Eltihrellir í vatni

Eltihrellir

Við viljum alls ekki setja nálgunarbann á þennan eltihrelli, þvert á móti. En hvað er til ráða þegar við sjáum kauða þar sem hann fylgir flugunni okkar eftir alveg þar til við tökum hana upp í næsta kast en lætur aldrei til skarar skríða? Hvernig væri að prófa að drepa fluguna? Skjóta hana beinlínis í kaf, hætta öllum inndrætti og leyfa henni einfaldlega að sökkva eins og hún væri steindauð?

Þeir sem prófað hafa segja þetta beri árangur í yfirgnæfandi tilfella, ef ekki strax þá næsta víst þegar hún nálgast botninn. En, hver hefur svo sem lýst hógværum orðum einhverju svona leynitrikki í veiðimennsku? O jæja, þetta rímar nú samt svolítið við þá reynslu manna af töku bleikjunnar í síðasta inndrætti eftir að maður hefur hinkrað örlítið við, leyft flugunni að hvílast áður en maður tekur hana upp í næsta kast. Kannski vel þess virði að prófa?

Fluguna úr

Að vera algjörlega fastur í fluguveiðinni getur verið óþægilegt og þá er ég sko að tala um að vera fastur. Það kemur fyrir einn og einn veiðimann að krækja flugu þannig í sig að hún verður ekki losuð með auðveldum hætti. Sumar aðferðirnar til að losa þessar elskur eru svolítið óhugnarlegar, aðrar beinlínis snjallar og ekkert að óttast, nema þá sársaukann.

Þumal á augað og svo… kippa

Þessi aðferð er í raun afskaplega einföld, en byggir svolítið á því að þú kunnir að rífa plástur af viðkvæmum stöðum líkamanns. Það eina sem þú þarft er sterkur þráður eða taumaefni sem þú bregður í bugðuna á önglinum, setur þumalinn á auga öngulsins og þrýstu því þéttings fast niður að  holdinu. Og… svo kippa í spottann, hratt og ákveðið. Ekki tvínóna við þetta, það verður bara verra.

Þetta er virkilega hægt eins æringjarnir í Jazz & Fly Fishing sýna hér að neðan:

Ummæli

18.09.2012 – Kristinn hjá veida.isÞetta kallar maður praktískar ráðleggingar. Það ættu allir að kunna skil á þessari aðferð enda flestir sem upplifa svona kringumstæður, einhverntíman á fluguveiðiæfinni.
Kveðja,
Kristinn

15.09.2012 – Gústaf IngviÞað er nú vonandi að maður þurfi aldrei að nota þessa tækni :)

15.09.2012 – Palli G: Prófaði þetta á svila mínum í sumar og það virkaði svona líka ljómandi vel. Spurði hann bara hvort hann vildi augnabliks sársauka eða 3 tíma bið á bráðamóttökunni.

Hann var reyndar smá efins þegar ég sagði: “Treystu mér. Ég hef aldrei gert þetta sjálfur en ég sá myndband á netinu”. Eflaust það síðasta sem margir hafa heyrt á ævinni.

Innstreymi vatns

Botnstraumur

Þar sem innstreymi er í vatn, hvort heldur alvöru á eða bara lítill lækur, þá er fiskjar von á þeim slóðum. Fiskurinn sækir í súrefnisríkt vatnið og þær pöddur sem með því berast og á heitum sumardögum sækir hann í svalann sem berst í vatnið. Veiðimenn áætla gjarnan að straumurinn sem sést á yfirborði vatnsins sé fæðuslóð og skeyta oft miklu minna um að veiða rétt utan hans. Ekki er óalgengt að menn leiti þessa straums með því að kasta upp í árfarveginn og leyfa línunni/flugunni að fljóta frítt út í vatnið og þar sem hún staðnæmist, staðnæmast þeir líka. En það er annar straumur þarna í vatninu. Þannig er að vatnið úr læknum er yfirleitt kaldara heldur en það sem fyrir er í vatninu og sameinast því alls ekki strax. Þegar skriðþunga vatnsins sleppir, sjáanlega strauminum, situr annar straumur eftir sem við sjáum ekki. Sá er á botninum og leitar oftar en ekki annars farvegar en yfirborðsstraumur. Ræður þar mestu landslagið á botninum og mögulegt útstreymi vatnsins.

Þessi straumur er til muna kaldari og næringarríkari heldur en sá sem við sjáum á yfirborðinu. Auk þess sem straumurinn flytur með sér, þá rótar hann upp æti af botninum og þetta veit fiskurinn og heldur sig gjarnan á þessum slóðum í vatninu. Eina vandamálið við þennan straum er að við getum átt mjög erfitt með að finna hann, það er afskaplega fátt sem segir okkur hvar hann liggur nema þá við séum svo heppin að finna hvar fluguna okkur rekur skyndilega ekki lengur í sömu átt og yfirborðsstraumurinn eða vindurinn.

Join the dark side

Join the dark side

Þar kom að því, ég bara varð að sletta enskum titli á þessa grein. Einmitt um þessar mundir er einn mest spennandi tími vatnaveiðinnar að renna upp. Í mörgum vötnum er bleikjan byrjuð að hrygna, annars staðar er hún að hópa sig, pússa botninn eins og einn orðaði það. Urriðinn aftur á móti er að fikra sig hægt og rólega upp úr dýpinu, vatnið að kólna og hann gengur grimmt upp á grynningarnar í ætisleit, sérstaklega þegar kvölda tekur. Nú er rétti tíminn til að halla sér að hinni myrku hlið vatnaveiðinnar ‚Join the dark side‘.

Þegar skyggja tekur er vatnið á grynningunum orðið svalara og síli og seiði hætta sér undan smásteinunum og eru auðveld bráð huguðum urriðum sem koma svangir upp úr dýpinu. Að veiða rétt fyrir og fram í myrkur er oft ævintýralegt á þessum árstíma, þ.e. ef púpuveiðimenn eins og ég hafa rænu á því að skipta yfir í straumflugu sem líkir eftir smáfiskinum. Urriðinn er í átaki þessa dagana, fituátaki svona rétt áður en hann dettur í hrygninguna og aðrir líkamspartar heldur en maginn fara að ráða för.

Ummæli

Darth Vader
Martin Joergensen

27.08.2012 Svarti Zulu: Svarthöfðapúpan hlýtur að eiga einstaklega vel við á svona stundum: http://globalflyfisher.com/patterns/darth_vader/

Svar: Góður, ekki lengi að kveikja. Skjótum inn mynd hérna af kvikindinu…. Ekki sú fyrsta góða sem Martin Joergensen, ein af aðal-driffjöðrum Global Fly Fisher hefur sent frá sér. Það er vel þess virði að flakka í gegnum síðuna og spotta út flugurnar sem hann hefur hnýtt í gegnum tíðina.

Stökkvari

Trúlega er mannskeppnan óútreiknanlegasta lífvera jarðar. Venjur og hefðir stjórna svo miklu í fari okkar. Þegar svo venjurnar festa sig í sessi þá verður til hefð sem flestum er alveg mein illa við að rjúfa. Ýmislegt í stangveiðinni á rætur að rekja til þessa háttarlags okkar og viðbragð við stökkvandi fiski er eitt af þessu.

Fyrir margt löngu var ég að velta fyrir mér hvað teldust ‚rétt‘ viðbrögð við fiski sem tekur upp á því að stökkva við töku. Nýleg ummæli við grein urðu síðan til þess að ég leitaði enn betur í sameigninni, veraldarvefnum og fann fullt af professional svörum til viðbótar því sem ég hafði pælt í sjálfur. Niðurstaðan er nokkuð ljós; ekki gera ekki neitt, veldu aðra hvora leiðina hér að neðan.

Gefið eftir

Gefðu línuna slaka segja sumir og meina þá að maður eigi að gefa fiskinum lausan tauminn. Eins og Hilmar segir í ummælum við Eftir töku, þá grípur eðlishvötin marga veiðimenn og þeir lækka stangarendann niður að vatninu og/eða losa línugripið alveg þannig að fiskurinn fái slaka. Helstu rökin fyrir þessu eru að fría tauminn og taumendann fyrir óþarfa álagi sem skapast stundum í stökkinu. Þetta eru góð og gild rök þegar menn setja í stærri fisk heldur en græjurnar frá A-Ö miðast við, en almennt er það nú svo að slitstyrkur taums og enda er nokkuð vel við vöxt hjá okkur. Ef fiskurinn tekur aftur á móti upp á því að hrista hausinn í stökkinu með góðan slaka á línunni eru mjög miklar líkur á því að flugan/öngullinn losni úr honum. Flest af því sem ég hef lesið eru ráð sem eru gefin þeim sem stunda veiðar á stærri og aflmeiri fiskum heldur en þeim sem finnast að öllu jöfnu í stöðuvötnum á Íslandi. Hvort þessi aðferð sé góð og gild í laxveiði veit ég ekki, þar skortir mig almenna þekkingu.

Strengt á línu

Notaðu tækifærið og dragðu inn eða hækkaðu stöngina enn meira, að því gefnu að þú hafir aðeins reist hana um 45° eins og nefnt er í Viðbragð. Hér er ekki verið að tala um eitthvert offors, brjálæði á hjólinu til að fá fiskinn til að skipta um stefnu í stökkinu, heldur það eitt að viðhalda svipaðri spennu í gegnum stökkið eins og þú hafði náð fyrir það. Hér má auðvitað ekki vera með bremsuna í botni ef fiskurinn skildi nú taka á rás eftir lendingu sem er ekki óalgengt. Bremsan á að vera hæfilega stillt eða jafnvel eilítið of slök, því það er betra að auka við heldur en fá kipp sem slítur taum eða hnút. Þetta er sú leið sem ég hef tamið mér í gegnum tíðina og ég er nokkuð viss um að ég hef ekki misst fleiri fiska í stökkinu heldur en næsti maður sem mögulega notar slöku leiðina, sem sagt mín hefð.

Vel að merkja, þegar ég sé að fiskurinn sem ég hef krækt í er nokkuð undir matstærð þá gef ég honum stundum lausan tauminn, lækka stöngina til að gefa honum slaka og svigrúm til að losa sig af. Oftar en ekki tekst þetta með ágætum og fiskurinn syndir burt, frelsinu feginn og án þess að ég hafi þreytt hann of mikið. Það sem einum dugar vel til að halda í fisk, reynist öðrum ágætlega til að sleppa honum.

Ummæli

01.09.2012 UrriðiÉg nenni ekki að standa í að halda svona úti sjálfur, þetta eru hvortsem er bara eintómar montsögur, nenni ekki að skrifa nema e-ð merkilegt hafi gerst. Svo er bara fínt að takmarka þetta við lesendahóp veidi.is, vil ekki að þetta svæði fái of mikla athygli. Mér er alveg sama um fjölda heimsókna og svoleiðis, er að þessu fyrir sjálfan mig og engan annan :)

31.08.2012 Urriði: Jæja, ég fór aftur að veiða í kvöld og er búinn að jafna mig (sjá hér ). Búinn að taka bloggið þitt aftur í sátt :)

SvarGlæsilegt, til hamingju Urriði. Án þess að draga úr mikilvægi og skemmtigildi veida.is (þú átt reyndar flestar bestu frásagnirnar), þá finnst mér að nú sért þú kominn langt útfyrir spjallsíður í frásögnunum þínum, hvenær kemur þú þér upp bloggi, drengur? Þetta eru svo skemmtilegar og fræðandi greinar, að ég tali ekki um myndirnar að ég er viss um að fjöldi veiðimanna, ekki bara á Íslandi hefðu gaman að því að fylgjast með. Góð stikkorð á alþjóðlegri bloggsíðu og þú næðir örugglega til US, UK og Skandinavíu, meira að segja ég er með á 3.þús. reglulegar heimsóknir á þessu ári frá þessum löndum.

30.08.2012 UrriðiÉg var að enda við að missa flotta urriðahrygnu(2-3 pund) sem losnaði af í miðju stökki. Ég hélt strekktu og kenni þessum pistli alfarið um! (ath. að ef ég hefði gefið slaka og misst fiskinn þá hefði ég samt kennt þessum pistli um)

Svar: Æ, þetta var nú leitt að heyra. Huggun harmi gegn að nú hefurðu einhverjum um að kenna 🙂

21.08.2012 Hilmar: Þakka kærlega góð svör. Held ég þurfi að fara að prófa að halda aðeins við.

mbk, Hilmar

Eftir töku

Er hann á?

Þegar fiskur hefur tekið og þú ert byrjaður að kljást við hann í félagi með besta vini þínum. flugustönginni, þá er gott að hafa í huga;

Fiskurinn syndir ekkert endilega í gagnstæða átt við stangarendann. Oftar en ekki syndir hann til hliðar m.v. upprunalega stefnu flugunnar. Ekki elta fiskinn með stangarendanum, láttu stöngina alltaf vísa að þeim stað þar sem línan sker sig upp úr vatninu. Allar aðrar áttir mynda óþarfa slak á línunni sem fiskurinn getur nýtt sér til að losna.

Ekki lyfta stönginni meira en 45° upp og haltu línunni hæfilega strekktri. Vertu samt alltaf tilbúinn að lækka stöngina aftur ef fiskurinn tekur á rás og vill draga meiri línu út í vatnið. 45° er líka mjög temmileg hæð, ef þú þarft á smá viðbót í hækkun að halda ef fiskurinn skildi nú taka á rás í fangið á þér.

Ummæli

18.08.2012 – Hilmar: Sæll Kristján. Flottar upplýsingar að finna hér eins og von er vísa. Spurning hvort þú setjir ekki inn viðauka um hvað skal gera þegar fiskurinni ákveður að stökkva?
Hvað skal þá gera. Mín tækni hingað til er að gefa allt slakt, en hef þó misst þá þó nokkra við það. Hef aldrei prófað að halda við, þó ég hafi haft það á bak við eyrað, þá virðist sem eðlishvötin nái yfirhöndinni og ég gef alltaf slakan taum um leið og ég sé þá birtast fljúgandi upp úr vatninu. Hefurðu einhverja góða punkta, reynslu í þessum efnum?

takk fyrir snilldar síðu.

mbk, Hilmar

Svar: Góður punktur, nú þarf ég bara að róta í punktunum mínum og sjá hvort ég eigi ekki eitthvað óskrifað um þetta. Sjáum til hvað finnst í ruslaskúffunni….

Taka

Inndráttur

Þú ert með línuna í gegnum fingurna á hægri hendir og þú finnur að það er tekið í fluguna, hvað svo? Það er ekki óalgengt að menn lyfti stönginni og margir, ósjálfrátt eða með fullri meðvitund, draga línuna snögglega inn með þeirri vinstri. Þetta er í sjálfu sér alveg ágætt en sumir sleppa/gleyma því alveg að taka í línuna og missa þannig af tökunni. Það að lyfta stönginni einni sér gerir yfirleitt lítið annað en taka óþarfa slaka af línunni því sára lítil hreyfing skilar sér út til flugunnar ef þú lyftir aðeins stönginni. Sé stangarendinn alveg við vatnsborðið, þar sem hann á jú að vera á meðan þú dregur inn, prófaðu að taka þétt í línuna, ekki ósvipað því sem þú gerir við ein- eða tvítog (haul). Með þessu móti tryggir þú fluguna við töku og getur svo fært stöngina í þægilega stöðu til að takast á við fiskinn og láta stöngina vinna með þér.

Flugulykkjan

Brot í taum

Flestar flugustangir, í það minnsta einhendurnar, eru útbúnar einni græju sem er að margra mati; algjörlega óþarft í besta falli. Sumir ganga svo langt að segja þessa græju; hryðjuverk á góðri hönnun. Við erum að tala um flugulykkjuna sem er staðsett rétt framan við handfangið á stönginni.

Yfirlýstur tilgangur þessarar lykkju er að krækja flugunni í hana þegar veiðimaðurinn kýs að draga inn línuna, annað hvort við göngu eða við lok veiði. Jamm, þetta er auðvitað gott og blessað ef þú ert með styttri taum en sem nemur lengd stangarinnar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ef lengd taumsins er lengri en stöngin lenda skil taums og línu fyrir innan efstu, jafnvel næst-efstu lykkju stangarinnar og það verður erfiðara en ella að koma línunni fram úr efstu lykkju heldur en ella.

Annað vandamál sem þetta getur skapað er að ef taumurinn, sem oftar en ekki er úr eingirni, fer í gegnum efstu lykkjuna kemur brot í hann, jafnvel aðeins á skömmum tíma. Þessu broti er ekki svo auðvelt að ná úr taum þegar það er á annað borð komið í hann.

Til að komast hjá þessum vandamálum má alveg hugsa sér að að skilja alltaf eftir sem svarar einu feti af línu fram úr efstu lykkju þegar línan er gerð upp á hjólið og í stað þess að festa fluguna í þessa ólukkans lykkju, þá má alveg hugsa sér að smeygja línunni einu sinni utan um handfangið rétt aftan við hjólið og festa síðan fluguna í hentuga lykkju hvar sem er upp eftir stönginni. Með þessu má komast hjá báðum ofangreindra vandamála.

Ummæli

09.08.2012 – UrriðiVinur minn sýndi mér þetta “trick” seinasta sumar og það er ótrúlega hvað svona lítið smáatriði hefur auðveldað mér lífið í sumar :)

SvarJá, þetta er meira en lífsnauðsynlegt fyrir röltara eins og mig og hefur breytt miklu eftir að ég tamdi mér þetta.

Brot

Sumir segja það aðeins tímaspursmál hvenær stangveiðimenn lendi í því að brjóta stöngina sína. Á hverju sumri sér maður blogg- og spjallfærslur þar sem menn býsnast yfir þessu og tímanum sem fer í að fá nýjan topp á stöngina. Vissulega getur þetta verið bagalegt, sérstaklega fyrir þá sem ekki eiga stöng með auka-toppi eins og ég.

Fyrir einhverju síðan setti ég saman nokkur atriði sem lesast áttu með öfugum formerkjum varðandi það að brjóta stöngina sína, en hverjar eru algengustu ástæður þess að stangir brotni?

U.þ.b. 25% stangarbrota eiga sér stað þegar við reisum stöngina, annað hvort í viðureign við fisk eða þegar við reynum að losa festur. Sem sagt; tökum varlegar á því og reynum að stilla stöngina betur af, ekki troða henni upp í skýjahuluna yfir höfði okkar. Reynum að nota línuna til að tempra óvænt átak frá fiski. Svo notum við bara alls ekki stöngina til að losa festur, tökum frekar í línuna og höfum stöngina beina í átt að flugunni.

Að grípa um stöngina fyrir ofan handfang er náttúrulega algjörlega bannað. Stangir eru hannaðar miðað við það að við höldum höndunum að okkur og á handfanginu. Öll önnur grip eru til þess fallin að grípa fram fyrir hugmyndir hönnuðarins um það hvernig stöngin á að vinna.

Ótrúlega mörg brot eiga sér einnig stað þegar við þræðum stöngina. Sumir láta hjá líða að draga næga línu út af hjólinu áður en þeir þræða og taka síðan hressilega á því þegar þeir eru komnir fram yfir 2/3 stangarinnar, einmitt að veikustu hlutum stangarinnar og sveigja þannig fremsta partinn svo hann brotnar. Nei, við tökum nægjanlega langa línu út af hjólinu áður en við þræðum og við þræðum stöngina beint fram, ekki niður og alls ekki til hliðar.

Þungar flugur í svifi eftir lélegt eða misheppnað kast geta verið stönginni banvænar. Þó við sleppum við að brjóta stöngina einmitt þegar hún skellur á henni, þá getur flugan sært toppinn þannig að við næsta alvöru átak brestur hún einmitt á þeim slóðum.

Eftir langan dag og stífa veiði fer stöngin stundum að losna upp á samskeytunum. Fyrstu einkennin eru svolítið óstöðugar hreyfingar og svo dettur stöngin í sundur. Ef við erum heppinn þá dettur hún einmitt bara í sundur og við lítum aulalega í kringum okkur, drögum inn og setjum hana aftur saman. En, stundum er það bara of seint. Ef hressilegt átak kemur á stöng sem farinn er að losna upp á festingunum, þá getur það orðið til þess að hún brotni. Oft þarf ekki nema einn til tvo vafninga af límbandi við samskeytin til að hindra þetta eða kanna stöngina í hvert skipti og maður skiptir um eða kannar ástand flugunnar.

Óþarfi er síðan að minnast á það hvernig við röltum með stöngina okkar. Hún á að vísa aftur, ekki fram.

Sýpur hann eða bítur?

Lítill eða stór?

Almennt séð þá held ég að veiðimenn séu sammála um að urriðinn tekur fluguna okkar öllu ákveðnar heldur en bleikjan, eða hvað? Það getur verið stór munur á því hvort fiskurinn sé að taka agnið við botninn eða í efsta hluta vatnsbolsins. Ég var að gefa því aðeins gaum hvernig urriðarnir hafa verið að taka fluguna hjá mér í sumar. Flestir þeirra eru með hana fasta í öðru munnvikinu, raunar frekar því hægra ef það skiptir nú einhverju máli. En einstaka hafa verið með hana fasta fyrir miðju í annarri hvorri vörinni. Góður maður sagði mér um daginn að ástæðan fyrir því að við fyndum meira fyrir töku urriðans væri einfaldlega sú að hann nálgast bráðina frá hlið og rífur hana til sín, þ.e. í gagnstæða átt við inndráttinn okkar. Bleikjan nálgist bráðina aftur á móti beint af augum og dragi hana niður eða til hliðanna eftir töku. Já, þetta stemmir við það að maður finnur minna fyrir bleikjutöku heldur en urriða.

En hvað með það þegar fiskurinn sýpur bráðina? Þegar ég fer að hugsa um það, svona eftir á, þá get ég alveg trúað því að urriðarnir og bleikjurnar sem hafa tekið í vörina hafi verið að nálgast ætið öllu varfærnar, sopið hana beinlínis upp í sig. Hverjir hafa ekki lent í því að stimpla litlu sætu hringina á yfirborði vatnsins sem leik smáfisks eða nettar uppitökur en síðan tekið vænan fisk á þessum slóðum skömmu síðar, þ.e. þeir sem ekki forðast smáhringina og leggja fluguna niður á öðrum stað, orðnir leiðir á tittunum. Stórfiskurinn tekur bráðina ekkert frekar með látum. Stundum tekur hann bara með því að renna sér upp að yfirborðinu og súpa hana í kjaftinn, ekki einu sinni með skoltinn upp úr. Skorkvikindi á yfirborðinu eða örmagna fluga sem marir rétt undir því. Ég lenti einmitt í þessu um daginn í Úlfljótsvatni. Allt vaðandi í tittum og vatnið morandi í ólympíuhringjum hingað og þangað. Einhver óeirð og ergelsi yfir lélegum köstum varð til þess að ég henti beint á eina uppitökuna, langt því frá þá stærstu og viti menn; flott bleikja sem var fyrir löngu vaxin upp úr því að vera tittur með fluguna í vörinni. Stórir hringir, stórir fiskar; kannski. Litlir hringir, litlir fiskar; nei, ekkert endilega.

Blogginu barst bréf

Eins og sagt var í gamla daga á Gufunni; Þættinum hefur borist bréf. Ekki alls fyrir löngu birti ég játningu mína á gæftaleysi í Þingvallavatni sem hefur hrjáð mig frá upphafi veiða. Stuttu síðar barst mér bréf frá lesanda bloggsins sem kveikti enn frekar hjá mér vangaveltur um þau áhrif sem leiðbeiningar um veiði og veiðiaðferðir hafa haft á mig, jafnvel leiðbeiningar sem ganga þvert meginregluna mína; Regla nr. eitt, það er engin regla. Því er einfaldlega þannig farið að aðferð eins virkar ekki endilega hjá öðrum.

Þær voru ófáar lýsingarnar á veiðiaðferðum við Þingvallavatn sem beindu mér inn á þá átt að koma flugunni niður; þyngdar púpur og straumflugur, hægsökkvandi lína, sökk taumur og hægur inndráttur. Kannski klikkaði eitthvað eitt hjá mér í þessari ‚bestu‘ samsetningu og þess vegna varð ég ekki var við fisk, hver veit? Ekki ég í það minnsta. Samhliða gæftaleysinu minnkaði áhugi minn á vatninu, en eins og komist er að orði hér á eftir; En allt í einu þá small allt og nú hefur ferðunum fjölgað aftur í vatnið og enn hef ég ekki komið fisklaus heim úr því.

En að bréfinu sem mér barst. Ég fór þess á leit við sendandann, Jóhann Gunnlaugsson að fá að birta úrdrátt úr því á blogginu með innskotum frá mér og auðvitað var það auðsótt mál.

Sæll Kristján og takk fyrir skemmtilegt blogg

Las grein frá þér um veiðiferð á Þingvelli og langaði að deila minni reynslu. Ætla alls ekki að tala sjálfan mig upp en mér hefur gengið mjög vel á Þingvöllum. Hef stundað veiði þar í einungis 4 ár og má segja að ég hafi varla veitt fisk fyrstu 2 árinn þó svo að farnar væru margar ferðir. Murtur voru reyndar alltaf til í fluguna en það kom mjög sjaldan fyrir að ég næði Kuðunga eða Sílableikju. En eins og við erum þá þróast með okkur aðferðir og við lærum með tímanum og reynslan er það dýrmætasta við veiðar á Þingvöllum.  Það hafa margar veiðihetjur komið að máli við mig og sagt mér hvað virkar best á Þingvöllum og hlustar maður og reynir að nýta sér það síðar. Í dag er hetjurnar reyndar orðnar ansi margar og segja manni misvísandi til. Ég las marga greinar og reyndi að fara eftir öllum ráðum sem mér voru gefin en allt kom fyrir ekki. En allt í einu þá small allt. Mín reynsla er að tími skipti miklu máli, ekki árstími heldur tími dags. Sá tími sem reynst hefur mér best er snemma morguns. Kominn á veiðistað kl 06. Veiði sjálfur til c.a hádegis og hætti þá oftast. Þetta er tíminn sem mér finnst að takan detti niður.

Hver kannast ekki við lýsingarnar af ‚brjálaðri‘ síðdegis og kvöldveiði í Þingvallavatni? Hér heyrum við af allt öðrum prime time hjá Jóhanni, mun líkara mínum uppáhalds tíma. Ég hef náð fiski í síðari hluta þessa tíma, rétt fyrir hádegið og rúmlega það. Raunar hefur tímabilið frá seinna kaffi og framyfir kvöldmat gefið mér á meðan aðrir forma það ekki einu sinni að mæta fyrir kl.21

Veiði eingöngu á flotlínu og langan taum. Lengi taum eftir dýpt á veiðistað og veiði stundum með 3 stangar lengdir (20-22) fet. Það er mjög leiðinlegt að kasta þessu og það verður varla gert með réttum kaststíl 🙂 Taumur finnst mér ekki skipta máli, veiddi nú síðast á þriðjudag, 3 júlí á 10 punda Maxima Ultagreen, því hann var í vasanum… …oftast er hann um 8 pund, þá get ég oftast nær rétt úr króknum þegar ég lendi í festu.

Taumfælni silungs er að mínu viti ofgert stórlega. Sjálfur fór ég eftir leiðbeiningum um 4 – 5 punda taum (c.a. 3X – 4X) vegna meintrar taumfælni bleikjunnar og auðvitað urðu flugurnar mínar þá fórnarlamb Þingvallaheilkennisins, urðu eftir á botninum þegar ég festi. Í seinni tíð hef ég, þar sem von er á festu leyft mér að nota tauma í stærðum 1X og 2X. Ég viðurkenni að svona langan taum nota ég ekki, ræð bara hreint ekki við hann svo vel sé en almennt séð fór fiskum að fjölga verulega þegar taumurinn lengdist hjá mér, ekki bara í Þingvallavatni.

Númer 1,2 og 3 er línan, hún þarf alltaf að vera strekkt og í beinni línu útfrá þér. Ef mikið rek er þá er um að gera að kasta styttra og þegar bugt er komið á línuna þá ertu hættur að veiða. Það þarf að vera bein tenging frá fingrinum sem línan dregst eftir og til flugunnar. Línan þarf alltaf að vera í beinni línu útfrá stangartoppnum. Ef að bugt er á línunni og bleikjan tekur þá finnur maður aldrei tökuna. Tökurnar eru ofur grannar og ef ekki er brugðist við strax þá er fiskurinn búin að spýta flugunni útúr sér. Sjálfur nota ég silkiteip á fingurinn sem flugulínan dregst eftir vegna þess að oft er fingurinn stamur og maður heldur að það sé taka en svo er ekki. Þú finnur muninn þegar þú prófar… … Inndráttur þarf einnig að vera mjög hægur.

Já, mikil ósköp hef ég reynt hæga inndráttinn. Ég þekki minn þröskuld í almennri þolinmæði og veit að ég missi mig aðeins upp á stökkið eins og gæðingur á spretti. Hægi inndrátturinn minn verður oft nokkuð rykkjóttur, brokkgengur í besta falli og e.t.v. aflabrögðin eftir því.

Það þarf ekki að kasta langt. Þegar stilla er á vatninu áttar þú þig fyrst á því hversu stutt fiskurinn er frá landi. Oft hægt að háfa hann upp… …mikilvægt að vaða ekkert meira en maður þarf. Þegar ég veiði Leirutá þá veð ég ekkert í fyrstu. Fiskurinn er mjög nálægt landi þarna og ótrúlegt hvað menn eru oft að veiða fyrir framan fiskinn. Ein ‘hetjan’ tjáði mér um daginn að ég væri að veiða allt of stutt frá landi, þyrfti að vaða út þar sem ég var vegna þess að fiskurinn væri á dýpra vatni. Þennan morguninn var mikið um fisk c.a 2-3 metra frá landi og hefði verðið fásinna að vaða útá hann.

Ég sem hélt á tímabili að fiskurinn í Þingvallavatni væri eitthvað öðruvísi heldur en annar silungur. Ófáar leiðbeiningarnar um það hvar væri best að vaða til að ná nógu langt út í rötuðu inn á leslistann minn og ég göslaðist auðvitað eftir þeim. En, þegar upp var staðið þá var kannski rúmlega stangarlengd eftir af línu + taumurinn langi eftir í vatninu þegar bleikjan tók, rétt áður en ég tók upp.

Nú í sumar finnst mér Krókurinn í smáum stærðum gefa mér langbest og litlir Peacockar 12-14. Nota mest Svartan Killer, Peacock, Krókinn, Watson fancy púpu eða bara eitthvað svart latex, þá er maður í fiski. Ég nota óþyngdar flugur á grunnu vatni c.a 1 metra djúpu og þyngri annar staðar. Hnýti nær eingöngu á beina öngla fyrir Þingvelli. Veiði oftast á stærð 10 snemma í júní og svo smækka ég. En þetta er allt tilfinning. Horfa á línuna og vera viðbúin töku.

Það er alltaf gaman að heyra frásagnir manna sem maður getur samsvarað sig með hvað varðar veiði og aðferðir. Það var kannski helsta ástæða þess að mig langaði að koma þessu bréfi Jóhanns á framfæri við lesendur, ég fann mig mjög sterkt með aðferðum og nálgun hans við Þingvallavatnið. Kannski er það þessi þörf manns til að fá staðfestingu þess að maður var e.t.v. ekki að gera allt vitlaust á sínum tíma þótt illa gengi. Hæfilega mikil fylgni við allar leiðbeiningarnar, smávægilegar breytingar og fínpússning varð til þess að þetta small saman.

Kærar þakkir Jóhann fyrir þitt frábæra innlegg.

Ummæli

24.07.2012 – Árni JónssonDásamlegt að fá fleiri og fleiri til að deila visku sinni. Oft er talað um að Elliðavatn sé háskóli fluguveiðimanna, en persónulega finnst mér Þingvallavatn slungnara, svo ég tali nú ekki um fallegra og skemmtilegra. Afskaplega mikið sem að maður getur lært þarna og án þess að vera mikill sérfræðingur, þá held ég að Þingvellir séu með albestu veiðivötnum í heiminum.

Minnisbókin

Minnisbók

Að skrá afla er eitthvað sem margir veiðimenn gera. Sumir nýta sér Veiðibók.is sem er snilld og alveg í anda veiðimanna; segja frá og deila. Sumir kvitta fyrir sig á bloggsíðum eins og Veiði.is, sami andi; segja frá og deila. Fjölmargir bloggarar segja svo ítarlega frá sínum ferðum og aflabrögðum, sjá t.d. Tenglar.

En svo eru þeir sem færa nákvæmar veiðibækur, minnisbók, Excel skjal eða hvað eina sem kemur að notum og er hendi næst. Að skrá staðsetningu, tíma, aðstæður og afla er allt til þess fallið að mynda gagnabanka sem nýtist mönnum fyrir síðari veiðiferðir. Því ítarlegri sem skráningarnar eru, því betri banki verður til. Nokkur grundvallaratriði sem gott er að skrá eru; Staðsetning, tími, veðurfar og vindátt, gerð flugu, stærð flugu, fiskurinn, stærð hans og kyn. Ítarlegustu skráningar gætu svo innihaldið atriði til viðbótar eins og t.d. hitastig vatns, tunglstaða, gerð botns, gróðurfar, línu #, taumur #, lengd taums og taumaenda.

Þegar svona upplýsingar hafa safnast saman í nokkurn tíma, fara menn oft að sjá ákveðna fylgni á milli atriða sem geta hjálpað til við val á stað og stund til veiða í ákveðnum eða sambærilegum vötnum. Auðvitað kallar þetta á nokkra ögun sem auðveldara er að mæla með en ástunda. Einhver skráning er þó betri en engin.

Ummæli

12.07.2012 Siggi Kr: Ég nota veidibok.is fyrir flest allar ferðir, svo og mitt frekar auðmjúka blogg en er síðan með alveg sérstaka skruddu þar sem ég skrái allt nákvæmlega fyrir Veiðivötn.

Svar: Jæja, eigum við ekki að láta lesendur dæma um ‘hið auðmjúka blogg‘ 🙂 Kíkið á málið og skjótið nú endilega kommenti á Svarta Zulu hvernig ykkur líkar bloggið hans. Ég hef nú alltaf verið frekar hrifinn af því.

Hvenær púpur?

Púpa og þurrfluga

Það vefst sjaldan fyrir fjölhæfum veiðimönnum hvenær á að notast við púpur og hvenær straumflugur. En, svo eru þeir sem eru ekki alveg með þetta á hreinu og enn aðrir sem velta sér bara ekkert upp úr þessu. Ég tilheyri að mestu þeim síðast nefndu, ég byrja alltaf á púpu og færi mig ekki í straumfluguna fyrr en komið er í fulla hnefana. Reynum nú að æsa menn aðeins upp; Púpur eru einfaldlega fjölhæfasta, besta og skemmtilegasta agn fyrir fisk sem um getur.

Snemma að vori eru púpurnar og eðli þeirra á svipuðu róli og fiskurinn; fara sér hægt og halda sig við botninn. Í björtu veðri þegar birtufælinn fiskurinn leitar á botninn er hann í púpum. Hér á Íslandi höfum við úr tveimur, mögulega þremur tegundum smáfiska að velja til að líkja eftir við straumfluguveiðar. Við höfum á 3ja hundrað skordýra hér á landi til að líkja eftir við púpuveiðar. Hér geislar hrokinn og yfirlætið af hverju orði, en það er samt svolítið til í þessu. Þegar fæða fiska er skoðuð eru einfaldlega fleiri fiskar í íslenskum vötnum sem leggja sér skordýr til munns heldur en seiði eða hornsíli.

Einn er sá tími ársins sem ég hef ekki minnst á og það er þessi frjósami tími þegar skordýrin klekjast út í og við vötnin og silungurinn fer beinlínis hamförum. Þetta er ævintýri sem stendur því miður stutt hverju sinni, stundum bara ½ klst. í einu, en er þeim mun skemmtilegri. Að vera til staðar, leggja réttu púpuna fyrir silunginn og vera beinn þátttakandi í þessu undri náttúrunnar líður manni seint úr minni. Á þessum augnablikum renna púpu- og þurrflugumenn saman í eina sæng.

Nóg í bili, best að kíkja aðeins í straumfluguboxið og strjúka fjaðurvængjunum, ég vil hafa þær í standi ef púpurnar mínar bregðast. Auðvitað verða menn að vera opnir fyrir öllum möguleikum.

Rush

Púpuveiði

Það leyndi sér ekkert í grein minni um daginn að ég er meira fyrir púpuveiði heldur en straumflugu. Kannski er þetta bara gamla sagan um hundinn og þetta með að sitja því þegar ég byrjaði að veiða á flugu þá leið ekki langur tími þar til ég heillaðist af þessari blindu viðureign sem púpuveiðin er. Þetta er svipað og raða púsluspili, blindandi.

Annars hafa fyrstu tilraunir manna til púpuveiði oft ekki orðið upp á marga fiska, í orðsins fyllstu merkingu. Þeim sem stundað hafa straum- og/eða þurrflugu hefur oft reynst erfitt að fóta sig með púpuna, þessi litlu óásjálegu kvikindi sem kúra bara þarna niðri á botninum og hreyfast hægt eða ekki neitt yfir höfuð. Oftar en ekki hef ég verið spurður; Hvernig nennir þú þessu, það er engin action í þessu? Jú, satt, það er ekki oft mikið um að vera á meðan maður skyggnist um, les vatnið og náttúruna, velur að lokum eitthvert krílið og dregur það löturhægt inn. En, þegar svo einhver tekur skyndilega í og við tekur baráttan um yfirráðin, þá fer adrenalínið á fullt. Þetta er auðvitað ákveðin fíkn í ‚rush‘ á milli algjörar slökunar og þess að njóta náttúrunnar, rjúka síðan upp í spenningi og að lokum, þessi frábæra vellíðan sem streymir um mann þegar hann lætur undan og maður fær tekið um hann, losað fluguna og, kannski sleppt. Þetta er stormasamt samband manns og náttúru, æsingur og slökun.

Straumflugur eða ekki?

Black Ghost

Hvort á maður nú að setja straumfluguna undir eða púpuna? Sjálfur er ég meira fyrir púpuna en svo koma þessi augnablik þegar ekkert er að gerast og maður laumast í straumfluguboxin. Helst leita ég í straumfluguna þegar ekkert er að gerast í vatninu (stöðuvatninu). Litskrúðugir Nobblerar draga að sér fiskinn því er ekki að neita. Eins hafa klassíkerar eins og Dentis og Black Ghost gert ágæta hluti þegar líður á daginn, seinni ljósaskiptin þegar fiskurinn kemur upp af dýpinu og leitar að sílum á grynningunum.

En það eru fleiri ástæður til að gefa straumflugunni séns. Það er ekki almennt að stóri fiskurinn hafi orðið stór af því að éta lirfur og púpur alla sína tíð. Hér setjum við sviga utan um landsþekkta stórurriða í ákveðnum ám sem éta ekkert annað en lirfur um ævina. Hvort sem það er nú meðfæddur karakter fisksins eða eitthvað áunnið, þá er magainnihald þeirra stóru oftar en ekki aðrir fiskar, bara miklu minni. Afleidd niðurstaða þessa hlýtur að vera að ætli maður að krækja í stóran fisk, þá notar maður straumflugu sem líkir eftir seiði eða hornsíli.

Straumfluga að vori hefur verið helsta vopna margra veiðimanna. Kalt vatn, fiskurinn leitar fyrirhafnarlítillar fæðu í stórum skömmtum. Tja, ég hef reynt þetta snemma vors með frekar slökum árangri, hallast raunar meira að straumflugunni þegar ég sé sílin fara á stjá fyrir alvöru. En, þetta er væntanlega allt spurning um framboð og eftirspurn. Þegar framboðið er ekkert annað en straumfluga, þá tekur fiskurinn straumflugu, eða ekki. Ef framboðið er ekkert annað en púpur, þá tekur fiskurinn púpu, eða ekki. Hver hefur sitt lagið á þessu.

Annars er einn tími sem alltaf er spennandi með straumflugu í vatnaveiði. Þegar vatnið er að jafna sig eftir góða rigningu eða er skolað eftir mikinn framburð, þá virkar straumflugan. Mikil rigning lækkar yfirleitt yfirborðshita vatnsins þannig að skordýrin eru minna á stjái, en að sama skapi eykur rigningin súrefnið í vatninu og þá fara litlu fiskarnir og hornsílin á stjá. Stærri fiskarnir fylgja svo á eftir.

Að veiða mjónur

Mjóna

Mjónurnar (Buzzer) eiga að líkja eftir síðasta þroskastigi rykmýs sem púpu, þegar hún losar sig upp af botninum og syndir upp að yfirborðinu til að klekjast út. Einfalt, ekki satt? Við vitum að við eigum að beita þessum flugum fyrir okkur þegar yfirborð vatnsins er krökkt af tómum púpuhylkjum og við sjáum til flugnanna stíga upp af yfirborðinu. Þetta er einfalt líka, ekki satt? En hvernig eigum við svo að bera okkur að?

Á kyrrum dögum þegar vatnið gárar lítið sem ekkert notum við flotlínuna, lengjum í tauminum upp í allt að 20‘ og veiðum þær mjóu. Framsetningin er nokkuð einföld og einkennist af þolinmæði. Eftir að við höfum lagt línuna út tökum við allan slaka úr henni og tauminum. Leyfum svo mjónunni að sökkva. Undir bestu kringumstæðum ræðst silungurinn á þær á meðan þær sökkva því þá líkjast þær púpunum sem örmagnast á leiðinni upp og eru auðveld bráð. Ef og þá þegar botninum er náð, lyftum við þeim aftur upp með löngum ákveðnum inndrögum. Ekki síður möguleiki á að verða var við fisk á þessum tímapunkti, ef ekki þá leyfum við henni að sökkva aftur og endurtökum þannig leikinn þangað til við tökum hana alveg upp og köstum aftur.

Ef logið ferðast eitthvað hraðar og gáran liggur á vatninu styttum við í tauminum, kannski niður í 14‘. Undir svona kringumstæðum getum við notað okkur vindinn til að færa mjónuna til í vatninu. Köstum lítillega upp í vindinn, réttum úr línu og taum og leyfum flugunni að sökkva eins og leyfist. Hér gildir að vera ekkert að draga inn að óþörfu, flotlínan sér um að færa mjónuna, veifa henni fyrir framan silunginn. Eitt þó í lokinn, rétt fyrir upptöku er rétt að lyfta stönginni rólega um nokkur fet líkt og við gerum í púpuveiðinni. Það er ótrúlegt hve silungurinn verður oft snöggur til þegar honum finnst eins og hann sé að missa af bráðinni, jafnvel þó hann hafi verið að hnusa af henni í langan tíma en aldrei lagt til atlögu.

Ummæli

24.05.2012 – Kristinn hjá veida.is: Skemmtileg lesning hér að ofan. Það er spurning hvort búið sé að prófa þetta í Hlíðarvatni að undanförnu þegar Bleikjan hefur engu sýnt áhuga nema Rykmýinu.

24.05.2012 – Kristján: Já, ég prófaði þetta aðeins 11.maí en þá ferðaðist lognið kannski aðeins of hratt yfir til að þetta virkaði, en vel að merkja það var afskaplega lítill munur á mýpúpunni sem krækti í bleikjuna fyrir mig og alvöru mjónu, svo lítilmótleg var flugan.

Er ég of nálægt fiskinum?

Flugulínur

Eins og glöggir lesendur hafa e.t.v. orðið varir við, svona innan um annað á blogginu, þá er ég að fikra mig áfram með nýja línu, s.k. Switch línu. Þessi lína er töluvert frábrugðin öðrum línum sem ég hef notað hingað til, hún er til að mynda með mun lengri skothaus heldur en aðrar línur sem ég hef notað. Ástæða þess að ég er að reyna mig við þessa línu er einföld, sumargolan á Íslandi ferðast stundum svo hratt yfir að mér hefur reynst erfitt að eiga við hana með hefðbundnu WF línunum mínum. Að skjóta Switch línu undir eða beint upp í vindinn er bara snilld. En, þetta er ekki aðal inntak þessarar greinar.

Til að ná góðri hleðslu í stöngina með svona línu, þarf að leyfa öllum skothaus hennar að liggja úti, hér er ekkert um það að ræða að draga inn alveg upp að stangarenda. Reikningsdæmið er einfalt; ég er með 12‘ taum + 12-14‘ skothaus þannig að frá stangartoppi eru minnst 24‘ út í fluguna. Hingað til hef ég leyft mér að vaða út að dýpinu og egna fyrir fiskinn þar sem hann liggur við kantinum. Ef ég ætla að halda áfram að eiga við þennan fisk verð ég að færa mig nær landi, svo einfalt er það. Annars er ég alltaf að kasta yfir fiskinn án þess að koma flugunni nokkru sinni fyrir hann, aðeins hrekja hann undan línunni til næsta manns við vatnið.

Ummæli

22.05.2012 – Árni JónssonÉg hef einmitt verið að fikta með 40+ línu (reyndar WF) og hefur gefið fína raun. Reyndar mætti með sanni kalla hana Lots-of-weight-forward, þar sem að hún rýkur út eins kona á leið á skó-útsölu.

23.05.2012 – ÞórunnHvar er þessi skóútsala?

23.05.2012 – Kristján: Nei, Þórunn mín. Hann Árni tók bara svona til orða 🙂

Allt hefur sinn tíma

Allt hefur sinn tíma

Hefur þú einhvern tímann vanmetið tímann sem þú hefur til að egna fyrir silunginn? Ég er ekki þolinmóðasti veiðimaður landsins og hef örugglega misst af nokkrum fiskum vegna þessa. Væntanlega höfum við mun meiri tíma til að undirbúa framsetningu flugunnar heldur en við nokkurn tímann gefum okkur. Tíma er alltaf betur varið í undirbúning heldur en groddaralegra framkvæmda. Silungurinn er ekkert á óþarfa flandri ef ætið er til staðar og ekkert ógnar honum. Dæmi um það sem hann telur vera ógn eru skuggar flugulínu sem þeytist fram og til baka yfir hausnum á honum, hroðvirknislegar flugulendingar með tilheyrandi línukös eða flóðbylgjur og skrap í botngrjóti sem gjarnan fylgir óvarkárum vaðfuglum af tegundinni homo sapiens.

Að fylgjast með hegðun silungsins, hvernig hann bregst við æti sem syndir hjá eða hvernig hann týnir pöddurnar upp af botninum getur sparað okkur fjöldan allan af köstum og tilraunum með framsetningu.

Gefum okkur þann tíma sem þarf til að koma fram af hógværð og rósemi, okkur verður umbunað.

Ráð gegn valkvíða

Ég hef með tíð og tíma tekið nokkru ástfóstri við ákveðnar flugur sem verða ósjálfrátt oftar fyrir valinu en aðrar þegar ég byrja veiðina; Pheasant Tail (original og kúluhaus) og svo svartar mjónur. En þegar þessir vinir mínir bregðast þá grípur ákveðin valkvíði um sig, hvað á ég að velja næst? Þegar uppáhaldið bregst þarf ekki alltaf að sveiflast öfganna á milli. Ágætt getur verið að hafa eftirfarandi forgangsröðun í huga við flugnavalið:

  1. Breyttu um stærð. Ekki endilega alltaf minni, stærri er líka kostur.
  2. Veldu aðeins aðra lögun, stutt skott í stað langs, bústinn búkur í stað granns, stuttur búkur í stað langs.
  3. Örlitlar sveiflur í lit geta gert kraftaverk. Haltu þig við sama grunnlitinn, en með aðeins öðrum frambúk, baklit eða haus.
  4. Framsetning flugunnar skipti alltaf máli. Hvað svo sem þykir rétt hverju sinni; hægt og rólega í köldu vatni, sprækt og ögrandi í björtu veðri, þá kemur alltaf til greina að bregða út af vananum og frá öllum reglum annars lagið.

Gróðurflákar

Gróðurfláki

Fyrir mörgum eru gróðurflákarnir í vatninu hrein ávísun á vandræði og endalausar festur. Fyrir öðrum og þá helst fiskinum eru gróðurflákarnir endalaust forðabúr ætis. Eins óskemmtilegir og þeir geta verið þá eru gróðurflákarnir í vatninu heimkynni allskynns skordýra, seiða og hornsíla. Þetta veit fiskurinn og sækir óspart í þá.

Það er hægt veiða gróðurflákana án þess að vera í endalausum vandræðum. Ef vatnið er nægjanlega tært og þú sérð þokkalega til botns getur þú reynt fyrir þér þar sem gróðurinn er gysnari og/eða lænur hafa myndast í gróðrinum. Best er að nota flotlínu með tiltölulega stuttum taumi og þyngdar flugur undir þessum kringumstæðum. En svo má líka prófa eitthvað allt annað, hálfsökkvandi línu eða sökktaum en…. ekki nota sökkenda. Prófaðu að setja c.a. 1 -2 fet. af venjulegu taumaefni framan á sökktauminn þannig að flugan lyftist aðeins frá botninum, þá eru minni líkur á hún festist auk þess raskar taumaendinn gróðrinum minna. Ég hef horft á fisk fælast taumenda þegar hann skrapar leirbotn eða gróður og myndar þannig skugga eða grugg undir yfirborðinu.

Hvora aðferðina sem þú prófar, gættu þess að flugan lendi utan við gróðurinn og þú dragir hana inn og í gegn um hann, það minkar verulega líkurnar á að festa auk þess að með því egnir þú einnig fyrir fiskinn sem heldur til utan í flákanum.

Gjöfular flugur í gróðurflákum eru auðvitað Pheasant Tail, Héraeyrað, Beikir og svo Nobblerar / Damsel flugur til að líkja eftir seiðunum.

Ummæli

Siggi Kr. 30.04.2012Getur verið fínt að nota booby flugur ef gróðurinn nær ekki mjög langt upp frá botninum. Allavega í stöðuvötnum – held að booby flugur virki ekki sérlega vel í straumvatni nema það renni mjög hægt.

Urriði 01.05.2012Mér hefur gengið best að draga meðfram gróðurkantinum, ekki í gegnum gróðurinn. Svo ef gróðurinn nær ekki alveg upp í yfirborð þá strippa ég stundum léttar straumflugur yfir gróðurinn og þá skýst fiskurinn upp úr gróðrinum til að taka fluguna(ef hann er í stuði til þess).

Hörður Andri 04.05.2012Það getur verið skemmtilegt að sjá urriðann skjótast út úr gróðrinum, mér hefur stundum fundist samt stóri urriðinn vera utan í gróðrinum meira, ekki inni í flókanum. Urriði hefur e.t.v. eitthvað til síns máls með að draga meðfram kantinum.