Allt frá því kúluhausar í yfirþyngd komu fram á sjónarsviðið, þá hefur maður ekkert endilega viljað snerta mikið á þungum taumum, kúlurnar hafa eiginlega séð um að koma flugunni niður fyrir mann. En með tíð og tíma hafa farið að renna á mann tvær, ef ekki þrjár grímur og maður fer að velta fyrir sér hvort þungar púpur séu endilega rétta svarið. Ég hef ekkert endilega komist að ákveðinni niðurstöðu um þetta, en það er ýmislegt sem ég hef velt fyrir mér um kosti og galla þyngri flugna.
Eigum við ekki að byrja á því augljósa; þungar flugur eiga stundum erfitt með að hefja sig til flugs. Þó randaflugan sé sögð brjóta öll lögmál loftfræðinnar, á hreint og beint ekki að gera flogið með þennan bústna, loðna búk og litlu vængi, þá ná önnur lögmál yfir þungar flugur sem við framleiðum. Við beitum tækjum og tólum til að láta fluguna fljúga, hnýtum hana á taum sem tengdur er línu sem fær afl sitt úr stönginni sem við höldum á. Þannig komum við, með mis miklu átaki, þungum flugum út á vatnið þar sem þær sökkva. Auðvitað er þetta svolítið ýkt, það þarf sjaldnast mjög mikið afl til að koma þyngdri púpu út á vatnið. En þegar í vatnið er komið, þá tekur annað lögmál við. Hreyfing þungrar flugu er stirðbusalegri heldur en léttrar flugu, það gefur augaleið. Jafnvel þótt flugan sé tengd við flotlínu, þá er eigin þyngd hennar alltaf sú sama og sú þyngd dregur úr hreyfanleika hennar.

Ef við setjum okkur í spor fisksins, þá horfir hann á skordýr sem svamlar um eða rís upp að yfirborðinu nokkuð átakalaust, svona yfirleitt. Mikið af þessum skordýrum sem hann á að venjast að séu á ferðinni, hafa safnað í smá loftbólu til að hjálpa sér við að rísa upp að yfirborðinu og þar af leiðandi er hreyfing dýrsins létt og leikandi, ekki þung og silaleg. Einfaldasta lausnin á þessum stirðbusahætti þungu flugunnar er að hafa hana léttari og hnýta hana á léttan taumaenda sem festur er á þungan eða þyngdan taum. Þetta er í raun þrautreynd aðferð sem fluguveiðimenn masteruðu hér á árum áður, áður en ofurþyngdar púpur tóku völdin, þ.e. að veiða með þungum taum eða taum sem hefur verið þyngdur með s.k. höglum til að koma honum niður. 10 – 20 sm taumaendi á slíkum taum nægir oftast til að leyfa flugunni að líða fram og til baka, upp og niður, létt og áreynslulaust.
Þessar vangaveltur mínar eiga kannski helst við í vatnaveiði þar sem straumur er hvorki til trafala eða aðstoðar við hreyfingu púpunnar. Eftir sem áður eru þyngdar púpur eflaust besti kosturinn til að koma flugunni niður, fljótt og örugglega fyrir fiskinn í rennandi vatni.
Senda ábendingu