Eitt af því sem ég hef lítið stundað í gegnum árin er að veiða á fleiri flugur en eina og því geta málin vandast þegar maður er spurður út í heppilega uppsetningu á dropper, eða afleggjara eins og ég hef kallað þá hingað til. Slík fyrirspurn barst mér síðla vetrar og ég fór því á stúfana, leitaði til mér fróðari manna og fékk hjá þeim reynslusögur af mismunandi uppsetningum.
Það var merkilegur samhljómur meðal manna um heppilega uppsetningu afleggjara og ég læt því þessa grein frá mér með þeim fimm afbrigðum og útfærslum sem flestir nefndu. Í textanum kemur fyrir eitt nýyrði sem gaukað var að mér; aftaníossi sem viðkomandi hafði um flugu sem hnýtt er á taum sem festur er í buginn á fremri flugunni.

Að því er mér skilst er hér á ferðinni tilvalin uppsetning fyrir skrautlega fremri/efri flugu sem grípur athygli fisksins rétt áður en aftari/neðri flugan, sem oft er þyngd straumfluga eða álíka, smellur inn í sjónsvið hans.
Afleggjarinn (fremri/efri) er hnýttur á taum sem er á bilinu 20 – 50 sm sem hnýttur er með þreföldum skurðlæknahnút (Surgeon‘s Knot) á aðaltauminn eða með hefðbundnum fluguhnút í taumahring. Lengd taumsins að aftari/neðri flugunni getur verið allt frá 50 – 100 sm eða jafnvel lengri, allt eftir því dýpi sem óskað er að veiða. Á grúski mínu á veraldarvefnum rakst ég á skemmtilega skýringu á þessari uppsetningu; ef fiskurinn nartar aðeins í aftari fluguna, lengdu í kastinu og leyfðu honum að sjá fremri, skrautlegu fluguna.

Hér er á ferðinni sú uppsetning sem flestir álitsgjafar gáfu sín bestu meðmæli. Einfalt að útbúa, flækist lítið og auðvelt að stilla dýpt afleggjara. Hér er afleggjarinn, eða aftaníossinn eins og sumir kjósa að kalla hann, hnýttur með grennra fluorocarbon taumefni í bug fremri/efri flugunnar. Lengd taums að aftari/neðri flugu ræðst af því dýpi sem veiða skal á.
Uppsetningin hér að ofan minnir um margt á púpuveiði með tökuvara sem þetta vissulega er, en það er einnig hægt að nota þessa uppsetningu með buzzer eða votflugu eins og sýnt er hér að neðan.


Í þeim tilfellum sem veiða skal afskaplega litla púpu, gefum okkur að hún sé í stærð #22 eða smærri, þá getur verið afar erfitt að koma flugunni niður á botninn. Með þessari uppsetningu er notast við þunga púpu sem fremri flugu og stuttan afleggjara (aftaníossa) fyrir smávöxnu fluguna. Með þessu móti má koma smávaxinni flugu niður á botninn, sem leikur þau laus í taum sem er á bilinu 20 – 50 sm.

Nú treysti ég mér ekki að segja til um ástæðu þess að þessi uppsetning fékk frekar dræmar undirtektir hjá álitsgjöfum. Einn nefndi að hún væri stundum til vandræða, sagði að púpan ætti það til að vefjast um tauminn að þurrflugunni og draga hana niður undir yfirborðið.
Hér er efri/fremri flugan höfð í taum sem nær u.þ.b. ½ dýptar vatnsins og afleggjarinn er hafður á taum sem er 1,5 x dýpinu. Þetta helgast af því að þurrflugan virkar í raun sem töluvari og neðri flugan þarf sína umframlengd í taum til að ná niður á æskilegt dýpi.

Uppsetning þar sem aftari/neðri flugan er hnýtt í auga þurrflugu eða rétt framan við hana. Lengd að afleggjara ræðst af dýpinu sem veiða skal, yfirleitt þó ekki mikið meira en 120 sm.
Ummæli og undirtektir við þessa uppsetningu voru nokkuð misjafnar. Margir mæltu með þessu umfram það að festa aftari/neðri fluguna við tauminn, svo lengi sem þess væri gætt að hafa afleggjarann ekki svo þungan að hann drægi þurrfluguna niður. Aðrir sáu þessari uppsetningu allt til foráttu; flækjugjarnt, flotbani o.s.frv.
Senda ábendingu