Ég heyrði það út undan mér að Veðurstofa Íslands telur september til sumarmánaða og ég sé ekkert sem réttlætir það að hirða einhverja bandbreidd af internetinu til að fá þetta staðfest. Ástæðan er afar einföld, ég er hjartanlega sammála VÍ.
Sá september sem kvaddi okkur í ár var reyndar með afbrigðum mildur, víðast hvar, framan af, svona að mestu leiti. Hann kvaddi okkur reyndar með hvelli, en heilt yfir var hann hlýr og mildur, víða mun betri heldur en aðrir mánuðir sumars. Þrátt fyrir milt veðurfar, þá eiga ákveðnar breytingar sér stað í náttúrunni í september sem veiðimenn verða að taka mark á. Líftími gróðurs fer þverrandi þegar líður á mánuðinn og þar með lífríkis í heild sinni og þessu verða veiðimenn að taka mark á.
Sá september sem blasti við okkur á láglendinu var reyndar örlítið fyrr á ferðinni en dagatalið sagði til um uppi á hálendi, ætli hann hafi ekki byrjað í síðustu viku ágúst þegar ég skrapp dagsferð inn að Framvötnum á Landmannaafrétti. Þó það stæði ágúst á almanakinu og sól skein í heiði, hitastigið vel yfir 10°C og logn að mestu, þá var kominn september í lífríkið. Næturnar hafa væntanlega verið orðið töluvert svalari og það tók lengri tíma fyrir vatnið að vakna. Flugurnar fóru ekki á stjá fyrr en vel upp úr hádegi, stöldruðu stutt við, kláruðu sitt og fóru væntanlega inn á veiðilendurnar miklu skömmu síðar.
Ef ég hefði verið á ferðinni í, segjum júlí eða byrjun ágúst, þá hefði fiskur verið að vaka um allt vatn að grípa ný klakið æti með látum. Varla nokkur uppitaka, ekkert líf að sjá, en þekkjandi vatnið sem ég stóð við var ég alveg öruggur á því að þarna var fiskur og sá fiskur var að borða. Í eðlilegu ári eru aðeins tvö tímabil sem fiskur étur nær ekkert; þegar hægist á meltingunni yfir köldustu mánuðina og þegar hann vinnur í fjölgun stofnsins. Allan annan tíma er hann á sífeldu narti, étur allt sem fyrir hann kemur eða hann finnur á rápi. En hvar var hann þá að éta og hvað?
Þar sem umrætt vatn var setið urriða voru ákveðnar líkur á að hann væri einhvers staðar við yfirborðið eða ekki langt þar frá. Stundum er talað um að fengsælustu svæði hvers vatns séu við botninn og á efstu 50 sm vatnsbolsins. Það er mín reynsla að svæðið við yfirborðið dýpkar nokkuð síðla sumars, seinnipart ágúst og í september og nær þá allt að 1 metra niður í vatnið og að þessari breytingu hef ég aðlagað mig. Aðlögunin þarf alls ekki að fara fram með breyttu flugnavali, mögulega stærð flugna, en heilt yfir er það mín upplifun að þær flugur sem hafa gefið á miðju sumri, þær virka alveg eins vel að hausti. Það er óþarfi að fara í einhverjar stórkostlegar sviptingar í flugnavali, sköpulag ætis er nær alltaf það sama, ef það er á annað borð til staðar. Hér set ég strax smá hnykk á yfirlýsingar um flugnaval; hafðu reynslubolta í farteskinu sem er með lengra skotti sem dillar sér meira eða með örlítið meira bling í væng eða á búk. Að öðru leiti má flugan vera þekkt og alveg eins og sú sem veiddi fisk á miðju sumri.

En aftur að þessari veiðiferð. Ég veiði gjarnan á intermediate línu, hún hentar mér vel og þeirri veiði sem ég stunda óháð tíma árs og því sá ég enga ástæðu til að breyta út af vananum. Ég aftur á móti leyfði línunni að sökkva nær 1 metra í vatnið heldur en 50 sm áður en ég hóf inndrátt, einfaldlega vegna þess að ég sá ekkert líf rétt undir yfirborðinu þó það væru langlappa hrossaflugur að koma upp, taka flugið í skamma stund, hitta aðra flugu og dýfa síðan afturendanum örstutt í vatnsborðið. Þetta var mér vísbending um að fiskurinn væri ekki á eftir flugunni, sem reyndar kemur ekkert á óvart þegar litið er til stærðar fullvaxta flugu m.v. lirfu hennar. Þegar á boðstólum er bústinn vel innpökkuð lirfa eða langlappa mjóna, þá er valið ekki erfitt.
Flugurnar sem ég valdi voru áberandi og í björtum lit þar sem sól skein í heiði. Hvað þær hétu er reyndar aukaatriði, það var sköpulag þeirra og litasamsetning sem skiptir mestu máli. Í þessari veiðiferð voru það þrjár flugur sem stóðu upp úr, allar með svipuðu litarhafti og sumir kunna að segja að þær séu sömu ættar; Gullbrá, Gullið og persónuleg samsuða mín sem er lítið annað en krókur, gult craftfur og slatti af gylltu gliti. Umfram allt voru þessar flugur ekki þyngdar því ég vildi ekki leyfa þeim að ráð dýptinni og þær urðu að geta dillað sér óhindrað í vatninu og sem fyrst því þær höfðu ekki nema þennan eina metra til að leika sér á. Stærð flugnanna var í meðallagi, hefðbundinn votflugukrókur #10 lýsir stærðinni e.t.v. best.
Inndrátturinn var margbreytilegur og hann skipti mögulega mestu máli. Þar sem ég var tiltölulega snemma á ferðinni miðað við hitastig, þá byrjaði ég frekar rólega á minn mælikvarða og var strax í fiski. Um leið og sólin náði að hita yfirborð vatnsins að einhverju marki tóku lirfurnar við sér og það dró úr nartinu. Skipta um flugu? Nei, skerpa aðeins á inndrættinum, meiri hraða með stuttum pásum á milli og ég komst aftur í fisk. Drægi ský fyrir sólu, hægði ég aftur á inndrættinum en hélt mig við einhverja þessara þriggja flugna sem áður eru taldar. Ég sá ekki nokkra ástæðu til að breyta um flugufjölskyldu, þessar höfðu gefið og gáfu ef ég hafði vit á að færa fluguna til innan 1 metra frá yfirborðinu með því að hefja inndrátt fyrr eða bíða aðeins lengur og breyta um inndrátt.
Veiðifélagi minn þennan dag var heldur seinni til að ná fyrsta fiski heldur en ég og þar skipti staðarval ekki máli að mínu viti, því um leið og hann skipti í yfir í sömu flugufjölskyldu og ég hafði valið, þá fóru þeir líka að taka á þeim bænum. Á þeim tíma sem við eyddum við vatnið settum við samtals í 25 fiska sem sumir hverjir fengu að koma með okkur til byggða á meðan aðrir héldu áfram að njóta þess að gúffa í sig fyrir veturinn, fita sig því það er jú það sem fiskurinn gerir síðla sumars. Lærdómur sem ég þykist hafa haft út úr þessari ferð eins og fleiri síðsumarsferðum er einfaldlega sá að það þarf ekki að hoppa öfganna á milli í flugnavali þó sumri sé farið að halla, breyttu úr af eigin vana og stilltu þig inn á lífríkið og hvar fiskurinn heldur sig, þá ertu í ágætis málum.
Senda ábendingu