Flýtileiðir

Ekki láta fjúka í þig

Einhvern daginn sem ég beið eftir að réttist úr veiðispánni s.l. sumar, rambaði ég inn á skemmtilega síðu með lítt þekktum málsháttum. Það kom vel á vondan þegar ég rakst á; Oft fýkur í menn sem gera veður útaf öllu.

Allt of oft vilja veiðimenn bíða af sér veðrið í veiði, en eins og alþekkt er, þá þarf maður yfirleitt ekki að bíða lengi eftir því að veðrið breytist hér á landi. Og jafnvel þótt það breytist ekki snarlega, þá er rétt að hafa það í huga að veðrið nær sáralítið niður í vatnið. Jú, vissulega kólnar vatnið eitthvað þegar rigningin lemur það og vindurinn ýfir upp yfirborðið, en sú bábilja að fiskurinn leggist niður á botn og hreyfi sig ekkert á ekki við rök að styðjast. Ef veiðimaður hættir að veiða í einhverju veðri, þ.e. veiðir ekkert þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, þá er nú trúlega meira við hann að sakast heldur en að fiskurinn sé ekki að taka.

Jafnvel í 1m ölduhæð er urriðinn í tökustuði, einfaldlega vegna þess að aldan rífur upp og sópar saman æti sem annars héldi sig til hlés eða væri svo dreift að það svarar ekki kostnaði að elta það yfir stærra svæði. Og það er ekki bara urriðinn sem kætist í öldunni, bleikjan kann alveg eins að meta hressilegt öldurót þar sem kennir ýmissa grasa í fæðu.

Það er algengur misskilningur að aldan herði á sér þegar hún nálgast land, því er raunar þveröfugt farið. Þegar dýpi minnkar þá rís aldan og hægir mjög mikið á sér. Þeir sem reynt hafa vita að ef flugu eða öðru agni er kastað út fyrir ölduna þá berst það mun hraðar að landi en þegar inn fyrir ölduna er komið. Það er því parturinn frá öldu og að landi þar sem fiskurinn kann einna best við sig, ekki bara vegna þess að vatnið hreyfist hægar heldur líka vegna þess að ætið sem aldan ber með sér (á miklum hraða utan af vatni) lendir eins og á vegg og þéttist um leið og fyrstu öldurnar rísa við landið, svo lekur ætið í rólegheitum upp að ströndinni og fiskurinn hefur nægan tíma til að úða í sig.

En hvað á þá veiðimaðurinn að gera sem nær ekki neinum fiski þegar aldan tekur að rísa? Jú, náðu agninu upp af botninum og veiddu það ofar í vatnsbolnum, skiptu langa tauminum eða sökklínunni út og hættu að nota botnlægar flugur. Færðu þig í léttari línu, intermediate til að skera yfirborðið og byrjaðu bara að draga strax inn, fæðan rótast mest upp að yfirborðinu og þar er fiskurinn.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com