Flýtileiðir

Endalaus umræða

Hvert einasta vor má lesa orðahnippingarnar á samfélagsmiðlum þegar myndir af fyrstu fiskunum fara að detta inn, hnippingarnar halda síðan áfram svo lengi sem fiskur kemur á land og er ekki skilað aftur í vatnið. Ég á nú frekar von á að þetta verði raunin á næsta ári, ekki nema þá veiðimenn fari að pukrast með myndir af ljómandi fallegum fiski sem er á leið á pönnuna. Já, ég ætla aðeins að velta mér upp úr þessari endalausu umræðu sem á sér stað á milli þeirra sem aðhyllast skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og þeirra sem telja hreint enga skynsemi í því að drepa fisk.

Af orðfæri þeirra sem koma mér fyrir sjónir sem æðstuprestar veiða og sleppa má ráða að það sé komið að þolmörkum þeirra á umburðalyndi fyrir því að sjá blóðgaðan fisk. Það hét í mínu ungdæmi að vera að andskotast í fólki að gera lítið úr því opinberlega og er engum til framdráttar. Slakið aðeins á og færið rök fyrir máli ykkar í stað þess að slá um ykkur fullyrðingum án þess að þekkja nægjanlega vel til.

Orðfæri þeirra sem veiða og deyða er heldur ekkert sérstaklega málefnalegt á köflum og beinist oftar en ekki að þeim sem kallaði eru snobbveiðimenn sem mér skilst að séu þeir sem veiða á flugu og koma helst að sunnan. Ég þakka bara pent fyrir mig, fluguveiði er sú veiðiaðferð sem ég finn mig best í og hefur ekkert með snobb að gera, í það minnsta ekki í mínum huga. Ef ég væri haldin einhverju veiðisnobbi þá væru væntanlega ekki jafn margir af mínum bestu veiðifélögum veiðimenn sem veiða lítið eða ekkert á flugu.

Að öllum orðahnippingum slepptum, þá eru gild rök fyrir veiða og sleppa, en þau eru ekki algild. Að sama skapi eru gild rök fyrir því að sleppa því að veiða, en þá missir auðvitað einhver spón úr aski sínum og því er sá kostur sjaldan nefndur til sögunnar.

Upprunalega hugmyndafræðin á bak við veiða og sleppa byggir á því að vernda fiskistofn í á eða vatni þannig að til staðar verði nægur fjöldi einstaklinga til að viðhalda og helst auka við stofnstærðina. Þegar þetta er gert á réttan hátt, hefur það sannað sig að vera afar öflug leið til að auka viðkomu fiska og verðmæti veiðisvæðis til útleigu og/eða veiðileyfasölu, um það er engum blöðum að fletta.

Líkt og með marga aðra hugmyndafræði hafa aðrir tekið hana upp á sína arma og úrfært að eigin markmiðum. Einn afleggjari veiða og sleppa hefur ekkert með veiða að gera, aðeins sleppa. Sú fræði byggir á því að hætta alfarið allri nýtingu dýra til manneldis og hefur oft verið kennd við Vegan-lífstíl. Ég þekki í raun afskaplega lítið til þessa lífstíls, en geri mér grein fyrir grundvallaratriðunum hans og því hallast ég á þá skoðun að fylgjendur hans ættu alfarið að sleppa því að veiða. Hér ætla ég að láta ógetið þeirrar stundar sem ég sá Vegan veiðimann stunda stangveiði og leggja afla sinn í púkkið, en hafna síðan tiltekinni hafraköku með kaffinu vegna þess að hún var ekki Vegan.

Lög og reglur hafa fylgt mannskepnunni frá örófi alda. Elstu dæmin eru trúarbrögð þar sem boð og bönn voru snyrtilega útfærð í fyrirmælum æðri máttarvalda og fólki innprentað sjálfvirkt samviskubit færi það á svig við þau. Þessari aðferðafærði hefur því miður aðeins verið beitt þegar kemur að veiða og sleppa, þetta sé hið eina siðferðilega rétta og öll frávik skuli litinn hornauga til að framkalla samviskubit þess brotlega. Veiðieðli mannskepnunnar er töluvert eldra heldur en trúarbrögð mannkynssögunnar og því engin ástæða fyrir veiðimenn að fyrirverða sig ef þeir finna fyrir þörfinni að veiða sér og sínum til matar. Í stóra samhenginu munar aldrei svo um einn eða nokkra fiska til átu úr náttúrulegum fiskistofni sem á annað borð má pirra með stangveiði. Ef stofninn er svo illa haldinn að ekki megi taka úr honum stöku einstakling, þá ætti að friða hann algjörlega. Ég hvet veiðimenn til að velja sér veiðisvæði þar sem taka má fisk, ástunda sleppingar að eigin vali eða þegar afla í máltíð hefur verið náð.

Eins og ég nefndi hér áður, þá eru rök fyrir veiða og sleppa ekki algild og eiga alls ekki við allsstaðar. Eitt dæmi um það eru veiðar þar sem fiski hefur eða er sleppt í áður fisklaus vötn. Víða háttar því þannig til að fiskur nær ekki að fjölga sér með náttúrulegum hætti og einmitt þess vegna hafa þau verið fisklaus. Dæmi um þetta eru flest vötn í Veiðivötnum á Landmannaafrétti og því fráleitt að sleppa þar fiski ef hann er á annað borð kominn í matstærð. Mitt álit er að aðeins þau tvö vötn þar sem Veiðivatnaurriðinn getur fjölgað sér í eigi að vernda ef upp kemur sú staða að stofninum sé hætta búinn. Það hefur og verið gert eftir gengdalausa ofveiði á árum áður. Þá var reyndar gengið lengra en veiða og sleppa, vötnin voru alfarið friðuð og það skilaði sér.

Augljóst dæmi um vötn eða ár þar sem veiða og sleppa á ekki við er þar sem fiskistofn er of stór miðað við framleiðni svæðisins. Dags, daglega eru þessi svæði nefnd ofsetin. Sem dæmi um slík svæði má nefna lokuð bleikjuvötn og ár með takmarkaðri framleiðni sem stundum má rekja til sleppinga seiða umfram burðarþol þeirra. Þetta á við um sleppingar allra laxfiska; bleikju, urriða og lax.

Lengi vel höfum við haft litlar áhyggjur af innrás framandi fisktegunda hér á landi, en nú er öldin önnur. Flundru varð hér fyrst vart í Ölfusá árið 1999 og árið 2017 hafði útbreiðslusvæði hennar náð hringinn í kringum landið. Flundru sleppum við ekki. Annar skolli hefur trúlega verið viðloðandi strendur landsins frá því hann veiddist fyrst í Hítará á Mýrum árið 1960. Hér er ég að tala um hnúðlax sem nú hefur orðið vart í ám hringinn í kringum landið. Þó skiptar skoðanir séu á því hvort hnúðlax geti orðið að nytjastofni hér, þá er hann framandi fisktegund sem stefnt getur staðbundnum fiskistofnum í hættu og því sleppum við honum ekki, hvað sem hver segir.

Ef einhver hefur haft dug í sér eða nennu til að klára lestur þessarar greinar og hefur enn ekki fengið nóg, þá er meira efni byggt á sama grúski mínu handan við hornið. Já, þetta er endalaus umræða.

2 svör við “Endalaus umræða”

  1. Jón Helgi Þórisson Avatar
    Jón Helgi Þórisson

    Fín grein. Þegar fjallað er t.d.um mataræði eins og trúarbrögð þá er ekkert rúm eftir fyrir skynsemi. Allir verða tjargaðir og fiðraðir sem eru ósammála bókstafnum. Í staðinn fyrir boð og bönn er oft hægt að beina tilmælum til fólks og flestir fara eftir þeim.

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Einmitt, tilmæli og smá skammtur af umburðarlyndi gera oft kraftaverk.
    kv. Kristján

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com