Flýtileiðir

Ekkert droll

Í einhvern tíma hef ég nefnt veiðimanninn sem kaupir leyfi, má byrja á ákveðnum tíma og skal hætta á ákveðnum tíma og hann nýtir allan þennan tíma. Þessi gaur eða gella vaknar fyrir allar aldir, er búin(n) að taka sig til og allt dótið komið út í bíl áður en veiðifélagarnir hafa einu sinni látið renna á könnuna. Gott mál hjá honum eða henni, en ég er ekki þarna. Þetta þýðir samt ekki að ég sé eitthvað að drolla, ég byrja bara þegar mér sýnist og hætti þegar ég á að hætta.

Svo hef ég líka nefnt það að stundum tekur fiskurinn alveg upp í harða landi, rétt í þá mund þegar ég hætti inndrættinum (stoppa eitt augnablik) og lyfti stönginni til að taka fluguna upp úr vatninu. Og nú getur einhver spurt sig hvernig í ósköpunum sé hægt að tengja þessar tvær tilvitnanir saman í einni grein. Til að komast að því þarft þú að lesa áfram.

Þegar ég hef nú loksins lokið við 1 – 2 kaffibolla, morgunverð, jafnvel farið í annað skiptið á prívatið (kannski of miklar upplýsingar) og er með allt mitt klárt, þá legg ég af stað og mæti á veiðistað, ég er byrjaður að veiða. Þegar flugan er komin út í vatnið, þá tekur við ákveðinn taktur sem raunar er stundum erfitt að viðhalda vegna þess að úti í náttúrunni get ég verið með eindæmum kleyfhuga. Hvort er ég að veiða eða njóta þess sem fyrir augu ber? Eigum við ekki bara að segja að á meðan flugan er í vatninu og ég hef minnsta grun um að það sé fiskur á ferðinni, þá er ég að veiða. Þess á milli er ég að njóta, glápa og góna út í loftið og einfaldlega að vera til.

Minnugur þess að flugur veiða aðeins á meðan þær eru í vatninu, þá reyni ég að halda flugunni þar eins lengi / oft / mikið og mögulegt er. Ef mér sýnist svo, þá dreg ég hana stundum alveg að fótum mér, vitandi að fiskurinn tekur stundum miklu nær heldur en marga grunar. Í annan tíma hætti ég að draga inn þegar mér finnst að flugan sé lent í einskismannslandi eða eins og útlendingurinn segir, komin out of strike zone. Þá ég lyfti stönginni í næsta kast, jafnvel með töluvert af línunni úti, til hvers að hafa fluguna þar sem enginn fiskur er?

Það að taka upp verulega lengd af línu, sérstaklega ef hún er eitthvað þyngri heldur en flotlína, getur verið kúnst, en það lærist fljótlega. Það er alveg öruggt að þér lærist það aldrei ef þú prófar það ekki. Sumar samsetningar stangar og línu gera það að verkum að þetta er ekkert mál, aðrar stangir ráða lítið sem ekki við þetta og því verður maður einfaldlega að prófa sig áfram. Galdurinn er að lyfta stönginni með jafn stígandi átaki upp í efstu stöðu, taka í línuna og ná henni þannig í öftustu stöðu í einni samfellu. Og viti menn, við erum að nýta okkur akkerið sem vatnið hefur hengt í línuna, stöngin hleðst við upptökuna og er tilbúin í eitt framkast og þú getur skotið línunni út og hafið veiðina að nýju. Og hvað er maður að vinna með þessu? Jú, í stað þess drolla við að taka línuna upp, leggja hana að fótum þér í einhverju kuðli, þá nýtir þú vatnið til að hlaða stöngina, tekur upp og skýtur henni út í einu, ákveðnu framkasti og vonandi lendir hún einmitt þar sem þér fannst að fiskurinn nartaði í hana í síðasta inndrætti.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com