Flýtileiðir

Tenkara – Ameríska leiðin

Ég á svolítið erfitt með að skrifa um Amerískt Tenkara og það hvarflar að mér að þetta sé álíka gáfulegt eins og að ég mundi taka mig til og skrifa um Amerískan fótbolta. Amerískur fótbolti er náttúrulega ekki fótbolti heldur sambland af ruðningi og fótbolta, segi ég sem Evrópubúi. Það sama má segja um Amerískt Tenkara, ég hef takmarkaða þekkingu á þessu afbrigði, en þar kemur á móti að það er jú samsuða af Tenkara og þekktum fluguveiðiaðferðum frá Evrópu, segi ég aftur sem Evrópubúi.

Að öllu gamni slepptu, þá var Tenkara nánast óþekkt utan Japans allt fram til ársins 2009 þegar Daniel Galhardo stofnaði fyrirtækið Tenkara USA og tók til við að aðlaga aðferðina og búnaðinn að því sem hann taldi vestrænan markað móttækilegan fyrir. Svo vel tókst honum til að þeir sem tala um Tenkara í dag eru flestir að vísa til þess sem honum og fylgjendum hans tókst að markaðssetja sem er nokkuð fjarri Japönsku Tenkara.

Amerískar Tenkara stangir eru að öllu jöfnu töluvert lengri en þær Japönsku, algengast að þær séu 12 fet en finnast allt að 16 fetum. Stangirnar eru framleiddar úr sambærilegum efnum og flugustangir í dag, hátæknilegu trefjaplasti og eru yfirleitt telescopic eða samsettar með stálhólkum. Línan er að sama skapi yfirleitt framleidd úr fjölliðuplasti og er að jafnaði höfð 1.5 x stangarlengd + 4 feta taumaenda. Þó eru til ofnar línur, að vísu úr gerviefnum en áþekkar upprunalegu Japönsku línunum.

Tenkara USA stöng

Eftir því sem ég kemst næst eru Tenkara stangir ekki númeraðar eins og hefðbundnar flugustangir, þess í stað flokka framleiðendur þeirra þær í mjúkar, miðlungs og stífar eða eitthvað í þá áttina. Sumir hafa komið sér upp númerakerfi sem inniheldur upplýsingar um lengd og stífleika, en það er ekki samræmt milli framleiðenda. Talandi um stífleika, það getur verið svolítið vandasamt að landa fiski sem er t.d. 2 pund með Tenkara stöng og mér vitandi hafa veiðimenn einfaldlega brugðið á það ráð að handtaka bæði línu og fisk til að ljúka viðureigninni á sómasamlegan máta.

E.t.v. var það ákveðinn bræðingur sem kallaði á þennan mismunandi stífleika stanganna því upp úr 2015 fór að bera á því að veiðimenn prófuðu Euro Nymphing með Tenkara stöngum. Þyngri flugur kölluðu þá á stífari stangir, sérstaklega þegar menn fóru að nota allt upp í þrjár púpur á taumi með Tenkara stöng. Flestir framleiðendur hafa svarað þessum bræðingi með línum í mismunandi þyngdum og nú er svo komið að algengt er að veiðimenn eigi Tenkara línur í stærðum #2.5 #3.5 og #4.5. Þess ber að geta að hér er ekki um AFTM línuþyngdir að ræða sem kalla á mismunandi stangir, heldur má nota allar þessar línuþyngdir á sömu stöngina.

Þessi bræðingur sem orðið hefur á milli Tenkara og Euro Nymphing að viðbættri aukinni lengd stanganna hefur eiginlega orðið til þess að veiðimenn geta notað þær í vatnaveiði en hefðbundið Tenkara hentar hreint ekki til slíks. Það getur þó verið vandasamt að stilla dýpt flugunnar með Tenkara stöng með fastri línu og því hefur sést til veiðimanna sem bæta einum góðum tökuvara á línuna. Þá er nú lykilkostur Tenkara horfinn endanlega, þ.e. nándin og nákvæmnin sem fellst í því að vera beintengdur við nart fisksins.

Flestar þessara stanga eiga það sameiginlegt með upprunalegu Tenkara stöngunum að línan er fest í topp stangarinnar og línan líkist meira taum heldur en hefðbundinni flugulínu. Þó hefur það borið við að einn og einn framleiðandi selur línur sem eru áþekkar hefðbundinni L (level) flugulínu, lituð og það er undir hverjum og einum veiðimanni að velja lengdina því þær eru seldar á spólum sem klippa má niður í æskilega lengd. Þegar út í þessar L línur er komið þá eru veiðimenn farnir að kasta flugu með línu, svipað eins og um hefðbundna flugustöng væri að ræða og eru þá nærri hættir að veiða Tenkara, eiginlega komnir út í hreina og klára fluguveiði með græjum sem ekki eru hannaðar til þess en telja sér trú um að þeir séu að Euro Nympha, en um þann bræðing verður fjallað í öðrum greinum hér á síðunni.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com