Segjum sem svo að við séum loksins komin aftur út að vatninu, rjómablíða og fiskurinn sýnir sig. Ég sé ekki betur en hann sé að eltast við hornsíli og hjartslátturinn eykst örlítið. Ég veit ekki með ykkur, en ég sé þetta svolítið fyrir mér á meðan ég skrifa þetta og ég spái í það hvort vorið sé ekki að fara að koma.
Hugrenningar mínar halda áfram og allt er eins og það á að vera, ég hnýti eftirlíkingu hornsílis í réttum lit á tauminn, næ að kasta út án þess að eyða of mörgum köstum í þessu fölsku, minnugur þess að flugur veiða ekkert á lofti. Ég tel niður frá 20 og tek síðan ákveðið í línuna, strippa inn, held áfram að strippa, strippa aðeins meira og þá er línan allt í einu búin. Og hvað? Ekkert. Ég endurtek leikinn og niðurstaðan er sú saman.
Nú værir rétt að hinkra aðeins við og lesa málsgreinina hér að ofan aftur. Ég lét sökkva, tékk. Kannski hefði ég mátt láta sökkva aðeins lengur eða aðeins skemur. Ég tók ákveðið í línuna, tékk. Ég hef það eftir miklum urriðasnillingi að maður verður að láta fluguna taka á sprett. Ég strippaði, tékk. Hornsíli hreyfa sig nokkuð ákveðið og því ………
Jæja, það eru mestar líkur á því að ég hafi fallið í þessa endalausu gryfju sem veiðimenn falla oftast í, ég breytti ekkert til í inndrættinum, tók alltaf jafn mikið inn af línu á sama hraða og var ekki með neina pásu á milli. Ég hefði alveg eins getað skilið vöðluskóna mína eftir á bakkanum og látið þá um inndráttinn. Ég sem sagt varð þessi leiðinlegi veiðimaður sem breytti ekkert út af vananum og fiskurinn glápir á fluguna mína og veit bara alls ekkert hvað er þarna á ferðinni, svona hagar ekkert hornsíli sér.
Mér hefði verið nær að muna eftir hinni heilögu þrenningu; lengd, hraða og pásu. Hefði ég nú brotið inndráttinn upp með því að taka aðeins minna inn af línunni annað slagið þá hefði hornsílið mitt ekki verið með cruise control stilltan á 10 sm/sek. og spænt eins og brjálæðingur í gegnum vatnið. Svo hefði ég líka getað dregið aðeins hægar inn stöku sinnum, mér er sagt að hornsíli syndi ekki alltaf á sama hraða. En hvað með pásuna?
Jú, vitaskuld verða hornsíli þreytt og þurfa að hvíla sig, ég hefði getað sett pásu þarna inn í ferilinn annað slagið. Kannski fiskurinn hefði þá brugðist við þessu örþreytta hornsíli. Ef, ef og ef. Þessi fyrsta hugrenninga veiðiferð ársins gekk kannski ekki eins og best varð á kosið, ég set hana bara í reynslubankann og rifja hana upp ef hún raungerist.
Senda ábendingu