Flugur veiða, það er ekki nokkur spurning, en til þess að þær veiði þá þurfa þær að vera á eða neðan yfirborðs vatnsins. Þessar sem eru á sífelldu sveimi í loftinu veiða sáralítið, nánast ekki neitt. Þessu lauma ég hér inn til að stoppa besservisserinn sem varð hugsað til myndanna af fiski taka flugu á lofti. Vissulega mikilfenglegt að sjá slíkt, en afar sjaldgæft.
Þegar vötnin okkar koma undan ís er ekki alltaf á vísan að róa hvar fiskurinn heldur sig eða er aðgengilegur og því þurfa veiðimenn stundum að hafa svolítið fyrir því að finna hann. Þá er stundum gott að vera vel skóaður og nenna að hreyfa sig úr stað og hafa nokkur smáatriði í huga.
Eitt það fyrsta er það sem ég tæpti á í inngangi þessa pistils, leyfa flugunni að veiða en ekki eyða tíma hennar í að svífa um í endalausum falsköstum. Veiðanlegur hluti dagsins er ekkert rosalega langur í upphafi tímabilsins og óþarfi að eyða stærstum hluta hans með fluguna á lofti, hún veiðir ekkert þar. Ef þú átt í vandræðum með að koma línunni út, athugaðu þá fyrst hvort þú hafir gleymt að þrífa hana áður en þú lagðir hana til svefns síðasta haust. Og fyrst þú ert að tékka á henni, athugaðu hvort það séu einhverjar sprungur í kápunni, brot eða beyglur sem hægja á henni í rennslinu. Ef allt virðist vera í lagi, athugaðu þá með að fá smá leiðsögn kastkennara, bara svona til vonar og vara ef köstin þín hafi vaknað eitthvað illa upp af vetrarblundinum.

Svo er náttúrulega betra að vera með réttu fluguna. Ef þú finnur nú fisk og hann bara sýnir enga viðleitni til að taka hana, sama á hvaða dýpi þú veiðir eða hvaða inndrætti þú beitir, þá er alveg eins víst að þú sért að eyða tímanum í ranga flugu.
Þú þverskallast mögulega við og hugsar til síðasta hausts þegar þú tókst fisk, einmitt á þessum slóðum, einmitt á þessa flugu. Þetta er rétta flugan. Allt í góðu, þetta er rétta flugan en er hún í réttri stærð og af réttu sköpulagi? Síðasta haust varst þú að veiða alveg spá nýja kynslóð af pöddum sem voru í stærð #16 eða minni. Að vori hafa flest þessara kvikinda eytt vetrinum í að éta, stækkað og fitnað, jafnvel tekið einhverri myndbreytingu (úr púpu yfir í lirfu t.d.) og líkjast flugunni þinn frá því í haust ekkert mjög mikið. Brjóttu nú odd af oflæti þínu og ástríðu fyrir litlum flugum, stækkaðu uppáhaldið þitt um eina eða tvær stærðir og prófaðu aftur. Góða skemmtun.
Senda ábendingu