Spennan var gífurlega, ég varð ær, sungu þeir Halli og Laddi um árið og það var alveg eins og þeir væru forspáir um urriðaviðureign mína síðast liðið sumar að Fjallabaki. Ég breyttist að vísu ekki í kind, en ég missti mig alveg og kúlið fauk út í veður og vind.
Ég hafði alveg tekið þetta eftir kúnstarinnar reglum frá töku og vel fram yfir miðja viðureign, þegar spennan bar mig ofuliði og ég fór að beyta allt of miklu afli á fiskinn sem var augljóslega sá stærsti sem ég hafði sett í yfir daginn. Ég man bara ekki alveg hvað það var sem gaf sig, annað en langlundargeð mitt, en það var annað hvort taumurinn eða krókurinn á flugunni. Hvort heldur sem var, þá fór fiskurinn eftir að ég hafði tekið of mikið á honum.

Þetta er svo sem ekkert óvanlegt þegar maður á í baráttu við urriða, það er eins og þeir viti að þeir hafi lotið í lægra haldi nema þeim takist að láta reyna á veiðimanninn með því að draga viðureigninga á langinn með því að þumbast við. Sumir taka upp á því að fara til vinstri, þá til hægri, út og að landi, allt í kross til að tefja tímann. Aðrir taka upp á því að þyngjast skyndilega um nokkur kíló (örlítið ýkt) og sökkva til botns og skjóta þar rótum.
Þegar þeir láta svona, ekki gefa kúlið eftir og ætla þér að taka fiskinn að landi á aflsmunum, það er allt eins líklegt að eitthvað annað gefi þá eftir sem var í góðu lagi þangað til. Andaðu með nefninu, haltu þínu striki og sýndu að þú ert meiri maður en fiskurinn.
Senda ábendingu