Að veiða særða flugu

Smelltu fyrir stærri mynd

Að veiða særða flugu hefur trúlega tíðkast frá upphafi fluguveiða. Fyrir tækifærissinna eins og silunginn er særð bráð, síli eða seiði mun auðveldari bráð heldur en fullfrísk og þessu höfum við mennirnir komist að og reynum að líkja eftir. Aðferðin er ekki ýkja flókinn; koma flugunni, sem oft á tíðum er straumfluga, fram fyrir silunginn og draga hana inn með hléum þannig að hún falli (sökkvi) með reglulegu millibili eins og uppgefinn eða særður fiskur. Hvort menn dragi einu sinni eða tvisvar snöggt á milli hléa er auðvitað mismunandi, hver veiðimaður hefur sitt lagið á þessu. Galdurinn er einfaldlega að fá fiskinn til að eltast við særðu fluguna í stað ætisins sem syndir af fullum krafti undan honum. Silungurinn er þekktur í vatninu sem rándýr og ætið, næstum sama hvað það er, forðar sér þegar hann nálgast. Sumir veiðimenn ganga svo langt, helst í straumvatni, að láta bráðina leika sig alveg steindauða, hreyfa hana ekki neitt heldur láta strauminn um að bera hana inn á lygnur eða í bolla í vatninu.

Að skauta

Smellið fyrir stærri mynd

Nú er allur ís loksins farinn af vötnunum og við veiðimennirnir getum farið að skauta, eða öllu heldur látið flugurnar okkar skauta á vatninu. Þessi veiðitækni með þurrflugu hefur einhverra hluta vegna verið mest orðuð við straumvatn; þ.e. láta strauminn toga léttilega í fluguna þannig að hún skilji eftir sig röst í yfirborðinu og veki þannig áhuga fisksins. En þessa aðferð má alveg eins nota á kyrru yfirborði stöðuvatnsins. Tæknin sem beitt er við þetta er að koma þurrflugunni út og enda kastið með stöngina í lægstu mögulegu stöðu; alveg við vatnsborðið. Enginn slaki má vera á línunni og flugan verður að sitja hátt. Við tryggjum línuna, þ.e við höldum við hana með stangarhendinni því við ætlum ekki að draga hana inn heldur lyfta stönginni hægt en ákveðið upp í efstu stöðu. Trikkið við þessa aðferð er að lyfta stönginni hvorki of hægt né of hratt, flugan á að skauta á yfirborðinu og skilja eftir sig áberandi röst, ekki takast á loft. Ef vel tekst til, þá eru fáir fiskar sem standast flugun sem myndar röstina.

Annar kostur

Fiskur í hendi

Ég hef stundum orðað það þannig að það sé og eigi að vera valkostur að sleppa fiski, ekki kvöð. Lífvænlegur fiskur sem við kjósum að sleppa getur kennt okkur ýmislegt í vatnaveiði. Þegar þú hefur sleppt honum, réttu þá úr þér og fylgstu með honum og ekki síst skugga hans synda burt.

Oftar en ekki er erfitt að koma auga á sjálfan fiskinn í vatninu, vísbendingarnar um hann eru oft meira áberandi og auðsærri. Notaðu hvert tækifæri sem gefst til að æfa þig í að sjá fylgifisk fisksins í vatninu, skuggann.

Laumast

Smelltu fyrir stærri mynd

Þegar við vitum af honum, þ.e. silunginum á ákveðnum stað í vatninu er um að gera að laumast að honum, aftan frá. Jafnvel þótt sjónsvið silungsins sé í raun nokkuð vítt, oft talað um einhvern 90° vinkil upp á við, þá er dauður blettur aftan við hann sem við getum nýtt okkur þegar við þurfum að fikra okkur nær. Mundu bara að því dýpra sem hann liggur, þeim mun víðar sér hann. Láttu fara eins lítið fyrir þér og unnt er og þú kemst töluvert nálægt honum.

Línulitur

Þegar kemur að því að velja flugulínu eru margir sem halda fast í litinn ‚sinn‘ og þá helst þegar um er að ræða flotlínur. Sjálfur var ég til að byrja með á því að línan ætti að vera græn eða grágræn, falla inn í litbrigði vatnsins. Með aukinni reynslu hef ég leyft mér að skipta um skoðun og vel núna lit sem ég sjálfur sé vel því fiskurinn verður alveg eins var við línu í felulit og þá sem er skærlit og áberandi. Viljandi skrifaði ég verður var við línuna því fiskurinn sér hana yfirleitt ekki heldur aðeins skugga hennar í vatninu eða á botninum. Snögg hreyfing línu á yfirborðinu hefur mun meiri áhrif til fælingar vegna skuggans heldur en gáruarnar sem hún framkallar.

Um sökklínur gilda aðeins aðrar reglur, í það minnsta hjá mér. Þar sem slíkar línur skerast niður í yfirráðasvæði fisksins vill ég að litur hennar samlagist vatninu eins vel og unnt er. Það er frekar auðvelt að fullnægja þessum dyntum þar sem framleiðendur senda sjaldnast frá sér sökklínur í öðrum litum en þeim sem felast vel í vatni.

Þurrt eða blautt

Nýlega las ég áhugaverða grein um samanburð fluguveiði með þurrflugu og púpum. Án þess endilega að taka undir það álit höfundar að púpuveiði sé langerfiðasta afbrigði fluguveiði, þá hafði hann nokkuð til síns máls þegar hann benti á þá staðreynd að veiði með þurrflugu ætti sér stað í tvívídd, þ.e. á yfirborði vatnsins í lágréttu plani á meðan púpuveiði væri í þrívídd þar sem dýpið bætist við sem þriðja víddin.

Það tók sjálfan mig nokkurn tíma að ná tökum á þriðju víddinni og ná að stilla mig, eða öllu heldur fluguna af í réttu dýpi. Þyngdar púpur, mikið þyngdar púpur og svo hægsökkvandi línur eða taumar (sem ég er enn ekki kominn upp á lagið með). Það tók mig síðan enn lengri tíma að ráða bót á enn öðru sem aðskilur þurrflugu- og púpuveiði, nefnilega blindunni. Þegar maður veiðir á yfirborðinu liggur bráðin svolítið í okkar heimi, við sjáum skordýrin á vatninu og getum valið okkur flugu eftir þeim. En þessu er ekki til að dreifa þegar kemur að púpuveiðinni. Við sjáum í fæstum tilfellum það sem fiskurinn er að éta rétt undir yfirborðinu eða á botninum. Til að ráða bót á þessu þurfum við að þekkja örlítið til aðstæðna í það og það skiptið, á hvaða stigi skordýrin eru og hvar þau leynast, í það minnsta þar til fyrsti fiskur er kominn á land og við getum skoðað magainnihald hans.

Svo er auðvitað enn eitt sem skilur þessar tvær aðferðir frá hvor annarri; fórnarkostnaðurinn. Á meðan þurrflugumaðurinn getur átt sér sína uppáhalds flugu í langan, langan, mjög langan tíma þá eiga púpurnar það til að festar í botninum og ekkert annað fyrir veiðimanninn að gera en að slíta. Það eru beinlínis margar púpur sem eiga að líkja svo eftir skordýrum á botni vatnsins að þær verður að veiða eins og botnvörpu og þá mega nú ekki margir steinar vera í veginum svo maður festi ekki stöku sinnum. Það er haft eftir reynsluboltum; Ef hún skrapar ekki botninn, þá ertu ekki að veiða nógu djúpt. Það má nú vera meiri þurrflugan sem skrapar botninn.

Stutt, langt, lengra?

Nú er það svo að ég hef ekki mikla reynslu af silungsveiði í ám eða lækjum, hef haldið mig að mestu við vötnin. En það kveikir auðvitað aðeins í manni þegar maður les um mismunandi aðferðir og nálgun veiðimanna þegar kemur að ám og lækjum.

Ég hef minnst á kosti þess að ráða við 20-30m köst með þokkalegri nákvæmi í vatnaveiði og einmitt þessi köst geta ráðið miklu um aflabrögð í ám. Það liggur í hlutarins eðli að andstreymisveiði hlýtur að stytta veiðitíma flugunnar verulega, þ.e. þann tíma sem flugan er virk í eða á vatninu. Straumurinn í ám ber fluguna aftur til okkar, oft á tíðum með meiri hraða en við högum inndrættinum í stöðuvatni, og því er það ótvíræður kostur að ráða við lengri köst og lengja þannig veiðitíma flugunnar í ánni.

Ég hef lesið þó nokkrar greinar þar sem fiskifræðingar útlista í smáatriðum hegðun silungsins gagnvart fæðunni. Það er ekki óalgengt að þessir fræðingar haldi því fram að silungurinn eigi það til að elta fæðuna töluverða vegalengd áður en hann lætur til skarar skríða. Reynsla mín úr vatnaveiði styður þetta í stórum dráttum því oftar en ekki hef ég frekar orðið var þegar ég dreg mig aðeins til baka inn á grynningar, frá dýpinu þar sem sá stóri heldur sig í öryggi þess. Þegar ég hef náð út í dýpið, dregið fluguna upp úr því og töluvert langt inn á grynningarnar, þá tekur fiskurinn. Með öðrum orðum; þegar ég hef lengt veiðitíma flugunnar.

En aftur að andstreymisveiðinni. Til að lengja veiðitíma flugunnar er ekki verra  að ráða við örlítið lengri köst til að vera viss um að kasta upp fyrir silunginn (hann er nefnilega ekki með augu í hnakkanum) og gefa flugunni og fiskinum góðan tíma til að kynnast, því þá aukast líkurnar á því að silungurinn snúi sér undan straumi, fylgi flugunni og negli hana áður en við verðum að taka upp og kasta aftur.

Vestið

Að skyggnast í veiðivesti manna getur verið hálfgerð ævintýraferð og kennir þar margra grasa. Fluguveiðimaðurinn geymir þar auðvitað; flugur, jafnvel í nokkrum boxum, flatkjaft (forceps) til að losa flugu úr fiski, klippur til að hlífa tönnunum, veiðigleraugu, minnst þrjár mismunandi spólur af taumaefni (sjálfur er ég með 2x,3x og 4x) auk tauma í sömu stærðum, helst í taumaveski og auðvitað Veiðikortið.

Þessu til viðbótar eru svo margir með töskuna á bakkanum þar sem kennir enn fleiri grasa; vasaljós, vog og málband, minnisbók og blýantur (penninn gerir ekki sama gagn í bleytu og kulda), línuhreinsi, strokuleður til að þrífa taumana, hníf ef hann er ekki festur við beltið (sem allir nota þegar þeir eru í vöðlum) og til öryggis klósettpappír og kveikjara eða eldspítur til að kveikja í notuðum eyðublöðum. Nördarnir eru síðan með hitamæli, filmubox eða tilraunaglas til að greina magainnihaldið ásamt önglabrýni og keflishaldara með góðum 8/0 hnýtingarþræði til viðgerða.

Er ég að gleyma einhverju? Eflaust, og þá kemur sér vel að vera með minnisbókina og blýantinn, skrifað það niður sem vantar og koma því á framfæri við vini og ættingja fyrir afmæli og jól.

Aðeins meira um hrognaflugur

Hrognafluga úr antron

Þegar forvitnin vaknar þá er um að gera að svala henni. Síðsumars vaknaði nokkur áhugi hjá mér á svo kölluðum hrognaflugum og auðvitað settist ég niður og hnýtti nokkrar slíkar og tók með mér í veiði, en því miður gáfust ekki mörg tækifæri til að prófa kvikindin og því læt ég nægja að taka saman smá fróðleik um þessi fyrirbrigði sem ég hef náð að viða að mér.

Þrátt fyrir einfalt útlit og byggingu þessara flugna getur það verið töluvert þolinmæðisverk að hnýta þær, þ.e.a.s. ef maður styttir sér bara ekki leið og kaupir tilbúinn dúsk og þræðir upp á öngul.

Einhverjar ‚deilur‘ eru í gangi í veiðiheiminum um það hvort hnýta eigi hrognaflugur sem stök hrogn eða í klasa. Til að byrja með valdi ég mér einfalda lausn, stakt hrogn á öngli, ekkert of stórt en áberandi samt. Þess ber að geta að hrogn bleikju og urriða geta orðið allt að 5 mm í þvermál þannig að við þurfum víst ekki að vera hræddir við stærri en þær sem ég hnýtti (2-3 mm).

En hvernig veiðir maður svona flugur? Í grunninn er um tvær aðferðir að ræða; á eða við yfirborðið með flugum sem gerðar eru úr antron eða öðru álíka gerfiefni sem ekki drekkur í sig vatn. Þessi aðferð kallar á dautt rek, þ.e. lítinn eða í besta falli alveg lús hægan inndrátt. Ekki verra að koma flugunni fyrir innan um annað rek og þá sérstaklega í froðuslóð eða hlémegin við stein eða bakka. Grannur, langur taumur rétt eins og um þurrfluguveiði væri að ræða. Hin leiðin, sú sem ég prófaði aðeins, er í raun að veiða þungar hrognaflugur líkt og þyngdar púpur; á botninum með hægum en jöfnum inndrætti, rétt eins og þær reki undan straumi eftir að hafa flosnað upp. Framþung, hægsökkvandi lína með grönnum taumenda.

Og aðeins til að árétta; það er ekki aðeins urriðinn sem hrífst af hrognum, bleikjan étur þau líka og svo auðvitað laxinn og sjóbirtingurinn.

Veiða og sleppa

Af og til heyrir maður af veiðimönnum sem fussa og sveia þeirri ‚dellu‘ að veiða og sleppa, hafa meira að segja frammi einhver uppsteyt við veiðiverði þar sem skírt og skorinort skal fylgt reglunni veiða / sleppa. Sjálfur hef ég enga samúð með mönnum sem veiða fisk á skilorði og þykir erfitt að láta frá sér sinn fyrsta eða stærsta. Öðru máli finnst mér gegna um þá sem sleppa á eigin forsendum og gera það rangt. Að sleppa fiski er ekki alltaf eins auðvelt og ætla mætti. Ef þú ætlar þér að sleppa, vertu þá snöggur að taka hann að landi. Því lengur sem viðureignin er dregin á langinn, því minni líkur eru á að fiskurinn lifi af. Þannig er að á meðan við glímum við fiskinn fyllist hann af eitruðum mjólkursýrum sem geta lamað hann í höndunum á okkur eða skömmu eftir að við sleppum honum. Það er ekki alltaf hraustleikamerki að fiskurinn taki kipp um leið og við setjum hann niður í vatnið, þetta getur verið fölsk vísbending, hann getur örmagnast um leið og sýrurnar losna úr læðingi og streyma um líffærin. Ein varúðarregla er e.t.v. sú að sleppa fiskinum ekki alveg strax, settu hann í vatnið, haltu honum eins laust og þú þorir án þess að missa hann, helst með trýnið á móti straumi/öldu og leyfðu honum að jafna sig aðeins. Þegar hann hefur róast og losað um streituna fer ekkert á milli mála þegar hann vill og getur losnað. Eins verður alltaf að meta það hvort blæðingar fisks séu þannig að honum sé ekki hugað líf. Aldrei skal sleppa fiski ef blæðir úr tálknum, þá getum við alveg eins hent slógi í vatnið, sem auðvitað engin heiðarlegur veiðimaður gerir.

Aðeins eitt fet

Aðeins eitt fet getur skilið okkur frá fiskinum og oftar en ekki er þetta fet það fyrsta sem við tökum út í vatnið. Þeir veiðistaðir eru svo sannanlega til á Íslandi þar sem silungurinn liggur fyrir rétt við bakka vatnsins eða árinnar og sætir færis að hrifsa til sín skordýr sem falla eða hætta sér of langt út í vatnið. Grasi vaxinn bakki er ekki aðeins áhugaverður til að tylla sér á eftir langan dag við veiðar, hann er líka eftirsóttur bústaður ýmissa skordýra sem oftar en ekki sækja í rakann sem vatnið færir sverðinum. Í fyrravetur las ég nokkuð skondna grein um baráttu Englendings við þá áráttu að vaða út í og leita að fiskinum í miðju vatninu/ánni. Einhverra hluta vegna skaut þessari grein alltaf upp í kollinn á mér í sumar þegar ég var staðsettur við vatn þar sem þannig háttaði til. Grasi grónir bakkar, skordýr á hverju strái og vísast einhverjar bleikjur í stjái miklu nær bakkanum heldur en ég. Svo kom fyrir að ég lét undan áráttunni, snéri mér svolítið á ská og sendi fluguna undir bakkann, kannski kvikindið væri þarna. Ekki ætla ég að fara með neinar tölur um hve oft fiskur tók fluguna, en eitt get ég fullyrt; hann tók ekki sjaldnar heldur en þegar ég þandi mig út yfir vatnið.

Styggur urriði

Þegar við glímum við styggan urriða, hvort heldur sjóbirting eða staðbundinn fisk, þá luma reyndir veiðimenn á nokkrum hollráðum eins og t.d. að lengja verulega í og nota grennri taum heldur en venjulega og létta græjurnar almennt. Að nota stöng 4/5, flotlínu og taumenda ekki sverari heldur en 4x og hika ekki við að leita í boxinu að flugum í stærðum 16 til 22, umfram allt lengja tauminn upp í 12‘ eða lengri. Allt eru þetta atriði sem gott er að byrja á, ef þú missir þann stóra getur þú alltaf fært þig yfir í stærri græjur, það reynist oft of seint að færa sig niður í græjum þegar þú hefur styggt allan fisk í ánni með fallbyssunni. Svo er auðvitað ekki verra að ráða við nokkuð löng (+20 m) köst með þokkalegri nákvæmni þannig að við þurfum ekki þrjár, fjórar tilraunir til að koma flugunni fyrir fiskinn.

Almennt má segja að stærð veiðibúnaðar er alltaf vanmetin, þ.e. við virðumst ekki trúa því alveg að það sé hægt að veiða þann stóra (silunginn) á neitt annað en stöng 7/8 með flugum í stærð 2 til 6, að þessu leitinu erum við svolitlir berserkjar hér á Íslandi. Þegar við tölum svo um lax virðumst við oftar en ekki þurfa báðar hendur á stýri skriðdrekans #10, taum 0x ásamt ullarvöfðu koparröri og hákarlakrók í yfirstærð.

Að losna við löndun

Til að losna við þann óþarfa og umstang sem fylgir því að landa fiski er hægt að beita ýmsum ráðum. Hér á eftir fara fjögur ráð sem tryggja að þú þurfir ekki að láta reyna of mikið á bremsuna á hjólinu, rota fiskinn, blóðga og gera að:

  1. Ekki tryggja hnútana þína – Ef þú lætur hjá líða að tryggja hnútana þína, bæði í taum og flugu áttu u.þ.b. 50% líkur á því að þurfa ekki að landa fiskinum.
  2. Flæktu línuna – Ef þér tekst að flækja línuna annað hvort um handfangið á stönginni eða í löppunum á þér, þá getur rykkurinn þegar fiskurinn tekur orðið nóg til þess að slíta bestu hnúta eða rífa flugu úr holdi.
  3. Slakaðu á…. línunni – Ef þú slakar nægjanlega á línunni þegar fiskurinn hefur tekið, þá er nokkuð víst að þér tekst að losna við að landa honum. Kosturinn við þessa aðferð er að þú getur haldið áfram að nota sömu fluguna.
  4. Vertu sveimhuga – Ef þú lætur eins og þú getir ekki gert upp hug þinn, færir stöngina úr hægri yfir í vinstri og sveiflar henni ákveðið til hliðanna, þá ertu í góðum málum og þarft bara að endurtaka þetta þangað til fiskurinn hefur losað sig.

Hafðu augun hjá þér

Að vera vel glerjaður er eitt af lykilatriðum veiðinnar. Góð polaroid gleraugu eru ekki aðeins til varnar afvegaleiddum veiðiflugum, heldur og gefa okkur möguleika á að sjá niður í vatnið. Þeir sem nota styrkt gleraugu geta keypt polaroid clips á venjuleg gleraugu eða veiðigleraugu með styrk. En það er ekki allt fengið með gleraugunum. Ef við látum það eftir okkur að hætta að skima eftir fiskinum sjálfum þá eru nokkrar líkur á því að við komum enn frekar auga á hann. Hljómar svolítið öfugsnúið en við eigum trúlega mun auðveldara með að koma auga á skugga fisksins heldur en hann sjálfan. Skyggnumst niður í vatnið og svo aðeins neðar, leitaðu á botninum að skugga sem hreyfist, eða ekki. Ef fiskurinn tekur snöggan kipp þá fer það ekkert framhjá þér, glampi, skuggi á botninum og þú nærð miði á hann.

Létt og lipurt

Þyngd og stærð veiðigræja er mörgum kappsmál; stærsta hjólið, lengsta stöngin, þyngsta línan. Svo eru til þeir sem segja; fiskurinn sér ekkert hvort ég sé með bensínsstöðvarstöng eða 11 feta tvíhendu. Ég er svolítið eins og síðari hópurinn; léttar græjur sem raska ekki vatninu of mikið. Snertiflötur veiðimanns og fisks er yfirborð vatnsins. Léttar græjur í vatnaveiði raska yfirborðinu minna en þungar línur sem skjótast fram úr ofvöxnum grafít sköftum. Auðvitað hafa þeir eitthvað til síns máls sem segja að Ísland og íslensk veðrátta bíður mönnum einfaldlega ekki upp á neitt annað en línur nr.7 eða 8 sökum vinds. En það má gera ýmsar leiðréttingar á kaststíl með léttri línu (nr.4 og 5) sem hjálpar til í vindi; skemmri köst, þrengri kasthringur. Léttari lína raskar yfirborðinu minna en þung, nokkuð sem getur gert gæfumuninn í vatnaveiði. Auðvitað verðum við að vera með góða línu sem rennur vel, hreina og mjúka. Svo er líka auðveldara að taka létta línu með löngum taumi upp í nýtt kast án þess að raska yfirborðinu eða hætta við upptöku. Ég hef oftar en ekki hætt við að taka upp línu í lok inndráttar vegna þess að í þessari ör-stuttu pásu á milli inndráttar og upptöku þá kemur högg og möguleg taka. Prófaðu að bæta einu takið við inndráttinn eftir stutta pásu, taktu síðan upp ef ekkert gerist. Það er ótrúlegt hve nærri fiskurinn eltir fluguna.

Heyrn

Ég er svo óheppinn að hafa ekki rakaraheyrn þ.e. geta skynjað hvað er sagt og brugðist við með réttum svörum án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað er verið að tala um. Ég annað hvort heyri allt eða ekkert, en ég er nú líka bara venjulegur maður. Fiskurinn aftur á móti heyrir og skynjar hvort sem honum líkar það betur eða verr. Buslugangur, steinaglamur og skellir í þungum flugum á yfirborðinu eru allt eitthvað sem fiskurinn heyrir með skynrákinni sem liggur eftir honum endilöngum og hann bregst við þessu. Stundandi vatnaveiði í grænu vöðlunum mínum (ég trúi því að grænt sjáist síður en grátt) hef ég oft upplifað það að fiskurinn syndir rétt við fætur mér án þess að skeyta nokkru um mig, svo fremi ég standi fastur í fæturna og ekki urgi í botngrjótinu. Já, allt í lagi, ef hann syndir rétt við fætur mér þá hef ég örugglega vaðið of langt en það er ekki punkturinn með þessu heldur sá að það er hægt að vaða varlega og af skynsemi þannig að fiskurinn fælist ekki, kasta létt þannig að flugan skelli ekki á yfirborðinu og skilja hundinn eftir heima (ef ég ætti hund). Við getum svo óhikað sest niður á bakkanum og rætt þetta frekar því fiskar heyra ekki mannamál niður í vatnið.

..gættu þinna handa

Lyktarskyn okkar er mismunandi, alveg óháð því hvort okkur þykir einhver ákveðin lykt góð eða slæm. Ég sjálfur t.d. forðast þrjár deildir í stórmörkuðum; snyrtivörurnar, þvottaefnin og ilmkertin, sný snarlega við og kíki í kjötborðið eða nammilandið. Að þessu leiti er ég ekkert ólíkur silunginum. Þegar við förum til veiða, hvort heldur í á eða í stöðuvatni eru nokkur atriði sem við ættum að hafa í huga og stilla okkur um að nota. Öll lykt af gerviefnum; línuhreinsiefnum, lími (t.d. epoxíð), ilmvatni, sápu, rakspíra og taumýki gera lítið annað vara silunginn við því að einhver aðskotahlutur er á ferli í vatninu. Lyktarskyn fiska er töluvert næmara okkar og til að nálgast upplifun silungsins þyrftum við bæði að þefa og smakka á því sem við ætlum að dýfa í vatnið til að vera viss um að ofbjóða ekki fiskinum. Öll ertandi lykt eða bragð eru ávísun á það að fiskurinn snúi upp á sig og syndi í öfuga átt, verum spör á rakspírann og ilmvatnið í veiðiferðunum og notum lyktarlausan handáburð ef línubruninn er alveg að gera út af við okkur.

Undan vindi

Eins og við þekkjum ágætlega hérna á Íslandi, þá getur lognið ferðast misjafnlega hratt yfir. Að veiða á móti vindi er vel þekkt og gjöfult þegar vatnið og vindurinn hafa borið með sér æti upp að bakkanum og þar með fiskinn sem við erum að eltast við. En þegar lognið er orðið ærandi og öll okkar ráð til að koma flugunni út með þokkalega árangursríkum hætti hafa brugðist, þá leggur margur veiðimaðurinn árarnar í bát og tekur fram kaffibrúsann í stað flugunnar. En, það er e.t.v. ekki alltaf ástæða til.

Í smærri vötnum og þar sem vindur hefur umtalsverð áhrif á umhverfingu yfirborðsins á móti þyngra vatni á botninum, þá getur veiði undan vindi verið alveg eins spennandi. Þegar vindurinn hefur náð að mynda hringstreymi á milli yfirborðs og botns, nær dýpri straumurinn að róta upp æti við bakkann hlé megin, ekki ósvipað og gerist á yfirborðinu áveðurs. Botnstraumurinn er að öllu jöfnu þyngri heldur en aldan á yfirborðinu. Hans gætir því ekki eins fljótt og öldunnar, en varir þeim mun lengur eftir að lægir. Þannig er það að bakkinn undan vindi gefur oft ágætlega eftir goluþytinn þar sem gruggið (ætið) er lengur að setjast þeim megin í vatninu og veiði því oft með ágætum á þeim slóðum.

Froðusnakk

Froða á yfirborði vatns, hvort heldur í straumi eða á lygnu getur gefið okkur töluverðar upplýsingar ásamt því að aðstoða okkur við veiðarnar.

Þar sem froða flýtur í straumi getum við verið nokkuð viss um að ætið flýtur á svipuðum slóðum. Froða á vatni ber með sér ógrynni lífvera sem silungurinn sækir í og við ættum ekki að láta fram hjá okkur fara. Oftar en ekki gefa litlar þurrflugur eða léttar púpur sé þeim kastað í eða við froðuna. Það sama á við um froðu sem berst með straumi auk þess sem hún segir okkur til um hvar aðal straumur árinnar/lækjarins liggur og hjálpar okkur þannig að stemma ‚drift‘ flugunnar við hraða straumsins og ná þannig eðlilegum hraða á fluguna.

Hvar er fiskurinn?

Kaldhæðnislega svarið er; Í vatninu. Fiskur finnst að hámarki í um 10% vatnsins. Þessi einfalda staðreynd segir okkur að það sé frekar ólíklegt að við veiðum eitthvað ef við einfaldlega mætum á svæðið, hugsana- og athugunarlaust. Það er svo einfalt að við veiðum ekki fisk þar sem enginn fiskur finnst. Við verðum að snúa á líkurnar og nýta okkur allar vísbendingar um þá staði sem fiskur getur haldið sig á:

  • Í skjóli við stein
  • Í lygnunni hlé megin við nes og tanga
  • Í skugganum
  • Í jaðri grynninga
  • Í súrefnisríku vatni úr lækjum og uppsprettum
  • Í skjóli við bakkann

Ef við erum alveg ‘lost’ þá eru þetta nokkrir staðir þar sem byrja má á að leita fyrir sér þegar komið er að vatni.