Flýtileiðir

Tenkara – upprunalegt

Það er nú ekkert nýtt að eitthvað á samfélagsmiðlum verði hvati að því að ég setji eitthvað niður í grein sem ég hef verið að grúska í. Að þessu sinni voru það hugleiðingar veiðimanns um það hvort hann ætti að kaupa sér Tenkara stöng eða ekki. Að vísu þekki ég veiðimann sem á Tenkara stöng, en ég þykist vita að hún er ekki oft tekin fram og þá meira til gamans heldur en í alvöru.

Fyrir nokkrum árum síðan, gæti best trúað að þau séu orðin 10, þá var mér bent á Tenkara og ég varð mér úti um töluvert efni um þessa veiðiaðferð. Þetta grúsk mitt tengdist í raun ekki Tenkara sem slíku heldur s.k. North Country Spiders, veiðiflugum frá norður Englandi. En nú er ég kominn töluvert út fyrir efnið, í það minnsta svona til að byrja með.

Einfalda skýringin á Tenkara er væntanlega; Hefðbundin Japönsk fluguveiðiaðferð. En þegar þetta er skoðað nánar, þá er nú ýmislegt fleira sem hangir á spýtunni heldur en bara lína og agn. Þessi aðferð hefur verið að þróast í yfir 400 ár meðal almennings til að veiða í fjallalækjum og hafði í upphafi ekkert með sportveiði að gera. Þetta snérist hreint og klárt um að veiða sér til matar með einföldum og áhrifaríkum hætti. Það er til nóg af seinni tíma útskýringum á Tenkara í bókum og á netinu sem standast ekki skoðun og margt af því sem skrifað hefur verið er runnið undan rifjum framleiðenda nýtísku búnaðar sem er mjög fjarlægur upprunalegum búnaði og aðferð.

Tenkara stangir

Margur maðurinn hefur tekið stórt upp í sig og sagt Tenkara vera hreint bull sem á ekkert sameiginlegt með fluguveiði. Þetta er satt og rétt, að mestu leiti. Tenkara veiðimenn notuðu bæði lífræna sem ólífræna beitu, allt eftir aðstæðum. Rúmlega síðustu 100 árin hefur sú lífræna vikið fyrir einföldum og léttum flugum. Síðustu 100 árin á Tenkara því töluvert sameiginlegt með nútíma fluguveiði og er eiginlega sú aðferð sem kemst næst því sem Dame Juliana Berners lýsti á sínum tíma (árið 1496) sem fluguveiði í A Treatyse of Fysshynge wyth an Angle.

Útbúnaður Tenkara er afar einfaldur. Sérlega létt stöng sem gjarnan er samsett úr tveimur eða fleiri bambuspörtum þannig að auðveldara sé að ferðast með hana. Lengd stangarinnar getur verið allt frá 6 fetum og upp í tæp 9 fet. Það er algengur misskilningur að Tenkara stöng sé allt að 14 fetum og á væntanlega rætur að rekja til þess þegar nútímastangir voru hannaðar til að ráða samhliða við Tenkara veiði og þyngdar nútíma púpur (Euro Nymphing). Í topp stangarinnar er fest nokkuð sver en stutt ofin lína sem kallast lilian. Á enda hennar er hnýttur einfaldur hnútur sem virkar eins og stoppari þegar hin eiginlega lína er lykkjuð utan um hana ofan við hnútinn.

Rétt eins og misskilningurinn um lengd Tenkara stanga, þá er sambærilegur misskilningur í gangi varðandi lengd línunnar og hann á sér trúlega sama uppruna. Lengd línunnar, sem er ofin úr hrosshári, er yfirleitt rétt innan við lengd stangarinnar. Framan á línuna er hnýttur grennri taumur, u.þ.b. 1 fet og í hann agnið (flugan).

Japanskar Tenkara flugur

Það er í raun fátt hægt að segja um nútíma Japanskar Tenkara flugur, nema þá helst að oft eru þetta þekktar vestrænar votflugur, óþyngdar og líkjast fyrirmyndunum mjög að einu undanskildu, hringvöf þeirra eru látin vísa fram á við þannig að straumurinn í fjallalækjunum eigi auðveldara með að grípa þær og mynda þannig mótstöðu, toga í frekar grófan tauminn.

Fyrstu Tenkara flugurnar voru víst hreint ekki svona skrautlegar, frekar hnýttar af vanefnum fjallabúa úr því efni sem hendi var næst og það sem meira er, líktust í raun engu skordýri. Ástæða þess var afar einföld, þessir fjallalækir voru víst ekkert sérlega líflegir og lítið um skordýr þannig að fiskurinn einfaldlega tók allt sem sem mögulega gat verið ætt. Hver veiðimaður þurfti því ekkert að vera að skipta um flugur í tíma og ótíma, ein dugði og hver um sig átti sér sína flugu og veiddi aðeins á hana. Svo segir sagan í það minnsta og er góð og á ekki að gjalda sannleikans ef hann er annar.

En hvaðan kemur þá þessi misskilningur um hitt og þetta um Tenkara? Það skýrist vonandi í næstu viku þegar ég stikla á nokkru sem gerðist árið 2009. Kannski þó eitt að lokum, Tenkara sem næst sinni upprunalegu mynd er langt því frá útdautt, þó ekki sé aðferðin útbreidd í Japan. Trúlega eru fleiri Tékkar sem stunda Tenkara í dag heldur en Japanir því þar hrifust menn af einfaldleika Tenkara löngu áður en þeir fóru að fínpússa Czech Nymphing sem fjallað verður um síðar hér á vefnum.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com