Nei, ég ætla ekki að skrifa um skotveiði á friðaðri fuglategund, þ.e. Marabou storki. Flestar marabou fjaðrir sem við notum í flugur í dag eru raunar af hænsfugli eða kalkúna og ég er ekki heldur að tala um að skjóta slíka fugla. Nei, þessi í stað langar mig aðeins að tjá mig um fluguveiði með flugum sem eru með þessu dillandi, skemmtilega skotti sem er gert úr marabou fjöður.
Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að marabou flugur ganga sérstaklega vel í augun á urriða og þá er honum alveg saman hvort flugan heitir Dog Nobbler, Damsel, Woolly Bugger, Humoungus eða eitthvað annað. Það er skottið sem skiptir máli í hans augum.
Flestar eru þessar flugna eru þyngdar með einfaldri kúlu, kúpu eða vaskakeðju sem gerir þeim kleyft að sökkva en það má með einföldum hætti létta þær verulega með því að sleppa kúlu eða annarri þyngingu. Fluguna má veiða með öllum tegundum lína, allt frá floti og niður í hörðustu sökklínur.
Framþung maraboufluga hefur þann eiginleika að hún skoppar svolítið í vatninu þegar inndrátturinn er stilltur á kippi með pásum á billi. Flugan rís á nefinu þegar maður tekur í og sekkur á nefninu í pásunni, það er undir þessum kringumstæðum sem marabouskottið nýtur sín best. Það dillast í takt við inndráttinn og hvetur urriðann til töku. Eins og nærri má geta, þá leikur marabouflugan ágætlega eftir lifandi agni, helst hornsíli eða ungviði annarra tegunda.
Eitt sem ég tók eftir hjá nokkrum veiðimönnum í sumar sem leið, var að þeir nýttu ekki kosti þess að vera með þykkann, frammjókkandi taum þegar þeir voru að veiða þessar þyngdu marabouflugur og oft á tíðum voru þeir með, að því er mér fannst, full langan taum. Til þess að ná fram þessum dillandi áhrifum marabouflugna, þá þarf taumurinn að vera tiltölulega stífur (sver, en þó frammjókkandi) en umfram allt ekki of langur. Of langur taumur verður til þess að þyngd flugan dregur bug á tauminn í pásunni og þá fer of mikið af inndrættinum í það eitt að rétta úr tauminum í stað þess að dilla flugunni. Hvað er of langur taumur? Jú, það er mín reynsla að allt yfir 11 fet er orðið of langt fyrir þyngda marabouflugu í stærð #8 – #4. Svo er það reyndar ótvíræður kostur að vera með hæfilegan taum sem ræður við að flytja aflið í kastinu fram í fluguna þegar maður sleppir henni lausri.
Senda ábendingu