Á undanförnum misserum hefur vonandi öllum lærst hvað nándarmörk eru. Hér áður fyrr, fyrir tíma þú veist hvers, þá fékk ég það stundum á tilfinninguna að nándarmörk væru algjörlega marklaust orð sem væri bara til, hefði enga merkingu. En svona lærir nú skepnan lengi sem lifir og í dag hefur þetta orð mjög ákveðna merkingu í hugum fólks.
Fiskur í vatni er yfirleitt frekar styggur. Ég segi ekki að hann sé ljónstyggur, en honum stendur stuggur af skuggum, trampi á bakkanum og gösli í vatninu, þannig að það er stundum eins gott að virða ákveðin nándarmörk ef maður eygir á annað borð von um smá viðureign.
Okkur veiðifélögunum hefur lærst það í gegnum árin að vera ekkert að troða hvort öðru um tær, halda ákveðin nándarmörk vegna flugukasta og svo vegna fisksins. Þegar lítið er um að vera og við röltum með bakkanum, skimum vatnið og leitum að álitlegum veiðistað, þá skiptumst við stundum á að vera í fararbroddi.
Þegar annað okkar hefur reynt nægju sína á ákveðnum stað, þá erum við lítið að ráfa í vatninu í áttina að hinu. Nei, við förum yfirleitt upp úr og tökum góðan sveig aftur fyrir hitt, látum vita af okkur áður en það okkar sem er að veiða leggur í nýtt kast þannig að maður verði ekki fyrir bakkastinu og sveigjum síðan rólega í átt að næsta álitlega stað. Vissulega kemur fyrir að maður staldri við og spyrji hvaða fluga sé undir, hvort einhver hafi nartað. Ef allt er dautt og ekkert í augsýn, þá getur vel verið að samráðsfundur verði tekinn á bakkanum, lokið skrúfað af kaffibrúsanum og eitthvað maulað í angist yfir aflaleysi. Það má því segja að svona nándarmörk trufli síður fisk eða félaga.
Senda ábendingu