Enn eitt grundvallaratriðið sem er vert að tyggja enn og aftur, af gefinni reynslu. Trúlega eru algengustu mistök hvers veiðimanns þau sem ættu að halda honum á tánum, vera ofarlega í huga hans og hann ætti að gera allt sem í hans valdi stendur til að leiðrétta þau. Því miður, í mínu tilfelli, þá er því bara alls ekki þannig farið. Um leið og ég hef endurtekið mistökin, þá eru þau gleymd og ég get alveg eins endurtekið þau, strax við næstu töku.
Þegar ég er ekki á tánum, með hugann á reiki eða augun á glápi út í buskann, þá tekur hann. Það er í það minnsta þannig sem ég útskýri fyrir sjálfum mér allar þær tökur sem ég missi af eða bregst allt of seint við.

Á veiðislóð, þar sem von er á fiski, þá er um að gera að vera með hugann við það að fiskur gæti tekið, hvenær sem er. Ég tel sjálfum mér trú um að það sé allt í lagi að vera með augun á umhverfinu, skima eftir fiski, álitlegum stöðum eða vísbendingu um æti sem fiskurinn gæti haft áhuga á. En þetta nær aðeins ákveðið langt, þegar fyrsta nart gerir vart við sig eða ákveðin taka, þá ætti maður samt sem áður að vera tilbúinn að meta aðstæður; hvar lagði er fluguna niður, hvernig var ég að draga inn, á hvaða dýpi var flugan o.s.frv. Því miður er því þannig farið með mig að þegar ég hugsa baka, þá er ég hreint ekki með svör við neinu af þessu og ég verð að byrja allt ferlið upp á nýtt. Leggja fluguna niður á mismunandi staði, draga inn með mismunandi hraða eða aðferð o.s.frv.
Það getur verið dýrkeypt að vera ekki á tánum, trúið mér.
Senda ábendingu