Flýtileiðir

Veiðistaðir

Ég efast um að ég gæti fundið jafn opna fyrirsögn á grein þótt ég reyndi. Á Íslandi eru nær óteljandi vötn og í flestum þeirra eru nokkrir ef ekki hundruð veiðistaða. Ef við bætum svo öllum lækjum og ám við, þá erum við komin með óteljandi veiðistaði. Meira að segja staðir sem ekki eru þekktir sem veiðistaðir gefa fisk var sagt við mig einu sinni. Auðvitað á maður nokkra uppáhalds veiðistaði í hverju vatni og eins einkennilegt sem það er, þá mætir maður þangað ítrekað ef maður hefur einu sinni gert þar góða veiði.

Upplýsingar um veiðistaði eru vísbendingar, í besta falli. Ef veiðimaður mætir á staðinn, er með forskrift og hnitin á hreinu, þá er ekkert víst að viðkomandi fái fisk, jafnvel þótt fiskurinn sé á staðnum. Að þessu leitinu til er það stundum óleikur að gefa einhverjum upp veiðistað eða merkja hann inn á kort eins og ég hef gert töluvert af hér á síðunni. Meira að segja bestu veiðistaðirnir eru ekki allra og ekki alltaf.

Álitlegur veiðistaður?

Það hafa nú komið hér fram nokkrar greinar um að kunna að lesa í náttúruna, það er eitt. En það er líka til eitthvað að lesa í veiðistað í vatni. Nú þori ég ekki að segja neitt um slíka staði í ám eða lækjum, þekki það ekki nægjanlega vel, en það er ákveðin eðlismunur á t.d. laxveiði og silungsveiði. Það liggur í eðli laxveiði að þekkja eða finna þá staði í ám þar sem laxinn staldrar við á leið sinni upp ána. Þetta er ritað með þeirri einföldu forsendu að vatn renni í ánni, sem ku hafa verið brögðótt síðastliðið sumar. Þegar staðurinn er fundinn segja kunnugir mér að þá taki pirringurinn við, þ.e. að pirra laxinn til töku. Hér ætla ég að láta staðar numið í fræðum laxveiði, en ég er enn að velta því fyrir mér hve pirrandi ánamaðkur getur verið í augum laxins. Þeir voru alveg nokkrir laxarnir sem komu á maðk hjá mér hér um árið sem í sjálfu sér er einkennilegt fyrst laxinn er sagður ekkert éta á leið sinn upp árnar.

En ég þekki það svo sem að pirra fisk til töku, meira að segja bleikju sem annars er sögð hin mesta rólyndisskeppna. Ég hef sagt það áður og segi það enn; bleikur Nobbler líkist engu æti sem er að finna í náttúrunni. En dragi maður slíkt kvikindi á hraða sem hæfir spretthörðustu laxaflugum, þá bregst það varla að bleikjan bregst við sem er ekkert einkennilegt, því bleikja er líka lax-fiskur. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er kannski ekkert svo stór munur á silungsveiði og laxveiði, maður verður bara að finna þessa skollans veiðistaði og nýta þá.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com