Ég veit ekki alveg hvað það er, kannski er það bara ég, en mér finnst veiðimenn vera duglegri að vori heldur en á miðju sumri að spyrja náungann á veiðistað hvernig gengur. Þegar líður á sumarið fækkar þessum spurningum, kannski telja veiðimenn þá eins víst að það gangi bara vel, flugur á sveimi og allt í gangi. Svo getur líka verið að spaugarinn sé oftar á ferðinni að vori, laumast niður að vatni án þess að vera með græjurnar með sér og nýtur þess bara að gera góðlátlegt grín að norpandi veiðimönnum í skítakulda og vosbúð og spyr því; Hvernig gengur þegar augljóst er að það er ekkert að gerast.
En satt er það, það getur gengið misjafnlega vel í veiðinni að vori og ástæðurnar geta verið ýmsar og misjafnar eftir aðstæðum. Heilt yfir, þá ætti fiskurinn að vera í þokkalega góðu tökustuði, ef hann er þá á annað borð kominn á ról. Það er reynsla mín að vök á vatni, jafnvel íslaust vatn að vori kveikir meira í veiðimönnum heldur en endilega fiskinum, svona rétt til að byrja með. En svo kemur að því að ætið fer á ról, verður meira á berandi og þá fer fiskurinn af stað.

Eitt er það sem hefur reynst mér ágætlega að vori er að veiða rauðar flugur, hvort sem það eru buzzerar, púpur eða straumflugur. Svo setur maður auðvitað fyrirvarann á þetta og segir; það sem maður notar oftast, það veiðir. Kannski er þetta bara til marks um hvað ég set oftast undir frekar en það sem fiskurinn endilega vill umfram eitthvað annað.
Sumir veiða eingöngu einlitar, daufar flugur að vori. Aðrir fara alveg í hina öfgana og beita eingöngu flugum sem þurfa nánast ekkert sólarljós til að glampa og glitra þannig að fiskurinn sjái þær örugglega, segja þeir. Ætli ég sé ekki þarna mitt á milli, hófstillt notkun á glitþræði og hotspot, en yfirleitt einlit fluga eða með skörpum litaskilum.
Senda ábendingu