Alltaf rekur maður augun í eitthvað nýtt. Um daginn sá ég málshátt sem hljóðaði svona; Ef hundur yrði bænheyrður myndi rigna beinum. Ég var nú reyndar ekki að leita að málsháttum sem tengdust hundum, heldur rigningu, en mér varð í framhaldi hugsað til þess hverju myndi rigna ef veiðimaður yrði bænheyrður. Ég veit ekki hvað varð til þess, en það sótti á mig töluverður efi að gott væri ef bænir veiðimanna yrðu uppfylltar. Oftar en ekki hef ég orðið vitni að því að veiðimenn ákalli þann sem býr í neðra heldur en þann sem býr í efra og ekki víst að menn vilji þær bænir sínar alltaf uppfylltar.
Það sem er algengt í máli manna, eignast flest samheiti. Orðið rigning á sér 243 vensl á síðunni Íslenskt orðanet en sólskin á sér aðeins 87 vensl þannig að það gefur okkur vísbendingu að við tölum meira um rigningu heldur en sólskin, svona dags, daglega. Flest vensl orðsins rigning eru neikvæð, lýsa miklum hamförum og óáran, erfiðleikum og almennum leiðindum. Þetta neikvæða viðhorf hefur smitast allhressilega inn í stangveiðina sem að einhverju marki er skiljanlegt, en ekki að öllu.
Augnablikið rétt áður en byrjar að rigna er oft sérstaklega gjöfult. Hvort sem það er breyting á loftþrýstingi eða minnkandi birtuskilyrði þá leitar silungurinn oft ofar í vatnsbolinn rétt áður en rignir. Ég heyrði það eitt sinn frá mér eldri og reyndari veiðimanni að nú kemur hann í ætið. Þegar ég spurði hann út í þessi orð, þá svaraði hann því til að þegar rigninginn hefði skollið á, þá héldi fiskurinn sig til hlés og vildi því éta nægju sína áður en svo bæri undir. Ég skil það vel að fiskurinn fari á stjá þegar birtan þverr á undan rigningunni, þar á bak við eru sömu rök og veiði rétt fyrir og í ljósaskiptunum. Breyting á loftþrýstingi hefur vissulega áhrif á fisk og atferli hans. Lækkandi loftþrýstingur hvetur fisk til átu og hann verður hvatvísari við lækkandi loftþrýsting. Ég kannast mjög vel við þetta sjálfur, þ.e. á sjálfum mér, ég verð líka hvatvísari þegar lægð er yfir landinu og ef hún heldur lengi til, þá leggst ég líka fyrir, rétt eins og fiskurinn.
Að því leitinu fer það mér nokkuð vel að veiða rétt fyrir rigningarskúr og kannski örlítið lengur en það. Á sama tíma og fiskurinn sýnir af sér aukna hvatvísi og það geri ég líka. Ég hraða gjarnan inndrætti, skipti púpu út fyrir straumflugu og veiði til muna ofar í vatnsbolnum. Þetta hefur reynst mér vel, jafnvel vel inn í rigninguna og stend gjarnan af mér aðra veiðimenn við vatnið. Ef ég er sérstaklega heppinn, þá stend ég meira að segja af mér rigninguna og held áfram að veiða hratt og hvatvíslega alveg þangað til fyrstu menn mæta aftur við vatnið. Það fer nefnilega oft saman að þeir sem forðuðu sér í skjól, koma aftur þegar fiskurinn hefur róast eftir rigninguna. Þá slaka ég á, hef mig stundum alveg upp á þurrt og fæ mér kaffibolla, spái í litadýrðina hringinn í kringum mig og ef ég hef verið heppinn, þá tel ég fiskana sem liggja í netinu mínu. Að þessu leitinu til finnst mér rigningin góð.
Senda ábendingu