Taka sjóbbar ekki þurrflugu?

Hin síðari ár hef ég lítið farið í sjóbirting nema þá helst til að prófa einn og einn veiðistað og athuga hvort ég hafi eitthvað skipt um skoðun á því að láta niðurgöngufisk í friði. En á árum áður þótti það sjálfsögð björg að hausti að veiða spikfeitan urriða, hvort heldur staðbundinn fisk eða þann sem var að skila sér upp í árnar eftir sumardvöl í saltinu. Áður en einhver fer að missa sig, fussa og sveia og predika um veiða og sleppa, vernda birtinginn o.s.frv. þá skulum við hafa það á hreinu að á þessum tíma dagaði fiskur ekki uppi í frystikistum þorpsbúa og það var sá fiskur í ánni sem hún bar og það var nóg handa öllum. Veiðimenn þá, rétt eins og obbi veiðimanna í dag, voru ábyrgir og veiddu það eitt til matar sem fjölskyldan gat torgað. Veiða og sleppa var óþekkt, menn einfaldlega slepptu því að veiða ef fiskurinn var of smár eða lítið af honum.

Fyrir einhverjum árum síðan varð mér hugsað til þessa tíma og orðað það í framhjá hlaupi við ágætan veiðimann hvaða flugur hann notaði í sjóbirtinginn. Jú, ég fékk greið svör um lit og lögun ýmissa straumflugna en svo gerði ég mig sekan um eitt allsherjar bull sem setti allt samtalið í hnút. Bullið kom fram í spurningunni um það hvort birtingurinn tæki ekki þurrflugu rétt eins og annar urriði. Ég sleppi því alveg að lýsa viðbrögðum viðmælanda míns, en það var nokkuð ljóst að ég var á einhverjum stórkostlegum villigötum, ef ekki hraðbraut til helvítis; Sjóbirtingur tekur ekki þurrflugu! 

Seinna komast ég að því að þessi álitsgjafi minn hafði hreint ekki rétt fyrir sér, sjóbirtingur tekur þurrflugu ef hún er í boði. Það eru nokkrar kenningar uppi um það hvers vegna sjóbirtingur tekur þurrflugu rétt eftir að hann er kominn úr saltinu. Ein þeirra snýr að því að á meðan birtingurinn er í útvötnun, þ.e. að aðlaga sig ferskvatninu, þá sé fluga auðmelt miðað við margt annað æti og því sækir fiskurinn í hana. Önnur kenning sem ég heyrði snýr einfaldlega að því að ferskvatnið kveikir ákveðnar æskuminningar sjóbirtingsins þegar hann kemur til baka úr sjó. Sjóbirtingur er jú einfaldlega urriði sem eytt hefur fyrstu tveimur til fimm árum ævi sinnar í ferskvatni og þar étur hann jú flugu þegar hún er á boðstólum.

Því miður virðist það vera sem svo að veiðimenn setji þurrfluguna allt of sjaldan undir þegar þeir eru í birtingi. Helst gerist þetta þegar ekkert hefur gefið, öll boxin prófuð og aðeins þurrfluguboxið eftir. Þær eru nokkrar sögurnar sem ég hef heyrt af slíkum tilfellum og margur maðurinn hefur gert glimrandi góða veiði í birtingi á þurrflugu, jafnvel í köldu veðri eða skoluðu vatni.

Eins og annað flugnaval veiðimanna, þá eru þurrflugurnar misjafnar sem veiðimenn mæla með. Sumir telja klassískar flugur úr ranni Wulff vera þær bestu á meðan aðrir leita í framandi froðuflugur með lappir í allar áttir. Aðrir hafa nefnt til sögunnar klassískar þurrflugur eins og Muddler, en væntanlega snýst þetta töluvert um tilfinningu veiðimanna fyrir því sem gefur, trú þeirra á flugunni.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.