Ég hef um árabil verið að nota litlar straumflugur í stærð #10 og #12 með, að því ég tel, bara alveg ágætis árangri og mér þykir alltaf jafn gaman að nota gamlar klassískar votflugur sem eru hnýttar á svipaða stærð eða jafnvel minni.
Hér um árið gaf ég mér smá tíma til að horfa á veiðimann sem var að veiða með hefðbundinni straumflugu í stöðuvatni. Stærðin á flugunni var að því mér fannst umtalsverð og eftir á þykist ég sannfærður um að hún hafi verið hnýtt á legglangan krók #2. Ég var svo sem ekkert sérstaklega að velta mér upp úr stærðinni á flugunni, mér finnst hverjum manni frjálst að veiða á þá stærð á flugu sem hann kýs eða með hverju því agni sem hann kýs ef því er að skipta. Það sem ég var að velta fyrir mér á meðan ég fylgdist með þessum veiðimanni var aðferðin sem hann notaði við inndrátt og hvar hann lagði fluguna niður og hve lengi hann leyfði henni að sökkva og allt þar fram eftir götunum. Mér var fljótlega ljóst að hann veiddi þessa stóru straumflugu á nær alveg sama hátt og ég veiddi litla votflugu. Nú ætla ég ekkert að segja til um hvort hann gerði eitthvað rangt eða ég. Raunar getur alveg eins verið að báðir gerðum við eitthvað rétt, því það er ekkert rétt eða rangt í fluguveiði, svo lengi sem fiskurinn tekur.
Ég þykist vita að stór fluga virki á fisk sem loforð um meiri mat heldur en lítil en reglulega dúkka upp fréttir af betri veiði þar sem litlum (mjög litlum) flugum er beitt. Hvað er þetta með litlu flugurnar? Ég hef minna en ekkert vit á laxveiði á flugu, þannig að ég get ekki svarað neinum þar um. Silungurinn aftur á móti hefur alveg sýnt mér að hann getur verið hvefsinn í grunnu og tæru vatni, styggist við minnstu hreyfingu í vatninu og tekur hreint ekki stórar flugur, víkur sér meira segja gjarnan undan þeim. Þá er um að gera að prófa minni flugur.
Í mínu tilfelli er það þá yfirleitt votfluga eða lítil marabou fluga sem hnýtt er á stuttan krók #12 eða #14 og ég veiði hana eiginlega alveg nákvæmlega eins og ég væri með stærri straumflugu. Kosturinn við litla votflugu er að það er mun auðveldara að staðsetja hana, yfirleitt. Hún leggst gjarnan betur niður, jafnvel þar sem einhver straumur er, heldur en stór fluga og þegar fiskurinn er eitthvað stressaður þá er auðveldara að læðast að honum með lítilli flugu heldur en stórri.

Ef einhver skyldi vera velta því fyrir sér hvaða votflugu ég noti undir svona kringumstæðum, þá er það Watson‘s Fancy, til vara Watson‘s Fancy og ef allt bregst, þá Dentist hnýttur eins og votfluga með fjaðurvæng eða lítill Black Ghost með sömu formúlu. Sem sagt, þrjár uppáhalds litasamsetningarnar mínar í straum- og votflugum. Og bara þannig að það sé á hreinu, það er alveg hægt að hnýta þessar litasamsetningar í marabou flugum til að fá dillandi smáflugu í vatni.
Senda ábendingu