæli

Davíð – 15.06.2013: Sæll, ég er ekki svo klár að ég kunni að hnýta mér sjálfur þessa flugu en hef mikinn áhuga á að prófa hana enda lesið mikið um hana á blogginu þínu. Ég hef verið að kíkja í helstu veiðiverslanir og hef ég ekki enn fundið neina sem hefur tekið uppá að selja hana. Ég býst við að þú sért að hnýta hana bara fyrir sjálfan þig þá eða veistu hvar væri hægt að nálgast hana?

Svar: Sæll Davíð, endilega sendu mér gilt póstfang, þá skal ekki standa á svari. Póstfangið sem þú gafst upp með kommentinu er ekki til 😦

Hvernig veiða þeir vorfluguna?

Vorfluga
Vorfluga

Ég þreytist seint á sumu, vorflugan er þar á meðal. Líkt og með næstum öll skordýr af matseðli silungsins þá getum við spreytt okkur á því að líkja eftir vorflugunni á þremur þroskastigum hennar; sem lirfu (Peacock), púpu (Héraeyra, Pheasant Tail eða Caddis pupa) og fullvaxta flugu (Elk Hair Caddis). Þeir eru ófáir veiðimennirnir og hnýtararnir sem hafa stúderað lífsferil vorflugunnar frá byrjun til enda. Án þess að kasta einhverri rýrð á einhverja þá hlýtur Gary LaFontaine að eiga vinninginn. Bók hans ‚Caddisflies‘ hefur orðið mögum manninum að trúarriti ásamt fjölda greina á netinu og í tímaritum. Eins og venjulega leggjum við Íslendingar líka nokkuð til málanna með Kolbein okkar Grímsson og son hans, Peacock fremsta í flokki.

Snemma vors og vel fram í hið íslenska sumar þurfum við að eiga ótakmarkaðar birgðir af Peacock í eins mörgum útgáfum og afbrigðum eins og okkur dettur í hug. Meðan lirfan lifir í hylkinu sínu getur útlit hennar verið eins margbreytilegt og efniviðurinn er fjölbreyttur. Það er ekki fyrr en lirfan púpar sig og yfirgefur hylkið að við verðum varir við útlitslegan mun þeirra 14 tegunda vorflugna sem lifa á Íslandi, litbrigði allt frá rjómahvítu yfir í appelsínugult eða jafnvel grænt. Trúlega er einmitt þetta þroskastig vorflugunnar, þ.e. púpan hve vanmetnust hjá okkur veiðimönnunum. Það er á þessi þroskastigi sem hún er hve lengst varnarlaus, beint fyrir framan snjáldrið á silunginum. Hægt ris hennar upp af botninum, upp að yfirborðinu þar sem hún brýst um og reynir að brjótast út úr unglingshamnum og verða fullorðinn. Þegar valið hjá silunginum stendur á milli þess að eltast við eina og eina lirfu í hylki sínu á botninum, varnarlausar púpur eða fullorðna flugu að brjótast um í vatnsborðinu, þá er valið auðvelt; púpan. Í athugunum Gary LaFontaine kom berlega í ljós að jafnvel með yfirborðið þakið af flugum var silungurinn mun grimmari í þeim púpum sem eftir voru í vatninu heldur en þeim sem brutust um á yfirborðinu þótt þær væru mun meira áberandi.

Kannski erum við svolítið á villugötum og eilítið blindaðir af Peacock þegar kemur að vorflugunni. Að vísu er það þannig að þó við sjáum flugur klekjast út á yfirborðinu og allt virðist vera komið á fullt þá eru ennþá gnægð púpa á ferli í vatninu, hvað þá lirfum á botninum. Það er langt því frá að allar vorflugur klekist út á sama tíma eða á stuttu tímabili. Við þekkjum stórkostlega sveipi mýklaksins sem stíga upp eins og rykský af íslenskum sveitavegi, en þannig hagar vorflugan sér ekki. Einhver innbyggð takmörkun verður til þess að framboð fullorðinna verður aldrei meira en svo að nánasta lífríki nái að anna því. Unglingarnir, hvað þá lirfurnar bíða bara róleg í vatninu á meðan að fullorðnu dýrin hafa náð flugi af yfirborðinu og komin vel úr færi silungsins.

Á þessum tímapunkti er dautt rek púpu málið. Ekki með Peacock heldur einhverja hinna óteljandi Caddis pupa flugum eða hinu sígilda Héraeyra. Í allan annan tíma stendur Peacock fyrir sínu.

Kanntu fisk að flaka?

Topp hráefni
Topp hráefni

Það eru alltaf einhverjir nýir að byrja í veiðinni og því ganga gamlar tuggur nokkuð reglulega í endurnýjun lífdaga. Hér er ein slík.

Ekki er allt fengið með töku, hvað þá löndun fisks. Kjósi veiðimaður að nýta aflann sér eða sínum til matar er eins gott að fara vel með hann. Best er að blóðga fiskinn strax að löndun lokinni, annað hvort með því að rífa táknin úr honum eða skera fyrir. Hvora aðferðina sem menn kjósa, er málinu ekki lokið. Mikilvægt er að leggja fiskinn með hausinn niður eða halda honum á hvolfi þar til hætt er að drjúpa úr honum, að öðrum kosti getur blóð smitast út í holdið og það orðið ólystugt. Og enn er ekki nóg að gert.

Ef menn hafa ekki tök á að gera strax að fiskinum er samt um að gera að koma honum í kælingu sem allra fyrst. Kæling í vatni er oftast einfaldasti kosturinn og sá fyrirhafnarminnsti. Notkun netpoka hefur aukist nokkuð hin síðari ár sem eru tilvalin til geymslu/kælingar afla þar til unnt er að gera að honum. Gera skal að fiskinum við fyrsta tækifæri, fjarlægja maga og önnur innyfli vandlega og skola kviðarholið vel. Að sjálfsögðu tökum við með okkur allt slóg eða urðum tryggilega til að halda því frá varginum og náttúrunni hreinni.

Innyfli silunga innihalda að öllu jöfnu fæðu og fæðuleifar ásamt töluverðu magni ensíma sem brotið geta niður meltingarveg fisksins skömmu eftir dauða hans. Komi til slíks smitast innihald magans fljótt út í kviðarholið og þaðan út í holdið með tilheyrandi skemmdum. Ekki má heldur gleyma því að kviðarholið inniheldur einnig ýmsa gerla sem skemmt geta fiskinn á skömmum tíma. Slæging, þrif og kæling eru það eina sem spornar við slíkum skemmdum. Því miður virðist það ítrekað koma veiðimönnum á óvart hve skamma stund niðurbrot meltingarfæra og skemmdir örvera tekur og afraksturinn eftir því ókræsilegur.

Kæling fiskjar gegnir líka öðru og ekki síðra hlutverki, hún hægir á dauðastirðnuninni. Of hröð stirðnun getur valdið því að holdið verður laust í sér og erfitt ef ekki ómögulegt verður að flaka svo vel sé. Og þá komum við að enn einum þættinum sem veiðimenn eru hvattir til að fara vel að; flökuninni og meðferð beinagarðs og hausa.

Það hefur færst nokkuð í aukana að veiðimenn geri að og flaki afla á veiðistað. Á þetta sérstaklega við um vötn sem eru langt utan alfaraleiðar og vilja menn væntanlega létta byrðarnar fyrir heimferðina. Gæta verður þess samt að kæling í vatni fari þannig fram að vatnið, með tilheyrandi örverum, komist ekki að flökunum. Einfaldur plastpoki dugir ágætlega til að halda streymi örvera um holdið í lágmarki. Og ef þú átt í vandræðum með hemja fiskinn við flökun þá getur þú orðið þér úti um svona græju eins og Svarti Zulu á eða bara einfaldlega notað gaffal. Umfram allt verða menn að gæta þess vera með beittan hníf og ekki of þykkan, annars endar þú með fiskfars.

Að lokum, ekki skilja við aðgerðastað eins og þú eigin von á að mamma þín komi rétt á eftir og taki til eftir þig, hirtu þitt rusl sjálf(ur).

Sóðaskapur við Ölvesvatn á Skaga
Sóðaskapur veiðimanna

Brýni

Brýni
Brýni

Ert þú skarpasti hnífurinn í bænum? En hvað með önglana þína? Vonandi þekkja veiðimenn þessar hægu tökur sem koma fyrir á vorin. Það er ekki fyrr en fiskurinn finnur að hann er fastur, ef hann þá festir sig þá á annað borð, að það færist líf í leikinn. Þegar fiskurinn fer sér hægt eins og hann gerir á vorin er um að gera að vera með eins beitta öngla í flugunni og unnt er. Beittir önglar festast fyrr og við verðum fyrr varir við fiskinn. Auðvitað á þetta ekki bara við á vorin, allt sumarið koma þeir tímar sem fiskurinn fer sér hægt og tökurnar geta orðið hægar, allt að því silalegar og þá er um að gera að vera beittur. Þumalputtaregla, beinlínis, er að tylla flugunni á nögl þumals þannig að hún standi á oddinum. Hangi flugan á nöglinni er öngullinn nægjanlega beittur en leki hún niður er eins gott að velja aðra eða taka fram brýnið.

Ummæli

12.05.2013 – UrriðiMér finnst eins og ég hafi að hluta til verið innblásturinn að þessari færslu! Mér til varnar þá var þetta aumingjalegasta taka sem að ég hef nokkurn tíman fengið og ég hélt í fúlustu alvöru að ég væri bara að draga fluguna eftir botninum! :)

Svar: Já, mér fannst þetta koma skemmtilega út, en…… þessi grein var því miður skrifuð fyrir einhverjum vikum síðan og hefur bara beðið síns tíma. Til skemmtunar má benda lesendum á að fylgjast með hvar athygli veiðimannsins er á fimmtu mínútu í þessu myndbandi þegar urriðin lekur á fluguna.

Flott myndband hjá þér Urriði en helv… hefur var hann kaldur þarna.

13.05.2013 – UrriðiTakk. Já, athyglin var ekki alveg á flugunni enda var ég nýbúinn að kvarta upphátt yfir því hvað þetta hafði verið lélegt kast. Ég klippti þá kvörtun út alveg eins og ég klippti út þegar ég var að kvarta yfir því hvað mér var skítkalt á puttunum þegar ég var að merkja fyrsta urriðann. :)

Þurrfluguveður

Þurrfluguveður?

Þurrfluguveður er ekki til. Það að veiða þurrflugu aðeins í logni og stillum er heimatilbúinn mýta veiðimanna. Þeir sem reynt hafa, geta veitt nánast í hvaða veðri sem er og oftar en ekki í sudda og dumbungi. Þær eru ótalmargar sögurnar af íslenskum veiðimönnum sem hafa ekki náð andanum af forundran yfir leikni þeirra útlendu við að koma þurrflugunni fyrir silung og lax í öllum mögulegum veðrum og undarlegum kringumstæðum.

Uppitökur eru alls ekki skilyrði þurrfluguveiða, hvorki í vatni né lygnum í ám. Hafir þú minnsta grun um fisk sem lúrir undir bakka eða í skjóli við stein þá er um að gera að leggja fyrir hann þurrflugu. Jafnvel suddinn er ekki óvinur þurrflugunnar því með hækkaðri súrefnismettun yfirborðsins klekst fluga oft út á vatninu sem fiskurinn sækir í. Allt of fáir veiðimenn reyna fyrir sér með þurrflugu undir þessum kringumstæðum, vegna þess að við sjáum ekki uppitökurnar.

Auðvitað er viðbragðið erfiðara ef gára eða dropar trufla einbeitingu veiðimannsins en með góðum gleraugum og góðu deri má greina þessa örfínu bylgjuhreyfingu sem verður á yfirborðinu rétt áður en silungurinn tekur fluguna.

Eltihrellir í vatni

Eltihrellir

Við viljum alls ekki setja nálgunarbann á þennan eltihrelli, þvert á móti. En hvað er til ráða þegar við sjáum kauða þar sem hann fylgir flugunni okkar eftir alveg þar til við tökum hana upp í næsta kast en lætur aldrei til skarar skríða? Hvernig væri að prófa að drepa fluguna? Skjóta hana beinlínis í kaf, hætta öllum inndrætti og leyfa henni einfaldlega að sökkva eins og hún væri steindauð?

Þeir sem prófað hafa segja þetta beri árangur í yfirgnæfandi tilfella, ef ekki strax þá næsta víst þegar hún nálgast botninn. En, hver hefur svo sem lýst hógværum orðum einhverju svona leynitrikki í veiðimennsku? O jæja, þetta rímar nú samt svolítið við þá reynslu manna af töku bleikjunnar í síðasta inndrætti eftir að maður hefur hinkrað örlítið við, leyft flugunni að hvílast áður en maður tekur hana upp í næsta kast. Kannski vel þess virði að prófa?