Flýtileiðir

Inndráttur

Lengd, tími og hraði geta verið mjög matskenndar mælieiningar í hugum veiðimanna. Fæstir kannast við að vera lengi í veiði og sjaldnast kannast veiðimenn við að flýta sér of hægt, jafnvel þegar farið er um langan veg. Þegar við ræðum svo inndrátt, þá erum við fyrst að tala um matskennd viðmið. Það sem einum þykir hratt, þykir öðrum hægt eða miðlungs. Veiðimenn lýsa oft inndrætti sem hröðum og stuttum, löngum og hægum, miðlungs og hægum, og þar fram eftir götunum. Það er ekki furða að maður er stundum villtur þegar maður reynir að apa eftir einhverjum ráðagóðum veiðimanni, mitt hratt er kannski alls ekkert eins og hans hratt.

Inndráttur er samsettur úr fjórum þáttum; lengd og tíma sem gefa hraða og svo pásu á milli. Að gefa upp eina breytu úr þessu reikningsdæmi segir nánast ekkert.

Allt snýst þetta um að egna fisk til töku og leikur að þessum fjórum þáttum getur haft töluvert að segja. Að breyta einhverjum einum þætti stöku sinnum breytir inndrættinum oft nægjanlega til að hitta einmitt á það sem fiskinum fellur í geð það og það skiptið.

Til að halda þessu á einföldum nótum, nógu flókið á þetta samt eftir að verða, þá getum við skipt lengd inndráttar í þrjár staðlaðar einingar sem eru nær allar eins hjá veiðimönnum. Stuttur inndráttur gæti þá verið sá sem þú framkvæmir með því að hnykkja eða snúa upp á höndina (ekki hreyfa olnbogann neitt) og er u.þ.b. 8 – 10 cm  Miðlungs langur inndráttur gæti þá verið sá sem þú framkvæmir með því að draga línuna frá stönginni og langleiðina niður að mjöðm og er u.þ.b. 20 – 30 cm Langur inndráttur er þá sá þegar þú teygir höndina vel aftur fyrir mjöðm og getur því auðveldlega farið yfir hálfan metra.

Það má líka gera tilraun til að staðla þann tíma sem við eyðum í að toga í línuna. Miðlungs tími er t.d. sá tími sem það tekur þig að þylja í huganum; þúsundogeinn og jafngildir nánast 1 sekúndu. Allt undir miðlungs tíma er eins hratt og þú mögulega getur án þess að glutra línunni niður, m.ö.o. snöggt. Ef þú getur aftur á móti raulað fyrstu línuna í Eldgamla Ísafold á meðan þú dregur inn, þá erum við að tala um allt að 3 sek. og getum sagt að hann taki langan tíma. Mig langar reyndar að bæta hér við einni upphafslínu sem tekur u.þ.b. 8 sek. og er að mínu mati afskaplega langur tími, fyrstu línunni í Sofðu unga ástin mín.

Með því að setja þetta allt saman í eina töflu, þá fáum við út hraða sem er raunverulega mælanlegur, ekki lengur huglægur.

Augljóslega er minnsti hraði sá sem er stystur og tekur lengstan tíma ( 1.00 cm/sek ) og reynir verulega á þolinmæðina. Þessi hraði er stundum kallaður Æ, ég nenni þessu ekki. Hraðastur er sá sem er í gagnstæðu horni (120 cm/sek). Sá hraði er alls ekki á allra færi og útheimtir mikla tækni og jafnvel báðar hendur á línu.

Stuttur og snöggur inndráttur

Hér er sýndur inndráttur með snöggu togi sem gæti verið eitthvað í líkingu við 8 cm á innan við hálfri sekúndu sem gerir hraða upp á 16 cm/sek.

Enn einn þátturinn sem ræður inndrættinum okkar kemur fyrir í þessu myndbandi; pásan á milli. Oft á tíðum þarf einmitt þessa pásu til að gera inndráttinn eðilegan í augum fisksins. Pásan ræðst að mestu af því agni sem við erum að reyna að lýkja eftir.

Lengri og aðeins hægari inndráttur

Hér er s.k. Hand twist sýnt sem er rétt innan við 18 cm að lengd og tekur u.þ.b. tvær og hálfa sekúndu sem gerir hraða upp á 3.2 cm/sek. Vissulega mun hægari inndráttur.

Langur og hægur inndráttur

Í þessu myndbandi er dregið inn u.þ.b. 60 cm í hverju togi, hvert tog tekur rétt um tvær og hálfa sekúndu þannig að hraði inndráttar er u.þ.b. 20 cm/sek. sem merkilegt nokk, er meiri hraði heldur en stuttur og snöggur inndráttur.

Svo má ekki gleyma því að þessi lengd inndráttar er hreint ekki sú vegalengd sem flugan fer niðri í vatninu. Margar flugur hafa töluverðan skriðþunga og hætta ekkert að hreyfast um leið og þú hættir að toga. Þar við bætist að þyngdar flugur sökkva örlítið á milli þess sem þú togar og þegar þær sökkva, þá færast þær ósjálfrátt nær þér. Í fljótu bragði gæti þetta virst bara einhverjir örfáir sentímetrar, en einn sentímetri er t.d töluverð vegalengd fyrir flugu #16.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com