Dulin veiði

Í haust sem leið var ég að viða að mér efni til að byggja undir grein sem þegar hefur birst hér á síðunni. Leit mín að ummælum frægra veiðimanna á kostum bestu veiðimanna sem viðkomandi hafði hitt leiddi mig að nokkrum greinum um þann goðumlíka eiginleika veiðimanna að láta lítið fyrir sér fara. Ég viðurkenni að ég var orðinn svolítið pirraður á öllum þessum hæglátu veiðimönnum sem voru dásamaðir í annarri hvorri grein sem ég náði mér í. Hvað er þetta eiginlega? Hafa þessir menn aldrei hnerrað um ævina, kveðið drundrímur með hvelli eða losað önnur búkhljóð eftir staðgóðan hádegisverð?

Þegar mesta pirringinn tók að brá af mér, þá fór ég að meðtaka eitthvað af því sem þessir menn voru dásamaðir fyrir. Það var sem sagt verið að mæra þá fyrir að eiga við fisk í návígi, fara dult á bakkanum og stunda sjónveiði (e: sight fishing) sem ku vera mikil kúnst sem ég hef sjálfur ekki lært ennþá. Ég kippti nokkrum greinum yfir í ‚lesa síðar‘ möppuna mína fyrst þessir menn voru svona frábærir, þá væri e.t.v. ekki út úr korti að tileinka sér einhverja kosti þeirra.

Ég er ekki þungstígur, þó ég segi sjálfur frá, en mér skilst að þessir menn hafi nánast liðið áreynslulaust yfir móa og mýrar. Kjarr og annar skógargróður hafi nánast vikið úr vegi fyrir þeim og svo hafi þeir beinlínis tekið á sig lit umhverfisins þannig að það var ekki nokkur leið fyrir fiskinn að koma auga á þá. Til að bæta um betur, þá hafi þeir aðeins þurft að hvísla að stönginni að setja fluguna niður einmitt 20 sm fyrir framan nefið á fiskinum. Grínlaust, þá er mikið lagt upp úr því að ná good presentation þegar á hólminn er komið þannig að öllum huliðshæfileikum veiðimannsins væri ekki sóað fyrir eitthvað klessukast. Þessi hæfileiki er ekki meðfæddur hjá veiðimönnum, hann verður að æfa og rækta eins og flest allt annað í stangveiðinni.

Það gráa ofan á svart var síðan þetta með litinn á línunni. Ég pældi mig í gegnum fjölda greina þar sem hvít lína var lykillinn, aðrar þar sem kremuð lína var málið og svo enn aðrar þar sem fölgræna línan var eina sem virkaði. Mikið var mér létt þegar ég rakst á eina þar sem höfundur tefldi fram sannfæringu í stað ákveðins litar á línu. Ef veiðimaður er nægjanlega sannfærður um að hann sé með rétta litinn á línunni, þá virkar hún, alveg sama hvernig hún er á litinn. Bingó, ég ætla að sannfæra sjálfan mig að gamla góða orange flotlínan mín sé sú eina rétta.

Þegar hingað var komið í lestri spekingaspjalla, þá var komið að þyngd línunnar. Já, einmitt, átti nú að rústa þessu öllu með því að halda því fram að þyngd línunnar yrði að vera á sléttri tölu, ég sem veiði alltaf á oddatölum. Nei, viti menn, þarna voru flestir sammála mér, oddatölur eru málið. Lína #2 er of létt fyrir spegilinn á litla stöðuvatninu, er svona meira fyrir lygna læki. Lína #4 er of þung þannig að þeir mæltu með #3. Ef það er ekki alveg jafn stillt veður, þá væri málið að færa sig upp í #5 og skrúfa kraftinn aðeins niður í kastinu, leyfa línunni að renna. Ég féll alveg fyrir því þegar einn spekingurinn viðurkenndi að hann notaði reyndar helst línu #5 af því hún hefði nægjanlegan burð til að veiða nettar straum- og votflugur, en ekki of þung fyrir örsmáar þurrflugur.

Einhverra hluta vegna, ég veit reyndar alveg hvers vegna, voru þeir nær allir sammála um að nota fluorcarbon taumaefni í stað poly. Ég ætla nú samt að halda mig við poly, skipti bara oftar um taum þannig að hann haldi nærri því sama gegnsæi og fluorcarbon. Við erum samt sammála um að nota hnútalausan frammjókkandi taum.

Þegar hér var komið lestrinum var klukkan einfaldlega orðin of margt og ég ákvað að loka tölvunni og skreiðast í bólið. Þessa nótt dreymdi mig að ég læddist í veiði á fallegum sumardegi á Íslandi. Ég hef sjaldan sofið jafn vært, rumskaði ekki einu sinni þótt fyrsta haustlægðin hamaðist í gluggatjöldunum alla nóttina.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com