Púpur á dýpi

Þegar púpurnar fara á kreik í vatninu er um að gera að taka vel eftir hegðun þeirra, litbrigðum og því hvar í vatnsbolnum þær halda sig. Svo má prófa sig áfram með veiðiaðferð.
Smellið fyrir stærri mynd

Veiða djúpt Áfram veiðum við með flotlínu, en í þetta skiptið með þyngdum púpum rétt fyrir utan og í kantinum. Taumurinn þarf að vera nokkuð langur, 18 – 25 fet. Eftir kastið verður að gefa mjög góðan tíma áður en inndráttur hefst með því að víxla línunni á milli fingra sér, hægt og rólega, ekki ólíkt því að við værum að veiða lirfur eins og t.d. Blóðorm. Umfram allt, inndrátturinn á jafnvel að vera hægari en þið í raun teljið hæfa.

Púpur og hægur inndráttur

Þegar púpurnar fara á kreik í vatninu er um að gera að taka vel eftir hegðun þeirra, litbrigðum og því hvar í vatnsbolnum þær halda sig. Svo má prófa sig áfram með veiðiaðferð.

Smellið fyrir stærri mynd

Hægur inndráttur Ólíkt dauðu reki er hægt að nota hægan inndrátt þótt vindinn vanti. Aðferðin á vel við þar sem púpurnar eru á sveimi í dýpra vatni en 1,5 m þó ekki mikið dýpra en á 4 m. Sem áður er best að nota flotlínu, þó með nokkuð lengri taum (10 – 15 fet), leyfið púpunni að sökkva á tilgreint dýpi og hefjið þá rólegan inndrátt, 5 sm í einu með 5-10 sek. pásum á milli. Gerið tilraunir með mismunandi dýpi, gott að nota niðurtalningu. Búast má við nettum tökum og því um að gera að vera á tánum.

Púpur og dautt rek

Þegar púpurnar fara á kreik í vatninu er um að gera að taka vel eftir hegðun þeirra, litbrigðum og því hvar í vatnsbolnum þær halda sig. Svo má prófa sig áfram með veiðiaðferð.

Smellið fyrir stærri mynd

Dautt rek Þessi tækni er tilvalinn ef púpurnar halda sig á u.þ.b. 1,5 metrum eða grynnra. Best er að nota flotlínu með 8 – 12 feta taum, grönnum taumenda (5x eða 6x) og óþyngdar púpur. Kastið upp í eða þvert á vindinn og leyfið línunni einfaldlega að reka með vindi, gætið þess aðeins að taka inn allan slaka á línunni því tökurnar eru afskaplega nettar og því er um að gera að geta bugðist hratt við. Ágætt tilefni til að nota tökuvara.

 

Misbrestur – Asi á flugunni?

Það er einkennileg árátta hjá manni að leyfa flugunni ekki að vera í vatninu. Asi á flugunni þýðir að hún eyðir skemmri tíma í vatninu og meiri í loftinu, hvað þá þegar maður notar fleiri en 1-2 falsköst til að koma henni á sinn stað. Þá er tvennt í stöðunni; hægja á inndrættinum og fækka falsköstum.

 • Einhver algengustu mistök veiðimanna er of mikill hraði í inndrætti. Hægðu á þér, það er sjaldnast að við séum að veiða með eftirlíkingu af sprettfiski, lirfur og bobbingar hreyfa sig merkilega lítið.
 • Fluga þarf að vera á eða í vatninu til að veiða. Fækkaðu falsköstum, þá eyðir flugan meiri tíma í að veiða.

 

Misbrestur – Slök lína

Smellið fyrir stærri mynd

Slakur veiðimaður gerir færri mistök en sá spennti. En því er hreint ekki þannig farið með línuna, slök lína fjölgar mistökunum. Ég hef heyrt margar ágiskanir um fjölda fiska sem við missum af vegna þess að línan er slök og við annað hvort finnum ekki eða erum allt of sein að bregðast við þegar fiskur tekur.

– Ef fluguna rekur, fyrir vindi eða straumi, gættu þess að taka slakann af línunni þannig að þú takir örugglega eftir þegar hann nartar.
– Ef þú sérð illa til, settu tökuvara á áætlaða dýpt og dragðu inn þar til tökuvarinn hreyfist. Þá ertu á tánum.

Vikuskammtur af ráðum

Það eru til ráð og leiðbeiningar fyrir öllu. Hér á eftir fara 7 örugg ráð til að brjóta veiðistöngina sína með einum eða öðrum hætti.

 

1. Skelltu bílhurðinni á hana

Það eru engin ný sannindi að bílar og veiðistangir eiga ekkert rosalega vel saman. Ef þú vilt vera nokkuð viss um að brjóta stöngina þína, leggðu hana frá þér í opna gátt á bíl, helst í roki eða sterkri gjólu. Ef þú ert ekki alveg eins öruggur um að vilja brjóta hana, lokaðu fram hurðunum og notaðu kverkina á milli spegils og hurðar í staðinn. Mundu bara hvar stöngin er þegar þú svo opnar hurðina.

2. Leggðu stöngina frá þér á jörðina

Stangir sem liggja flatar á jörð eru upplagðar til að stíga á og brjóta. Best er að hafa eitthvað hnökrótt undir, s.s. steina, möl eða stórgrýti.

3. Láttu stangarendann vísa fram á göngu

Ótrúlega einfalt ráð til að brjóta stangarendann. Notaðu tækifærið þegar þú ert að færa þig á milli veiðistaða og gerðu þitt ýtrasta til að halda stönginni í lágréttri stöðu, með stangarendann fram. Dreifðu svo athyglinni út um víðan völl, þá getur þú verið nokkuð öruggur um að þú hrasir og stingir endanum niður, krass.

4. Notaðu stöngina til að losa festur

Kastaðu naumt, helst í mikinn gróðurfláka eða gamla girðingu sem liggur hálf í kafi. Þegar þú ert svo búinn að festa vel og tryggilega, notaðu stöngina til að reyna að losa. Fyrst létt, síðar ákveðið og að lokum með miklu offorsi. Þú getur verið nokkuð viss um að eitthvað gefi eftir og ef þú ert heppinn þá er það stöngin, ekki hnúturinn. Ekki láta þér til hugar koma að taka í línuna/girnið til að reyna að losa, þá missir þú af upplögðu tækifæri til stangarbrots.

5. Ekki setja stöngina nógu vel saman

Ef þú setur stöngina þína saman með hálfum huga og aðeins að hálfu leiti þá átt þú ágætis möguleika á að brjóta hana með góðu kasti. Láttu helst skrölta aðeins í samsetningunni, þá hefst þetta miklu fyrr. Gott ráð er að að hunsa samsetningarnar algjörlega allan daginn, láttu eins og þær séu ekki til.

6. Notaðu MJÖG þungar flugur

Notaðu mjög þungar flugur fyrir léttu stöngina þína og kastaðu eins og þú byrjaðir að kasta. Leyfðu hvorki fram- né afturkasti að klárast, kastaðu með þröngum boga þannig að þú getir verið viss um að flugan sláist í stöngina og merji hana á viðkvæmum stað.

7. Ekki ganga frá henni, heldur á henni

Ekki vanda til geymslu að hausti. Ágætur staður er með garðverkfærunum og snjóskóflunni í skúrnum og blessaður/blessuð ekki vera að hafa fyrir því að taka hana sundur. Röð tilviljana klárar svo málið fyrir þig og stöngina.

Haustverkin

Þegar veiðitímabilinu lýkur á haustinn er rétt að yfirfara búnaðinn og ganga frá honum til geymslu. Margir nota tækifærið til að lagfæra það sem látið hefur undan á vertíðinni og síðast en ekki síst, setja saman óskalistann fyrir jólinn. Hér á eftir fara nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga þegar vertíðinni lýkur. Vel að merkja, geymslan á að vera hæfilega köld og þurr „Store in cool and dry place“.

Byrjum á stöngunum. Áður en stangirnar fara í geymslu er vert að gefa gaum að lykkjunum. Lausar eða skaddaðar lykkjur skal lagfæra eða skipta um. Ójöfnur og brot í lykkjum skemma girni og línur á mjög skömmum tíma. Rétt er að þrífa stangirnar sjálfar með volgu sápuvatni, tannbursta úr lykkjunum og strjúka létt yfir þær með bóni. Fyrir nokkru fékk ég ábendingu frá eldri veiðimanni um að láta lönd og leið allar hugmyndir um að kaupa sérstakt bón; „Notaðu mælaborðahreinsi frá Sonax, bæði á stöngina og flugulínuna“. Ráð sem hefur reynst mér vel, viðnám stangar og línu minnkaði verulega, mun betra rennsli. Þegar þú ert búinn að bóna stöngina er eins víst að eitthvað af bóninu hefur lent á korkinum. Þá er einmitt tilvalið að þrýfa hann með svampi og volgu sápuvatni. Korkur er ekki viður, heldur börkur og þolir ekki mikla fitu eða viðarolíu þannig að forðast ætti slíka meðhöndlun. Ef korkur er orðinn verulega ljótur má strjúka lauslega yfir hann með blautum, fínum sandpappír og venjulegri handsápu.

Best er að geyma stangirnar í hólkum sem komið er fyrir á öruggum stað, helst inni í skáp eða föstum á vegg. Lausar stangir í geymslum eiga það til, eins og allt annað að detta á gólfið og þá er eins víst að stigið verði á þær og …… Sjálfur útbjó ég mér hólk úr 70mm svörtu plaströri sem geymir kaststangirnar okkar hjóna, hólkur sem nýtist mér á ferðalögum og sem geymsla á veturna.

Kasthjól þarf yfirleitt að annast meira en fluguhjól. Eðlilegt viðhald er einfaldlega að þrýfa þau og smyrja reglulega. Gættu þess vel að ná burt öllum sandi sem sækir sérstaklega í smurning. Vatn er ekki óvinur veiðihjóla, salt er það aftur á móti. Skolaðu vel af hjólinu í volgu vatni og leyfðu því að þorna áður en þú smyrð það upp á nýtt. Notkun plastefna í veiðihjólum hefur aukist mikið og því ætti að gæta þess að nota sýrulausa olíu og feiti (t.d. Vaseline). Minna er oft betra en meira, of mikil feiti dregur að sér sand og óhreinindi. Áður en þú gengur frá hjólinu, vertu viss um að taka bremsuna alveg af. Bremsa á hjóli getur skekkt legur og valdið því að allt sitji fast næsta vor.

Sumir ganga svo langt að henda öllu girni í lok veiðitímabilsins, segja að það lifi ekki veturinn, verði ónýtt að vori, stökkt og slitni við minnsta átak. Allt er þetta rétt og satt, upp að vissu marki. Gott girni geymist auðveldlega yfir veturinn sé það á annað borð ekki þegar orðið dapurt. Gættu þess aðeins að hlífa því fyrir sólarljósi og það sé ekki rakt þegar það fer í geymslu. Ég rak augun í grein þar sem veiðigúrú mælti með því að taka girnið af hjólinu, renna því í gegnum klút vættum í silicone hreinsiefni og setja það upp á lausa spólu og geyma það þannig yfir veturinn. Er að spá í að prófa þetta sjálfur í vetur. Silicone á víst að koma í veg fyrir að olíurnar gufi eins hratt upp úr girninu sem er ein helsta ástæða þess að það skemmist.

Fluguhjólin okkar eru yfirleitt betur varin en kasthjólin en auðvitað verðum við að sinna almennum þrifum á þeim eins og öðrum búnaði. Meira að segja dýrustu hjólin þurfa sitt viðhald, ekkert síður en þau ódýru. Gættu að smurningi og þurrkaðu vel öll óhreinindi utan af hjólinu. Þá kemur sér stundum vel að vera með tuskuna úr bóninu fyrir stangingar við höndina.

Hvort sem við erum að ganga frá flugulínunni okkar til geymslu yfir vetur eða aðeins fram að næstu veiðiferð, þá skal alltaf hugsa vel um hana. Haltu línunni hreinni með því að þvo hana reglulega upp úr volgu sápuvatni og bónaðu hana (sjá komment hér að ofan um Sonax). Það fyrsta sem ég skoða er samsetning lykkju við flugulínu. Ef minnsta brot er komið í samsetninguna þarf að lagfæra hana eða skipta um. Brot í samsetningu getur hleypt vatni að kjarnanum sem ruglar þyngd hennar. Og nú koma tiktúrurnar í mér (ykkur er frjálst að vera ósammála); Ekki nota tonnatak til að gera við línur, lykkjur eða tauma. Tonnatak verður stökkt þegar það þornar og brotnar á mjúku yfirborði. Sjálfur nota ég lím sem ætlað er fyrir tjarnardúka (Oase contact) sem harðnar ekki að fullu. Annað lím fyrir PVC hentar örugglega eins vel.

Hörðustu fluguveiðimenn segja að aldrei skuli geyma línur á kasthjólum vegna þess að allar línur „muna“ að meira eða minna leiti og vilja því hringa sig í köstum eftir einhverja geymslu. Það er minni hætta á svona hringamyndun á ‚Large Arbor‘ hjólum og þar sem rífleg undirlína er til staðar, en samt er best að hringa línuna út af hjólinu í viðráðanlega hönk u.þ.b. 20 sm víða og geyma hana þannig yfir vetrartímann. Og auðvitað gætum við þess að fluglínan fari aldrei rök í geymslu eða verði fyrir aðkasti sólar.

Vöðlurnar okkar eru oftast af tveimur gerðum; Neoprene eða öndunarvöðlur. Áður en öndunarvöðlurnar eru settar í geymslu er rétt að þvo þær skv. leiðbeiningum framleiðanda þ.e. ef það er í lagi yfir höfuð og rúlla þeim upp til geymslu. Ekki brjóta þær saman því brot geta framkallað leka.

Neoprene vöðlur eru þyngri viðfangs, ekki má setja þær í þvottavél, notið milda sápu og mjúkan bursta til að fjarlægja erfiðustu blettina og skolið vel af þeim með köldu vatni. Vöðlur með áföstum stígvélum er gott að hengja upp á hvolfi og þá gjarnan þar sem sól nær ekki til.

Í lok sumars hefur filtið á vöðluskónum okkar eyðst eitthvað og því er rétt að skoða það sérstaklega vel áður en gengið er frá þeim fyrir veturinn. Ýmsar skóvinnustofur geta verið okkur innan handar við sólun vöðluskóa og stígvéla.

Yfirleitt láta spúnarnir okkar aðeins á sjá yfir eftir sumarið. Ryð fer að gera vart við sig, krókar deigast eða jafnvel brotna. Skiptu um þríkrækjur og hringi sem eru ónýtir og strjúktu af spúnunum með klút vættum í maskínuolíu (saumavélaolíu). Ekki fjarlægja ryðbletti með vírbursta eða sandpappír, það kallar eins fram meira ryð næsta sumar.

Hér gefur að líta einn algengasta orsakavald myglu í veiðiboxinu. Ekki gleyma að yfirfara flotin, tæma þau sem hægt er af vatni og henda þeim sem eru brotin. Rakinn sem flot smita frá sér í geymslu getur skemmt ýmsa góða og verðmæta muni á einum vetri.

Það er ýmislegt annað sem fylgir okkur, s.s. háfurinn. Hvort sem hann er úr málmi eða timbri, þá þarfnast hann viðhalds og eftirlits. Háfar úr málmi eiga það til að fyllast af vatni sem menn ættu að reyna að tappa af áður en þeim er komið í geymslu. Tréháfa ætti að olíubera á hverju hausti með góðri viðarolíu (tekkolíu) og munið líka eftir að þrífa netið með mildum þvottalegi.

Og að lokum er hér eitt sem ekki á að setja í geymslu yfir veturinn. Sem mikill áhugamaður um fluguhnýtingar mæli ég ekki með að pakka fluguboxinu niður fyrir veturinn. Hafðu það á vísum stað, hnýttu þær sem vantar í safnið, prófaðu einhverjar nýjar og farðu reglulega yfir boxið því þig vantar örugglega alltaf einhverjar skemmtilegar í safnið.

Nú er það svo að svona samantekt getur verið eins manns verk, en efnið kemur víða að, úr bókum, af netinu eða beint frá einstaklingum. Of langt væri að telja upp alla viskubrunnana, en Tryggvi Hilmars. fær þakkir fyrir punkta og ábendingar um efni á bloggið.

Vatnaveiði

Fluguveiði í vötnum á sér langa sögu, einna helst á Bretlandseyjum en það var ekki fyrr en upp úr miðri síðustu öld að menn fóru að kynna sér með markvissum hætti mismun fluguveiða í ám og vötnum. Hér á landi hefur orðið veruleg aukning í vatnaveiði síðustu ár. Engu að síður eru ennþá 80% veiðimanna sem hugsa mest um fluguveiði í ám. Af þeim er ríflega helmingur sem ekki formar að veiða í vötnum, aldrei.  Kannski ráða hér einhverju þau ummæli veiðimanna að vatnaveiði sé ekki allra því hún krefjist kunnáttu og innsýnar í atferli fisksins, eitthvað sem er ekki eins áríðandi í ám. Nú er ég lítið dómbær á þessar fullyrðingar, hef lítið sem ekkert stundað veiði í ám, en vissulega kannast ég við þá tilfinningu sem hreiðrar um sig innra með mér þegar ég kem að vatni í fyrsta skiptið og horfi yfir víðáttuna; Andsk…, hvar ætli hann haldi sig?

Þrátt fyrir áberandi skort á bókum um fluguveiði í vötnum er hægt að viða að sér ógrynni fróðleiks um vatnaveiði á ýmsum stöðum.  Hér á eftir ætla ég að leitast við að koma í orð einhverju af þeim ráðum og leiðbeiningum sem ég hef sankað að mér úr riti og ræðu síðan veiðibakterían greip mig. Mögulegar geta þessar leiðbeiningar orðið einhverjum stuðningur í að svara spurningunni hér að ofan. Munið aðeins eitt, þetta eru ekki reglur fyrir vatnaveiði, aðeins leiðbeiningar. Vel að merkja, það er aðeins til ein regla í veiði og hún er; Það er engin regla.

  Kort

  Áður en lagt er af stað er gott að nálgast allar tiltækar upplýsingar um vatnið. Ýmsar bloggsíður ásamt vefsíðum veiðifélaga luma á góðum ráðum um flugnaval og veiðistaði. Þessu til viðbótar höfum við núorðið nokkuð gott aðgengi að loftmyndum á netinu sem gefa okkur góða yfirsýn yfir dýpi og gróðurfar í vötnum. Má þar nefna Google Mapsja.is og Kortasjá Landmælinga

  Hér er ég búinn að útbúa kort af vatni og merkja inn á það staði sem ég vísa til í næstu greinum um vatnaveiði.

  Þekktu fiskinn

  Vatnaveiði á Íslandi bíður okkur yfirleitt upp á tvær tegundir vatnafisks; urriða og bleikju. Formsins vegna verð ég að nefna laxinn líka, en fæstir raunsæir veiðimenn leggjast í vatnaveiði til að fanga lax.

  Laxinn er kræsnastur allra laxfiska hvað varðar hitastig vatns og súrefnisinnihald, vill hlýtt og auðugt vatn en urriðinn sættir sig við aðeins kaldara vatn með minna súrefni.  Nægjusömust er bleikjan, sættir sig við kaldara vatn og mun lélegra fæði. Talið er að urriðinn gefi eftir þegar fæða er af skornum skammti og leitar hann þá oft nýrra heimkynna. Þetta virðist stangast á við þá staðreynd að urriðinn er svo kallaður óðalsfiskur, þ.e. hann helgar sér oft óðal í vatninu þaðan sem hann hreyfir sig eins lítið og unnt er. Bestu óðulin er eru oft setin af stærri fiskum sem verja þau með kjafti og klóm fyrir ungliðunum sem vilja tryggja sér sem mesta fæðu með sem minnstri fyrirhöfn. Þannig vill það til að ef við finnum gott óðal og krækjum í þann stóra, þarf ekki að líða langur tími þar til við náum öðrum urriða á sama stað. Oft er þá um aðeins minni fisk að ræða, m.ö.o. ungliði sem sætti færis að komast að góðu óðali þegar við höfðum krækt í fyrrum húsbóndann. Það er mín reynsla að innan við 1 klst. frá því að maður tók þann stóra er nýr aðili sestur að óðalinu. Innan þessa klukkutíma er oft hægt að egna fyrir ungliðana sem berjast um óðalið.

  Komi urriðinn ekki upp um sig með uppitökum getur verið ótrúlega erfitt að finna hann, jafnvel í litlum vötnum. Engar uppitökur geta gefið okkur vísbendingu um að hann sé í öðru æti en við yfirborðið og koma þá smáfiskar og síli til greina. Eitt verðum við þó að hafa í huga, óðal hvers urriða er oftast ekki stórt í sniðum, mögulega 15-20 m í þvermál, hugsanlega 50 m spilda meðfram vatnsbakkanum sem hann nýtir sér til fæðuöflunar (Kort – A).  Ekki er nú verra ef einhver gróður er á landareigninni þar sem hann getur falið sig að deginum til og skotist í veiðiferðir þegar skyggja tekur.

  Bleikjurnar á Íslandi skiptast í fjögur afbrigði; dvergbleikju, murtu, kuðungableikju og sílableikju. Það er óvíða sem öll afbrigðin fjögur koma saman í einu vatni, en eitt þeirra er þó Þingvallavatn. Síðast nefnda bleikja, sílableikjan er næstum eins mikill ránfiskur og urriðinn enda stærst allrar bleikju. Hún leggur sér til munns síli og seyði annarra tegunda, liggur almennt mjög djúpt í vötnum innan um gróður og sætir lagi að hrifsa smáfisk sem syndir hjá. Kuðungableikjan sækir meira í smádýr; bobba, krabbadýr, kornátu og vatnsfló auk flugna á öllum þroskastigum. Sumir ganga svo langt að segja að bleikjan éti nánast allt sem að kjafti kemur, sem er auðvitað bara skemmtilegt fyrir okkur fluguveiðimennina því þá höfum við úr nánast óendanlegum fyrirmyndum af flugum að velja.

  Þegar kemur að dvergbleikjunni er einfaldast að segja að hún heldur sig á minna dýpi en murtan, étur aðallega bobba og smágerð krabbadýr á meðan murtan heldur sig í öllum vatnsbolnum og telst til sviflægra fiska.

  ‚Sjaldan er ein bleikja stök‘ snéri einhver útúr málshættinum og þetta má alveg til sannsvegar færa.  Á meðan urriðinn heldur sig heima við, er bleikjan á sífelldu iði og flakkar um vatnið í torfum, einstaklega félagslynd og hefur orðið uppvís að töluverðum ferðalögum sé hún á eftir æti.  Þegar maður lendir í svona bleikjuskoti getur verið á í hverju kasti og svo, ekkert.  Ekki örvænta, það getur verið stutt í næstu torfu. Bleikjan á það einnig til að liggja á grynningunum og úða í sig smádýrum, svo fremi hún telji sig örugga. Oft þyngist í bleikjunni þegar kemur að hrygningu og hún leitar á meira dýpi.

  Fiskur verður seint talinn til skörpustu lífvera þessa heims.  Að nokkru leiti má líkja fiski við hvítvoðung.  Eðlishvötin ræður mestu um atferlið, hvíld tekur við af athöfn, svengd kallar á fæðu, áreiti er svarað með gagnárás og forvitninni er oft svalað með því að smakka á hlutunum.  Þetta getum við nýtt okkur í veiði.  Fiskur tekur flugu af þremur ástæðum; svengd, forvitni eða árás gegn einhverju sem hann telur ógna sér.

  Hitastig og veðurfar

  Virkasti tími silungs fer mikið eftir hita- og birtustigi. Utan þess að urriðinn er birtufælnari heldur en bleikjan, þá fara silungar helst á stjá þegar breyting verður á veðri eða í ljósaskiptunum.  Það er vel þekkt að silungurinn leitar upp á grynningarnar (Kort – B) í ljósaskiptunum og er þá oft í góðu færi og æstur í æti.  Veiði í ljósaskiptum fer oft rólega af stað, smæstu fiskarnir koma fyrst en svo kemur hvellur.  Eflaust hafa einhverjir upplifað þennan hvell og svo ördeyðuna sem tekur við af honum. Þá er ekki úr vegi að setjast niður og fá sér einn kaffibolla, hnýsast fyrir um veiðnustu flugurnar hjá veiðifélögunum og ýkja aðeins stærðina á þeim sem slapp með sporðaköstum og látum.  Fyrir alla muni, ekki hætta nema þú sért saddur þann daginn, því eftir smá tíma kemur annar hvellur.  Það er nefnilega þannig að silungurinn reiknar nákvæmlega út hversu mikla orku hann notar við fæðuöflun og þess sem hann nær að éta í hverri ferð.  Á meðan ætið safnast aftur saman á góðum veiðistað, hvílir silungurinn sig rétt utan svæðisins og leggur síðan til næstu atlögu.  Ef varlega er farið að svona stöðum getur góð veiði staðið alla nóttina, allt fram til morguns.

  Allt tengist þetta þó hitastigi vatnsins, það lækkar í ljósaskiptunum og það getur líka gert það yfir há-daginn ef ský dregur skyndilega fyrir sólu eða létt kul tekur við af logni. Nýttu þér veðrabrigðin og sé sólríkt og hlýtt, leitaðu fisksins í skuggunum á vatninu eða undir bökkunum. Háir klettar varpa oft góðum skugga á vatnið sem laða að sér fisk (Kort – C).

  Að spá fyrir fiski

  Framrúðan og húddið á bílnum okkar gefa okkur oft góðar vísbendingar um lífið við vatnið.  Ekki láta undir höfuð leggjast að gefa lífinu gaum á meðan þú gerir þig og stöngina klára í veiði.  Veltu við steinum og sjáðu hvað pollarnir hafa að geyma. Þá fyrst geta spádómarnir hafist og við getum farið að virða vatnsflötinn fyrir okkur.  Fiskur gerir mun oftar vart við sig heldur en ætla mætti. Örlítil, eða stór, sportöskjulaga gára á vatninu segir okkur að fiskur sé á ferð. Gára er sjaldnast fullkomlega hringlaga heldur sporöskjulöguð. Þrengri hluti gárunnar vísar okkur í þá átt sem fiskurinn stefni í.  Skimaðu lítið eitt lengra í þá átt og reyndu að meta tímann sem líður þar til næsta gára birtist. Þegar hún svo kemur ertu kominn með stefnuna og þann tíma sem líður á milli þess að fiskurinn tekur uppi, þú ert mögulega með einn í sigtinu. Hinkraðu aðeins, láttu síðan vaða á þann stað sem þér þykir líklegastur til að vera númer þrjú í röðinni. Silungur er ótrúlega reglufastur og mestar líkur eru á að hann haldi ákveðnum ritma í uppitökum, meira að segja þótt hann nái ekki æti í hverri töku.

  Eitt að lokum um gárur; stærð þeirra segir okkur ekkert til um stærð fisksins sem kom henni af stað. Hraðsyndur, lítill  fiskur gárar meira en hægur boltafiskur.  Kannast einhver við að eltast við orsakavaldinn að ‚stóru‘ gárunni og sitja svo uppi með galsafullan titt?

  Dýpið

  Samkvæmt einhverri elstu reglu veiðimanna, þá veiðist annað hvort niðri við botn eða uppi við yfirborðið, en þar á milli nánast ekki neitt. Þetta stenst að mestu leiti, mismunandi þó eftir árstíma. Á kaldari árstímum veiðist oft betur niðri við botn heldur en við yfirborðið. Það verður þó að viðurkennast að mikill meirihluti fiska veiðist nær yfirborðinu heldur en botninum. Fiskur sem er að rótast í æti á botninum er mun líklegri til að rísa upp eftir flugu heldur en sökkva sér niður eftir púpu á botninum. Sjálfur hef ég staðið mig að því að veiða í ‚dauða hafinu‘ á milli botns og yfirborðs og það getur alveg verið raunhæf leið. Setjum dæmi sem svo upp að ég kasti straumflugu vel út fyrir kantinn fyrir framan mig og láti hana síðan synda inn að kantinum beint í trýnið á fiskinum sem liggur þar í skjóli. Þetta á sérstaklega við þegar veitt er á móti vindi (Kort – K). Aldan ber nefnilega með sér ýmislegt æti og rótar upp ýmsu góðgæti á mörkum kants og grynninga. Ég þori að veðja hatt mínum og staf um það að silungurinn snýr trýninu á móti vindátt ef svo ber undir, þaðan berst jú ætið og við reynum alltaf að staðsetja fluguna fyrir fram silunginn.

  ‘Dauða hafið’ á milli botnsins og yfirborðsins

  Bakkarnir

  Allt of oft vöðum við yfir fiskinn. Það er í eðli silungsins að tryggja sér öryggi, en þó aldrei langt frá fæðunni. Til þess eru vatnsbakkarnir tilvalinn staður ásamt hallanum niður að dýpinu, kantinum. Temdu þér að byrja veiðina frá bakkanum til beggja hliða (Kort – D). Á þessum tímapunkti er ekki úr vegi, án þess að glata athyglinni af veiðunum sjálfum, að skyggnast aðeins um og kortleggja landslagið á botninum. Leitaðu að kantinum, nesjum sem standa út í vatnið undir yfirborðinu og flötum aflíðandi botni sem endar í dýpinu. Þetta gætu allt orðið staðirnir sem þú prófar eftir að hafa veitt undir og meðfram bökkunum.

  Til að veiða meðfram kantinum þarf oft að vaða út í vatnið, ekki langt en samt liggur leiðin oft yfir eitt gjöfulasta veiðisvæðið, grynningarnar.  Ekki vaða strax af stað, kannaðu grynningarnar fyrst og vertu viss um að þú hafi í það minnsta reynt við bleikjuna sem liggur þar. Framundan grynningunum er kanturinn þar sem fiskurinn liggur oft í skjóli, kroppandi bobba eða bíðandi færis að renna sér upp á grynningarnar til að úða í sig sílum og smádýrum. Til að spilla ekki þessari hegðun fisksins er auðvitað gott leyfa þessum stöðum að vera ósnertum, í það minnsta til að byrja með. En þegar kemur að því að færa sig út að hallanum hef ég leyft mér, þar sem botninn bíður upp á það, að róta örlítið til með fætinum þannig að ég gruggi botnsetið aðeins. Í botnsetinu leynast ýmsar pöddur sem silunginum þykja góðar og berist þær með léttum straumi eða vindi fram af grynningunum eða til hliðar, þá er takmarkinu náð því oft gefur fiskurinn sig þegar ætið fer af stað og kemur fram úr örygginu sínu.  En, gerðu þetta varlega. Rask í steinum eða marr undan vöðuskóm í möl berst fjórfalt betur í vatni en lofti og fiskurinn styggist auðveldlega. Vaddu varlega.

  Grasið er grænna…

  hinum megin. Þannig hugsar maðurinn og þannig hugsar fiskurinn líka. Komdu þér fyrir á nesi á milli tveggja víka (Kort – E) og veiddu í geira út frá tánni. Það vill þannig til að þegar fiskur fer fyrir nes á milli tveggja víka fer hann oft nær landi en hann gerir að öllu jöfnu. Nær landi þýðir að hann rís hærra í vatninu og kemur þá betur auga á bráðina, fluguna okkar. En hvað er þetta með græna grasið? Jú, fiskur í einni vík flakkar yfir í þá næstu því grasið er grænna hinum megin og kannski er meira æti þar. Já einmitt, víkurnar og grynningarnar upp af dýpinu eru oft gjöfular (Kort – F). Fiskurinn veit það alveg eins vel og við að þar eru oft bestu skilyrðin fyrir smádýrin.  Svo virka víkurnar líka vel sem trekt fyrir smádýr sem berast undan vindi eða straumi, hlaðborð. Sama má svo sem segja um eyjur eða boða sem mætast í vatninu, röstin á milli þeirra er oft einstaklega gjöful vegna smáfiska og dýra sem safnast þar saman (Kort – G).

  Lygnumörk

  Lygnumörk eru þau svæði þar sem lygna og alda mætast á vötnum. Oft þarf ekki meira en örlítinn bakka eða klett til að mynda lygnu undan vindi (Kort – H). Þessi svæði nýtir silungurinn sér óspart. En, nei hann leggst ekki í lygnuna heldur notar hann sér öryggið sem felst í öldunni, liggur þar fyrir og bíður ætis sem berst fyrir vindi. Mörgum veiðimanni hefur gefist vel að kasta flugu, þurr- eða votflugu út á gáruna og leyfa henni að berast inn á lygnuna inn í sjónsvið fisksins. Og gleymið ekki, oft fiskast meira nær þér en fjær.

  Lækir og ár

  E.t.v. finnst einhverjum það einkennilegt að ræða um læki og ár í grein um vatnaveiði. En það er nú þannig að lækir og ár sem renna í vatnið bera með sér ýmsa fæðu fyrir fiskinn og auka súrefnisinnihald þess.  Það er því engin furða að fiskurinn leitar á þá staði sem þeir falla í vatnið (Kort – I). Hann snýr gjarnan trýninu upp í strauminn og étur sig beinlínis í gegnum hann. Kastaðu í strauminn og leyfðu flugunni að fljóta með honum út á vatnið, beint fyrir fiskinn.  Svipaða sögu má segja um afrennsli vatns, þar safnast oft saman gnægð smádýra og fiskurinn á það til að bregða sér út í ánna eða lækinn til að krækja sér í auðvelda bráð.

  Uppsprettur og kaldavermsl laða einnig að sér smádýr.  Hafðu þetta í huga þegar þú skannar botninn, hrúgur af smágerðu grjóti eða áberandi ljósgrænn litur gróðurs á litlum bletti geta bent til uppsprettu þar sem fiskur leynist í grennd.

  Köstin

  Í straumvatni er líklegast að um 90% allra fiska veiðist á 8-12 m færi. Þetta á við vatnaveiði líka, en meira þarf stundum til. Þegar enginn fiskur gerir vart við sig og þú ert búin að skrapa allan botn í 12 m radíus í kringum þig með þungum girnilegum púpum og ekkert gerist þá er gott að ráða við 20+ m kast.  Prófaðu köst með straumflugu eða púpu eins langt og þér er unnt og leyfðu flugunni að sökkva vel (Kort – J). Það er aldrei að vita hverjir leynast þarna úti.  Og nú fæ ég væntanlega nokkra hreintrúarmenn upp á móti mér þegar ég segi að það er ýmislegt líkt með straumfluguveiði og spúnaveið.  Gott 20+ m kast út í dýpið með þungri skrautlegri straumflugu dregur oft að mér fisk sem ég annars næði ekki til, ekki ósvipað og gert er með glitrandi spinner sem leyft er að sökkva vel áður en hann er dreginn inn með rykkjum upp með kantinum. Ég viðurkenni það fúslega að þessa aðferð nota ég helst á móti öldunni eins og áður segir.  Samt er ég ekki frá því að þetta gefist bara nokkuð vel þegar heitt er í veðri og fiskurinn hefur fært sig utar í kalt vatnið, ég næ að lokka hann nær.

  Annað mælir með getu til lengri kasta og það er einmitt eiginleiki vatna (undir bestu kringumstæðum) til að vera spegilslétt og kyrr.  Undir þessum kringumstæðum getur fiskurinn verið einstaklega styggur og erfitt að nálgast hann. Þá kemur sér vel að geta kastað fyrir hann úr nokkurri fjarlægð án þess að raska yfirborði vatnsins of mikið.

  Gömul tugga, en aldrei of oft tuggin, æfðu köstin, æfðu köstin, æfðu köstin og náðu að leggja fluguna þannig fyrir fiskinn að hann hræðist hana ekki eða beinlínis kafni úr hlátri.

  Að veiða fram í rauðan dauðann…

  Ekki dvelja of lengi á hverjum stað.  Jafnvel þótt þú hafi náð þér í pottþéttar leiðbeiningar um besta staðinn í vatninu, þá geta allir staðir brugðist. Ef ekkert gerist, ekkert lífsmark og engar tökur, þá er kominn tími á breytingar.  Gott er að:

  • færa sig aðeins um set
  • veiða dýpra
  • nær bakkanum
  • í kantinum
  • draga með breyttri aðferð

  Þú getur alltaf komið aftur á ‚besta‘ staðinn ef ekkert gefur annars staðar. Umfram allt, breyttu til.

  En svo eru auðvitað til undantekningar eins og konan mín sem heldur oft kyrru fyrir á sama nesinu svo tímunum skiptir og tínir upp hvern fiskinn á fætur öðrum (alltaf með Black Ghost) á meðan ég geng mig upp að hnjám hringinn í kringum vatnið, skipti reglulega um flugu og inndrátt en er ekki hálfdrættingur á við hana. Já, munið eftir ‚einu reglunni‘.

  Konan mín segir einfaldlega að fiskurinn komi fyrr eða síðar. Á meðan geti hún bara æft köstin og spáð í náttúruna. Þolinmæðin er líka dyggð í vatnaveiði, sé staðurinn réttur, veðrið ákjósanlegt og rétta flugan á, getur tímasetningin einfaldlega verið röng.  Þá er tvennt í boði, breyttu til eða bíddu róleg(ur) þar til næsti urriði tekur við óðalinu eða næsti bleikjuflokkur fer framhjá.

  Öfgafullt grúsk

  Jafnvel þótt skrifaðar hafa verið margar góðar bækur um fluguveiðar, þá eru það alltaf þær fyrstu sem skipa sérstöðu í safninu. Það er þekkt að fyrstu heimildir á riti um fluguveiðar eru alveg frá því um árið 200 e.Kr. en elstu heimildir um fluguveiðar sem tómstundaiðju / sport er að finna í ‘Book of St.Albans’ frá árinu 1496. Í þessari bók er að finna merkilega ritgerð abbadísarinnar Juliana Berners frá Sopwell í Hertfordskíri á Englandi þar sem hún lýsir veiðum með öngli. Á frummálinu heitir ritgerðin ‘A Treatyse of Fysshynge Wyth an Angle’. Þeir sem treysta sér til að lesa frumtextan geta nálgast hann hérna, ég læt mér nægja að birta hér mynd úr frumútgáfunni (til hægri). Þó ritgerðasafnið hafi ekki verið gefið út fyrr en árið 1496, þá benda heimildir til þess að ritgerðin hafi verið fullgerð árið 1425. Segið svo að fluguveiðar séu einhver ‘bóla’.

  Fyrir grúskara er nokkur ládeyða í heimildum næstu 150 árin eða svo. Þá ritaði Izaak Walton og gaf út bókina ‘The Complete Angler’ árið 1653. Rúmum 20 árum síðar bætti Charles Cotton einum kafla við bókina sem sérstaklega var tileinkaður fluguveiðum og þannig varð þessi bók helsta bíblía veiðimanna næstu 200 árin. Enn þann dag í dag má lesa sér nokkuð til um lifnaðarhætti fiska og fæðuvenjur í þessu merkilega riti sem má nálgast hér.

  Fyrir þá sem áhuga hafa á frekara efni má benda á fyrirtaks vef Internet Archive þar sem nálgast má óendanlegan fjölda bóka og annars efnis á rafrænu formi um ýmis málefni, eldri sem yngri. Allar bækur sem hlaða má niður eru runnar út á höfundarrétti og því er hér um löglegt niðurhal að ræða.