Algeng mistök eru oft auðleyst, það eina sem þarf er að muna lausnina. Það kemur alveg eins fyrir í vatnaveiði eins og í straumvatni að slaki myndast á línunni þegar flugan nálgast bakkann eða er komin á örgrunnt vatn þar sem engin von er á veiði. Margur veiðimaðurinn freistast til þess að taka línuna beint upp í nýtt kast, með slaka og öllu. Allur slaki umfram óverulegan bug verður til þess að upptaka línunnar verður ekki eins áhrifarík eins og til er ætlast.
Til að nýta upptöku línunnar til hins ýtrasta er ágæt regla að lækka stöngina niður að vatnsborðinu og draga línuna inn til að taka allan slaka milli stangartopps og flugu af. Sú lengd línunnar sem þú dregur inn skilar sér margfalt til baka í hleðslu stangarinnar fyrir fyrsta kastið, þú ert örugglega ekki að tapa neinu þótt þú styttir þannig línuna sem liggur út frá stangartoppi.
Senda ábendingu